“Í Laugarnesi voru fyrrum 3 hjáleigur. Hét ein þeirra Suðurkot og var niður hjá víkinni, um það bil sem nú er Afurðasalan.
Önnur hjáleigan hét Sjávarhólar, en var oftast kölluð Norðurkot. Stóð hún úti á Laugarnesstöngum, þar sem nú er braggahverfið. Nú sjást engar minjar þessara býla. Þriðja hjáleigan hét Barnhóll og stóð hjá samnefndum hóli fyrir ofan túnið í Laugarnesi.
Þegar íbúðarhúsið Hólar var reist, var það í Barnhólstúninu gamla. Þetta hús reistu þeir synir Bjarna heitins Jenssonar læknis, Jens bókhaldari og Ingólfur kaupmaður. Hefir Ingólfur skýrt mér svo frá, að þar sem húsið stendur hafi ekki verið nein gömul mannvirki. En vestar í lóðinni sem þeir fengu, og sunnan undir Barnhólnum, þar sem nú er kartöflugarður, voru gamlar húsarústir, og þegar farið var að stinga þær upp, varkomið niður á flórað gólf. Það var látið óhreyft, en mold úr rústunum sett þar yfir. Var þessi mold svo frjó, að ekki þurfti að bera í garðinn fyrstu árin. Er sennilegt að flóraða gólfið hafi verið úr fjósi og þar hafi gamall áburður verið bæði úti og inni, og blandast saman við moldina.
Barnhóll stendur enn óhaggaður í túni Hóla og geymist þar eitt af fáum örnefnum á þessum slóðum.”
Heimild:
-Lesbók Morgunblaðsins 18. september 1960, bls. 446.