Tag Archive for: Barnhús

Hækingsdalur

Örnefnið „Barnahús“ er til í íslenskum örnefnaskrám fyrrum. Fyrirbærið er áhugavert fyrir margra; ekki síst fyrir barna sakir.
Í Rauðasandshreppi er í örnefnalýsingu örnefnið skráð; „Barnahúslækur. Hann er frammi í Vík, rennur þar í Ána og kemur úr Hreiðurblagili. Þar höfðu krakkar byggt sér grjóthús“.


Í Örnefnalýsingu fyrir Hækingsdal segir: „Fyrir heiman Illugastakksnef og neðan Móa eru Tjarnir, en fyrir utan Illugastakksnef er Flóðamýri. Þegar Kinnarlækur kemur niður úr túni, breytir hann um nafn og heitir Flóðamýrarlækur. Engjarnar fyrir ofan hann næst túni eru Forir. Þar upp af er nokkuð gróinn grjótbali, er heitir Stekkjarbali. Þar var síðast hafður stekkur. Móðir Hannesar mundi eftir honum í bernsku sinni. Fyrir utan Forir eru Enni, þau eru tvö, sitt hvoru megin við Barnhús. Brattar brekkur og grasgefnar. Upp af þeim er Kýrgilsbali. Vestan við hann er Fjólubolli, sem er töluvert breiður og djúpur. Þar vex mikið af fjólu eða blágresi. Fyrir utan Enni er Lágamýri. Upp af henni er klapparhæð, er heitir Barnhús. Enga skýringu kann Hannes á því nafni. Þar var kofi.“


Í Örnefnalýsingu fyrir Flekkudal, Grjóteyri og Sand í Kjós segir; „Landamerki beggja jarðanna að norðanverðu liggja að Meðalfellsvatni. Að austan um Flekkudalsós, Stokkinn (efsta hluta óssins) um Kelduna suður í Barnhúsvörðu við rætur Sandsfjalls upp í Markagil í Markastein nyrst á Sandsfjalli. Þaðan liggja mörkin suður Sandsfjall um Esjuflóa í Esjuhorn, þaðan sem vötnum hallar í Hátind á Esju syðst upp af Norðurgröf á Kjalarnesi.

Flekkudalur

Flekkudalur.

Í „Fornleifaskráningu í Kjósarhreppi I“ segir m.a.: „“Merkin byrja við landsuðurhorn Meðalfellsvatns, í Flekkudalsós, upp úr honum í Barnhús, sem svo er kallað.
Frá því beint upp gilið, upp á Sandfellsbrún…,“ segir í örnefnaskrá Flekkudals. „Landamerki beggja jarðanna að norðanverðu liggja að Meðalfellsvatni. Að austan um Flekkudalsós, Stokkinn (efsta hluta óssins) um Kelduna suður í Barnhúsvörðu …“ segir í örnefnaskrá Gjóteyrar og Flekkudals. „Barnhús: Hans getur sér þess til að nafnið sé af því dregið, að börn hafi þar verið geymd meðan fólk var á engjum. Langt var á engjar á Sandi og matur færður. Þar voru tóftir. Þess má geta, að í Hækingsdal er einnig til Barnhús, haft um klapparhæð, en á henni voru tóftir. Ekki kunni heimildamaður þar skýringar á nafninu, en framangreind skýring hefur ekki verið borin undir hann.“ segir í athugasemdum og viðbótum við örnefnaskrá Sands. Skv. lýsingum ætti Barnhús að hafa verið við enda keldunnar, sem er á merkjum milli Grjóteyrar og Sands, í fjallsrótum eða hugsanlega eitthvað ofar. Þetta er um 1,8 km VNV af bæjarhól. Mýri nær að fjallsrótum en svo tekur við brött en ágætlega gróin fjallshlíð. Girt er á merkjum hátt upp í fjall. Alls engar rústir eða vörðuleifar fundust á merkjum. Sennilegast er að Barnhús hafi verið alveg í fjallsrótum og þá vikið þegar keldan var grafin í skurð.“
Örnefnið, er þrátt fyrir allt, einstaklega áhugavert.

Heimildir:
-Örnefnastofnun, Vestur-Barðastrandasýsla Breiðavík, Rauðasandshreppur, Breiðavík, Trausti Ólafsson frá Breiðavík skráði.
-Örnefnalýsing fyrir Hækingsdal.
-Örnefnalýsing á Flekkudal og Grjóteyri.
-Fornleifaskráning í Kjósarhreppi I: Þorláksstaðir, Blönduholt, Þúfa, Þúfukot, Eyri, Eyrar-Uppkot, EyrarÚtkot, Útskálahamar, Kiðafell, Möðruvellir, Írafell, Bær, Meðalfell,
Meðalfellskot, Eyjar, Eyjahóll, Flekkudalur neðri, Sandur, Neðri-Háls, Hvammur og Hvammsvík. Reykjavík 2008.

Flekkudalur

Flekkudalur.