Færslur

Mosfell

Guðmundur Ólafsson, fornleifafræðingur, benti FERLIR á athyglisverðar mannvistarleifar á mosagrónum jökulsruðningsmel vestan í Skógarbringum, skammt austan Mosfells. Um er að ræða bátslaga (egglaga) hleðslur á melnum. Hann hafði fyrst skoðað þetta “fyrirbæri” á níunda áratug síðustu aldar.

Mosfell

Bátslag.

Lengd og breidd mannvirkisins var ekki mælt að þessu sinni, en innanmálið gæti verið 8×16 metrar.
Útlínur eru markaðar með svipuðum stærð af viðráðanlegum steinum, að öllu líkindum úr holtinu og/eða lækjarfarvegi, sem þar er skammt austar. U.þ.b. meter er milli steina að jafnaði. Grjótið er sokkið að 1/3 í smámalarjarðveginn. “Stefnið” snýr í vestur. Skuturinn hefur ekki “víkingaskipalag”, heldur mun frekar “nútímabátalag”.
Spurningin er – hversu gamalt gæti fyrirbærið verið? Er það mjög fornt, eins og sumir vilja ætla, eða er það tiltölulega nýlegt?
Hafa ber í huga að herinn var með umfangsmikla starfsemi á nálægum slóðum á stríðsárunum.
Hvað ætli þessi jafnlagða hleðsla að tákna? Í Svíþjóð og Danmörku eru hliðstæðir staðir þekktir frá víkingatímanum þar sem steinar hafa verið reistir í bátslaga líki. Hér liggja þeir á jörðu, miklu, miklu mun smærri. Ekki er að sjá nein ummerki um rót eða upphækkun í miðju verksins.
Hvenær gæti hleðslan hafa verið gerð? Líklega á síðustu öld. Einhverjir, sem skoðað hafa hana gætu andmælt og borið til vitnis aðrar meintar reglulegar hleðslur í holtinu, en engin þeirra er sannanlega af mannavöldum. Meira að segja regluleg steinaröð norðan þessa gæti annað hvort verið gerð í öðrum tilgangi, s.s. vegna leiðar, eða myndast þar af tilviljun.
Þegar umhverfið er skoðað koma í ljós myndarlegar grastorfur norðaustan og austan við steinauppröðunina. Af þeim má lesa hvernig landið leit út fyrrum; vel gróið og grænt (á sumrum). Víðir er að reyna á ný að teygja anga sína upp á við og lyngið er áberandi berjavænt. Þarna hafa því áður verið skjólsælar brekkur, enda ekki heitir Skógarbringur af engu. Hleðslan hefur því ekki verið gerð á grónu landinu því þá væri hún miklu mun óreglulegri. Þegar steini í henni er velt má sjá mosaleifar undir. Það bendir til nútímatilbúnings.
Hver gæti hafa búið þetta til? Í rauninni hver sem er, en þegar horft er á steinlagninguna frá austri til vesturs má sjá hversu formlega hún er gerð. Listamaður eða hugsuður á einhverju sviði gætu komið til greina. Hafa ber í huga að á holti ofan (sunnan) Þingvallavegar sunnan Stardals er fjárborgarlíki. Það á að tákna stað er ákvarðar “sólarmerki” milli Reykjavíkur, aðsetur hins fyrsta landnámsmanns, og hins fyrsta þingstaðar. Mannvirkið var hlaðið á seinni hluta 20. aldar af Tryggva Hansen, steinhleðslumanni. Í Þormóðsdal (heitir reyndar Seljadalur Innri) er hringlaga steinahleðsla lík þessari. Sumir hafa áætlað að þær væri Þormóðsleiði þess er getið er um í sögnum, en skv. þeim átti það að vera skammt sunnan bæjar. Það mun nú komið undir veginn upp í grjótnámurnar sunnan í Grímarsfelli.
Hvers vegna skyldi einhverjum hafa dottið í hug að búa þetta til þarna? Það er spurninginn, þ.e. hver, hvers vegna og í hvaða tilgangi.
Fróðlegt væri að fá upplýsingar um “listamanninn” sem og tilganginn fyrir framangreindri bátlagamyndalíkandlegri hleðslu á austanverðum mel Mosfells.
Ef einhver gæti búið yfir hinni minnstu vitneskju um “listaverkið” er hann vinsamlegast beðinn að hafa samband við ferlir@ferlir.is.

Heimild:
-Guðmundur Ólafsson.

Mosfell

Mosfell – bátslag.