Ekið var eftir slóða niður í Litlahraun og að Bergsendum, austast á Krýsuvíkurbjargi. “En það sólskin um mýrar og móa, merki vorsins um haga og tún, gróandi tún”.
Áður hafði verið ekið framhjá tóttum “Gvendarhellis (Gvendarstekks)” suðvestast í hrauninu.
Frá Bergsendum blasti neðsti hluti bergsins vestan Keflavíkur við. Gengið var eftir forna stígnum niður Endana og áfram austur hraunið. “Forðast skaltu götunnar glymjandi hó, en gæfunnar leitar í kyrrð og ró”.
Eftir u.þ.b. fimm mínútna göngu var gengið á brattann og komið upp á efri brún bjargsins. Þar beint fyrir ofan er op Krýsuvíkurhellis. Greinilegt var að einhvern tímann hafði verið hlaðið byrgi skammt ofan við opið, en þak þess var fallið niður. Þá hafði nýlega brotnað úr opinu sjálfu og það stækkað nokkuð.
Hellirinn sjálfur, tvískiptur, er meistarasmíð. Hann hefur verið mikill geymir, en er nú víða hruninn. Þó má vel sjá hversu hraunrásin hefur verið mikil. Þegar komið er niður í hellinn að vestanverðu verður beinagrind af kind þar fyrir.
Neðar er mikið súluverk og göng og op upp og niður. Þau voru vandlega þrædd og skoðuð. Austan megin er hins vegar gólfið sléttara og hellirinn rúmbetri. Þar hefur verið hlaðið skjól eða byrgi og er hellirinn talsvert “sótugur” þeim megin. Þrædd voru göng til suðurs í átt að gamla bjarginu. Eftir um 30 metra göngu um gönginn var komið að gati á bjarginu og blasti þá við útsýni yfir svo til allt neðra bjargið. Hægt er fyrir ólofthrædda að klifra upp eða niður úr gatinu, en sjálft er það vel rúmt.
Grösugar brekkur eru neðan undir gatinu. Auðvelt hefur t.d. verið fyrir smala að athafna sig þarna og fylgjast með ánum á beit fyrir neðan. Einnig í þessum hluta virtist vera talsvert sót.
Ofar er jarðfall og úr henni liggur hraunrásin lengra upp hraunið. Ákveðið var að bíða með frekari skoðun á þeim hluta þangað til síðar.
Gönguleiðin frá Bergsendum að Keflavík er einkar falleg. Bæði er fallegt útsýni vestur með Krýsuvíkurbjargi, auk þess sem hraunið á þessari leið er sérstaklega stórbrotið. Keflavíkin sjálf er verðug skoðunar. Einstigi liggur niður í hana.
Í botninn er gras næst klettunum, en utar eru sjóbarið grágrýti. Þegar staðið er úti á grjótinu sést vel stór gataklettur austar á bjarginu. Vestan við víkina sést enn hluti gamla bjargsins, en uppi á því trjóna Geldingasteinar. Toppar bjargsins eru grasi vaxnir, en mjög auðvelt er að ganga að þeim undir bjarginu og upp með þeim að vestanverðu.
“Ef virðist þér örðugt og víðsjálft um geim, veldu þér götuna sem liggur heim”.
Frábært veður.