Myndina [s/h] hér að neðan tók sænskur ljósmyndari, þá konunglegur hirðljósmyndari. Hann sagði, að stórfenglegri sýn hefði aldrei borið fyrir auga myndavélar sinnar, og svo áfjáður var hann í myndir, að fylgdarmenn hans urðu að halda í fæturna á honum, svo að hann steypti sér ekki fram af bjargbrúninni í algleymi sínu við myndatökuna.
“Krýsuvíkurberg er undraheimur — dásamlegur staður öllum, sem ekki eru sneyddir öllu náttúruskyni. Það er að vísu hvergi sérlega hátt, en það er fimmtán kílómetrar á lengd, og það er kvikt af fugli. Þar eru svartfuglar milljónum saman, og þar má oft sjá súlur i hundraðatali, komnar úr mestu súlnabyggð heims. Eldey. Það er svipmikil sjón að sjá þær steypa sér úr háalofti þráðbeint i sjó niður af svo miklu afli, að strókarnir standa upp úr sjónum, þar sem þær hafna, eins og þar sé allt i einu kominn gosbrunnur við gosbrunn.
Fuglar hafa að miklu leyti átt griðland í Krýsuvíkurbergi í meira en hálfa öld. Bjargið hefur ekki verið nytjað að neinu ráði síðan 1916. Þá bjó í Krýsuvík Jón Magnússon, faðir Sigurðar endurskoðanda og Magnúsar frönskukennara. Hann hafði árum saman sérstakan bjargmann, kynjaðan austan úr Mýrdal, og var hann reiddur fram á bergið á morgnana um bjargtímann, og var hann þar síðan einn á daginn við fuglaveiðar og eggjatekju. Hann handstyrkti sig á vað með þeim hætti, að hann hringaði endann um steina og bar á grjót, og siðan rakti hann sig á vaðnum niður í bjargið og hafði af honum stuðning á göngu sinni um syllurnar. Enn þann dag i dag má sjá uppi á bjargbrúninni steinahrúgur, sem þessi maður og aðrir á undan honum, notuðu i bjargferðum sínum.
Kvöld hvert var svo bjargmaðurinn sóttur og dagsaflinn reiddur heim, bæði fugl og egg. Þessar bjargafurðir voru síðan fluttar á klökkum inn i Hafnarfjörð og Reykjavik, þar sem verðið á bjargfuglseggjunum var fjórir aurar fyrir heimsstyrjöldina fyrri. Það var í samræmi við annað verðlag þá, en þótt tuttugu og fimm egg þyrfti í hverja krónu voru það ótrúlega miklar tekjur, sem bjargið gaf af sér — mörg þúsund krónur árlega, jafnvel allt að tíu þúsund krónur að meðaltali, að blaðinu hefur verið tjáð.
Fiskimið voru fast upp að berginu, og var oft fjöldi skipa skammt undan landi, einkum skútur á skútuöldinni, þeirra á meðal Færeyingar. Vestan við bergið eru Selatangar, þar sem fyrrum var útræði. Þar sjást enn leifar sjóbúðanna gömlu, þar sem vermennirnir höfðust við.
Frá fjárréttinni sunnan við Eldborg við Krýsuvíkurveg er í mesta lagi fjörutíu mínútna gangur fram á bjarg, og er þar haldið ofurlítið til austurs. Þar [á Bergsenda eystri] má komast niður að sjó, og opnast allt austurbergið sjónum manna.
Flestum verður ógleymanlegt að koma á þennan stað um varptímann, í maí og júní. Innlendir menn og erlendir gleyma sér bókstaflega, þegar þeir sjá hið iðandi líf, sem þrífst þarna á klettasyllunum.
Þegar þessi stutti spölur hefur verið ruddur og gerður bílfær, til dæmis fyrir forgöngu Ferðafélags Íslands, munu menn undrast, hversu lengi sú framkvæmd hefur dregizt.
En eins þarf jafnframt að gæta. Bjargið verður að alfriða og hafa þar vörzlu um varptímann og fram eftir sumri, unz ungar eru komnir á sjóinn, svo að griðníðingar og skemmdarvargar fái sér ekki við komið í þessum véum bjargfuglsins.
Það er svo mikilfengleg sjón og lífsunaður að kynnast þessum stað, að hann ætti að vera einn þeirra, er hvað mest laðaði að sér fólk hér í nágrenni Reykjavikur. En allir, sem þangað kæmu yrðu að sjálfsögðu að hlíta ströngum reglum, svo að mannaferðir styggðu ekki fuglinn eða trufluðu hann við búskapinn, grjótkast allt að vera stranglega bannað, sem og hróp og köll til þess að styggja hann, svo að ekki sé nefnt óhæfa eins og byssuskot.
Krýsuvíkurberg er ein af perlum landsins, og þá perlu ber okkur að vernda og varðveita af umhyggju og ástúð og varfærni. Ef það er gert, getum við átt hana og notið hennar um langa framtíð, okkur sjálfum og ófæddum kynslóðum til sálubótar i skarkala hversdagslífsins”. JH
Heimild:
-Tíminn, föstudagur 21. júli 1972, bls. 8.