Tag Archive for: Bergvík

Keflavíkurberg

Í Faxa, 8. tbl. 01.10.1967, fjallar Ragnar Guðleifsson um „Örnefni á Hólmsbergi„.

„Í janúarblaðinu á síðastliðnu ári birtist mynd af Keflavíkurhöfn og Vatnsnesi, þar sem á voru merkt örnefni, er ég þá hafði vitneskju um.

Hólmsberg

Hólmsberg – örnefni.

Við merkingu þessara örnefna studdist ég við upplýsingar Guðjóns M. Guðmundssonar, fyrrv. fiskimatsmanns, að Túngötu 9 í Keflavík.
Hér verður nú sagt frá nokkrum örnefnum á strandlengjunni frá Keflavíkurhöfn og út í Leiru eða á Hólmsberginu, sem við venjulega nefnum Bergið, og eins og áður er hér stuðzt við upplýsingar Guðjóns M. Guðmundssonar.

Hólmsberg

Hólmsberg – stekkur.

Myndin hér að ofan er eins og hin fyrri tekin úr lofti og sýnir Hólmsbergið. Hún er tekin úr mikilli hæð og er því vel skýr. Hér eru aðeins fá örnefni merkt, en þau kunna að leynast fleiri, ef vel væri leitað. Því er hér óskað, að viti einhver um fleiri örnefni á stöðum, sem hér eru merktir, þá væru þær upplýsingar vel þegnar.
1. Hellunef. Vestan eða utan við Brennunípu er nokkuð hátt berg. En er því sleppir taka við sléttar klappir, er halla í sjó fram. Þarna myndast klettanef fram í sjóinn er nefnist Hellunef. Þetta svæði, sléttuklappirnar og klettanefið er stundum kallað Hellumið. Á þessu svæði eru nú landamerki jarðarinnar Keflavík.
2. Kaggabás. Þegar sléttu klöppunum sleppir tekur við lágt berg, sem liggur að þröngum bás inn í bergið, sem heitir Kaggabás.

Helguvík

Helguvík. Sturlaugur Björnsson – letur; HHP

3. Helguvík heitir allstór vík fyrir utan Kaggabás. Bergið frá Kaggabás að víkinni er lágt en þverhníft í sjó fram. Munnmæli herma, að Helguvík dragi nafn sitt af konu, er þar bjó með sonum sínum tveim endur fyrir löngu. Einhverju sinni, er þeir bræður voru á sjó og óveður skall á, svo tvísýnt þótti, að þeir næðu landi í Helguvík, átti Helga móðir þeirra að hafa mælt svo um, að frá þeirra byggð, er synir hennar næðu landi, skyldi upp frá því aldrei farast skip, er næði opinni vík. Bræðurnir náðu síðan landi, heilir á húfi, í Keflavík. Þessa sögu sagði mér amma mín, Valdís Erlendsdóttir, er ég var drengur.
Helguvík er öll girt háu bergi, sem hækkar til norðurs. Bergið nær þó ekki í sjó fram fyrir botni víkurinnar. Þar er því malarfjara nokkur, einkum nyrzt í víkinni, en víða er fjaran með stórgrýtisurð. Þó má ganga meðfram víkinni þar til bergið sveigir til norðausturs.
4. Helguvíkurnef heitir austasti tanginn sunnan við Helguvík.

Stakksnípa

Stakksnípa og Stakkur.

5. Stakksnípa heitir bergið, er liggur að Helguvík að utan og norðan. Bergið er hátt og þverhnípt í sjó fram. Þar er fuglalíf mikið, einkum lundi og mávur.
Stakkur6. Stakkur heitir kletturinn fyrir framan t;takksnípu. Milli Stakks og Stakksnípu Seitir Stakkssund. Þar koma klettar upp úr um háfjöru, sem nærri mynda brú yfir sundið.
Stakkur á sína sögu, sem margir kannast við. Þjóðsagan segir að endur fyrir löngu hafi sjómenn af Suðurnesjum farið til eggja út í Geirfuglasker. Þegar snögglega brimaði, urðu þeir að yfirgefa skerið, en þá varð einn skipverjanna eftir. Eigi var hægt að komast í skerið aftur það sumarið vegna brims, og var nú skipverjinn löngu talinn af. Maðurinn var frá Melabergi. Nú leið þar til sumarið eftir, að farið var út í Geirfuglasker, sem venja var, til eggja. Þegar þeir komu upp á skerið sjá þeir, sér til undrunar, mann á gangi og þekkja þar manninn, er þeir höfðu skilið eftir vorið áður.

Hólmsberg

Hólmsberg.

Óljóst sagði hann þeim frá veru sinni í skerinu, þó sagði hann, að eigi hefði væst um sig þar. — Nú leið þar til síðla sumars, sunnudag einn, er messað var á Hvalsnesi. Við messu var fjöldi fólks og þar á meðal Melabergsmaðurinn. En þegar fólkið kom út úr kirkjunni stóð uppbúin vagga við kirkjudyrnar og lá ungbarn í vöggunni. Þegar prestur kemur úr kirkju og sér vögguna og barnið, spyr hann hvort nokkur viti deili hér á. Einkum spurði hann Melabergsmanninn ítarlega, en hann brást þurrlega við og kvaðst ekkert um vögguna né barnið vita. En í því bili sem maðurinn neitaði, birtist þar kona fríð sínum og fönguleg, en svipmikil. Þreif hún ábreiðuna af vöggunni og snaraði henni inn í kirkjuna með þeim ummælum, að eigi skyldi kirkjan gjalda. Síðan víkur hún sér að Melabergsmanninum og segir reiðulega: „En þú skalt verða að hinu versta illhveli í sjó.“ Greip hún síðan vögguna með barninu og hvarf með allt saman og sást ekki síðan. Presturinn tók ábreiðuna og lét gjöra úr henni altarisklæði handa kirkjunni, sem þótti hin mesta gersemi.
VatnssteinnEn frá Melabergsmanninum er það að segja, að honum brá svo við orð konunnar, að hann tók á rás frá kirkjunni og heim til sín. Þaðan æddi hann sem vitstola maður norður á Hólmsberg, sem er fyrir vestan Keflavík. Þegar hann kemur fram á bergbrúnina staldrar hann þar við. Verður hann þá allt í einu svo stór og þrútinn, að bergið springur undir fótum hans og hljóp fram klettur mikill úr hamrinum, sem síðan heitir Stakkur. Stakkst maðurinn fram af berginu í sjóinn og varð samstundis að feiknastórum hvalfiski með rauðan haus, því maðurinn hafði haft rauða húfu á höfði. Rauðhöfði var nú versta illhveli og grandaði mörgum mönnum og skipum í Faxaflóa.

Berghólar

Berghólar – fjárborg.

Að lokum tókst prestinum í Saurbæ á Hvalfjarðarströnd að ráða niðurlögum hans, var prestur þó orðinn gamall og blindur. Tókst presti að koma hvalnum upp Botnsá í vatn það er áin rennur úr og heitir síðan Hvalvatn. Þar sprakk Rauðhöfði. Síðan vitnaðist, að um veturinn, er maðurinn dvaldi í skerinu, hafi hann verið með álfum í góðu yfirlæti. Þar hafi hann kynnzt konunni, sem birtist við kirkjuna. Hafi hann átt með henni barnið og lofað að láta skíra það, ef hún kæmi því til kirkju, ella mundi hann gjalda þess grimmilega.
Þetta var sagan um Rauðhöfða. — En nú höldum við áfram út Bergið.
7. Stakksvík heitir lítið vik inn í bergið utan við Stakksnípu. Þar er ekkert undirlendi, en fyrir botni víkurinnar er stórgrýtisurð, sem kölluð er Urðin. Þarna er oft fjörugt fuglalíf. Þarna verpir Lundinn.

Hellisnípuviti

Hellisnípuviti.

8. Hellisnípa er hátt þverhnípt berg í sjó fram utan við Stakksvík. Hún dregur nafn af helli, sem gengur inn í bergið framanvert. Á Hellisnípu er viti, sem reistur var fyrir nokkrum árum. Við vitann eru landamörk Keflavíkurkaupstaðar og Gerðahrepps.
9. Selvík heitir vikið vestan við Hellisnípu. Þar er ekkert undirlendi.
10. Ritunípa heitir þverhnípt berg, nokkuð hátt, er skagar fram þríhyrningslagað norðan við Selvík.

Bergvík

Bergvík.

11. Bergvík heitir lítil vík vestan við Ritunípu. Vestan við víkina var innsti bærinn í Leiru og bar nafn af víkinni.

Berghólar

Berghólar – fjárborg.

12. Berghólar heitir holtið og klettabeltin upp af Bergvíkinni. Eigi langt frá sjó er þar klettahöfði með sléttum klöppum að ofan, sem kallaður er Borg. Við þennan höfða eru fiskimiðin Borgarslóð kennd.
En Borgarslóð heita fiskimiðin í Leirnum þegar komið er þar sem Borgin kemur fram undan Ritunípu. Það eru norðurmiðin, en djúpmiðin eru Grindavíkurfjöllin, við bæina í Njarðvíkum.

Keflavíkurborg

Keflavíkurborg.

Annað fiskimið er út af Stakk, nefnist það Rif. Þriðja miðið er beint út af Hellisnípu (í N— A), heitir það Legur. Ef farið er nógu djúpt inn í Leirinn, er hægt að láta öll þessi mið, Rif, Legur og Borgarslóð, renna saman í eitt.

Á myndinni er merkt Keflavíkurborg, rétt suðvestan við Garðveginn, upp af Grófinni. Keflavíkurborg er landamerkjavarða, er markar vesturhorn Keflavíkurjarðarinnar.“ – Ragnar Guðleifsson.

Heimild:
-Faxi, 8. tbl. 01.10.1967, Örnefni á Hólmsbergi, Ragnar Guðleifsson, bls. 1-2.
Faxi

Leiran

Njáll Benediktsson skrifar um „Mannlíf í Leiru“ í Faxa árið 1991:

„Kæri lesandi Faxa, ég undirritaður hef verið beðinn um að rifja upp manntal í Leiru um aldamótin 1900 og hef ég tekið árið 1901 og byrja í Inn-Leiru eins og hún var kölluð.

Leiran

Leiran – örnefni; ÓSÁ.

Innsta húsið hét Bergvík, þar stóð tveggja hæða hús á steinhlöðnum kjallara sem var íbúðarhæfur. Í Bergvík bjuggu fjórar fjölskyldur. Í 1. býli bjó Pétur Pétursson húsbóndi og sjómaður 52 ára, Hallbera Sveinsdóttir kona hans 69 ára, Helga Guðmundsdóttir hjú þeirra 52 ára. f 2. býli Guðrún Guðmundsdóttir húsráðandi 48 ára, Pétur Pétursson sonur húsmóður 17 ára, Sveinsína Pétursdóttir dóttir húsmóður 21 árs, Guðmundur Pétursson sonur húsmóður 14 ára. Í býli 3 þar bjó Árni Sæmundsson húsbóndi og sjómaður 54 ára, Margrét Bjarnadóttir bústýra 59 ára, Hlaðgerður Bjarnadóttir tökubarn 8 ára. Í 4. býli bjó Ólafur Erlendsson húsbóndi og sjómaður 61 árs, Þuríður Eyjólfsdóttir kona hans 51 árs, Kristín Bjarnadóttir tökubam 14 ára.

Leiran

Bergvíkurbrunnur.

Nú höldum við í vestur og komum að Grænagarði, þar býr Jóhann Sigmundsson húsbóndi og sjómaður 37 ára, Þuríður Sigmundsdóttir kona hans 24 ára, Sigmundur Jóhannsson sonur þeirra 4 ára, Pétur Jóhannsson sonur þeirra á fyrsta ári, Kristín Brandsdóttir gestur 63 ára.
Við höldum áfram í vestur og komum í Melshús, þar býr Guðmundur Símonarson húsbóndi og sjómaður 42 ára, Margrét Símonardóttir húsmóðir bústýra 44 ára, Símon Guðmundsson sonur húsbænda 13 ára, Guðrún Jóhanna Guðmundsdóttir dóttir þeirra 5 ára, Brynjólfur Magnússon leigjandi bamaskólakennari 40 ára.

Leiran

Hrúðurnesbrunnur. Stóri-Hólmur að handan.

Við komum svo að Lindarbæ þar býr Björn Sturlaugsson húsbóndi og sjómaður 49 ára, Guðrún Erlendsdóttir húsmóðir og bústýra 53 ára, Kristinn Árnason tökudrengur 12 ára.
Nú förum við í austur niður í dalinn eins og hann var kallaður og komum að vatnsbrunni. Hann var hringhlaðinn úr tilhöggnu grjóti átján feta djúpur, mikið meistaraverk. Nú hafa félagar úr Golfklúbbi Suðurnesja byggt yfir þennan brunn, gott verk sem ber að þakka.
Við höldum áfram í norður meðfram sjónum og komum á Melbæjarbakka, þar býr Jóhann Jónsson húsbóndi og sjómaður 33 ára, Ragnhildur Pétursdóttir kona hans 23 ára, Guðrún Oktavía Jóhannsdóttir dóttir þeirra 2 ára, Jenný Dagbjört Jóhannsdóttir á fyrsta ári.

Leiran

Leiran – örnefni á loftmynd.

Við höldum áfram í norður og komum að Melbæ, þar var mikið mannlíf. Þar býr Jón Bjarnason húsbóndi og sjómaður 33 ára, Margrét Ingjaldsdóttir kona hans 29 ára, Sólmundur Jónsson sonur hjónanna 7 ára, Bjarni Pétur Jónsson sonur þeirra 5 ára, Guðrún Jónsdóttir dóttir þeirra 2 ára, Jónína Margrét Jónsdóttir dóttir þeirra á fyrsta ári, Þuríður Jónsdóttir 79 ára lifir af styrk frá ættingjum sínum, Þuríður Bjarnadóttir 41 árs hjú þeirra.
Við höldum áfram í suðvestur og komum að neðra Hrúðurnesi. Þar býr Helgi Árnason húsbóndi, sjómaður og trésmiður 40 ára, Þorbjörg Sigmundsdóttir kona hans 23 ára, Björg Einarsdóttir hjú þeirra 19 ára, Gísli Jónsson sjómaður 66 ára.

Leiran

Leiran 2005 – loftmynd.

Við komum að Efri Hrúðurnesi, þar býr Sigmundur Jónsson húsbóndi og sjómaður 53 ára, Guðríður Ólafsdóttir kona hans 55 ára, Sigurjón Jónsson skjólstæðingur þeirra 11 ára.
Við höldum áfram í norðverstur og komum í Garðhús, þar býr Guðni Jónsson húsbóndi og sjómaður 55 ára, Ástríður Gísladóttir kona hans 54 ára, Sigurður Sigurðsson skjólstæðingur þeirra 11 ára, Þorsteinn Bjarnason sjómaður 71 árs.
Fyrir neðan Garðhús stóð Ráðagerði, stórt timburhús með háu risi, þar býr Jón Jónsson húsbóndi 54 ára, Jóhanna Jónsdóttir kona hans 44 ára, Jóhannes Jónsson 12 ára sonur þeirra, Rannveig Jónsdóttir 10 ára dóttir þeirra, Jóhann Jónsson hjú þeirra 22 ára, Þuríður Jónsdóttir hjú þeirra 21 árs, Vilmundína Lárusdóttir tökubarn á fyrsta ári, Elsa Dórothea 61 árs húskona lifir á eigum sínum, Gísli Halldórsson sjómaður 61 árs.
Leiran
Nú höldum við vestur og komum að býlinu Kötluhól, þar býr Jóhann Vilhjálmsson húsbóndi og sjómaður 50 ára, Margrét Steinsdóttir kona hans 52 ára, Svandís Vigfúsdóttir 14 ára tökubarn, Hallmundur Eyjólfsson 8 ára uppeldissonur.
Fyrir norðan Kötluhól stóð Stór-Hólmsbaðstofan að falli komin, þar býr Sveinn Helgason húsbóndi og sjómaður 46 ára, Þórey Guðmundsdóttir kona hans 49 ára, Helgi Sveinsson sonur þeirra 16 ára, Anna Sveinsdóttir dóttir þeirra 14 ára, Jón Helgason Sveinsson sonur þeirra 10 ára, Guðrún Helga Sveinsdóttir dóttir þeirra 5 ára, Þórunn Kristín Sigríður Antonsdóttir tökubarn 2 ára, Jón Oddsson húsbóndi 46 ára, Guðleif Oddsdóttir bústýra 28 ára, Jónína Guðleif Jónsdóttir dóttir þeirra 4 ára.
Leiran
Við höldum áfram og komum að bænum Nýlendu, þar býr Einar Eyjólfsson húsbóndi, háseti á opnum bát, 49 ára, Valgerður Jónsdóttir kona hans 54 ára, Gústaf Gíslason uppeldissonur þeirra 9 ára.
Fyrir ofan Nýlendu stóð bærinn Rófa, þar býr Einar Jónsson húsbóndi, háseti á opnum bát, 46 ára, Helga Jónsdóttir húsmóðir, bústýra 49 ára, Guðbjörg Einarsdóttir dóttir þeirra 23 ára, Jakobína Rögnvaldsdóttir tökubarn 5 ára. Næst eru það Steinar, þar býr Ólafur Bjarnason húsbóndi, formaður á opnum bát, 50 ára, Hallbera Helgadóttir húsmóðir, bústýra 55 ára, Bergsteinn Bergsteinsson tökudrengur 13 ára.
Nú förum við í austur niður að sjó, þar stóð Bakkakot, stórt timburhús á tveimur hæðum, þar býr Eiríkur Torfason húsbóndi og formaður á opnu skipi, tré- og járnsmiður 42 ára, Sigríður Stefánsdóttir kona hans 33 ára, Leifur Eiríksson sonur þeirra 3 ára, Guðrún Jónína Lilja Eiríksdóttir dóttir þeirra 1 árs, Helga Högnadóttir hjú þeirra 44 ára, Guðrún Einarsdóttir hjú þeirra 17 ára, Jón Högnason leigjandi, háseti á fiskiskipi 24 ára, Stefán Sigurfinnsson sonur húsfreyju 13 ára, Stefán Pálsson leigjandi lifir af eigum sínum 62 ára.
Litli-Hólmur
Þá höldum við í vestur og komum að Litla-Hólmi, þar var hlaðinn vararkampur úr stóru grjóti sem var einn og hálfur meter á hæð. Það var hægt að landa fiski við vararkampinn við hálffallinn sjó, það var mikil framför í gamla daga. Á Litla-Hólmi býr Geir Guðmundur Guðmundsson húsbóndi og vefari 57 ára, Ingunn Vigfúsdóttir kona hans 40 ára, Helga Geirsdóttir dóttir þeirra 10 ára.
Þá komum við að Litlahólmskoti, þar býr Halldóra Þorleifsdóttir húsmóðir, lifir á handavinnu 59 ára. Það má geta þess að árið 1890 eru skráðir heimilisfastir menn í Litla-Hólmskoti 14 menn.
Nú höldum við í norður og komum í Gufuskálaland, það var kallað Út-Leira.

Gufuskálar

Gufuskálar – uppdráttur ÓSÁ.

Við komum í Gufuskála, þar býr Eyjólfur Eyjólfsson húsbóndi 51 árs, Sigrún Halldórsdóttir kona hans 47 ára, Halldóra Eyjólfsdóttir dóttir þeirra 16 ára, Björn Eyjólfsson sonur þeirra 12 ára, Ingibjörg Eyjólfsdóttir dóttir þeirra 5 ára, Sigrún Oddleif Eyjólfsdóttir dóttir þeirra 3 ára, Guðjón Jónsson hjú þeirra 27 ára, Sigurður Guðmundsson hjú 65 ára, Elín Magnúsdóttir hjú þeirra 55 ára, Eyjólfur Eyjólfsson sonur hjónanna 13 ára.
Þá er haldið í norðvestur og komið að Vesturkoti, þar býr Eggert Einarsson húsbóndi og sjómaður 56 ára, Þóra Þorsteinsdóttir kona hans 63 ára, Þorsteinn Eggertsson sonur þeirra 33 ára, Björn Eggertsson sonur þeirra 30 ára, Þorgerður Eggertsdóttir dóttir hjónanna 22 ára, Jón Jónsson leigjandi, sjómaður 64 ára, Eiríkur Þorsteinsson sjómaður 59 ára, Guðmundur Guðmundsson sjómaður 39 ára.

Gufuskálar

Gufuskálar – Vesturkot.

Nú höldum við niður að sjó, þar stóð Hausthús, fallegur bær með blóm í haga. Þar býr Jósep Oddsson húsbóndi og sjómaður 46 ára, Gróa Jónsdóttir kona hans 33 ára, Jósepína Jósepsdóttir dóttir hans 11 ára, Jónína Halldóra Jósepsdóttir dóttir þeirra 7 ára, Ólafur Jósepsson sonur þeirra 3 ára, Oddný Jósepsdóttir dóttir þeirra 1 árs.
Fyrir vestan Hausthús er Kóngsgerði, þar býr Þórarinn Eyjólfsson húsbóndi 39 ára, Sigríður Arnadóttir kona hans 43 ára, Ingibjörg Þórarinsdóttir dóttir hans 11 ára, Guðrún Þórarinsdóttir dóttir hans 10 ára, Guðbjörn Þórarinsson sonur þeirra 8 ára, Katrín Árnea Þórarinsdóttir dóttir þeirra 6 ára, Eyjólfur Þórarinsson sonur þeirra 4 ára, Helgi Þórarinsson sonur þeirra 1 árs.
Þá höfum við gengið Leiruna á enda.“ – Heimildir eru kirkjubækur Útskála; Njáll Benediktsson, Garði, skráði.

Heimild:
-Faxi, 4. tbl. 01.06.1991, Mannlíf í Leiru- Njáll Benediktsson, bls. 126-128.

Leiran

Leiran – uppdráttur ÓSÁ.