Færslur

Hraunsvík

Gengið var frá Hrauni til norðurs með austurhlíðum Húsafell, upp í sandnámur er áður hýstu eina af útstöðvum varnarliðsins, áfram upp Berjageira og norður með vesturhlíðum Fiskidalsfjalls. Haldið var um Stórusteina milli fjallsins og Vatnsheiðar, inn í Svartakrók og áfram upp með Hrafnshlíð.

Festarfjall

Festarfjall og Hraunsvík.

Gengið var áfram um Tryppalágar og inn á gömlu götuna frá Ísólfsskála um Siglubergsháls milli Fiskidalsfjalls og Festisfjalls, niðurmeð Skögugili og beygt til suðurs niður á Hraunssand þar sem Dúnknahellir var m.a. barinn augu. Ofan Hraunssands að vestanverðu er Skora, Skarfaklettur sunnar, en síðan taka við Hvalvík og Hrólfsvík. Hraunsvíkin er utar.
Húsafell, Fiskidalsfjall, Hrafnshlíð og Siglubergsháls eru móbergsstapar, bólstraberg, móbergsþurs og túff, þakið grágrýti. Síðastnefndu fellsmyndirnar eru komnar úr Bleikhól, áberandi gíg nyrst í fjallinu. Grágrýti þetta er öfugt segulmagnað og runnið á segulmund sem kennd er við Laschamp í Frakklandi. Fleiri slíkar basalthettur er á þessum slóðum, t.d. á Skálamælifelli, Hraunsels-Vatnsfellum og Bratthálsi. Aldur bergsins er um 42.000 ár. Fyrir rúmum 40.000 árum lá þunnur jökull yfir Grindavíkurfjöllunum sem teygði sig um 4 km vestur og norður frá norðurhorni Fagradalsfjalls.

Hraunsvík

Hraunsvík – Dúknahellir.

Festafjall og Lyngfell eru stapar sem rof sjávar hafa klofið í herðar niður og myndað hæstu sjávarhamra á Rekjanesi. Einnig sjást innviðir þess, m.a. berggangur.
Þjóðsagan segir að austarlega í Grindavík, hér um bil miðja vegu milli bæjanna Hrauns og Ísólfsskála, er þverhnípt fell fram við sjóinn, sem heitir Festarfjall. Neðan undir felli þessu er hátt blágrýtisstandberg og ægisandur undir sem ganga má þurrum fótum með lágum sjó. Frá Hrauni blasir við í miðju berginu grá rák sem gengur þráðbeint upp í gegnum bergið og nefnist Festin. Sagan segir að rák þessi sé silfurfesti sem tröllkona ein hafi einhvern tíma í fyrndinni hengt fram af berginu með þeim ummælum að þá er dóttir bóndans á Hrauni, sú sem bæri nafn hennar, gengi þar neðan undir þá skyldi festin detta niður og verða eign stúlkunnar. Því miður lét tröllkonan ekki nafns síns getið svo að ekki hefir verið auðvelt að láta heita eftir henni, enda hangir festin óhreyfð enn í dag.

Siglubergsháls

Gamla Krýsuvíkurgatan um Siglubergsháls.

Þegar gengið var áleiðis niður Siglubergsháls eftir gömlu þjóðleiðinni ofan núverandi þjóðvegar varð ekki hjá því komist að sjá hið mikla malar og sandnám, sem átt hefur sér stað utan í Fiskidalsfjalli og Húsafelli. Rifjuð var upp umsögn

Skipulagsstofnunar um svonefndan Suðurstrandarveg, þ.e. mat á umhverfisáhrifum, frá því 10. desember 2003. Þar segir m.a. að fulltrúar stjórnar Landverndar hafi kynnt sér skýrslu um mat á umhverfisáhrifum Suðurstrandarvegar. “Svæðið sem fyrirhugaður vegur fer um er á margan hátt sérstakt og veðmætt vegna landslags, jarð- og menningarminja. Skýrslan ber með sér að framkvæmdaaðili gerir sér þetta ljóst og hann hefur lagt ríka áherslu á að finna vegstæði sem hefur sem minnst neikvæð áhrif á þessi verðmæti. Svo virðist sem ekki sé mögulegt að nota núverandi vegstæði miðað við þær tæknilegu kröfur sem gerðar eru og nýr vegur mun því óhjákvæmilega hafa nokkur sjónræn áhrif og skera samfellda hraunfláka í tvo.

Hraunsvík

Svæðið.

Námustæði við Húsafell og við Fiskidalsfjall eru í dag afar mikil lýti í landinu og efnistaka virðist óskipulögð. Suðurstrandarvegur kemur til með að fara um þessar námur og það væri til bóta ef hægt væri að nýta framkvæmdir til að gera umbætur á námunum.”
Fram kemur einnig að “vakin er athygli á því að framkvæmdum loknum verði hugað að lokun vegaslóða sem liggja að efnistökustöðum til að draga úr líkum á utanvegaakstri og eftir atvikum gera þar bílastæða sem nýta má sem upphafsstað fyrir gönguferðir og útvist.”

Gengið var niður á Hraunssand um einstigi, sandströndinni fylgt til vesturs að Dúnknahelli, sem sjórinn hefur smám saman verið að skila aftur eftir að hafa fyllt hann af sandi um tíma.

Hraunsvík

Bjargfuglar.

Fíllinn verpir á syllum í berginu, en rauðnefjuð svört teistan í hellum undir Festisfjalli. Dúnknahellis er getið í frásögn af strandi spænskrar skútu við ströndina og björgun áhafnarinnar, sem leitaði skjóls í hellinum uns hjálp barst. Erfitt getur reynst að komast upp úr fjörunni því þverhnípt bjargið er ofan hennar. Merkilegar hraunmyndanir eru í bjarginu; annars vegar hart grágrýtið í lögum og hins vegar meir rauðamölin þeirra á millum. Hennar vegna gengur Ægi svo vel sem raun ber vitni að brjóta bergið smám saman undir sig.
Frábært veður. Gangan tók 2 kls. og 2 mín.

Hraunsvík

Hraunsvík.