Tag Archive for: Beysluvatn

Staðarbrunnur

Gamlir brunnar teljast til fornleifa. Samkvæmt skilgreiningu þjóðminjalaga þá eru fornleifar allar leifar fornra mannvirkja og annarra staðbundinna minja sem menn hafa gert eða manna verkverk eru á, og eru 100 ára eða eldri. Sem dæmi um fornleifar eru nefndar; „brunnar, uppsprettur, álagablettir og aðrir staðir og kennileiti sem tengjast siðum, venjum, þjóðtrú eða þjóðsagnahefð…“

Brunnur á Reykjanesskaganum - frá því í byrjun 20. aldar

Í Þjóðháttaskrá Þjóðminjasafnsins (41) er fjallað um neysluvatn og öflun þess. Þar er m.a. spurst fyrir um vatnsstæði, vatnsból, vatnsþrær, brunna, uppsprettur, lækningalindir og vatnsleiðslur: „Öll mannavist í landinu er tengd öflun neysluvatns fyrir fólk og fénað. Landnámsmenn, sem reistu fyrst byggð hérlendis, hafa m.a. sælst til þess að rennandi vatn félli hjá bæjarstæðinu og til skamms tíma hefur það þótt góður kostur á sveitabýli að eiga góðan bæjarlæk rétt hjá bæjarveggnum. Allt hefur þetta breyst á þessari öld [20. öld], flest byggð ból eiga nú kost á streymandi lindarvatni eftir vatnsleiðslum um lengri eða skemmri veg. Þessi breyting hefur gerst á svo skömmum tíma í sögu þjóðarinnar að enn muna fjölmargir Íslendingar til þess að bera þurfti allt neysluvatn frá brunni eða bæjarlæk í hús.
Hvað felst í orðinu vatnsból? Er það eingöngu notað um þann stað sem neysluvatn heimilisins er tekið úr? Vatnslind á ReykjanesskaganumGilti þá einu hvort vatnið var sótt í læk, tjörn eða jafnvel brunn? Var ábýlisjörðum talið gott vatnsból til kosta í umræðu manna á milli? Var þá einnig talað um langan eða stuttan vatnsveg og miðað við það hve langan veg þurfti að sækja neysluvatn? Voru dæmi þess að sækja þyrfti neysluvatn á hestum um langan veg?
Hvað um bæjarlækinn? Var hlaðin þar sérstök vatnsþró? Var hlaðið þrep í farveginn til að mynda smáfoss (lækjarbuna) við vatnsbólið? Var sérstakur, flatur steinn við vatnsbólið, ætlaður til að klappa á þvott (þvottasteinn)? Var vegur lagaður með einhverjum hætti að vatnsbóli (stíflur, upphækkun)? Var vatnsbólið haft til þess að afvatna í saltfisk og e.t.v. kjöt? Voru dæmi þess að bæjarlæknum væri veitt gegnum hús, innanbæjar, eða að byggt væri hús eða skýli yfir vatnsbólið? Var neysluvatn sótt í tjörn nálægt bænum? Var einhver umbúnaður í sambandi við vatnstöku þar, t.d. hleðsla útí tjörnina eða grafin þró í tjarnarbotninn? Voru til upphlaðin vatnsból, án aðrennslis eða frárennslis ofanjarðar. Eru til sagnir eða munnmæli varðandi slík vatnsból, t.d. hvað varðar öryggi vatns til nota (að engum skyldi verða meint af vatninu ef vissum skilyrðum var fullnægt)?

Vatnsstæði á Reykjanesskagagnum

Brunnar voru víða, einkum í seinni tíð, einkum þar sem ekki var völ á neysluvatni nema með því að grafa brunn. Einstakir menn, öðrum fremur, unnu víða að brunntöku og hleðslu brunna og hlutu jafnvel viðurnefni af því. Var bæjarbrunnurinn innanbæjar, t.d. í fjósi? Var ranghali eða gangur til brunns innanbæjar og byggt sérstakt hús þar yfir brunninn? Var e.t.v. sérstakt brunnhús utanbæjar? Lýsið brunntöku og brunnhleðslu ef tök eru á. Var sprengiefni notað við brunntöku þar sem hraun eða klettar voru til hindrunar? Voru brunnar yfirleitt hringhlaðnir? Hvað með hleðsluefnið. Hvað vita menn dæmi til þess að brunnar hafi verið grafnir djúpt niður? Hvernig var umbúnaði yfir brunnopum (yfirgerslu með hlemmi og brunnvindu t.d.) háttað? Vita menn dæmi þess að brunnar hafi jafnan verið opnir vegna gamalla ummæla? Fylgdi sérstök vatnsfata brunni (vatnsponta)? Voru dæmi þess að silungur (eða silungar) væri hafður í brunni (brunnsilungur) til að útrýma þar brunnklukku t.d.? Voru vatnsleiðslur síðar tengdar við gamla brunna? Voru brunnar hreinsaðir að jafnaði einu sinni á ári (eða oftar)? Eru gamlir brunnar e.t.v. enn í notkun? Hvað nefndist járnborið vatn í brunni (járnláarvatn t.d.)? Er orðið brunnur (brunnar) einnig notað um uppsprettur vatns, t.d. í örnefnum? Þekkja menn sagnir, orðtök eða kveðskap um brunna?
Mjög forn brunnur á Reykjanesskaganum - líkt og Írskibrunnur á SnæfellsnesiRegnvatn gegndi þýðingamiklu hlutverki og v ar safnað víða. Með tilkomu rennuhúsa urðu tök á því að safna regnvatni í tunnur eða vatnsgeyma. Þetta varð á tímabili þýðingamikill þáttur í vatnsöflun margra sveitaheimila og sumra þéttbýlisstaða.
Hvernig voru vatnsgeymar og söfnunarílát regnvatns, hreinsun þeirra og annað, er efnið varðar. Sá þetta allri neysluvatnsþörf heimila borgið á vissu tímabili?
Vatn á vetrardegi gat verið miklum erfiðleikum bundin. Vatn þvarr í langvarandi frostum, eigi síður en í þurrkum, og vatnsból lögðust undir ís. Hvernig var unnin var bót á þeim vanda, m.a. með því að vaka læki og tjarnir fyrir búfénað. Var sérstakt áhald til þeirra nota (vakarbroddur t.d.)? Voru dæmi þess að snjór væri bræddur til vatnsöflunar, t.d. í fjósi?
Vatnsburður frá vatnsbóli til bæjar var eitt af húsverkunum. Hafði viss heimilismaður einkum það starf að bera vatn í bæ eða fjós? Kunna menn af eigin raun eða eftir annarra sögn að segja frá fólki sem vann fyrir sér með því að bera vatn í hús frá vatnspósti eða vatnsbóli? Hvernig voru áhöld sem notuð voru við vatnsburð og hver voru nöfn þeirra (vatnsfötur,
vatnsgrindur, og o.s.frv.). Voru vatnsker eða vatnstunnur til að hella í vatninu innanbæjar svo jafnan væri þar tiltækur nægilegu vatnsforði?
Lækningalindir hafa verið víða hér á landi, margar að sögn tengdar vígslum Guðmundar góða. Hér er leitað eftir fróðleik um lækningalindir, nöfnum þeirra, notum og sögnum tengdum þeim. Þekkjast nöfn eins og Gvendarlind eða Maríulækur í nánd bæja eða byggða? Var einkum sótt vatn í þessar lindir handa veiku fólki? Voru dæmi þess að þangað væri sótt neysluvatn til drykkjar og matarsuðu en vatn til annarra nota (t.d. þvotta) sótt í annað vatnsból?

Brunnmynd

Var sama á hvaða tíma sólarhrings vatn var sótt í lækningalindir? Eru til sagnir um það að lækningalindir hafi verið saurgaðar með einhverjum hætti þannig að þær misstu kraft sinn? Hvenær var hætt að sækja vatn í lækningalindir þar sem þeirra var annars völ? Er trú á lækningalindir e.t.v. enn fyrir hendi?
Vissa varúð þurfti að hafa við öflun vatns á víðavangi, einkum er menn lögðust niður við vatn úti á víðavangi til að svala þorsta sínum (að signa yfir vatnið eða drekka gegnum dúk eða síu einhverskonar)? Var e.t.v. algengasta aðferðin sú að drekka úr lófa sínum?
Vatnsleiðslur með sjálfrennandi vatni eða tengdar dælum eða vatnshrútum koma til sögunnar undir lok 19. aldar og þó einkum á þessari öld. Í fyrstu var um stein- og tréstokka að ræða. Einstakar sveitir hafa lagt samveitur vatns um langar leiðir nú í seinni tíð. Þessar framkvæmdir hafa létt miklu oki af fólki og eru þýðingamikill þáttur í framför aldarinnar. Um þetta er völ margra heimilda en annað liggur engan veginn ljóst fyrir og þá allra helst um það hverjir fyrst hófust handa við að leiða vatn í bæjarhús og útihús í einstökum sveitum eða byggðum. Höfðu einstakir menn forgöngu um það, öðrum fremur, að leggja vatnsleiðslur til heimila og fóru til þeirra starfa bæ frá bæ?“
Af þessum umleitunum má sjá að vatnsöflun og -neysla hefur þótt áhugaverð fornsöguleg arfleifð – og þarf engan að undra því hér hefur verið um að ræða einn af grundvallarþáttum afkomunnar frá upphafi lífs á jörðinni – allt til þessa dags.
Brunnur við Reykjanesvita - 1878 skv. danskri fyrirmynd