Í ár [2013] eru liðin 250 ár frá fæðingu Bjarna Sívertsen en hann hefur oftar en ekki verið kallaður faðir Hafnarfjarðar. Sívertsenshúsið, Vesturgötu 6, er elsta hús bæjarins. Það hefur verið gert upp í upprunalega mynd og er þar sýnt hvernig yfirstéttarfjölskylda í Hafnarfirði bjó í byrjun 19. aldar, auk þess sem varpað er ljósi á merkilega sögu Bjarna Sívertsens og fjölskyldu hans.
Hver var Bjarni Sívertsen?
Saga þessi byrjar á bænum Nesi í Selvogi fyrir réttum 250 árum en þá kom þar í heiminn lítill drengur sem síðar hlaut nafnið Bjarni en hann var sonur hjónanna Sigurðar Péturssonar og Járngerðar Hjartardóttur. Við fæðingu barna velta menn því oft fyrir sér hvað mun á daga þeirra drífa á lífsleiðinni. Á þessum tíma var barnadauði tíður og því var alls óvíst að Bjarni litli kæmist til manns. Hann var sonur fátækra bænda og því má segja að æfi hans hafi í raun verið ákveðin fyrirfram.
Á 18. öld og reyndar á þeirri 19. líka var það svo til óþekkt að menn færðust á milli stétta enda var það almennt viðurkennt að hver stétt ætti aðeins að fást við þau viðfangsefni sem henni bæri. Bjarni var, eins og áður segir, fátækur bóndasonur og eðli málsins samkvæmt átti hann að verða kotbóndi líkt og faðir hans. Bjarni hlaut fábreytta menntun í æsku eins og algengt var með bændasyni á þessum tíma og undir eðlilegum kringumstæðum hefði æviskeið hans átt að verða keimlíkt ævi venjulegs kotbónda. Hann hefði átt að taka við búi foreldra sinna, búa í torfkofa, kvænast konu úr sömu stétt, eignast fjölda barna sem fæst kæmust á legg, deyja í týru af grútarlampa úr hor eða elli um fimmtugt og að lokum enda í týndri gröf við einhverja litla sveitakirkju. En sú varð nú ekki raunin og varð æviskeið Bjarna alls ólíkt þessari döpru lýsingu.
Klifrað upp metorðastigann
Í ljóðinu Hótel jörð eftir Tómas Guðmundsson er dvöl okkar mannanna á jörðinni líst á skemmtilegan hátt. Þar kemur fram að sumir láta sér linda það að lifa úti í horni óáreittir og spakir á meðan aðrir lenda í stöðugri keppni um að koma sér að og krækja sér í nógu þægilegt sæti.
Þegar æviskeið Bjarna er skoðað kemur í ljós að hann var í þeim hópi sem sóttist eftir meira í lífinu en því sem sjálfkrafa kom og tilheyrði frekar þeim sem hópi sem reyndi eftir megni að krækja sér í þægilegt sæti. Bjarni hóf ekki búskap sjálfur heldur gerðist vinnumaður hjá Jóni Halldórssyni lögréttumanni í Nesi og Rannveigu Filippusdóttur konu hans.
Þegar Bjarni hafði starfað um hríð hjá Jóni og Rannveigu sem vinnumaður gerðist hann ráðsmaður þeirra og sá um rekstur búsins. Seint á 18. öld gerðist svo sá hörmulegi atburður að Jón drukknaði í miklum flóðum ofan Eyrarbakka, varð Rannveig þá ekkja en Bjarni rak áfram búið fyrir hana. Skömmu síðar eða árið 1783 kvæntist Bjarni Rannveigu. Nokkur aldursmunur var á þeim hjónum, Bjarni var þá um tvítugt en Rannveig var orðin 39 ára. Eftir brúðkaupið hófu þau hjónin búskap á Bjarnastöðum í Selvogi og bjuggu þar allt til ársins 1794. Bjarna hafði þarna tekist hið ómögulega, það er að flytjast á milli stétta. Hann var að vísu enn bóndi en tilheyrði nú stétt ríkra landeigenda í stað fátækra leiguliða.
Spurningin sem menn spyrja sig enn þann dag í dag er hvernig fór hann að þessu, hvað gerði hann, eða gerði hann ef til vill ekkert? Var það kannski Rannveig sem sá hvaða hæfileikum Bjarni var búinn og ákvað að nýta sér þá. Þá kemur einnig til greina að ástin hafi einfaldlega kviknað og viðskiptasjónamið engu skipt. Þessum spurningum verður án efa aldrei svarað til fullnustu en niðurstaðan var sú að bæði stóðu mun betur að vígi eftir en áður og hver veit nema þau hafi einnig verið hamingjusamari.
Bóndi verður kaupmaður
Bjarni lét þó ekki hér við sitja heldur hélt hann áfram í leit sinni að betra sæti. Þegar hann og Rannveig höfðu búið á Bjarnastöðum í sex ár lét hann næst til skarar skríða. Nú ætlaði hann einum stalli ofar og vildi gerast kaupmaður. Árið 1789 gerði hann samning við norska lausakaupmenn, bræðurna Hans og Frederik Ryland og gerðist umboðsmaður þeirra. Samkvæmt verslunarlögunum frá 1787 höfðu lausakaupmenn frjálsan rétt til að stunda viðskipti í landinu en utan kaupstaðanna máttu þeir einungis versla í fjórar vikur í hverri höfn. Norsku bræðurnir, eins og aðrir lausakaupmenn versluðu hér einungis á sumrin en samningur þeirra við Bjarna gekk út á það að á haustin fékk hann þær afgangs vörur sem ekki höfðu selst um sumarið til að selja í umboðssölu yfir veturinn.
Skemmst er frá því að segja að D. Chr. Petersen Eyrarbakkakaupmaður kærði þessa verslun landeigandans Bjarna fyrir dönskum yfirvöldum og var hún dæmd ólögleg og var Bjarna gert að hætta henni. Kæra Petersens er lýsandi fyrir tíðarandann á þessum tíma. Þarna erum við aftur komin að kjarna málsins, menn tilheyrðu ákveðinni stétt og samfélagið ætlaðist til þess að menn héldu sig þar. Bjarni sætti sig ekki við þessi málalok og ákvað vorið 1793 að sigla til Kaupmannahafnar í þeim tilgangi að verða sér úti um verslunarréttindi og lán til að geta hafið verslunarrekstur. Óhætt er að segja að Bjarni hafi verið réttur maður á réttum stað því þetta sama ár voru verslunarhúsin í Hafnarfirði tekin af Muxoll kaupmanni sem keyrt hafði sinn rekstur þar í gjaldþrot og ekki var búið að úthluta verslunarleyfinu í bænum.
Bjarni fékk 4.000 rd rekstrarlán auk þess sem hann skuldbatt sig til að taka við Hafnarfjarðarversluninni frá og með 24. apríl 1794. Bjarna hafði nú aftur tekist hið ómögulega, það er að klifra upp stéttastigann í annað sinn. Til að fullkomna klifrið breytti hann nafni sínu úr Bjarni Sigurðsson og skrifaði Bjarni Sívertsen undir skuldabréfið að danskra sið.
Veldi Bjarna og Rannveigar
Umsvif og áhrif Bjarna jukust hratt í Hafnarfirði og til merkis um það keypti hann konungsjarðirnar Akurgerði og Ófriðarstaði (síðar Jófríðarstaði) árið 1804 og ellefu árum síðar keypti hann einnig jörðina Hvaleyri og var hann þá kominn með yfirráð yfir stærstum hluta lands í firðinum. Þessa aðstöðu sína notaði hann meðal annars til að láta keppinauta sína í verslun í firðinum greiða sér rífleg lóðargjöld.
Skömmu fyrir aldamótin hóf hann einnig samhliða verslunarrekstrinum útgerð á þilskipum frá Hafnarfirði. Hann vissi að margar þjóðir höfðu verið við veiðar við Ísland og gengið vel. Því þarf ekki að undra að Bjarni hafi velt því fyrir sér hvers vegna Íslendingar gætu ekki hagnast á þessum veiðum eins og Bretar eða Hollendingar svo dæmi séu tekin.
Ófriðarstaði keypti Bjarni í þeim tilgangi að reisa þar skipasmíðastöð. Árið áður hafði hann gert tilraun með skipasmíði í fjörunni við Akurgerði og tókst svo vel til að hann afréð að reisa skipasmíðastöðina. Árið 1806 sannaði svo þessi skipasmíðastöð nauðsyn sína því þá um vorið kom póstskipið hingað til lands mikið laskað eftir óveður sem það hreppti á leið sinni til landsins. Var gert við skipið í skipasmíðastöð Bjarna í Hafnarfirði og var það eini staðurinn hér á landi sem réð við það verkefni. Á næstu áratugum óx stöðugt veldi og auður Bjarna og Rannveigar en auk verslunarinnar sem þau ráku í Hafnarfirði opnuðu þau einnig verslanir í Reykjavík og Keflavík. Jafnhliða verslunarrekstrinum ráku þau öfluga þilskipaútgerð að ógleymdri skipasmíðastöðinni.
Bjarni bjargar þjóðinni
Um haustið 1807 lét Bjarni úr höfn í Hafnarfirði á skipi sínu De tvende Söstre en samferða honum var meðal annarra Magnús Stephensen konferensráð. Ferð þeirra var heitið til Kaupmannahafnar en þá hafði sú frétt ekki borist til landsins að stríð geisaði á milli Dana og Englendinga. Skemmst er frá því að segja að 19. september hertóku Englendingar skip Bjarna og þau sem í samfloti voru og færðu til hafnar í Skotlandi. Samkvæmt æviminningum Bjarna voru Íslandsförin 15 sem Englendingar hertóku þetta haust. Það var fyrirséð að ef skipin fengju ekki að flytja vistir til Íslands myndi ekkert annað en hungursneyð bíða þjóðarinnar.
Til að reyna að koma í veg fyrir þetta sneru Bjarni og Magnús sér til Sir. Josephs Banks, sem var breskur náttúrufræðingur og mikill Íslandsvinur eftir að hann heimsótti landið 1772. Banks var mikilsmetinn maður í Englandi og forseti Konunglegu bresku vísindaakademíunnar 1778-1820. Bjarni taldi það lífsspursmál fyrir þjóðina að Íslandsförin fengju að sigla með vistir og annað til Íslands. Í endurminningum sínum lýsti Bjarni sjálfur atburðunum í London á eftirfarandi hátt: „Síðan fengum við honum [Banks] okkar bónarbréf til höndlunarráðsins um það, að Íslensk höndlunarskip yrðu frígefin, og að þau, meðan á stríðinu stæði, mættu fara á milli landa, því annars mundi fólk á Íslandi ei geta lífi haldið.“
Bjarna Sívertsen tókst með aðstoð Magnúsar og Banks að fá öll skipin utan eitt látin laus síðla sumars 1808. Helstu rökin sem þeir beittu voru að öll skipin utan það eina sem ekki fékkst látið laust hefðu verið tekin fyrir 4. nóvember en þann dag sögðu Englendingar Dönum formlega stríð á hendur. Fyrir þessa vinnu sína og önnur afrek í þágu Íslands, eins og það var orðað, var Bjarni Sívertsen sæmdur Riddarakrossi Dannebrog-orðunnar 11. apríl 1812 af Friðriki VI, konungi Danmerkur og Íslands. Eftir það var hann ávallt kallaður Bjarni riddari.
Úti er ævintýri
Það var þó eins með þetta ævintýri og önnur að allt tekur enda og miðvikudaginn 24. ágúst 1825 lést Rannveig Filippusdóttur í Sívertsenshúsinu í Hafnarfirði. Í kjölfarið var búi þeirra hjóna skipt upp og dróst verslun Bjarna þá mikið saman. Skömmu síðar hætti Bjarni verslunarrekstri sínum í Hafnarfirði og fluttist alfarinn til Kaupmannahafnar þar sem hann giftist í annað sinn. Seinni kona Bjarna var dönsk og hét Henriette Claudie, fædd Andersen. Eignuðust þau saman eina dóttur. Tveimur árum síðar, eða í júlí 1833 andaðist Bjarni í Danmörku, þar sem hann þrátt fyrir glæstan feril, hvílir nú í týndri og ómerktri gröf líkt og margir íslenskir kotbændur frá hans tíð.
Elsta húsHafnarfjarðar
Sívertsens-húsið er elsta hús Hafnarfjarðar byggt á árunum 1803-05 af Bjarna Sívertsen ,,föður Hafnarfjarðar”. Húsið sem er múrað í binding var fyrst reist í Danmörku en síðan flutt til Íslands og reist á Akurgerðislóðinni þar sem það stendur enn. Upphaflega var húsið íbúðarhús Bjarna Sívertsen og fjölskyldu hans en síðar hefur það gengt ýmsum hlutverkum uns það var gert upp í upprunalega mynd og gert að safni til að heiðra minningu Bjarna Sívertsen og Rannveigar Filippusdóttur. Á sjötta áratug 20. aldar komu upp hugmyndir um að flytja húsið í Hellisgerði, gera það upp og opna í því safn um Bjarna og sögu hans. Ekkert varð úr þessum áformum á þeim tíma en árið 1964 flutti Bjarni Snæbjörnsson ræðu á klúbbfundi hjá Rótarýklúbbi Hafnarfjarðar um húsið. Lagði hann eindregið til að klúbburinn beitti sér fyrir varðveislu og endurreisn þess og í febrúarmánuði 1965 heimilaði Bæjarstjórn Hafnarfjarðar Rótarýklúbbnum að endurbyggja hús ið og ákvað jafnframt að greiða úr bæjarsjóði ¼ kostnaðarins enda átti allt verkið að vera unnið í samráði við þjóðminjavörð og bæjarverkfræðing. Bæjarstjórn tók húsið uppá sína arma endanlega árið 1973 og ári síðar var það vígt sem sýningahús á vegnum Byggðasafns Hafnarfjarðar.
Úr dagbók Henry Holland í Íslandsferð 1810
Skemmtileg lýsing er til af því þegar Englendingurinn Henry Holland kom til Hafnarfjarðar árið 1810 en þá stóð veldi Bjarna þar hvað sterkustu fótum. „Það er einkennilegt að koma til Hafnarfjarðar. Háir og úfnir hraunkambar fela staðinn fyrir komumanni, þar til hann kemur fram á hraun brúnina, en þá opnast fyrir honum fjarðarbotn, og við hann standa 15–20 íbúðarhús úr timbri, lík reykvísku húsunum, en líta þó yfirleitt betur út. Þetta er Hafnarfjörður.
Helzti maðurinn þar á staðnum er Bjarni Sívertsen, vel efnaður kaupmaður. Hann var um þessar mundir í Englandi eða öllu heldur á heimleið þaðan, en kona hans, frú Rannveig Sívertsen, var heima ásamt tveimur börnum þeirra, syni og dóttur. Sonurinn er fríður unglingur, hógvær, kurteis og vel menntaður. Hann talar vel ensku en hefir þó aldrei til Englands komið, en bæði systkinin hafa dvalizt nokkur ár í Kaupmannahöfn. Við vorum kynntir þeim á dansleiknum í Reykjavík og þáðum þá heimboð til fjölskyldunnar, þegar leið okkar lægi um Hafnarfjörð. Minnugir þess héldum við beina leið til húsa Sívertsens kaupmanns. Þar var okkur tekið með svo hjartanlegri gestrisni, að okkur hlýnaði um hjartarætur.
Heimili Bjarna Sívertsens er hið langfegursta, sem við enn höfum séð á Íslandi. Það er ekki nóg að segja að það sé fallegt, heldur er það beinlínis glæsilegt, bæði að húsgögnum og öðrum innra búnaði og umgengni. Í setustofunni eru þrír stórir speglar, og tveir að auki í stærsta herberginu, Miðdegisverðurinn var framúrskarandi vel framreiddur. Þar var á borð borið stórt fat með kindakjötssmásteik ásamt Lundúnabjór, einnig voru á borðum pönnukökur, búnar til af frábærri kunnáttu, kryddaðar með kúrennum auk annars góðgætis. Við sváfum í æðardúnssængum, þvoðum okkur úr Windsor-sápu, – í stuttu máli nutum þess munaðar, sem engan okkar hefði dreymt um, að fyrir hittist á ferðalagi um Ísland.“
Heimild:
Fjardarpósturinn, 39. tbl. 31. árg. Fimmtudagur 24. október 2013, bls. 7,8 og 10.