Færslur

Kaplakriki

Hér verður lítillega fjallað um húsbyggjendur og íbúðaeigendur á fyrstu árum Sjónarhóls í Hafnarfirði, eða allt þangað til þáverandi hús var fært FH að gjöf árið 1965.

Halldórsstaðir

Halldórsstaðir.

Í bókinni, “Að duga eða drepast” (útg. 1962), sögu Björns Eiríkssonar skipstjóra og bifreiðastjóra sem Guðmundur Gíslason Hagalín skrásetti, er að finna merkilegar heimildir um lífið á Ströndinni rétt um og fyrir og eftir aldamótin 1900. Fyrsti kaflinn er afskaplega falleg lýsing, einskonar héraðslýsing á Vatnsleysuströndinni. Þar fangar sögumaður mjög vel andstæðurnar í landslaginu og en gerir sér um leið grein fyrir sögu byggðarinnar.

Í “Dánarminning” um Eirík Jónsson í Morgunblaðinu 21. júlí 1922 segir:

Halldórsstaðir

Halldórsstaðir á Vatnsleysuströnd.

“Hinn 18. apríl 1922 drukknaði í fiskiróðri Eiríkur Jónsson á Sjónarhól í Hafnarfirði, ásamt syni sínum Jóni Ágúst og Ara B. Magnússyni, syni Magnúsar Jóhannessonar verkstjóra í Hafnarfirði. Eiríkur sál. var fæddur í Hátúni á Vatnsleysuströnd 2. júní 1857. Var hjá foreldrum sínum þar til hann var 7 ára, fór þá að Njarðvík og ólst þar upp til tvítugs aldurs; fluttist þá í vinnumennsku að Landakoti á Vatnsleysuströnd.
LandakotVar lausamaður á Þórustöðum í sömu sveit þar til hann kvæntist 20. júní 1889 eftirlifandi konu sinni, Sólveigu G. Benjamínsdóttur frá Hróbjartsstöðum í Hnappadalssýslu. Fluttist hann þá að Halldórsstöðum á Vatnsleysuströnd og bjó þar í átján ár, eða til ársins 1907, er hann fluttist til Hafnarfjarðar, og dvaldi þar síðan.

Þau hjón eignuðust ellefu börn; af þeim dóu tvö í æsku og tveir synir þeirra drukknuðu í sjónum uppkomnir, Benjamín Franklín, sem drukknaði við Vestmannaeyjar af skipinu “Argo” 28. febr. 1910, og Jón Ágúst, er drukknaði með föður sínum, 20 ára gamall.

Grindavík

Opinn tíæringur.

Eiríkur sál. stundaði alla æfi sjómennsku og þó mestmegnis eða nær eingöngu á opnum fleytum; byrjaði þá atvinnu strax eftir fermingu og fór að verða formaður strax um tvítugs aldur. Stundaði hann fiskveiðar á opnum bátum alllengi á Austurfjörðum og víðar kringum landið, og var þá ætíð formaður, og þótti takast vel. Eiríkur sál. var kappsmaður til sjósóknar meðan heilsan leyfði, enda kappsmaður í flestu, sem hann lagði hug og höfn að. Hann átti oft við þröngan efnahag að búa, og var honum það víst oft áhyggjuefni, því hugurinn var mikill og skapið stórt.

Halldórsstaðir

Halldórsstaðir á kampinum – sjóhús.

Þau hjón áttu oft mjög erfitt með að framfleyta heimili sínu, meðan þau bjuggu á Halldórsstöðum, enda þá oft fiskileysi; einnig munu ef til vill þröngsýnisáhrif annara þar ráðandi manna oft og einatt hafa beiskjað þeim lífið meira en vera hefði átt. Aftur á móti mun efnahagur og geta hafa orðið meiri eftir að þau komu til Hafnarfjarðar, enda þótt heilsa væri þá farin að lamast allmikið. En kona hans var honum samtaka, og var og er enn dugnaðar og tápkona, enda hefir hún víst oft orðið að taka á slíku um ævina, eins og margar þær konur, er í slíkum sporum hafa staðið.

Sólveig G. BenjamínsdóttirEiríkur sál. byggði sjer gott og myndarlegt íbúðarhús í Hafnarfirði og vann mikið að því að laga í kringum það.” – S.G.

Í Nýju kvennablaði árið 1947 er grein um “Sumarbarnið“, Sólveigu G. Benjamínsdóttur:
“Árið 1907 fluttist fjölskyldan til Hafnarfjarðar. Sýndu hjónin þá mikinn dugnað að koma sér upp húsi. Nefndu þau húsið sitt Sjónarhól. Hafði Sólveig svo lengi greiðasölu og hlynnti að mörgum fátækum, sjúklingum og sængurkonum. Nú eru sex börn hennar á lífi, öll landskunn, en þrjá syni sína og eiginmanninn missti hún í sjóinn.”

Skv. upplýsingum Byggðasafns Hafnarfjarðar liggur eftirfarandi fyrir um Reykjavíkurveg 22 (Sjónarhól):

Sjónarhóll

Reykjavíkurvegur 22 Sjónarhóll Eiríkur Björnsson sjómaður byggði húsið árið 1908. Hafði hann og fjölskyldan flutt til Hafnarfjarðar frá Halldórsstöðum á Vatnsleysu árið áður. Sólveig kona Eiríks fékk það hlutverk að velja húsinu lóð og valdi því stað á lóð er þá var í eigu Garðakirkju, með útsýni yfir fjörðinn og kom því nafnið að sjálfu sér, „Sjónarhóll“. Umsjón með byggingunni hafði Jóhannes Reykdal en yfirsmiður var Eggert Böðvarsson og lauk smíðinni á jólaföstu 1908. Var Egill Eyjólfsson málari fenginn til að mála skilti á húsið. Rauða rós á fagurgrænum stilk málaði Egill framan við heiti hússins. Síðar var það í höndum Árna Árnasonar málarameistara að endurmála skiltið en þá var það aðeins nafn hússins.

“Árið 1907 fluttu hjónin Eiríkur Jónsson (1856-1922) og Sólveig Benjamínsdóttir (1866-1949) frá Halldórsstöðum á Vatnsleysuströnd til Hafnarfjarðar með börn sín, sem þá voru orðin 7, en alls eignuðust þau 11 börn. Árið eftir hófust þau handa við að byggja sér hús. Sólveig hafði augastað á lóð við Reykjavíkurveg, gegnt fiskreitum Brydesverslunar (fyrir norðan og vestan þar sem Reykjavíkurvegur og Skúlaskeið mætast nú), en það land átti Garðakirkja. Sólveig lét sig ekki mun um að fara á fund Jens Pálssonar prófasts og falast eftir lóðinni. Hann tók bón hennar vel og lóðin varð þeirra. Á hæðinni sem húsið stóð var útsýni til allra átta og fékk húsið því nafnið Sjónarhóll og var númer 22 við Reykjavíkurveg. Á lóðinni var einungis ber klöpp, enginn jarðvegur og ekkert lausagrjót, því það hafði allt verið flutt yfir veginn á reiti Bydes.

Það varð því að flytja að allt grjót í sökkulinn undir húsið. Húsð var 10 álna langt og 9 á breidd og allmikill skúr við norðurendann. Niðri var eldhús og tvö herbergi — og önnur tvö uppi á loftinu. Bárujárn var á þaki. Milli laga í veggjum var troðið hefilspónum. Stór og góð eldavél var í eldhúsinu, og þótti sá hiti, sem frá henni lagði um húsið, nægileg upphitun, svo að ekki voru keyptir ofnar, enda þótti húsið verulega hlýtt.

Hafnarfjörður

Hafnarfjörður – herforingjaráðsuppdráttur 1903.

Smíði hússins var lokið á jólaföstu 1908 og næsta vor fékk Sólveig Eyjólf Illugason málara til að mála nafn hússins á skilti sem sett var á húsið. Framan við nafnið málaði hann rauða rós á fagurgrænum stöngli. Þegar spjaldið var síðar endurmálað var rósinni sleppt.

Þann 18. apríl 1922 drukknaði Eiríkur ásamt Jóni Ágústi (1901-1922) syni sínum, sem var um tvítugt, og þriðja manni þegar bátur þeirra fórst í ofsaveðri.
Haustið 1946 hófst Björn Eiríksson (1894-1983), sonur Eiríks og Sólveigar, handa við að grafa fyrir nýju húsi í norðausturhorni lóðar Sjónarhóls.

Sjónarhóll

Sjónarhóll hinn nýi um 1980 – Á myndinni eru, talið frá vinstri: Árni Ágústsson (3. apríl 1922 – 6. apríl 2008), Bergþór Jónsson (15. júlí 1935-) og Björn Eiríksson (9. september 1894 – 7. maí 1983).

Þegar búið var að steypa kjallarann sumarið 1947 hófst Björn handa um að færa gamla „hólinn“. Hann byrjaði á því að rífa skorsteininn úr húsinu, annars færði hann það með öllu í. Um leið og hann færði það, sneri hann því þannig, að norðurendinn sneri út að götu, en suðurendinn gekk inn á nýsteypta planið, þar sem Björn geymdi timbrið. Gamla húsið náði út á miðjan þennan steypt flöt og var vesturhliðin á suðurlóðamörkunum, þá fyrst fékk hann nægjanlegt rými fyrir nýja húsið. Þetta var mjög erfitt verk, en þannig fór minnst fyrir því og nú gat gamla húsið staðið þar sem það var komið, meðan verið var að byggja það nýja. Gísli Guðjónsson var aðalmaðurinn og verkstjóri við flutninginn á gamla húsinu, en sjálfur tengdi Björn við það vatnið og frárennslið. Bjó svo fjölskyldan áfram í húsinu í heilt ár.

Sjónarhóll

Bautasteinn að baki Sjónarhóli – Á myndinni eru, talið frá hægri: Árni Ágústsson, Björn Eiríksson og Bergþór Jónsson.

Björn flutti í nýja húsið ásamt Guðbjörgu Jónsdóttur (1894-1993) konu sinni í júní 1948, en áður höfðu tvö barna þeirra hafið búskap í húsinu. Á sjómannadaginn 2. júní 1957 lét Björn reisa á lóð sinni stuðlabergsstein til minningar um föður sinn og þrjá bræður sína sem drukknuðu. Sá bautasteinn var síðar fluttur í Kaplakrika, þar sem FH-ingar hafa aðstöðu.

Í gögnum frá Byggðasafni Hafnarfjarðar kemur fram að árið 1948 hafi Magnúsi Óskari Guðbjartssyni (1921-1994) verið heimilað að flytja gamla Sjónarhólshúsið á lóð númer 5 við Bröttukinn í Hafnarfirði. Þar var húsið sett á steyptan grunn og stækkað nokkuð. Ekki er vitað hversu lengi Magnús átti húsið, en í manntalsskýrslu árið 1953 býr hann þar enn ásamt konu sinni Hallgerði Guðmundsdóttur (f. 1924) og fimm börnum þeirra ásamt öðrum hjónum með eitt barn, sem hafa væntanlega leigt íbúð þá sem Magnús auglýsti til leigu í húsinu í ágúst 1950.

Brattakinn 5

Brattakinn 5.

Þess má geta að Björn Eiríksson sótti skiltið með nafni hússins þegar það hafði verið flutt í í heilu lagi í Bröttukinn, því hann taldi að aðeins eitt hús ætti að bera nafnið, en nýr Sjónarhóll var þegar risinn við Reykjavíkurveg. Skiltið er enn til, því það hangir nú yfir innganginum í félagsheimili FH-inga, Sjónarhól í Kaplakrika, en Björn var mikill velgjörðarmaður félagsins. (Skiltið það ‘atarna er nú horfið en eftir stendur nafnið “Sjónarhóll” með iðnaðarskrift ofan við innganginn.)

Björn Eiríksson

Bifreið með númerinu HF-1 og karlmaður í jakkafötum með kaskeiti. Maðurinn á myndinni er Björn Eiríksson, Björn á Sjónarhóli í Hafnarfirði.

Í Morgunblaðinu 1969 er grein um “Björn Eiríksson 75 ára – Að duga eða drepast“, eftir Guðmund Gíslason Hagalín. Þar segir m.a. um nefnda bók, sögu Björns um lífið og tilveruna:

“Ekki stóð á Birni til eins eða neins, og hófst með okkur ágæt samvinna.
Svo kom þá út á kostnað Skuggsjár Olívers Steins í Hafnarfirði bókin “Að duga eða drepast”, sem ég tel fyrir ýmsar sakir eina af merkustu bókum, sem ég hef skrifað.”

Og Guðmundur heldur áfram: ”

Að duga eða drepast

Að duga eða drepast. Saga Björns Eiríkssonar skipstjóra og bifreiðastjóra, skráð eftir handriti hans, munnlegri frásögn og fleiri heimildum. Guðmundur Gíslason Hagalín skráði.

Til sönnunar því, að ekkert sé þar ofsagt hjá okkur Birni, vil ég láta þess getið, að hin merka kona, Sigríður Sæland í Hafnarfirði, skrifaði mér bréf, þá er hún hafði lokið lestri bókarinnar og sagði, að frekar hefði Björn, bróðir hennar, dregið úr en ýkt, en hún var elzt barna þeirra Halldórsstaðahjóna og mátti því bezt muna erfiðleika fjölskyldunnar.

…Þar hefur og Björn látið reisa íslenzkan steindrang til minningar um föður sinn og þrjá bræður. Eiríkur Jónsson og Jón Ágúst, sonur hans drukknuðu í fiskiróðri á báti Eiríks 18. apríl 1922. Benjamín Franklín við Vestmannaeyjar 28. febrúar 1910, einnig í fiskiróðri, og Bjarni fórst á Fieldmarshal Robertson í Halaveðrinu mikla 1925. Eru nöfn þeirra feðga, ásamt fæðingar- og dánardægrum höggvin á dranginn. Stendur þessi drangur ekki aðeins til minningar um þessa feðga, sem sjórinn hremmdi, heldur vitnar hann einnig ljóslega um eitt af styrkustu skapgerðareinkennum Björns Eiríkssonar, ræktarsemi hans og tryggð, sem ekki nær einungis til nánustu skyldmenna, heldur og allra, sem hann hefur bundið vináttu við.

Kaplakriki

Bautarsteinninn við inngang “Sjónarhóls” í Kaplakrika.

Björn lítur svo á, að íþróttir séu ómetanlegur þáttur í uppeldi ungs fólks, og fyrir fáum árum ánöfnuðu þau hjónin Fimleikafélagi Hafnarfjarðar Sjónarhól eftir sinn dag, þar eð þau munu líta svo á, að þau hafi að fullu rækt foreldraskyldur við börn sín.” – Guðmundur Gíslason Hagalín

Í Morgunblaðinu 1965 má finna fyrirsögnina “FH færð að gjöf glæsileg húseign við aðalgötu Hafnarfjarðar – Bjöm Eiríksson og kona hans gefa Sjónarhól við R.víkurveg Fimleikafélagi Hafnarfjarðar“:
“FH hefur verið færð stórkostleg gjöf, sem [varla á] sér hliðstæðu í sögu íþróttahreyfingarinnar hér á landi. Hjónin Björn Eiríksson og Guðbjörg Jónsdóttir hafa ákveðið að gefa FH húseignina Sjónarhól nr. 22 við Reykjavíkurveg í Hafnarfirði ásamt lóðarréttindum og tveim bilskúrum. Eignin verður félaginu til ráðstöfunar og hagnýtingar þegar það hjónanna er lengur lifir er fallið frá.

Húsið Sjónarhóll, sem verður þannig eign FH að þeim hjónum látnum, er sem kunnugt er öllum Hafnfirðingum nr. 22 við Reykjavíkurveg. Stærð hússins er 13 x 11 m. Húsið er tvílyft steinhús með risi og kvistum.

SjónarhóllMeð gjöf sinni vilja þau hjónin stuðla að því að sem flestum hafnfirzkum unglingum gefist kostur á að fá þá aðhlynningu og aðhald á uppvaxtarárum sínum, sem þau telja að félagsstarfsemi FH hafi veitt börnum þeirra. Ef stjórn FH telur rétt á sínum tíma að selja Sjónarhól ætti andvirði eignarinnar að verða drjúgur liður til að reisa veglegt félagsheimili FH á þeim stað sem stjórnin telur heppilegri. Þannig myndi gjöfin alla vega verða lyftistöng fyrir enn öflugri og víðtækari starfsemi félagsins.
Stjórn FH og allir þeir, sem hafa unnið að félagsstörfum FH á undanförnum árum eru hrærð ir yfir hinni rausnarlegu gjöf. Betri og varanlegri meðmæli er ekki hægt að hugsa sér.

Kaplakriki

Kaplakriki – áletrun á bautasteininum.

Þessi gjöf verður ómetanleg fyrir FH og íþróttahreyfinguna í Hafnarfirði, í þeirri merkingu að menn yngri og eldri fyllast krafti, sem mun koma fram í félagsstarfseminni á komandi árum, ekki hvað síst í að vera hvetjandi afl ungum sem gömlum.

Samþykki þeirra systkinanna fyrir gjöf foreldranna verður fagur og sterkur minnisvarði foreldra þeirra. Og það verður verk FH að framlag þeirra hjónanna verði til þess að hin unga æska Hafnarfjarðar verði aðnjótandi þeirra áhrifa, sem þau telja að hafi orðið svo mikilvæg fyrir uppeldi barna þeirra.”

Þeim hjónum, sem og afkomendum þeirra, hefur verið sýndur ýmiss sómi í vistarverum FH í Kaplakrika.

Halldórsstaðir

Halldórsstaðir – áletrun á málverki; “Halldórsstaðir, fæðingarheimili Björns Eiríkssonar – 9. 9. 1894”.

Í vistarverum Sjónarhóls í Kaplakrika hangir uppi málverk frá þeim hjónum af Halldórsstöðum á Vatnsleysuströnd. Á rammanum er skilti með meðfylgjandi áletrun; “ “Halldórsstaðir, fæðingarheimili Björns Eiríkssonar – 9. 9. 1894”.

Saga Eiríks, Sólveigar, Björns og Guðbjargar er vel þess virði að henni sé gefinn nánari gaumur – þótt ekki væri fyrir annað en ruglið í fornleifaskráningum og misvísunum í heimildum er varða fæðingarstað Björns að Halldórsstöðum. Sú saga þarfnast nánari og betri skýringa, þótt ekki væri fyrir annað en að teknu tilliti til þeirra miklu minja, sem þar er enn að finna….

Heimildir:
-Morgunblaðið, 21. júlí 1922, Dánarminning, bls. 3.
-Nýtt Kvennablað. 4. tbl. 01.04.1947, Sumarbarnið, bls. 5.
-https://husaflutningar.is/brattakinn-5-hafnarfirdi/
-Morgunblaðið, 9. sept. 1969, Björn Eiríksson 75 ára, Að duga eða drepast, bls. 24.
-Morgunblaðið 16. des. 1965, FH færð að gjöf glæsileg húseign við aðalgötu Hafnarfjarðar, bls. 2.
Halldórsstaðir

Halldórsstaðir á Vatnsleysuströnd. Málverkið hangir uppi á vegg í Sjónarhóli, aðstöðu FH í Kaplakrika.