Í Sveitarstjórnarmál 1980 fjallar Kristján Benediktsson um “Bláfjallafólkvang“.
“Hinn 31. janúar 1973 samþykkti náttúruverndarráð stofnun fólkvangsins, og með auglýsingu í Stjórnartíðindum tveimur mánuðum síðar má segja, að hann hafi verið orðinn að raunveruleika. Þau sveitarfélög, sem í upphafi stóðu að Bláfjallafólkvangi, voru Reykjavík, Kópavogur, Seltjarnarnes og Selvogur. Síðar bættust í hópinn Hafnarfjörður, Garðabær og Keflavík.
Meðfylgjandi uppdráttur sýnir vel legu Bláfjallafólkvangs og veginn á skíðasvæðin, sem tengist Austurveginum víð Sandskeið. Austurhornið er Vífilfell. Þaðan liggur línan eftir háhrygg fjallgarðsins í Kerlingahnúk á Heiðinni há. Hæsti punkturinn á fjallshryggnum er Hákollur, 702 metrar, og er hann beint upp af Kóngsgili. Frá Kerlingahnúk liggja mörkin um Litla-Kóngsfell, Stóra-Bolla og í Heiðmerkurgirðinguna við Kolhól.
Síðan eru mörkin um Heiðmerkurgirðingu að punkti, sem skerst af línu, sem dregin er milli Stríps og Stóra-Kóngsfells. Síðan liggja mörkin um Sandfell, norðvestur af Rjúpnadölum, í koll Vífilfells.
Innan Bláfjallafólkvangs er mikið um hraun og eldstöðvar margar. Víða í hraununum eru op og hellar og vissara að fara með gát um þau svæði og fylgja merktum gönguleiðum.
Eldborg er friðlýst náttúruvætti rétt við veginn. Hún er falleg eldstöð, sem mikið hraun hefur komið frá. Vegurinn frá brekkubrúninni norðan Rauðuhnúka og upp á skíðaslóðirnar liggur mestan part á Eldborgarhrauni.
Skammt frá Eldborginni eru tvö fell, Stóra-Kóngsfell (596 m), þar sem fjallkóngar skipta leitum, og Drottningarfell, sem bæði er lægra og minna um sig. Hvergi hef ég séð nákvæma stærðarmælingu af Bláfjallafólkvangi. Ekki mun fjarri lagi að áætla, að hann sé 70—80 km2.”
Heimild:
-Sveitarstjórnarmál 01.02.1980, Bláfjallafólkvangur, Kristján Benediktsson, bls. 7-8.