Færslur

Blesugróf

Í Lesbók Morgunblaðsins árið 1966 skrifaði Ragnar Lár, myndlistarmaður, m.a. um “Blesugróf“:
BlesugrófÞeir gerast æ færri borgarbúarnir sem vita hvar Blesugrófin er, eða var. Enn færri munu þeir vera sem vita hvar Fjárborgin stóð. Þó eru þessi svæði innan borgar- og bæjarmarka Reykjavíkur og Kópavogs. Kannski er það ofsagt að fáir viti hvar Blesugrófin er að finna. Blesugrófin er á milli Breiðholtsbrautar, Smiðjuvegar og Fossvogsdalsins. Árið 1963 lá hlykkjóttur vegur upp frá Suðurlandsbraut, fram hjá gamla Fáksvellinum og upp á Vatnsendahæð. Þar sem vegurinn fór næst Elliðaánum lá afleggjari til austurs, inn í malargryfjur sem þar voru og mótar enn fyrir. Stálinu hefur verið jafnað niður og sáð í melinn og eru þar hólar og hæðir sem áður voru gryfjurnar.

Höfðaborgin

Höfðaborgin við Borgartún.

Fyrstu árin eftir stríð byggðu menn hús sín í óleyfi innan við bæinn, eins og það var kallað. Fólkið sem flutt hafði á mölina á stríðsárunum hafði holað sér niður á hinum ólíklegustu stöðum í bænum. Þegar hermenn yfirgáfu braggana var óðar flutt inn í þá. Húsnæðiseklan sá til þess að hvert rúm var skipað. Yfirvöld bæjarins unnu að því að útrýma því heilsuspillandi húsnæði sem braggarnir voru taldir vera.

„Höfðaborgin” reis í öllu sínu veldi, svokallað fátækrahverfi Reykjavíkur. En Höfðaborgin dugði ekki til lausnar húsnæðisvandanum. Þeir voru margir daglaunamennirnir sem þráðu það eitt að eignast sitt eigið húsnæði, byggja það með eigin höndum, en það var engar lóðir að hafa hjá bænum.
Blesugróf
Þá urðu Smálöndin til, þar sem nú standa stórbyggingar iðnaðar og verslunar, skammt fyrir neðan Grafarholt. í Smálöndum ólust upp margir ágætir þegnar þjóðfélagsins. Þar var einnig að finna fólk sem náði sér aldrei á það strik, sem kallast beint, samkvæmt mælikvarða þjóðfélagsútreiknaðra reglugerða. Sömu sögu var að segja um Blesugrófina.
Í Blesugróf byggði meðal annarra Tryggvi Emilsson, sá er ritað hefur einna beinskeyttastar bækur um ævi og kjör lítilmagnans á þessari öld. Í dag er Blesugrófin orðin að eftirsóttri vin í eyðimörk borgarinnar. Þar má í dag líta einhver indælustu hús höfuðstaðarins, í vinalegu og náttúrulegu umhverfi. En byggðin hófst með þeim er reistu sér híbýli á þessum stað, í óleyfi yfirvalda. Byggðu hús af vanefnum, yfir sig og sína og voru sjálfstæðir í örbirgðinni.
Blesugróf
Eins og gefur að skilja var byggingarstíllinn af ýmsum toga. Fæst voru húsin teiknuð fyrir fram og varla af dýrum teiknistofum byggingameistara. Það kenndi því ýmissa grasa í stíl og skipulagi. Smátt og smátt mynduðust götur og einfalt var að gefa þeim nöfn. A-gata, B-gata o.s.frv.

Blesugróf

Blesugróf.

Áður en Breiðholtshverfin fóru að byggjast, áður en algengt var að menn legðu leið sína inn og upp fyrir bæ, þá áttu fáir aðrir erindi í Blesugróf en þeir, sem áttu þar heima, eða erindi við íbúana. Sá er línur ritar ók þó nokkrum sinnum leiðina upp að Rjúpnahæð, eða Vatnsenda. Einn dag í október 1963, var raupari á ferð um þessa margræddu leið. Hann hafði nokkru áður tekið eftir sérkennilegu húsi sem stóð vinstra megin við Vatnsendaveginn, þá farið var upp eftir. Reyndar lá afleggjarinn upp í malargryfjurnar skammt frá þessu húsi, upp Elliðaárdalinn og með fram húsum á stangli, sem sum standa enn.

Blesugróf

Blesugróf 2020 – loftmynd.

Upphaflega höfðu sum þessara húsa verið sumarbústaðir, en eru heilsárshús í dag, þ.e.a.s. þau sem enn standa. Húsið fyrrnefnda var afar sérkennilegt. Það virtist byggt í nokkrum áföngum. Að nokkru leyti var það úr torfi og grjóti en að öðru leyti úr steinsteypu, eða múrhúðuðu timbri. Ekki var nokkur leið að segja til um þann tíma sem húsið var byggt. Það gæti svo sem verið að það hefði verið byggt á dögum Krists, ef maður vissi ekki af lestri bóka og kennslu úr skóla að engin bygging hafði risið á íslandi á þeim dögum.

Blesugróf

Börn í Blesugróf í bílaleik.

En myndir þær sem sjá má í biflíusögum renna stoðum undir þessa ályktun. Eitt var þó ólíkt með byggingarlaginu á Blesugrófarhúsinu og húsunum í biblíusögunum. Upp með sumum veggjum Blesugrófarhússins teygðu sig grasreinar, allt upp undir þak sums staðar. Já, þetta var mjög sérkennilegt hús. Í því voru að minnsta kosti tveir kvistgluggar, en erfitt að átta sig á því hvort húsið sjálft væri ein, tvær eða þrjár hæðir, vegna þess að engir tveir gluggar voru í sömu hæð. Kannski var húsið úr timbri og múrhúðað, en óslétt var það að utan og sérkennilegt.

Blesugróf

Blesugróf – Kastalinn 1972 (SÞ).

Á þessum tíma, 1963, gerði raupari rissu af þessu húsi og birtist hún með þessum línum. Löngu seinna komst hann að því, að listvefarinn Óskar Magnússon hafði búið í þessu húsi ásamt konu sinni. Óskar hafði byggt húsið með eigin höndum,eins og svo margir aðrir sem byggðu á þessum slóðum. Þegar byggðin færðist nær og allt bannsetta skipulagið byrjaði að eyðileggja bæinn, sem nú er borg og áður var bær og þar áður þorp – og þar áður bær, var Óskari og hans spúsu gert að flytja úr húsi sínu, til að rýma fyrir „skipulögðu” svæði. Óskar gerði sér lítið fyrir og byggði sér hús undir hraunkambi uppi á Hellisheiði, til þess að vera viss um að verða ekki fyrir næsta skipulagi. Þar hélt hann áfram að vefa sín þekktu teppi á meðan kraftar entust. Bæði eru þessi veraldlegu skjól alþýðulistamannsins fallin, en verkin sem hann vann í þessum skýlum, reistum af eigin höndum, þau lifa.

Blesugróf.

Gömul mynd af einýlishúsi í Blesugróf: Þetta var kallað Kastalin og bjuggu þar Óskar Magnússon og Blómey kona hans. Þau höfðu geitur þarna líka. Þetta var fyrir neðan núverandi Reykjanesbraut og sjást ennþá minjar þar.

Þessu línum fylgir rissteikning af „pósthúsi” þeirra sem í Blesugróf bjuggu. Þrátt fyrir allt virðist hið opinbera hafa séð fyrir því að það „utangarðsfólk” sem Blesugrófina byggði, skyldi njóta póstþjónustu sem annað fólk. Kannski hefur þetta verið ráðstöfun þess opinbera, til að geta örugglega komið opinberum rukkunum til skila. Þó það fólk sem átti sitt líf í þessum „afkima” borgarinnar, byggi í óleyfilegu húsnæði, greiddi það sín gjöld til bæjarins. Sumir unnu hjá sjálfum bænum, sumir á Eyrinni og aðrir annars staðar. Það var auðséð á „pósthúsinu”, að það hafði fleiri hlutverkum að gegna. í húsinu voru greinilega íbúðir, tvær, þrjár eða fjórar. Múrhúðað timburhús, tveggja eða þriggja hæða. Það var ekki svo gott að segja til um það. Gluggarnir á hæðunum stóðust ekki á. En gamla „smelti” skiltið sagði ótvírætt „Pósthús”. Fyrir utan þetta hús stóð gamall pallbíll og mátti muna sinn fífil fegri. Hann hafði greinilega staðið þarna lengi og sást það best á því, að hjólin voru byrjuð að sökkva í jörðu, eða þá að móðir jörð var byrjuð að klæða þau grænum feldi. Hvar skyldi sá gamli pallbíll vera í dag?
Skammt ofan og sunnan við Blesugrófina var Fjárborgin.

Blesugróf

Garðstunga í Blesugróf.

Þar sem hún stóð eru nú virðuleg einbýlishús og tilheyra Smiðjuvegi í Kópavogi. Þarna áttu þeir athvarf með rollur sínar, sem ekki gátu slitið sig frá búskaparvenjum sveitanna, en höfðu tilneyddir flutt á mölina.

Almannadalur

Almannadalur og Fjarborg séð til suðurs, Reykjavík.

Þarna byggðu þeir fyrir nokkrar skjátur, hrófatildur úr ýmsum efnum. Daglega fóru þessir „fjáreigendur” inn eftir að huga að sínu fé. Á vetrum var leiðin oft löng fyrir þá sem bjuggu lengra frá. Þeir létu það ekki á sig fá. Sannir fjárbændur setja ekki fyrir sig langan veg að beitar- eða fjárhúsum.

Þegar voraði iðaði allt af lífi í Fjárborg. Margur bæjarbúinn lagði leið sína inn í Fjárborg með börnin sín til að sýna þeim litlu lömbin. Margur, núna miðaldra, borgarbúinn komst þarna í sín fyrstu kynni við litlu lömbin og það líf sem skapast í lífsins fjárhúsum. – Höfundur er myndlistarmaður og kennari.”

Heimild:
-Lesbók Morgunblaðsins – 14. tölublað (13.04.1996) – Texti og teikningar: Ragnar Lár, bls. 10.

Blesugróf 1954

Blesugróf 1954.