Færslur

Jón Arason
Böðullinn sem hjó Jón Arason biskup á Hólum og syni hans tvo, Ara lögmann og séra Björn á Melstað, 7. nóvember árið 1550, var íslenskur og hét Jón Ólafsson.
Norðlenskir hefndu þeirra feðga árið 1551. Í Setbergsannál segir:

Kirkjuból

Kirkjuból – grafstæði.

“Þegar þeir norðlenzku riðu frá Kirkjubóli eftir hefnd fyrir þá feðga, fundu þeir böðulinn, sem þá feðga líflét í Skálholti og hét Jón Ólafsson. Hann tóku þeir á Álftanesi og héldu í sundur á honum túlanum og helltu svo ofan í hann heitu blýi. Með það lét hann líf sitt, en þeir riðu síðan norður.” (Ann. IV. 63)
Í annarri heimild er sagt að norðlenskir hafi hellt heitu biki, en ekki blýi, ofan í Jón böðul sem í sumum heimildum er nefndur „herfileg kind“ og „drengtötur.“Oft urðu þeir menn böðlar sem gerst höfðu sekir um smáglæpi og ef til vill hefur það átt við um böðul biskupsins á Hólum. Í Setbergsannál segir frá Guðlaugi sem hafði stolið úr búðum danskra árið 1640. „Þar eftir fékk hann eða var tekinn fyrir böðul.“ (Ann.IV.89) Og í Eyrarannál er þess getið að árið 1671 hafi strákur verið strýktur í Skagafjarðarsýslu fyrir þjófnað. Hann fékk „60 högg og lofaði að verða böðull.“ (Ann.III.298)

Höggstokkur

Höggstokkur sá er þau Friðrik Sigurðsson og Agnes Magnúsdóttir voru hálshöggvin á 12. jan. 1830 af Guðmundi Ketilssyni, bróður Nathans þess er þau höfðu myrt. – Aftakan fór fram í Vatnsdalshólum í Húnavatnssýslu og lá höggstokkurinn þar síðan til þess er hann var sendur hingað suður af Árna Árnasyni frá Höfðahólum. – Hann er eikardrumbur, hefur verið röng í skipi. Við aftökuna var höggstokkurinn klæddur rauðu klæði. Hún var framkvæmd með böðulsöxi nýrri, er til þess var fengin; er nú blaðið af henni í safninu; hefur hún ekki verið notuð til aftöku síðan, því að þessar eru hinar síðustu hjer á landi. – Í þá hlið höggstokksins, er virðist hafa snúið upp við aftökuna, eru 2 stórar rifur og 1 lítil í milli. Sagt er að Guðmundur hafi höggvið af svo miklu afli að öxin hafi gengið nokkuð ofan í stokkinn; má vera að smárifan í miðju sje far eptir öxina, en í þeirri rifunni, sem næst er hökuskarðinu virðist jafnvel votta fyrir axarfari, miklu dýpra; sje það sönn sögn, að verið hafi tveggja manna tak að ná öxinni aptur úr stokknum hlýtur hún að hafa sokkið hjer í hann þá, en það var við fyrri aftökuna, Friðriks; hið smærra öxarfarið, ef það er svo, kann þá að vera eptir hina síðari. – Er þar sagt að öxin og höggstokkurinn hafi verið fengin frá Kaupmannahöfn.

Fyrr á öldum var var hálshöggning algeng refsing á Íslandi fyrir stórglæpi eins og morð og dulsmál, þar sem fæðingu barns var leynt og það síðan deytt. Þessari refsingu var þó nær eingöngu beitt gegn karlmönnum en konum var drekkt fyrir dulsmál. Sakamenn voru hálshöggnir með handöxi og höfuð þeirra stundum sett á stengur öðrum til viðvörunar.

Þingvellir

Þingvellir – aftökustaðir.

Svo virðist sem böðlar á Íslandi hafi ekki alltaf verið stétt sinni til sóma. Í Skarðsárannál segir frá aftöku Björns Þorleifssonar árið 1602:
Tekinn af á alþingi Björn Þorleifsson fyrir kvennamál og svall, fékk góða iðran. Biskupinn herra Oddur áminnti hann sjálfur. Hann kvaddi menn með handabandi, áður sig niður lagði á höggstokkinn, og bauð svo öllum góða nótt. Var hann með öllu óbundinn. Jón böðull, er höggva skyldi, var þá orðinn gamall og slæmur og krassaði í höggunum, en Björn lá kyr á grúfu, og þá sex höggin voru komin, leit Björn við og mælti: Höggðu betur, maður! Lá hann svo grafkyr, en sá slæmi skálkur krassaði ein 30 högg, áður af fór höfuðið, og var það hryggilegt að sjá. (Ann.I.187)
Eftir aftöku Björns voru yfirvöld áminnt um að hafa örugga menn í böðulsstarfi svo að landið yrði ekki að spotti.

-Af www.haskolinn.is

Jón Arason

Minnismerki um Jón Arason við Skálholt um 1970.