Færslur

Draugatjörn

Gengið var um Bolavelli og Nautastígur rakinn að hluta undir rótum Húsmúla. Þá var reynt að staðsetja svonefndan Bolastein, sem virtist hafa “gufað upp” í minnum manna.
SvæðiðSaga er tengd steininum, en hafa ber í huga að sögur verða stundum til vegna kennileita, en ekki þrátt fyrir þau. Nafngiftir tengdar nautahaldi undir Henglinum eru nokkrar, s.s. Bolaöldur og Bolavellir. Naut voru og höfð í Engidal (Nautadal) og/eða Marardal.
Í sögunni um Skeiða-Otta segir að “Bolavellir og Bolasteinn minna á söguna um [hann] og nautið ógurlega sem gekk í sumarhögum á völlunum við Kolviðarhól. Otti var bóndi austur á Skeiðum og átti erindi til Reykjavíkur þegar komið var að slætti og reið miklum kostahestum sem leið liggur vestur yfir Hellisheiði. Hann vissi um illræmdan griðung frá Viðey í högum hjá Kolviðarhóli og hafði hann orðið tveimur eða þremur mönnum að bana. Nautið lá við Bolastein og hóf þegar eftirför en Otti þeysti undan sem mest hann mátti. Samt dró saman með þeim og tók Otti þá það til ráðs að hann snaraðist af baki, tók upp hníf og lagðist niður milli krappra þúfna. Þar fleygði boli sér yfir hann, en Otti skar hann á kvið og helltust yfir hann innyflin. Drapst bolinn þar en Otti gat haldið ferð sinni áfram”.
Búasteinn við Öxnaskarð (Hellisskarð)Bolavellir eru nálægt Draugatjörn, vestan undir Húsmúla og sunnan Engidalskvíslar. Bolaöldur er vestar, á sýslumörkum. Norðurvellir eru á millum. Nautastígur er leiðin úr Nautadal og út á Norðurvelli. En hvar skyldi Bolasteinn vera nákvæmlega?
Í enskum texta um reiðleiðir á þessu svæði segir m.a.: “Kolviður á Vatni learned that Búi was heading to Iceland and spied on him. He rode with twelve men to attack him by means of ambush in Öxnaskarð Pass above Kolviðarhóll Hill. They waited by a rock, near the track, which is now called Bolasteinn or Bull’s Rock. Búi spotted the ambush in the pass and rode towards a huge rock; he had the rock to his back so that no one could approach him from behind.”
Í Kjalnesingasögu segir frá því þegar Kolviður á Elliðavatni sat fyrir Búa Andríðarsyni undir Hellisskarði og vildi drepa hann þar sem þeir vildu báðir eiga sömu stúlkuna. Búi varðist vel þar sem síðan heitir Búasteinn og drap Kolvið og menn hans alla en Kolviðarhóll heitir síðan eftir honum.
Sæluhúsið (tóft) við DraugatjörnSkv. framangreindu virðist Búasteinn ekki hafa verið alllangt frá Bolasteini.
Bolasteinar eru víðar um land. Sá, sem næst er fyrrgreindum steini, er stór steinn við Hjalla í Ölfusi. Í örnefnalýsingu segir: “þjóðsaga – Á grænni flöt vestan við [Bolasteins]rásina er stór steinn sem heitir Bolasteinn. Þar segir sagan að kona hafi bjargast upp undan mannýgum bola. Og þegar boli vildi ekki hafa sig burt, gat hún hellt úr nálhúsi sínu upp í hann. Þá fór hann að lina aðsóknina.” Þessi tilgreindi steinn er við bithaga.
Hverfum nokkrar línur frá efninu. Þegar minnst er á fornar götur á Hengilssvæðinu er helst að nefna Hellisheiðarveg. Þjóðvegur milli Reykjavíkur og Suðurlands lá lengi vel um Hellisheiði – og gerir enn. “Hinn forni þjóðvegur milli Árnessýslu og Mosfellssveitar lá úr Ölvesi upp Kamba. Af Kambabrún vestur Hellisheiði og svo um Hellisskarð, norðaustan megin
við Reykjafell, sem er fyrir ofan Kolviðarhól. Þaðan síðan um Bolavelli og vestur meðfram Húsmúla.”
Garður vestan DraugatjarnarGengið var með Húsmúlanum og hinn forni vegur rakinn. Hann greinist á nokkrum stöðum, bæði austan Draugatjarnar og norðan. Austurgatnamótin eru við forna sæluhúsatóft og norðurgatnamótin eru suðvestan Húsmúlahorns – þar sem Nautastígur kemur inn á Bolavellina úr Nautadal (Engidal/Marardal). FERLIR hafði fengið fregnir af enn eldri sæluhúsatóft uppi í vestanverðum Húsmúla. Við leitina komu nokkrir staðir til greina, en enginn óyggjandi.
Þegar staðið var uppi í Húsmúla mátti vel sjá hina fornu leið varðaða áfram frá sunnanverðri Draugatjörn áleiðis að Lyklafelli. Einnig elsta akveginn skammt sunnar. Vegur sá var lagður sumarið 1877 og 1878. Þetta var grjóthlaðinn vegur, 10 feta breiður, upphlaðinn og púkkaður með grjóti. Um var að ræða tímamótaframkvæmd því á þessum tíma var gatnagerð á Íslandi næsta því óþekkt.
Og þá aftur að Nautastígnum, sem ætlunin var að rekja. Í örnefnalýsingu segir að “inn í útsuðurhlíð Hengilsins gengur Engidalur. Er hann á milli Marardals og Húsmúlans. Í Engidal er Nautastígur. Nautastígur var leiðin úr Nautadal og út á Norðurvelli, sennilega á svipuðum slóðum og nú er merkt gönguleið er nú meðfram Engidalsá.” Minjar um akveginn 1877-1878 um Svínahraun
Stígurinn dregur nafn af því að nautgripir Ölfus- og Grafningsmanna voru geymdir í Engidal og á Bolavöllum þar vestan við. Hann er vel greinilegur enn í dag. Í raunininni er ekki um að ræða einn stíg heldur nokkra samhliða. Á köflum greinist hann í hliðarstíg, jafnvel nokkra, en við sjónhendingamörk verður hann aftur að sjálfum sér. Strangt tiltekið liggur “merkta gönguleiðin” því ekki alltaf í stígnum.
Á göngunni var bæði komið við í Húsmúlaréttinni suðvestan Draugatjanar og sæluhúsinu austan hennar. Húsmúlarétt telst til menningarminja á Hengilssvæðinu. Rétt þessi var notuð langt fram á 20. öld. Ekki er vitað með vissu hvað hún er nákvæmlega gömul. Réttin er hlaðin úr hraungrýti, sem og langur einhlaðinn grjótgarður vestan og norðan hennar. Líklega er um að ræða hluta af túngarði hér á árum áður, eða engi frá Kolviðarhóli. Sagt hefur verið að Guðni Þorbergsson (f. 1863 – d. 1920) fór að búa að Kolviðarhóli 1895. Stækkaði hann túnið og afgirti stórt land undir suðurhlíð Húsmúlans. Veggurinn er alls 463 metra langur, en nyrsti hluti hann er sokkinn í mýrarfen.
Sæluhúsið hefur verið við Draugatjörn frá fornu fari enda lá “gamla þjóðleiðin” þarna um, hvort sem komið var að vestan frá Lyklafelli eða að norðan frá Húsmúla. Einna elstu heimildir um þetta sæluhús, sem frægt var orðið, eru frá árinu 1703 og þá líka sögur um magnaða reimleika sem áttu sér stað í þessu sæluhúsi. Til forna var þetta sæluhús kallað “Draugakofinn gamli að Norðurvöllum”. Reyndar er sæluhúsið að sunnanverðum Bolavöllum, en FERLIR hefur haft fregnir af enn eldri sæluhúsatóft utan í Norðurvöllum. Ætlunin er að reyna að staðsetja hana þegar tími gefst til. Samkvæmt ferðabók Sveins Pálssonar frá árinu 1793 segir m.a. um sæluhúsatóftina (líklega er átt við þá við Draugatjörn):

Nautastígur

“Margir hafa dáið í þessum kofa, því oft hafa þeir ekki fundið hann fyrr en þeir voru örmagna af hungri og kulda.” Sökum reimleikanna þá var sæluhúsið fært upp á Kolviðarhól 1844. Að Kolviðarhóli var síðan rekið sæluhús/gistihús fyrir ferðamenn frá 1844 og allt til ársins 1952.
En eins og fyrr sagði þá lá gamla þjóðleiðin þarna um. Fjölfarinn en nýrri vegur var lagður yfir Svínahraun norðanvert árið 1878. Gamli vegurinn fylgdi hraunbrúninni og sjást vörður bæði vörður við hann og í hrauninu vestan Draugatjarnar. Greinilegir götuslóðar sjást svo á Hvannavöllum um miðja vegu milli Draugatjarnarinnar og Kolviðarhóls. (Hvönn má enn sjá í hólma einum í Draugatjörn).
Skoðum betur fyrirliggjandi upplýsingar. Neðan undir Búasteini er svonefnd áletrun á skilti.: “Búasteinn er talinn hafa nafn sitt af frækilegri vörn Búa Andríðarsonar sem frá er sagt í Kjalnesingar sögu. Búi og Kolfinnur á Vatni (Elliðavatni) höfðu báðir ásælst sömu konuna, Ólöfu hina vænu, dóttur Kols þess er byggði Kollafjörð.” Þá er rakin sögulýsing Kjalnesingarsögu. Í þeim hluta er tengd er steininum segir: “Þá reið Kolfinnur heiman upp til Öxnaskarðs við tólfta mann. Þar var með honum Grímur, frændi hans, og tíu menn aðrir; þeir sátu þar fyrir Búa. Í því bili reið Búi ofan úr skarðinu; hann sá mennina vopnaða; hann þóttist vita, hverjir vera mundi. Búi hafði öll góð vopn; hann var í skyrtu sinni Esjunaut. Búi reið til steins eins mikils, er stóð í skarðinu, og sté þar af hesiti sínum. Þeir hlupu þá þangað til.
Búi hafði haft snarspjót lítið í hendi; fleygði hann því til þeirra; það kom í skjöld Gríms ofanverðan; þá brast út úr skildinum, hljóp þá Varða við gömlu þjóðleiðina áleiðis að Lyklafellispjótið í fót Gríms fyrir ofan hné og þar í gegnum; var Grímur þegar óvígur. Búi sneri þá baki við steininum, því hann var svá mikill sem hamar; mátti þá framan að eins að honum ganga. …Kolfinnur eggjaði sína menn, en hlífðist sjálfur við, því hann ætlaði sér afurð; en þeim var Búi torsóttur, því að þótt þeir kæmi höggum eða lögum á hann, þá varð hann ekki sárr, þar er skyrtan tók; en hver sem hann kom höggum á, þá þurfi eigi um at binda.”
Við Kolviðarhól er skilti: “Um aldir hefur þjóðleið milli vesturhluta Árnessýslu og Kjalarnesþings legið um Hellisheiði. Á svo langri langri leið var nauðsyn að hafa sæluhús og var hið fyrsta sem heimildir frá 1703 geta um við Draugatjörn. Um 1800 fór að kveða svo hart að draugagangi í sæluhúsinu að margir veigruðu sér við að gista þar og því var byggt timburhús á hlöðnum sökkli hér á Kolviðarhóli árið 1844. Á þessum tíma voru ekki mörg timburhús á Íslandi og er þessi íburður til marks um mikilvægi leiðarinnar. Húsið rúmaði 24 Skeifa í læk við Nautastígmenn og einnig var skjól fyrir 16 hross. Þrjátíu árum síðar var það að falli komið og árið 1878 var byggt nýtt steinhús á hólnum. Þetta var ein af fyrstu opinberu framkvæmdum sem Íslendingar réðust í eftir að þeir fengu sjálfstæðan fjárhag 1874.”
Og þá að mannvirkjunum við Draugatjörn. Af lýsingum að dæma virðist nafngiftin á tjörninni ekki vera eldra en frá því um 1800 – því áður er ekki getið um draugagang þarna. Tjörnin hafði þó verið í þjóðleið um aldir og því eflaust haft annað nafn, sem nú er glatað. Skilti við sæluhústóftina gefur eftirfarandi upplýsingar: “Við Draugatjörn hefur staðið sæluhús frá fornu fari. Það er frægt, bæði fyrir að vera eitt hið elsta sem góðar heimildir eru mum hé rá landi en ekki síður fyrir magnaða reimleika sem að lokum urðu til þess að húsið var fært upp að Kolviðarhóli 1844. Sveinn Pálsson lýsir húsinu í ferðabók sinni 1793 og segir þar m.a.: “Margir hafa dáið í þessum kofa því oft hafa þeir ekki fundið hann fyrr en þeir voru örmagna af hungri og kulda”. Gamla þjóðleiðin lá hér um og var fjölfarin, en nýr vegur var lagður yfir Svínahraun norðanvert árið 1878.

Varða við gömlu þjóðleiðina milli Kolviðarhóls og Reykjavíkur

Gamli vegurinn fylgdi hraunbrúninni og sjást vörður í hrauninu vestan Draugatjarnar. Enn fremur sjást greinilegir götuslóðar á Hvannavöllum um miðja vegu minni tjarnarinnar og Kolviðarhóls.” Þá er rakin ein draugasagan: “Til er draugasaga sem segir frá Grími bónda á Nesjavöllum [langafa Ólafs Ragnars Grímssonar, forseta Íslands] laust eftir aldarmótin 1800. Grímur þessi var annálaður þrekmaður og refaskytta góð. Hann var ríðandi á heimleið úr kaupstað en neyddist til að dvelja næturlangt í sæluhúsinu. Þar var þó enginn svenfriður vegna draugagangs: “Var mesti ys og þys inni, eins og þar væri fjölmenni í sífelldu iði. Virtist honum, sem sumt af þessu fólki væri þarna komið til að sækja gleðskap, og var mikið talað og dátt hlegið, en ekkert sér Grímur eða finnur. Starir hann út í myrkrið lengi vel. Loks sýnist honum bregða fyrir eldglæringum úti í því kofahorninu, sem fjærst honum var, og er hann horfir betur, sér hann tvo lýsandi depla, líkasta glóðarkögglum. Urðu þeir brátt eins og mannsaugu, og var sem þrútnar æðar greindust um augnhimnurnar. Grímur einblínir á þetta nokkra stund, en þá fóru augun að færast fjær honum og störðu á hann mjög illkvitnislega. Grímu tókst að lokum að flýja sælihúsið við illan leik en sturlaðist og varð aldrei samur.
Á fyrri hluta 19. aldar gisti Sigurður Breiðfjörð, rímaskáld í sælhúsinu ásamt nokkrum öðrum. Mennirnir urðu varir við draugagang og miklar eldglæringar og varð ekki svefnsamt af þeim sökum. Um dvöl þessa orti Sigurður nokkrar vísur og þar á meðal þessa: Inni á bálki einum þar – undum lengi nætur. Við hurðarloku hringlað var – hrukkum þá á fætur. Leit ég eina ófreskju – á mig hélt ‘ún rynni. Hvarf í eld og eimyrju – undir kveðju minni.”
Bolasteinn? á BolavöllumUm Húsmúlaréttina segir á nálægu skilti: “Rétt þessi var notuð fram á 20. öld en ekki er vitað hvað hún er gömul. Réttin var notuð til rúnings og sem aðhald í haustleitum en ekki hefur hún rúmað stórt fjársafn. Í gömlum munnmælum segir að Mosfellingar og Ölfusungar hafi haft sameiginlegan afrétt en þeirri samvinnui lokið er deilur komu upp og lauk með orrustu sem Orrustuhóll uppi á Hellisheiði dregur nafn sitt af. Ekki er þó víst hvort atburðurinn átti sér stað í raun og veru.” Við þetta má bæta til fróðleiks að “herindýr voru flutt til Íslands frá Noregi á síðari hluta 18. aldar. Fram á 19. öld var hreindýrahjörð á Reykjanesskaga og þvældust þau oft þaðan upp á Mosfellsheiði og í Hengilinn. Er jafnvel talið að dýrin hafi skipt þúsundum þegar mest var. Undir 1900 hafði þeim fækkað verulega, bæði vegna ofveiði og einnig er talið að dýrin hafi flúið sökum aukinna mannaferða á svæðinu. Síðasta hreindýrið á þessum slóðum var fangað skömmu fyrir 1930 á Bolavöllum, skammt sunna við Húsmúlaréttina. Var það vesæl og gömul kýr, aflóga af elli, tannlaus og kollótt. Hafði hún um nokkurt skeið þvælst um ein sinnar tegundar með fjárhóp. Þar með lauk sögu hreindýra á Reykjanesskaga.”
Og þá loks að upphaflegum tilgangi gönguferðarinnar – leitina að Bolasteini. Skeiða-Otti kom, skv. sögunni, úr Ölfusi og hélt áleiðis til Reykjavíkur. Nautið er sagt hafa verið við Kolviðarhól. Annað hvort hefur “samræði” þeirra orðið á Hvannavöllum austan Draugatjarnar eða á Bolavöllum norðvestan hennar. Ef átt er við fyrrnefnda staðinn þá er Bolasteinn nær Búasteini og Kolviðarhóli. Ef hins vegar er átt við Bolavelli (sem einhverra hluta vegna hafa fengið það nafn án þess að um bolabeit hafi verið að ræða) þá er rauðleitur bolasteinslaga steinninn á þeim norðaustanverðum hinn eini sanni. Dæmi hver fyrir sig.
Frábært veður. Gangan tók 2 klst og 2 mín.

PS. Í þessari umfjöllun var ákveðið að segja ekkert miður ljótt um Hellisheiðarvirkjun og þá miklu sjónmengun er af henni stafar – enda yrði lýsingin þá a.m.k. helmingi lengri.

Heimildir m.a.:
-http://home.online.no/~mblarse/images/AroundVolcano.doc
-Örnefnalýsing fyrir Hjalla í Ölfusi.
-Kjalnesingasaga
-http://notendur.centrum.is/~ate/husmuli.htm

Húsmúlarétt