Færslur

Kópavogur

Á Borgarholti í Kópavogi er upplýsingaskilti. Á því stendur m.a.:

Jarðfræði

Kópavogur

Vindmylla á Borgarholti.

Borgarholt, eins og önnur holt og hæðir í Kópavogi og á höfuðborgarsvæðinu, er að mestu gert úr grágrýtishraunum sem runnu á hlýskeiðum ísaldar fyrir nokkur hundruð þúsund árum síðan. Þá grúfði jökull yfir Kópavogi sem náði allt frá Bláfjöllum og út á Faxaflóa. Jöklarnir grófu “dali” í hraunstaflann og mótuðu að landslag sem við sjáum í dag og eru jökulrákirnar á klöppunum glöggur vitnisburður um þau átök.
Í lok síðasta jökulsskeiðs, fyrir um 10.300 árum síðan var sjávarborð í um 40 metra hæð yfir núverandi sjávarmáli og gekk sjór yfir Borgarholt eins og lábarðir hnullungar í holtinu eru til vitnis um. Á sama tíma var sund á milli Borgarholts og ássins austan við. Síðar, fyrir um 9.800 árum, hafði sjávarstaða lækkað niður í um 20-25 metra hæð og þá myndaðist allmikil sand- og malarfjara utanvert á Kársnesi.
Seinna reis land endanlega úr sjó og strandlínan fékk á sig þá mynd sem hún er í dag.

Gróður

Borgarholt

Borgarholt.

Á Borgarholti þrífst mosaríkt mólendi og er gróðurfarið enn að miklu leyti dæmiger fyrir Kársnesið eins og það var áður en byggð tók að rísa þar.
Á holtinu hafa fundist 95 tegundir af mosum, þar á meðal kuðulmosi, sem aðeins hefur fundist á einum öðrum stað á landinu.
Þá hafa fundist 103 tegundir af innlendum háplöntum sem er nær fjórðungur af íslensku flórunni. Rætt hefur verið um hvort hindra ætti vöxt sjálfsáðra trjá s.s. birkis í holtinu, en um það eru skiptar skoðanir.

Saga

Kópavogur

Merki Kópavogs.

Borgarholtið er mjög svo samofið sögu byggðar í Kópavogi. Borgarholtið var að mestu ósnortið eins langt og elstu menn muna, þó með þeirri undantekningu að á árunum milli 1920-30 var byggð vindmylla á háholtinu til að framleiða rafmagn fyrir hressingarhælið, sem Kvenfélagið hringurinn rak á Kópavogsjörðinni.

Álfabyggð

Það er ástæða fyrir því að svæðið við Kópavogskirkju er látið í friði en þar er talið að sé blómleg álfabyggð. Sagan segir að þegar Borgarholtsbrautin var lögð hafi Kópavogsbúinn Sveinn Gamalíelsson varað álfana við áður en steinar voru sprengdir í burtu, álfarnir hafi þá fært sig. Álfarnir í Borgarholtinu virðast hrifnari af börnum en fullorðum og er sagt að þeir hafi átt á samskiptum við leikskólabörn.

Reyndar voru myllur þessar tvær, eða frekar það að fyrri myllan var þá endurbyggð vegna skemmda á spöðum, sem ekki höfðu þolað veðurlag á holtinu. Vindmyllur þessar voru síðan teknar niður einhvern tíma á árunum eftir 1930. Holtið stóð síðan óbyggt allt þar til samþykkt var í hreppsnefnd Kópavogs 1957 að byggja þar kirkju. Reyndar hafði hreppsnefndin haldið þessu svæði óbyggðu allt frá því 1946 með það í huga að síðar yrði byggð þar kirkja. Var hafist handa við byggingu hennar síðsumars 1958. Teikningar af kirkjunni voru gerðar undir stjórn Harðar Bjarnasonar þáverandi húsameistara ríkisins. Gerður Helgadóttir gerði steinda glugga sem settir voru í kirkuna. Byggingarmeistari kirkjunnar var Siggeir Ólafsson múrarameistari. Það tók 5 ár að byggja kirkjuna og kostaði hún 5 milljónir króna á verðlagi byggingartímans. Kirkjan var síðan vígð 15. desember 1962. Bent skal á að í skjaldarmerki bæjarins sem gert var á 10 ára kaupstaðarfamæli bæjarins 1965 var hluti þess merkis einmitt útlínur kirkjunnar með mynd af kópi undir.

Kópavogur

Borgarholt – skilti.

Kópavogur
Fornleifaskráning fór fram í hluta af landi Kópavogs árið 2000 undir umsjón Bjarna F. Einarssonar, fornleifafræðings. Þó voru staðir eins og Þingnes ekki skráðir að öllu leiti. Staðurinn er í raun bæði í landi Reykjavíkur og Kópavogs og hann hefur verið rannsakaður í nokkur skipti, en aldrei að fullu. Margt bendir til þess að eldra nafn á staðnum sé Krossnes, en heitið Þingnes hefur fest sig í sessi á seinni tímum og verður væntanlega notað eftirleiðis.

Kópavogur

Álfhóll.

Það var annars einkennandi fyrir Kópavog, líkt og svo marga aðra staði á landinu, hversu gengið hafði verið óhikað á fornminjar og þeim ýmist eytt (meðvitað eða ómeðvitað), en seinni tíma iðrun einungis orðið til þess að opinbera vitund fólks um mistökin án þess að beinilínis hafi sést merki um að það hafi dregið dýrmætan lærdóm af þeim, sbr. Hjónadysina og Systkinaleiðin við Þinghól – og það þrátt fyrir fomlega friðlýsingu frá hinu háverðuga Alþingi Íslendinga. Þeir staðir, sem þó hafa verið varðveittir til framtíðar og teljast verða merkilegir, eru hins vegar ómerktir. Hér á eftir er byggt á skýrslu Bjarna, en jafnframt gerðar við hana smávægilegar athugasemdir. Hingað til hefur það ekki þekkst að gerðar séu athugasemdir eða ábendingar við fornleifaskráningarskýrslur, en kominn er tími til að breyta því, a.m.k. þeim er lúta að Reykjanesskaganum. Sumar hverjar virðast verulega ábótavant og aðrar beinlínis rangar. Þrátt fyrir það byggja opinberir aðilar mikilvægar ákvarðanir sínar m.a. á þeim gögnum.

Þinghóll

Afhjúpun upplýsingaskilta við Þinghól.

Í skýrslu Bjarna (frá árinu 2000) kemur m.a. fram að “ef velja á fornleifar sem eru einkennandi fyrir ákveðið hérað eða svæði er mikilvægt að vita hvaða fornleifar eru til svo hægt sé að velja.”
Einnig kemur fram að “í hugum nútímafólks er Kópavogur tiltölulega sögulaust sveitarfélag, sem á upphaf sitt að rekja til 20. aldar. Sveitarfélagið sjálft var ekki stofnað fyrr en 1948, en þétting byggðar hafði hafist nokkrum árum áður eða um 1936. Kaupstaðarréttindi fengust svo árið 1955. Á seinustu tveimur öldum var Kópavogur ekki í brennidepli og þótti jafnvel ekki búsældarlegt um að litast. Segir danski fræðimaðurinn Kristian P.E. Kålund svo frá jörðinni Kópavogi í ferðalýsingu sinni er birtist á prenti árin 1877-82: „Bærinn er áleiðum og ömurlegum stað; umhverfis hann eru lág grýtt hæðardrög eða dökkleitar þýfðar mýrar.“ Kópavogsjörðin var lang rýrasta jörðin af þeim jörðum sem eru í Kópavogslandi. Ekki er víst að jarðirnar hafi talist eftirsóknarverðar til ábúðar. Það að nafnið á Hvammi breyttist í Hvammskot árið 1552 gefur vísbendingar um það. Hvammskotsnafninu var svo breytt um 1875 af Þorláki Guðmundssyni alþingismanni í Fífuhvamm. Ekki hefur þó þróunin alltaf verið neikvæð því í jarðarbókum 17. aldar og Jarðamati Johnsens árið 1847 og yngri jarðamötum, hækkaði jarðarmat allra jarða innan bæjarlandsins nema Digraness.
Borgarholt Elsta ritaða heimild um byggð í landi Kópavogs er frá árinu 1234. Þá bregður Vatnsenda fyrst fyrir í Máldagaskrá um eignir Maríu kirkju og staðar í Viðey. Segir m.a. svo í skránni: „hvn a oc Elliðavatz land hálft. Oc allt land at vatzenda. Með þeim veiðvm oc gæðvm er þeim hafa fylgt at fornv. … Hamvndur gaf til staðarins holm þann. Erliggr j elliða am. niðr fra Vatzenda holmi.“ Heimildir segja svo ekkert um svæðið fyrr en árið 1313, í skrá um leigumála á jörðum Viðeyjarklausturs. Þá eru nefndir til sögunnar bæirnir Hvammur og Digranes, auk Vatnsenda. Segir m.a. svo um leigumálana í skránni: „At vatz ennda iij merkur.J hvamme c leigv.J digranesi iij merkur:“ Nafnið Kópavogur kemur fyrst fyrir í heimildum árið 1523. Er þar átt við Kópavogsþingstaðinn og tilefnið var dómur yfir Týla Péturssyni hirðstjóra, sem fundinn var sekur um morð o. fl. Bærinn Kópavogur kemur ekki fyrir í rituðum heimildum fyrr en1553, þá í afgjaldareikningum Eggerts hirðstjóra Hannessonar á Bessastöðum. Er þar afgjald Þorsteins ábúanda tilgreint, en það var „viijalne vatmell.“ Til eru aðrar og eldri heimildir um byggð í Kópavogi, en það eru fornleifarnar sem þar finnast. Margt er enn ósagt um þær, aðeins nokkrar þeirra hafa verið rannsakaðar og engar þeirra til fulls.

Elsta mannvirki sem í ýtarlegri sögu Kópavogs má lesa í Sögu Kópavogs I-III, sem Lionsklúbbur Kópavogs gaf út árið 1990 og endurminningum Huldu Jakobsdóttur “Við byggðum nýjan bæ”, sem Gylfi Gröndal ritaði árið 1988.
M.a. hefur fundist í Kópavogi jarðhýsi eitt, sem staðsett er undir minjum hins gamla Kópavogsþingstaðar, norðanvert við árósa Kópavogslækjar. Jarðhýsið er C-14 aldursgreint og var niðurstaðan óleiðrétt 1180 ± 130 BP. Sé niðurstaðan hins vegar leiðrétt með 95,4% vissu, er niðurstaðan sú að húsið hafi verið í notkun einhverntíma á bilinu 600 – 1200. Talið er að jarðhýsið geti jafvel verið frá 9. öld. Ofan á áðurgreindu jarðhýsi fannst smiðja, sem var mun eldri en frá 1500 miðað við afstöðu gjóskulaga, en reyndist vera frá því um 1800 samkvæmt C-14. Ástæðan fyrir þessu misræmi hlýtur að vera sú að viðurinn sem var aldursgreindur hefur borist í húsið á seinni tímum eða mistök átt sér stað á tilraunastofunni. Talið er að smiðjan geti verið frá 12. öld. Skammt suður af jarðhýsinu var byrgð þró. Viðarkolasýni úr henni var aldursgreint og niðurstaða þeirrar greiningar 900 ± 70 BP.

Latur

Latur – „Gamlar“ sagnir eru um að steinninn sé álfabústaður. Einnig kemur hann nokkuð við sögu Jóns bónda Guðmundssonar í Digranesi. Mun hann hafa setið við steininn og sungið þegar hann kom heim úr sollinum í Reykjavík á fyrri helmingi tuttugustu aldar.

Rannsóknin á Kópavogsþingstað sýnir svo að varla verður um villst að búseta hefur hafist á staðnum þegar á landnámsöld, kannski við upphaf hennar í lok 9. aldar. Jarðhýsi finnast nær aldrei ein og sér, þau eru ævinlega á bæjarstæðum, verslunarstöðum, þingstöðum eða eins og ýmislegt bendir til, á kumlateigum. Ekki er líklegt að jarðhýsið í Kópavogi hafi tilheyrt neinu öðru en bæjarstæði, sem er þá elsta bæjarstæði Kópavogs sem vitað er um í dag. Hvar bærinn hefur nákvæmlega staðið er ekki gott að segja, en þau jarðhýsi sem fundist hafa á bæjarstæðum hérlendis eru öll nálægt bæjarhúsunum, varla meira en 10 m frá þeim. Jarðhýsið í Kópavogi sker sig þó úr öðrum jarðhýsum hér á landi hvað tvö atriði varðar. Húsið er aðeins grafið niður um 20 sm í jökulruðninginn, sem er mjög lítið miðað við öll önnur jarðhýsi hér heima og erlendis. [Hér er í raun um vafamál að ræða, því hæpið er að kalla þetta “jarðhýsi”, svo grunnt sem það er og því fellur frekari rökstuðningur um nálægð við aðra bæjarhluta um sjálfan sig]. Á gólfinu er steinalögn sem gæti verið eldstæði, öll eða hluti hennar. Smiðjan ofan á jarðhýsinu segir okkur einnig að skammt frá hafi verið býli um 1200. Smiðjur virðast stundum hafa verið einhvern spöl frábæjarhúsum í öndverðu en færst svo nær býlunum, trúlega í upphafi miðalda, sbr. Stöng o.fl. bæi.Við önnur bæjarstæði í Kópavogi, Hvamm (Fífuhvamm), Digranes og Vatnsenda, eru/voru vafalítið mjög fornar minjar. Fífuhvammur er horfinn að mestu leyti, ef ekki öllu, og Digranes horfið að talsverðu leyti þó ýmislegt markvert kunni að leynast þar enn undir grasrótinni. Við Vatnsenda er enn búið og bæjarstæðið og nánasta umhverfi þess geymir örugglega mikið af upplýsingum um forsögu þess bæjar sem gæti hafa verið talsverð, samanber orðalag Máldagaskrá Viðeyjarkirkju. Í raun má segja að núverandi íbúðarhús standi á bæjarhól, en slíkir hólar geyma yfirleitt gríðarlegt magn upplýsinga um búskaparhætti á liðnum öldum. Niðurstaðan er því sú að þó að ritaðar heimildir segi ekki mikið um mannlífið á Kópavogsbæjunum að fornu og að svæðið virðist ekki hafa komið við sögu helstu atburða Íslandssögunnar, þá geyma fornleifarnar gríðarlegt magn af upplýsingum sem eru enn mikilvægari þegar hinar rituðu heimildir skortir. Í tilviki Kópavogs eru þær að sumu leyti einu heimildirnar sem við höfum um mannlíf og sögu svæðisins fyrstu aldirnar.

Þinghóll Í Sögu Kópavogs I segir að þegar klóak hafi verið grafið fyrir neðan Kópavogshælið, meðfram Fífuhvammsvegi, hafi verið fylgst með verkinu af fornleifafræðingi og hann skráð og teiknað upp eftir þörfum. Skilti á staðnum sýnir að hreinsað hefur verið ofan af gólfum og veggir lagaðir eitthvað til. Að öðru leyti virðist bærinn ekki hafa verið rannsakaður frekar. Skammt frá Digranesi stóð rúst sem líklega var fjárhús frá bænum. Var rústin fjarlægð með vélgröfu undir eftirliti Þjóðminjasafns.
Árið 1988 voru tvær dysjar rannsakaðar er gengu undir heitinu Hjónadysjar. Kom í ljós að þar hvíldu maður og kona og getum að því leittað þau hafi verið Sigurður Arason frá Árbæ og Steinunn Guðmundsdóttir, einnig frá Árbæ sem dæmd voru árið 1704 fyrir morð á eiginmanni Steinunnar, Sæmundi Þórarinssyni.
Í Kópavogi hafa 53 staðir verið skráðir og á þeim voru meir en 75 minjar. Þá eru rústir á Þingnesi ekki taldar með, en þær eru fleiri en 18 og a.m.k. fjórar þeirra eru í landi Kópavogs.

Þinghóll

Minningarsteinn um erfðahyllinguna 1662 á Þinghól.

Fjórir staðir eru friðlýstir. Eru þeir Kópavogsþingstaður, Hjónadysjar, Systkinaleiði og Þingnes. Allir staðirnir voru friðlýstir árið 1938. Þingnes er þó að mestu leyti í landi Reykjvíkur, en hið friðhelga svæði nær þó eitthvað inn í land Kópavogs og vafalítið eru nokkrar rústir í landi Kópavogs (þær vestustu). Í friðlýsingu Kópavogsþingstaðar segir: 1. Þinghússtóft syðst á túninu og fangakofatóftir skammt frá. 2. Dysjar austan túns, nefndar Hjónadysjarnar og Systkinaleiðin. Ekki er svæðið tilgreint nánar. Rústir við sjálfan þingstaðinn eru taldar friðlýstar í fornleifaskrá, þó ekki sé víst hvernig lögin taki á þeim. Rústir fyrir utan þingstaðinn eru ekki taldar friðlýstar í fornleifaskrá. Þyrfti að endurskoða friðlýsinguna og friðlýsa allt svæðið. Í friðlýsingu Þingness segir að friðlýstar fornleifar séu: Mannvirkjaleifar á hinum forna Kjalarnessþingstað í Þingnesi, sem gengur út í Ellliðavatn að sunnanverðu.
Þinghústóftin (þingbúð) á Kópavogsþingstað var rannsökuð árin 1973-76, auk nokkurra minja undir henni. Rústin virðist síðan hafa verið endurhlaðin á staðnum. Hjónadysjar voru rannsakaðar og fjarlægðar árið 1988, en Systkinaleiði hvarf á fyrri helmingi þessarar aldar án nokkurra rannsókna. Á Þingnesi hófst rannsókn sumarið 1982 og stóð yfir í nokkur sumur. Ekki er víst að rannsóknum þar sé lokið.

Kópavogur

Álfhóll.

Af 53 stöðum sem skráðir voru töldust fjórir hafa hátt minjagildi, 17 talsvert, 32 lítið og enginn ekkert minjagildi. Staðir geta haft hátt minjagildi þó einstakar fornleifar við þá hafi talsvert, lítið eða ekkert minjagildi. 22 fornleifar á 19 stöðum eru horfnar, þ.m.t. þær sem voru rannsakaðar og fjarlægðar. Flestar, ef ekki allar, hafa horfið á þessari öld og aðeins tvær þeirra eru rannsakaðar, en það eru Hjónadysjarnar. Ástæður fjarlægingar eru m.a. athafnir setuliðsins á stríðsárunum og vöxtur bæjarins. Af 53 stöðum eru 11 í mikilli hættu, 9 í lítilli og 15 í engri hættu. Mikill meirihluti minjanna finnast stakar og lítið er um heilar heildir. Einu heildirnar eru Kópavogsþingstaðurinn ásamt bæjarstæðinu þar og Þingnes við Elliðavatn. Þessi staðreynd eykur gildi þessara tveggja staða.

Merkilegustu fornleifarnar í Kópavogi eru eftirfarandi fornleifar í númeraröð:
1. Jarðhýsi.
2. Smiðja.
3. Þingbúð. I –VIII: Skurðir. (Guðrún Sveinbjarnardóttir 1986:21). Kópavogsþingstaður og Kópavogsbærinn. Staðurinn býr yfir afarmiklum upplýsingum sem ná frá nútíma allt aftur á landnámsöld. Ekki er mikið til ritað um staðinn og þeim mun mikilvægari eru þær heimildir sem geymdar eru undir sverðinum. Þarna má ímynda sér að skálabyggingar, fjós og önnur hús séu geymd í heilu lagi eða í brotum. Þessu fylgir mikið magn af upplýsingum sem felast í gripum, beinum og jarðveginum sjálfum.
4. Álfhóllinn. Hóllinn er trúlega þekktasti álfhóll Kópavogs og hefur skapað sér slíkan sess í skipulagi bæjarins að varla verður honum hnikað héðan af. Hann er sýnilegt dæmi um þjóðtrú Íslendinga og hve sterk hún hefur verið allt fram á þennan tíma.

Kópavogur

Digranesbærinn.

5. Digranesbærinn. Hér stóð eitt sinn höfuðbýli Kópavogs. Hluti af bænum stendur enn ásamt tröðinni, kálgarðinum og ýmsum minjum undirsverðinum allt í kring. Vandamálið er hve nálægt skóla staðurinn er og hve ágengni er mikil. Þessu mætti snúa í andhverfu sína og gera það að höfuðgildi staðarins, þ.e. að tengja hann kennslu grunnskólabarna með beinum hætti.
5. Selstaða? Staðurinn er skammt frá bæjarstæði Fífuhvamms. Nálægðin bendir til þess að hér sé ekki selstaða, en þó er ekki loku fyrir það skotið að hér hafi verið haft í seli svo nálægt bæ. Örnefnin Selflatir,Selvellir og Selhryggur eru nokkuð langt frá til að geta verið í tengslum við þessar rústir. Hvort sem um er að ræða selstöðu eða annað þá eru rústirnar (mjög) fornlegar að sjá. Þær eru býsna nálægt fjölbýlishúsum og við þær liggja stígar. [Ef grannt er skoðað er ljóst að tóftirnar eru ekki leifar sels. Meiri líkur benda til beitarhúsatófta, enda vottar fyrir heykumli aftan við ílanga megintóftina. Sel Fífuhvamms má enn sjá norðan í Rjúpnahæð þar sem byggðin hefur enn ekki náð til þess og þess er getið í heimildum. Selsins er hins vegar ekki getið í fornleifaskráningarskýrslunni, sjá annars á vefsíðunni; Fífuhvammur – Fífuhvammssel].

Landamerkjasteinn

Landamerkjasteinn.

6. Landamerkjasteinninn Markasteinn. Fallegasti landamerkjasteinninn í Kópavogi. Hann hefur fengið nýtt hlutverk á seinni tímum, auk síns gamla, en það er að vera hluti af girðingu utan um Rjúpnahæð.
7. Beitarhús suður af Litlabás. Eins og algengt er þá er beitarhúsið ekki langt frá landamerkjum Vatnsenda og Vífilsstaða. Þannig var hægt að nýta betur sitt eigið land og jafnvel land nágrannans einnig. Húsið er eitt tveggja beitarhúsa í Kópavogi (eða á hinu skráða svæði) og það elsta. [Hér ber að hafa í huga fyrri umfjöllun um beitarhús því tóftir meints sels skammt frá Fífuhvammi virðast eldri en hér um ræðir].
BeitarhúsÍ þéttbýli Kópavogs og næsta nágrenni eru sem fyrr segir 53 staðir skráðir sem fornleifar og geyma þeir 75 stakar fornleifar. Kópavogur á sér ekki mjög mikla sögu sem lesa má um í rituðum heimildum, en fornleifarnar geyma býsna spennandi sögu sem nær að líkindum allt aftur til landnámsaldar. Eitt megin hlutverk þessarar fornleifaskrár er að hjálpa skipulagsyfirvöldum að standa vörð um fornleifarnar og marka stefnu í skipulagsmálum/minjavernd sem tekur mið af þessum fornleifum. Fornleifaskráningu lýkur í raun aldrei og hana þarf að endurskoða reglulega. Þegar einhverjar áður óþekktar fornleifar finnast við jarðrask ber að færa slíka staði inn á fornleifaskrá auk ákvæðanna um tilkynningu í þjóðminjalögum.”
Rétt er að taka undir og árétta orð Bjarna um mikilvægi fornleifanna með hliðsjón af menningarlegu mikilvægi þeirra því þau geta, ef vel er að verki staðið, sagt engu minni sögur en þær sem skráðar hafa verið með fjaðurstaf á hinu fornu skinnhandrit – og jafnvel bætt um betur.
Meginheimildir:
-Fornleifaskrá Kópavogs – Bjarni F. Einarsson – 2000.Aðrar heimildir m.a.:
-Bjarni F. Einarsson (a). The Settlement of Iceland; a Critical Approach. Granastaðir and the Ecological Heritage. Reykjavík 1995.
-Bjarni F. Einarsson (b). Fornleifaskrá Reykjavíkur. Skýrslur Árbæjarsafns XLVI. Reykjavík 1995.
-Bjarni F. Einarsson (c). „Um fornleifaskráningu á Íslandi, upphaf og ástæður. Fyrrigrein: Upphafið og lögin.“ Sveitarstjórnarmál. 1. tbl. 1996.
-Bjarn F. Einarsson. „Um fornleifaskráningu á Íslandi, upphaf og ástæður. Síðari grein: Skyldur okkar gagnvart fortíðinni. Sveitarstjórnarmál. 2. tbl.1996.
-Bjarni F. Einarsson. „Fornleifaskráning á Íslandi: Forsendur og markmið.“ Fréttabréf safnmanna. 6. árg. 1. tbl. 1997.
-Frásögur um fornaldarleifar 1817- 1823. Fyrri hluti. Sveinbjörn Rafnsson bjó til prentunar. Reykjavík 1983. Guðlaugur R. Guðmundsson.
-Hinar fornu jarðir Kópavogsþingstaðar. Örnefnastofnun. Handrit 1970.
-Guðmundur Ólafsson. „Sakamannadysjar í Kópavogi.“ LesbókMorgunblaðsins 23. mars 1996.
-Guðmundur Ólafsson. „Þingnes by Elliðavatn: The first Local Assembly in Iceland. “Proceedings of the Tenth Viking Congress. Universitetets Oldsaksamlings Skrifter. Ny Rekke. Nr. 9. Ósló 1987.
-Guðrún Sveinbjarnardóttir. Rannsókn á Kópavogsþingstað. Meðviðaukum. Kópavogur 1986.
-Íslenskt fornbréfasafn. Fyrsta bindi. Kaupmannahöfn 1857-76.
-Íslenskt fornbréfasafn. Annað bindi. Kaupmannahöfn 1888.
-Íslenskt fornbréfasafn. Níunda bindi. Reykjavík 1909-13.
-Íslenskt fornbréfasafn. Tólfta bindi. Reykjavík 1923-32.
-Kaalund, Kristian P.E. Íslenskir sögustaðir I. Sunnlendingafjórðungur. Reykjavík 1984.
-Lýður Björnsson. „Kópavogur 1936 – 1955.“ Saga Kópavogs II. Frumbyggð og hreppsár 1935 – 1955. Safn til sögu byggðarlagsins. Ritstjóri Adolf J.E. Petersen. Kópavogur 1990.
-Magnús Þorkelsson (a). „Af Kópavogsbæjum frá fyrri öldum.“ Saga Kópavogs I. Saga lands og lýðs á liðnum öldum. Safn til sögubyggðarlagsins. Ritstjóri Árni Waage. Kópavogur 1990.
-Magnús Þorkelsson (b). „Þingstaðir í Kópavogslandi.“ Saga Kópavogs I. Saga lands og lýðs á liðnum öldum. Safn til sögu byggðarlagsins. Ritstjóri ÁrniWaag. Kópavogur 1990.
-Matthías Þórðarson. „Nokkrar Kópavogsminjar.“ Árbók Hins íslenska fornleifafélags 1929. Reykjavík 1929.
-Orri Vésteinsson. „Fornleifaskráning og fornleifarannsóknir.“ Fréttabréf safnmanna. 5. árg. 4. tbl. 1996.
-Skipulags- og byggingalög 1997, nr. 73, 28. maí.
-Þjóðminjalög 1989, nr. 88, 29. maí. Með síðari breytingum.
-Þór Magnússon. „Skýrsla um Þjóðminjasafnið 1986.“· Árbók Hins ísl.fornleifafélags 1986. Reykjavík 1987

Kópavogskirkja
Í Kópavogi eru nokkrir staðir, sem hafa skírskotun til sagna og munnmæla. Þeim hefur flestum verið hlíft við raski. Má þar nefna stekk nálægt Fífuhvammsvegi og sel í Rjúpnahæð. Jafnframt eru í bænum nokkrir staðir s.s. Álfhóll, Víghólar, Borgarholt, Latur og Þinghóll þar sem fyrrum er talinn hafa verið þingstaður. Kórsnesið eða Kársnesið, þar sem ormurinn langi bjó í helli, er þó horfið undir landfyllingu – og þar með gull hans.
Mikilvægt er að gæta þess vel að spilla ekki sagnatengdum stöðum, hvorki með jarðraski né skógrækt, eins og svo allt of mörg sorgleg dæmi eru um. Ástæðulaust er þó að sýta súrt, en gleðjast yfir því sem til er og nýta það til fróðleiks og ánægju.

Álfhóll

Álfhóll

Álfhóll í Kópavogi.

Álfhóllinn er líklega kunnasti bústaður álfa í Kópavogi. Hann stendur sunnanvert við Álfhólsveg skammt þar frá sem Digranesskóli er nú. Hóllinn, sem er nokkuð aflíðandi, mun vera um það bil þriggja metra hár ef mælt er frá götu.
Álfhóll er jökulsorfinn klapparhóll sem nýtur bæjarverndar sem bústaður álfa. Hóllinn er dæmi um þjóðtrú Íslendinga og hve sterk hún hefur verið allt fram á þennan dag. Því er haldið fram að álfar hafi fjórum sinnum haft áhrif á framkvæmdir við hólinn.
Hann er að miklu leyti hulinn grasi og mosagróðri, sérstaklega að norðan og austan. Í Álfhólnum er nokkurt stórgrýti sem líkist litlum klettastöllum og liggja þessir smáklettar að mestu um sunnanverðan og vestanverðan hólinn.

Kópavogur

Álfhóll.

Lengi hefur verið talað um að álfar hafi tekið sér búsetu í Álfhólnum og margir segjast hafa séð þá með vissu. Ekki er ljóst hve gamlar þær sögusagnir eru; engar heimildir eru til um atburði fyrr en nokkuð er liðið á þessa öld.
Seint á fjórða áratug þessarar aldar var hafist handa við að leggja Álfhólsveginn. Byrjað var á honum við Hafnarfjarðarveg og ætlunin var að halda áfram í austurátt þar til komið væri að Álfabrekku sem skyldi tengja Álfhólsveginn við Nýbýlaveg. Vegurinn átti að liggja þar um sem Álfhóllinn er en hann yrði jafnaður við jörðu eftir því sem framkvæmdum miðaði. Vel gekk að leggja veginn austur eftir Digranesinu að Álfhólnum.

Kópavogur

Álfhóll.

Þegar kom að því að sprengja hólinn gerðust atburðir sem leiddu til þess að ekkert varð af sprengingu. Vildi svo til að fjármagn það, sem veitt hafði verið til lagningar Álfhólsvegarins, var á þrotum. Féllu þá framkvæmdir niður við ólokið verk og Álfhóllinn stóð óhaggaður.
Árið 1947 var á ný hafist handa og átti að leggja veginn áfram í gegnum Álfhólinn. Þegar vinna hófst á hólnum komu upp vandamál sem áttu sér ókunnar og dularfullar orsakið að margra áliti. Vinnuvélar biluðu og ýmis verkfæri skemmdust eða hurfu jafnvel. Varð það úr að vegurinn var lagður í bugðu fram hjá hólnum norðanverðum en ekki í gegnum hann eins og ætlunin hafi verið. Sagt er að þá hafi framkvæmdir gengið eins og venja var til og hafi álfarnir ekki gert vart við sig að sinni.
Talið er að áhrifa álfa hafi einnig gætt við uppbyggingu lóðarinnar nr. 102 við Álfhólsveg en hún liggur næst hólnum. Eigandi lóðarinnar skilaði lóðinni og vildi ekki byggja þar og fellur lóðin ásamt hólnum nú undir bæjarvernd.

Borgarholt

Kópavogur

Kópavogskirkja á Borgarholti.

Holtið þar í kring, sem Kópavogskirkja stendur nú, hefur verið nefnt Borgarholt. Þar hefur álfabyggð verið talin hvað blómlegust í Kópavogi.
Þegar Borgarholtsbraut var lögð á sínum tíma þurfti að sprengja nokkuð í Borgarholtinu á þeim slóðum sem álfar bjuggu. Um það leyti er fréttist að fyrirhugað væri að leggja veg um Borgarholtið mun maður að nafni Sveinn hafa gengið út á holtið og aðvarað álfana.
Segir sagan að íbúar Borgarholtsins hafi tjáð honum að þeir myndu ekki hindra framkvæmdir heldur flytja sig um set. Kom það á daginn að greiðlega gekk að leggja Borgarholtsbrautina og urðu þar engin óhöpp eða undarlegir atburðir.
Nokkrar heimildir eru um álfabyggðina í Borgarholti og segjast skyggnir menn hafa séð þar bústaði og byggingar álfanna. Hefur húsum álfanna verið lýst nokkuð nákvæmlega og eru til teikningar af þeim eftir lýsingu hinna skyggnu. Þá hefur það borið við að börn frá leikskóla þar í grenndinni hafi séð álfa í holtinu og jafnvel tekið þá tali.

Latur

Latur

„Gamlar“ sagnir eru um að steinninn sé
álfabústaður. Einnig kemur hann nokkuð við sögu Jóns bónda Guðmundssonar í Digranesi. Mun hann hafa setið við steininn og sungið þegar hann kom heim úr sollinum í Reykjavík á fyrri helmingi tuttugustu aldar.

Latur er nokkuð stór steinn í sunnanverðum Digraneshálsi þar sem nú liggur gatan Hlíðarhjalli. Stendur steinninn enn óhreyfður innst í einum af botnlöngum Hlíðarhjalla en áður mun Digranesbærinn hafa verið skammt norðan við steininn.
Sagnir um stein þennan tengjast fremur Jóni Guðmundssyni bónda í Digranesi en álfum en sagt er að á steininum hafi Jón hvílt sig á ferðum sínum um jarðeignina. Þá mun Jón einnig hafa setið eða staðið á steininum og sungið allt hvað af tók er hann var drukkinn sem oft kom fyrir.
Gamlar sagnir eru til um að steinninn Latur hafi verið álfabústaður og mun það sérstaklega hafa verið á vitorði manna er bjuggu í Fífuhvammslandi. Eitt sinn gerðist það að börn, sem voru á ferð við steininn, sáu huldukonu þar á sveimi en er hún varð þeirra vör hvarf hún þeim sjónum við steininn.
Annars er Latur hinn ágætasti drykkjarsteinn.

Þinghóll

Þinghóll

Þinghóll.

Þinghóll er hóllinn sem stendur við Kópavogsbotn hjá gamla þingstaðnum í Kópavogi. Helsta sögnin af Þinghólnum er tengd nafni hans. Það hefur verið trú manna að á hólnum hafi álfar haldið sitt eigið þing á svipuðum tíma og mannfólkið. Eiga álfarnir að hafa komið þar saman og þingað en ekki fóru aftökur þar fram enda þekkist það ekki á meðal álfa.
Til er önnur sögn tengd Þinghólnum en hún segir að þar í grennd hafi sést til huldukonu einnar og mun það hafa verið á sama tíma á hverjum degi. Sást hún ganga frá Þinghólnum í átt að Borgarholtinu.
Kópavogur var einn af fjórum þingstöðum Gullbringusýslu og fyrir margar sakir þeirra frægastur. Mikill fjöldi mála voru tekin fyrir á Kópavogsþingi og dómar felldir. Mun nálægð við Bessastaðavaldið hafa ráðið þar miklu um.

Þinghóll

Afhjúpun upplýsingaskilta við Þinghól.

Elstu varðveittu rituðu heimildirnar um þing í Kópavogi eru frá 1523. Árið 1574 gaf Friðrik II Danakonungur út tilskipun þess efnis að Alþingi skyldi flutt í Kópavog en til þess kom þó aldrei. Merkasti atburður sem tengist þingstaðnum er erfðahyllingin 28. júlí 1662. Þá neyddi danski höfuðsmaðurinn Hinrik Bjelke íslenska forystumenn til að undirrita einveldisskuldbindingu og að sverja Friðriki III Danakonungi hollustueiða meðan hermenn hans hátignar stóðu yfir þeim alvopnaðir. Síðasta aftakan sem fór fram á þinginu í Kópavogi var þann 15. nóvember 1704. Þá voru Sigurður Arason og Steinunn Guðmundsdóttir frá Árbæ tekin af lífi fyrir morð. Var hann höggvinn skammt norðan við þinghúsið en henni drekkt í Kópavogslæk. Árið 1753 var þinghald aflagt í Kópavogi.

Þinghóll

Minningarsteinn um erfðahyllinguna á Þinghól.

Á fyrri hluta aldarinnar bjó sérkennileg kona á Skjólbraut í vestanverðum Kópavogi. Var hún komin nokkuð á efri ár en heilsuhraust þó og skörp í hugsun. Ekki var hún þekkt fyrir annað en að vera góðhjörtuð og hjálpleg á allan hátt en mörgum þótti hún dularfull enda vissu menn að hún var skyggn. Sagði hún stundum sögur af sérkennilegum atburðum og var fullviss um tilvist huldufólks.
Það var á flestra vitorði að gamla konan hefði séð álfa og huldufólk. Eitt þótti öðru merkilegra en það var að um sama leyti hvern einasta dag sá hún huldukonu á gangi. Var huldukonan í svörtu pilsi og með gráa hyrnu á höfði. Ætíð gekk hún sömu leið sem lá frá Þinghól og upp að Borgarholtinu í austri þar sem Kópavogskirkja stendur nú. Hvarf hún gömlu konunni þar sjónum.
Ekki hefur heyrst af öðru fólki sem sá þessa dularfullu konu á gangi og ekki eru allir á sama máli um hver hún var. Telja sumir að hún tengist dysjum sem eiga að vera víða í grenndinni. Þeir eru þó fleiri sem segja að þarna hafi verið huldukona á ferð og hafi hún annaðhvort búið í Þinghólnum sjálfum eða í Borgarholtinu.

Einbúi

Einbúi

Einbúi.

Einbúi er hóll sem rís austan í Digraneshálsi í austasta hluta Kópavogsbæjar fast við Reykjanesbraut. Við hólinn eru stakir steinar en þar hjá munu áður hafa legið landamerki.
Hólnum tengist sú saga að þar hafi búið álfur eða huldumaður. Ekki skal hér fullyrt um hvort hann búi þar enn. Þegar framkvæmdir stóðu yfir við byggingu iðnaðarhúss sem þar átti að rísa skammt frá er sagt að íbúi hólsins hafi látið á sér kræla. Hafi hann séð til þess að vélar biluðu með þeim hætti að ómögulegt var að beita þeim á hólinn.
Sagan segir að þegar lóðaúthlutun stóð sem hæst í Kópavogi var húsbyggjanda fengin lóð við hól í austurbæ Kópavogs sem kallaður var Einbúi. Fékk hann lóðina með því skilyrði að hann kæmi ekki nærrri hólnum er hann færi að grafa fyrir húsinu. Þótti húsbyggjanda sjálfsagt að verða við þeirri bón.
Einhvern tíma á föstudegi var komið að því að grafa fyrir grunni og fékk húsbyggjandinn jarðýtu á staðinn til að sinna því verki. Gekk verkið vel og var langt komið þegar vinnu var hætt um kvöldið. Næsta dag var haldið áfram þar sem frá var horfið en þegar nokkuð var lliðið á daginn þurfti lóðareigandinn að bregða sér frá. Varð það að samkomulagi að ýtustjórinn lyki verkinu en húsbyggjandinn tók honum vara fyrir því að fara of nærri hólnum.

Einbúi

Einbúi.

Ekki hafði ýtustjórinn verið lengi að er honum varð það á að bakka utan í hólinn. Stöðvaðist jarðýtan þar við hólinn og bilaði vél hennar svo að ekki var hægt að koma henni í gang. Kallaði stjórnandi ýtunnar til viðgerðarmenn sem komu þar á staðinn. Eftir að hafa skoðað vélina voru viðgerðarmennirnir sammála um að bilunin væri mikil og alvarleg. Var því kallað á dráttarvagn og ýtan færð á verkstæði til viðgerðar.
Þegar húsbyggjandinn hafði lokið verkum sínum í bænum og kom á staðinn sá hann enga jarðýtu og greinilegt var að ekkert hafði þokast við bygginguna síðan hann fór. Segir ýtustjórinn honum hvernig komið er og verður húsbyggjandinn óánægður með gang mála. Fara þeir saman á verkstæðið. Þegar þangað kom sneri húsbyggjandinn sér að ýtustjóranum og bað hann að setjast í ýtuna og kanna hvort hún færi ekki í gang. Þrátt fyrir vantrú sína verður ýtustjórinn við óskinni og ræsir vélina. Við það hrekkur hún í gang eins og ekkert hafi í skorist. Urðu menn þá mjög undrandi en þó mest viðgerðarmennirnir sem höfðu skoðað ýtuna.
Er nú aftur farið með ýtuna út að Einbúa þar sem framkvæmdum er haldið áfram. Reyndist hún þá í góðu lagi. Fór lóðareigandinn aldrei frá verkinu eftir það og urðu upp frá því engin vandræði. Þóttust menn vissir um að íbúi hólsins hefði hér átt hlut að máli og séð til þess að Einbúinn fengi að standa óhreyfður.

Víghólar

Víghólar

Víghólar.

Víghólar voru friðlýstir sem náttúruvætti árið 1983. Þeir eru í um 70 m hæð yfir sjó og er víðsýnt af þeim. Víghólar eru jökulsorfnar grágrýtisklappir með ávölum hvalbökum og jökulrákum sem bera vitni um legu og skriðstefnu jökulsins sem lá yfir Kópavogi fyrir um tíu þúsund árum. Bergið tilheyrir yngri grágrýtismyndun Íslands, en þær jarðmyndanir runnu einkum sem dyngjuhraun á hlýskeiðum ísaldar fyrir um 100.000– 700.000 árum. Upptök grágrýtisins í Víghólum eru óviss, en gætu verið á Mosfellsheiði. Aldurinn er líklega 300.000–400.000 ár. Af hvalbökum og jökulrákum á Víghólum má ráða að jökullinn sem síðast gekk yfir Kópavog hafði stefnuna NV-SA. Líklega hafa ísaskil jökulsins legið austan Bláfjalla og skriðjöklar gengið frá honum bæði út í Faxaflóa og niður í Ölfus.

Kórsnesormurinn

Kársnes

Kársnes.

Skammt undan ysta odda Kársness er sker sem vel má greina þegar fjarar. Sögur eru til sem segja frá miklum ormi er bjó í skerinu. Lá hann þar á gulli og beit í sporðinn á sér. Mun skerið hafa verið nokkru stærra og meira en nú er og hafi þá frekar talist hólmi. Hólmi þessi var heimili ormsins en þar hélt hann til í hellisskúta einum sem kallaður var kór. Þar lá hann ófrýnilegur mjög og gætti fjársjóðs síns.
Sagt er að nesið allt hafi verið kennt við kór þennan. Hafi það því ekki alltaf verið nefnt Kársnes heldur kallað Kórsnes. Þá var oftar en ekki talað um kórinn í nesinu.
Nú er Kórsnesið/Kársnesið horfið undir landfyllingu – og sennilega hvílir ormurinn undir henni.
Sjá meira HÉR og HÉR.

Heimild m.a.:
-http://www.ismennt.is/
-http://www.kopavogur.is/

Þinghóll

Þinghóll – minjar.