Færslur

Borgarhraunsrétt

Ætlunin var að ganga um Borgarhraun og upp á Kastið og skoða þar brak úr B-24 sprengiflugvél er fórst þar þann 3. maí árið 1943.

Hraun

Kapellutóft austan við Hraun.

Á leiðinni þangað var komið við í kapellunni á Hraunssandi ofan við Hrólfsvík. Brak og drasl er yfir tóftunum, en við þær stendur einmana staur með merki Þjóðminjasafnisins, sem segir að þarna séu friðlýstar fornminjar einhvers staðar undir. Sá, sem myndi reyna að fá því framgegnt að minjar þessar yrðu gerðar sýnilegar vegfarendum um eina fallegustu þjóðleið landsins, fengi gott klapp á bakið frá FERLIR og eflaust mörgum fleirum. Undir sandhrúgunni eru minjar kapellu frá kaþólskum sið. Dr. Kristján Eldjárn og fleiri grófu í tóftina á sínum tíma, fundu þar margt hluta, en mokuðu síðan yfir hana aftur. Kristján skrifaði merka ritgerð um uppgröftinn og síðan aðra ári seinna þar sem hann var orðinn nokkuð sannfærður um að þarna hefði verið um forna kapellu að ræða. Árið 1602 fórst Skálholtssúðin í Hrólfsvíkinni og margt ungra manna frá Skálholti með henni. Talið er að þeir séu grafnir í Kapelluláginni neðan við kapelluna. Þessum stað þarf að sýna meiri sóma, en verið hefur hingað til. Járnarusl er þarna um allt og lítil virðing sýnd því sem sandurinn hefur að geyma. Sagt er að sá sé vitur sem gerir sér grein fyrir hversu lítið hann veit í raun og veru. En sá, sem gerir sér grein fyrir með vissu hvað hið ósýnilega hylur, er ríkur. Grindvíkingar geta því, skv. þeim mælikvarða, talist mun ríkari en þeir gera sér grein fyrir.

Hrólfsvík

Hrólfsvík.

Í Hrólfsvíkinni er hægt að finna fallegt djúpberg á kafla og skammt austar er stórbrotið útsýni yfir Ægissand og Festisfjall.
Komið var við í Móklettum og skoðað ártal þar á landamerkjum Hrauns og Ísólfsskála. Frá merki þessu er sagt frá í örnefnaskrám, en fáir munu vita hvar það er í klettunum. Við Mókletta gerðust atburðir, sem Dagbjartur Einarsson kann einn að segja frá.
Haldið var framhjá Hatti (sem sumir kalla Grettistak) og að Drykkjarsteini. Allar skálar hans voru tómar að þessu sinni, sem verður að teljast til tíðinda því menn stóluðu jafnan á vatn á þessum stað á löngum ferðum sínum milli Grindavíkur og Krýsuvíkur. Vatnsskorturinn er talinn merki um mikið hlýindasumar.

Borgarhraunsrétt

Borgarhraunsrétt.

Gengið var að Borgarhraunsrétt með viðkomu í Viðeyjarborg, forni fjárborg. Gamla gatan að Siglubergshálsi liggur vestan við Drykkjarsteinsdal. Borgin er allstór og gróið er í henni og í kringum hana. Hún er utan í hól og hallar til suðausturs. Í henni hefur verið hlaðin kví eða kró. Í borginni austanverðri má sjá hversu þykkir veggir hennar hafa verið, eða faðmur. Þarna hefur verið mikið mannvirki á meðan var. Talið er að borg þessi hafi verið frá Viðeyjarklaustri, sem hafði fé á þessum slóðum líkt og t.d. í Borgarkoti á Vatnsleysuströnd og víðar.

Viðeyjarborg

Viðeyjarborg (Borgin).

Þegar gengið var áleiðis norður upp á hæðina norðan borgarinnar gerðist kjói allnærgöngull. Gengið var yfir að Borgarhraunsrétt, en hún er fallega hlaðin undir háum apalhraunbakka. Norðan hennar er hlaðið lítið skjól. Í rauninni hefur réttin oft verið nefnd Ísólfsskálarétt, en staðkunnugir hafa viljað halda sig við fyrrnefnda nafnið.

Sandakravegur

Sandakravegur.

Gengið var áfram til norðurs, áleiðis að Einbúa. Sunnan hans er áberandi gata, greinilega mjög forn. Kastað hefur verið úr götunni á kafla. Sunnan hennar hefur verið hlaðið gerði og má enn sjá merki þess. Norðan gerðisins er hlaðið skjól, einnig greinilega mjög gamalt. Þarna gæti verið um að ræða hluta götu er kom upp frá Mosadal, um Fagradal og áfram áleiðis að Ísólfsskála, svonefndan Sandakraveg, sem lengi hefur verið merktur inn á landabréf sem slíkur. Ummerki eftir götuna má m.a. sjá í hrauninu sunnan við Kastið. Þar liðast hún um mosahraunið á kafla. Greinilegt var að þessi leið hefur ekki verið farin lengi. Selskál er undir hlíðum Fagradalsfjalls, en í henni er ekki að sjá nein ummerki eftir selstöðu. Í Skálinni má vel sjá hversu landrofið hefur orðið mikið frá því að svæðið var svo til allt gróið svo til upp á fjallskraga – einstaka rofabarð á stangli.

Kastið

Brak í Kastinu.

Gengið var vestur fyrir Kastið og síðan haldið á fjallið. Innst á því, upp undir hlíðum Fagradalsfjalls, eru hlutar nefndrar flugvélar á víð og dreif. Margir eru í fjallshlíðinni, s.s. hluti hjólastells o.fl. Einhver athöfn virðist hafa farið fram við hjólastellið því skrælnaðar rósir trjónuðu upp úr því. Traðk var í kring. Þarna má sjá ýmsa vélarhluta. Einnig hvar álið hefur bráðnað utan um steina úr hlíðinni. Um borð í vel þessari var m.a. hershöfðinginn Frank Andrews, sem Andrewsbíó o.fl. hefur verið nefnt eftir á Keflavíkurflugvelli. Hann fórst þarna ásamt ásamt þrettán öðrum félögum sínum. Ljósmynd var tekin á vettvangi skömmu eftir slysið. Um var að ræða B-24 sprengjuvél.

Borgarhraun

Sel við Selskál.

Gengið var niður Kastið að sunnanverðu og að skotbyrgi refaskyttu suðvestan við Einbúa. Þaðan mun skyttan hafa haft gott útsýni með hraunkantinum og hraunbreiðunni vestan þess. Skammt sunnar er forn stekkur. Þrátt fyrir leit fundust ekki að þessu sinni nein önnur ummerki eftir selsstöðu á þessum stað, en hraunbakkinn er þarna mjög hár og vel gróinn. Ef um mjög gamla selstöðu hefur verið að ræða gæti reynst erfitt að finna önnur ummerki, en þó er það ekki útilokað. FERLIR hefur leitað þarna þrisvar sinnum áður, en ekki fundið.

Óvenju mikið var um brönugras í grasbollunum ásamt öðrum blómagróðri. Svo virðist sem hann sé að koma upp í auknum mæli á þessu svæði eftir að ágangur búfjár varð ekki eins mikil og áður var (með fullri virðingu fyrir sauðkindinni). Brönugras er stundum nefnt Hjónagras, elskugras, Friggjargas, graðrót og vinargras. Í Hálfdánarsögu Brönufóstra er sagt frá því að tröllkonan Brana gaf fóstra sínum grösin til að vekja ástir konungsdóttur og er nafnið brönugras dregið af því.

Kjói

Kjói.

Þegar komið var aftur að kjóanum lét hann öllum illum látum. Mátti varla á milli sjá hvor hefði betur, jói eða kjói. Veittist hann að göngufólki, settist og reyndi að vekja athygli þess með ýmsu móti, en allt kom fyrir ekki. Árvökul og þjálfuð augu FERLIRsfélaga komu fljótlega auga á kjóaegg þarna á grasi vöxnum mosabakka. Fljótlega komu fleiri kjóar þar að. Sást vel munurinn á kven- og karlfuglinum (kvenfuglinn ljósari á bringuna).
Gengið var yfir tiltölulega slétt hraunið að upphafsstað.
Frábært veður – sól og hiti. Gangan tók 3 klst og 12 mín.

Kastið

Á slysavettvangi í Kastinu.

Fagradalsfjall

Í ritvélarituðu verki Jóns Jónssonar, jarðfræðings, útgefnu af Orkustofnun  árið 1978, er gagnmerkt “Jarðfræðikort af Reykjanesskaga og skýringar við þau”. Kortin, sem þar birtust, eru handunnin og einkar nákvæm – á þess tíma mælikvarða. Arfveri Orkustofnunar mætti gjarnan gefa út hin fjölmörgu nákvæmari jarðfræðiuppdráttarkort Jóns af Reykjanesskaganum, umfram það sem sjá má í framangreindu ritverki. Skrifari er minnugur þess að hafa villst í dimmri þoku ofan Geitahlíðar í leit að hraunhellum, en hafði í vasanum ljósprentað jarðfræðikort Jóns af svæðinu er gerði honum kleift að feta sig með merktum hraunjaðri úr þokunni niður í Sláttudal.
Hér verður lýst athugun jarðfræðingsins á nokkrum hraungosum í Fagradalsfjalli og nágrenni, allt frá forsögulegum tíma til aðdraganda núverandi hraungoss í fjallinu, sem ætti reyndar ekki að hafa komið á óvart.

Hraun í og við Fagradalsfjall

Jón Jónsson

Jón Jónsson.

Borgarhraun nefnist hraunfláki sá, er nær ofan frá suðurhlíðum Fagradalsfjalls að norðan og þekur allt svæðið milli Bleikhóls að vestan og Borgarfjalls að austan. Það hefur fallið í sjó fram vestan við Ísólfsskála og þar fram af hömrum, en ekki sér nú í það neðan við þá hamra. Hraun þetta er víða stórbrotið og á nokkrum stöðum í því eru gjár, sem tilheyra megin sprungukerfinu. Allt bendir til að hraunið sé nokkuð gamalt. Engir gígir sjást í þessu hrauni og er því ekki fyllilega ljóst hvar upptök þess eru.
Gígur allstór er sunnan í Fagradalsfjalli og líklegast að hraunið séð þaðan komið, þó ekki verið það fullyrt, því engar hrauntraðir tengja það við eldstöðina. Hins vegar er ljóst að þarna hefur gosið við fjallsrætur og ná gígmyndanirnar, gjall og hraunkleprar, upp á fjallsbrún. Hraunið er plagioklasdílótt og einstaka ólinvíndíl má og sjá í því. Hraunið nær yfir 3.22 km2 og mun því vera um 0.06 km3.

Fagradalsfjall

Fagradalsfjall – jarðfræðikort JJ.

Uppi á Fagradalsfjalli sunnanverðu hefur gosið (H-46). Það er stutt gígaröð á sprungum, sem stefna nærri beint norður-suður. Gígirnir eru litlir og að mestu úr hraunkleprum. Hraunið er þunnt. Það þekur dálítið svæði suðvestan á fjallinu og hefur fossað vestur af því niður í dalinn austan við kast og niður með því að norðan, þar er sprunga gegnum það og stefnir sú eins og sprungurnar á Fagradalsfjalli og raunar í austanverðu Dalahrauni líka. Hraunið hverfur svo undir Dalahraun, er niður á sléttuna kemur.

Fagradalsfjall

Fagradalsfjall – jarðfræðikort JJ. Dyngjan Þráinsskjöldur miðsvæðis.

Hraun (H-47) hefur komið úr sprungu samhliða Sundhnúkagígunum og því úr austasta hluta gígaraðar, sem nær nokkuð upp í vesturhlíð Þráinsskjaldar. Hraunið er afar gjallkennt og þunnt. Það hefur runnið norður á við og hverfur brátt undir yngri hraun. Gírgirnir eru lítt áberandi og mörk hraunsins fremur ógreinileg.

(H-48) er efsta hraunið í Fagradal og þekur dalbotninn að heita má. Undir því er annað eldra hraun, sem kemur fram í farvegi miðja vegu í dalnum. Það er picrithraun og vafalaust komið frá dyngju og hef ég sökum þess kennt það við dalinn, eins og áður er sagt. Gígir eru efst í dalnum milli Fagradalsfjalls og Þráinsskjaldarhrauna, en þau mynda raunar norðurbrún dalsins og er harla dularfullt hvers vegna þau hafa ekki runnið alveg upp að fjallinu á þessum stað, heldur mynda allhá og skarpa brún norðan hans. Ætla verður að hraunið sé komið úr gígunum efst í dalnum, en ekki er sambandið greinilegt. Hraunið hverfur í dalnum undir framburð úr læknum, sem í vorleysingum fellur þarna niður og svo undir yngri hraun.

(H-49) og (H-50) eru bæði ofan við Fagradal og lítið af þeim sýnlegt nema gígirnir, sem eru mikið veðraðir og fornlegir. Samtals ná þessi hraun ekki yfir nema um 0.7 km2 og eru varla nema 0.0004 km3.

Fagradalsfjall

Gígurinn nyrst í Fagradalsdfjalli.

Norðan á Fagradals-Vatnsfelli eru eldvörp allstór (H-51). Hraun frá þeim þekur suðurhluta fjallsins og hefur fallið vestur af því. Uppi á fjallinu og utan í því er það örþunnt nema rétt við gígina. Smágígur er vestan í fjallinu neðarlega í hlíð. Hraun þetta hverfur undir Þráinsskjaldarhraun og er því eldra en það. Aðalgígirnir eru þrí í röð með stefnu norðaustur-suðvestur og er sá nyrsti þeirra opinn móti norðri. Virðist líklegt að þaðan hafi aðal hraunrennslið verið, en eins og áður er sagt er ekki vitað um stærð þess hrauns, sem þar átti upptök.

Fagradalsfjall

Fagridalur – Nauthólar og Dalssel.

(H-52) er gjallgígaröð, sem liggur um þvert sundið milli Fagradalsfjalls og Fagradals-Vatnsfells. Hún er að mestu fær í kafi af hraunum frá Þráinsskildi og frá lítilli dyngju þar suður af.

(H-53) er örlítil og fornleg hraunspýja norðaustan í Fagradasfjalli ofan við Meradali. Hraunið er sums staðar svo þunnt að utan í brekkunni hangir það ekki lengur saman og mjög hefur veðrunin unnið á því.

Fagradalsfjall

Fagradalsfjall – kort.

(H-54) er hraun, sem hefur runnið niður í dalinn vestan við Höfða og er án efa komið af svæðinu milli Sandfells og Vesturháls. Það hefur fallið vestur sundið milli Höfða og Sandfells, en er það að heita má hulið yngra hrauni. Það sést svo ekki fyrr en í dalnum sunnanverðum, þar sem það kemur fram undan ygra hrauni. Loks fellur það í þrem smáum hraunfossum fram af fjallinu suður af Méltunnuklifi og austan við Skála-Mælifell. Það hverfur strax undir yngri hraun, er niður á sléttuna kemur. Eldstöðin, sem þetta hraun er úr, sést nú ekki, en hún er án efa á sömu slóðum og gígaröðin, sem yngsta hraunið í dalnum er komið frá, en verlegur aldursmunur virðist era á þessum hraunum.

Höfði

Höfðahrauntröð.

Höfðahraun kemur úr Höfðagígunum, sem eru stutt gígaröð austan í móbergs-bólstrabergs hrygg, sem nefndur er Höfði, hraunið þar austur af milli Höfða og Núpshlíðarháls. Þessa leið hafa hraun runnið, sem þekja allt svæðið með sjó fram frá mynni þessa dals all vestur að Ísólfsskála. greinilegt er, að á allstóru svæði hefur þetta hraun runnið í sjó út, t.d. á svæðinu milli Ræningjagjögurs og Veiðibjöllunefns og má telja víst að hraunið hafi þarna bætt allverulegri sneið við landið. Skammt eitt austan við Ísólfsskála má sjá fornan malarkamb uppi í hrauninu og skammt þar frá votta fyrir gervigígum. Þessi hraunfláki allur er án nokkurs efa kominn af svæðinu vestan við Núpshlíðarháls, en að hvað miklu leyti það er í Höfðagígum komið, gígunum við þjóðveginn fremst í dalnum, sem nefndir eru Moshólar, eða öðrum eldstöðvum, sem nú eru huldar yngri hraunum, skal að svo komnu máli ekki fullyrt um. Moshólar eru fremst í dalnum og liggur þjóðvegurinn milli þeirra. Hrauntraðir allstórar liggja frá syðsta gígnum ái átt til sjávar. Svo virðist sem Höfðahraun hafi klofnað á þessum gígum og sé því eitthvað yngra en þeir. Hins vegar er hugsanlegt að gosið því nær samtímsis á báðum þessum stöðum.

Méltunnuklif - misgengi

Méltunnuklif – misgengi.

Misgengi það, er liggur um Höfða vestanverðan og myndar stallinn Méltunnuklif, brýtur hraunið þar suður af og er sigið austan megin. Bendir þetta til að hraunflákinn sé allgamall.”

Heimild:
-Orkustofnun, Jarðfræðikort af Reykjanesskaga – skýringar við jarðfræðikort, Jón Jónsson, 1978, bls. 149-153.

Fagradalsfjall

Fagradalsfjall – kort.