Færslur

Borgarhraunsrétt

Ætlunin var að ganga um Borgarhraun og upp á Kastið og skoða þar brak úr B-24 sprengiflugvél er fórst þar þann 3. maí árið 1943.

Hraun

Kapellutóft austan við Hraun.

Á leiðinni þangað var komið við í kapellunni á Hraunssandi ofan við Hrólfsvík. Brak og drasl er yfir tóftunum, en við þær stendur einmana staur með merki Þjóðminjasafnisins, sem segir að þarna séu friðlýstar fornminjar einhvers staðar undir. Sá, sem myndi reyna að fá því framgegnt að minjar þessar yrðu gerðar sýnilegar vegfarendum um eina fallegustu þjóðleið landsins, fengi gott klapp á bakið frá FERLIR og eflaust mörgum fleirum. Undir sandhrúgunni eru minjar kapellu frá kaþólskum sið. Dr. Kristján Eldjárn og fleiri grófu í tóftina á sínum tíma, fundu þar margt hluta, en mokuðu síðan yfir hana aftur. Kristján skrifaði merka ritgerð um uppgröftinn og síðan aðra ári seinna þar sem hann var orðinn nokkuð sannfærður um að þarna hefði verið um forna kapellu að ræða. Árið 1602 fórst Skálholtssúðin í Hrólfsvíkinni og margt ungra manna frá Skálholti með henni. Talið er að þeir séu grafnir í Kapelluláginni neðan við kapelluna. Þessum stað þarf að sýna meiri sóma, en verið hefur hingað til. Járnarusl er þarna um allt og lítil virðing sýnd því sem sandurinn hefur að geyma. Sagt er að sá sé vitur sem gerir sér grein fyrir hversu lítið hann veit í raun og veru. En sá, sem gerir sér grein fyrir með vissu hvað hið ósýnilega hylur, er ríkur. Grindvíkingar geta því, skv. þeim mælikvarða, talist mun ríkari en þeir gera sér grein fyrir.

Hrólfsvík

Hrólfsvík.

Í Hrólfsvíkinni er hægt að finna fallegt djúpberg á kafla og skammt austar er stórbrotið útsýni yfir Ægissand og Festisfjall.
Komið var við í Móklettum og skoðað ártal þar á landamerkjum Hrauns og Ísólfsskála. Frá merki þessu er sagt frá í örnefnaskrám, en fáir munu vita hvar það er í klettunum. Við Mókletta gerðust atburðir, sem Dagbjartur Einarsson kann einn að segja frá.
Haldið var framhjá Hatti (sem sumir kalla Grettistak) og að Drykkjarsteini. Allar skálar hans voru tómar að þessu sinni, sem verður að teljast til tíðinda því menn stóluðu jafnan á vatn á þessum stað á löngum ferðum sínum milli Grindavíkur og Krýsuvíkur. Vatnsskorturinn er talinn merki um mikið hlýindasumar.

Borgarhraunsrétt

Borgarhraunsrétt.

Gengið var að Borgarhraunsrétt með viðkomu í Viðeyjarborg, forni fjárborg. Gamla gatan að Siglubergshálsi liggur vestan við Drykkjarsteinsdal. Borgin er allstór og gróið er í henni og í kringum hana. Hún er utan í hól og hallar til suðausturs. Í henni hefur verið hlaðin kví eða kró. Í borginni austanverðri má sjá hversu þykkir veggir hennar hafa verið, eða faðmur. Þarna hefur verið mikið mannvirki á meðan var. Talið er að borg þessi hafi verið frá Viðeyjarklaustri, sem hafði fé á þessum slóðum líkt og t.d. í Borgarkoti á Vatnsleysuströnd og víðar.

Viðeyjarborg

Viðeyjarborg (Borgin).

Þegar gengið var áleiðis norður upp á hæðina norðan borgarinnar gerðist kjói allnærgöngull. Gengið var yfir að Borgarhraunsrétt, en hún er fallega hlaðin undir háum apalhraunbakka. Norðan hennar er hlaðið lítið skjól. Í rauninni hefur réttin oft verið nefnd Ísólfsskálarétt, en staðkunnugir hafa viljað halda sig við fyrrnefnda nafnið.

Sandakravegur

Sandakravegur.

Gengið var áfram til norðurs, áleiðis að Einbúa. Sunnan hans er áberandi gata, greinilega mjög forn. Kastað hefur verið úr götunni á kafla. Sunnan hennar hefur verið hlaðið gerði og má enn sjá merki þess. Norðan gerðisins er hlaðið skjól, einnig greinilega mjög gamalt. Þarna gæti verið um að ræða hluta götu er kom upp frá Mosadal, um Fagradal og áfram áleiðis að Ísólfsskála, svonefndan Sandakraveg, sem lengi hefur verið merktur inn á landabréf sem slíkur. Ummerki eftir götuna má m.a. sjá í hrauninu sunnan við Kastið. Þar liðast hún um mosahraunið á kafla. Greinilegt var að þessi leið hefur ekki verið farin lengi. Selskál er undir hlíðum Fagradalsfjalls, en í henni er ekki að sjá nein ummerki eftir selstöðu. Í Skálinni má vel sjá hversu landrofið hefur orðið mikið frá því að svæðið var svo til allt gróið svo til upp á fjallskraga – einstaka rofabarð á stangli.

Kastið

Brak í Kastinu.

Gengið var vestur fyrir Kastið og síðan haldið á fjallið. Innst á því, upp undir hlíðum Fagradalsfjalls, eru hlutar nefndrar flugvélar á víð og dreif. Margir eru í fjallshlíðinni, s.s. hluti hjólastells o.fl. Einhver athöfn virðist hafa farið fram við hjólastellið því skrælnaðar rósir trjónuðu upp úr því. Traðk var í kring. Þarna má sjá ýmsa vélarhluta. Einnig hvar álið hefur bráðnað utan um steina úr hlíðinni. Um borð í vel þessari var m.a. hershöfðinginn Frank Andrews, sem Andrewsbíó o.fl. hefur verið nefnt eftir á Keflavíkurflugvelli. Hann fórst þarna ásamt ásamt þrettán öðrum félögum sínum. Ljósmynd var tekin á vettvangi skömmu eftir slysið. Um var að ræða B-24 sprengjuvél.

Borgarhraun

Sel við Selskál.

Gengið var niður Kastið að sunnanverðu og að skotbyrgi refaskyttu suðvestan við Einbúa. Þaðan mun skyttan hafa haft gott útsýni með hraunkantinum og hraunbreiðunni vestan þess. Skammt sunnar er forn stekkur. Þrátt fyrir leit fundust ekki að þessu sinni nein önnur ummerki eftir selsstöðu á þessum stað, en hraunbakkinn er þarna mjög hár og vel gróinn. Ef um mjög gamla selstöðu hefur verið að ræða gæti reynst erfitt að finna önnur ummerki, en þó er það ekki útilokað. FERLIR hefur leitað þarna þrisvar sinnum áður, en ekki fundið.

Óvenju mikið var um brönugras í grasbollunum ásamt öðrum blómagróðri. Svo virðist sem hann sé að koma upp í auknum mæli á þessu svæði eftir að ágangur búfjár varð ekki eins mikil og áður var (með fullri virðingu fyrir sauðkindinni). Brönugras er stundum nefnt Hjónagras, elskugras, Friggjargas, graðrót og vinargras. Í Hálfdánarsögu Brönufóstra er sagt frá því að tröllkonan Brana gaf fóstra sínum grösin til að vekja ástir konungsdóttur og er nafnið brönugras dregið af því.

Kjói

Kjói.

Þegar komið var aftur að kjóanum lét hann öllum illum látum. Mátti varla á milli sjá hvor hefði betur, jói eða kjói. Veittist hann að göngufólki, settist og reyndi að vekja athygli þess með ýmsu móti, en allt kom fyrir ekki. Árvökul og þjálfuð augu FERLIRsfélaga komu fljótlega auga á kjóaegg þarna á grasi vöxnum mosabakka. Fljótlega komu fleiri kjóar þar að. Sást vel munurinn á kven- og karlfuglinum (kvenfuglinn ljósari á bringuna).
Gengið var yfir tiltölulega slétt hraunið að upphafsstað.
Frábært veður – sól og hiti. Gangan tók 3 klst og 12 mín.

Kastið

Á slysavettvangi í Kastinu.

Borgarhraunsrétt

Á nýlegri landakortum er Sandakravegur sýndur liggja frá Drykkjarsteinsdal í austri, með vestanverðu Fagradalsfjalli til norðurs og síðan niður á Skógfellastíg úr Fagradal um Aura. Veginum var fylgt norður með Borgarfjalli, um Nátthagakrika, framhjá Einbúa og að Kastinu með viðkomu í Selskál, Borgarhraunsréttinni og Borgarhraunsborg.

Sandakravegur

Gengið um Sandakraveg.

Þegar gengið var af gömlu þjóðleiðinni frá Grindavík til Krýsuvíkur vestast í Drykkjarsteinsdal má sjá djúpa gróna holu innan við hraunkantinn. Þarna gæti hafa verið vatnsstæði eða brunnur. Erfitt er að greina götuna að ráði fyrr en komið er inn fyrir Borgarfjallið, en þegar komið er í Nátthagakrika fer að móta vel fyrir henni. Sunnan við Einbúa er gatan mjög skýr. Kastað hefur verið upp úr henni á kafla, auk þess sem hlaðin gerði eru á tveimur stöðum við götuna.

Haldið var inn í Selskálina og hún skoðuð.

Borgarhraun

Sel við Selskál.

Ekki var að merkja nein mannvirki í skálinni, enda hefur orðið þarna mikil jarðvegseyðing. Þó er á einum stað vel grasi gróið svæði, en ekki var gott að merkja á bakka, sem þar, hvort hann væri náttúrulegur eða gæti verið hluti af einhverju mannvirki.
Gengið var til suðvesturs með vesturbrún hraunkants. Utan í honum eru grasi grónar brekkur og bollar. Hlaðinn stekkur er þar utan í bakkanum, en við leit fundust ekki önnur sýnileg mannvirki. Þó er líklegt að þau kunni að leynast þarna ef vel væri að gáð.
Stefnan var tekin til suðurs inn á hraunið, að Borgarhraunsréttinni, sem kúrir þar heilleg undir suðurjaðri hraunsins. Sumur hafa viljað nefna réttina eftir Ísólfsskála þar sem hún er í hans landi, en Skálamenn þekkja ekki slíka nafngift.

Borgarhraunsborg

Í Borgarhraunsborg.

Gengið var áfram til suðurs, að Borgarhraunsborg. Um er að ræða stóra fjárborg á grónum hraunhól. Hún er í rauninni í Litla-Borgarhrauni, skammt frá mynni Drykkjarsteinsdal.
Nafnið Selskál bendir til selstöðu og þá væntanlega frá Ísólfsskála. Stekkurinn í hraunkantinum gæti hafa verið hluti af henni. Nátthagakriki er enn ein vísbendingin og einnig Nátthagi skammt austar í Fagradalsfjalli.
Hugsanlega gæti gatan þar sem hún sést svo vel í krikanum og undir Einbúa einnig hafa verið hluti af selsstígnum. En hvað sem öllum vangaveltum líður fæst sennilega seint úr því skorið. Þetta svæði er hins vegar hið ákjósanlegasta göngu- og útivistarsvæði og margt að skoða.
Frábært veður. Gangan tók 2 klst og 22 mín.

Viðeyjarborg

Í Borgarhraunsborg.

Þórkötlustaðarétt

Núverandi Þórkötlustaðarétt í Þórkötlustaðahverfi var hlaðin af Grindavíkurbændum um aldamótin 1900. Grjótið var að að einhverju leyti tekið úr Vatnsheiðinni, auk þess sem kom upp úr túnsléttun í hverfinu og úr hraunhellunni umhverfis réttina. Hún var síðan endurbætt skömmu fyrir árið 2000. Réttin hefur ávallt þótt góð til síns brúks.

Þórkötlustaðarétt

Þórkötlustaðarétt – loftmynd 1954.

Fyrrum var fé Grindvíkinga vel á fjórða þúsund á vetrarfóðrum. Féð af fjalli fyllti safnhólfið sem og alla dilka. Urðu bændur að rýma af og til úr dilkunum svo þeir gætu dregið allt sitt fé. Þegar gerðið kom til ofan við réttina greiddist heldur úr þrengslunum.

Þórkötlustaðarétt

Þórkötlustaðarétt 1954 – uppdráttur ÓSÁ.

Áður var lögréttin í Krýsuvík, suðvestur undan Arnarfelli (Arnarfellsréttin). Hætt var að nota hana um 1950. Þangað til varð að reka úrdrátt frá Þórkötlustaðarétt upp í Krýsuvík og var afgangsféð selt þar.

Réttin suðaustan við Bæjarfellið var vorrétt. Þá voru rúningsréttir t.d. á Vigdísarvöllum og í Stóra-Hamradal, sem enn sjást leifar af.

Borgarhraunsrétt

Borgarhraunsrétt – uppdráttur ÓSÁ.

Í Borgarhraunsrétt var réttað frá því fyrir aldamótin 1800.

Sigurður Gíslason á Hrauni í Grindavík lýsti smalamennskum í Grindavíkurhreppi (10. nóvember 2004):
“Eftir að seljabúskap lauk voru lagðir til 20 menn í vorsmalamennsku í Krýsuvík, sem tók minnst þrjá daga og allt upp í viku. Fyrst hafi verið smalað á Vigdísarvöllum, Selsvalla- og Sveiflubergshálsar og Selsvellir teknir með frá Núpshlíðarhálsi, Dyngjurnar, Höskuldarvellir inn á Norðlingaháls þegar Höskuldarvellir voru með í smölun. Oft hafi komið tveir til þrír menn af Ströndinni (þ. e. Vatnsleysuströnd). Daginn eftir, ef vel hafði gengið, voru tjöldin flutt vestur yfir Selsvallaháls, menn dreift sér í smölun frá Sogum vestur með Drif<f>felli, sunnan undir Keili, farið um Hemphól, vestasti maður farið fram Dalahraun og Beinavörðuhraun, þaðan um Bleikshól og þaðan austur að Borgarrétt. Í suður frá Sogum verið farið fram fyrir Hraunssel, syðsti maður sunnan við Méltunnuklif og Skála-Mælifell og réttað í Borgarhraunsrétt.

Þórkötlustaðarétt

Þórkötlustaðarétt 2020 – uppdráttur ÓSÁ.

Haustsmölun hafi verið í 22. viku sumars. Á laugardegi var smalað í Krýsuvík og féð rekið til Þorkötlustaðaréttar á sunnudegi en þann dag smalað Hraunsland frá Selsvallahálsi og Ísólfsskála- og Þorkötlustaðalönd. Fjórir menn hafi farið að vestan um Skógfellin og Kálffellsheiði, innsti maður farið inn á Hemphól og beðið eftir þeim, sem komu að austan. Tuttugu manna hópur fór ríðandi inn Selsvelli, inn í Sog, í Kerið, þá riðið inn með Trölladyngju, þar var skipt. Fimm menn látnir smala Dyngjurnar, austasti maður fór fyrir austan Fíflavallafjall og gat þurft að fara austur að Hofmannaflöt ef fé sást þar. Aðrir fóru vestur yfir Oddafell að Keili og vestasti maður hitti þann, sem beið við Hemphól. Þaðan var haldið suður um Kálffell, Aura, Dalahraun og Beinavarðahraun [í lýsingunni er ýmist talað um Beinavörðu- eða Beinavarðahraun] fram Vatnsheiði til réttar. Austasti maður fór um Óbrennuhólma og þaðan um Miðreka og út um Selatanga, Mölvík til Ísólfsskála og áfram til réttar. Fé hafi verið smalað til rúnings fram til ársins 1991 og menn haft stóð á fjalli, Ísólfsskálabóndi fram til 1990.”

Þórkötlustaðarrétt

Gamla Þórkötlustaðarréttin við Efra-Land.

Áður en Þórkötlustaðaréttin kom til réttuðu Þórkötlustaðabændur þar sem nú er grjótgarður vestast innan girðingar Efra-Lands, þ.e. þar í norðvesturhorninu, sem nú er. Þar var Gamla réttin. Í henni var enginn dilkur, einungis gerði. Sjá má leifar hennar ef vel er að gáð. Réttin var mun stærri en ætla mætti, en grjót var tekið úr henni og notað í garðana, sem sjá má ofan við Efra-Land.”

Þórkötlustaðir

Þórkötlustaðir – skálasvæðið.

Hafur-Björn Molda-Gnúpsson er sagður, ef marka má þjóðsöguna, hafa átt gnægð fjár, enda “efnaðist hann mjög af fé” eftir draumfarirnar með landvættinum og tilkomu geithafursins í hjörð hans (þess vegna er allt fé Grindvíkinga öðruvísi en annað fé landsmanna), og bræður hans fiskuðu aldrei sem fyrr. Auðguðust þeir bræður bæði af gæðum lands og sjávar.
Ekki þarf að leita að fjárrétt Hafur-Björns og bræðra því annað hvort hafa þeir ekki þurft að rétta eða sú rétt gæti löngu verið komin undir hraun því ekki eru ófá hraunin við Grindavík, sem runnið hafa eftir að ætt Molda-Gnúps bjó þar eftir árið 934. Fyrstu heimildir um byggð í Þórkötlustaðahverfi er um miðja 13. öld, en þá höfðu hraunin ofan núverandi byggðar runnið og kólnað að mestu. Við norðvesturhúshornið á núverandi Þórkötlustöðum (Miðbæjar) eru tóftir fornaldarskála að mati Brynjúlfs Jónssonar frá Minna-Núpi (skrifað 1903). Hann skyldi þó aldrei vera eldri, og það jafnvel mun eldri, en gosið ofan við Grindavík árið 1226. Minjarnar, ef vel er að gáð og ef tilgáta Brynjúlfs er rétt, gætu þess vegna verið frá upphafi landnáms í Grindavík.

Samantekt; ÓSÁ fyrir ferlir.is

Heimild m.a.:
-Úrskurður Óbyggðanefndar – mál nr. 1/2004; Grindavík og Vatnsleysuströnd.

Þórkötlustaðarétt

Þórkötlustaðarétt.

Sigurður Gíslason

Eftirfarandi er upprifjun, að gefnu tilefni, úr fyrrum FERLIRsferð frá Hrauni í Grindavík og nágrenni:

Hraun

Hraun – Gamli brunnur.

FERLIR gekk um sunnanverð Suðurnes s.l. laugardag. Tekið var hús á fjölfróðum merkismanni, Sigurði Gíslasyni, bónda á Hrauni austan Grindavíkur. Leiddi hann hópinn og sýndi honum m.a. fallega tilhöggvin stein, sem gæti verið forn skírnarfontur úr gömlu bænahúsi eða kirkju, sem hafði staðið þar skammt frá og getið er um í gömlum heimildum.

Hraun

Hraun – fontur.

Fonturinn er hinn merkilegasti gripur. Hann kom upp þegar verið var að grafa utan í fjárhús fyrir nokkrum misserum, en aftan þeirra átti bænahúsið að hafa staðið fyrrum. Fyrir stuttu var fonturinn síðan sóttur í gröftinn og komið á tryggari stað. Sigurður sýndi hópnum auk þess fallega hlaðinn brunn, Gamlabrunn, á söndunum ofan Hrólfsvíkur, en þangað sóttu íbúar Þórkötlustaða vatn á 19. og á framanverðri 20. öld. Brunnurinn hefur fallið í gleymsku og virðast fáir vita af tilvist hans nú orðið. Skammt austar er Kapellulág, en þar undir sandinum er kapella frá því á 15. öld, ein af gersemum svæðisins. Þá benti Sigurður á forna dys á hól vestan Hrauns, en í hana hafði Kristján Eldjárn áhuga að grafa, en entist ekki aldur til.

Hraun

Refagildra við Hraun.

Loks var skoðuð gömlu hlaðin krossrefagildra, líklega sú eina á landinu, svo vitað sé.
Sigurður sýndi hleðslur ofan Húsfells, sem og opin á “Tyrkjahellinum” á Efri-Hjalla.

Geldingadalur

Í Geldingadal – Dys Ísólfs.

Þá var gengið að Drykkjarsteini í Drykkjarsteinsdal, en hann stendur við gamla Sandakraveginn (Krýsuvíkurleiðina) þar sem hann liggur á bak við Slögu að Méltunnuklifi og áfram austur úr til Krýsuvíkur.

Krýsuvíkurleið

Krýsuvíkurleið.

Gatan (leiðin) er mjög greinileg. Hún var gerð ofan í vagnveginn, sem lagður var millum Ísólfsskála og Krýsuvíkur 1923 um  hinn forna Ögmundarstíg.
Þaðan var gengið um Nátthaga, upp skarðið og yfir að Stórahrút og að ofanverðum Merardölum. Þar var beygt yfir í Geldingadal og litið á dys Ísólfs gamla á Skála, en sagan segir að hann hafi látið dysja sig í dalnum þar sem sauðir hans undur hags sínum svo vel.

Borgarhraun

Borgarhraun – stekkur.

Gengið var auðveldlega upp úr dalnum að vestanverðu og þá komið niður í Selskál norðan Borgarfjalls, en í skálinni er talið að Ísólfsskálasel hafi verið. Engar tættur er þó þar, enda landeyðing þarna mikil í seinni tíð. Skammt vestar er stekkur í hraunkanti Borgarhrauns. Líklegt er að selstaðan hafi þar verið og þá heimasel.

Neðan Einbúa var komið að gömlu leiðinni norður að Stóra-Skógfelli, en við hana er gamalt hlaðið aðhald. Við það er hlaðið lítið skjól. Skammt vestan þess má sjá gamalt fallega staðsett refabyrgi og enn vestar, undir hraunhrygg, er forn stekkur. Þar við gæti hafa verið heimaselstaða til einhvers tíma.

Borgarhraunsrétt

Borgarhraunsrétt.

Sunnar er hlaðna Ísólfsskálaréttin (Borgarhraunsréttin) og Borgin forna (Viðeyjarborg) í Borgarhrauni, en hún gæti jafnvel verið frá þeim tíma er Viðeyjarklaustur nýtti staðinn því til handa.
Eins og sjá má er Reykjanesskaginn fjölbreytileg útivistarparadís – og það við hver fótmál. Stutt er í alla áhugaverða og fallegu staðina, hvort sem þeir tengjast merkilegum náttúrufyrirbrigðum, minjum eða sögu.

Drykkjarsteinn

Drykkjarsteinn í Drykkjarsteinsdal.

Hraun

Skoðaður var forn “skírnarfontur” úr grágrýti við Hraun austan Þórkötlustaðahverfis. Hann fannst þegar verið var að grafa við fjárhús, sem þarna eru, en í fyrri tíð átti bænahús að hafa staðið þar norðan húsanna. Steininum var hent til hliðar í fyrstu, en Siggi (Sigurður Gíslason) á Hrauni lét grafa hann upp fyrir skömmu og er hann hinn fallegasti og merkilegasti gripur.

Grindavík

Grindavík – dys við Hraun.

Að vandlega skoðuðu máli virðist steinninn einnig geta verið svonefndur stoðsteinn. Þeir voru hafðir undir burðarstoðum bæja, höggvið í þá fyrir stoðinni og hún látin standa í holunni. Dæmi þessa má t.d. sjá í gömlu Herdísarvíkurbæjartóftinni, en þar er stoðsteinn þar sem önnur burðarstoðin við útidyrnar var.

Siggi sýndi FERLIRsfélögum dys ofan vegar sem Kristján heitinn Eldjárn hafði mikinn áhuga á, en gafst ekki tími til að kanna, auk þess sem skoðaðir voru brunnar við bæinn og Gamlibrunnur úti á sandinum ofan við Hrólfsvík.

Hraun

Refagildra við Hraun. Sigurður Gíslason ásamt Sesselju Guðmundsdóttur.

Um er að ræða fallega hlaðinn brunn, en er nú að mestu fylltur fosksandi. Loks var haldið upp Sandskarðið og upp í Hraunsleyni þar sem leynist ein fallegasta refagildra sem um getur. Um er að ræða krossgildru með fjórum inngöngum (en engum útgöngum).

Sigurður fór að rifja upp staðsetninguna eftir að FERLIR fór að grennslast um refagildrur á þessum slóðum. Niðurstaðan varð þessi ofan við Hraunsleyni. Hún er hlaðin úr hraungrýti. Tveir inngangar hennar er að mestu heilir og sá þriðji heillegur. Staðsetning hennar er nálægt refaslóð, með hraunkantinum.

Drykkjarsteinn

Drykkjarsteinninn að vetrarlagi.

Eldri refagildrur eru einnig sunnan við Hraunsleyni, en mun minni. Nokkur hætta er á að gildrunni verði raskað þegar kemur að framkvæmdum við Suðurstrandarveginn því hún fellur vel inn í hraunmyndina.

Þá var haldið að Drykkjarsteini í Drykkjarsteinsdal og hann skoðaður. Steinninn er við gömlu þjóðleiðina áleiðis yfir að Méltunnuklifi á bak við Slögu. Vísa hefur verið ort um steininn og til er þjóðsaga um hann. Sú sögn hvílir og á steininum að í honum þrjóti sjaldan vatn.
Haldið var inn eftir dalnum og áfram inn Nátthaga og gengið á skarðið. Var þá komið inn í slétta sendna dalbreiðu vestan Stóra-Hrúts.

Gengið var að brúnum Merardala og þaðan til vesturs ofan í Geldingadal. Dalurinn var skoðaður fram og aftur sem og meint dys Ísólfs gamla frá Skála.

Geldingardalur

Geldingadalur – dys Ísólfs.

Gengið var upp úr dalnum að sunnanverðu og komið niður í Selskálina norðan Borgarfells. Á leiðinni yfir fellið blasti við stórkostlegt útsýni yfir allt vestanvert Reykjanesið.

Gengið var að Einbúa og skoðuð hlaðin forn hestarétt sunnan hans sem og lítið hlaðið skjól. Gömul leið liggur þarna þvert á og hefur verið talsvert kastað upp úr götunni. Líklega er þarna um að ræða hluta af Sandakravegi þeim, er jafnan er merktur inn á gömul landakort. Stefnir gatan á norðurhlíð Borgarfjalls. Skammt sunnar fannst haglega hlaðið refabyrgi og skammt sunnar þess fallegur stekkur.

Borgarhraun

Borgarhraun – stekkur.

Hraunkanturinn þarna er vel gróinn. Ekki er ólíklegt, ef vel væri leitað, að finna mætti seltóft í eða við einhvern hraunbollan, en afstaðan þarna er svipuð og í öðrum selsstöðum á svæðinu, enda líklegt að þessa svæði hafi verið nýtt til þeirra hluta.

Viðeyjarborg

Viðeyjarborg – fjárborg við Ísólfsskála.

Selskálin bendir til selstöðu, en í dag er ekki vitað hvar Ísólfsskáli hafði í seli fyrrum. Engin ummerki eru eftir selstöðu í sjálfri skálinni og ekki við Einbúa. Hins vegar bendir stekkurinn til selstöðu þarna á skjólsælum stað. Mikið af brönugrasi vex á börmum bollanna og talsvert gras er með köntunum, en óvíða annars staðar.

Borgarhraunsrétt

Borgarhraunsrétt.

Gengið var með hraunkantinum niður að Ísólfsskálaréttinni gömlu (Borgarhraunsréttinni) og áfram fram hjá hjá fjárborg (Borgarhraunsborg) áður en göngunni lauk. Sagnir eru um að Viðeyjarklaustur hafi haldið fé í borginni, en það hafði ítök í fjölmörgum jörðum, einkum á norðanverðum Reykjanesskaganum. Um það er fjallað annars staðar á vefsíðunni. Eitthvert samhengi gæti verið með borginni og stekknum norðan við hraunkantinn. Ef svo hefur verið aukast enn líkur á að finna megi tóft eða tóftir á svæðinu.
Frábært veður. Gangan tók 4 klst og 4 mín.

Hraun

Hraun – uppdráttur ÓSÁ.