Færslur

Dísurétt

Haldið var að Kleifarvöllum og haldið á Kleifarvallarskarð. Þar nokkuð ofan við brúnina eru þrír skútar, Pínir, Sveltir og Músarhellir. Frábært útsýni var þarna yfir Vogsósa og Selvog. Sjá mátti t.d. Fornagarð (Strandargarð) mjög greinilega þar sem hann liðaðist um sandinn sunnan Vogsósa, en garðurinn er talinn eitt elsta uppistandandi mannvirki landsins.

Áni

Áni.

Gengið var með Katlahlíð yfir að Katlahrauni, þvert á Hlíðargil. Þar er Dísurétt í hraunkvos, fallega hlaðin og hefur haldið sér nokkuð vel frá árinu 1938. Erfitt er þó að finna réttina vegna legu hennar í hrauninu. Frá henni er ágætt útsýni upp Strandardal og yfir víðan Hliðardalinn vestan Svörtubjarga. Dísurétt var nefnd eftir stúlkubarni er fæddist í Torfabæ 2. október 1937 og síðar var skírð Eydís Eyðþórsdóttir. Hún lést í Reykjavík 2. apríl 2010. Faðir hennar var Eyþór Þórðarson í Torfabæ.

Eiríksvarða

Eiríksvarða á Svörtubjörgum.

Upp af Strandardal er Kálfsgil þar sem Eiríkur prestur á Vogsósum er sagður hafa grafið mestu galdrabók allra tíma, Gullskinnu. Haldið var að Eiríksvörðu efst á Svörtubjörgum, en hana er Eiríkur sagður hafa látið hlaða og mælt síðan svo fyrir um að á meðan varðan stæði væri Selvogur hólpinn fyrir Tyrkjanum. Hugað var að Sælubúnu, lind á milli Svörtubjarga og Urðarfells og síðan gengin refaslóð niður fyrir björgin og staldrað við í Staðarseli, fallegu fráfæruseli efst undir björgunum. Þaðan er fallegt útsýni niður með Svörtubjörgum, Katlahlíðum og Herdísarvíkurfjalli.

Hlíðarborg

Hlíðarborg.

Eftir að hafa skoðað selið vel og vandlega var gengið niður með björgunum í rjómalogni og hita. Klifrað var upp í Stígshella vestast og efst í Svörtubjörgum, en framundan (neðan) þeim eru brattar grasbrekkur og síðan einstigi vestur með hellunum og áfram upp á vesturbrún fjallsins. Þaðan var haldið að Hlíðarborg og hún skoðuð. Um er að ræða mjög fallega fjárborg á fallegum stað, vestur undir háum klofnum hraunhól. Byggt hefur verið hús í borginni, en allt er þetta upp gróið.

Valgarðsborg

Valgeirsborg í Hlíðarseli.

Valgeirsborg er skammt sunnar, en vestan hennar eru tóftir, sennilega selstöðu. Ekki er vitað til þess að þessar minjar hafi verið færðar á fornleifaskrá. Frá Hlíðarborg var gengið að Ána og skoðaðar hleðslurnar fyrir hellismunnanum og síðan hellirinn sjálfur.
Litið var til með Vogsósaseli ofan við Vatnsdal. Að því búnu var gengið að Vogsósaborgum, þremur mjög heillegum fjárborgum á hól austan Hlíðarvatns.
Þetta er skemtileg gönguleið og margt að skoða.
Frábært veður – sól, hlýtt og lygnt.

Borgirnar þrjár

Borgirnar þrjár ofan Vogsósa.

Brunnur

Forn garður í Selvogi, rúmlega 7 km langur, er jafnan nefndur Fornigarður. Hann hefur hins vegar ekki alltaf verið forn. Áður var hann nefndur Strandargarður eða Langigarður.

Fornigarður

Fornigarður í Selvogi.

Þórarinn Snorrason á Vogsósum leiddi FERLIRsfólk að enda Fornagarðs (Strandargarðs) Hlíðarvatnsmegin, en þaðan liggur hann yfir að Nesi í Selvogi, 7 km. leið. Um var að ræða vörslugarð er umlukti Selvogsbæina, en hann hefur líklega verið hlaðinn um árið 1000, en heimildir eru um garðinn allt frá árinu 1275. Garðurinn liggur frá Hlíðarvatni að Impuhól og þaðan að Gíslhól. Við hólinn var gömul rétt, sem fyrir löngu hefur verið aflögð. Frá Gíslhól og upp fyrir fjárhúsin á Vogsósum, þar sem gamla Vogsósaborgin stóð til 1954, hefur garðurinn verið sléttaður út. Hægt er að fylgja honum suðaustur túnið austan fjárhúsanna og þegar túninu sleppir sést hann greinilega alveg austur fyrir Strandarkirkju. Skammt ofan við Vogsósatúnið má sjá ummerki eftir fjárborg og hús. Hefur hvorutveggja verið utan garðs, en umleikis þau hefur verið hlaðinn ferkantaður garður. Ekki er vitað til þess að þessar fornminjar hafi verið skráðar.

Vogsósaborgir

Vogsósaborgir – Borgirnar þrjár.

Var gengið sem leið lá með garðinum framhjá Stórhól og að kirkjunni. Á leiðinni má sjá aðra gamla þvergarða og garða, sem liggja yfir og í sveig á Fornagarð. Vestan garðsins liggur Kirkjugatan á milli Strandar og Vogsósa, vel vörðuð. Þegar skammt er til Strandar sést móta fyrir hleðslum Sveinagerðis, velli þar sem Erlendur lögmaður lét sveina sína æfa listir sínar.
Austan Strandarkirkju rakst hópurinn á sérstæðan gataðan hestastein, auk þess leitað var að gamla skósteininum við kirkjuna. Hann á að vera skammt norðan við hæð norðan kirkjunnar. Sjá má gömlu þjóðleiðina yfir Vogsósa liggja frá kirkjunni áleiðis að þeim, vel varðaða.

Strandarkirkja

Strandarkirkja.

Frá kirkjunni var gengið eftir garðinum á ská yfir veginn og áfram að gömlu Þorkelsgerðisréttinni (Út-Vogsrétt). Frá henni hefur elsti hluti garðsins varðveist mjög vel, allt að Þorkelsgerðishliði. Var garðinum fylgt suðaustur með tröðunum og síðan þvert til austurs að Bjarnastaðahliði og síðan áfram norðan við Nes og að vitanum austan þess. Þar má sjá garðinn koma niður að sjó sunnan við vitann. Skoðað var gamla vitastæðið úti á glöppunum. Fjaran vestan Nesvita er auðgengileg og þar getur verið margt að sjá fyrir þá sem ganga með opin augun. Bæði er lífríki fjörunnar fjölbreytilegt sem og steinategundir í og ofan við fjörukambinn.

Nes

Nes í Selvogi – sjóbúð.

Frá Nesvita var gengið að Nesi og m.a. skoðað gamla brunnhúsið, fjárborgirnar tvær og sjóbúðin vestan þess. Borgirnar eru sagðar hafa horfið í flóðinu 1925, en þær eru nú þarna samt sem áður, að vísu hálfhrundar sjávarmegin.

Djúpudalaborg

Djúpudalaborg.

Skoðaður var gamli brunnurinn á Bjarnastöðum og einnig Guðnabæjarbrunnurinn áður en haldið var í Djúpudali þar sem skoðuð var fallega topphlaðna Djúpudalaborgin. Gerð var og leit að gömlu borginni við dalina, sem spurnir höfðu borist af frá eldri Hafnarbúa, sem kvaðst hafa séð hana fyrir allmörgum árum síðan. Vísaði hann FERLIR á svæði þar sem hana væri líklegast að finna, en þrátt fyrir leit fannst hún ekki að þessu sinni. Talsvert sandfok hefur verið þarna á síðari árum, auk þess sem gróðurlínan hefur færst talsvert ofar en áður var. Gerð verður ítrekuð leit að borginni síðar.
Í bakaleiðinni var komið við í Borgunum þremur austan Hlíðarvatns og þær skoðaðar í sólbirtunni.
Frábært veður.

Djúpudal

Djúpudalaborg.

 

 

Þórarinn Snorrason
Gengið var frá Hlíð við Hlíðarvatn, að Vogsósum, Fornagarði fylgt upp túnið og síðan haldið áfram eftir Kirkjugötunni að Strönd í Selvogi.
Skoðaðar voru tóftirnar í Hlíð, sem mun hafa verið landnámsbær Þóris haustmyrkurs. Reyndar er talið að rústir þær hafi verið á tanga eða hólma, sem er út í vatninu fram undan bænum; Hjalltangi eða Hjallhólmi er hann nefndur. Þar á bærinn að hafa staðið upphaflega. Eftir að hækkaði í vatninu hafa möguleikar á að skoða þær farið minnkandi.

Borgirnar þrjár

Borgirnar þrjár ofan Vogsósa.

Konráð Bjarnason úr Selvogi segir í Lesbók MBL 17. des. 1991 að hann telji að sonur hans, Böðmóður, hafi fengið hinn víðáttumikla eystri hluta landnáms föðurs síns og orðið fyrsti bóndinn í Nesi. Heggur, annar sonur Þóris, er sagður hafa búið í Vogi, sem getið er til að hafi verið Vogsósar.

Hlíð

Hlíð – uppdráttur ÓSÁ.

Ofan Malarinnar eru rústirnar, en þar segja fróðir menn og konur, að bærinn hafi staðið, eftir færslu úr Hjalltanga. Auk Bæjarhóls eru í túninu Kirkjuhóll eða Bænhúshóll, en þar á hafa staðið bænhús í katólskri tíð. Frá rústunum liggur Hlíðargata austur og inn með fjallinu, framhjá fjárborginni og tóftunum undir Borgarskarði, Hlíðarborg og Hlíðarseli áleiðis upp á Suðurferðaveg (Selvogsgötu).
Gengið var suður með austanverðu Hlíðarvatni, um Réttartanga og síðan beygt upp á gróna hraunhóla þar austur af, vestan þjóðvegarins. Á þeim eru Borgirnar þrjár, eða Vogsósaborgir eins og þær hafa einnig verið nefndar. Borgir þessar eru nokkuð heillegar. Ekki er vitað hver hlóð þær, en eflaust hafa þær átt að skýla fé svo sem meginhlutverk fjárborganna var. Ekki er ólíklegt að þær hafi verið frá fleiri en einu koti, sem voru þarna skammt frá. Skammt austar, austan þjóðvegarins eru tóftir Vogsósasels.

Hlíð

Hlíðarkot – tóftir.

Frá Borgunum er ágætt útsýni yfir Hlíðarvatn, hólmana, Víðisand sunnar og Alnboga, vestan fráfallsins úr vatninu. Þar lá gamla þjóðleiðin frá Strönd yfir ósana og áfram áleiðis að Herdísarvík. Jörðin þar fór í eyði árið 1957 eftir að Hlín flutti burt 17 árum eftir andlát Einars Benediktssonar.

Gengið var að enda Fornagarðs (Strandargarðs) neðan við túnið á Vogsósum og honum fylgt áleiðis upp túnið. Vogsósar var stórbýli og prestsetur á fyrri tíð. Þar bjó galdrapresturinn Eiríkur Magnússon á ofanverðri sautjándu öld og fram á þá átjándu. Margar sögur eru til af Eiríki og göldrum hans. Aldrei notaði hann galdur sinn til ills en gerði mönnum glettur og aðallega ef á hann var leitað að fyrra bragði.

Vogsósar

Vogsósar – uppdráttur ÓSÁ.

Árið 1840 segir að Vogsósaland sé “allt að framan gjörspillt af sandágangi, verr en Austurvogurinn, því að sönnu fýkur hann af austur- og landnyrðingsáttum eins á þetta land og Austurvoginn. En þar að auki líka því meir af útnorðri og til með af vestri, sem það er nær Víðasandi. Þegar ósinn er undir ís, fær túnið á Vogsósum óbætanleg áföll af sandi í vestanstormum, t.d. næstliðinn vetur.”
Árið 1847 voru Strönd og Vindás komnar í eyði og eru taldar með Vogsósum sem eru beneficium og liggja Hlíð og Stakkavík og 3 ½ hdr í Þorkelsgerði undir kirkjuna. “Prestsetrinu fylgja 2 ásauðar kúgildi og 1 veiði- og heyflutníngsbátur. Tún er lítið mjög og hætt við sandfoki, og utantúns slægjum eins, en landkostir eru góðir og útibeit góð. Jarðarhlynnindi eru hér að auki talin, þó mínkandi fari; sela- og silúngsveiði og sölvatak, sem líka gengur af sér, einkum af sandfoki, en höfuðkosturinn er trjáreki. Selvogs kirkja á ítak í Krýsuvíkur fuglbergi.

Vogsósar

Vogsósar – kirkjugatan að Strönd.

Mest hefir sandurinn borist austur yfir ósinn er hann var lagður með ís, hefir svo borist austur og upp í heiðina fyrir suðaustan Vogsósa og umlukið þar bæ er nefndur er Vogshús, enda er hann nefndur svo í fornbréfum. Þá er sandgeirinn var kominn upp í heiðina, fór hann breikkandi suður og austur á við, og eyðilagði smám saman jarðirnar: Strönd, Vindás og Eimu með afbýlum þeirra.”
Þess má geta að suðaustan við túnið á Vogsósum eru óþekktar rústir, fast austan við Fornagarð.

Eiríksvarða

Eiríksvarða á Svörtubjörgum.

Frá Vogsósum er ágætt útsýni upp að Svörtubjörgum. Á þeim er Eiríksvarðan. En “þó Eiríksvarða sé ekki frá forntíð, er það samt ekki ómerkilegt, að hún skuli enn nú standa óröskuð eftir svco langa tíð. Hún er einhlaðin á mjög hárri fjallsbrún; 1 fet er fyrir framan hana að skörpustu brúninni. Hún er 1 faðmur að neðan, lík einhlöðnum steingarðsparti. Er svo hvör steinn lagður yfir annan. Flatir og ílangir eru þeir; allir snúa endar þeirra til beggja hliða. Allir eru þeir smáir sem lítilfjörlegir utanveggs hleðslusteinar. Hún er smáaðdregin frá báðum endum, ávöl að ofan og á hæð meðalmanni neðanvert á síðu, snýr austur og vestur til endanna, en flöt við norðan og sunnan átt. Þessi Eiríkur Magnússon … dó 1716 … og skyldu menn setja, að hann hefði vörðuna hlaðið 6 árum fyrir afgang sinn, þá er hún búin að standa í 123 ár.”
Margar sögur eru til af Eiríki, presti á Vogsósum. Eftir að Eiríkur var orðinn prestur í Selvogi komst það orð á að hann væri göldróttur. Kallaði þá Skálholtsbiskup hann á sinn fund og sýndi honum Gráskinnu og bað hann að gera grein fyrir því hvort hann kynni eitthvað úr þeirri bók. Eiríkur fletti upp bókinni og sagði; “Hér þekki ég ekki einn staf”! Og sór fyrir það. Síðar sagði hann að þetta þýddi ekki að hann þekkti engan staf í bókinni heldur að hann þekkti alla stafi bókarinnar nema einn.

Fornigarður

Fornigarður.

Fornigarðs er getið í heimildum. Segir m.a. að “Vogósatúngarður var girtur aðeins á suðurhlið, en að austan Fornagarði, garði sem getið er í máldaganum frá 1275 á þennan hátt: “Sex vætter aa huertt fyrer garde enn fiorar utan gardz…” (DI, II,124). Er því þarna að sjá eitthvert elzta mannvirki á landi hér.”
Stefnan var tekin suður yfir heimatúnið, að Kirkjugötunni, sem liggur yfir að Strönd. “Kirkjugatan lá frá Hlíð suður með vatninu um Vondavik að Vogósum og áfram suður að Strandarkirkju.” Hún sést enn vel þar sem hún liggur um sandinn, enda ávallt mikið farin þangað til fyrir tiltölulega stuttu síðan.

Strandarkirkja

Minnismerki um Strönd í Selvogi – einnig nefndur “Staður”.

Selvogur er vestasta byggð í Árnessýslu og var lengst af fremur afskekkt og einangrað byggðarlag. Rafmagn kom ekki í sveitina fyrr en eftir 1970 og vegamál hafa verið í ólestri fram undir þetta. Á fyrri tíð voru í Selvogi margar jarðir og víða stórbúskapur og gjöful fiskimið undan landi. Síðast var gert út á vetrarvertíð úr Selvogi árið 1950 og eftir það hafa bændur lifað eingöngu af landbúnaði og einkum sauðfjárbúskap því mjólk var ekki sótt á bæi í Selvogi til að flytja í mjólkurbú. Í byrjun tuttugustu aldar eru um 20 býli í Selvogi en nú mun búskapur lítill í sveitinni.

Strandarkirkja

Kirkjan á Strönd.

Sagan segir frá sjómönnum sem fyrir langa löngu villtust í hafi og hétu því að byggja kirkju þar sem að þeir kæmu að landi ef þeir lifðu af. Eftir áheitið leiddi engill þá heila á húfi að landi í Engilsvík og þeir byggðu kirkju að Strönd. Kirkjan sem nú stendur að Strönd var reist seint á nítjándu öld og endurbyggð árið 1967. Í henni er gömul altaristafla frá 1865 og kaleikur kirkjunnar er merkilegur en hann er forn gefinn kirkjunni af Ívari Hólm lögmanni og hirðstjóra sem sat á Strönd en einnig á Bessastöðum. Kaleikur þessi er eini gullkaleikurinn sem til er hér á landi og því mikil gersemi. Síðasti prestur sem bjó í Selvogi var séra Eggert Stefánsson merkur maður en hann þjónaði Strandarkirkju á árunum 1884 til æviloka 1908. Þá var prestakallið lagt niður sem sérstakt prestakall.

Vogsós

Vogsósaborgir.

Helgi og átrúnaður á Strandarkirkju virðist hafa komið upp mjög snemma eins og sagan af áheiti skipshafnarinnar sýnir og væntanlega fylgt henni alla tíð. Öldum saman hefur verið heitið á kirkjuna í lífsnauð og hvers kyns öðrum erfiðleikum. T.d. munu norskir sjómenn snemma hafa heitið á kirkjuna og eignaðist hún skógarhögg í Noregi. Í gegnum aldirnar hefur kirkjunni því safnast mikill auður, bæði dýrmætir gripir og peningar. Hluta af því hefur verið varið til endurbóta á kirkjunum en einnig hefur þetta fé verið lánað til kirkjubygginga víða um land.

Þórarinn Snorrason

Þórarinn Snorrason og Ómar spá og spekulera um fyrirhugaðn uppdrátt af Selvogi.

Stórbýli var á Strönd og á staðurinn sér mikla sögu frá fornu fari þótt þar sé ekki lengur búið og vafalítið eitt af elstu býlum sveitarinnar. Fram yfir aldamótin sextán hundruð voru 7 eða 8 býli á Strönd en hverfa úr byggð á 17. öld og árið 1696 fer höfuðbólið sjálft í eyði. Því olli uppblástur og sandfok sem gerði jörðina óbyggilega, sem fyrr sagði.
Eftir að Strönd fór í eyði var um það rætt að flytja kirkjuna en fólkið var á móti því þar sem það taldi hættu á að við það glataði kirkjan mætti sínum og helgi. Hún stendur því enn á sama stað og í upphafi.
Frábært veður. Gangan tók 2 klst og 22 mín.

Heimildir m.a.:
-http://www.bokasafn.is/byggdasafn
-http://www.utivist.is

Selvogur - örnefna- og minjakort

Selvogur – örnefna- og minjakort – ÓSÁ.