Í Dagblaðinu Vísi 14.05.2002 segir PÁÁ frá “Brölti um Botnssúlur“.
“Botnssúlur eru einn besti útsýnisstaður meðal fjalla í klukkustundarfjarlægð frá Reykjavík. Þær eru í rauninni fjallaklasi sem býr yfir ýmsum leyndarmálum líkt oq hinir fögru dalir við rætur þeirra.
Þótt haustið sé í rauninni gengið í garð er engin ástæða til þess að láta það stöðva sig frá því að ganga á fjöll. Haustið er nefnilega besti tíminn til þess að stunda fjallgöngur því á svölum og lognkyrrum haustdögum er loftið svo tært að útsýni af fjallatindum verður aldrei betra.
Rétt í nágrenni Reykjavíkur, nánar tiltekið fyrir botni Hvalfjarðar, gnæfa Botnssúlur sem eru meðal tignarlegustu og fallegustu fjalla landsins og auk þess þannig staðsettar að af þeim er geysimikil útsýn.
Botnssúlur eru í rauninni fjallaklasi sem teygir efstu tinda sína upp undir 1100 metra yfir sjó. Hæsta súlan er Syðstasúla sem nær 1096 metra hæð yfir sjó.
Algengt er að ganga á hana og er þá oftast farið frá Svartagili við Þingvelli og gengið vestan Súlnagils sem leið liggur upp á fjallið. Syðstasúla er allbrött og mörgum vex í augum að ganga á hana.
Botnssúlur standa í raun fyrir botni tveggja dala sem skerast inn úr Hvalfirði og er Botnsdalur nyrðri en Brynjudalur syðri. Milli dalanna er lágur háls sem nefnist Hrísháls. Úr Botnsdal er auðvelt að finna varðaða leið sem liggur úr Botnsdal, upp á Hrísháls og þaðan sunnan Botnssúlna allt til Þingvalla. Þetta er hin forna Leggjabrjótsleið sem forðum er talin hafa verið alfaraleið manna sem riðu til þings á Þingvöllum. Á miðöldum komu kaupskip að landi í Maríuhöfn í Kjós og þaðan er greið leið inn með Hvalfirði, inn Brynjudal og um Leggjabrjót til Þingvalla.
Laugardaginn fyrir réttri viku lá leið blaðamanns DV á þessar slóðir og var ákveðið að leggja á Botnssúlur úr Brynjudal.
Brynjudalur er einkar fallegur og sérstaka athygli vekja hinir tignarlegu Þrándarstaðafossar sem fljótlega verða á vegi ferðamanns. Við fremsta bæ í dalnlun sem heitir Hrísakot er gott að skilja bílinn eftir og arka sem leið liggur upp á hinn lága Hrísháls. Rétt fyrir framan skógræktargirðinguna við Hrísakot fellur Laugalækur niður hlíðina og þar mun vera 33 gráðu heit jarðlaug sem okkur tókst samt ekki að finna.
Þegar upp á Hrísháls er komið verður hin forna Leggjabrjótsleið fyrir og gott að fylgja henni upp á brúnirnar. Leið okkar var heitið á Miðsúlu og því stefndum við sem leið lá upp eftir Sandhrygg sem gengur fram úr fjallinu. Þetta er greið leið og aflíðandi halli og engar torfærur á leiðinni, jafn bratti nær alla leið á tindinn og sést marka fyrir slóð á hryggnum þegar ofar dregur.
Af tindi Miðsúlu, sem er reyndar kölluð Botnssúlur á sumum kortum er geysilega víðsýnt. Í norðri má þekkja Baulu í Borgarfirði, Tröllakirkju á Holtavörðuheiði og nær kúrir Hvalvatnið undir Hvalfellinu sem ris fyrir botni Botnsdals. Eiríksjökull, Þórisjökull og Fanntófell blöstu við böðuð í haustsólinni og í austri þekktum við Skjaldbreið, Hlöðufell, Jarlhettur, Kerlingarfjöll, Heklu, Tindfjöll, Mýrdalsjökul, Eyjafjallajökul og hinn hornótta Loðmund á Landmannaafrétti.
Í suðri lá landið eins og kort fyrir fótum okkar og úr Þingvallavatni gátum við rakið silfurþræði Sogsins allt til sjávar en við hafsbrún stóðu Vestmannaeyjar í réttri röð. Þetta var dásamlegt og aldrei bragðast kakó og ostasamloka betur en þegar maður er búinn að rogast með hitabrúsann upp um 1000 metra eða svo.
Af tindinum er sæmilega greiðfært inn eggjar fjallsins og niður á lágan röðul fyrir botni Súlnadals sem skerst inn á milli Syðstusúlu og Miðsúlu. Þar innst í dalnum er lítill fjallakofi sem er í eigu íslenska alpaklúbbsins og heitir Bratti. Þetta er vistlegur staður og þar er gott að sitja á veröndinni og fá sér kakó og lesa undarlegar færslur í gestabók skálans um týnd skíði, vond veður og menn sem verja jólunum þarna fjarri heimsins glaumi.
Það er hæg leið niður dalinn og ágætt að koma inn á hina fornu Leggjabrjótsleið aftur við Sandvatn og fylgja henni aftur niður Hrísháls og á upphafspunkt ferðalagsins. Það er líka hægt að fara sjónhending niður mjög brattar grasbrekkur meðfram Þórisgili og virða fyrir sér stórkostlega fallega fossa sem þar leynast fjarri alfaraleið. Bæði í Þórisgili og í Þrengslum í Brynjudalsá er háir og fallegir fossar sem samt hafa ekki nafn nema þá kannski í munni örfárra heimamanna.
Á leið okkar gegnum kjarrið á Hríshálsi og eins í dalbotninum sjálfum fundum við talsvert magn af gríðarstórum aðalbláberjum, krækiberjum og bláberjum sem voru komin að fótum fram vegna aldurs en ekki enn skemmd til vansa af frosti.
Það er um klukkutíma akstur frá Reykjavík inn í Brynjudal og frá bílastæði við skógræktargirðinguna eru tæpir sjö kílómetrar á topp Botnssúlna í beina loftlínu.
Þetta er leiðangur sem tekur fullfrískt fólk sennilega 6-8 tíma og er gott dagsverk þegar máttarvöldin bjóða gott veður.” -PÁÁ
Í Jörð 1941 fjallar Þorsteinn Jópsepsson um Botnssúlur.
“Það var eina bjarta vornótt, að ég reikaði um Þingvallahraun. Dimmt var i lofti og þoka hvíldi á fjöllum. Á grasinu glitruðu daggarperlur, likt og tár á hvörmum saklauss barns. Það voru gleðitár og glit þeirra var dásamlega tært, þegar stráin bar i dökka mold eða dimmar gárur úfins hrauns. Sterk frjóangan vaknandi jarðargróðurs barst að vitum mér, en yfir landinu ríkti friður og draumræn kyrrð.
Skógarþröstur flögraði undan fótum mér og settist á feyskinn kvist. Þar söng hann um sinn út í vorið og nóttina. Á bak við heyrði ég dimman bassaóð Öxarárfoss, þegar áin féll fram af bergbrúninni og niður í dimma og djúpa Almannagjá.
Þessa nótt sá ég í norðurátt sýn, sem ég hefi ekki gleymt.
Ég sá drifhvíta þokubólstra byltast fram með undirhliðum Botnssúlna, en dimmbláar eggjar þeirra og brotna tinda gnæfa upp úr. Sjaldan hafa fjöll hrifið mig meir, og mér fannst þá sem hæð þeirra væri ógurleg og ögrandi. En ég var ungur þá, og mér óx allt í augum, — allt, sem ég gat ekki þreifað á og handsamað í sömu andrá.
Eftir nóttina i Þingvallahrauni dreymdi mig í vöku um Botnssúlur. Þær voru huliðsheimur, sem reis dularfullur upp úr þokuhafi á vornóttum. Þrá mín beindist að því, að storka máttarvöldunum, sem vöfðu Botnssúlur í hvítt lin og huldu þær í roktættum bólstrum. Ég hét því þá, að klifa bratta tinda þeirra og horfa i einmana hamingju yfir sólvafið bólstrandi þokuhaf fyrir neðan mig. Botnssúlur urðu mér að takmarki.
Mörgum árum seinna gekk ég á Botnssúlur; gekk á þær á fögrum vordegi, þegar þoka huldi hrjúfar urðir undirhlíðanna, en tindarnir stóðu upp úr eins og forðum, vornóttina björtu í Þingvallahrauni.
Ég veit ekki, hvort ég hefi lifað fegurri fjallgöngu né hamingjusamari dag.
Þegar ég stóð frammi á brúninni og horfði á brotnar eggjar, hvassa tinda og þverhnípta bjargveggi gnæfa upp ur hvítgráum þokumekki, sem liðaðist áfram, byltist og rannaðist fyrir fótum mér, fannst mér þessi fegurð vera fullkomin.
Hún var fullkomin fyrir þá sök, að draumur minn hafði laszt. Fyrir augum mínum blasti við glæsileiki, eins og eg hafði hugsað mér hann stórfengilegastan og mikilúðgastan.”
Heimild:
-Dagblaðið Vísir, 210 tbl. 14.05.2002, Brölt um Botnssúlur, PÁÁ, bls. 36-37.
-Jörð, 2. tbl. 17.06.1941, Þorsteinn Jópsepsson, Botnssúlur, bls. 260-261.
-Fálkinn. 36. tbl. 07.09.1935, bls. 1.
-Tíminn Sunnudagsblað. 32. tbl. 22.08.1965, bls. 753.