Færslur

Hvassahraun

Erindi þetta var flutt í Kálfatjarnarkirkju á menningardegi í kirkjum á Suðurnesjum 23.10.05.

Ólafsgjá

Ólafsgjá og Ólafsvarða.

“Örnefni er dýrmætur arfur sem geymir upplýsingar um sögu, tungu og lifnaðarhætti horfina kynslóða. Örnefni hafa oft augljósa tilvísun til landslags, náttúrunnar og eða tengt atburðum svo sem slysförum. Örnefni er nauðsynleg til að staðsetja sig og aðra og mun persónulegri heldur en gerfihnattarstaðsetning GPS. Samantektin er um nokkur örnefnum sem vakið hafa áhuga höfundar.

Byrjum ferðina inn við landamerki Hafnarfjarðar og Vatnsleysustrandarhrepps, Markaklettur er þar við Hraunsnes. Örnefnin; Markaklettur, Markhella, Markhóll, Markhelluhóll og Markavarða eru öll notuð til aðgreiningar á eignalöndum, þ.e. þau afmarka land hvers bónda.

Upp í Almenningum ofan Hvassahrauns er örnefnið Brennhólar, þar var gert til kola í eina tíð.
Önnur örnefni í Strandarheiðinni sem vísa einnig til kolagerðar eru; Kolgrafarholt, Kolhólar, Kolhólagjá og Kolhóll. Þessi örnefni eru flest í Vatnsleysulandi sem segir að fyrr á öldum hafi verið meiri skógur þar en sunnar í heppnum

Vegrið er ofan Reykjanesbrautar við Hvassahraun, þar eru; Vatnsgjárnar, Helguhola, Þvottargjá og Ullargjá sem augljóslega segja til um notkun. Þar nálægt er Strokkamelur með Strokkunum, sem bera nafn sitt af lögun sinni. Þetta eru hraundrýli, hol að innan og líkjast smjörstrokkum. (Hvassahraunskatlar). Þá er þar næst Brugghellir, þar var soðin landi (heimaunnið brennivín) á bannárunum á síðustu öld.

Kálfatjörn

Ólafur Erlendsson við Landabrunn.

Mestu undirlendin í hreppnum eru Þráinskjaldarhraun, gamalt hraun sem nú er heiðin, vestan við Afstapahrauni og að Vogastapa. Ekki er vitað af hverju hraunið heitir þetta.

Búðavík, Búðabakkar eða Búðaflatir heitir í Vatnsleysuvík. Þar var fyrrum verslunarstaður og höfn Hansakaupmanna sem voru þýskir. Hafnhólar eru við fjarskiptamöstrin á Strandarheiðinni og tengjast höfninni á Vatnsleysu fyrrum.

Upp með Afstapahraunskanti að vestan miðja vegu til fjalla er hringlaga hlaðin fjárborg, Gvendarborg, hlaðin af Guðmundi Hannessyni sem bjó hér í Breiðagerði, annað örnefni hér er kennt við son hans Brand. Komun að því síðar.

Efstu hjallar heiðarinnar heita Brúnir, þar er Hemphóll, „þjóðsagan“ segir að prestarnir á Stað og Kálfatjörn hafi átt sameiginlega hempu og var þetta afhendingarstaður hennar. Hemphóll er þó ekki miðja vegu milli Staðar og Kálfatjarnar og sagan er ótrúleg enda hóllinn mikið úr leið.

Förum nú niður heiðina í stefnu á Vogana, þar er svæði sem heita Margur Brestur og Huldur og vísa til margra gjáa og sprungna á svæðinu sem sumar geta verið huldar (faldar) þegar snjór liggur yfir og auðvelt að hrapa niður í þær.

Þráinsskjöldur

Í gíg Þráinsskjaldar.

Þar suður af er Ólafsvarða og Ólafsgjá, tilurð þess örnefnis er í grófum dráttum þessi. Árið 1900 bjó í Hlöðuneshverfi, Ólafur Þorleifsson, þá 39 ára gamall. Rétt fyrir jól það ár fór Ólafur í heiðina að leita kinda en skilaði sér ekki heim um kvöldið. Hafin var leit að Ólafi daginn eftir með 30-40 mönnum. Til Ólafs hafði sést við Kálffell í Vogaheiði daginn áður, þrengdi það leitarsvæðið dálítið. Leitað var á Aðfangadag og aftur milli jóla og nýárs, án árangurs. Liðu nú 3 áratugir.

Á jólaföstu árið 1930 þegar verið var að smala heiðinna misstu smalarnir þrjár kindur í sprungu og þurfti því að fara aftur daginn eftir með reipi og annan búnað til að síga eftir fénu. Sigmaður var Rafn Símonarson frá Austurkoti á Ströndinni, tvær kindanna náðust upp úr gjánni á lífi, en þar ofan í fann Rafn líka tvö brot af göngustaf sem hann tók með sér til byggða. Um kvöldið fór Rafn að Halakoti til Ágústar bónda þar og biður hann að lýsa staf Ólafs (þá voru liðin 30 ár frá hvarfi hans). Lýsing Ágústar passaði við stafbrotin. Var nú ekki meira gert í bili. Um vorið þegar snjóa leysti héldu 4 menn að gjánni og seig Rafn aftur niður, þá sá hann þar strax mannabein og þóttust menn þess fullvissir að þar væri um bein Ólafs að ræða. Beinin voru tínd saman og grafin að Kálfatjörn.

Hvassahraun

Brugghellir við Hvassahraun.

Yfirgefum nú Ólafsgjá og höldum í suðvestur að Stóru-Aragjá en yfir hana liggur gamla þjóðleiðin til Grindavíkur Skógfellavegurinn, þar heitir gjáin Brandsgjá. Brandur þessi var sonur Guðmundar sem hlóð Gvendarborg sem ég nefndi áðan.
Brandur bjó á Ísólfsskála austan við Grindavík og var kallaður Skála-Brandur.
Í byrjun jólaföstu 1911 fór Brandur til Hafnarfjarðar að selja rjúpur og kaupa inn fyrir heimilið. Dagleið var frá Grindavík til Hafnarfjarðar, og gisti Brandur því í Hafnarfirði og fór að snjóa um nóttina. Á heimleiðinni kom hann við hjá Benedikt Péturssyni (Bensa) í Suðurkoti í Vogum og var langt liðið á dag þegar hann lagði á Skógfellaveginn, hnédjúpur snjór var þá kominn á heiðinni. Honum gekk förin ágætlega í byrjun en margar gjár eru þarna á leiðinni. Þegar hann kom að Stóru-Aragjá sem er síðasta gjáin sem hann þurfti að fara yfir vildi svo illa til að hann missti annan hestinn ofan í gjánna. Þá snýr hann til baka að Suðurkoti í Vogum eftir aðstoð. Bensi útvegar honum þrjá menn sem fara upp eftir í myrkrinu, með byssu meðferðis. Hesturinn náðist ekki upp og var því aflífaður. Hætt var að snjóa og komið harðnandi frost. Skiljast nú leiðir Vogamanna og Brands.
Brandur komst heim að Ísólfsskála undir morgun, þá illa kalinn á báðum fótum. Hann var sendur á Keflavíkurspítala á Þorláksmessu og kom ekki heim aftur fyrr en sumardaginn fyrsta árið eftir, þá orðin örkumla maður og hætti búskap og flutti til Hafnarfjarðar.

Förum næst að Stapanum, Reiðskarð heitir þar sem Stapagatan (gamla þjóðleiðin) fer upp Stapann. Næsta skarð vestan við Reiðskarð heitir Kvennagönguskarð. Karlmenn fóru Reiðskarðið enn kvenfólkið valdi frekar Kvennagönguskarðið og gat þá verið í friði og úr augnsýn karlanna um smá stund.

Förum nú til baka í Brunnastaðahverfi. Í Suðurkotstúni er flöt ein sem heitir Pelaflöt, hún mun hafa verið seld fyrir einn pela af brennivíni segja örnefnaskrár.

Endum nú ferðina í túnfætinum á Kálfatjörn, þar heitir Landabrunnur, þó er ekki neinn landi í honum heldur er um lítið vatnsstæði að ræða ofan við svonefndan Landamóa.”

Brandsgjá

Vörður við Brandsgjá.

Brandsgjá

“Ísólfsskáli er austasta býli Staðarkirkjusóknar í Grindavík og afskekkt mjög. Jörðin er fremur lítil.
Í sóknarlýsingu séra Geirs Bachmanns 1840 er jörðin talin 16 hundruð, en í Jarðatali Johnsens er hún sögð 4,5 hundrað. Hlunnindi nokkur fylgja jörðinni. Gisli Sigurdsson-221Rekar allmiklir og allskonar og selalátur. Rjúpnaveiðar á fjalli og í hálsum og hér fyrrum allgóð hreindýraveiði kringum Móhálsa. Túnið var bæði lítið og rýrt og varð ekki fóðruð af því kýr, en fjárjörð var Skálinn talinn vera. Útibeit góð í flestum árum og fjörubeit, sem aldrei brást. En það var aldrei heiglum hent að búa á Skálanum. Hefur nú í nær heila öld búið þar sama ættin, eða ættmenn Guðmundar Hannessonar. Verður hér sagður lítill þáttur um örlög eins þeirra, Brands Guðmundsonar, og fjölskyldu hans. Haft er eftir Árna Gíslasyni sýslumanni í Krýsuvík: „Góð jörð Skálinn, þegar ekki er búið á Völlunum” (þ. e. Vigdísarvöllum).

1899 settust að á Ísólfsskála hjónin Brandur Guðmundsson og kona hans Estíva Benediktsdóttir. Brandur var sonur Guðmundar Hannessonar er lengi bjó þar og á Vigdísarvöllum og miðkonu hans Helgu Einarsdóttur. Estíva var dóttir Benedikts Jóhannessonar, ættaðs úr Húnavatnssýslu, og Kristín ar Guðnadóttur úr Hafnarfirði, af hinni merku Veldingsætt. Estíva hafði áður verið gift Sveini Kristjánssyni söðlasmið af Vatnsleysuströnd, höfðu þau búið þar, en Sveinn drukknað í lendingu 5. 9. 1893. Áttu þau eitt barn, Sesselju, sem fædd var 1889. Börn þeirra Brands og Estívu voru: Margrét f. 20. des. 1898, Sveinn Helgi f. 9. ágúst 1905 og Kjartan f. 5. des. 1908. Þegar þau fluttu að Ísólfsskála komu þau eiginlega sitt úr hvorri áttinni. Brandur hafði þá verið í vinnumennsku í Reykjadal í Ytrihrepp, en Estíva vinnukona í Suðurkoti í Krýsuvíkurhverfi og þar er dóttir þeirra, Margrét, fædd.
Lítill vafi er á því að búið á Skálanum hefur vaxið í höndum þessara dugnaðarhjóna, þar sem hvað eina, er jörðin hafði að bjóða, mun hafa verið sótt af elju og harðfylgi. Hvert haust gekk Brandur til rjúpnaveiða. Fyrir þann afla gat hann dregið í búið allverulega til jólanna. Haustið 1911 hafði hann orðið með betra móti fengsæll, svo að í byrjun jólaföstu hugðist hann fara með rjúpu til sölu til Hafnarfjarðar. Dag nokkurn snemma bjó hann sig til ferðar, lagði reiðing á hest, móskjóttan, er hann átti, stólpagrip, en hnakk á annan, rauðstjörnóttan. Brandi voru vel kunnar leiðir um vestanverðan Reykjanesskaga.
Í þetta sinn lagði hann leið sína inn með Núphlíðarhálsi að norðan, hjá Hraunsseli og um Selvelli, Sogin, Höskuldarvelli hjá Jónsbrennum og Eldborg þvert yfir lönd Hvassahrauns og Óttarsstaða á Suðurveginn við Gvendarbrunn hjá Óttarsstaðarauðamel, og þaðan til Hafnarfjarðar. Ekki fara sögur af viðskiptum, nema hvað Brandur lagði inn rjúpuna og tók vörur út, batt í trúss og bjóst svo til heimferðar.
Brandur Guðmundsson-221Það þótti ekki tiltökumál í þá daga, að menn fengju sér tár á glas þegar farið var í kaupstað. Brandur fékk sér því á glas, til að gleðja sig og vini ef svo bæri undir, að þeir yrðu á leið hans. En meðan Brandur var í Hafnarfirði gerði mikla logndrífu seinni part dags. Brandur lagði því ekki upp fyrr en morguninn eftir. Var þá upp stytt, en hné-djúp lausamjöll yfir allt. Brandur lagði svo af stað og hélt nú suður Hraun og Vatnsleysuströnd. Segja mátti, að færðin væri hin versta.
Upp úr nóni var Brandur kominn suður í Voga. Átti hann vinum að heilsa þar, sem var Benedikt Jónsson í Suðurkoti í Vogum. Þar kom hann og var vísað til baðstofu. Eitthvað hafði Brandur dreypt á glasinu og tók það nú upp og gaf vini sínum út í kaffi. Benedikt mun ekki hafa litizt vel á veðrið, því orð hafði hann á því við Brand, að bezt væri fyrir hann að gista hjá sér og fara ekki upp eftir fyrr en morguninn eftir. Bæði væri hann búinn að fara langa leið í mikilli ófærð og það sem eftir væri leiðarinnar væri þó enn verri vegur, aðeins götuslóði á kafi í fönn. Þar við bættist, að á Skógfellavegi væru margar gjár viðsjárverðar í björtu, hvað þá þegar hagaði til eins og nú, að allar leiðir væru kæfðar í snjó. Brandur sagði sem var, að fé hans væri úti um allt og enginn til að sinna því. Svo hefði hann trausta hesta, sem þekktu leiðina og treysta mætti fullkomlega. Þá væri hann ekki óvanur ferðum og á leiðinni þekkti hann hverja þúfu og hvern hól. Ræddu þeir vinirnir þetta nokkuð, en Brandi varð ekki um þokað í ætlan sinni, að ná heim um kvöldið. Kvaddi hann svo vini sína í Suðurkoti og lagði upp í ferð, sem varð honum sannarlega örlagarík.
Skógfellavegur var um aldir alfaraleið eða þjóðleið milli Voga og Grindavíkur. Var hún talin fjögra til fimm klukkustunda lestaferð í góðu færi. Næst Vogunum er leiðin heldur ógreiðfær og eru þar margar gjár og sumar hættulegar. Fyrst er Hrafnagjá og snýr norðurbarmur hennar mót suðri. Þar suður af er svo Huldugjá, þá Holtsgjá, Litla-Aragjá og Stóra Aragjá og er hún syðst. Þar sem vegurinn liggur hefur verið hlaðið í gjárnar, en víðast hvar er hyldýpi beggja megin við. Þegar komið er yfir Stóru-Aragjá tekur við allgóður kafli allt upp að Litla-Skógfelli. Með Fellinu er leiðin heldur ógreiðfær. Þaðan og að Stóra-Skógfelli er leiðin aftur greiðfær um sléttar klappir, þar sem hesturinn hefur rutt götur í klappirnar. Gleymir enginn þeim götum, sem einu sinni hefur séð þær. Þegar suður kemur um Stóra Skógfell tekur við apalhraun og er vegurinn ruddur þar allt niður í Járngerðarstaðahverfi. Þegar haldið er í Þorkötlustaðahverfi er afleggjari neðan til í hrauninu. En ef farið er til Ísólfsskála er stefnan tekin frá Stóra-Skógfelli á Kastið, múla í Fagradalsfjalli, á leið, er þar liggur og heitir Sandakradalsvegur, allt heim á Skála.
Skogfellavegur - 221Brandur hélt nú upp úr Vogunum kl. langt gengin 6 og fór fyrst nýja veginn. Þegar kom undir Stapann lagði hann á Skógfellaveginn. Mátti segja að þegar kæmi í ljós, að þarna var umbrotafærð. Tók Brandur það ráð að láta þann móskjótta ráða ferðinni. Gekk hann svo i spor hans og teymdi hinn. Gekk nú ferðin hægt en þó hiklaust. Móskjóni þræddi slóðina og að því er virtist skeikaði honum hvergi, þrátt fyrir aðsteðjandi myrkur og umhverfið ein mjallhvít breiða, kennileitalaus óravíðátta án upphafs eða endis. Hvergi var snjórinn grynnri en í hné á hestunum og víða í kvið. Vegalengd sem farin hafði verið á klukkustund, varð nú að tveggja klukkustunda leið. Allt í einu rís upp framan við þá Brand og hestana hæðarhryggur. Móskjóni víkur þá aðeins til hægri. Mun Brandur hafa haldið hestinn vera að fara afvega og víkur honum til vinstri upp hæðarhrygginn. Er upp á hrygginn er komið og farin hefur verið um ein hestslengd gefur fönnin eftir og hesturinn tekur að síga niður. Brandur er ekki höndum seinni að grípa í baggana og kippa þeim upp af klökkunum, en hesturinn sígur meira og meira. Brandur þrífur í reiðinginn og reynir að halda hestinum uppi. Hesturinn brýst um og gerir hvað hann getur til að komast upp, en allt kemur fyrir ekki, hann sígur meira og meira, og loks er hann horfinn niður í jörðina svo að rétt sést móta fyrir höfðinu. Brandur er ekki í minnsta vafa um að hesturinn hefur fallið í gjá, og þetta er einmitt Stóra-Aragjá, syðsta gjáin á leiðinni.
Hvort sem Brandur hefur staðið þarna yfir hestinum… föllnum í gjána, lengur eða skemur, verður honum það fyrir, að hann snýr aftur til Voga að sækja sér hjálp, ef vera mætti, að hægt væri að bjarga hestinum. Leggur hann svo leið sína að Suðurkoti til vinar síns Benedikts. Brá fólkinu við að sjá Brand kominn þarna, en ekki minna er hann segir farir sínar og þær ekki sléttar, að hann hafi misst úrvalsgripinn sinn Móskjóna í Stóru-Aragjá. Bað hann vin sinn að vera sér hjálplegan og útvega menn til að bjarga hestinum upp úr gjánni, eða ef það mætti ekki takast þá að hann yrði aflífaður. Var nú skjótt brugðið við og leitað manna til ferðar. Urðu til þess þrír menn: Eyjólfur Pétursson, Þorsteinn Brynjólfsson og Baldvin Oddsson, sem einn er á lífi þessara manna og man atburð þennan ekki ver en atburð dagsins í gær. Þeir komu saman í Suðurkoti og ráðgerðu ferðina. Brandur hafði haft þann rauðstjörnótta með sér og var hann nú settur í hús.
Nú skal taka til veðurlýsingar öðru sinni. Þegar Brandur lagði í rökkurbyrjun upp frá Suðurkoti gerði níðsluslyddu. Af þessum sökum varð Brandur því nær alvotur. En ekki sakaði meðan frostlaust var. Brandur var því blautur og hrakinn er hann kom aftur að Suðurkoti. Vildu húsráðendur þá endilega, að hann færi ekki lengra heldur tæki sér gistingu. Brandur var enn ósveigjanlegur að halda ferðinni áfram. Kvað nú eina skylduna hafa bætzt við, að hann héldi áfram, að sjá hvernig Móskjóna sínum reiddi af. Og hversu hart sem að honum var lagt fór hann af stað með fyrrtöldum hjálparmönnum. Þeir þræddu nú slóðina suður, en nú hafði enn orðið breyting á veðri. Gerði heiðríkju með froststirðnanda í fyrstu, sem óx mikið er leið að miðnætti og gerði þá hörku frost.

Brandsgjá

Vörður við Brandsgjá.

Þegar þeir félagar komu á barm Stóru-Aragjár, var ekki björgulegt um að litast. Móskjóni sokkinn enn dýpra í gjána og enga björg hægt að veita. Varð það úr að hesturinn var skotinn þar sem hann var kominn. Liggja því beinin hans Móskjóna frá Skálanum á botni Stóru-Aragjár. Var því ekki um annað að gera fyrir Vogamenn en halda heim. Ekki vildi Brandur fylgja þeim hvernig sem þeir lögðu að honum. Mátti sjá að Brandur var orðinn allþrekaður og blautur og frostið harðnandi. Konan ein heima með börnin og féð um alla haga. Og þar sem ekki tjóaði Brand að letja, skildi þarna með honum og Vogamönnum. Sagðist Brandur mundi halda að Stóra-Skógfelli og þaðan taka stefnu í Sandakradal undir Fagradalsfjalli.
Í Suðurkoti var enn ljós er þeir komu þangað Vogamenn. Í vökulokin hafði annar Grindvíkingur komið að Suðurkoti, Magnús Þorláksson, frá Móum í Þorkötlustaðahverfi. Er hann heyrði um ferðir Brands og ásigkomulag allt var honum ljóst, að hann væri hjálparþurfi. Bjóst hann því til ferðar. Magnús hélt sporunum allt suður um Stóru-Aragjá. Sá hann glöggt leið Brands og hélt áfram. Þegar hann kom að svo nefndum Hálfnaðarhól er Brandur þar. Verður þeim báðum bráðlega ljóst, að Brandur er kalinn á fótum, eru fæturnir tilfinningarlausir allt að ökklum. Kom það á daginn, að Brandur hafði ekki verið sem bezt búinn í fæturna, í einum sokkum og með íslenzka skinnskó. Mun þeim félögum ekki hafa virzt annað mögulegt en reyna að halda ferðinni áfram. Gekk Magnús fyrir en Brandur í spor hans. En seint gekk ferðin, því víða voru kafhlaup. Magnús fylgdi Brandi að Hrafnahlíðum bak Sigluhálsa. Þá hafði Brandur sagt, að hann kæmist nú heim. Bað Brandur Magnús að koma við á Hrauni og fá Guðmund bróður sinn að koma og huga að fénu, en fara svo að Þorkötlustöðum og fá Hjálmar bróður sinn til að senda menn til héraðslæknisins Þorgríms Thoroddsens í Keflavík og fá ráðleggingar hjá honum um meðferð á kalinu. Magnús gerir nú þetta. Svo sögðu þau hjónin Guðmundur og Agnes á Skálanum, að það hafði verið undir fótaferðatíma sem Magnús guðaði á gluggann hjá þeim þennan morgun og sagði þeim tíðindin. Guðmundur brá þegar við og fór að Skálanum. Þetta haust hafði Guðmundur gert sér skíði úr valborðum. Brá hann þeim undir fætur sér og hélt að Skálanum. Var Brandur þá kominn í rúmið. Guðmundur fór þegar að huga að fénu, austur á Töngum, Selatöngum, og upp undir Hlíð. Hafði féð hnappað sig og var ekkert hægt fyrir það að gera eins og á stóð. Segist Guðmundur aldrei hefði komizt þessa leið hefði hann ekki haft skíðin. Hjálmar sendi þegar tvo harðfríska unga menn til Keflavíkur, þá Júlíus son sinn og Gísla Hafliðason frá Hrauni. Fóru þeir til Keflavíkur og til baka aftur samdægurs, og segist Júlíus sjaldan hafa þurft að leggja harðara að sér en í þetta skipti. Daginn eftir fór hann austur á Skála. Honum sagðist svo frá á síðastliðnu sumri, er hann var inntur eftir: Þegar ég kom að Skálanum og inn í baðstofu sat Brandur á rúmstokknum, með sængur utan um sig, en báðar fæturnar í vatni. Þá var það siður að þýða kal með köldu vatni og helzt kældu með snjó eða klaka. Ég segi það eins og það er mér lá við yfirliði. Eg gekk út, þoldi ekki að horfa upp á þetta. Á Þorláksmessudag, var Brandur fluttur til Keflavíkur og þar var hann undir læknishendi fram á fyrsta sumardag 1912. Kom þá heim örkumla maður. Allar tærnar af báðum fótum og helmingur ristanna. Skein í hælbein annars fótar bert.
Estiva - 221Þegar allar aðstæður eru athugaðar er ekkert undarlegt þó Brandur legði kapp á að komast heim. Á Skálanum er fjörubeit mikil og góð en flæðihætta um alla fjöru, heiman frá bæ um Ragnagjögur og Göngukvennabása allt austur á Selatanga. Konan með drengina tvo heima,, en þá var Margrét vestur í Járngerðarstaðahverfi í skóla. Er Margrét kom í skólann um morguninn, sá hún að eitthvað var á seyði. En hvað og hvort það snerti hana, vissi hún ekki, fyrr en skólastjórinn kallaði hana á eintal og sagði henni hvernig komið væri og nú yrði hún að fara úr skólanum til mömmu sinnar og vera henni til aðstoðar. Snemma leggjast þungar byrðar á veikar herðar og grannar. Og hvert var nú hlutverk Estívu, konunnar, með börnin 12, 6 og 3 ára? Jú, auk húsmóðursstarfanna voru gegningar fjárins. Fara upp hverja nótt og ganga á fjörur, fara út í sker hvernig sem viðraði og reka upp. Skiljandi börnin ein eftir í bænum. Hvað mundi verða um þau ef eitthvað kæmi fyrir hana á leiðinni? Enda stóð hún oft hikandi við dyrastafinn og horfði út í svarta nóttina, að fara eða fara ekki. Sama spurningin nótt eftir nótt. Barátta, hörku barátta, hverja stund, hverja nótt, hvern dag og sigur, en hver er hamingjusamur þó sigur vinnist eftir þvílíka baráttu? Þau Brandur og Estíva bjuggu á Skálanum til fardaga vorið 1912. Fluttust þá í þurrabúð að Hópi og bjuggu þar til vors 1915, að þau fluttust til Hafnarfjarðar. Þar skildu þau samvistir.
Enginn skyldi halda að sjálfsbjargarviðleitni þessa fólks væri buguð, þó allmikið blési á móti. Brandur stundaði sjó eftir sem áður og reri á opnum skipum frá Grindavík og enn var hann með beztu ræðurum, sem þar flutu. Reri hann víða um land, á Austfjörðum og Langanesi. Hann var á kútterum bæði frá Hafnarfirði og víðar og hann var með á því skipi, sem seinast sleytti kili við klappir í Dritvík, auk þess stundaði hann alla verkamannavinnu sem til féll hér í Hafnarfirði: uppi á reitum og niðri í skipum við Hafskipabryggjuna. Og Estiva átti eftir að standa við fiskþvott í mörg ár hér í Hafnarfirði eftir þetta og ganga til hverskonar starfa.
Milli þessa fólks var aldrei einu orði minnzt á þessa hrakninga. En þessi örlagasnjór mun þó hafa lagzt þungt á alla. En þau urðu afdrif hans, að hlýindi gerði rétt á eftir og leysti snjóinn allan upp. Því hefi ég gerzt langorður um þetta, að ég þekkti þetta fólk. Það var lengi hér meðal okkar Hafnfirðinga. Ungur heyrði ég frá þessu sagt og það festist mér í minni. Þegar ég svo frétti að ekki hafði verið eitt orð um þetta skrifað, þá langaði mig að safna því saman sem sannast væri um þetta og var svo lánsamur. að hitta fyrir langminnugt fólk og trútt í frásögn, sem gat frætt mig um viðburði þessa.”

Heimild:
-Alþýðublað Hafnarfjarðar, Gísli Sigurðsson, jól 1967, bls. 7, 9 og 10.

Brandsgjá

Brandsgjá.

Oddshellir

Gengið var inn á Skógfellaveg frá Reykjanesbraut og upp fyrir Brandsgjá, upp Vogaheiði um Huldugjá, að Péturborg og síðan áfram upp heiðina í Kálffell.

Kálffell

Fjárskjól við Oddshelli í Kálffelli.

Í Kálffelli eru hlaðin mannvirki, s.s. gerði, kví, rétt, fjárskjól og þar er mannvistarbústaður; Oddshellir.
Kálffellið er, séð úr fjarlægð, líkt og lítil þúst í heiðinni. Þegar komið er að því kemur í ljós að um fallegan eldgíg er að ræða og það nokkuð stóran.
Þegar gengið er beint upp heiðina tekur hver hæðin og lægðin við af annarri. En þegar farið er suður með vestanverðri heiðinni er gengið rétt utan við lyngsvæðið og þar er öllu sléttara aðgöngu að fellinu. Á þeirri leið ber ýmislegt skemmtilegt fyrir augu, s.s. gjár og mosasléttur, misgengi og litlir hraungígar á NA-lægum sprungureinum.

Syðri-Mosadalagjá liggur fast neðan Kálffells (87 m.y.s.), en það er á hreppamörkum og liggur norðaustan við svonefnda Aura. Kjörin fjárfesting fyrir einhverja bankastofnunina, sem ekki veit aura sinna tal.

Kálffell

Kálffell.

Fellið er stærsti gígurinn í nokkuð stórum gígaklasa á þessum slóðum. Megin hraunstraumurinn hefur runnið norðvestur úr og þekur hraunið um 3.5 ferkm. Fell er varla réttnefni því Kálffell er aðeins ávöl hæð, sem fellur inn í landið, sérstaklega séð neðan frá eins og fyrr sagði.

Oddshellir

Oddshellir.

Það eru snöggtum fleiri fell en fjöll á Reykjanesskaganum og séra Geir Backmann gerir eftirfarandi greinarmun á felli og fjalli í lýsingu sinni á Grindarvíkursókn árið 1840: “Þann mun gjöri ég á felli og fjalli, að fell kalla ég klettalausa, alls staðar að snarbratta, uppmjóa og toppvaxna, háa hæð, sem hvar vill má upp ganga; en fjall, hvar klettar eða klungur hamla uppgönguna, og hvers hæð er í hið minnsta 200 faðmar; þó sé hverjum leyfi að gjöra þar þann mismun, er sjálfur vill.”.

Kálffell

Rétt í Kálffelli.

Í Kálffelli var setið yfir sauðum um og eftir síðustu aldamót og var frægasti sauðamaðurinn þar Oddur Stefánsson frá Grænuborg (d. 1925). Í gígnum eru hlaðnir garðar og við hellaop ofan við gíginn eru einnig hleðslur, sem líklega hafa átt að beina fé í skjól ef veður var vont.
Einn hellanna heitir Oddshellir og er í Brunnhól rétt sunnan við gígskálina. Hóllinn dregur nafn af lögun hellisins og eða “dyrum” hans. Opið er eins og brunnop og til þess að komast niður þarf að stökkva niður á nokkrar hellur, sem hlaðnar hafa verið upp neðan “dyranna”.

Kálffell

Kálffell.

Oddshellir er nokkuð rúmgóður og á einum stað er hlaðið upp í einn afkimann. Líklega hefur Oddur í Grænuborg átt afdrep í þessum helli og af því er nafngiftin trúlega komin. Sagnir eru u að þegar mest var af sauðum Í Kálffelli hafi þeir verið á annað hundrað.
Frábært veður. Gangan tók 4 klst og 4 mín.

Heimild m.a.:
-Örnefni og gönguleiðir á Vatnsleysutrönd – Sesselja G. Guðmundsdóttir.

Kálffell

Fjárskjól í Kálffelli.