Færslur

Brattakinn 29

Í auglýsingu fasteignasölu um Bröttukinn 29 í Hafnarfirði, sem seld var árið 2015, segir m.a.: “Verð 25,9 – Stærð 71 m2 – Einbýli – Verð per fm 363 – Byggingarár 1954.

Otto Whatne

Ottó Wathne Björnsson – ófullgert málverk Halldórs Árna Sveinssonar.

Á lóðinni er skráð 19 fm. geymsla, geymslan er nánast ónýt. Það má byggja hana aftur.
Byggingaréttur er á lóðinni bæði fyrir stækkun á húsinu um helming einnig að byggja bílskúr. Byggja má einnig eina hæð ofan á húsið.
Komið er inn í forstofu með dúk á gólfi. Stofa og eldhús eru með viðarborðum á gólfi. Gengið er niður stiga á neðri hæð. Þar er lítið hol með máluðu steingólfi, Herbergi með steingólfi, skápur. Inn af herbergi er lítil hitakompa.
Baðherbergi og þvottahús með flísum á gólfi, sturta er á baði.
Vel staðsett og snoturt 2ja herbergja einbýli með góðri lóð á vinsælum stað í Hafnarfirði. Eign sem getur boðið upp á ýmsa möguleika.
Um er að ræða snotra og sjarmerandi eign á tveimur hæðum með góðri lóð á vinsælum stað í Hafnarfirði. Eign sem vert er að skoða.”

Í Alþýðublaði Hafnarfjarðar – jólablaði, árið 1962, er fróðleg grein eftir Magnús Jónsson (forstöðumann Byggðasafns Hafnafjarðar); “Bæir i bænum“.

Brattakinn 29

Brattakinn 29.

Þar segir m.a. um “bæ Ottós” að Bröttukinn 29:
“Árið 1908 komu til Hafnarfjarðar hjónin Halldór Sigurðsson frá Merkinesi í Höfnum og Pálína Pálsdóttir. Bjuggu þau fyrst í Gesthúsum. En þau vildu, eins og aðrir, búa undir eigin þaki og létu nægja lágreist bæjarlag á þeirri byggingu, þótt þá væri komið árið 1919. Gata var lögð framhjá bænum þrem árum síðar og þá lögð í hann vatnsleiðsla. Jafnframt hlaut hann númerið Krosseyrarvegur 5. Halldór dó árið 1920, en kona hans fimm árum síðar.
Fóstursonur þeirra, Janus Gíslason, bjó áfram í bænum, á dótturdóttur þeirra hjóna, Pálínu Arnadóttur. Hún giftist Hallbergi Péturssyni, og bjuggu þau í þessum bæ allt til ársins 1953. Þá var hann seldur Ottó W. Björnssyni og fluttur burt og stendur nú í góðu yfirlæti sem Brattakinn 29. Jafnframt var inngönguskúrinn lengdur, svo að nú er hann sem viðbygging jafnlöng bænum. Kjallarinn varð einnig allur ofanjarðar. Lengd bæjarins er 5,8 m, en breidd hans hefur upphaflega verið um 3,8 m. Með viðbyggingunni er hún orðin yfir 5 m. Hjá bænum hefur Ottó byggt útihús vegna atvinnu sinnar.”

Í “Húsakönnun” fyrir Kinnar, íbúðahverfi í Hafnarfirði, árið 2020 segir m.a.:

Kinnar

Kinnar í byggingu.

“Könnunin er unnin samkvæmt beiðni Umhverfis- og skipulagsþjónustu Hafnarfjarðarbæjar. Málfríður Kristjánsdóttir arkitekt FAÍ vann skráninguna. Björn Pétursson bæjarminjavörður Hafnarfjarðar skrifaði sögulega samantekt.
Málfríður Kristjánsdóttir skrifaði um uppbyggingu hverfisins Rósa Karen Borgþórsdóttir safnvörður á Byggðasafni Hafnarfjarðar aflaði sögulegra upplýsinga.
Elsa Jónsdóttir landfræðingur hjá umhverfis- og skipulagsþjónustu Hafnarfjarðarbæjar aðstoðaði við gerð korta.

Formáli

Brattakinn 29

Brattakinn 29.

Í janúar 2018 fól Umhverfis- og skipulagsþjónusta Hafnarfjarðarbæjar Málfríði Kristjánsdóttur arkitekt að gera húsaskráningu fyrir Kinnarnar í Hafnarfirði. Samkvæmt 16. gr. laga um menningarminjar nr. 80/2012 skal skráning fornleifa, húsa og mannvirkja fara fram áður en gengið er frá aðalskipulagi eða deiliskipulagi. Minjastofnun Íslands setur reglur um lágmarkskröfur sem gera skal til skráningar fyrir hvert skipulagsstig.
Minjastofnun Íslands lagði til húsaskráningarforrit og hefur veitt leiðbeiningar. Byggðasafn Hafnarfjarðar veitti aðgang að ljósmyndum og aðstoðaði við skráningu á sögu einstakra húsa. Hefur framlag safnsins verið ómetanlegt. Þá hafði höfundur skráningar ótakmarkað aðgengi að teikningasafni og skráðum heimildum byggingafulltrúaembættisins. Allar brunavirðingar fyrir tímabilið þegar Kinnarnar voru í uppbyggingu eru glataðar. Öll hús voru ljósmynduð og skoðuð á staðnum.

Brattakinn 29

Brattakinn 29.

Skráningin tekur alls til 153 bygginga. Þar af voru 9 friðaðar samkvæmt 29. grein laga um menningarminjar nr. 80/2012. Ellefu hús við Bröttukinn hafa verið flutt þangað og við Grænukinn er eitt flutningshús.
Samkvæmt Aðalskipulagi Hafnarfjarðar 2013-2025 er hverfisverndarákvæði um Kinnarnar sem hljóðar svo : „Smágerður mælikvarði sem einkennir hverfið haldist óbreyttur og þar með byggðamynstur hverfisins sem er heillegt og gott dæmi um einbýlishús byggð um 1950“.
Varðveislumat húsanna á svæðinu er almennt hátt með tilliti til hverfisverndarákvæðisins og tilurð húsanna. Það er mikilvægt að breytingar og viðbyggingar séu hóflegar og í samræmi við götumyndir.

Söguleg samantekt

Kinnar

Kinnahverfið í byggingu.

Á eftirstríðsárunum var nokkur húsnæðisskortur í Hafnarfirði sem brugðist var við með ýmsum hætti. Meðal þeirra úrræða sem gripið var til á þessum tíma var að skipuleggja smáíbúðahverfi í nýju hverfi sem kallað var „Kinnarnar“. Umrætt landsvæði tilheyrði einni af hinum fornu fjórum bújörðum Hafnarfjarðar, Hamarskoti en sú jörð var keypt af bæjarsjóði Hafnarfjarðar árið 1912 að undanskildu Hamarskotstúni innan girðingar og Undirhamarskotstúnbletti. Fyrstu heimildir um jörðina eru frá árinu 1579 en þá hafði hún fyrir alllöngu verið komin í eigu Garðakirkju.

Hamarskot

Hamarskot – tilgáta.

Í Jarðarbók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns frá árinu 1703 er jarðardýrleiki talinn óviss þar sem jörðin tíundaðist engum en landskuld hennar var þá 60 álnir sem greiddust með 3 vættum fiska í kaupstað, engjar voru engar og vatnsból erfitt um vetur en þar var þó heimræði árið um kring og lending góð. Bærinn Hamarskot stóð þar sem Flensborgarskólinn stendur í dag.
Áður en uppbygging Kinnahverfisins hófst var landsvæðið nýtt um tíma til landbúnaðar. Þar stóð meðal annars allstórt fjós og hlaða sem byggt var 1931. Fjósið var byggt af og eftir teikningu Ásgeirs G. Stefánssonar fyrir Þorstein Björnsson. Þess má geta að Ásgeir teiknaði bæði og byggði fjölmörg hús í bænum á þessum árum. Fjós þetta vék fyrir byggðinni þegar hún tók að myndast í hverfinu.

Kinnar

Kinnahverfi.

Segja má að uppbygging Kinnahverfisins hafi hafist árið 1947 þegar fyrstu húsin voru byggð við Köldukinn. Flutningshús voru flutt á svæðið og sett niður árið 1949 en formlegt skipulag fyrir hverfið var ekki samþykkt fyrr en í desember 1951. Í frétt í Alþýðublaðinu frá þeim tíma segir meðal annars: „Milli 40 og 50 umsóknir um smáhúsalóðir í Hafnarfirði. Sérstakt hverfi ætlað húsunum, en bærinn leggur til teikningar ókeypis. /…/ Hafnarfjarðarbær hefur skipulagt sérstakt hverfi fyrir þessi hús ofarlega í bænum þar, sem eru svo kallaðar Kinnar. /…/ Þeir sem þess óska geta fengið ókeypis teikningar að húsum þessum hjá bænum, en einnig er þeim leyfilegt að láta teikna hús eftir eigin fyrirsöng.“ Nokkuð var um að eldri hús í bænum væru flutt í hverfið og olli það í sumum tilfellum deildum. Dæmi um það er hús sem áður var Reykjavíkurvegur 4 en það þurfti að víkja þaðan vegna breikkunar götunnar. Þá sendu fjöldi íbúa hverfisins bréf til bæjarins til að mótmæla þeim flutningi en í frétt Alþýðublaðsins sagði meðal annars um það mál „Hafnarfjörður fer að verða furðulegur bær. Ætli menn að byggja bílskúr, verða þeir að hlíta ströngum reglum byggingarsamþykktar en Pétur og Páll viðrast geta dröslað aflógahjöllum eftirlitslaust á grunna, a.m.k. í Kinnahverfinu. Flutningur Finnshúss upp í Grænukinn er bæjarstjórnarhneyksli og fyrir það verður „eigandi“ hússins ekki sóttur til saka.“

Brattakinn 29

Brattakinn 29.

Deiliskipulagsuppdrátturinn af svæðinu var gerður af þeim Sigurði Jóni Ólafssyni og Friðþjófi Sigurðssyni og afmarkaðist þá af Hringbraut, Bárukinn og læknum að norðan. Eins og fram kemur hér að framan var lóðarhöfum boðið að fá húsateikningar þeim að kostnaðarlausu frá bænum og varð úr að um þriðjungur húsa í þessu hverfi, 55 talsins, var byggður eftir þeim teikningum. Teikningarnar voru eftir þá Friðþjóf og Sigurð og gefa þessi hús og þéttleiki byggðarinnar í hverfinu því ákveðin heildarsvip. Aldur húsa í hverfinu er að stærstum hluta frá
miðri 20. öld en þó eru nokkur hús eldri sem flutt voru þangað og einnig er þar að finna nýleg hús.
Yngstu húsin voru byggð undir aldamótin 2000 eftir að Pípugerð Jóns Guðnasonar við Bröttukinn 1 vék fyrir nýjum húsum en hún hafði verið starfrækt á þeim stað allt frá árinu 1929.

Uppbygging hverfisins

Brattakinn 27

Flutningshús – Brattakinn 27.

Sigurður Jón Ólafsson og Friðþjófur Sigurðsson gerðu fyrsta deiliskipulagsuppdráttinn af svæðinu og var hann samþykktur 13. desember 1951. Svæðið var milli Hringbrautar og Bárukinnar en að norðan var Lækurinn. Þá voru 11 hús á svæðinu, þar af 5 aðflutt. Það má telja þá Sigurð og Friðþjóf feður byggðarinnar. Sigurður var bæjarverkfræðingur og byggingafulltrúi frá 1946-1959 en Friðþjófur var loftskeytamaður sem vann á þessum tíma við tæknistörf hjá Hafnarfjarðarbæ og varð síðan byggingafulltrúi í eitt ár 1961 og síðan frá árinu 1967. Samtals teiknuðu þeir 55 hús eða yfir en einn þriðja hluta allra húsa á svæðinu. Þetta átti sinn þátt að gefa hverfinu heildarsvip.
Fyrstu nýbyggingarnar í Kinnunum voru við Köldukinn nr. 7, 8 og 10 frá árinu 1947 en tveim árum síðar var farið að flytja þangað hús sem voru sett niður við Bröttukinn. Hverfið byggist upp á sama tíma og smáíbúðahverfið í Reykjavík en borgarstjórn Reykjavíkur hélt samkeppni meðal arkitekta um smáhús og vann Gunnar Ólafsson arkitekt þá samkeppni.

Otti Wathne

Tóbakspungur Ottós.

Tvö hús voru byggð samkvæmt hans teikningu annað við Köldukinn en hitt við Grænukinn. Bæði húsin eru mikið breytt í dag. Þá voru byggð fjögur hús eftir teikningu Guttorms Andrjessonar og Ólafs Guttormssonar sem einnig hafði verið byggt eftir í smáíbúðahverfinu.
Flest húsin á svæðinu risu á árunum 1951-1955 eða samtals 76 hús. Fyrstu húsin austan Bárukinnar voru flutningshús við Bröttukinn og eftir 1954 hófst uppbygging fyrst við Háukinn og Grænukinn og síðan Stekkjarkinn. Uppbygging austan Bárukinnar var hægari en var að mestu lokið 1970. Síðast var byggt á eignalóðum við Fögrukinn og Lækjarkinn.
Á þeim tíma sem hverfið var í byggingu var mikill húsnæðisskortur og innflutningshöft þar sem gjaldeyrir var af skornum skammti. Frá árinu 1947 giltu lög um fjárhagsráð, innflutningsverzlun og verðlagseftirlit en þá var heimilt að byggja íbúðarhús til eignaafnota án fjárfestingaleyfis ef stærð þess fór ekki yfir 350 rúmmetra. Fjárhagsráð var lagt niður í lok árs 1953 og þá var gert frjálst að byggja hús allt að 520 rúmmetra.
Mismunandi þættir sköpuðu þetta þétta byggðamynstur með þéttri byggð svo sem húsnæðisskortur, innflutningshöft, starfsemi fjárhagsráðs og teikningar af litlum einföldum einbýlis- og tvíbýlishúsum.”

Ottó W. Björnsson – Ottó Wathne Björnsson (7. júlí 1904 – 26. maí 1992)

Ottó Wathne

Ottó Wathne Björnsson.

Líkt og fram hefur komið keypti Otto W. Björnsson Krosseyrarveg 5 árið 1954 og flutti að Bröttukinn 29.
Í kveðjuorði Stellu, frænku Ottós í Morgunblaðinu miðvikudaginn 1. júlí árið 1992 segir m.a.: “Ottó Wathne Bjömsson er dáinn. Hann var kominn hátt á níræðisaldur, lá kvalafulla banalegu, sem loks tók enda daginn fyrir uppstigningardag. Guði sé lof fyrir það. Ottó dvaldi síðustu árin á Sólvangi í Hafnarfirði og hafði litla fótavist, svo sennilega er hann mörgum gleymdum sem könnuðust við hann úr bæjarlífinu hér áður fyrr, bæði í Reykjavík og Hafnarfirði.
Það er eðlilegt að mannlífið breyti um svip í tímanna rás og um margt er það til bóta, en ekki get ég neitað því að oft finnst mér það um leið verða fátæklegra. Nú eiga helst allir að vera eins. Þeir smá hverfa hinir kynlegu kvistir, sem settu svip á bæjarbraginn áður fyrr.
Ottó var einn þeirra. Hann batt ekki bagga með öllum. Í mörg ár vann hann sem fjósamaður eða gegningamaður í sveit, stundum mörg ár á sama stað, svo sem hjá Þorgeiri í Gufunesi. Á milli brá hann sér í bæinn, þá gjarnan til móður sinnar, Gunnhildar kaupakonu í Skálholti, sem allir eldri Hafnfirðingar muna. Nú eða að hann kom í heimsókn til ömmu minnar Pálínu, en hún var frænka Gunnhildar. Hjá ömmu minni dvaldi hann sem unglingur í þrjú ár við nám og var það hans einasta skólaganga. Þar var vinurinn kominn í fjósagallanum og lyktaði allavega, því þótt margt megi segja gott um Ottó frænda minn, þá verður aldrei sagt að fataprjál og baðferðir hafi verið hans uppáhald.
Sem betur fer vitkast maður með aldrinum. Það er sennilega líka ætlunin með dvöl okkar hér…” – Stella frænka.

Sveinn Björnsson skrifaði minningarorð um Ottó Wathne Björnsson 4. júlí 1992:

Ottó Wathne

Málverk Sveins Börnssonar af Ottó Wathne Björnssyni.

“Ottó Wathne Björnsson ­ Minning Ottó Wathne Björnsson, vinur minn, er látinn. Hann fæddist 7. júlí 1904 á Arnarstapa á Snæfellsnesi. Foreldrar hans voru Gunnhildur Bjarnadóttir og Björn Jónsson.
Ottó fluttist til Hafnarfjarðar 1920. Hann átti hús í Bröttukinn 29, Hafnarfirði. Þangað kom ég oft. Ottó var búinn að vera nokkur ár á Sólvangi. Hann var alltaf einsetumaður.
Ottó var sérstakur maður. Ég kynntist honum þegar ég kom í lögregluna 1954. Ég fékk fljótlega áhuga fyrir að mála hann en það gekk á ýmsu að til þess kæmi, hann var hálfhræddur við slíkt uppátæki og fór lengi undan í flæmingi. En loks tókst að fá hann til að sitja fyrir heima hjá honum. Hann vildi ekki koma í vinnustofu mína. Það var dálítið erfitt að fá hann til að sitja kyrran. Hann þurfti að vera að taka í nefið og alltaf að aka sér til og frá og með ýmsar brettur sem honum voru kannski eðlilegar. Einnig vildi hann alltaf vera að tala við mig. Þetta hafðist þó á endanum.
Ég var dálítið búinn að stúdera Ottó þegar hann kom á lögreglustöðina í Hafnarfirði, en það var mjög oft. Stundum kom hann seint á kvöldin og þá venjulega með flöskur í pokum og var þá oft þreyttur.
Hann kom til að hitta vini sína, þá einu eins og hann sagði stundum. Hann safnaði flöskum og keypti hingað og þangað, fór meira að segja til Keflavíkur og víðar.
Ottó hafði áður unnið almenn sveitastörf og ýmis verkamannastörf á ævinni. Hann var flöskukaupmaður 30 síðustu ár ævi sinnar. Í þá daga voru flöskur í verði og sérstaklega brennivínsflöskur.

Sveinn Björnsson

Sveinn Björnsson.

Það var ekki ósjaldan að við á lögreglustöðinni ókum Otta heim með pokana sína fulla af flöskum. Hann kom stundum með nokkra poka í strætó í síðasta vagni. Voru strætóbílstjórar góðir við Otta og leyfðu honum að flytja þessa poka í vögnunum. Síðan bar hann þá á sjálfum sér að lögreglustöðinni. Eftir klukkan 3 á nóttunni þegar um hægðist í bænum og allt var orðið rólegt var honum hjálpað heim með varning sinn í hús sitt og inn í kjallara. Þá lá vel á karli og stundum bauð hann upp á flotta vindla og maltöl. Ottó var nefnilega góður vinur vina sinna. Hann var sérstakur og sérsinna en hrekklaus, góð sál.
Á seinni árum var honum gefið sjónvarp af vinum sínum í Reykjavík, en það setti hann aldrei í samband. Hlustaði bara á útvarpið, gömlu, góðu Gufuna, og lagði kapal.
Hann talaði fallega íslensku og var gaman að ræða við hann. Það voru stuttar setningar og hnitmiðaðar sem minntu á Hemmingway, sem hann hafði aldrei heyrt um eða lesið.
Ottó kom stundum heim til mín að Köldukinn 12 enda stutt að fara. Hann var góður við börn, hugsaði mikið um þá sem áttu bágt, en lítið um sjálfan sig. Hann var stundum skemmtilegur og lék á als oddi.
Hulda og Jónatan í Köldukinn 8 voru alltaf góð við Otta, gáfu honum að borða á hátíðum og Hulda kom honum í bað sem var ansi erfitt.
Kristinn Hákonarson yfirlögregluþjónn og Sólveig Baldvinsdóttir sendu honum oft mat um jólin og öðrum hátíðisdögum. Einnig vinir hans í Reykjavík. Einstæðingar eru oft látnir eiga sig en fyrr á árum meira gert í því að gleðja þá á hátíðum.
Ottó Wathne var ekki allra, hann var einn af þeim mönnum sem setti svip á bæinn okkar. Nú eru flestir þessir sérstöku menn gengnir til feðra sinna og engir þeim líkir koma í staðinn. Þeir voru nefnilega ansi vel gefnir margir hverjir og kunnu að svara fyrir sig.
Ottó var saklaus sál sem fólki þótti vænt um. Hann kunni að drekka kaffi af undirskál sem hann hélt fallega á og ekkert fór niður þótt hann væri með kreppta fingur.
Ég man vin minn alltaf, veri hann kært kvaddur. Það verður tekið vel á móti honum.” – Krýsuvík, 29. maí ’92, Sveinn Björnsson.

Ottó Wathne
Í Þjóðviljanum 8. júlí 1984 ræðir MHG við Ottó Wathne Björnsson um hvernig nafn hans er til komið, hestamennsku, flöskuverslun og eggjasölu með meiru… Hér verður einungis drepið niður á sumt, er fram kom í viðtalinu:
“Er þá ekki hann Ottó Wathne Björnsson úr Hafnarfirðinum allt í einu kominn hingað inn á gólf. Hann er auðvitað spurður almæltra frétta úr Firðinum, en hann kveður þaðan ekkert
tíðinda, sem í frásögur sé færandi. -„Ekki nema það að þú ert að verða áttræður,” gellur þá í Lúðvík Geirssyni hér í næsta herbergi. Og þar náði blaðamaður þá í spotta, þökk sé Lúðvík.
Ekki þarf að efa að áttræður maður hafi frá ýmsu að segja og lyktir urðu líka þær að rabb okkar Óttós varð miklu léngra en svo að tök séu á að troða því í eitt blað, og því birtist hér aðeins lauslegt
og hraðsoðið hrafl.

Vitjað nafns
Ottó WathneBlaðamanni lék forvitni á að vita hvernig varið væri ættartengslum þeirra Ottós Wathne athafnmannsins á Seyðisfirði og Ottós Wathne þeirra Hafnfirðinga.
– Uss, við erum ekkert skyldir, ansar Hafnfirðingurinn.
– Og hversvegna berð þú þá þetta nafn?
– Ja, það er nú saga að segja frá því. Og er þar þá fyrst til máls að taka að ég er fæddur undir Jökli, á Arnarstapa. Foreldrar mínir, Björn og Gunnhildur, bjuggu þar.
Það var gamli Ottó Wathne sjálfur, sem endilega vildi að ég yrði skírður þessu nafni. Foreldrar mínir þekktu hann auðvitað ekkert og voru búin að ákveða mér allt annað nafn. En svo í hálfan mánuð áður en ég var skírður vitjaði Wathne móður minnar í draumi, á hverri einustu nóttu í hálfan mánuð. Það munaði ekki um það. Hún var hætt að geta sofið. Og seinast klykkir hann út með því að segja að láti hún ekki barnið heita þessu nafni þá verði það aumingi, ef það þá fái að lifa.
Og þá segir hún við pabba: – Við verðum bara að skíra drenginn þessu nafni. Og það var gert, Ottó Wathne Björnsson er mitt skírnarnafn, taktu eftir því, skírnarnafn en ekki ættarnafn.
„Hefurðu nú kannski eignast krakka…?”
En þetta átti nú eftir að hafa sín eftirköst, skal ég segja þér, þó að gamla Wathne hafi sjálfsagt ekki grunað það. Ég fékk nefnilega einu sinni bréf frá lögfræðingi.
Mér þótti það nú skrítið og mömmu ekki síður. Maður tengdi lögfræðinga helst við einhver afbrot og ég vissi ekki til þess að ég hefði brotið nein guðs eða
manna lög. En mér var skipað að mæta hjá lögfræðingnum. Það var meira helvítið. Og mamma segir: – Hefurðu nú kannski eignast krakka með einhverri
stelpu, sem þú vilt svo ekki meðganga?
– Nei, nei, nei, ég held nú síður.
– Nei, ég trúi því heldur ekki á þig, en hvað getur maðurinn viljað?
– Já, það veit ég fjandakornið ekki frekar en þú. Neitaðu og vertu ákveðinn.

Heimsókn að Bröttukinn 29

Brattakinn 29

Brattakinn 29.

FERLIR tók hús að Bröttukinn 29 að gefnu tilefni. Við skoðun á innviðum hússins var ljóst að bætt hafði verið við upphaflega húsið, sem flutt var frá Krosseyrarvegi 5 á sínum tíma. Gamla húsið er dæmigert fyrir hafnfirska byggingalist frá því í byrjun 2o. aldar; byggt af vanefnum, en hefur þrátt fyrir það þótt til mikilla framfara í híbýlagerð bæjarbúa frá fyrri tíð. Eftir sem tíma liðu varð þessi “nútímalegi” húsakostu, líkt og vera vill, þó fljótlega úreltur; bæði hvað varðar gerð og stærð. Mörg húsanna þurftu og að víkja fyrir skipulegri gatnagerð og voru ýmist rifin eða flutt til.

Brattakinn 29

Brattakinn 29.

Hugmyndir fólks um verndun gamalla húsa í bænum eru af ýmsum toga. Rétt að taka undir áhuga formanns Byggðasafns Hafnarfjarðar að koma slíkum sögulegum byggingum, sem ekki geta lengur þjónað sínu hlutverki í nútímanum, fyrir á afmörkuðu svæði, líkt og Árbæjarsafn er dæmi um í Reykjavík. Slíkt svæði er nærtækt í Hafnarfirði, þ.e. auðnin ofan Langeyris. Þar voru fyrrum t.d. húsin Eyrarhraun o.fl. slík. Allt voru þau dæmigerð hafnfirsk híbýli frá upphafi síðustu aldar. Með því að skipuleggja slíkan reit væru saman kominn á einum stað framtíðar dvalarstaður mikilla áður óæskilegra fortíðarverðmæta.
“Gamlar kreðslur eiga þó á stundum til að torvelda vænleg framtíðarskref”….

Heimildir:
-Fasteignauglýsing 2015.
-Alþýðublað Hafnarfjarðar – jólablað, 15.12. 1962; Bæir í bænum – Magnús Jónsson.
-Kinnar, íbúðahverfi Hafnarfirði – Húsakönnun: Hafnarfjörður 2020.
-Morgunblaðið, miðvikurdagur 1. júlí 1992 – Ottó W. Björnsson; kveðjuorð – www.mbl.is/greinasafn/grein/87872/
timarit.is/page/1765836#page/n45/mode/2up
-Morgunblaðið, Sveinn Björnsson, 4. júní 1992 – Minningargreinar.
-Morgunblaðið, 4. júní 1992 – Minningargreinar.
-Þjóðviljinn 8. júlí 1984, bls 4 og 6: Hún var skagfirsk eins og þú – – mhg rœðir við m Ottó Wathne Björnsson um hvernig nafn hans er til komið, hestamennsku, flöskuverslun og eggjasölu með meiru – timarit.is/page/2893813#page/n3/mode/2up

Brattakinn 29

Brattakinn 29 – Jóhannes Ármannsson er eigandi hússins.