Færslur

Gjásel

Í bók Árna Óla, Strönd og Vogar – Úr sögu einnar sveitar í landnámi Ingólfs, fjallar hann um “Selstöður í heiðinni” – Vogaheiði.

Árni Óla

Árni Óla.

“Seljarústir segja sína sögu um búskaparháttu fyrr á öldum. Landnámsmenn fluttu með sér frá Noregi þann sið að hafa í seli. Og íslenzka bændastéttin var fastheldin á þetta, því að um þúsund ár hafa selin staðið.

Þegar Vatnsleysuströnd byggðist, munu hafa verið mjög góðir hagar í heiðinni. Hver jörð átti þá sitt sel, og sennilega hefir þá verið vatnsból hjá hverju seli. En er gróður gekk til þurrðar, jarðvegur breyttist og uppblástur hófst, þá hverfur vatnið víða. Í Jarðabók Árna og Páls er getið um 12 selstöður, en viðkvæðið er oftast, að þar sé vatnsskortur til mikils baga, og sum selin sé að leggjast niður þess vegna. Þó er enn haft í seli á flestum eða öllum jörðunum, en sum selin hafa verið færð saman. Selin hafa því upphaflega verið fleiri.
Hér verða nú taldar seljarústirnar í Vogaheiði og Strandarheiði, og er aðallega stuðzt við frásögn Benjamíns Halldórssonar og lýsingar hans á staðháttum.

Selhólar

Selhólar.

1. Selhólar heita skammt fyrir ofan Voga. Þar sést fyrir gömlum seltóftabrotum. Vatnsból þess sels hefir verið í Snorrastaðatjörnum.

Nýjasel

Nýjasel.

2. Nýjasel er við Snorrastaðatjarnir ofanverðar. Þar hafa verið glöggvar seltóftir fram til þessa. (Þegar leitað er Nýjasels verður það ekki auðfundið. Fylgja þarf gjánni  uns komið er að tóftunum, sem eru harla óljósar. Fyrir þá/þau er þekkja til seltófta er þarna þó augljós selstaða, en lítilmátleg hefur hún verið í þá tíð; þrjár litlar tóftir og stekkur – þrátt fyrir allt dæmigerð sem slík á þessu svæði.)

3. Þórusel er skammt austur af Vogum. Er þarna allstórt svæði, sem einu nafni nefndist Þórusel.

Þórusel

Þórusel.

Þar sjást nú engin merki seltófta [sem er reyndar ekki rétt] og ekkert vatnsból er þar nærri. Þjóðsagnir herma, að fyrrum hafi verið stórbýli, þar sem nú heitir Þórusker hjá Vogavík, og hafi þar verið 18 hurðir á járnum.

Þórusel

Þórusel.

Býli þetta var kennt við Þóru þá, er selstaðan dregur nafn af. Þórusker var utan við Vogavíkina og þótti fyrrum vera hafnarbót, enda þótt það kæmi ekki upp fyrr en með hálfföllnum sjó. Alldjúpt sund var milli skersins og lands, en nú er þar kominn hafnargarður, sem tengir skerið við land. Norður af Þóruskeri em 4—5 sker, sem nefnd eru Kotasker, og yfir þau fellur sjór á sama tíma og hann fellur yfir Þórusker. Norðvestur af Þóruskeri eru 2 allstórir boðar, sem nefnast Geldingar. Þar á ábúandi Þóruskers að hafa haft geldinga sína. Geldingarnir koma úr sjó nokkru fyrir stórstraumsfjöru, en í smástraum sjást þeir ekki. Milli þeirra og Þóruskers er fremur stutt sund, sem ekki er bátgengt um stórstraumsfjöru. Á milli Geldinganna er mjótt og djúpt sund og er þar hvítur sandur í botni.

Arahnúkasel

Arahnúkasel.

4. Arahnúkssel er hjá Stóru-Aragjá (Litla-Aragjá er nokkru neðar) og er þangað röskur hálfrar stundar gangur frá Vogum. Í Arahnúksseli eru glöggar seltóftir og allstórt seltún þar umhverfis, en vatn mun þar ekki nærlendis. Túnið var seinast slegið 1917.

Vogasel

Vogasel eldri.

5. Gamla-Vogasel er austast í svonefndu Vogaholti. Þar eru greinilegar seltóftir og nokkuð stórt seltún, en vatn mun þar ekki vera.

Dalssel

Dalssel í Fagradal.

6. Dalsel er í Fagradal við samnefnt fjall. Þar hafa sézt seltóftir til skamms tíma, en Fagridalur er nú uppblásinn fyrir löngu. Dalselið mun hafa verið notað frá Grindavík (Járngerðarstöðum?).

7. Stóruvogasel.

Vogasel

Vogasel yngri.

 Jarðabókinni segir svo um Stóru-Voga: „Selstöðu vissa á jörðin eina nærri, þar sem kallað er Vogaholt, aðra vill hún eigna sér þar sem heitir Fagridalur, en þar um eru misgreiningar, því Járngerðarstaðamenn í Grindavík vilja eigna sér þessa selstöðu, þó segja menn að Fagridalur liggi fyrir norðan og vestan þann fjallahrygg, sem hæst liggur millum Grindavíkur og Vatnsleysustrandar.”

Gjásel

Gjásel.

Sennilega hafa öll þessi sel, sem hér hafa verið talin, verið frá Vogum, færzt til eftir því sem á stóð um vatn og beit. Jarðabókin segir, að Minni-Vogar hafi þá í seli með Stóru-Vogum í Vogaholti. Gera má og ráð fyrir, að hjáleigubændurnir hafi fengið að hafa skepnur sínar þar. Og eftir því sem Jarðabókin telur, hafa þá verið í selinu 21 kýr og 35 ær.

Gjásel

Gjásel.

8. Gjásel er um 3/4 klukkustundar gang frá Brunnastöðum. Þar em glöggar seltóftir, en lítið seltún. Hjá selinu er djúp gjá, nafnlaus. Í gjánni er óþrjótandi vatn, en erfitt að ná því. Benjamín gerir ráð fyrir því, að þar hafi nágrannaselin fengið vatn handa skepnum sínum og til annarra þarfa.

Brunnastaðasel

Brunnastaðasel.

9. Brunnastaðasel er austur af Gamla-Vogaseli. Mitt á milli þessara selja er Markhóll, sem skiptir löndum milli Voga og Brunnastaða. Þarna em margar og allglöggar seltóftir og allstórt seltún, en ekkert vatn. Þangað mun vera um klukkustundar gangur frá Brunnastöðum. Á Brunnastöðum var stórt bú 1703 og hafa þá verið þar í seli 16 kýr og 34 ær. Þarna eru þó taldir litlir hagar og vatnsskortur tilfinnanlegur þegar þurrkar ganga.
10. Hlöðunessel er austur af Brunnastaðaseli. Þar eru litlar og ógreinilegar seltóftir og lítið seltún. Í Jarðabókinni segir að hagar sé þar bjarglegir, en vatnsból lélegt „og hefir orðið að flytja úr selinu fyrir vatnsskort”.

Knarrarnessel

Knarrarnessel – stekkur.

11. Knarrarnessel er norðaustur af Hlöðunesseli, um stundar gang frá Knarrarnesi. Þar eru margar og allglöggar seltóftir. Þar hefir verið sundurdráttarrétt, hlaðin úr grjóti, og sést vel fyrir henni.

Knarrarnessel

Knarrarnessel.

Þarna er stórt seltún og allmikið vatn í nokkuð stóru leirflagi. í miklum þurrkum hefir vatn þetta þomað, og svo var fyrir 1920, en þá var grafin niður í leirflagið nokkuð djúp hola. Komu menn þar niður á mó, er reyndist góður eldiviður, en mósvæðið takmarkast á alla vegu af hraunklöppum og var mórinn því fljótt upp urinn. Ekki er vitað, að mór hafi fundizt annars staðar í allri Strandarheiði.
Það er sízt að undra, þótt selsrústir sé hér meiri en annars staðar, því að 1703 höfðu hér 5 bæir í seli: Stóru-Ásláksstaðir, Litlu-Ásláksstaðir, Litla-Knarrarnes, Stóra-Knarranes og Breiðagerði. Á þessum bæjum öllum voru þá 22 kýr og 45 ær. Réttin mun hafa verið gerð til þess að aðskilja fé bæjanna.

Auðnasel

Auðnasel.

12. Auðnasel er austur af Knarranesseli. Þar em margar greinilegar seltóftir og allstórt seltún. Vatn er þar dálítið í brunnholu, sem ekki lekur. Brunnholan er svo sem metri að þvermáli og er sunnan við háan og brattan klapparhól.

Breiðagerðissel

Í Auðnaseli.

Af hólnum og klöppunum þar um kring rennur rigningavatn í holuna, svo að í vætutíð hefir verið þar nægjanlegt vatn, en í miklum þurrkum þraut vatnið. Vatnsból þetta er ekki í selinu sjálfu, það er norðvestur af því og nokkurn spöl neðar. Munu nú fáir vita, hvar vatnsból þetta er, og varla munu menn rekast á það nema af tilviljun. Sagt er, að Auðnabóndi hafi haft ítak í Knarranesseli, líklega vegna vatnsins þar. Í Auðnaseli munu hafa verið 11 kýr og 32 ær árið 1703.

Kolgrafarholt

Kolgrafarholt.

13. Kolgrafaholt heitir um hálfrar stundar gang frá Þórustöðum. Sýnir nafnið, að þar hefir fyrrum verið gert til kola, enda má enn sjá kolgrafir, sem sagðar eru frá Þórustöðum. En allur skógur er horfinn þar 1703, því að þá sækir jörðin kolskóg í Almenninga. Hjá Kolgrafaholti sjást engar seltóftir, en þarna var gerð allstór fjárrétt og gætu seltóftirnar þá hafa horfið. Í Jarðabókinni segir: „Selstöðu á jörðin (Þórustaðir) þar sem kallaðar eru Fornuselshæðir, þar eru hagar næsta að þrotum komnir, en vatnsból svo lakt, að fyrir þann skort er selstaðan aflögð orðin, og hefir því búandinn selstöðu að annarra láni með miklum óhægindum og langt í burtu.“

Flekkavíkursel

Flekkavíkursel.

14. Flekkuvíkursel er um 1/2 stundar gang frá Flekkuvík. Þar eru glöggar seltóftir, en ekki margar. Eru þær við berghamar hjá Hrafnagjá, sem sagt er að nái frá Reykjanesi og í sjó fram í túninu á Stóru-Vatnsleysu. Í Flekkuvíkurseli er lítið seltún, en nokkrar grasi grónar flatir austur og vestur frá selinu, með gjárbarminum. Heim að selinu er þröngt einstigi yfir gjárhamarinn. Í Jarðabókinni segir: „Selstöðu á jörðin og brúkar þar sem heitir Flekkuvíkursel, eru þar hagar viðsæmandi, en stórt mein að vatnsleysi og báglegt eldiviðartak.“

Rauðhólssel

Rauðhólssel.

15. Rauðhólssel átti Stóra-Vatnsleysa. Það er við hraunjaðarinn, sem liggur frá Kúagerði, en vestur af Snókafelli, sem er úti í hrauninu. Í Rauðhólsseli eru glöggar seltóftir og allstórt seltún, undir allháum melhóli, sem nefnist Rauðhóll. Vatn er þar ekkert, en nóg vatn í Kúagerði, og þar mun líka einhvern tíma hafa verið sel.

Oddafellssel

Oddafellssel.

16. Oddafell heitir milli Keilis og Trölladyngju. Þar átti Minni-Vatnsleysa selstöðu. Þótti þangað bæði langt og erfitt að sækja, en þar voru bjarglegir hagar og vatn nægilegt.

Sogasel

Sogasel

17. Sogasel. Það er uppi í Vesturhálsi og í landi Stóru-Vatnsleysu, en þar höfðu Kálfatjörn og Bakki selstöðu.

Sogasel

Sel í Sogaselsgíg.

Er þangað um 2 1/2 klukkustundar gangur frá Kálfatjörn. Umhverfis seltóftirnar, sem eru greinilegar, og kargaþýft seltúnið er allhá hringmynduð hamragirðing, en lítið op á henni til suðurs. Þar var inngangur að selinu. Þarna er skjól í flestum áttum. Fyrir sunnan selið eru Sog og eftir þeim rennur lítill lækur, sem þó getur þornað í langvarandi þurrki. Ekki er mjög langt frá selinu að Grænavatni, en þar bregzt aldrei vatn. Í þessu seli hafa sennilega verið 15 kýr og 36 ær árið 1703. [Sogasel var selstaða frá Krýsuvík, enda í þess landi, en var látið Kálfatjörn í tímabundið skiptum fyrir uppsátur.]

Hvassahraunssel

Hvassahraunssel.

18. Hvassahraunssel var vestast í Almenningum. Þar voru góðir hagar, „en vatnsból brestur til stórmeina”.”

Sel

Sel vestan Esju – ÓSÁ.

Í framangreinda umfjöllun vantar reyndar nokkrar fyrrum selstöður í heiðinni, s.s. Snorrastaðasel, Kolholtssel, Hólssel, Fornuselin, Hlöðunessel, Selsvallaselin, Hraunssel o.fl.

Heimild:
Strönd og Vogar, Selstöður í heiðinni, Úr sögu einnar sveitar í landnámi Ingólfs, Árni Óla, Reykjavík 1961, bls. 242-246.

Ströbnd og Vogar

Strönd og Vogar – Árna Óla.

Auðnasel

Ætlunin var að ganga upp í Breiðagerðissel (Auðnasel) og huga að götum upp frá því og síðan áleiðis niður á Vatnsleysuströnd.
BreiðagerðisstígurTil hliðsjónar var hafður þjóðleiðauppdráttur Björns Gunnlaugssonar frá árinu 1831, en hann var lengi notaður sem helsta leiðsögn ferðalanga um Landnám Ingólfs. Leiða má af því líkum að þær götur, sem þar eru sýndar, hafi verið fjölfarnari en aðrar minna þekktar. Uppdrátturinn sýnir t.a.m. götu upp frá Breiðagerði á Vatnsleysuströnd, að vestanverðum Keili og áfram upp á Vigdísarvelli. Einn megintilgangur ferðarinnar nú var að reyna að rekja þessa götu upp frá Breiðagerðisseli og áfram áleiðis að Keili, en hún hafði áður verið þrædd frá Moshól við Selsvelli og áleiðis niður heiðina frá Keili.
Í selinu, sem er í gróningum undir aflangri hraunhæð, munu hafa verið selstöður frá a.m.k. þremur bæjum; Auðnum, Breiðagerði og Höfða. Fjöldi stekkja gefa jafnan til kynna fjölda stöðva í hverju seli, en þarna eru a.m.k. þrír slíkir.

Breiðagerðissel

Breiðagerðissel – stekkur.

Í Jarðabókinni 1703 (bls. 136) segir m.a. að “Breida Gierde brúkaði selstöðu þar sem kallað er Knarrarnessel, eru þar hagar mjög litlir og vatnsbrestur til stórmeina”. Einnig að Auðnar brúkaði “selstöðu þar sem kallað er Auðnasel, þar eru hagar nýtandi, en vatnsskortur til stórmeina margoft”. Um Knarrarnessel segir: “Selstaða þar sem heitir Knarrarnes sel; eru hagar litlir mjög, en vatnsskortur til stórmeina, so að selstöðuna hafa menn næsta því forlátið, og kaupir bóndinn nokkrum sinnum selstöðu í fjarlægð”. Höfða er ekki getið í Jarðabókinni 1703. Hér kemur fram að Breiðagerði haft selstöðu í Knarrarnesseli, sem er næsta sel vestan við Auðnasel.
Í bók Sesselju Guðmundsdóttur, Örnefni og gönguleiðir í Vatnsleysustrandarhreppi 2007 segir á bls. 92 um Auðnasel:Vatnsstæði við Breiðagerðisstíg “Margar tóftir eru sjáanlegar, mismikið grónar, en þarna var haft í seli frá bæjum í Auðnahverfinu, s.s. Auðnum, Höfða og Breiðagerði”. Hér er Breiðagerðisselið komið í Auðnasel, en skv. Jarðabókinni átti það að hafa verið í Knarrarnesseli.
Tilvist götunnar á uppdrætti Björns gat sagt nokkuð til um hvar selstaðan frá Breiðagerði var í raun.
Sesselja getur m.a. um kort Björns Gunnlaugssonar; “Á uppdrættinum frá árinu 1831 eftir Björn Gunnlaugsson er merkt gata frá Breiðagerði og upp heiðina. Sú gata er sett inn á kortið sunnan Keilis að Driffelli og áfram sömu leið og Þórustaðastígur. Í fyrstu taldi ég að Björn hefði merkt Þórustaðastíginn rangt inn á kortið (þ.e. sett hann sunnan við Keili) en nú hefur komið í ljós nokkuð glögg vörðubrot, en óljós gata, þarna niður heiðina sunnan og vestan Keilis í átt að Knarrarnesseli. Leiðin er sérkennilega vörðuð með “lykilvörðum” á áberandi stöðum með löngu millibili en milli þeirra litlar “þrísteinavörður”.

Breiðagerðisstígur

Breiðagerðisstígur.

Sumstaðar þar sem “lykilvörðurnar” eru sjást eins konar hlið á götunni, þ.e. lítil varða andspænis þeirri stóru og nokkrir metrar á millum. Gatan endar að því er virðist við Knarrarnessel þannig að þeir sem notuðu götuna hafa svo haldið áfram sesltíginn en sá er óvarðaður að mestu. Á síðsutu öld fóru bændur úr Brunnastaða-, Ásláksstaða- og Knarrarneshverfi með hrossastóð til beitar í Fjallið þessa leið en þeir sem innar bjuggu á Ströndinni notuðu Þórustaðastíg. Þessi gata sem og Þórustaðastígur hafa ólíklega verið þjóðleiðir fyrrum heldur eingöngu noraðar af hreppsfólki.”
Fyrrnefndar vörðumyndir má m.a. sjá á tveimur stöðum. Svo virðist sem um misgamlar vörður hafi verið að ræða á hverjum stað. Ein er jafnan nýjust og heillegust. Hvað um það…
Varða við BreiðagerðisstígReynt var í fyrstu að rekja götu upp frá Auðnaseli (Breiðagerðisseli). Hún liggur upp með syðsta stekknum í selinu, uppi á grónum ílöngum klapparhólnum. Ofar er varða. Síðan tekur hver varðan við af annarri með reglulegu millibili. Sumar eru reyndar fallnar. Af þeirri ástæðu sem og þeirri að á köflum í heiðinni hefur orðið veruleg jarðvegseyðing á síðustu ármisserum var auðvelt að villast út af götunni. Þegar komið var upp undir háheiðarbrúnina, að þeim stað sem fyrri ferðin hafði endað, var gatan augljós. Ekki fór á milli mála að þar var um hestagötu að ræða. Miðja vegu þaðan og að Keili eru gatnamót – líklega mót götu er liggur í boga niður að Knarrarnesseli og áður var minnst á.
Nú var gatan auðveldlega rakin niður aflíðandi heiðina. Hún var víðast hvar mjög greinileg, en á stuttum köflum hafði mosi vaxið í hana eftir að hafa náð að hefta uppblástur. Gatan lá nokkuð bein og þræddi með aflíðandi hólum og hæðum. Miðja vegu að selinu var tilbúið vatnsstæði. Hlaðið var í kanta til að afmarka vatnsstöðuna.

Breiðagerðissel

Í Breiðagerðisseli.

Auðvelt var að fylgja götunni að Auðnaseli, en lega hennar virtist styrkja þá trú að þar hefði Breiðagerðissel verið til húsa fyrrum. Hún var og í nákvæmu samræmi við uppdrátt Björns frá árinu 1831. Hafa ber í huga að selstöðurnar í heiðinni voru flestar aflagðar um árið 1870, en fyrir þann tíma hefur selstöðugróskan verið mikil á þessum slóðum. Ekki er þó loku fyrir það skotið að selstöður einstakra bæja hafi færst til frá einum tíma til annars, eftir því sem ábúendur bæjanna voru og tengsl þeirra innbyrðis. Þannig má telja líklegt að einfaldur kvonhagur hafi getað fært aumlega tímabundna selstöðu úr stað millum selja, en dæmi eru um slíkt á landssvæðinu frá fyrri tíð. Stólpabóndi keypti eða eignaðist með öðrum hætti og annan bæ í sveitinni og sameinaði þá selstöður sínar á einum stað – líklega tímabundið. Þá gat kastast í kekki millum nágranna er gerði það úr verkum að einhverjar selstöður urðu óvirkar um tíma. Svona mætti lengi telja, sem ástæðulaust er að rekja frekar hér.
Fyrrum gatnakerfi í landnámi Ingólfs er smám saman að taka á sig heillegri mynd.
Frábært veður. Sólstafir léku við sjónarrönd. Gangan tók 3 klst og 3 mín.
Varða við Auðnasel

Auðnasel

Gengið var upp frá Breiðagerði á Vatnsleysuströnd, svona til að skoða nánar niðurlendið með hliðsjón af mögulegri götu frá bænum upp að Auðnaseli í Strandarheiði. Farið var að halla af degi.

Í Fornaselskvöldvetrarsólinni

Til að gera tveggja klukkustunda sögu stutta er skilmerkilegast að geta þess að þegar, ofan bæjar, var komið inn á götuna. Hún er greinileg í móanum þar sem hún liðast upp upplandið. Gatan var rakin í rólegheitum upp með Auðnaborg og síðan áfram með aflíðandi ílöngum hraunhólum efra. Vörður voru við götuna á a.m.k. þremur stöðum á leiðinni, svipaðar þeim og sjá má á götunni ofan Auðnasels áleiðis upp að Keili. Þegar komið var upp fyrir Reykjanesbrautina tók gatan stefnu á Fornasel, beygði af vestan þess og stefndi á vörðu nokkru ofar. Frá henni sást heim að Auðnaseli (Breiðagerðisseli). Hér var látið staðar numið að þessu sinni og vent af.

Auðnasel

Auðnasel.

Upp að Auðnaseli, frá þeim stað er frá var horfið, er um 15 mínútna ganga. Í eldri FERLIRslýsingu af heimsókn í Fornael og síðan Auðnasel segir m.a.: “Aðaltóttin er vestan í hólnum. Sunnan við hana er stekkur. Aftan við hólinn er lítil tótt og hjá henni vatnsstæði, sem hlaðið hefur verið í kringum. Skammt sunnan þess er önnur tótt, sennilega frá eldra seli. Þótt Fornasel geti varla talist til stærri selja hefur það allt er prýtt getur fallegt sel.
BreiðagerðisselsstígurAuðnasel sést vel frá línuveginum í suðsuðaustri. Þangað er um 15 mín. rölt. Selstígurinn sést einungis glögglega á stuttum kafla, en þarna hefur orðið talsverð jarðvegseyðing á síðustu áratugum. Vestan við selið er varða. Sunnan undir henni er bæði lítil tótt og önnur stærri. Utan í hæðinni austan við þær er stærsta tóttin. Norðan við hana, í lægð, er greinilegur brunnur. Hlaðinn stekkur er skammt norðar og annar uppi á hæðinni austan við selið. Norðan hennar er kví undir bakka. Í kvínni er fallegur mjaltastúlkusteinn. Í austri ber háa vörðu við himinn, líklega landamerkjavarða því hún virðist ekki í samhengi við aðrar vörðuraðir á svæðinu, hvorki upp frá selinu né af þeirri götu áleiðis niður í Flekkuvíkurselið (Þórustaðastíginn). Í norðaustri sjást hluti tótta Fornuselja í Sýrholti utan í því. Skammt norðan þeirra er önnur tótt í sléttum grasbala ofan slakka og skammt þar norðan við er hlaðinn stekkur í sprungu.”
Frábært veður. Gangan tók 2 klst og 2 mín.

Auðnasel

Auðnasel – uppdráttur ÓSÁ.