Ætlunin var að ganga upp í Breiðagerðissel (Auðnasel) og huga að götum upp frá því og síðan áleiðis niður á Vatnsleysuströnd.
Til hliðsjónar var hafður þjóðleiðauppdráttur Björns Gunnlaugssonar frá árinu 1831, en hann var lengi notaður sem helsta leiðsögn ferðalanga um Landnám Ingólfs. Leiða má af því líkum að þær götur, sem þar eru sýndar, hafi verið fjölfarnari en aðrar minna þekktar. Uppdrátturinn sýnir t.a.m. götu upp frá Breiðagerði á Vatnsleysuströnd, að vestanverðum Keili og áfram upp á Vigdísarvelli. Einn megintilgangur ferðarinnar nú var að reyna að rekja þessa götu upp frá Breiðagerðisseli og áfram áleiðis að Keili, en hún hafði áður verið þrædd frá Moshól við Selsvelli og áleiðis niður heiðina frá Keili.
Í selinu, sem er í gróningum undir aflangri hraunhæð, munu hafa verið selstöður frá a.m.k. þremur bæjum; Auðnum, Breiðagerði og Höfða. Fjöldi stekkja gefa jafnan til kynna fjölda stöðva í hverju seli, en þarna eru a.m.k. þrír slíkir.
Í Jarðabókinni 1703 (bls. 136) segir m.a. að „Breida Gierde brúkaði selstöðu þar sem kallað er Knarrarnessel, eru þar hagar mjög litlir og vatnsbrestur til stórmeina“. Einnig að Auðnar brúkaði „selstöðu þar sem kallað er Auðnasel, þar eru hagar nýtandi, en vatnsskortur til stórmeina margoft“. Um Knarrarnessel segir: „Selstaða þar sem heitir Knarrarnes sel; eru hagar litlir mjög, en vatnsskortur til stórmeina, so að selstöðuna hafa menn næsta því forlátið, og kaupir bóndinn nokkrum sinnum selstöðu í fjarlægð“. Höfða er ekki getið í Jarðabókinni 1703. Hér kemur fram að Breiðagerði haft selstöðu í Knarrarnesseli, sem er næsta sel vestan við Auðnasel.
Í bók Sesselju Guðmundsdóttur, Örnefni og gönguleiðir í Vatnsleysustrandarhreppi 2007 segir á bls. 92 um Auðnasel: „Margar tóftir eru sjáanlegar, mismikið grónar, en þarna var haft í seli frá bæjum í Auðnahverfinu, s.s. Auðnum, Höfða og Breiðagerði“. Hér er Breiðagerðisselið komið í Auðnasel, en skv. Jarðabókinni átti það að hafa verið í Knarrarnesseli.
Tilvist götunnar á uppdrætti Björns gat sagt nokkuð til um hvar selstaðan frá Breiðagerði var í raun.
Sesselja getur m.a. um kort Björns Gunnlaugssonar; „Á uppdrættinum frá árinu 1831 eftir Björn Gunnlaugsson er merkt gata frá Breiðagerði og upp heiðina. Sú gata er sett inn á kortið sunnan Keilis að Driffelli og áfram sömu leið og Þórustaðastígur. Í fyrstu taldi ég að Björn hefði merkt Þórustaðastíginn rangt inn á kortið (þ.e. sett hann sunnan við Keili) en nú hefur komið í ljós nokkuð glögg vörðubrot, en óljós gata, þarna niður heiðina sunnan og vestan Keilis í átt að Knarrarnesseli. Leiðin er sérkennilega vörðuð með „lykilvörðum“ á áberandi stöðum með löngu millibili en milli þeirra litlar „þrísteinavörður“.
Sumstaðar þar sem „lykilvörðurnar“ eru sjást eins konar hlið á götunni, þ.e. lítil varða andspænis þeirri stóru og nokkrir metrar á millum. Gatan endar að því er virðist við Knarrarnessel þannig að þeir sem notuðu götuna hafa svo haldið áfram sesltíginn en sá er óvarðaður að mestu. Á síðsutu öld fóru bændur úr Brunnastaða-, Ásláksstaða- og Knarrarneshverfi með hrossastóð til beitar í Fjallið þessa leið en þeir sem innar bjuggu á Ströndinni notuðu Þórustaðastíg. Þessi gata sem og Þórustaðastígur hafa ólíklega verið þjóðleiðir fyrrum heldur eingöngu noraðar af hreppsfólki.“
Fyrrnefndar vörðumyndir má m.a. sjá á tveimur stöðum. Svo virðist sem um misgamlar vörður hafi verið að ræða á hverjum stað. Ein er jafnan nýjust og heillegust. Hvað um það…
Reynt var í fyrstu að rekja götu upp frá Auðnaseli (Breiðagerðisseli). Hún liggur upp með syðsta stekknum í selinu, uppi á grónum ílöngum klapparhólnum. Ofar er varða. Síðan tekur hver varðan við af annarri með reglulegu millibili. Sumar eru reyndar fallnar. Af þeirri ástæðu sem og þeirri að á köflum í heiðinni hefur orðið veruleg jarðvegseyðing á síðustu ármisserum var auðvelt að villast út af götunni. Þegar komið var upp undir háheiðarbrúnina, að þeim stað sem fyrri ferðin hafði endað, var gatan augljós. Ekki fór á milli mála að þar var um hestagötu að ræða. Miðja vegu þaðan og að Keili eru gatnamót – líklega mót götu er liggur í boga niður að Knarrarnesseli og áður var minnst á.
Nú var gatan auðveldlega rakin niður aflíðandi heiðina. Hún var víðast hvar mjög greinileg, en á stuttum köflum hafði mosi vaxið í hana eftir að hafa náð að hefta uppblástur. Gatan lá nokkuð bein og þræddi með aflíðandi hólum og hæðum. Miðja vegu að selinu var tilbúið vatnsstæði. Hlaðið var í kanta til að afmarka vatnsstöðuna.
Auðvelt var að fylgja götunni að Auðnaseli, en lega hennar virtist styrkja þá trú að þar hefði Breiðagerðissel verið til húsa fyrrum. Hún var og í nákvæmu samræmi við uppdrátt Björns frá árinu 1831. Hafa ber í huga að selstöðurnar í heiðinni voru flestar aflagðar um árið 1870, en fyrir þann tíma hefur selstöðugróskan verið mikil á þessum slóðum. Ekki er þó loku fyrir það skotið að selstöður einstakra bæja hafi færst til frá einum tíma til annars, eftir því sem ábúendur bæjanna voru og tengsl þeirra innbyrðis. Þannig má telja líklegt að einfaldur kvonhagur hafi getað fært aumlega tímabundna selstöðu úr stað millum selja, en dæmi eru um slíkt á landssvæðinu frá fyrri tíð. Stólpabóndi keypti eða eignaðist með öðrum hætti og annan bæ í sveitinni og sameinaði þá selstöður sínar á einum stað – líklega tímabundið. Þá gat kastast í kekki millum nágranna er gerði það úr verkum að einhverjar selstöður urðu óvirkar um tíma. Svona mætti lengi telja, sem ástæðulaust er að rekja frekar hér.
Fyrrum gatnakerfi í landnámi Ingólfs er smám saman að taka á sig heillegri mynd.
Frábært veður. Sólstafir léku við sjónarrönd. Gangan tók 3 klst og 3 mín.