Tag Archive for: Breiðagerðisstígur

Auðnasel

Ætlunin var að ganga upp í Breiðagerðissel (Auðnasel) og huga að götum upp frá því og síðan áleiðis niður á Vatnsleysuströnd.
BreiðagerðisstígurTil hliðsjónar var hafður þjóðleiðauppdráttur Björns Gunnlaugssonar frá árinu 1831, en hann var lengi notaður sem helsta leiðsögn ferðalanga um Landnám Ingólfs. Leiða má af því líkum að þær götur, sem þar eru sýndar, hafi verið fjölfarnari en aðrar minna þekktar. Uppdrátturinn sýnir t.a.m. götu upp frá Breiðagerði á Vatnsleysuströnd, að vestanverðum Keili og áfram upp á Vigdísarvelli. Einn megintilgangur ferðarinnar nú var að reyna að rekja þessa götu upp frá Breiðagerðisseli og áfram áleiðis að Keili, en hún hafði áður verið þrædd frá Moshól við Selsvelli og áleiðis niður heiðina frá Keili.
Í selinu, sem er í gróningum undir aflangri hraunhæð, munu hafa verið selstöður frá a.m.k. þremur bæjum; Auðnum, Breiðagerði og Höfða. Fjöldi stekkja gefa jafnan til kynna fjölda stöðva í hverju seli, en þarna eru a.m.k. þrír slíkir.

Breiðagerðissel

Breiðagerðissel – stekkur.

Í Jarðabókinni 1703 (bls. 136) segir m.a. að „Breida Gierde brúkaði selstöðu þar sem kallað er Knarrarnessel, eru þar hagar mjög litlir og vatnsbrestur til stórmeina“. Einnig að Auðnar brúkaði „selstöðu þar sem kallað er Auðnasel, þar eru hagar nýtandi, en vatnsskortur til stórmeina margoft“. Um Knarrarnessel segir: „Selstaða þar sem heitir Knarrarnes sel; eru hagar litlir mjög, en vatnsskortur til stórmeina, so að selstöðuna hafa menn næsta því forlátið, og kaupir bóndinn nokkrum sinnum selstöðu í fjarlægð“. Höfða er ekki getið í Jarðabókinni 1703. Hér kemur fram að Breiðagerði haft selstöðu í Knarrarnesseli, sem er næsta sel vestan við Auðnasel.
Í bók Sesselju Guðmundsdóttur, Örnefni og gönguleiðir í Vatnsleysustrandarhreppi 2007 segir á bls. 92 um Auðnasel:Vatnsstæði við Breiðagerðisstíg „Margar tóftir eru sjáanlegar, mismikið grónar, en þarna var haft í seli frá bæjum í Auðnahverfinu, s.s. Auðnum, Höfða og Breiðagerði“. Hér er Breiðagerðisselið komið í Auðnasel, en skv. Jarðabókinni átti það að hafa verið í Knarrarnesseli.
Tilvist götunnar á uppdrætti Björns gat sagt nokkuð til um hvar selstaðan frá Breiðagerði var í raun.
Sesselja getur m.a. um kort Björns Gunnlaugssonar; „Á uppdrættinum frá árinu 1831 eftir Björn Gunnlaugsson er merkt gata frá Breiðagerði og upp heiðina. Sú gata er sett inn á kortið sunnan Keilis að Driffelli og áfram sömu leið og Þórustaðastígur. Í fyrstu taldi ég að Björn hefði merkt Þórustaðastíginn rangt inn á kortið (þ.e. sett hann sunnan við Keili) en nú hefur komið í ljós nokkuð glögg vörðubrot, en óljós gata, þarna niður heiðina sunnan og vestan Keilis í átt að Knarrarnesseli. Leiðin er sérkennilega vörðuð með „lykilvörðum“ á áberandi stöðum með löngu millibili en milli þeirra litlar „þrísteinavörður“.

Breiðagerðisstígur

Breiðagerðisstígur.

Sumstaðar þar sem „lykilvörðurnar“ eru sjást eins konar hlið á götunni, þ.e. lítil varða andspænis þeirri stóru og nokkrir metrar á millum. Gatan endar að því er virðist við Knarrarnessel þannig að þeir sem notuðu götuna hafa svo haldið áfram sesltíginn en sá er óvarðaður að mestu. Á síðsutu öld fóru bændur úr Brunnastaða-, Ásláksstaða- og Knarrarneshverfi með hrossastóð til beitar í Fjallið þessa leið en þeir sem innar bjuggu á Ströndinni notuðu Þórustaðastíg. Þessi gata sem og Þórustaðastígur hafa ólíklega verið þjóðleiðir fyrrum heldur eingöngu noraðar af hreppsfólki.“
Fyrrnefndar vörðumyndir má m.a. sjá á tveimur stöðum. Svo virðist sem um misgamlar vörður hafi verið að ræða á hverjum stað. Ein er jafnan nýjust og heillegust. Hvað um það…
Varða við BreiðagerðisstígReynt var í fyrstu að rekja götu upp frá Auðnaseli (Breiðagerðisseli). Hún liggur upp með syðsta stekknum í selinu, uppi á grónum ílöngum klapparhólnum. Ofar er varða. Síðan tekur hver varðan við af annarri með reglulegu millibili. Sumar eru reyndar fallnar. Af þeirri ástæðu sem og þeirri að á köflum í heiðinni hefur orðið veruleg jarðvegseyðing á síðustu ármisserum var auðvelt að villast út af götunni. Þegar komið var upp undir háheiðarbrúnina, að þeim stað sem fyrri ferðin hafði endað, var gatan augljós. Ekki fór á milli mála að þar var um hestagötu að ræða. Miðja vegu þaðan og að Keili eru gatnamót – líklega mót götu er liggur í boga niður að Knarrarnesseli og áður var minnst á.
Nú var gatan auðveldlega rakin niður aflíðandi heiðina. Hún var víðast hvar mjög greinileg, en á stuttum köflum hafði mosi vaxið í hana eftir að hafa náð að hefta uppblástur. Gatan lá nokkuð bein og þræddi með aflíðandi hólum og hæðum. Miðja vegu að selinu var tilbúið vatnsstæði. Hlaðið var í kanta til að afmarka vatnsstöðuna.

Breiðagerðissel

Í Breiðagerðisseli.

Auðvelt var að fylgja götunni að Auðnaseli, en lega hennar virtist styrkja þá trú að þar hefði Breiðagerðissel verið til húsa fyrrum. Hún var og í nákvæmu samræmi við uppdrátt Björns frá árinu 1831. Hafa ber í huga að selstöðurnar í heiðinni voru flestar aflagðar um árið 1870, en fyrir þann tíma hefur selstöðugróskan verið mikil á þessum slóðum. Ekki er þó loku fyrir það skotið að selstöður einstakra bæja hafi færst til frá einum tíma til annars, eftir því sem ábúendur bæjanna voru og tengsl þeirra innbyrðis. Þannig má telja líklegt að einfaldur kvonhagur hafi getað fært aumlega tímabundna selstöðu úr stað millum selja, en dæmi eru um slíkt á landssvæðinu frá fyrri tíð. Stólpabóndi keypti eða eignaðist með öðrum hætti og annan bæ í sveitinni og sameinaði þá selstöður sínar á einum stað – líklega tímabundið. Þá gat kastast í kekki millum nágranna er gerði það úr verkum að einhverjar selstöður urðu óvirkar um tíma. Svona mætti lengi telja, sem ástæðulaust er að rekja frekar hér.
Fyrrum gatnakerfi í landnámi Ingólfs er smám saman að taka á sig heillegri mynd.
Frábært veður. Sólstafir léku við sjónarrönd. Gangan tók 3 klst og 3 mín.
Varða við Auðnasel

Skýjaop

Ætlunin var að fylgja götu, sem sjá má á upppdrætti Björns Gunnlaugssonar frá árinu 1831, en á honum eru dregnar upp helstu þjóðleiðir í landnámi Ingólfs. Á uppdrættinum liggur Sandakravegurinn t.a.m. milli Innri-Njarðvíkur og Ísólfsskálavegar, en ekki úr Vogum, eins sýnt hefur verið á kortum í seinni tíð. Þá er Skógfellavegur ekki á uppdrættinum.
Kort af svæðinu - rautt er leiðin á uppdrættinumFyrrnefnd gata liggur frá Núpshlíðarhálsi (Vestari Móhálsi), líklega frá Hraunsseli eða Selsvöllum og norður að austanverðu Driffelli. Þaðan liggur gatan skv. uppdrættinum norður fyrir Driffell, en beygir síðan til norðvesturs vestan Keilis þar sem hún liggur áfram niður Strandarheiði og heim að Breiðagerði á Vatnsleysuströnd.
Byrjað var á því að huga að öðrum mögulegum leiðum norðan Oddafells og beggja vegna Driffells. Nokkrir stígar liggja þar yfir úfið apalhraun, en hvergi greiðfærir. Þarna virðist hafa verið um fjárgötur að ræða, sem einstaka ferðalangur hefur eflaust villst inn á í gegnum tíðina. Líklega hafa þessar götur orðið til þegar tiltölulega greiðfært vera yfir hraunið á þykkum hraungambranum, en þegar hann var farinn að láta verulega á sjá og jafnvel eyðast hefur umferð um hverja og eina þeirra lagst af – og aðrar orðið til.
Einu reiðgöturnar frá Núpshlíðarhálsi liggja yfir helluhraun gegnt Hraunsseli, Selsvallaseljunum og síðan frá Moshól norðvestast á Selsvöllum og að Driffelli, með því til norðurs að austanverðu, niður á helluhraunssléttu norðvestan þess og þar niður fyrir hraunröndina. Þessari leið verður lýst síðar.

Þórustaðastígur

Þórustaðastígur við Selsvelli. Moshóll t.v.

Gengið var eftir Þórustaðastíg frá Moshól í átt að Driffelli. Þarna er gatan á kafla djúpt mörkuð í slétta hraunhelluna. Hálfhendis að Driffelli eru gatnamót; annars vegar gatan sem liggur að Driffelli til norðvesturs og áfram til norðurs með því austanverðu, og hins vegar gata, sem liggur að sunnanverðu Driffellinu. Þeirri götu var fylgt yfir að hraunröndinni. Þá var komið inn á jaðurgróninga fellsins. Gatan liggur þar með öxlinni vestur fyrir fellið. Sérkennilegur móbergsveðrungur í karlslíki liggur þar réttsælis við götuna.
Þegar komið var vestur fyrir Driffell mátti sjá kindagötur yfir úfið apalhraunið. Einni þeirra var fylgt yfir hraunið. Inni í því miðju greinist gatan; annars vegar til suðvesturs og hins vegar til norðvesturs – að Keili.
Uppdrátturinn frá 1830Þegar þeirri síðarnefndu var fylgt út úr hrauninu mátti handan þess glögglega sjá að samansafn fjárgatna að handan sameinuðust þarna við hraunröndina.
Þá var stefnan tekin á sunnanverðan Keili. Keilisbræður þeir er sjá mátti á fyrrnefndum uppdrætti voru augljósir á sjá úr norðaustri; þrír klettastandar á hraunbrún. Svolítið norðvestar sjást til Litla-Keilis.
Þegar Keilir rann nær mátti glögglega sjá móbergskjarnan í fjallinu, umlukinn grágrýtisbrotabergsmynduninni. Gata lá þar til vesturs og austurs. Varða er við hana á suðvesturrót fjallsins. Reynt var að fylgja henni líklega leið áleiðis niður heiðina, en hún virtist ávallt taka enda. Þá var ákveðið að halda að vörðu nyrst á háheiðarbrúninni. Það reyndist rétt ákvörðun.
Gatnamótin austan sandhóls austan KeilisVið mosavaxna vörðuna lá gömul gata. Henni var fylgt um gróninga til norðvesturs, að annarri vörðu. Þar lá gatan á ská niður á við í gróninga og síðan yfir þá að enn einni vörðunni. Frá henni virtist gatan augljós áleiðis niður heiðina. Sólin lék við Kálfatjarnarkirkju neðanvert á Ströndinni og nálæga bæi. Augljóst var hvert gatan stefndi. Ákveðið var að fylgja götunni til baka upp að suðvesturhorni Keilis, en fara síðan aðra ferð þangað uppeftir og í gegnum Breiðagerðissel að.
Varða við götuna vestan KeilisÞegar gatan var rakin upp eftir reyndist hún augljós. Vörður staðfestu og legu hennar. Við eina þeirra var brúnleitt glerbrot, greinilega úr handunninni flösku með þykkum veggjum og djúpum botni. Þarna hafa einhverjir fyrirmennirnir losað sig við hluta af farangrinum á ferð þeirra til eða frá Keili. Reyndar er þessi aðkoma að Keili einna álitlegust. Þarna liggur hann fyrir fótum ferðalanga og er hvorutveggja hið ákjósanlegasta myndefni og áþreifanlegasta rannsóknarefni.
Gatan var rakin til austurs með sunnanverðum Keili. Frá honum að norðanverðu Driffelli reyndist vera um tvær leiðir að velja; annars vegar að fylgja stígnum áfram með fjallinu og síaðn áfram eftir stíg austan þess, eða fara út af stígnum suðaustan við fjallið. Sá stigur liggur sunnan ílangs sandhóls og síðan með honum til norðausturs austan hans. Þar er greinilega fjölfarin gatnamót. Þegar staðið var upp á sandhólnum fékkst hin ákjósanlegasta yfirsýn yfir láglendið.
Varða við götuna vestan KeilisGatnamótin fyrrnefndu virðast við fyrstu sýn hafa verið Þórustaðastígur annars vegar og „Breiðagerðisstígur“ hins vegar. Við nánari athugun reyndust vera gatnamót suðvestan gatnamótanna, líklega styttingur inn á Þórustaðastíginn norðvestan Driffells. Þegar „Þórustaðastígnum“ var fylgt áleiðis að hraunraöndinni var að sjá sem stígurinn hlyti að hafa legið lengra til norðurs uns hann sveigði til norðvesturs – enda reyndist sú raunin.
Þá var götunni loks fylgt sléttu helluhrauni að norðanverðu Driffelli og áfram til suðausturs austan þess – uns komið var á stíginn, sem lýst er hér að framan og lá frá Moshól.

Breiðagerðisstígur

Götur norðan Keilis.

Af framangreindu má sjá að eina gatan, sem liggur um bréfsefni uppdráttarins er sú er kemur frá Moshól, eftir svonefndum helluhraunslögðum Þórustaðastíg, með austanverðu Driffelli til norðurs, niður helluhraun norðan þess og yfir hraunröndina. Hraun þetta, þótt víðfeðmt er, virðist ekki hafa nefnu, ekki frekar en margt annað á þessum slóðum. Hún greinist frá aðalleiðinni norðaustan sandhólsins og liggur þá niður með honum og síðan til vesturs með sunnanverðum Keili. Sú gata hefur hér verið nefnd „Breiðagerðisstígur“. Nánari eftirfylgni á eftir að leiða í ljós nákvæmari legu hennar (sjá Breiðagerðisstígur neðanverður).

Breiðagerðisstígur

Vörðukort norðan Keilis (ÁH).

Á fyrrnefndu korti af Reykjanesskaganum eftir Björn Gunnlaugsson frá árinu 1831 eru sýndar gamlar þjóðleiðir á svæðinu. Auk þess eru sýnd ýmiss örnefni, sem virðast annað hvort hafa gleymst er verið færð úr stað. Gata er, sem fyrr sagði, sýnd frá Breiðagerði á Vatnsleysuströnd, upp í Breiðagerðissel, og áfram upp heiðina áleiðis að suðvesturhorni Keilis. Þar liggur gatan sunnan við Keili og í Driffell og áfram heim að Vigdísarvöllum.
Þegar FERLIR var í seljaferð í Voga- og Strandaheiði fyrir nokkrum árum var m.a. komið inn á götu með svipaða stefnu og Breiðagerðisstígnum er lýst á kortinu. Þar gæti þó verið um svonefna leið um „Brúnir“ að ræða. Ætlunin er að huga að henni síðar.

Keilir

Keilir.

Og þá svolítið um Keili vegna þess hve nándin var mikil að þessu sinni: „Keilir er einkennisfjall Reykjaness og stolt Vogamanna. Nafnið fær fjallið af fallegri lögun sinni sem sannarlega er keila. Keilir er móbergsfjall sem rís 379 metra yfir sjávarmáli. Keilir er til orðinn við gos undir jökli á ísöld. Hann er þekktur vegna sérkennilegrar strýtumyndaðrar lögunar sinnar sem er til komin vegna gígtappa eða bergstands á fjallinu miðju er ver það gegn veðrun.“
Hér hefur verið minnst á Oddafell. Á vef Örnefnastofnunar má sjá eftirfarandi um það viðfangsefni: „Nokkur dæmi eru þess að talan einn sé sett á eftir því sem hún á við.
Fjallið eina er nefnt á þremur stöðum á Suðvesturlandi og var valið örnefni mánaðarins á heimasíðu Örnefnastofnunar í júlí 2004. Eitt þeirra er lágt hrygglaga fjall með klettaborg á suðurenda, skammt vestan við Krýsuvíkurveg, norður af Sveifluhálsi. Eftir mynd að dæma er þetta réttnefni, fjallið stendur eitt og sér á flatneskju (Ólafur Þorvaldsson 1999:27).

Keilir sjálfur - svona í lokin

Annað er austan undir Bláfjöllum, við svonefnda Ólafsskarðsleið, og er eftir lýsingu og korti í Árbók FÍ 2003 (82, 84) stakt í umhverfinu, rétt eins og hitt. Þriðja fjallið, sem nefnt hefur verið svo, heitir öðru nafni Oddafell og er við vesturjaðar Höskuldarvalla, en þeir eru við vesturrætur Trölladyngju á Reykjanesskaga. Þorvaldur Thoroddsen kallaði Oddafell Fjallið eina, en líklegt að hér sé um nafnarugling að ræða, Þorvaldur hafi flutt nafnið á fjallinu sem nefnt var hér áður yfir á þetta, því að engar heimildir séu aðrar um þetta nafn. Í örnefnaskrá Stóru- og Minni-Vatnsleysu segir að upp með Oddafellinu að austan sé gamall leirhver sem heitir Hverinn eini og í annarri skrá er talað um hann sem mikinn gufuhver sem sé nú lítilvirkur orðinn. Má vera að samband sé milli nafnsins á hvernum og fjallinu.

Breiðagerðisstígur

Breiðagerðisstígur.

Til frekari fróðleiks má geta þess að Minni Vatnsleysa hafði „selstöðu þar sem heitir Oddafell og er þangað bæði langt og erfitt að sækja. Eru þar hjálplegir hagar og vatns nægjanlegt.“ Stóra Vatnsleysa hafði hins vegar „selstöðu þar sem heitir Rauðhólssel. Eru þar hagar sæmilegir, en stórt mein af vatnsleysi.“
Þegar gatan, sem sýnd er á uppdrætti Björns Gunnlaugssonar var rakin, virtist hún miklu mun greinilegri en Þórustaðastígurinn, er liggur norðan Keilis. Af því að dæma virðist gatan hafa verið mun fjölfarnari í seinni tíð, eða allt þar til að ferðalög á hestum lögðust af millum Vatnsleysustrandar og Hálsanna.
Frábært veður. Gangan tók 4 klst og 4 mín.

Oddafell