Tag Archive for: Breiðholt

Breiðholt

Lítið er nú eftir af bænum Breiðholti, sem samnefnt hverfi í Reykjavík dregur nú nafn sitt af. Gamla bæjarstæðið var friðlýst árið 1981. Í Friðlýsingaskránni frá 1990 segir eftirfarandi um Breiðholt. „Hið gamla bæjarstæði Breiðholts, ásamt kirkjutóft og kirkjugarði, um 15-30 m norður frá húsinu Grjótaseli 21. Skjal undirritað af ÞM 28.07. 1981. Þinglýst 28.08.1981.“
Tóftir BreiðholtsbæjarinsÞegar leifarnar af bæjarstæðinu eru skoðaðar núna sjást einungis leifarnar af kirkjunni og að öllum líkindum hefur kirkjugarðurinn verið umhverfis hana. Byggt hefur verið allt um kring, svo vandlega að aðrar minjar eru nú horfnar með öllu. Er Breiðholtið bar á góma var það jafnan sett í samhengi við heilstæðar tóftaleifar. Nú er orðið „menningarlandslag“ notað um efnið. 
Með hugtakinu menningarlandslag er átt við það landslag eða umhverfi sem maðurinn hefur mótað með búsetu sinni hverju sinni. Í Reykjavík hafa fundist minjar um búsetu allt frá því á 9. öld og ber því fornleifum saman við ritheimildir um að hingað hafi fluttst fólk á þeim tíma sem nefnt er landnámsöld.
Nesið sem borgin stendur á hefur mótast af búsetu í margar aldir og hver kynslóð hefur markað sín spor í landið. Það umhverfi sem við þekkjum í dag er því manngert að miklu leyti. Þar má sjá margvísleg merki um búsetu; leifar bygginga, staði þar sem fanga hefur verið aflað og leiðir milli staða, líkt og sjá mátti í Breiðholti,en annað er falið í jörðu.
BreiðholtMeðal annarra minjastaða í Reykjavík þar sem sjá má menningarlandslag má nefna Laugarnes, Kvosina í miðbæ Reykjavíkur, Skildinganes við Skerjafjörð, eyjarnar á Kollafriði, Elliðárdal, Þingnes við Elliðárvatn og aðrar jarðir í austurhluta borgarinnar, Keldur, Grafarholt og Reynisvatn.
Hvorki er að sjá upplýsingar um býlið Breiðholt á vettvangi né er það sérstaklega merkt sem friðlýsingarstaður. Í því sambandi má gjarnan geta þess að í 
Þjóðminjalögum er kveðið á um skyldu Fornleifaverndar ríkisins að sjá til þess að friðlýstar fornleifar skuli merktar. Þar segir m.a. í 11. gr. laganna: „Fornleifavernd ríkisins lætur, eftir föngum, skrá allar þekktar fornleifar og gefur út skrá um friðlýstar fornleifar og skal hún endurskoðuð á þriggja ára fresti. Fornleifavernd ríkisins lætur skrár þessar í té Þjóðminjasafni Íslands…

Breiðholt - tóft

Fornleifavernd ríkisins skal sjá til þess að friðlýstar fornleifar eða minjasvæði séu merkt með sérstökum merkjum. Tilkynna skal landeiganda og ábúanda með sannanlegum hætti um friðlýsinguna. Friðlýsingu fornleifa skal þinglýsa sem kvöð á landareign þá sem í hlut á. Þeim minjum, sem friðlýstar eru, skal fylgja 20 metra friðhelgað svæði út frá ystu sýnilegu mörkum fornleifa og umhverfis nema kveðið sé á um annað. Um stærra svæði skal leita samþykkis landeiganda. Friðlýstar fornleifar skulu færðar á skipulagskort. Fornleifar, sem friðlýstar hafa verið samkvæmt eldri lögum, skulu njóta friðlýsingar áfram.
Fornleifavernd ríkisins getur afturkallað friðlýsingu og skal afturköllunin auglýst með sama hætti og friðlýsingin.“
Viðurlagaákvæði er m.a. í 27. gr. laganna þar sem segir að brot á ákvæðum 11. gr. varði sektum.
Síðan framangreint var sett inn á vefsíðuna hefur verið sett upp upplýsingaskilti nálægt þar sem Breiðholtsbærinn stóð – sjá meira HÉR. Er það til mikillar fyrirmyndar.

Heimildir m.a.:
-Minjasafn Reykjavíkur.
-Þjóðminjalög nr. 107/2001 gr. 11.
-Skrá um friðlýstar fornleifar 1990.

Breidholt - baerinn IV

Breiðholt

Á skilti, sem komið hefur verið fyrir (árið 2010), þar sem Breiðholtsbærinn stóð, má lesa eftirfarandi: „Hér er bæjarhóll Breiðholtsbýlisins, sem Breiðholtshverfið er kennt við. Elstu öruggu heimildirnar um Breiðholt eru í skrá um jarðir sem komu undir Viðeyjarklaustur árið 1395 en líklegt má telja að byggð hér sé nokkru eldri. Hér mun hafa verið bænhús helgað heilögum Blasíusi en það var aflagt á 16. öld. Á fyrri hluta 20. aldar fundust hér forn mannabein í jörðu við bæinn. Hér ber þó að hafa huga hvort kom á undan; eggið eða hænan. Breiðholtsbærinn var kenndur við holtið ofanvert, en byggðin síðan við gamla bæinn!

Breidholt - skilti

Breiðholt varð eign konungs við siðaskipti eins og aðrar jarðir Viðeyjarklausturs. Skömmu síðar voru tekjur af jörðinni lagðar til framfærslu prestum sem þjónuðu kirkjum á Seltjarnarnesi. Prestar munu að jafnaði ekki hafa setið í Breiðholti, en þí bjó hér séra Árni Helgason dómkirkjuprestur og biskup 1815-1826.
Landamerki Breiðholtsjarðarinnar lágu að nágrannajörðunum: Vatenda, Hvammskoti (Fífuhvammi), Digranesi, Bústöðum, Ártúni og Árbæ.
Samkvæmt Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns var í upphafi 18. aldar tvíbýli hér í Breiðholti. Á hálfri jörðinni bjuggu þá hjónin Þórálfur Höskuldsson og Ásta Jónsdóttir og voru þar fimm í heimili. Bústofn þeirra var fjórar kýr, sjö ær, tvær gimbrar, einn sauður veturgamall, sjö lömb  og einn foli þrevetur.
Á hinum helmingi jarðarinnar bjó Loðvík Jónsson. Hjá honum voru þrír í heimili og bústofninn þrjár kýr, ein kvíga mylk, einn kálfur, þrjár ær, fjögur lömb og eitt hross. Til hlunninda töldust hrísrif, torfrista og stunga, mótaka og lyngrif nokkurt. Engjar spilltust af vatnságangi.
Breidholt - baerinn IISeint á 19. öld, í búskapartíð hjónanna Bjargar Magnúsdóttur og Jóns Jónssonar, voru í Breiðholti um 10 kýr, 200 ær og sex til átta hross. Þau hjónin áttu 13 börn. Mjólk, smjör og rjómi voru seld til Reykjavíkur. Þvottur var að hluta til þveginn í volgrum neðan við túnið. Mikill gestagangur var í Breiðholti á þessum tíma, t.d. komu hér við bændur autan úr sveitum með fé sitt á leið til slátrunar á haustin og börn úr Reykjavík komu í brejamó.
Bæjarstjórn Reykjavíkur keypti jarðirnar Breiðholt, Ártún og Árbæ árið 1906 til þess að tryggja sér aðgang að vatni Elliðaánna fyrir vatnsveitur bæjarins. En árið 1923 var Breiðholt orðið hluti af lögsagnarumdæmi Reykjavíkur.
Árið 1916 voru bæjarhús og tún Breiðholts mæld upp. Á hlaðinu stóðu þá sjö hús og önnur þrjú sunnar, túnin voru afmörkð með túngörðum og útihús voru í brekkunni austur af bænum. Vegurinn frá Fífuhvammi að Vatnsenda lá í gegnum hlaðið.
Breidholt - baerinn IIITorfbærinn sem hér stóð var rifinn 1940 og nokkru síðar byggt múrhúðað timburhús. Búskapur var í Breiðholti fram undir 1960.
Árið 1960 keypti Jón H. Björnsson landslagsarkitekt og eigandi Gróðrarstöðvarinnar Alaska erfðafesturétt Breiðholtsbýlisins og var með starfsemi hér til fjölda ára. Yngta hlaðan varð að verslunarhúsi gróðrarstöðvarinnar og ber nágrennið merki ræktunar hans.
Hið forna bæjarstæði Breiðholts ásamt kirkju og kirkjugarði var friðlýst árið 1981.
Á árunum 1960 til 1980 voru skipulögð og reist íbúðarhverfi í landi Breiðholts og bjuggu hér árið 2009 um 25.000 manns.

Heimild:
-minjasafnreykjavikur.is

Breiðholt

Breiðholt og nágrenni – herforingjakort frá 1906.

Breiðholt

Í skýrslu Borgarsögusafns Reykjavíkur um „Borgarhluta 6 – Breiðholt„, segir m.a. um sögu bæjarins Breiðholts, Breiðholtssel og nágrenni:

Breiðholtsbærinn

Breiðholt
Landamerki Breiðholtsjarðarinnar lágu í vestri, suðri og suðaustri að nágrannajörðunum Digranesi, Hvammkoti (Fífuhvammi) og Vatnsenda, sem tilheyrðu upphaflega Seltjarnarneshreppi en síðar Kópavogshreppi. Í norðri og norðvestri lágu landamerki Breiðholts að jörðunum Bústöðum, Ártúni og Árbæ. Til norðausturs afmarkaðist land Breiðholts af Elliðaánum.
Elstu heimildir um jörðina Breiðholt eru frá 14. öld. Elsta örugga heimildin er skrá frá 1395 yfir jarðir sem Viðeyjarklaustur eignaðist í tíð Páls ábóta. Þó er talið líklegt að jarðarinnar sé getið í eldri heimild, í skrá um leigumála á jörðum Viðeyjarklausturs frá 1313, þar sem talað er um jörðina „Holt“, en þar er sennilega átt við Breiðholt.

Breiðholt

Breiðholt og nágrenni – herforingjakort frá 1906.

Vísbendingar eru um að við bæinn hafi verið kirkjugarður og kirkja, en mannabein fundust nokkrum sinnum við jarðrask á bæjarhólnum og í nágrenni hans í lok 19. aldar og á fyrri hluta 20. aldar.
Kirkju í Breiðholti er ekki getið í kirknaskrá Páls biskups um 1200 en af frásögn um jarteikn í Þorláks sögu hins helga frá 1325 að dæma virðist hafa verið þar bænhús eða kirkja sem helguð var heilögum Blasíusi. Hann var verndari nautasmala og svínahirða, tóvinnufólks, vefara, skóara, steinhöggvara og skipasmiða og gott þótti að heita á hann gegn allskyns hálskvillum meðal annars. Frásögnin segir frá því að dag einn hafi Hallur smalamaður Snæbjörns bónda á „Bútsstöðum“ (Bústöðum) komið heim frá fé og fallið í öngvit. Þegar hann rankaði við sér hafði hann misst mál sitt og var mállaus í sjö daga.
Breiðholt
Snæbjörn bóndi hét þá á hinn heilaga Blasíus biskup að smalamaðurinn skyldi ganga í Breiðholt og gefa þangað lýsi ef hann mætti endurheimta heilsu sína, en þegar það dugði ekki til kallaði bóndi til Guð og Þorlák biskup. Litlu síðar sofnaði smalinn og komu þá biskuparnir báðir Blasíus og Þorlákur til hans í svefni. Eftir það vaknaði hann alheill lofandi Guð og hina blessuðu biskupa. Í öðrum heimildum kemur einnig fram að bænhús hafi verið í Breiðholti, en aflagt fyrir 1600. Rústir kirkjunnar og kirkjugarðsins eru nú horfnar, en líklegt er talið að kirkjan hafi staðið fast upp að bæ, jafnvel á eða við sjálfan bæjarhólinn og grafreiturinn umhverfis hana.
Breiðholt varð eign konungs við siðaskipti eins og aðrar jarðir Viðeyjarklausturs og kemur fyrir í Fógetareikningum frá 1547 til 1552. Árið 1580 var jörðin á meðal nokkurra konungsjarða í Skálholtsstifti sem ákveðið var að láta ganga til framfærslu eða stuðnings prestum í tekjurýrum brauðum, eins og kemur fram í opnu bréfi Jóhanns Bochholts lénsmanns til Gísla Jónssonar Skálholtsbiskups frá því ári. Jörðin var þannig afhent kirkjunni og heyrði eftir það undir Víkurkirkju og seinna Dómkirkjuna í Reykjavík.

Breiðholt

Breiðholt – örnefni.

Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns frá 1703 er jörðin sögð lénsjörð fyrir prest sem þjónaði kirkjum á Seltjarnarnesi, honum til framfærslu eða uppihalds. Ekki er getið um að á staðnum hafi þá verið kirkja eða bænhús. Á jörðinni voru þá tveir ábúendur. Á öðrum helmingnum bjuggu hjónin Þórálfur Höskuldsson og Ásta Jónsdóttir og voru þar fimm í heimili. Bústofn þeirra var fjórar kýr, sjö ær, tvær gimbrar, einn sauður veturgamall, sjö lömb og einn foli þrevetur. Á hinum helmingi jarðarinnar bjó Loðvík Jónsson. Hjá honum voru þrír í heimili og bústofninn þrjár kýr, ein kvíga mylk, einn kálfur, þrjár ær, fjögur lömb og eitt hross. Til hlunninda töldust hrísrif, torfrista og stunga, mótaka og lyngrif nokkurt. Engjar spilltust af vatnságangi. Dýrleiki var óviss en landskuld var eitt hundrað sem skiptist jafnt á milli ábúendanna tveggja.
Breiðholt
Seint á 18. öld munu hafa búið í Breiðholti Hjörtur Eiríksson (um 1743-1793) og Rannveig Oddsdóttir (f. um 1744) ásamt börnum sínum, en þau fluttu þaðan 1788 að Bústöðum.
Prestar munu að jafnaði ekki hafa setið í Breiðholti, en þó bjó þar séra Árni Helgason sem var dómkirkjuprestur og biskup á árunum 1814-

Breiðholt

Breiðholt – túnakort 1916.

1825.
Þegar Jarðatal Johnsens var tekið saman 1847 var Breiðholt lénsjörð, dýrleiki ekki metinn en sýslumaður mat hana á 20 hundruð.
Árið 1856 fékk þáverandi ábúandi í Breiðholti, Árni Jónsson, sérstök verðlaun fyrir jarðabætur.

Á síðari hluta 19. aldar virðist jörðin hafa legið undir miklum ágangi ferðamanna því þá þurftu ábúendur þar oftar en ekki að auglýsa að bannað væri að nota Mjóumýri sem áningarstað eða til beitar, en Mjóamýri var lægðardrag suðaustarlega í landi Breiðholts, vestan undir Vatnsendahvarfi (á þeim slóðum þar sem gatan Jaðarsel liggur nú).

Breiðhol

Breiðholtsbærinn 1916.

Seint á 19. öld bjuggu í Breiðholti hjónin Björg Magnúsdóttir (1847-1930) og Jón Jónsson (1840-1898) ásamt börnum sínum þrettán. Í búskapartíð þeirra var allstórt bú í Breiðholti. Dóttir þeirra, Þóra Petrína Jónsdóttir (1891-1987), hefur sagt frá búskaparháttum, staðháttum og örnefnum í Breiðholti á þeim tíma. Samkvæmt frásögn hennar voru þá um sex til tíu kýr á býlinu, um 200 fjár og sex til átta hross. Einnig voru hross og naut Reykvíkinga tekin í hagagöngu yfir sumarið. Smjör, rjómi og skyr var selt til Reykjavíkur og stundum mjólk. Volg laug var í mýrinni fyrir neðan túnið í Breiðholti og var hella lögð út yfir laugina og þvottur þveginn þar. Mór var tekinn við Engjarnar svokölluðu í Breiðholtsmýri, niður undir Digraneshálsi. Þar þótti góður mór og fengu ýmsir að taka þar mó, m.a. kunningjar úr Hafnarfirði sem annars urðu að brenna mosa. Mikill umferð ferðamanna og gestagangur var í Breiðholti á þessum tíma, t.d. komu þar við bændur austan úr sveitum með fé sitt á leið til slátrunar á haustin og börn úr Reykjavík komu í berjamó.
Skömmu eftir lát Jóns árið 1898 keypti breskur maður, H.A. Payne að nafni, jörðina Breiðholt af kirkjunni fyrir 10.500 krónur, en Björg bjó þar áfram ásamt börnum sínum til ársins 1903. Í borgarhlutanum Breiðholti eru nú þrjár götur nefndar eftir þremur af dætrum Jóns og Bjargar: Maríubakki, Lóuhólar og Þórufell.

Breiðholt
Árið 1906 keypti bæjarstjórn Reykjavíkur Elliðaárnar af H.A. Payne ásamt jörðunum Breiðholti, Árbæ og Ártúni og eignaðist þannig allan veiðirétt í ánum. Breskir veiðimenn munu hafa haldið áfram að leigja Elliðaárnar fram að fyrri heimsstyrjöld en eftir það tóku íslenskir veiðimenn við. Árið 1925 fól bærinn Rafmagnsveitu Reykjavíkur umsjón með Elliðaánum en frá því að Stangveiðifélag Reykjavíkur var stofnað árið 1939 hefur það haft Elliðaárnar á leigu. Við Elliðaárnar er mikið af örnefnum sem tengjast veiðum í ánum.
Efri veiðihús Payne voru á árunum 1937-1940 lánuð Húsmæðrafélagi Reykjavíkur sem hafði þar sumardvalarstað fyrir efnalitlar mæður og börn þeirra en árið 1940 voru þau tekin til afnota af hernámsliðinu. Annað húsanna, líklega styttra húsið sem stóð sunnar og var vörslumannshús, hefur staðið fram yfir 1960 því það er sýnt á korti af svæðinu frá því ári, en líklega hefur það verið fjarlægt skömmu síðar, því það sést ekki á loftmynd.

Búskapur í Breiðholti á 20. öld
Breiðholt
Í upphafi 20. aldar komst jörðin Breiðholt í eigu Reykjavíkurbæjar, eins og áður segir. Með lögum árið 1923 var jörðin svo lögð undir lögsagnarumdæmi Reykjavíkur. Búskapur var þó áfram stundaður í Breiðholti fram yfir miðja 20. öld.
Þegar bærinn keypti Breiðholt árið 1906 var jörðin leigð til ábúðar Guðna Símonarsyni, sama ábúanda og verið hafði þar, líklega frá því að Björg Magnúsdóttir flutti þaðan 1903, með þeirri kvöð að leggja mætti vatnspípur um landið og að ekki yrði tekinn meiri fénaður í það til hagagöngu en formaður bæjarstjórnar samþykkti.
Breiðholt
Bæjarhús og tún Breiðholtsbæjarins voru mæld upp og teiknuð á kort árið 1916. Á kortinu má sjá að þá stóðu sjö hús í samfelldri bæjarröð á hlaðinu. Húsin stóðu þar sem nú er opið svæði milli húsanna Grjótasels 21 (b. 1979) og Skógarsels 39 (b. 1992). Þar eru sjáanlegar rústir sem eru leifar af síðustu baðstofu eða íbúðarhúsi bæjarins.
Þrjú útihús stóðu sunnan við bæinn, þar sem nú er húsið Grjótasel 21. Fleiri útihús voru ofar í brekkunni austur af bænum, á þeim slóðum þar sem gatan Seljaskógar liggur nú vestan húsanna númer 20-24 við Akrasel. Tún bæjarins voru afmörkuð með túngörðum. Í gegnum hlaðið lá vegur frá nágrannabænum Fífuhvammi innst í Kópavogsdal, sem hélt svo áfram austur að Vatnsendavegi.
Eignin var brunavirt árið 1924 og voru húsin í bæjarröðinni þá enn sjö talsins auk þriggja útihúsa. Syðst í röðinni var geymsluhús eða skemma sem sneri göflum í norður-suður (5,5×3,3 m að stærð,), byggð úr bindingi en með torf- og grjótvegg við norðurgafl.
Breiðholt
Áfastur við austurhlið hennar var geymsluskúr úr sama efni (5,5×1,8 m að stærð,). Norðan við skemmuna var íbúðarhús eða baðstofa sem sneri göflum í vestur-austur (10×5 m að stærð), byggð úr bindingi og klædd utan á hliðum með torfi og grjóti, en stafnar klæddir borðum og járni. Geymslukjallari (1,6 m hár) var undir vesturhluta hennar og við vesturgaflinn var lítill inngönguskúr (sjá myndir 14 og 15). Við norðurhlið baðstofunnar var eldhússkúr (10 x 2,5 m að stærð), byggður úr bindingi með norðurhlið úr torfi og grjóti. Við norðurhlið hans var önnur eldhúsbygging (8×4 m að stærð), byggð úr torfi og grjóti. Eldiviðarhús úr torfi og grjóti (8×3 m að stærð) var við norðurhlið þeirrar byggingar.

Gróðrarstöðin Alaska í Breiðholti

Breiðholt

Breiðholtsfjósið – síðar Gróðrastöðin Alaska.

Jón H. Björnsson landslagsarkitekt (1922-2009), sem stofnaði og rak gróðrarstöðina Alaska við Miklatorg (Vatnsmýrarveg 20) frá 1953, keypti eignina Breiðholt árið 1960 og tók um leið við því leigulandi og erfðafestulandi sem henni fylgdi. Í Breiðholti kom Jón upp annarri gróðrarstöð undir nafninu Alaska og hafði þar jafnframt sumardvalarstað fyrir fjölskylduna. Þá stóðu á landinu íbúðarhúsið og steinsteyptu útihúsin sem byggð höfðu verið á fimmta áratugnum, en auk þess gömul bárujárnsklædd skemma og skúrbygging sem notuð var sem hænsnahús. Af loftmyndum að dæma virðist gamla baðstofan hafa staðið allt fram á síðari hluta áttunda áratugarins.
Jón girti allt svæðið af og flutti þangað alla trjáplönturækt sem hann hafði áður haft í Hveragerði. Þarna hafði Jón viðamikla ræktun og trjáplöntusölu til ársins 1963 en varð þá að gera hlé á rekstri stöðvarinnar vegna mikils tjóns sem varð á ræktuninni vegna vorhrets og var rekstur Alaska þá leigður út í nokkur ár. Eftir að Jón tók aftur við fyrirtækinu árið 1967 rak hann einnig teiknistofu í Breiðholti, í íbúðarhúsinu sem byggt hafði verið á fimmta áratugnum.

Breiðholt

Breiðholt – loftmynd 1957.

Í byrjun áttunda áratugarins missti Jón mikinn hluta landsins þegar ákveðið var að taka Breiðholtsblett I úr erfðafestu vegna skipulags og væntanlegra byggingarframkvæmda á svæðinu. Ræktunarlönd og fyrrum tún sem tilheyrðu Breiðholtsbletti I lentu vestan götunnar Skógarsels við skipulag og uppbyggingu Seljahverfisins á þessum tíma og voru á því svæði (Suður-Mjódd) sem afhent var Íþróttafélagi Reykjavíkur, sem byggði þar seinna upp aðstöðu sína. Eftir þetta færðist rekstur gróðrarstöðvarinnar meira í átt að verslunarrekstri í stað trjáplönturæktunar og árið 1975 innréttaði Jón fjósið og hlöðuna á staðnum sem verslunar- og geymsluhús og var verslun Alaska opnuð þar í nóvember það ár.

Breiðholtssel

Breiðholt

Breiðholtssel – uppdráttur ÓSÁ.

Selið var líklega ekki langt frá gatnamótum Heiðarsels og Hjallasels. Í örnefnaskrá Breiðholts segir: „Neðan við Mjóumýri er svo Selhryggur, sem er að mestu í Fífuhvammslandi, en upp af honum og norðan hans eru Selflatir og Selið. Það hvorttveggja er í Breiðholtslandi.“ „Frá Miðmundahæð og beina línu austur að Markakletti hét Selhryggur …“ . Upp af Selhrygg og norðan hans var Selið og Selflatir. Þóra [Jónsdóttir] man ekki eftir selrústum. Sel og Selflatir voru í Breiðholtslandi … . Selflatir voru á milli Selhryggs og Fálkhóls.“ Færikvíar voru notaðar í Breiðholti og í örnefnalýsingu er frásögn Þóru Jónsdóttur sem sat yfir ásamt systur sinni í mörg sumur: „Hinumegin við Rásina var blettur, þar sem færikvíar voru hafðar. Tæplega fimmtíu ær voru mjólkaðar í kvíunum. Þóra sat hjá mörg sumur með eldri systur sinni. Þær voru með ærnar á ýmsum stöðum, Hörðuvöllum, Kjóavöllum (sem mest voru í Vatnsendalandi) og víðar. Valdir voru beztu blettir, sem völ var á að beita ánum á, og var leyft að fara með þær í annarra lönd í því skyni.“
Breiðholt
Lýsing: Horfið, en greina má rúst á loftmynd af Breiðholti frá árinu 1970, norðan megin við Rásina. Þar má greina þriggja hólfa rúst sem gæti hafa verið selið og líklega sá blettur sem færikvíarnar voru á,
eins og kemur fram í örnefnaskrá.

Heimild:
-Byggðakönnun, Borgarhluti 6 – Breiðholt, Borgarsögusafn Reykjavíkur 2021.

Breiðholt

Breiðholtssel – loftmynd 2020.

Árbær

Í Byggðakönnun Borgarsögusafns Reykjavíkur 2017 er fjallað um „Borgarhluta 7 – Árbæ„. Þar segir m.a.:

Staðhættir og örnefni

Árbær
Svæðið sem hér er til umfjöllunar einkennist af holtum og ásum, árhólmum og ísaldaráreyrum. Á milli Árbæjar- og Breiðholts er Elliðaárdalur og um hann falla Elliðaárnar. Þær eiga upptök sín í Elliðavatni og falla til sjávar í Elliðaárvogi, en þessi örnefni eru dregin af nafni skips Ketilbjörns gamla landnámsmanns, sem kallað var Elliði samkvæmt Landnámabók.

Árbær
Vestast á svæðinu og sunnan við Ártún renna austur- og vesturkvíslir Elliðaánna og á milli þeirra eru Árhólmar, en áður fyrr hlupu árnar um hólmana í mörgum farvegum. Yfir Árhólmana lá gamla þjóðleiðin á milli Bústaða og Ártúns um Árúnsvað. Sunnar við árnar eru Blesugróf og Blesaþúfa. Austan við Elliðaárnar er bæjarstæði Ártúns á háum hól og þar norðan og austan við er Ártúnsbrekka og Ártúnsholt sem áður hét Árbæjarholt. Ártúnsbrekkan hefur lengi verið vinsæl skíðabrekka. Frá Ártúni lá gamla leiðin um Reiðskarð að Árbæ. Frá Árbæ lá leiðin síðan til austurs þar sem í dag er Rofabær. Þar voru Breiðumóar. Norðan við Bæjarháls voru Stekkjarmóar og Stekkjarurð. Sunnar voru Eggjar ytri, Eggjar innri og Pálsbyrgi, sem talið er að hafi verið býli einsetumanns.
Árbær
Milli Elliðaárkvíslanna, austan Árbæjarstíflu og að Þrengslum, er Blásteinshólmi. Talið er að nafnið sé dregið af dökkum steini í hólmanum, en önnur skýring er að hann hafi upphaflega heitið Blasíushólmi og sé þá kenndur við dýrling kirkjunnar (bænhússins) í Breiðholti sem var helgað heilögum Blasíusi. Við siðaskiptin hefur nafninu síðan verði breytt.

Árbæjarsel

Árbæjarsel í vestanverðum Selási, eitt af tveimur. Hitt var í Nónhæð ofan við Gröf.

Austar er Selás og þar suðaustan við er Sauðadalur. Talið er að sel hafi verið þar fyrr á tímum, en engar heimildir eru um það og engar seljarústir þekktar. Selið hefur þó líklega tilheyrt Árbæ. Sunnan við Sauðadal er lítill ás sem heitir Sauðaskyggnir. Syðst í Selásnum er Brekknaás.

Árbær
Efsti hluti Elliðaánna rann áður fram í tveimur farvegum að Þrengslum. Þeir voru annars vegar Bugða, sem rann að austan með Norðlingaholti, Brekknaási og Selási að Þrengslunum, og hins vegar Dimma, sem rann úr Elliðavatni að vestan. Á milli þessara áa var stór hólmi, Árbæjarhólmi, en syðst var hann nefndur Vatnsendahólmi. Við byggingu eldri Elliðavatnsstíflu á árunum 1924-1928 stækkað Elliðavatnið um tvo þriðju hluta og Elliðavatnsengjar og farvegur Bugðu fóru undir vatn. Því vatni sem eftir rann fram um eystri flóðgáttina um gamla farveg Bugðu var þá veitt í Dimmu um Skyggnislæk og Árbæjarhólmi varð þá ekki hólmi lengur. Það svæði kallast nú Víðivellir. Þar eru reiðvellir hestamannafélagsins Fáks og Víðidalur, þar sem austasta hesthúsahverfið er undir Brekknaási.
Árbær
Breiðholtsbraut liggur síðan eftir Markargrófinni en þar var áður fjölfarin gömul leið. Austan Breiðholtsbrautar eru síðan Klapparholtsmóar og Klapparholt en þar er í dag hverfið Norðlingaholt. Norðlingaholtið sjálft er mun sunnar eða þar sem Bugða rennur í dag í Elliðavatn. Baldurshagi var nálægt því þar sem bensínstöð Olís (Norðlingabraut 7) er nú.

Landsvæðið sem núverandi borgarland Reykjavíkur nær yfir skiptist á öldum áður upp í jarðir lögbýla og svæðið sem hér er til umfjöllunar, borgarhluti 7, tilheyrði að mestu fjórum jörðum, Bústöðum, Ártúni, Árbæ og Gröf, en lítill hluti Breiðholti. Allt voru þetta frekar smáar jarðir, nema Gröf. Jarðirnar voru lagðar til Viðeyjarklaustur en það var stofnað árið 1226. Klaustrið hafði mikil stjórnsýsluleg völd á þeim tíma. Við siðaskiptin 1550 urðu allar eignir klaustursins eignir Danakonungs. Konungur seldi síðan jarðirnar árið 1838 og komust þær þá í einkaeigu.

Bústaðir
Bústaðir
Vestasti hluti svæðisins tilheyrði að mestu jörðinni Bústöðum. Bústaðir hafa snemma verið byggðir. Jarðarinnar getur fyrst í Þorláks sögu, þar sem greint frá jarteinum sem áttu sér stað á bænum árið 1325 og tengdust kirkjunni í Breiðholti. Jón Bergþórsson var eigandi Bústaða árið 1535 en það ár kærði Alexíus ábóti í Viðey hann fyrir „að hann hafði farið í Elliðaá og haft klaustursins net og eignað Bústöðum fors í ánni eðr streing“.
Á Bústöðum fæddist um aldamótin 1500 Núpur nokkur Jónsson sem ásamt mörgum öðrum stóð að vígi Diðriks af Mynden. Frá þessu segir hann sjálfur í víglýsingarvitnisburði frá 10. nóvember 1539.
Árbær
Það landsvæði Bústaða eru Árhólmarnir, en hólmanir koma fyrir í heimildum frá seinni hluta 17. aldar þegar þar var aftökustaður. Um miðja 18. öld var vatnið úr Elliðaánum nýtt til að snúa hjólum þófaramyllu Innréttinganna, en þar á bakkanum voru einnig litunar- og sútunarhús sem tilheyrðu starfsemi Innréttinganna.
Reykjavíkurbær keypti Bústaði árið 1898 og árið 1923 var Bústaðaland lagt undir lögsagnarumdæmi Reykjavíkur. Búskapur var stundaður að Bústöðum allt fram undir 1970.

Ártún

Artún

Ártún.

Austan við syðri Elliðaárkvíslina var jörðin Ártún en um kvíslina lágu sveitafélagsmörk til ársins 1929.
30 Einungis syðri hluti jarðarinnar er innan borgarhlutans en þar er hluti Ártúnsholts í dag. Bæjarstæði Ártúns er á háum hól vestan undir Ártúnsbrekkunni, en þar eru friðaðar fornleifar.
Jarðarinnar Ártúns er ekki getið í Íslensku fornbréfasafni en menn hafa getið sér þess til að jörðin Árland neðra, sem getið er um í Vilchinsbók frá 1379, þá eign kirkjunnar í Nesi, og í Gíslamáldaga frá 16. öld, sé umrædd jörð.
Árbær
Ártún var lengi vel í alfaraleið og þar var stunduð greiðasala og gistiþjónusta á seinni hluta 19. aldar.
Árið 1906 keypti bæjarstjórn Reykjavíkur jarðirnar Ártún, Árbæ og Breiðholt ásamt hluta úr Gröf, vegna fyrirhugaðra vatnsveituframkvæmda, því fyrstu hugmyndir voru að taka neysluvatn úr Elliðaánum fyrir þéttbýli í Reykjavík. Á árunum 1920-1921 voru Elliðaárnar virkjaðar og mannvirki Elliðaárvirkjunar reist við Ártún.
Árið 1929 voru jarðirnar Ártún og Árbær lagðar undir lögsagnarumdæmi Reykjavíkur.

Árbær
Árbær
Austur af Ártúni var jörðin Árbær, en bæjarhúsin eru nú innan safnsvæðis Árbæjarsafns. Hluti núverandi byggðar í Ártúnsholti og neðrihluti Árbæjarhverfis eru byggðir í landi Árbæjar, en jörðin lá upp með Elliðaánum og tilheyrðu Blásteinshólmi og Árbæjarhólmi henni.
Elsta heimild um Árbæ er í skjali frá 31. júlí 1464. Þar votta Steinmóður ábóti í Viðey og Jón Narfason að Ólöf ríka Loptsdóttir hafi látið Gerrek gullsmið í Hafnarfirði fá silfur sem greiðslu fyrir jarðir Guðmundar Arasonar, sem hún og hennar maður Björn Þorleifsson höfðu keypt af konungi en Gerrekur átti að koma silfrinu til konungs fyrir þeirra hönd.

Árbær
Saga Árbæjar er hins vegar mun eldri en þekktar heimildir gefa til kynna því árið 2016 leiddu fornleifarannsóknir á bæjarstæðinu í ljós að þar var búið á 11. öld og jafnvel þeirri tíundu. Leiða má að því líkur að það sama eigi við um búsetu á öðrum þeim jörðum sem hér eru til umfjöllunar.
Sá atburður sem eftirminnilegastur hefur þótt í sögu Árbæjar er sakamál sem átti sér stað árið 1704, en þá var tvíbýli í Árbæ og annar bóndinn varð hinum bóndanum að bana við Skötufoss í Elliðaánum.
Árbær
Síðustu ábúendur í Árbæ voru hjónin Margrét Pétursdóttir og Eyleifur Einarsson sem bjuggu þar frá 1881 og dóttir þeirra Kristjana, sem tók við búinu árið 1935 og bjó þar til 1948, en þá fór bærinn í eyði. Í tíð Margrétar og Eyleifs var fjölsótt greiðasala í Árbæ, með svipuðu móti og verið hafði í Ártúni.
Saga Árbæjar eins og Ártúns er einnig samofin nýtingu Elliðaánna. Eins og áður segir keypti bæjarstjórn Reykjavíkur jörðina ásamt Ártúni og fleiri jörðum árið 1906 vegna fyrirhugaðra vatnsveituframkvæmda og árið 1929 voru jarðirnar Ártún og Árbær báðar lagðar undir lögsagnarumdæmi Reykjavíkur.

Gröf

Gröf

Gröf – bæjarstæðið.

Austur af Árbæ var jörðin Gröf. Austurhluti Árbæjarhverfis, Selásinn og allt Norðlingaholtið er í landi Grafar. Svæði þetta hefur verið beitiland að mestu á öldum áður. Austast, þar sem Norðlingaholt er í dag, voru áður nefndir Klapparholtsmóar en þar var býlið Klapparholt.
Norðlingaholtið sjálft er mun sunnar eða við Elliðavatn, en þar er talið að hafi verið þingbúðir Norðlendinga og tengist það sögu þingsins í Þingnesi við Elliðavatn.

Elstu skriflegu heimildir um jörðina Gröf eru í máldaga Maríukirkju á Bessastöðum sem tímasettur er til ársins 1352. Þá átti kirkjan „…gelldfiar rekstur j grafarlannd j lambatungur“
en ekki er tekið fram hver hefur verið eigandi jarðarinnar. Gröf var komin í eigu Viðeyjarklausturs árið 1395. Þá var gerð skrá um kvikfé og leigumála á jörðum klaustursins.
Gröf virðist þó hafa verið komin í einkaeigu í byrjun 16. aldar, því þann 5. september 1503 seldu Guðmundur Þórarinsson og Ingibjörg Jónsdóttir Árna ábóta jörðina fyrir fjórtán hundruð í lausafé og kvittuðu fyrir andvirðinu.

Grafarkot

Grafarkot 2022.

Þann 10. desember sama ár (1503) var í Viðey gert skiptabréf Árna ábóta annars vegar og Halldórs Brynjólfssonar hins vegar, á jörðunum Strönd í Hvolhreppi og Gröf í Mosfellssveit. Þar með var Gröf aftur komin í einkaeigu. Ekki eru heimildir fyrir því hvenær Halldór seldi jörðina, en hann var nefndur hinn auðgi og hafði mikið umleikis. Svo mikið er víst að jörðin hefur aftur orðið klausturjörð einhvern tíma fyrir 1545 og hélst svo þar til klausturjarðir runnu til konungs um siðaskipti. Á árunum 1547–1552 er jarðarinnar svo getið í fógetareikningum Bessastaðamanna.
Árið 1907 var bærinn Gröf fluttur að Vesturlandsvegi og ný bæjarhús reist og nefnd Grafarholt.
Um aldamótin 1900 bjó þar Björn Bjarnason hreppstjóri og alþingismaður. Jörðin Grafarholt var ekki lögð undir lögsagnarumdæmi Reykjavíkur fyrr en árið 1943, en meginhluti hennar var síðan tekinn eignarnámi 1944. Allt landsvæði austan Elliðaáa tilheyrði áður Mosfellssveit.

Norðlingaholt og Oddagerði
Árbær
Við Elliðavatn er landsvæði sem kallast Norðlingaholt og liggur það mun sunnar en núverandi íbúðahverfi með sama nafni. Þetta landsvæði tilheyrði jörðinni Gröf. Um uppruna örnefnisins Norðlingaholts eru nokkrar kenningar. Ein kenning er sú að vermenn sem komu af Norðurlandi (Norðlingar) og hugðust fara til róðra eða skreiðarkaupa á Suðurnesjum hafi áð við holtið og þar hafi einnig oft skilið leiðir þeirra á milli eftir því hvert á Suðurnesin átti að halda. Að sama skapi hafi þeir komið saman við holtið þegar haldið var heim norður. Hin kenningin, sem blaðamaðurinn Árni Óla hélt á lofti, er sú að holtið sé kennt við fornar þingbúðir Norðlinga sem sóttu hið forna Kjalnesingaþing við Þingnes og að Norðlingar hafi verið þeir sem komu frá Borgarfirði og jafnvel Hvalfirði.

Árbær
Búðirnar eru merktar inn á kort frá árinu 1880 sem talið er gert af Benedikt Gröndal. Árið 1897 sýndi Benedikt Sveinson alþingismaður fræðimanninum Daniel Bruun búðir í Norðlingaholti og taldi að búðirnar væru frá því áður en Alþingi var stofnað.
Fornleifafræðingarnir Guðmundur Ólafsson og Bjarni F. Einsson hafa skráð eina búð á svæðinu í Fornleifaskrá Reykjavíkur. Hvort um þingbúð er að ræða eða ekki er ekki vitað, þar sem engin eiginleg fornleifarannsókn hefur farið fram á þessum stað, en slík rannsókn væri nauðsynleg til að komast að aldri rústarinnar. Hins vegar er öruggt að þing var við Elliðavatn í Þingnesi og hugsanlega tengjast þessir staðir.
Á þessum slóðum var býlið Oddagerði eða Oddagerðisnes en nokkurs ruglings virðist gæta um nákvæma staðsetningu þess. Líklega hefur kort Benedikts Gröndal frá 1880 aflvegaleitt marga sem skrifað hafa um svæðið, en Benedikt merkir örnefnið Oddagerðisnes (Oddgeirsnes) inn á næsta tanga fyrir vestan Norðlingaholt. Oddagerði er nefnt í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns sem eyðibýli og þar sagt hafa farið í eyði fyrir löngu en nýtt af ábúendum Grafar og Árbæjar.54 Í örnefnaskrá sinni frá um 1900 lýsir Björn Bjarnason, hreppstjóri og ábúandi í Gröf, þar rústum og görðum og telur þessar minjar mjög gamlar. Björn staðsetur Oddagerði sunnan við Skyggni (Oddaskyggni). Það svæði fór undir vatn við gerð Elliðaárstíflu á árunum 1924-1928, en á loftmynd frá árinu 1954, sem hefur verið tekin þegar mjög lágt var í vatninu, má greina þar rústir og garða.

Fornar leiðir og greiðasala
Árbær
Elsta þjóðleiðin til og frá Reykjavík lá frá Skólavörðuholti um Öskjuhlíð og áfram austur Bústaðaholt á þeim slóðum þar sem Bústaðavegur er nú. Frá Bústöðum lá leiðin austur yfir vaðið á vestari kvísl Elliðaánna, um Árhólmann sunnan við Drekkjarhyl og rústirnar af húsum Innréttinganna og yfir eystri kvísl Elliðaánna á Ártúnsvaði, rétt austan við þar sem Toppstöðin er í dag og framundan bæjarhól Ártúns. Á meðan Ártún var í þjóðleið var rekin þar greiðasala. Þaðan lá leiðin að Árbæ um Reiðskarð en þar var skarð í gömlu ísaldaráreyrina og því greiðast að fara þar upp.
Leið þessi var aðalvegurinn austur úr bænum þar til byggðar voru tvær brýr yfir Elliðaárnar árið 1883 og nýr vegur var lagður í framhaldi af Laugavegi norður fyrir Grensás og í gegnum Sogamýri, sem ýmist var nefndur Suðurlandsvegur eða Suðurlandsbraut (núverandi Suðurlandsbraut). Fyrir austan brýrnar færðist vegstæðið norðar og eftir það var Ártún ekki í sömu alfaraleið og áður og greiðasala lagðist af þar. Um svipað leyti hófu ábúendur í Árbæ rekstur greiðasölu, eins og áður er nefnt, sem var rekin þar fram undir 1940.

Árbær
Um 1900 var búið að gera vagnveg frá Elliðaárbrúm að Árbæ og áfram austur. Þessi vegur (gamli Suðurlandsvegur) er þar sem gatan Rofabær er nú. Vegurinn hélt síðan áfram til austurs framhjá Rauðavatni og að Geithálsi.
Áður lá vegurinn hjá Rauðavatni aðeins sunnar, samanber kort sem til er af svæðinu frá 1902, en þar eru merktir nokkrir gamlir slóðar. „Gamli vegurinn“ er sennilega elsti slóðinn sem lá á milli Árbæjar og Hólms yfir Klapparholtsmóa og er líklega elsti forveri Suðurlandsvegar (merktur rauður á kortinu). Enginn örugg merki eru sjáanleg eftir hann nema hugsanlega nyrst við núverandi Norðlingabraut. Annar slóði lá suðvestur frá Rauðavatni inn Margrófina og inn að Norðlingaholti (merktur grænn á kortinu). Þessi vegur var forveri Breiðholtsbrautar og er nyrsti hluti hans nú notaður sem reiðvegur. Þá lá slóði yfir Klapparholtsmóa og Klapparholtsvað vestan við býlið Klapparholt yfir að Elliðavatni, merktur blár á kortinu). Inn á kortið er einnig teiknaður vagnavegurinn meðfram Rauðavatni eða fyrsti Suðurlandsvegurinn, merktur svartur á kortinu).

Herskálahverfi og aðrar herminjar
Árbær
Á stríðsárunum reistu hernámsliðin nokkur lítil braggahverfi austan Elliðaáa. Í landi Ártúns voru fimm herkampar reistir og stóðu þrír þeirra á því svæði sem borgarhlutinn Árbær nær til. Sunnan bæjarhóls Ártúns var Camp Alabaster sem var um tíma aðalbækistöð breska setuliðsins. Síðar tóku Bandaríkjamenn yfir herskálahverfið og nefndu það Camp Pershing. Í Ártúnsbrekku, norðan við bæjarhólinn, var Camp Battle og þar norðan við var Camp Hickam. Einu ummerkin sem eftir eru um hernaðarmannvirki á svæðinu eru í Ártúnsbrekkunni, þar sem er dæld eftir sandpokavígi á einum stað og neðanjarðarbyrgi sem búið er að byrgja fyrir á öðrum stað. Þar er einnig að finna jarðhýsi sem reist voru sem kartöflugeymslur árið 1946 en við byggingu þeirra var nýtt efni úr geymslum sem setuliðið hafði látið reisa á Íslandi.

Hernám

Ofarlega í Elliðaárdal, þar sem nú er skeiðvöllur Hestamannafélagsins Fáks, var nokkuð stórt braggahverfi, Camp Baldurshagi. Nafnið á kampinum er villandi vegna þess að hann er á allt öðrum stað en hinn upprunalegi Baldurshagi sem var við Suðurlandsveg (sjá að ofan). Í Camp Baldurshaga voru fyrst breskir hermenn en síðar landgönguliðar bandaríska sjóhersins. Þar má enn sjá braggagrunna upp með ánni. Eitt húsanna sem reist voru fyrir yfirmenn setuliðsins var síðar flutt í Seláshverfi og mun standa þar enn samkvæmt munnlegum heimildum, en líkt og víðar í borgarlandinu eru annars fá ummerki um mannvirki frá hernámsárunum á þessu svæði.

Austan við Baldurshaga við Suðurlandsbraut (austan við núverandi bensínstöð Olís í Norðlingaholti) var braggahverfið Camp Columbus Dump, sem var birgðageymsla. Þar voru lengi sjáanlegir braggagrunnar.
Á austurjaðri borgarhlutans, við Sandvík norðvestan Rauðavatns, er einnig að finna minjar frá hertíma en þar var Camp Buller, höfuðstöðvar strandvarna eða loftvarnastórskotaliðs.
Á staðnum eru steyptar undirstöður bragga auk bryggju, en Rauðavatn var töluvert stærra á hernámsárunum en nú. Sunnar, við lítinn tanga austan við Rauðavatn, er að finna hringlaga tóft, hugsanlega stríðsminjar.

Árbæjarsel II

Árbæjarsel

Árbæjarsel í vestanverðum Selási, eitt af tveimur. Hitt var í Nónhæð ofan við Gröf.

Tvær heimildir er að finna í örnefnalýsingum um sel frá Árbæ. Í annarri þeirra segir: „Sel hefur verið suðaustan undir ásnum. Það er í Árbæjarlandi“. [Hér er áttvið sel í Nónhæð fyrir ofan Gröf. Þar eru minjarsels, húsatóftir og stekkur.]
Í hinni segir: „Vestur af Markgróf er Sauðadalur. Þar byggði Jens Eyjólfsson (árið 1933). Þar vestur af er Selás, sem dregur nafn af því, að í Sauðadal vestan til var sel, líklega frá Árbæ.“ Hugsanleg staðsetning sels er þá norðan við gamla húsið Selásdal út frá þessum lýsingum, eða á því svæði þar sem í dag er Suðurás 16-24. Ef loftmyndir frá árinu 1956 eru skoðaðar má sjá rústarsvæði nær gamla farvegi Bugðu sem gæti hafa verið sel. Það eina sem styður þá staðsetningu frekar, er að sel eru oftast nálægt ám eða lækjum. Nú eru þarna hesthús Fáks.
[Vestur í Selási eru enn tóftir, bæði húsa og hlaðinn stekkur].

Heimild:
-Byggðakönnun, Borgarhluti 7 – Árbær, Borgarsögusafn Reykjavíkur 2017.
Árbær

Þórufell

Í Morgunblaðinu 2. október 1987 er minningargrein um Þóru P. Jónsdóttur. Þóra fæddist í Breiðholti og bjó lengi við Reynisvatn. Hún var vel kunnug á sínum heimaslóðum, líkt og lesa má:

Þóra P. Jónsdóttir

Þóra P. Jónsdóttir (13.05.1891-21.09.1987).

„Ástkær tengdamóðir mín, Þóra Petrína Jónsdóttir frá Reynisvatni, er látin í hárri elli. Hún átti ekki nema fjögur ár ólifuð til að fylla heilt árhundrað. Með Þóru er fallinn í valinn verðugur fulltrúi þeirrar kynslóðar, sem lifað hefur tímana tvenna. Í minningu tengdamóður minnar get ég ekki látið hjá líða að fara um hana nokkrum orðum og endurgjalda henni að nokkru þann hlýhug og velvilja sem hún sýndi mér alla tíð.
Þóra var fædd 13. maí 1891 í Breiðholti. Foreldrar hennar voru þau Jón Jónsson, bóndi þar og kona hans Björg Magnúsdóttir, en þau hjón áttu miklu barnaláni að fagna og var Þóra yngst þrettán barna sem þeim hjónum varð auðið. Þrátt fyrir alla ómegðina, tókst Jóni og Björgu alla sína hjúskapartíð að sjá börnum sínum farborða.
Jón og Björg bjuggu myndarlegu búi að Breiðholti og víst er að þar hefur oft verið gestagangur mikill í sláturtíðinni, er vinnumenn og bændur af Suðurlandi komu slæptir ofan af Hellisheiði með reksturinn til slátrunar í bæinn, enda lá Breiðholtsbýlið um þjóðbraut þvera.
Breiðholt
Eftir að Jón féll frá 1897, tók Björg við búrekstrinum, sem henni fórst vel úr hendi. Björg stýrði búi í Breiðholti í ein sex ár eða til 1903 er hún brá búi og fluttist til Reykjavíkur með þau barnanna sem ekki voru að fullu vaxin úr grasi. Þá var Þóra á þrettánda ári og var talan þrettán þar enn á ný áhrifavaldur í lífi hennar. Eins og títt var með börn og unglinga á upphafsáratugum aldarinnar, varð Þóra snemma að sjá sér farborða og leggja til með sér til heimilishaldsins. Eftir að hún fluttist til Reykjavíkur vann hún í fiskvinnu, verksmiðjuvinnu og kaupavinnu uppí Borgarfirði og austur í Fljótshlíð.

Stöðlakot

Stöðlakot [Stuðlakot] við Bókhlöðustíg.

Þóra kynntist í Reykjavík lífsförunauti sínum, Ólafi Jónssyni, múrarameistara frá Stuðlakoti [Stöðlakoti], miklum ágætis- og hagleiksmanni. Þau gengu í það heilaga 14. október 1913 og lágu leiðir þeirra saman eftir það í rúm fimmtíu ár, eða þar til Ólafur andaðist 25. september 1965, þá rétt kominn á efri ár.
Fyrst um sinn bjuggu Þóra og Ólafur í Stuðlakoti, æskuheimili Ólafs. Stuðlakot kannast óefað margir Reykvíkingar við, en það er steinbærinn við Bókhlöðustíginn, beint fyrir sunnan latínuskólann gamla, en bærinn hefur fyrir skemmstu verið gerður upp í upphaflegri mynd. Í Stuðlakoti og á Bókhlöðustig 6a, húsi sem Ólafur reisti, bjuggu þau í rúm tíu ár, eða þar til þau festu sér jörðina Reynisvatn í Mosfellssveit til ábúðar.

Reynisvatn

Reynisvatn – túnakort 1916.

Eftir að þau brugðu búi og fluttust að Reynisvatni 1924, þurfti víða að taka til hendinni. Húsakostur á Reynisvatni var bæði rýr og lélegur og túnið lítið og þýft. Það var því í nógu að snúast fyrstu búskaparárin. Ólafur byggði nýtt og rúmgott íbúðarhús og braut ódeigur mikið land til rætkunar. Ólafur var búhöldur góður, og hafði á fóðrum margt fjár, sem var bæði vænt og fallegt.
Þrátt fyrir óbilandi áhuga Ólafs fyrir búskapnum, var hann þó trúr og tryggur þeirri iðn sem hann hafði menntast til, múrverkinu. Hann stundaði múrverk jöfnum höndum með búskapnum allt fram yfir 1950, er hann lagði múrskeiðina á hilluna og snéri sér alfarið að búskapnum. Meðal þeirra bygginga sem Ólafur vann við og tók þátt í byggingu á voru ýmis stórhýsi, s.s. Landspítalinn, Landsbankinn, Hafnarhúsið, Hótel Borg og Gamla Bíó.

Reynisvatn

Reynisvatn – minjar.

Án efa hefur mikið mætt á Þóru á frumbýlisárum hennar og Ólafs að Reynisvatni. Þegar hér var komið við sögu höfðu þau eignast fimm börn, sem öll voru ung að árum og fjögur önnur bættust í barnahópinn næstu árin. Þær stundir sem bóndinn dvaldi fjarri heimilinu í Reykjavík við múrverkið, hafði Þóra í mörgu að snúast, barnauppeldi og búverkum. Eflaust hefur jafnlyndi og æðruleysi Þóru og væntumþykja fyrir börnum og ferfætlingum átt stóran þátt í því að bústörfin gengu sinn vanagang, þótt Ólafur væri við störf í Reykjavík.
Börn þeirra Þóru og Ólafs urðu níu talsins. Eftir að börnum voru vaxin úr grasi, fyllti næsta kynslóð upp í það tóm sem verður þegar börnin eru farin að heiman. Öll barnabörnin, sem eru 17 að tölu, dvöldu langdvöldum á Reynisvatni hjá ömmu og afa meðan hans naut við.

Þórufell

Þórufell í Breiðholtshverfi.

Enn á ný 1980 urðu breytingar á högum Þóru. Hún seldi Reykjavíkurborg landareignina og húsakostum á Reynisvatni og fluttist búferlum að Mávahlíð í Reykjavík, þar sem hún eyddi ævikvöldinu.
Þrátt fyrir háan aldur og margt viðvikið á langri ævi, hafði Þóra fótavist allt fram á síðasta dag og fylgdist vel með öllu þó líkamlegt þrek væri farið að minnka.
Alla ævi hafði Þóra mjög sterkar taugar til æskustöðva sinna í Breiðholtinu. Þegar embættismenn á vegum Reykjavíkurborgar voru að finna götum í Breiðholtinu nöfn, var Þóra höfð með í ráðum, enda óvíst að aðrir eftirlifandi hafi verið kunnugri örnefndum og staðháttum á þeim slóðum en hún. Borgaryfirvöldum þótti við hæfi að nefna þrjár götur í höfuðið á Þóru og tveimur systrum hennar, göturnar Þórufell, Lóuhólar og Maríubakki. Ræktarsemi Þóru við Breiðholtið kom ekki síst fram í því að henni var umhugað um varðveislu örnefna í Breiðholtinu, þótt gömlum kvíastæðum og stekkjarbrotum væri valið það hlutskipti að lenda undir undirstöðum íbúðarhúsa og háhýsa. Þóra brást því glöð við þeirri beiðni starfsmanna Örnefnastofnunar að fylla í eyður stofnunarinnar um örnefni á bernskuslóðum hennar og næsta nágrenni.
Þóra var um margt einstæð kona. Hún var hjartahlý og ráðagóð og vildi úr hvers manns vandkvæðum ráða. Hún var mikill dýravinur og náttúrunnandi, hún unni öllu því sem lífsandinn hrærði.“ – Þorgeir Þorkelsson

Heimild:
-Morgunblaðið, 2. október 1987, Þóra P. Reynisdóttir, f: 13.05.1891, d. 21.09.1987, bls. 39.

Breiðholt

Breiðholt – örnefni.