Á skilti, sem komið hefur verið fyrir (árið 2010), þar sem Breiðholtsbærinn stóð, má lesa eftirfarandi: “Hér er bæjarhóll Breiðholtsbýlisins, sem Breiðholtshverfið er kennt við. Elstu öruggu heimildirnar um Breiðholt eru í skrá um jarðir sem komu undir Viðeyjarklaustur árið 1395 en líklegt má telja að byggð hér sé nokkru eldri. Hér mun hafa verið bænhús helgað heilögum Blasíusi en það var aflagt á 16. öld. Á fyrri hluta 20. aldar fundust hér forn mannabein í jörðu við bæinn. Hér ber þó að hafa huga hvort kom á undan; eggið eða hænan. Breiðholtsbærinn var kenndur við holtið ofanvert, en byggðin síðan við gamla bæinn!
Breiðholt varð eign konungs við siðaskipti eins og aðrar jarðir Viðeyjarklausturs. Skömmu síðar voru tekjur af jörðinni lagðar til framfærslu prestum sem þjónuðu kirkjum á Seltjarnarnesi. Prestar munu að jafnaði ekki hafa setið í Breiðholti, en þí bjó hér séra Árni Helgason dómkirkjuprestur og biskup 1815-1826.
Landamerki Breiðholtsjarðarinnar lágu að nágrannajörðunum: Vatenda, Hvammskoti (Fífuhvammi), Digranesi, Bústöðum, Ártúni og Árbæ.
Samkvæmt Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns var í upphafi 18. aldar tvíbýli hér í Breiðholti. Á hálfri jörðinni bjuggu þá hjónin Þórálfur Höskuldsson og Ásta Jónsdóttir og voru þar fimm í heimili. Bústofn þeirra var fjórar kýr, sjö ær, tvær gimbrar, einn sauður veturgamall, sjö lömb og einn foli þrevetur.
Á hinum helmingi jarðarinnar bjó Loðvík Jónsson. Hjá honum voru þrír í heimili og bústofninn þrjár kýr, ein kvíga mylk, einn kálfur, þrjár ær, fjögur lömb og eitt hross. Til hlunninda töldust hrísrif, torfrista og stunga, mótaka og lyngrif nokkurt. Engjar spilltust af vatnságangi.
Seint á 19. öld, í búskapartíð hjónanna Bjargar Magnúsdóttur og Jóns Jónssonar, voru í Breiðholti um 10 kýr, 200 ær og sex til átta hross. Þau hjónin áttu 13 börn. Mjólk, smjör og rjómi voru seld til Reykjavíkur. Þvottur var að hluta til þveginn í volgrum neðan við túnið. Mikill gestagangur var í Breiðholti á þessum tíma, t.d. komu hér við bændur autan úr sveitum með fé sitt á leið til slátrunar á haustin og börn úr Reykjavík komu í brejamó.
Bæjarstjórn Reykjavíkur keypti jarðirnar Breiðholt, Ártún og Árbæ árið 1906 til þess að tryggja sér aðgang að vatni Elliðaánna fyrir vatnsveitur bæjarins. En árið 1923 var Breiðholt orðið hluti af lögsagnarumdæmi Reykjavíkur.
Árið 1916 voru bæjarhús og tún Breiðholts mæld upp. Á hlaðinu stóðu þá sjö hús og önnur þrjú sunnar, túnin voru afmörkð með túngörðum og útihús voru í brekkunni austur af bænum. Vegurinn frá Fífuhvammi að Vatnsenda lá í gegnum hlaðið.
Torfbærinn sem hér stóð var rifinn 1940 og nokkru síðar byggt múrhúðað timburhús. Búskapur var í Breiðholti fram undir 1960.
Árið 1960 keypti Jón H. Björnsson landslagsarkitekt og eigandi Gróðrarstöðvarinnar Alaska erfðafesturétt Breiðholtsbýlisins og var með starfsemi hér til fjölda ára. Yngta hlaðan varð að verslunarhúsi gróðrarstöðvarinnar og ber nágrennið merki ræktunar hans.
Hið forna bæjarstæði Breiðholts ásamt kirkju og kirkjugarði var friðlýst árið 1981.
Á árunum 1960 til 1980 voru skipulögð og reist íbúðarhverfi í landi Breiðholts og bjuggu hér árið 2009 um 25.000 manns.
Heimild:
-minjasafnreykjavikur.is