Færslur

Húshólmi

Í ritinu “Brísingamen Freyju” skrifar Skuggi (Jochum Eggertsson) nokkrar greinar. Í þeim er m.a. fjallað um landnámið og Reykjanesið:

Forn skálatóft við Gömlu-Krýsuvík

“En laust eftir aldamótin 700, þegar norrænir víkingar, er þá og síðar vóru yfirleitt nefndir “danir“, tóku að herja og ræna vestur á bóginn frá aðalbækistöð sinni á meginlandinu er enn heitir Normandí í Frakklandi, var höfuðbækistöðin flutt norður til þess óbyggða eylands, er nú heitir Ísland, en þá hét Þúla eða Þýli = Sóley, síðar Thule eftir að þ-ið hvarf úr engilsaxnesku stafrófi), og sett niður eftir útreikningi bendingargeisla Cheops-merkisins, þar sem enn heitir Krýsuvík undir Gullbringum, er Gullbringusúsannan (c: sýslan) ber enn í dag. Víkin, við sjóinn, Gamla Krýsuvík, er síðan kennd við Chrýsiana, gulljónana eða gullmunnana, og ber enn þeirra nafn, þótt nafn höfuðbólsins, Víkurinnar, flyttist síðar, eða nálægt 1340, sakir eldsumbrota, hraunrennslisins og eyðibyggingar, hærra upp í landareignina, alla leið upp í dalinn milli Gullbringnanna, en það er enn í dag eina óbrunna svæðið á öllu Reykjanesinu. en fyrir eyðilegginguna var Krýsuvíkurland blómlegasta svæði landsins og víða vaxið stórskógi. Eru enn þykkar jarðvegspildur eftir til og frá á hæstu fjöllum og hnjúkum á þessu svæði, er sýna og sanna að þarna hefur til forna fagurt land verið, Krýsuvík (þeirri gömlu við sjóinn) var eftir þetta höfuðbækistöð Krýsiana og síðasta skipulagða starfsemi þeirra í veröldinni, starfrækt vitandi vits og í vaxandi gengi allt til haustsins 1054, að gerð var fullnaðaraðför að þeim, og þeir ýmist fangaðir eða drepnir. Það var Kolskeggur vitri, (Kölski) er þá var aðalforystumaður Krýsa. Undir hans stjórn tók starfsemin öll þeirri stökkþróun, er einsdæmi er, hvar sem leitað er í veraldarsögunni, en fyrirrennari hans, Ioan “inn gamli” var þá örvasa orðinn og kominn að fótum fram.
Forn garður við Gömlu-Krýsuvík[Hér er innskot: Mest allt Reykjanes var, aður en það brann, lang blómlegasta og byggilegasti hluti landsins. Hálendið var allt, að heita mátti hulið þykkum jarðvegi og skógi þakið, og var sumt það, er kallast mætti stórskógur á okkar mælikvarða. Á síðustu ísöld hefur jökull ekki legið meginhluta Reykjanesfjallgarðsins, það sýnir þykkt jarðvegsleifanna, sem enn eru eftir til og frá fjöllunum á þessum slóðum. Allur annar jarðvegur á landi hér er miklu yngri, myndaður eftir síðustu ísöld, því á ísöldinni eyddu skriðjöklarnir öllum jarðvegi landsins, þar sem þeir fóru. – Í fræðum Kolskeggs vitra (Kölska), er sagt, og vitnað til fornra bóka, að byggð hafi verið hér á landi fyrir Syndaflóðið (c: Nóaflóðið), en það var hlýindatímabil mikið, er gekk yfir allt norðurhvel jarðar alllöngu fyrir Krist burð. Þetta hlýindaskeið var svo stórfenglegt, að það eyddi miklum hluta af öllum jöklum á norðurhveli, og hækkaði yfirborð sjávar um marga metra, svo sjór lagðist yfir allt láglendi. Má sjá menjar þessa forna fjöruborðs, í jafnri hæð yfir sjávarmáli, kringum allt landið. Aldur jarðvegsins á láglendinu hér á landi er því ekki eldri en frá síðari hluta þessa hlýindatímabils, að aftur tók að kólna, jöklar tóku að vaxa og yfirboðr sjávar lækkaði á nýjan leik. Skógargróður sá, allvöxtulegur, er víða finnst í mómýrum, og sem næst botni, er síðasti vitnisburður þessa hlýindatímabils, er hvergi  eins auðvelt að rekja og á Reykjanesskaga. Til dæmis hefur forni eldgýgurinn Þorbjörn, fyrir ofan Grindavík, þá verið eyja, því forna fjöruborðið, frá þessu tímabili er umhverfis hann.

Forn skálatóft við Gömlu-Krýsuvík

Hvergi er önnur eins gullnáma fyrir náttúrufræðinga sem Reykjanesskagi, en allt er þar órannsakað enn. Þá mundu og fornfræðingar eiga þangað erindi. Eða langar þá kannske ekkert að vita hvar rústir Gömlu-Krýsuvíkur hafa að geyma? Síðustu leifar þessa stórbýlis hafa varðveizt á undraverðan hátt, umkringdar og greiptar í hraunstorkuna og bíða þar grasi grónar eins og þær hafa gert síðastliðin 600 ár. Yngsta gólfskánin hefur því tíðindi að segja frá þeim tíma. En hvaða fréttir kynni sú elsta að færa? – Höf.]
Krýsar áttu mest allt þetta svokallaða “landnám Ingólfs”, er þeir vóru drepnir, og miklar eignir aðrar í löndum og lausum aurum, því þeir vóru vellauðugir. Meðal annars vóru 9 hafskip (kaupskip) af þeim tekin, en kaupskip þeirra sigldu mest til Suðurlanda og vóru aðalviðskipti þeirra Marseille í Frakklandi, en fóru þó stundum allt til Egyptalands og inn í Nílarósa. Aðalviðskiptastaður þeirra hér og skipalægi vóru í Ölvésá við Arnarbæli og Hvítá í Borgarfirði. Fyrsti biskupsstóllinn á Íslandi, Skálholtsstóll, var stofnaður af reitum þeirra, skömmu eftir aðförina eða nánar sagt árið 1056. – Ungúlf Arnarsson, fyrsta norræna landnámsmanninn eða fyrsta “danann”, settur þeir til höfðingja yfir “allan og einasta” byggða hluta landsins, og gerðu allan veg hans sem viðurlegastan, “til þess eins, að þar yrði ekki síðar á leitað með ránum og hernaði.”

Forn garður við Gömlu-Krýsuvík

Landið var ekki meira en fullbyggt, er Noregskonungar fóru að reyna að ná því undir sig með Kristnina að vopni. Og strax með auknu páfakirkju og kóngavaldi, jukust andlegu átökin og taugastríðið milli kristnikóngavaldisins og Krýsa, sem endaði eins og kunnugt er, með sigri þess er kyrkti frelsið, þar af komið nafnið “kyrkja” í norrænu máli (svo ritað til forna). Þessi sigur kyrkingarinnar (kirkjunnar), endaði eins og kunnugt er, með glötun frelsis og sjálfstæðis þjóðarinnar og margra alda eymd og niðurlæging. Með kristnitökunni var þjóðin raunverulega komin undir erlent áhrifavald, og þá fyrst og fremst Noregskonunga, og því aðeins tímaspursmál hvenær hún gæfist upp til þrautar og glataði öllu frelsi sínu. Þetta vissu Krýsar allt og sáu í hendi sér, löngu fyrirfram.”
Þá er fjallað um hin fyrstu skrif af sögu þjóðarinnar. Sagðir höfundar Íslendingasagna eru nefndir, s.s. Snorri Sturluson. “Þessa menn lét hann rita úr fornum fræðum Krýsa og auka við, eftir beztu heimildum, því merkasta eftir þeirra daga, því gerzt hafði frá því um miðja elleftu öld. Það er ekki fullsannað, að Snorri hafi sjálfur verið skrifandi. Þó hefur fundist eitt orð: “Snore”, undir eignaskjali, sem haldið er að hann hafi sjálfur skrifað.” Getið er um að Krýsar hafi barsit mót kristninni “af oddi og eggju, á sína andlegu vísu og gerðu Ása dýrkuninni allt til vegs og sóma. Þeir sömu norrænu goðasögurnar og gáfu þeim það ódauðlega snilldarform, sem enns ést merki til í “Gylfaginning” og “Skáldskaparmálum Snorra-Eddu, enda þótt þar sé margt afbakað og niður fellt og víða hlaupið á hundavaði”.
Kirkjuflöt - mögulegur grafreitur við Gömlu-KrýsuvíkUm aðdraganda atlögunnar Krýsum segir: “Bandamenn fóru þegar að safna að sér liði, sumarið 1054, og fóru með óvígan her, 2 þúsund vopnaðra manna, að þeim “Kölska” og “Gamla”. Þeir settust bæði um Gömlu-Krýsuvík og Vífilsstaði, en þar voru höfuðbækistöðvarnar og skólar þeirra gullmunnanna. Hét sá Grímur Hrafnsson, er var yfirnemi á Vífilsstöðum, en meistarinn Jón Kjarvalarson, “sá gamli”, var, eins og áður er sagt, orðinn hrumur af elli og kominn af fótum fram. Kolskeggur reið því ávalt á milli Vífilsstaða og Krýsavíkur. Hann hafði 12 gæðinga til reiðar, alla hvíta og báru allir faxanöfnin. Tveir hvítir hundar eltu hann jafnan.
“Sá gamli” var brenndur inni á Vífilsstöðum, en “Kölski” slapp úr umsátri á Gömlu-Krýsuvík og komst á einn hesta sinna, Brimfaxa, mikinn gæðing. Vopnuðum varðsveitum Bandamanna var skipað við allar leiðir og vegamót, en Kolskeggur slapp í gegnum hvert umsátrið af öðru, en var loks ofurliði borinnn og drepinn, er hestur hans fótbrotnaðu í Straumrandahrauni, þar sem nú er Kapelluhraun, sunnan Hafnarfjarðar.  [“Því er jór ónýtur / ef einn fótur brotnar,” stendur í Hávamálum, en þetta er auðsjáanlega innskot einhvers afritara, er vitað hefur afdrif höfundarins, og kunnað betur við að “punta dálítið uppá”, frá eigin brjósti, eins og siður var afritara, en sá leirburður er auðþekktur.]

Kapellan í Kapelluhrauni 1954

Þessi voru síðustu og einu orð Kolskeggs vitra, um leið og hann var lagður til bana: “Sækja sóknhvattar sveitir háleitan!”
Kapella var síðan reist, þar við fornu reiðgötuna í auðninni þar sem Kolskeggur var veginn; var á miðöldum kölluð “Kölskakapella” eða “Kölska-kyrkja”. Nýtt hraun hefur runnið á hana og kaffært hana að nokkru leyti, en vegsummerki hennar sjást þó enn greinilega á hraunhryggnum og storkunni, austurgaflinn nokkurnveginn heillegur að innan og innganginn og fyllt hana þeim megin. Hraunið dregur síðan nafn af Kapellunni. Það fylgir fornu sögninni, að bein Kölska hafi verið geymd eða dysjuð þar í Kapellunni. Þetta vóru nú öll skáldalaun höfundar Njálu, og vera auk þess í þjóðtrúnni gerður að nokkurskonar hálfheimskum og þó fremur hrekklausum og heiðarlegum drýsildjöflaforingja, er aldrei gekk á gerða samninga og varð því oftast undir í viðureigninni fyrir þeim er höfðu nóga hrekki og klækjavit.
Kolskeggur vitri reit sjálfur eftirfarandi Íslendingasögur og í þessari röð: “Frumlandnámu”, öðru nafni Gullbringa eða Gullskinna, Laxdælu, Gunnlaugssögu, Njálu, Hrafnkötlu og Bandamannasögu. [Innskot: “Sú gerð Landnámsbókar, er mest er farið eftir og stuðst við af nútímamönnum er Hauksbók, er Haukur lögm. Erlendsson reit í byrjun 14. aldar, eftir landnámabókum þeirra Sturla lögm. Þórðarsonar og Styrmis prests hins fróða, eins og Haukur lögm. segir sjálfur í eftirmála og ennfremur; “að hægara sé að sanna fyrir útlendum mönnum, að vér séum ekki komnir af þrælum og illmennum, ef vér vitum víst vorrar kynferðir sannar.”

Minjar og handrit

Þá getur H. þess, hverjir hafi fyrst ritað um landnám á Íslandi: “Ari prestr en fróði Þorgilsson og Kolskeggr enn vitri.” Þetta er alveg rökrétt hjá Hauki lögmanni; þó margir fræðimenn hafi látið sig villast á þessu: Haukur rekur frá sjálfum sér upp eftir alla leið að byrjuninni, og endar á frumhöfundinum; Kolskeggi vitra! Það þurfti nefnilega að breyta frumlandnámu norrænum mönnum í hag og koma henni á “danska tungu”, en þurrka út “þrælana og illmennin.”]
Leifar gömlu Rauðskinnu (Gullskinnu) – þessi slitur 27 blaða – eru eins og vænta má, svo hörmulega farin, að eigi verða með vissu lesin og ráðin yfir 30 orð, eða til heildar nær hundruð stafir, ef grandskoðað er.”
Þá má þess geta að í þjóðsögunum segir að Eiríkur galdraprestur í Selvogi hafi áskotnast Gullskinna þessi, en hann ákveðið að urða hana í Kálfsgili í Urðarfelli, enda um að ræða “mestu galdrabók allra tíma”.
Framangreindur texti er settur hér fram til fróðleiks. Ekki er tekin afstaða til innihaldsins, en hafa ber í huga að skrifin eru gerð áður en Kapellan í Brunanum var rannsökuð og áður en áhugi vaknaði á rústunum í og við Húshólma (Gamla-Krýsuvík). Um Þorbjörn er það að segja að það er að hluta til rétt að fellið er að hluta til eldra en frá síðustu ísöld og nokkru norðan þess má sjá leifar hlýindaskeiðsins (Rauðamelur). Þá gildir og enn sú áhríningsorð til forn[leifa]fræðinga að byrja nú að rannsaka þær merkilegu leifar, sem þar er að finna, þótt ekki væri til annars en að ákvarða aldur þeirra og tengsl við forsöguna.

Sjá Brísingamen Freyju.

Heimild:
-Skuggi (Jochum Eggertsson), Brísingamen Freyju, Reykjavík 1948.

Þorbjörn ofan Grindavíkur