Eitt af því sem FERLIR hefur beint athyglinni að eru hellar eða skjól, sem notuð voru til brugggerðar á bannárum 20. aldarinnar. Hverjum og einu tengist ákveðin saga, sem í rauninni var, og er, hluti mikilvægrar samfélagsmyndar þess tíma. Nýting þeirra og afurðavinnsla birtist m.a. í hugmyndasköpulegum verðmætum, en ekki síður í sögum og sögnum, munnmælum og eftirmælum, þótt hljótt hafi farið, hingað til a.m.k. Hvorutveggja staðanna hafa kannski ekki enn öðlast hefðarrétt sem fornleifar, en að því mun koma – óðfluga. Þá er eins gott að hafa staðsett þær og skráð – ekki síst m.t.t. sagnahefðar hinnar miklu sagnaþjóðar frá upphafi vega, allt til tilkomu útvarpsins (um 1930). Nú þegar háeffa á “fyrirbærið” RÚV má ekki gleyma að það átti, þrátt fyrir menningartengda lofgjörð og nýbreyttni á sínum tíma, einna mestan þátt í eyðingu hinnar fornu sagnahefðar hinnar gömlu víkingaþjóðar. Útvarpið tók í einu vetfangi að sér, bara með tilvist sinni, óumbeðið, grunnmenntun heillar þjóðar.
Nú, FERLIR hafði lagt fram fyrirspurnir og fengið svör við mögulegum brugghellisstöðum í nágrenni Grindavíkur. M.a. barst eftirfarandi svar: “Sæll, ég hef ekki enn náð á Guðmund frá Ásgarði, en Guðjón Þorláksson frá Vík sagðist halda með nokkurri vissu að brugghellir Ásgarðsmanna og Víkurmanna hafi verið á Skipsstíg neðan Lágafells rétt hjá fyrstu gjánni á hraunsléttu þar sem nokkur op eru? Þetta á að vera austan girðingar við hraunbrúnina. Þarna sátu þeir Guðmundur frá Ásgarði, Þorlákur frá Vík, Gísli Jóhanneson (Gilli Jó), Óskar Gíslason og einn enn (Einar í Ásgerði)? við iðju sína þegar jarðskjálfti skók jörð (Dalvíkurskjálftinn eða sama ár). Allt lék á reiðiskjálfi og gjáin gekk saman yfir hausunum á þeim. Gilli Jó skaust upp og í sama mund féll stór stein niður á sama stað og hann hafði setið við að hræra í pottinum örskömmu áður. Hann taldi sig heppinn að hafa sloppið svona vel í það skiptið.
Ekki löngu síðar sat sýslumaðurinn í Hafnarfirði fyrir þeim og tók þá fasta er þeir voru á leið í Landmannaréttir á “boddí bíl” og gerði talsvert magn af landa upptækt. Þorlákur tók á sig sök og sat á Litla Hrauni í viku tíma. Reyndar eru til fleiri útgáfur af þeirri sögu. Önnur segir t.d. að hann hafi setið inni fyrir að leggja hönd til yfirvaldsins, líkt og sýslumaður Árnesinga hafði mátt þola fyrir stuttu. Það mátti að sumu leiti túlka til misskilnings, líkt og þá, en svona endurtekur sagan sig – hvað eftir annað og það ekki á svo löngum tíma.
Hin mikla kaldhæðni örlaganna tengist einnig þessari frásögn. Þá félaga grunaði að Lalli á löppinni, Lárus að mig minnir Guðmundsson frá Móakoti og seinna í Bræðraborg og loks í Nesi bak við Steinaborg, missti fót í vinnuslysi. Þeir félagar höfðu framgöngu í því að safna fyrir tréfót á kallinn, en um leið og hann komst á ról rölti hann til yfirvaldsins og kjaftaði frá athæfi þeirra félaga, þ.e. brugggerðinni. Lalli á löppinni vissi að sjálfsögðu ekki að gervifóturinn hafði einmitt verið fjármagnaður með brugggerðinni, en nýi fóturinn hefði hins vegar átt að þagga niður í sérhverjum sæmilega skynsömum manni.
Leit var gerð að mögulegum “brugghelli” eða bruggaðstöðu á fyrrgreindum stað, en allt kom fyrir ekki – að þessu sinni. Að vísu er gjáin þarna enn og ýmist tilkomulítil eða einstaklega djúp, en gefur hvergi tilefni eða ummmerki eftir bruggun. Ætlunin er þó að skoða þetta nánar með aðstoð fyrrum vitunundarvotta (sem enn eru á lífi).
Annar hellir, notaður til brugggerðar á sama tíma, er sagður hafa verið “í gjánni ofan við Vatnstakinn – þar hafi Skálamenn haft aðstöðu…”. Hraunið er bæði apalhraun (syðra) og helluhraun. Mest af því hefur komið úr Moshól, sem er nokkuð yngri en Sundhnúkahraunið. Kristján Sæmundsson, jarðfræðingur, telur að hraunið úr Moshól sé jafnframt hraunlænan, sem liggur suðaustur um Hópsheiði og myndaði m.a. Slokahraunið á mörkum Þórkötlustaðabæjanna og Hrauns.
FERLIR gerði endurtekna leit að opinu á Klifhólahraunssvæði Hópsheiðar, en án árangurs. Dagmálaholtið er austurbrún hraunsins. Efst á því er Hópsvarðan. Gengið var að opi Gaujahellis og sprungunni, sem hann er í, fylgt til norðausturs. Engin önnur op fundust á þeirri leið. Austan við Hesthúsabrekkur eru “hesthúsin”, búðir vegavinnumannanna er lögðu Grindavíkurveginn á árunum 1913-1918. Síðarnefnda árið slógu þeir upp búðum í gígum austan í brekkunum. Enn má sjá ummerki þeirra. Þá tóku þeir gjall úr gíg norðan búðanna og báru í veginn. Notuðu vegavinnumennirnir til þess hesta og vagn. Röktu þeir m.a. efnistökuna með utanverðum gígnum og enduðu í helli, sem þar hafði verið. Enn má sjá hluta hans efst í námunni. Sá hellir getur þó ekki hafa verið umræddur hellir því hann hafði verið skilinn eftir opinn fyrir gósentíð bannárabruggaranna. Í litlum gíg suðvestan hans má hins vegar sjá hleðslur og leifar gólfgerðar. Erfitt er að segja til um eftir hvern það getur hafa verið. Líklegt má telja að Gaujahellir sé sá hellir sem jafnan um er rætt.
Enn annar brugghellir er sagður verða vestur í Klifi, þ.e. skammt vestan við Húsatóftir. Helgi Gamm hafði um hann einhverja vitneskju, sem gaumgæfa þarf betur. Leit var gerð að hellinum í einni FERLIRsferðinni um hraunsvæðið austan Eldvarpa og Mönguketils, en hann fannst ekki í þeirri ferð. Að sögn mun “hraunhella ein mikil vera yfir opinu, en undir er hvelfing með sléttu gólfi. Vatn er í botni og þar má sjá leifar tunnu”. Svæðið, sem um ræðir er vestan borholu “vestan Grænubergsgjár”. Sumir segja að nafnið Grænubergsgjá “sé ekki til” heldur heiti bergið, sem hún reyndar er hluti af, ofan Staðarbergs, “Grænaberg”.
Hvað sem því öllu líður mun þetta svæði verða gaumgæft betur síðar, en það er mjög “leitótt”, líkt og svo mörg önnur svæði á Reykjanesskaganum.
Frábært veður. Gangan tók 1 klst og 01 mín.