Færslur

Brunntorfur

Eitt af því er vekur jafnan athygli þeirra sem aka um Krýsuvíkurveginn er myndarlegur skógur sunnan vegarins í og ofan við svonefndar Brunatorfur.
Brunatorfur -7Eftirfarandi fróðleik um skóginn í Brunatorfum er að finna í BS-ritgerð Kristbjargar Ágústsdóttur, Skógræktarsvæði í fortíð, nútíð og framtíð -skipulagstillaga-, sem hún vann í Landbúnaðarháskóla Íslands, Umhverfisdeild. Skógurinn, sem nú er orðinn hinn myndarlegasti og ágætasta útivistarperla í nágrenni Hafnarfjarðar, varð ekki til af engu. Hér má m.a. sjá hvað þurfti til.

Ég vil þakka öllum þeim sem komu með mér í „Hraunið“ hvort sem var til að fá sér góðan göngutúr í fallegu umhverfi eða til að taka fyrir mig punkta á staðsetningartæki. Sérstakar þakkir fá viðmælendur mínir Kristinn Skæringsson, Arngrímur Ísberg og Bergljót Thoroddsen Ísberg. Þau lögðu til ómetanlegar heimildir bæði til verkefnisins og til mín persónulega. Að lokum vil ég þakka Ómari Smára Ármannssyni, Jónatani Garðarssyni, Áslaugu Traustadóttur og Þresti Eysteinssyni fyrir þeirra framlag til verkefnisins.
Nú á árinu 2006 eru 20 ár síðan Björn Þorsteinsson afi minn dó. Þessi ritgerð er tileinkuð honum og arfleið hans „Hrauninu“. 

Fortíð – Upphaf og þróun
Björn ThorsteinssonÍ upphafi 6. áratugarins féll hluti jarðarinnar Straums, um 2000 ha, til Skógræktar ríkisins. Var það Bjarni Bjarnason skólastjóri Héraðsskólans á Laugarvatni sem gaf landið en á þessum tíma var hann á Laugarvatni og tók þar meðal annars þátt í stofnun Menntaskólans á Laugarvatni 1953. Straumur var landstór jörð og þar hafði verið fjárbúskapur til margra ára (munnleg heimild, Kristinn

Skæringsson, 2. mars 2006). Landið var því mikið beitt, hrjóstrugt og ófrjótt, það kallaði á friðun og gróðursetningu. Svæðið kallast Almenningur og er sunnan við Kapelluhraun í Hafnarfirði. Í bók Hákonar Bjarnasonar, Ræktaðu garðinn þinn, sem fyrst kom út árið 1979 segir um þetta svæði: „Trjárækt hefst að nýju í Reykjavík, þegar Sigríður Bogadóttir, kona Péturs biskups Péturssonar, og Árni Thorsteinsson landfógeti flytja til bæjarins um og eftir miðja 19. öld. Létu þau sækja reyniviði suður í Almenninga og gróðursetja í garða sína“ (Hákon Bjarnason, 1987:14). Þessi tilvitnun sýnir að landið var áður gróðursælt. Svæðið var það fyrsta sem skógræktin eignaðist nálægt höfuðborginni. Það er enn í eigu Skógræktar ríkisins fyrir utan um 200 ha sem voru seldir (munnleg heimild, Þröstur Eysteinsson, 7. mars 2006).

Björn Thorsteinsson-2

Skógræktin hóf árið 1953 að girða um 200 ha af svæðinu og var því lokið ári síðar (munnleg heimild, Kristinn Skæringsson, 2. mars 2006). Með nýjum skógræktarlögum sem tóku gildi 1955 var skógræktarstjóra heimilt að leigja land til einstaklinga, félaga eða stofnana innan girðinga Skógræktar ríkisins, gegn því að leigutakar gróðursettu barrskóg í landið. Þessi leigusvæði voru með erfðafestu og gerðir voru sérstakir samningar um þau (lög nr.3/1955). Þetta voru kallaðar landnemaspildur og fengu landnemar allar plöntur gefins en ekki mátti byggja á landinu.

Þrátt fyrir að svæðið í Straumi væri ókræsilegt til gróðursetningar voru fjórir félagar sem gerðu samning við skógræktina um leigu á landi. Þeir fengu hver 10 ha svæði í suðvestur hluta girðingarinnar. Þessir menn voru: Björn Þorsteinsson (1918-1986), Broddi Jóhannesson (1916-1994), Marteinn Björnsson (1913-1999) og Þorbjörn Sigurgeirsson (1917-1988). Það sem þessir menn áttu sameiginlegt, auk þess að vera tengdir fjölskylduböndum, voru hugsjónir þeirra, eldmóður og áhugi á náttúrunni. Farið verður hér yfir stutt æviágrip hvers og eins.
Björn Þorsteinsson fæddist á Þjótanda í Villingaholtshreppi. Hann ólst upp á Hellu og í Selsundi undir Heklurótum. Hann tók doktorspróf árið 1971, var prófessor í sagnfræði við Háskóla Íslands en hafði áður kennt bæði við Menntaskólann við Hamrahlíð og Gagnfræðiskóla Vesturbæjar. Margar bækur og greinar voru gefnar út eftir hann meðal annars Íslandssaga til okkar daga sem kom út eftir andlát hans. Björn var einlægur sósíalisti og mikill hugsjónamaður, hann tók þátt í allskyns félagsstarfi meðal annars formaður í Tékknesk-íslenska vináttufélaginu og í Félagi íslenskra fræða sem og forseti Sögufélagsins. Vorið 1985 hlaut hann viðurkenningu fyrir ræktunarstörf sín í „Hrauninu“ frá Samtökum sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu fyrir merkilegt framlag til umhverfismála á höfuðborgarsvæðinu. Björn lést árið 1986, 68 ára gamall.

brunatorfur-7Broddi Jóhannesson fæddist í Litladalskoti í Lýtingsstaðahreppi í Skagafirði. Hann lauk doktorsprófi í sálarfræði í Munchen 1940 og fór þá að kenna við Kennaraskólann. Árið 1962 tók hann við skólastjórastöðu við Kennaraskólann. Árið 1971 varð skólinn að Kennaraháskóla Íslands og varð Broddi rektor hans til ársins 1975. Broddi setti sitt mark á þróun kennaramenntunar á Íslandi með hugsjónum sínum og dug. Hann var mikill náttúrunnandi og náttúruverndarsinni löngu áður en talað var um menn sem slíka. Broddi lést árið 1994, 78 ára gamall.
Marteinn Björnsson fæddist að Orrastöðum í Torfalækjarhreppi í Austur-Húnavatnssýslu. Hann lauk prófi í verkfræði við Danmarks Tekniske Højskole árið 1944 og vann sem verkfræðingur meðal annars hjá Bæjarverkfræðingnum í Reykjavík og Almenna byggingarfélaginu en einnig var hann með sjálfstæðan rekstur. Lengst af starfaði Marteinn sem byggingarfulltrúi Suðurlands með aðsetur á Selfossi (1958-83). Í því starfi vann hann mikið brautryðjandastarf við gerð leiðbeininga um gæði bygginga. Marteinn lést árið 1999, 86 ára gamall.

Þorbjörn Sigurgeirsson fæddist að Orrastöðum í Torfalækjarhreppi í Austur-Húnavatnssýslu. Hann var doktor í eðlisfræði og frumkvöðull greinarinnar á Íslandi. Hann var meðal annars forstöðumaður Eðlisfræðistofnunar frá upphafi hennar árið 1958 til ársins 1966 og stjórnaði uppbyggingu nýrrar verkfræði- og raunvísindadeildar við Háskóla Íslands. Þorbjörn starfaði fyrst og fremst sem tilraunaeðlisfræðingur og jarðeðlisfræðingur og varð þjóðkunnur á svipstundu fyrir hraunkælingu við eldgos í Heimaey árið 1973. Þorbjörn lést árið 1988, 70 ára gamall.

Í upphafi höfðu menn ekki mikla trú á að hægt væri að rækta skóg í „Hrauninu“ og var það í raun tilraunastarfsemi hjá Hákoni Bjarnasyni skógræktarstjóBrunatorfur-8ra að láta þá félaga hafa landið til að sjá hvort það væri hægt. Á Hákon að hafa sagt við Björn eitt sinn að þetta hafi gengið betur en hann hafði búist við þar sem hann hafði talið landið vera alltof þurrt. Í bók Markúsar Á. Einarssonar, Veðurfar á Íslandi, sést á korti að svæðið er í jaðri 1200 mm úrkomusvæðisins og því var oft rigning í „Hrauninu“ en þurrt í Hafnarfirði (munnleg heimild, Arngrímur Ísberg, 6. mars 2006). Þrátt fyrir að búið væri að girða svæðið var ekki friður fyrir sauðfé, þarna voru frekar og heimavanar kindur sem fóru í gegnum allar girðingar. Suðurhluti girðingarinnar var að auki lélegur, þoldi illa snjó og var til vandræða. Girðinguna var reynt að laga á hverju vori í stað þess að endurgera þar sem dýrt og erfitt var að komast að með girðingarefni og aðeins þá dró úr ágangi sauðfjár, nægjanlega til að í ljós kæmu ýmis fjölgresi sem ekki höfðu sést áður (munnleg heimild, Kristinn Skæringsson, 2. mars 2006). 

Brunatorfur - 9

Aðkoma Kristins Skæringssonar að „Hrauninu“ var tengd starfi hans hjá skógræktinni, fyrst sem starfsmaður í plöntuafgreiðslu og síðar sem skógarvörður Suðvesturlands. Kristinn fylgdist með þeim félögum við skógræktarstörfin og gaf þeim ráðleggingar. Þegar fyrst var tekið jólatré í „Hrauninu“ fór Kristinn með Þorbirni suður eftir en Þorbjörn var tregur við að höggva tré sem hann hafði gróðursett. Það var aðallega stafafura sem var gróðursett enda landið rýrt og hentaði fyrir furuna. Einnig voru gerðar tilraunir með margar tegundir. Plönturnar voru til reiðu hjá skógræktinni svo lengi sem þeir tóku við og þeir voru dugmiklir, landið kallaði á það (munnleg heimild, Kristinn Skæringsson, 2. mars 2006).

Brunatorfur-80Mikið var gróðursett í upphafi og þétt en ekki mikið klippt frá þar sem verið var að hugsa um skjólið. Eftir að Marteinn hóf störf á Suðurlandi árið 1958 og flutti á Selfoss fékk hann svæði fyrir austan og lagði áherslu á ræktun þess. Broddi gróðursetti heilmikið í „Hrauninu“ en fékk síðar land á Silfrastöðum í Skagafirði þar sem hann gróðursetti. Það voru því Björn og Þorbjörn sem sinntu „Hrauninu“ langmest. Þeir gengust upp í þessu og hrifu fólk með sér. Einn af þeim sem hreifst var Arngrímur Ísberg og fékk hann úthlutað svæði við hlið Marteins árið 1980 (munnleg heimild, Arngrímur Ísberg, 6. mars 2006).

Borgin

Landið hafði verið ofbeitt í langan tíma og því illa farið. Það var ekki fyrr en uppúr 1980 sem girðingin varð loks fjárheld. Í gegnum árin gengu félagarnir um svæðið og báru á áburð en einnig voru gerðar tilraunir með lífrænan heimilisúrgang. Auk þessa var gróðursett lúpína í leirflög til að undirbúa jarðveg betur. Þessi vinna bar þann árangur að allskonar gróður fór að spretta sem enginn vissi að væri til staðar eins og blágresi og fleiri blómategundir (munnleg heimild, Bergljót Thoroddsen Ísberg, 6. mars 2006). Félagarnir reyndu að gróðursetja Bæjarstaðabirki en einhverra hluta vegna gekk það ekki, það þreifst illa og lognaðist út af. Náttúrulega birkið tók aðeins við sér þegar kindin, eða ókindin eins og „Hraunverjar“ kölluðu hana, fór en eftir árið 1990 tók það virkilega við sér. Einirinn tók einnig við sér og reis upp og burknar sýndu sig í hellisskútum. Fuglalíf er að auki orðið töluvert í „Hrauninu“ (munnleg heimild, Arngrímur Ísberg, 6. mars 2006).

Fornasel

Stafafura er ríkjandi tegund í „Hrauninu“ en einnig má þar finna sitkagreni, rauðgreni, broddfuru, lindifuru (alpa-afbrigði), alaskaelri og þöll en ekki í miklum mæli. Mikið var reynt við lerki en því virtist ekki líka vel vistin, hvorki rússalerki né síberíulerki. Þar er einnig að finna tvo silfurreyni og töluvert af ilmreyni en hjónin Arngrímur og Bergljót týndu reyniber, dreifðu yfir birkikjarr og létu svo fuglana um afganginn. Einnig voru teknir sprotar af öspum og þeim stungið niður í leirflögin og gekk það vel. Aftur á móti þrifust ekki öll afbrigði. (munnleg heimild, Arngrímur Ísberg, 6. mars 2006). Í viðtali orðaði Arngrímur afraksturinn á þann hátt að: „þegar maður lítur yfir þessi ár sem við höfum verið þarna þá finnst mér að ávöxturinn hafi verið meiri og betri en maður bjóst við“.

Í ritgerðinni koma auk þessa fram tillögur og hugmyndir um nýtingu skógarins til framtíðar. Kristbjörgu er sérstaklega þökkuð afnotin af framangreindu efni.
Í Brunatorfum eru ýmsar fornleifar, bæði minjar og fornar götur. 

Heimild:
-Kristbjörg Ágústsdóttir, Skógræktarsvæði í fortíð, nútíð og framtíð -skipulagstillaga-, BS-ritgerð v/Landbúnaðarháskóla Íslands,  Umhverfisdeild.
Brunatorfur-4