Tag Archive for: Bruninn

Búrfell

Guðmundur Kjartansson skrifaði um „Hraunin kringum Hafnarfjörð“ í jólablað Þjóðviljans árið 1954:

Hafnarfjörður

Hraun ofan Hafnarfjarðar – uppdráttur GK.

„Ekki verður komist landveg til Hafnarfjarðar úr öðrum byggðarlögum án þess að fara yfir hraun, því að kvíslar úr hinu mikla hraunflæmi Reykjanesskagans ná út í sjó báðum megin fjarðarins. Auk þess stendur hálfur kaupstaðurinn (þ. e. fyrir norðan eða „vestan“ læk) í hrauni, en hinn hlutinn (fyrir sunnan læk) er hraunlaus. Hraunið í Vesturbænum er í meira lagi mishæðótt og setur einkennilegan og fáséðan svip á þennan bæjarhluta. Hraunhólar og drangar skaga jafnvel hærra upp en húsin; gömlu göturnar laga sig eftir landslaginu, brattar og krókóttar, en hinar nýrri, sem liggja beinna, eru ýmist hlaðnar Hátt upp yfir hraunbolla og gjár eða sprengdar djúpt niður í gegnum hraunkambana. Þarna í Vesturbænum, þar sem hraunið er hvað úfnast, er skrúðgarður Hafnfirðinga, Hellisgerði.

hellisgerði

Hellisgerði.

Að landslagi til, á sá skrúðgarður sér engan líka hér á landi. Þetta hraun, sem hluti Hafnarfjarðarbæjar stendur í, mun ég í þessu erindi kalla Hafnarfjarðarhraun til hægðarauka, því að það er ein heild, upp komið í einu gosi. En raunar heita ýmsir hlutar þess sérstökum nöfnum: Gálgahraun, Garðahraun, Vífilsstaðahraun, Svínahraun, Urriðakotshraun, Hafnarfjarðarhraun, Stekkjarhraun, Gráhelluhraun, Smyrlabúðarhraun o.fl.

Vífilsstaðahraun

Í Vífilsstaðahrauni.

Suðurbærinn í Hafnarfirði stendur í stórri eyju, sem hraun umkringja, og sunnan hennar (sunnan við Hvaleyri) tekur við mikil breiða af mörgum misgömlum hraunum, óslitin suður að Vogastapa. Hér verður aðeins getið þeirra tveggja af suðurhraununum, sem næst liggja Hafnarfirði. Þó að þetta greinarkorn eigi aðallega að fjalla um hraun, þá þykir mér hlýða að fara um það nokkrum orðum, hvernig umhorfs var hér í Firðinum, áður en hraunin urðu til. Ég ætla því að rekja í tímaröð helstu stórviðburði í sköpunarsögu Hafnarfjarðar frá ísöld.

Hvaleyrarhraun

Hvaleyrarhraun – loftmynd.

Röð viðburðanna má heita ljós, en því miður get ég ekki tímasett þá nema heldur ónákvæmt og skal ekki eyða mörgum orðum að því. Tímasetningin stendur þó til bóta við nánari rannsóknir.

Hamarinn

Markaðar klappir á Hamrinum.

Elsta bergmyndun Hafnarfjarðar, undirstaðan sem allt annað hvílir á, er grágrýti. Úr þeirri bergtegund er allt það, sem við myndum í daglegu tali kalla fasta klöpp, að undanskildum hraununum. Hamarinn, sem Flensborgarskóiinn stendur á, er úr grágrýti, ennfremur allar þær hæðir í grenndinni, sem hafa „holt“, „hlíð“, „brún, „hæð“ eða „alda“ að endingu í nafni sínu. Ásfjall er ein af rismestu grágrýtishæðunum. Víðast er grágrýtisklöppin hulin lausum jarðlögum, þ.e. ýmiss konar melum eða grónum jarðvegi, En hvar, sem til er grafið, kemur niður á klöppina fyrr eða síðar, og mjög víða liggur hún ber.

Ástjörn

Ástjörn og Ásfjall.

Hér verður ekki frá því sagt hvernig þetta öldótta grágrýtislandslag varð til, heldur hefjum við þar söguna, er það er að verða fullmyndað og hvert holt og hæð hefur fengið núverandi lögun sína í öllum stórum dráttum.

Búrfellshraun

Búrfellshraun – kort. Hraunið náði allt að Hraunum ofan Straumsvíkur (sjá Selhraun), en yngri hraun, s.s. Kapelluhraun, Óbrinnishólahraun, Skúlatúnshraun, Stóra-Bolla- og Tví-Bollahraun og Hraunhólshraun (Sandklofahraun) hafa þakið það að mestu leyti.

Einu hljótum við þó að veita athygli um uppruna þessa landslags: Sá, sem þar vann að síðastur hefur rist fangamark sitt skýrum stöfum í klappirnar. En það var jökulskjöldur sá, er lá yfir því nær öllu íslandi á síðasta jökulskeiði ísaldarinnar. Jöklar liggja ekki kyrrir, heldur mjakast undan hallanum og sópa með sér lausagrjóti og lausum jarðlögum; sem verða á vegi þeirra.

Hamarinn

Hamarinn – hvalbök.

Grjótið frýs fast í botnlagi jökulíssins og dragnast með. Með því grópar og rispar jökullinn klöppina líkt og skörðótt hefiltönn. Frostið sprengir nýtt lausagrjót upp úr botnsklöppinni, svo að það gengur meira til þurrðar. Flestar grágrýtisklappir í grennd við Hafnarfjörð eru skýrt rispaðar með þessu móti og rispurnar stefna allar h.u.b. frá SA til NV. Hreyfing jökulsins hefur verið undan hallanum, ofan af Reykjanesfjallgarði út í Faxaflóa. Einkar skýrar og fallegar jökulrispur eru uppi á Hamrinum fast norðan við Flensborgarskóla. Jökullinn hefur mætt fast á þessum grágrýtishnjót á botni sínum og fastast á þeim klöppum, sem hallar til suðausturs gegnt skriðstefnu hans; þar eru rispurnar dýpstar og allar brúnir ávalaðar og máðar.

Hamarinn

Hamarinn – upplýsingaskilti.

Um margar þúsundir ára svarf ísaldarjökull ofan af grágrýtisspildunni, sem þá mun hafa náð óslitin um allt það svæði, sem nú er sunnanverður Faxaflói og sveitir og heiðar upp frá honum allt til Þingvallavatns.
Í ísaldarlokin, sennilega fyrir fullum 10 þúsundum ára, bráðnaði þessi jökull fyrir batnandi loftslagi. En klappirnar bera æ síðan þær minjar hans, sem þegar er getið, og annars staðar eru þær þaktar jökulruðningi, þ.e. leir og grjóti, sem jökullinn ýtti með sér og lá eftir, er hann bráðnaði. Um þessar mundir leysti ísaldarjökla víða um heim, og við það hækkaði í öllum höfum. Fyrir þá hækkun var sennilega mikið af botni Faxaflóa ofan sjávar. Sjórinn hækkaði meir en upp að núverandi sjávarmáli. Mun hann hafa náð mestri hæð skömmu eftir að jökulinn leysti hér í grennd.

Hafnarfjörður

Ásfjall – útsýni yfir Hafnarfjörð.

Enn má glögglega sjá hér á holtunum við Hafnarfjörð og Reykjavík, hvar sjávarborðið hefur legið, er það var hæst. Þau merki köllum við efstu sjávarmörk. Þau liggja í 33 metra hæð yfir núverandi sjávarmál á Hvaleyrarholti sunnan við Hafnarfjörð, en um 10 m hærra á Öskjuhlíð í Reykjavík. Austur í Ölfusi er hæð efstu sjávarmarka um 60 m, uppi í Borgarfirði 80—100 m og Austur í Hreppum allt að 110 m.
Reykjaneseldar
Þessi mismunur stafar vitaskuld ekki af því, að sjávarfletinum hafi hallað, er hann lá sem hæst; heldur af því að þessir staðir hafa lyftst mismikið síðan. En ástæðan til þess, að sjórinn fjaraði aftur af undirlendinu, er sú, að landið tók að lyftast, er jökulfarginu létti af því. Áður hafði jökullinn sveigt það niður.

Fuglastapaþúfa

Fuglastapaþúfa.

En landið lyftist afar hægt, og því vann sjórinn á í bili og flæddi inn yfir láglendið, er hann hækkaði í ísaldarlokin, Markalínari efstu sjávarmörk kemur einna gleggst fram í því, að neðan hennar er stórgrýtið, sem jöklinum lá þar eftir, orðið að lábörðum hnullungum af að velkjast í brimi; en ofan línunnar verður þetta grjót snögglega með flötum hliðum og lítt slævðum brúnum, eins og jökullinn skildi við það. Þá hafa hnullungarnir einnig víða kastast upp í kamba, sem marka hæstu sjávarstöðuna einkar glöggt og eru í engu frábrugðnir nýmynduðum sjávarkömbum, nema hvað mold og þurrlendisgróður er nú kominn á milli steinanna.

Hrafna-Flóki

Minnisvarða um Hrafna-Flóka á Hvaleyrarholti.

Yzt á holtunum, “ þar sem brimasamast hefur verið, hafa sjóirnir sums staðar klappað bergstáli í þau. Efstu sjávarmörk eru einkar glögg hringinn í kringum Hvaleyrarholt, nema áð austan, þar sem mjótt eiði hefur tengt það við meginlandið. Frá Hvaleyrarholti má rekja þessa fornu fjöru í sömu hæð neðan við túnið á Jófríðarstöðum umhverfis hamarinn hjá Flensborg (sem aftur er fornt sjávarberg) og inn í Lækjarbotna. Þaðan heldur hún áfram, glögg malar- og hnullungafjara, en að vísu grasi gróin, laust neðan við Setbergsbæinn og um hlaðið á Þórsbergi. Loks hverfa þessi efstu sjávarmörk undir Hafnarfjarðarhraun, sem rann löngu eftir að sjórinn fjaraði frá þeim.

Rauðhóll

Rauðhóll – uppdráttur GK.

Fast sunnan undir Hvaleyrarholti stóð til skamms tíma lítill hóll að mestu úr rauðu hraungjalli og með grunna gígskál í kolli. Hann hét Rauðhóll. Nú er lítið eftir af Rauðhól. Í hans stað er komin stór malargryfja. Um 1940 var farið að taka þarna mikið af rauðamöl í vegi og fleira. Nú er hún upp urin að kalla, svo að undirlag hennar, sem er harðla fróðlegt, kemur í ljós. Eftir stendur þó stabbi í miðju, og sér enn fyrir botni gígskálarinnar uppi á honum. Þessi stabbi, sem er sjálfur hrauntappinn í gígnum, reyndist of fastur fyrir, er rauðamölinni var mokað á bíla, og því var honum leift.

Hraunhóll

Hraunhóll – námuvinnsla og sóðaskapur undir Vatnsskarði.

Rauðhóll er mjög lítið eldvarp. Þar hefur aðeins kornið upp eitt smágos, sem virðist ekki hafa afrekað annað en hrúga upp þessum gíghól. Ekki er að sjá, að neitt hraun hafi runnið frá honum. En því get ég Rauðhóls hér, að hann hefur að geyma furðu merkilegar og auðlesnar jarðsöguheimildir. Þær komu ekki í ljós fyrr en hann var allur grafinn sundur. Þessar heimildir eru vitaskuld jarðlög, og við lestur þeirra ber að byrja á neðstu línunni og lesa upp eftir. Þessi lög hafa eflaust myndast víðar, en máðst burt aftur, þar sem þau lágu ber en Rauðhóll hefur hreint og beint innsiglað þau og varðveitt með því að hrúgast ofan á þau og liggja þar eins og ormur á gulli.
Dýpst í malargryfjunni liggur einkennilegt leirlag allt að hálfum metra á þykkt. Þetta er svokölluð barnamold. Hún er mjúk og þjál og ljós-gulbrún að lit meðan hún er vot, en verður stökkari viðkomu og snjóhvít við þurrk. Ef barnamoldin er látin undir smásjá, kemur í ljós, að hún er því nær eingöngu úr örsmáum skeljum og skeljabrotum, af lífverum þeim, er nefnast kísilþörungar (eða eskilagnir eða díatómeur).

Rauðhóll

Rauðhóll 2020.

Þetta eru örsmáar svifverur, sem lifa víða í mikilli mergð í vatni, og teljast til jurtaríkisins, þó að margar þeirra syndi knálega um í vatninu. Þegar jurtirnar deyja, rotna þær upp, en skeljarnar falla til botns og mynda eðju eins og þá, sem hér var lýst. Danskur sérfræðingur hefur rannsakað fyrir mig lítið sýnishorn af barnamoldinni undan Rauðhól og fann í henni 117 tegundir kísilþörunga. Sú tegundagreining leiddi í ljós, að barnamoldin hefur sest til í ósöltu vatni, a.m.k. að mestu leyti. Af þessu er sýnt, að þarna hefur verið tjörn, oftast eða alltaf með ósöltu vatni, löngu áður en Rauðhóll varð til. Enn fremur sannar barnamoldin, að sjávarflóðið mikla í ísaldarlokin hefur þá verið að mestu fjarað, eða a. m. k. niður fyrir 10 m hæð yfir núv. sjávarmál, því að í þeirri hæð liggur hún.

Rauðamöl

Rauðamöl í Rauðhól.

Yfir barnamoldinni í Rauðhólsgryfjunni liggur fínn ægissandur morandi af skeljum og skeljabrotum. Skeljarnar eru allar af sjódýrum. Ég hef getað greint tíu tegundir af þeim örugglega, og eru allar þær tegundir enn algengar lifandi á sams konar sandbotni hér í Faxaflóa. Þetta lag sýnir, að sjórinn hefur hækkað aftur í bili og flætt inn yfir landið, þar sem tjörnin var áður.

Hraunhóll

Hraunhóll undir Vatnsskarði.

Enn fremur sýna dýrategundirnar, sem eru frekar kulvísar, að þetta hið síðara sjávarflóð var ekki öllu kaldara en Faxaflói er nú, og hefur því ekki getað átt sér stað fyrr en alllöngu eftir ísaldarlokin, er sjórinn var fullhlýnaður. Yfir þessum ægissandi liggur ennfremur þunnt lag af fínni, brúnni sandhellu, sem er miklu fastari í sér og hefur engar skeljar að geyma. Þykir mér sennilegt, að það sé fokmyndun, til orðin á þurrlendi, eftir að síðara sjávarflóðið fjaraði. Ekki hef ég fundið neinar gróðurleifar í þessu lagi, en það sannar engan veginn, að landið hafi verið ógróið. Ofan á þessu móhellulagi stendur loks Rauðhóll sjálfur. Hann hefur hrúgast þarna upp í litlu eldgosi, eins og fyrr segir, ofan sjávar, en. ef til vill nærri sjávarströndu. Rauðhóll er elsta gosmyndun í grennd við Hafnarfjörð — að undanskildu grágrýtinu, sem að vísu er hraun að uppruna, en runnið löngu fyrir ísaldarlok,; enda ekki kallað hraun í daglegu tali.

Rauðhóll

Rauðhóll – uppdráttur GK.

Nokkur rauðamöl er enn eftir í Rauðhól, en ekki auðvelt að ná henni. Það ber til, að hraunflóð eitt mikið hefur runnið kringum hólinn og ekki aðeins upp að honum, heldur yfir hin ystu börð hans, sem einnig eru úr Rauðamöl. Aðeins háhóllinn, sem stóð upp úr hrauninu, er burt grafinn. Hraunið kringum Rauðhól nefnist nú Hvaleyrarhraun. Það hefur runnið út í sjó sunnan við Hvaleyrarholt og komið að suðaustan, en verður ekki rakið lengra í átt til upptaka en að Stórhöfða. Þar hverfur það undir miklu yngra hraun, Brunann, sem síðar verður getið. í börmum malargryfjunnar í Rauðhól liggur Hvaleyrarhraunið víðast milliliðalaust á rauðamölinni. Það þótti mér lengi benda til, að aldursmunur væri lítill, jafnvel enginn, á hólnum og hrauninu.

Rauðamöl

Rauðamöl.

En þegar gryfjan stækkaði, kom reyndar í ljós á litlum kafla í nýja stálinu örþunnt moldarlag og þar yfir svart öskulag, hvort tveggja á milli rauðamalarinnar og hraunsins. Í öskunni fundust kolaðir lyngstönglar. Þetta þunna millilag með jurtaleifum sínum sannar ótvírætt, að þarna hefur þó verið komin lyngtó með þunnum moldarjarðvegi neðarlega í austurbrekku Rauðhóls, áður en Hvaleyrarhraun rann þar yfir. Askan er sennilega úr sama gosi og hraunið, sem yfir henni liggur.

Hellnahraun

Eldra-Hellnahraun (svart), Yngra-Hellnahraun (grátt), Óbrinnihólabruni (ljósgrár) og Kapelluhraun (blátt). Fært inn á nútíma loftmynd.

Hvaleyrarhraun er einna fomlegast hrauna í grennd við Hafnarfjörð, og má vel vera, að það sé elst þeirra allra. En það er helst ellimarka á því, að sjórinn hefur klappað í það nokkurra mannhæða háan bergstall um núverandi sjávarmál, þar sem nú heita Gjögrin sunnan við Hvaleyrarsand.
Ég hef áður getið að nokkru Hafnarfjarðarhrauns, þ.e. hraunsins sem nær út í Hafnarfjörð norðanverðan og kaupstaðurinn stendur að nokkru leyti í. Þetta hraun er auðvelt að rekja til upptaka. Það hefur komið upp í Búrfelli eða Búrfellsgíg skammt norðaustur frá Kaldárseli. Þaðan hafa runnið hraun eitthvað til suðurs og suðvesturs, en þau hverfra skammt frá upptökum undir yngri hraun, og verður eigi vitað, hvert þau hafa komist.

Garðahraun

Í Garðahrauni.

En langveigamesti hraunstraumurinn er Hafnarfjarðarhraun, sem teygist til norðvesturs og nær niður í sjó báðum megin við Álftanes, annars vegar að Lambhúsatjörn, sem er vogur inn úr Skerjafirði, er vogur inn úr Skerjafirði, hins vegar í Hafnarfjörð. Þetta er 12 kílómetra vegur mælt eftir miðjum hraunstraumnum. Minni kvísl úr þessum hraunstraumi hefur runnið sunnan við Setbergshlíð og breiðst þar yfir, sem nú heitir Gráhelluhraun; þaðan hefur hún runnið í mjóum taumi áfram ofan lækjargil og komið saman við meginhraunið aftur niðri á Hörðuvöllum.

Búrfell

Gígur Búrfells.

Í Búrfelli er stór og djúpur gígur, en það er lítið einstakt eldfjall, aðeins 179 m yfir sjó og fáir tugir metra frá rótum. Sennilegast þykir mér, að þar hafi gosið aðeins einu sinni og öll hraunin, sem þaðan hafa runnið, séu því jafngömul, en ekki er þetta óyggjandi, þó að ég ætli nú að gera ráð fyrir því. Hitt er fullvíst, að það sem hér er kallað Hafnarfjarðarhraun, hefur runnið allt í einu lagi.
Reynum nú að gera okkur í hugarlund, hvernig það land leit út, sem Hafnarfjarðarhraun breiddist yfir. Vitaskuld renna hraunflóð æfinlega undan halla og ekki skáhallt, heldur í þá átt sem hallinn er mestur. Það má því t. d. gera ráð fyrir, að hraun, sem lent hefur í árfarvegi, yfirgefi hann ekki úr því, heldur fylgi honum svo langt sem magn þess endist til.

Maríuhellar

Í Maríuhellum.

Nú liggur meginstraumur Hafnarfjarðarhrauns — sá sem lengstan veg hefur runnið frá upptökum — norðvestur á milli Setbergshlíðar og Vífilstaðahlíðar. Þá er varla heldur að efa, að vatn, sem komið hefði upp á sama stað og hraunið, hefði einnig runnið sömu leið.

Kaldá

Kaldárbotnar.

Með þetta í huga er fróðlegt að athuga hinar miklu vatnsuppsprettur skammt frá Búrfelli, þar sem heita Kaldárbotnar. Þar eru upptök Kaldár, eins og nafnið bendir til, og þar er enn fremur hið nýja vatnsból Hafnfirðinga. Kaldá er ólík flestum ám í því, að hún er vatnsmest í upptökunum, en minnkar stöðugt á leið sinni. Hún kemst ekki nema röskan kílómetra frá upptökunum; þá er hún öll sigin í jörð Þessa skömmu leið rennur hún eftir hrauni, sem er ættað úr Búrfelli og virðist helst jafngamalt Hafnarfjarðarhrauni eða með öðrum orðum hluti af því. En einnig í miðri höfuðkvísl Hafnarfjarðarhrauns, hjá Gjáarrétt norðvestur frá Búrfelli, sér í vatn niðri í djúpum gjám, og í því vatni er mjög greinilegur straumur til suðvesturs.

Kaldá

Kaldá – farvegur árinnar fyrrum, áður en Búrfellshraunin runnu.

Áður en Hafnarfjarðarhraun rann, hlýtur allt þetta vatn, sem nú rennur um upptakasvæði þess — bæði ofanjarðar (í Kaldá) og neðanjarðar (í gjám) — að hafa runnið ofanjarðar — sem vatnafall — þá leið, sem hraunið rann síðan. Við getum kallað þetta vatnsfall „Fornu-Kaldá“.  Að líkindum hefur hún verið drjúgum meira vatn en sú Kaldá, sem við þekkjum nú, því að botn hinnar fornu Kaldár lak ekki frá vatninu. Hún rann eftir hraunlausum dal undir Vífilstaðahlíð norður að Vífilsstaðatúni. En hvar rann hún í sjóinn? Hraunið gefur okkur einnig ákveðna bendingu um það: Meginhluti þess féll út í Hafnarfjörð. Og þar sem hraunið er þykkast, þar liggur árfarvegurinn enn undir því.

Kaldá

Kaldá.

Forna-Kaldá hlýtur að hafa runnið í Hafnarfjörð. En þá var fjörðurinn lengri en nú, ekki af því að sjórinn stæði hærra — hann var lækkaður niður að núverandi sjávarmáli, áður en hraunið, rann — heldur styttist fjörðurinn við það, að hraunið fyllti upp í innstu voga hans. Ekki verður vitað með vissu, hvar fjörðurinn endaði. Ef til vill hefur hann náð langleiðina upp að Vífilsstöðum, ef til vill skemmra. Vitaskuld mætti kanna þetta með því að bora gegnum hraunið og finna hvar undirlag þess kemst upp fyrir sjávarmál. Að sjálfsögðu hefur innsti hluti fjarðarins verið grunnur. Hann hefur smám saman verið að fyllast af framburði Fornu-Kaldár. Trúlegt er, að þar hafi verið leirur og mikið útfiri, og ef til vill voru grösugir óshólmar milli árkvíslanna. En nú er þetta allt innsiglað af hrauninu, nema sá leirinn, sem lengst barst út eftir firðinum. Hann stendur út undan hraunbrúninni og þekur þar fjarðarbotninn í þykku lagi. Það leirlag hefur reynst heldur ótraust undirstaða undir hina nýju hafnargarða. Þeir hafa hvað eftir annað sigið og sprungið.

Búrfell

Búrfell.

Af því, sem ég hef nú sagt frá Búrfelli og Hafnarfjarðarhrauni, mætti ætla, að Hafnarfjarðarbæ stafaði nokkur hætta af eldgosum og hraunflóðum: Þá leið, sem hraun hefur áður runnið, gæti hraun runnið aftur! En þessi hætta er miklu minni en ég hef til þessa gefið í skyn: Búrfell, þar sem hraunið kom upp, og stór landspilda hið næsta því öllum megin hefur sigið, eftir að hraunið rann. Hin signa spilda hefur brotnað sundur í rima milli sprungna, sem stefna allar frá norðaustri til suðvesturs. Barmarnir hafa sigið mismikið, svo að stallur er um sumar sprungurnar, eystri barmurinn þá jafnan lægri en hinn vestri, rétt eins og á Almannagjá. Sums staðar eru sprungurnar gínandi gjár, en annars staðar saman klemmdar og koma aðeins fram sem bergveggur. Einn slíkur sigstallur brýtur Hafnarfjarðarhraun um þvert við suðurenda Vífilsstaðahlíðar. Sá er 5—10 m hár og myndi einn sér veita verulegt viðnám nýju hraunflóði. En raunar er sigið meira en nemur hæð þessa stalls.

Búrfell

Misgengi í Helgadal – uppdráttur GK.

Önnur misgengissprunga liggur vestan við Helgadal, sem er sigdalur, og sú klýfur sjálft Búrfell í miðju. Misgengið veldur því, að eystri gígbarmurinn er nú lægri en hinn vestri. En þetta var öfugt, meðan Hafnarfjarðarhraun var að flæða upp úr gígnum. Það rann vestur úr honum, og eru þar mjög fagrar og lærdómsríkar hrauntraðir eftir rennsli þess. Þær nefnast Búrfellsgjá (þótt þær séu raunar engin gjá í venjulegri merkingu) og eru óslitnar um nokkurra kílómmetra veg vestur og norður frá fjallinu. Hraun, sem nú flæddi upp úr Búrfellsgíg, tæki ekki þessa stefnu, heldur rynni austur eða suður af.

Kaldá

Farvegir Kaldár.

Hrakningasögu Kaldár lýkur ekki með uppkomu Hafnarfjarðarhrauns. Það lokaði leið hennar til Hafnarfjarðar, eins og þegar er getið. En það er engan veginn óhugsandi, að hún hafi samt um þúsundir ára eftir allar þær ófarir komist ofanjarðar alla leið til sjávar — og þá fyrir sunnan Hafnarfjörð, litlu innar á ströndinni en þar, sem Straumsbæirnir eru nú. En hvort sem hún hefur nú komist til sjávar eða ekki, þá er fullvíst, að hún hefur um langt skeið náð miklu lengra áleiðis en nú.

Óbrinnishólar

Óbrinnishólar eru nú nánast óþekkjanlegri frá fyrri tíð vegna gífulegrar efnistöku.

Þá kemur enn upp eldgos, hið síðasta, sem orðið hefur í nágrenni Hafnarfjarðar. Að þessu sinni gaus úr sprungu, sem nú markast af gígaröð með fram Undirhlíðum, langleiðina frá Vatnsskarði til Kaldárbotna. Í syðsta og stærsta gíghólnum skammt frá Krýsuvíkurveginum eru nú stórar malargryfjur. Frá þessari sprungu rann hraun það, sem nú er kallað Bruninn í heild, en efri hlutinn Óbrinnishólabruni og fremsta totan, sem komst alla leið niður í sjó, Kapelluhraun.

Kapelluhraun

Kapelluhraun og nágrenni – fornar leiðir og örnefni.

Þetta hraun nær alla leið norður að Kaldá og hefur bersýnilega ýtt henni eitthvað norður á bóginn. Hún fylgir nú jaðri þess ofan á Búrfells- (eða Hafnarfjarðar-) hrauninu, sem fyrr getur. Vatnið úr Kaldá virðist allt hverfa inn undir þennan hraunjaðar. Ekki er nú annað sennilegra en hinn forni farvegur Kaldár liggi undir Brunanum þar, sem hann er þykkastur, og áfram í átt til sjávar undir hinni tiltölulega mjóu álmu Brunans, sem endar í Kapelluhrauni.

Smyrlabúð

Smyrlabúð – misgengi; uppdráttur GK.

Bruninn (að meðtöldu Kapelluhrauni) er unglegastur að sjá og vafalaust einnig yngstur allra hrauna, sem runnið hafa út í Faxaflóa sunnanverðan. Hann breiddist yfir allan suður- og vesturhluta Hvaleyrarhraunsins, sem fyrr var getið, og féll út í sjó fram af lágu sjávarbergi vestan við Gjögrin og myndaði þar dálítinn tanga út í sjóinn. Ekki hefur sjórinn enn brotið þann tanga að neinu ráði. Í Kjalnesinga sögu er getið hrauns, sem þar er kallað Nýjahraun, og er þar varla öðru til að dreifa en Brunanum. Og í máldaga, sem talinn er vera frá miðri 15. öld, er nafnið Nýjahraun haft alveg ótvírætt um það, sem nú heitir þykir nafnið Nýjahraun (sem nú hefur fyrnst) benda eindregið til, að menn hafi verið sjónarvottar að myndun hraunsins, það hafi ekki runnið fyrr en á landnámsöld eða söguöld. Að vísu hefur engin frásögn um það eldgos varðveist til þessa dags.

Bollar

Tvíbollar.

En annálariturum hefur löngum þótt annað merkilegra til frásagnar en náttúruviðburðir, og þögn þeirra sannar ekkert. Enda er fullvíst, að fleiri eldgos hafa orðið á Reykjanesskaga, löngu eftir að land byggðist, án þess að þeirra sé nokkurs staðar getið í annálum. Hér hlýt ég að enda þetta gloppótta söguágrip, þar sem aðeins stórviðburða er getið, því að síðan Kapelluhraun rann í sjó fram á fyrstu öldum Íslands byggðar, hafa engin þau tíðindi orðið í nágrenni Hafnarfjarðar, er sambærileg séu að mikilfengleika þeim sem nú var sagt frá.“

Heimild:
-Guðmundur Kjartansson, Hraunin kringum Hafnarfjörð. Þjóðviljinn 24. 12. 1954, jólablað, bls. 10-12.
-Náttúrufræðingurinn 19. árg. 1. hefti 1949, Guðmundur Kjartansson, Rauðhóll, bls. 9.-19.

Mygludalir

Búrfell – Kringlóttagjá nær.

Kapelluhraun

Ætlunin var að ganga upp og niður meginhrauntröð Nýjahrauns, sem myndaðist haustið 1151, frá upptökunum og til baka. Í tröðinni, sem er bæðidjúp og breið á köflum, eru formfagrar hraunmyndanir, auk þess sem landslagið á svæðinu er ægifagurt.
SnókalöndAð þessu tilefni var gengið inn í Nýjahraun (Kapelluhraun) við gatnamót Krýsuvíkurvegar og Bláfjallavegar. Norðan gatnamótanna eru hin grónu Snókalönd, hluti Hrútagjárdyngjuhrauns, og sunnan þeirra er hin stórbrotna hrauntröð Rauðhóls. Fyrir hugsandi hugmyndasmiði og myndlistamenn eru fáir staðir áhugaverðari.
Jöklar síðasta jökulskeiðs hurfu af Reykjanesi fyrir um 12.000 – 13.000 árum og er það nokkru fyrr en annars staðar á landinu. Jarðlög Reykjanesfólkvangs eru grágrýtishraun frá síðustu hlýskeiðum ísaldar, móberg og bólstraberg sem hafa myndast undir jöklum síðustu jökulskeiða og hraun runnin á nútíma, það er eftir að jökull hvarf af svæðinu.
Í Krýsuvík, og þar suður af allt til sjávar, er grágrýti sem jöklar hafa sorfið og skafið. Það er væntanlega leifar af fornum dyngjum og hefur líklega myndast á síðasta hlýskeiði sem lauk fyrir 120 þúsund árum. Geitahlíð er gömul grágrýtisdyngja og grágrýtishella er líka suður af Lönguhlíð. Hraunkarl KapelluhraunsSunnan, vestan og norðan Kleifarvatns er móberg og Núpshlíðarháls og Sveifluháls eru móbergshryggir sem hafa hlaðist upp undir jökli síðasta ísaldarskeiðs. Syðst og austast í fólkvanginum eru t.d. Krýsuvíkurhraun og Herdísarvíkurhraun, forsögulegt sprunguhraun. Norðan þess eru nokkur hraun runnin úr Brennisteinsfjöllum eftir landnám og á 14. öld. Vestast í fólkvanginum er Ögmundarhraun frá árinu 1151. Þá opnaðist 25 km löng gossprunga og rann hraun bæði til norðurs og suðurs allt til sjávar. Norðurelfa þessa hrauns er Kapelluhraun sunnan Hafnarfjarðar. Ögmundarhraun rann yfir þéttbýlisbyggð Krýsuvíkur sem þá stóð á sjávarbakka við grunna vík (nafnið „krys“ táknar grunna skoru í ask) innan í landinu, allt nema kirkjuna, skála og mikla garða, sem nú liggja innan Húshólma og Óbrennishólma. Þar eru og fornar fjárborgir (nema borgin mikla í Óbrennishólma hafi verið hringlaga virki). Heita má að svæðið sé órannaskað þrátt fyrir merkilegheitin, en yfirlýst „stefna“ Fornleifaverndar ríkisins hefur frá upphafi verið sú að „engar merkilegar fornleifar er að finna á Reykjanesskaganum“ (haft eftir forstöðumanni stofnunarinnar í fornleifafræðitíma í HÍ 2006). Viðbrögð stofnunarinnar sem slíkrar svo og aðgerðir hennar hafa hingað til endurspeglast í þessum orðum.
Hrauntröð NýjahraunsReykjanesið er þó óumdeilanlega jarðfræðilega merkilegt, þ.e. gosbeltið sem slíkt, landmótunin og ekki síst nútímaleg hraunamyndunin. Á Reykjanes gosbeltinu eru gos þekkt frá nútíma. Segja má að Reykjanes skaginn sé þakinn gosmenjum því að nánast milli allra stapa og hryggja eru hraun frá nútíma. Það einkennir Reykjanesskagann hversu gróf þessi hraun eru og landslagið virðist því oft snautt af gróðri. Engar ár renna á yfirborði og því er lítið sem getur haldið lífi í gróðri. Á Reykjanesskaganum kemur Atlantshafshryggurinn á land og má ímynda sér að Reykjanestáin yst á skaganum sé þar sem hann er að teygja sig upp á landið.
Þrjú goskerfi eru á Reykjanesskaganum; Reykjaneskerfið, Trölladyngjukerfið og Brennisteinsfjöll. Þrjár gerðir gosmyndana einkenna Reykjanesskagann en það eru litlar dyngjur sem hafa framleitt að mestu leyti framleitt Pikrít, önnur tegund er sprungugos sem hafa myndað hraun eins og Ögmundarhraun og Kapelluhraun.
Sprungugos hafa einnig skilið eftir sig gjall- og klepragíga og gjósku- og sprengigíga. Berggerð þeirra er oftast
þóleiít. Þriðja gerð gosmyndana eru stórar dyngjur en líklega eru um 26 dyngjur á skaganum frá nútíma. Þær eru því áberandi á Reykjanesskaganum, en stundum er erfitt að taka eftir þeim þar sem hallinn er svo lítill og
stærð þeirra er slík að auðvelt er að sjá þær ekki.

Myndun í Nýjhrauni

Talið er að stóru dyngjurnar séu allar eldri en 4500 ára (Ari Trausti 2001). Hrútadyngjuhraun varð til í Hrútagjá fyrir u.þ.b. 4.500 – 5000 árum síðan.
Nálægt gatnamótum Krýsuvíkurvegar og Bláfjallavegar, sem fyrr segir, eru Snókalöndin. Allt umleikis er vaxið hraungambra, en löndin sjálf eru gróin birki, enda miklu mun eldri en umhverfið. Ólafur Þorvaldsson segir frá Snókalöndunum í grein sinni um „Fornar leiðir…“ í Árbók Hins íslenska fornleifafélags 1943-48: „Í nýja brunanum, spölkorn austur af stígnum, eru tveir dálitlir blettir eða hólmar, sem bruninn hefur ekki náð að renna yfir. Ekki ber þau hærra en umhverfið og sjást því ekki lengra til og helst ekki fyrr en að er komið. Hestfær götuslóð liggur norður í Snókalönd, nokkur austar en þar sem Stórhöfðastígurinn kemur suður úr brunanum. Ekki eru Snókalöndin jafnstór, það vestra nokkur stærra og slóð á milli. Hvað liggur til grundvallar þessu nafni veit víst enginn lengur en á tvennt mætti benda. Í fyrra lagi að þarna hafi vaxið villihvönn, snókahvönn – geitla. Í öðru lagi að blettir þessi, sem hafa verið miklu gróðurríkari en umhverfið, hafi fengið nafnið land af töngum þeim og hornum sem hinn ójafni brunakantur myndar þarna í grennd og gæti því þýtt „Krókalönd“.
Í orðabók Blöndals segir að snókur sé angi eða útskiki út frá öðru stærra. Gætu því tangar þeir, sem út úr brunanum ganga, verið stofn að þessu nafni. Þó finnst mér fyrri tilgátan sennilegri. Líkur benda til að þarna hafi verið nokkur skógur og máske verið gert að kolum fyrrum.
Gatan út í Snókaköndin bendir á nokkra umferð þangað. Sökum fjarlægðar þessa staðar frá alfaraleið óttast ég að svo geti farið að hann gleymist og nafnið týnist þar sem þeir, er mest fóru þar um og héldu með því við mörgum örnefnum, voru fjármenn og smalar en þeim fækkar óðum um þessar slóðir sem víðar.“
Snókalöndin eru hraunsvæði sem máttarvöldin, sem stóðu að jarðeldunum 1151 og skópu Nýjahraun (Kapelluhraun/Brunann) virtust hafa haft áhuga á að hlífa. Háir hraunhryggir hafa hlaðist upp með þeim og beint glóandi hrauninu frá. Eftir standa gróðurvinar þær er Ólafur lýsir.
Garðmyndanir í Nýjahrauni - Straumur og ÁsAðgengi að Snókalöndunum er ágætt og stutt að ganga inn í þau frá Krýsuvíkurvegi. Þá er jafnframt kjörið tækifæri til að skoða þar aðstöðu fjárbúskapsins frá Ási, bæði gerðið og garðinn við Stórhöfðastíginn. Ofar eru garðhleðslur landamarka Straums og Áss. Arnarklettar sjást vel inn í Brunanum nokkru suðaustan Stórhöfða.
Kapelluhraunið er á köflum mjög úfið apalhraun, en jaðrar þess, ofan hrauntraðarinnar, eru slétt helluhraun. Að þessu sinni voru litbrigðin óvenjumikil því það haustaði að. Víðirinn var orðinn gulur, bláberjalyngið brúnt og mosinn var bæði hvanngrænn og grár eftir undangengin regnskúr. Mosahraunin verða nefnilega grá í þurrkum, en græn í vætutíð. Litbrigðin margfaldast þannig áþeim tímamótum fyrir áhugasamt listafólk, hvort sem um er að ræða ljósmyndara eða málara.
Kapelluhraun er, se, fyr segir, ákaflega fallegt úfið á köflum og mosagróið apalhraun en hörmung er að sjá hvernig karganum hefur verið rutt af yfirborði þess á stórum svæðum þess vestanverðum. Hraunið er fínkornótt með einstaka tiltölulega stórum dílum. Dílarnir eru oftast plagioklas, pyroxen og einstaka ólivín. Stærð hraunsins er 11,6 km2. Eitt sinni var rudd braut í gegnum hraunið en hún hefur að mestu verið eyðilögð að undanskildum um 20 metra kafla við litla rúst í hrauninu, sem er nefnd Kapellan. Árið 1950 rannsakaði Kristján Eldjárn þessa kapellu og fannst þar m.a. lítið líkneski af heilagri Barböru sem er  verndardýrlingur ferðamanna. Hún var góð til áheita gegn hvers konar eldsgangi. Einnig var hún verndardýrlingur stórskotaliðsmanna, slökkviliðs- manna, námumanna,verkfræðinga og jarðfræðinga. Þess má geta að Kapellutóftin er á fornminjaskrá og þar má sjá eftirlíkingu af líkneskinu.
Um aldur Kapelluhrauns hefur Haukur Jóhannesson og Sigmundur Einarsson ritað árið 1989; Krýsuvíkureldar I. Aldur Ögmundarhrauns og Miðaldalagsins. Jökull 38. 71-87. Einnig Sigmundur Einarsson, Haukur Jóhannesson og Árný Erla Sveinbjörnsdóttir 1991. Krísuvíkureldar II. Kapelluhraun og gátan um aldur Hellnahrauns yngra. Jökull 41. 61-80. Þá rituðu Haukur Jóhannesson og Sigmundur Einarsson 1998 um; Hraun í nágrenni Straumsvíkur. Náttúrufræðingurinn 67. 171-177. Páll Imsland sitaði 1998; Um náttúruvár á Straumsvíkursvæðinu. Náttúrufræðingurinn 67. 263-273. Nýjahraun í dag - 856 árum síðar
Af þessum rannsóknum og greinum höfunda má m. a. ráða, að líkur séu á að þunnfljótandi hraunstraumar geti runnið í sjó fram frá gosstöðvum vestan Undirhlíða og víðar yfir það svæði sem núverandi álverksmiðja stendur á auk þess sem önnur mannvirki svo sem raflínur og vegir eru í hættu á þessu svæði og víða í grenndinni.
Í framangreindum skrifum kemur m.a. fram að; yngsta hraunið á svæðinu er oftast nefnt einu nafni Kapelluhraun, þó svo að það heiti eigi í raun aðeins við nyrsta hluta þess. Syðri hluti hraunsins hefur gengið undir heitinu Nýibruni. Kapelluhraun er hluti af hraunum sem runnu í Krísuvíkurrein árið 1151 (Haukur Jóhannesson og Sigmundur Einarsson 1989). Þá opnaðist gossprunga sem er alls um 25 km löng en þó slitin í miðjunni. Sunnan á skaganum rann Ögmundarhraun í sjó fram og tók það af gamla Krísuvíkurbæinn. Norðan á skaganum rann Kapelluhraun, aðallega frá gígum við Vatnsskarð sem nú heyra sögunni til vegna gjallvinnslu. Hraunið rann til sjávar í Straumsvík … Álverið í Straumsvík stendur á hrauninu.“

Hrauntröð Nýjahrauns - Fjallið eina fjær

Í niðurlagi greinarinnar segja höfundar m. a. (s. 177): „Eldgos á Rekjanessskaganum virðast koma í hrinum og á milli er minni virkni. Hrinurnar verða á um þúsund ára fresti og hver hrina stendur yfir í nokkur hundruð ár. Síðasta hrinan hófst upp úr miðri tíundu öld og endaði um 1240. Í hverri hrinu verða umbrot í öllum eldstöðvareinunum á skaganum og í síðustu hrinu færðist virknin frá austri til vesturs. Einnig er nokkuð víst að verði eldgos í Brennisteinsfjöllum og í norðanverðum Móhálsadal munu hraun þaðan renna niður til strandar milli Hrútagjárdyngjunnar og Hvaleyrarholts, sömu leið og Hellnahraun eldra og yngra og Kapelluhraun.
Af ofansögðu er ljóst að hraun geta runnið til Straumsvíkur bæði frá Brennisteinsfjallarein, en þar gaus síðast á 10. öld, og frá Krísuvíkurein þar sem síðast gaus um miðja tólftu öld. Síðast urðu með vissu eldsumbrot á Reykjanesskaga á fyrri hluta 13. aldar í Reykjanesrein. Nær útilokað er að hraun frá gosum í þeirri rein geti runnið til Straumsvíkur en hins vegar gæti þar hugsanlega orðið vart landsigs vegna meðfylgjandi gliðnunar í reininni.“

Gata í Nýjahrauni

Í grein sinni um náttúruvár á Straumsvíkursvæðinu (sjá nr. 6 hér að ofan, s. 271) segir Páll Imsland m. a.: „Eftir Krísuvíkurelda á 13. öld hafa ekki komið upp hraun í nágrenni Straumsvíkursvæðisins. Landslagi er þannig háttað að hraun sem koma upp vestanundir Undirhlíðum eiga ekki annarra kosta völ en að renna út á hraunflákana til vesturs og norðurs og leita undan halla og þrýstingi frá kvikunni sem flæðir úr gígunum í átt til strandar, í átt að Straumsvík. Áður en að álverinu sjálfu kemur eru raflagnir, spennuvirki, þjóðvegur og fleira slíkt í rennslisleiðum hrauna; mannvirki sem skipta verulegu máli, bæði fyrir starfrækslu álversins og alla byggð sunnar á skaganum. Það er því ljóst að hraunflóðahætta er þarna til staðar, en ekkert er þekkt sem bendir til yfirvofandi hættu. Náttúran á svæðinu hefur ekki sýnt nein þekkjanleg merki þess að þarna séu eldgos í uppsiglingu. Á hitt ber samt að líta að þetta er afkastamikið, virkt eldgosasvæði þar sem ekki hefur gosið í um 850 ár, og til eru vísbendingar um að virknin á Reykjanesskaganum gangi í hrinum með nokkurra alda aðgerðarlitlum hléum. Hrinur þessar einkennast af jarðskjálftum, sprungumyndun og eldgosum.“
Þegar gengið var til suðurs með austurjaðri hrauntraðar Rauðhóls mátti sjá þar gamla götu, að mestu mosavaxna. Hún gæti hvort sem er verið eftir skepnur eða menn. Þeir, sem vel þekktu til og áttu leið um Undirhlíðaleið milli Kaldársels og Krýsuvíkur, gætu með góðu móti hafa smeygt sér þarna niður Brunann með greiðfærum hætti því leiðin er jafnvel auðveldari yfirferðar en Stórhöfðastígurinn, sem þarna er nokkru sunnar.
Hraunið, tröðin eða hraunmyndanir í Kapelluhrauninu eru einu sagt ómótstæðilegt – en fara þar varlega svo ekki hljótist af skrokkskjóður eða beinbrot. Göngusvæðið er eitt hið aðgengilegasta á höfuðborgarsvæði Hafnarfjarðar.
Frábært veður. Gangan tók 1 klst og 1 mín.

Heimildir m.a.:
-Jónas Guðnason.
-Hjörleifur Guttormsson.
-Ólafur Þorvaldsson 1949. Fornar slóðir milli Krýsuvíkur og Hafnarfjarðar. Árbók Hins íslenska fornleifafélags 1943-48. Bls. 81-95.

Nýjahraun

Draughólshraun

Gengið var um Brunann, öðru nafni Nýibruni, Nýjahraun eða Kapelluhraun.
Bruninn - Óbrinnishólar og Helgafell fjærKapelluhraun myndaðist úr gíg[um] á 25 metra langri sprungu sem opnaðist í eldgosahrinu er hóft 1151 og hraun rann til sjávar bæði norðan og sunnan megin við Reykjanesskagann. Á síðustu árum hefur mikið efni verið tekið úr hrauninu til uppfyllingar við álverið [sem og úr Rauðamel] og í húsgrunna og götur á Stór- Reykjavíkursvæðinu og það sléttað.
Álverið við Straumsvík stendur á Nýjahrauni/Kapelluhrauni og er allra yngsta hraunið á svæðinu í kringum Hafnarfjörð. Í umræðum meðal Hraunafólksins var hraunið jafnan nefnt Bruninn og brúnir hans Brunabrúnir vestri og eystri. Hann á upptök undir Undirhlíðum og hefur komið úr gígaröðum, sem virðast vera tengdar misgengissprungum. Kapelluhraun er hluti af hraunum sem runnu hjá Krýsuvíkurkerfinu fyrstnefnda.
Kapelluhraun er ákaflega fallegt [þ.e.a.s. sá hluti þess sem enn er óraskaður], úfið og mosagróið apalhraun. Hraunið er fínkornótt með einstaka tiltölulega stórum dílum. Dílarnir eru oftast plagioklas, pyroxen og einstaka ólivín. Stærð hraunsins er 11,6 km2 – 13.7 km2. Eitt sinni var rudd braut í gegnum hraunið en hún hefur að mestu verið eyðilögð að undanskildum um 10 metra kafla við litla endurgerða rúst í hrauninu, sem er nefnd Kapellan.

Hraunkarl í Brunanum

Árið 1950 rannsakaði Kristján Eldjárn þessa kapellu og fannst þar m.a. lítið líkneski af heilagri Barböru sem er  verndardýrlingur ferðamanna. Hún var góð til áheita gegn hvers konar eldsgangi.
Af þessum rannsóknum má m. a. ráða, að líkur séu á að þunnfljótandi hraunstraumar geti runnið í sjó fram frá gosstöðvum vestan Undirhlíða og víðar yfir það svæði.
Sem dæmi má nefna eftirfarandi úr grein Hauks Jóhannessonar og Sigmundar Einarssonar 1998, s. 175, sjá nr. 5 hér að ofan.:
„Kapelluhraun.
Yngsta hraunið á svæðinu er oftast nefnt einu nafni Kapelluhraun, þó svo að það heiti eigi í raun aðeins við nyrsta hluta þess. Syðri hluti hraunsins hefur gengið undir heitinu Nýibruni. Kapelluhraun er hluti af hraunum sem runnu í Krísuvíkurrein árið 1151 (Haukur Jóhannesson og Sigmundur Einarsson 1989). Þá opnaðist gossprunga sem er alls um 25 km löng en þó slitin í miðjunni.

Hraungambri í Brunanum

Sunnan á skaganum rann Ögmundarhraun í sjó fram og tók það af gamla Krýsuvíkurbæinn. Norðan á skaganum rann Kapelluhraun, aðallega frá gígum við Vatnsskarð [Rauðhól] sem nú heyra sögunni til vegna gjallvinnslu. Hraunið rann til sjávar í Straumsvík … Álverið í Straumsvík stendur á hrauninu“
Í niðurlagi greinarinnar segja höfundar auk þess:
„Eldgos á Rekjanessskaganum virðast koma í hrinum og á milli er minni virkni. Hrinurnar verða á um þúsund ára fresti og hver hrina stendur yfir í nokkur hundruð ár. Síðasta hrinan hófst upp úr miðri tíundu öld og endaði um 1240. Í hverri hrinu verða umbrot í öllum eldstöðvareinunum á skaganum og í síðustu hrinu færðist virknin frá austri til vesturs. Einnig er nokkuð víst að verði eldgos í Brennisteinsfjöllum og í norðanverðum Móhálsadal munu hraun þaðan renna niður til strandar milli Hrútagjárdyngjunnar og Hvaleyrarholts, sömu leið og Hellnahraun eldra og yngra og Kapelluhraun.
Í Brunanum - Fjallið eina og Sandfell fjærAf ofansögðu er ljóst að hraun geta runnið til Straumsvíkur bæði frá Brennisteinsfjallarein, en þar gaus síðast á 10. öld, og frá Krísuvíkurein þar sem síðast gaus um miðja tólftu öld. Síðast urðu með vissu eldsumbrot á Reykjanesskaga á fyrri hluta 13. aldar í Reykjanesrein. Nær útilokað er að hraun frá gosum í þeirri rein geti runnið til Straumsvíkur en hins vegar gæti þar hugsanlega orðið vart landsigs vegna meðfylgjandi gliðnunar í reininni.“
Í grein sinni um náttúruvár á Straumsvíkursvæðinu (sjá nr. 6 hér að ofan, s. 271) segir Páll Imsland m. a.:
„Eftir Krísuvíkurelda á 13. öld hafa ekki komið upp hraun í nágrenni Straumsvíkursvæðisins. Landslagi er þannig háttað að hraun sem koma upp vestanundir Undirhlíðum eiga ekki annarra kosta völ en að renna út á hraunflákana til vesturs og norðurs og leita undan halla og þrýstingi frá kvikunni sem flæðir úr gígunum í átt til strandar, í átt að Straumsvík. Áður en að álverinu sjálfu kemur eru raflagnir, spennuvirki, þjóðvegur og fleira slíkt í rennslisleiðum hrauna; mannvirki sem skipta verulegu máli, bæði fyrir starfrækslu álversins og alla byggð sunnar á skaganum. Það er því ljóst að hraunflóðahætta er þarna til staðar, en ekkert er þekkt sem bendir til yfirvofandi hættu. Náttúran á svæðinu hefur ekki sýnt nein þekkjanleg merki þess að þarna séu eldgos í uppsiglingu. Á hitt ber samt að líta að þetta er afkastamikið, virkt eldgosasvæði þar sem ekki hefur gosið í um 850 ár, og til eru vísbendingar um að virknin á Reykjanesskaganum gangi í hrinum með nokkurra alda aðgerðarlitlum hléum. Hrinur þessar einkennast af jarðskjálftum, sprungumyndun og eldgosum.“
Í greininni „Hamfarir á höfuðborgarsvæðinu“eftir Þórdísi Lilju Gunnarsdóttur, sem birtist í tímaritinu Ský, 6 2001-2002, s. 36, má lesa eftirfarandi:
„Í Kröflueldum í september 1984 rann glóandi hraunáin um tíu metra vegalengd á sekúndu. Það gera 36 kílómetrar á klukkustund. Að mati jarðfræðinganna Páls Imslands og Karls Grönvolds er það álíka hraði og væri á nýju hrauni við höfuðborgina í dag. Því myndi hraunelfan geta náð efstu byggðum borgarinnar á fáum klukkustundum … Ef eldgos brytist út í Húsfelli, Búrfelli eða Trölladyngju gæti hraun runnið niður Kúagerði og yfir Reykjanesbraut, yfir álverið í Straumsvík, rafstöðina við Hamranes og nýjustu byggð Hafnfirðinga sunnan við Reykjanesbraut sökum þess hve Reykjanesskaginn er mjór sunnan við Hafnarfjörð. Í miklum hamförum á þessum slóðum gæti hraun einnig náð til byggðar í Garðabæ og yfir Álftanesið.“

Gata í Brunanum

Gengið var um Kapelluhraun sunnan Hafnarfjarðar. Í göngunni var höfð hliðsjón af skrifum Sigmundar Einarssonar, Hauks Jóhannessonar og Árnýjar Erlu Sveinbjörnsdóttur um Krýsuvíkurelda II – Kapelluhraun og gátan um aldur Hellnahrauns, er birtust í Jökli nr. 41 1991.
Gangan hófst við Gerði ofan við Straum, nyrst í vesturjaðri Kapelluhrauns. “Samkvæmt annálum urðu eldgos í Trölladyngjum á Reykjanesskaga árin 1151 og 1188. Líkur benda til að 1151 hafi Ögmundarhraun í Krýsuvík og Kapelluhraun sunnan Hafnarfjarðar runnið er umbrotahrina varð í eldstöðvarkerfi Trölladyngju. Hrinunni lauk líklega 1188 með myndun Mávahlíðahrauns. Umbrotahrinan í heild er nefnd Krýsuvíkureldar. Gossprungan er ekki samfelld en milli enda hennar eru um 25 km. Flatamál hraunanna er 36.5 km2 og rúmmálið er áætlað um 0.22 km3. Vegið meðaltal fimm geislakolsgreininga gefur 68.3% líkur á að hraunin hafi runnið á tímabilinu frá 1026-1153.
Í Konungsannál, Oddverjaannál og Annál Flaeyjarbókar 1151 segir frá eldum í Trölladyngjum. Einnig í Skálholtsannál 1188. Ekki er ljóst hvers vegna annálarnir kenna gosin við Trölladyngjur en svo virðist sem þær hafi verið alþekkt örnefni á þessum tíma. Líklegast er að eldgosið 1188 hafi verið lokaþáttur umbrotahrinunnar.
Auk þessara frásagna í annálum eru óbeinar heimildir um hraunrennsli á norðanverðum Reykjanesskaga eftir landnám. Kapelluhraun heitir einnig Bruninn í daglegu tali og það eitt bendir til að menn hafi séð hraunið renna. Yfirleitt er talið að Kapelluhraun hafi áður heitið Nýjahraun og Ólafur Þorvaldsson (1949) segir nafnið Nýjahraun sé enn þekkt um hluta þess. Þessi gögn benda eindregið til að hraunið hafi runnið eftir að land byggðist.
Snókalönd í Brunanum - Stórhöfði fjærElstu heimildir um nafnið Nýjahraun er annars vegar í annálum og hins vegar í Kjalnesingasögu. Annálar greina frá skiptapa við Hafnarfjörð árið 1343 og fórust með skipinu 23 eða 24 menn. Annálar segja þannig frá slysinu: “Braut Katrínarsúðina við Nýja hraun.” (Annáll Flateyjarbókar). Í Gottskálksannál, bls. 352 segir: “Braut Katrínar súðina fyrir Hvaleyri, drukknuðu þar iiij menn ogg xx.”
Í Kjalnesingasögu (1959) er tvívegis minnst á Nýjahraun. Þar segir senmma í sögunni að Þorgrímur Helgason hafi reist bú að Hofi (á Kjalarnesi) og “hafði hann mannforráð allt il Nýjahrauns og kallað er Brunndælagoðorð”. Undir lok sögunnar segir svo frá því er Búi Andríðsson tók við mannaforræði eftir Þorgrím og “hafði hann allt út á Nýjahrauni og inn til Botnsár”.
Kjalnesingasaga gerist á landnámsöld en er talin skrifuð skömmu eftir 1300. Athyglisvert er að höfundurinn skuli nota Nýjahraun til að takmarka Brunndælagoðorð. Notkun örnefnisins Nýjahraun í Kjalnesingasögu bendir til að hraunið sé runnið einhvern tíma á tímabilinu 870-1250.
Ótrúlega fáir, þrátt fyrir framangreint, hafa gert tilraun til að kanna Brunann/Kapelluhraun, upptök þess, útbreiðslu og raunverulegan aldur. Þorvaldur Thoroddsen (1913) reið á vaðið er hann kannaði Kapelluhraun lauslega 1883. Guðmundur Kjartansson (1954) varð fyrstur jarðfræðinga til að kanna Kapelluhraun og Óbrinnishólabruna svo nokkru næmi. Jón Jónsson hefur nokkrum sinnum ritað um hraun á svæðinu. Hann taldi á grundvelli geislakolsákvarðana að Óbrinnihólar væru liðlega 2100 ára gamlir og að Kapelluhraun hefðu runnið í byrjun elleftu aldar.
Úr gígum nyrst í Undirhlíðum hefur runnið hraun sem Jón Jónsson (1978a, 1983) nefnir Gvendarselshraun. Undir því hefur hann fundið Landnámslagið og út frá aldursgreiningu með geislakolsaðferð telur Jón hraunið runnið á elleftu öld.

Hlaðið undir horfna girðingu í Brunanum

Í framhaldi af þessum niðurstöðum hefur Jón stungið upp á því að Ögmundarhraun, Kapelluhraun og Gvendarselshraun hafi öll orðið til í einni goshrinu á fyrri hluta elleftu aldar (Jón Jónsson 1982,1983).
Gossprungan, 25 km löng, er frá norðanverðri Gvendarselshæð og suður fyrir Núpshlíðarháls. Á henni er um 8 km löng eyða, þannig að alls hefur gosið á um 17 km langri sprungu. Syðri hlutinn er um 10,5 km að lengd og nyrðri hlutinn um 6.5 km.
Í Krýsuvíkureldum mynduðust fjórir aðskildir hraunflákar. Syðst er Ögmundarhraun sem nær frá Djúpavatni í Móhálsadal suður í sjó. Næst norðan við það er lítið hraun sem runnið hefur út á Lækjarvelli og er það langminnst þessara hrauna. Þriðja hraunið er við Mávahlíðar, norðaustur af Trölladyngju, og liggur til hliðar við megingossprunguna. Nyrst er svo Kapelluhraun sem runnið hefur frá Undirhlíðum til sjávar.
Hraunið sem rann frá syðsta hluta gossprungunar fyllti allan Móhálsadal sunnan Djúpavatns og fyllti allstóra vík sem að líkindum hefur verið hin forna Krýsuvík. Hraunflákinn gæti hafa myndast í tveimur [eða fleiri] gosum (en þó í sömu goshrinu).
Skammt norðan við Bláfjallaveg eru litlir og snotrir gígar er nefnast Kerin. Frá þeim hefur runnið lítið hraun til vesturs og norðurs. Norðan við gíganna er hraunið á nokkrum kafla svo rennislétt að furðu sætir. Hraunin frá Gvendarselsgígum og Kerjum verða ekki talin sérstök hraun, heldur hluti af Kapelluhrauni, enda um einn samfelldan hraunfláka að ræða. Alls þekur Kapelluhraun 13.7 km2. Ef meðalþykktin er um 5 metrar er rúmmál þess um 0.07 km3.
Líkur hafa verið leiddar að því að Ögmundarhraun hafi runnið 1151 og er þar jöfnum höndum stuðst við frásagnir annála, geislakolsaldur og rannsóknir á öskulögum. Bruninn/Nýibruni/Nýjahraun/Kapelluhraun er frá svipuðum tíma.
Frábært veður. Gangan tók 2 klst og 2 mín.

Heimild:
-Krýsuvíkureldar II – Kapelluhraun og gátan um aldur Hellnahrauns – Sigmundur Einarsson, Haukur Jóhannesson og Árný Erla Sveinbjörnsdóttir – Jökull nr. 41, 1991.
-Guðmundur Kjartansson 1973. Aldur Búrfellshrauns við Hafnarfjörð. Náttúrufræðingurinn 42. 159-183.
-Jón Jónsson 1978: Jarðfræðikort af Reykjanesskaga. Orkustofnun OS-JHD 7831. 303 bls. + kortamappa.
-Haukur Jóhannesson & Sigmundur Einarsson 1989. Krísuvíkureldar I. Aldur Ögmundarhrauns og Miðaldalagsins. Jökull 38. 71-87.
-Sigmundur Einarsson, Haukur Jóhannesson & Árný Erla Sveinbjörnsdóttir 1991. Krísuvíkureldar II. Kapelluhraun og gátan um aldur Hellnahrauns yngra. Jökull 41. 61-80.
-Haukur Jóhannesson og Sigmundur Einarsson 1998. Hraun í nágrenni Straumsvíkur. Náttúrufræðingurinn 67. 171-177.
-Páll Imsland 1998. Um náttúruvár á Straumsvíkursvæðinu. Náttúrufræðingurinn 67. 263-273.

Bruninn - Undirhlíðar og Helgafell fjær

Kappella

Gengið var um Nýjahraun, síðar nefnt Kapelluhraun, frá kapellunni ofan við Álverið við Straumsvík. Skoðaðar voru m.a. leifar hins gamla krákustígs í gegnum hraunið, en enn sést móta fyrir honum á tveimur stöðum. Hraunið sjálft er margbrotið og víða í því hinar fuðurlegustu myndanir. Sjá má t.d., ef vel er að gáð, skapara þess birtast í því í ýmsum myndum, líkt og væri hann að líta yfir unnin afrek.

Kapella

Kapella – skilti.

Við kapelluna eru tvö skilti, annað frá Byggðasafni Hafnarfjarðar og hitt frá Þjóðminjasafninu. Upplýsingarnar eru svipaðar. Friðlýsingarmerki er við innganginn. Á öðru skiltinu segir að talið sé að Kapelluhraun hafi runnið á 11. öld. Á hinu segir að hraunið hafi runnið á 13. eða 14. öld. Nú liggur hins vegar fyrir að hraunið rann hvorki á 11. eða 13. öld, heldur árið 1151. Venjulegur ferðamaður gæti hæglega orðið ráðvilltur þarna og það áður en hann kemur að sjálfum „fornminjunum“. Á sama hátt og upplýsingarnar á staðnum eru misvísandi er kapellan sem fornleif varla „sjálfri sér samkvæm“. Grunnmynd á skilti sýnir ferhyrnda tóft, eins og dr. Kristján Eldján rissaði hana upp á sjötta áratug 20. aldar. Innanmálið er að vísu ferhyrnt svo fá má á tilfinninguna að þar og þannig hafi gólfflöturinn verið upphaflega, en utanmál kapellunnar, eins og hún er í dag, er fremur sporöskjulaga. Önnur, gömul mynd, tekin við sama tækifæri, sýnir að mestu hrunda mosavaxna kapelluna í úfnu hrauninu, en nú er hún svo formlega löguð, ber og svo vel uppi standandi að varla getur talist um forna leif sé að ræða – nema að hluta til. Endurgerð fornleif stendur þó ávallt fyrir sínu – a.m.k. að ákveðnu marki.

Kapella

Alfaraleiðin við kapelluna.

Annar hluti gamla stígsins, sem enn sést, er sunnan við kapelluna. Sennilega er um einskæra tilviljun að ræða að hann skuli hafa fengið að halda sér. Hinn hlutinn er þar sem komið er inn í hraunið af Alfaraleiðinni norðan við Gerði. Í örnefnalýsingu segir m.a. um stíg þennan: „Alfaraleiðin út á Útnes lá svo að segja um túnblettinn. Hann lá yfir Kapelluhraunið, eða Brunann, eins og það var stundum nefnt, síðan lá leiðin áfram, þar til komið er í Brunaskarð vestra. Við hvort skarð eru vörður, er nefnast Stóravarðan eystri og Stóravarðan vestri. Sagnir voru um, að einn sveina Kristjáns skrifara, sem drepinn var á Kirkjubóli á Miðnesi, hafi verið dysjaður við Kapelluna. Var því þarna stundum kölluð Dysin eða Kapelludys. Úr skarðinu liggur alfaraleiðin vestur um Hraunin ofan eða sunnan garðs á Þorbjarnarstöðum“.

Þorbjarnastaðaborg

Fjárborg Þorbjarnastaðafólksins.

Kapelluhraunið hefur að geyma marga fornleifina. Þá þar nefna Þorbjarnastaðaborgina neðan við Brunntorfur, garða og hleðslur ofan við Gerði, hlaðnar brýr og byrgi skammt norðan við gasstöðina. Þá liggja yfir hraunið fornar götur og syðst í því eru myndarlegar hrauntraðir.
Álverið við Straumsvík stendur á Kapelluhrauni, eða Nýjahrauni eins og það fyrst var nefnt, og er allra yngsta hraunið á svæðinu í kringum Hafnarfjörð. Það er frá árinu 1151 skv. upplýsingum frá Íslenskum orkurannsóknum. Það á upptök undir Undirhlíðum og hefur komið úr gígaröðum, sem virðast vera tengdar misgengissprungum. Kapelluhraun er hluti af hraunum sem runnu hjá Krísuvíkurkerfinu. Þá opnaðist gossprunga undir Undirhlíðum sem var alls um 25 metra löng en slitin í miðjunni.

Kapella

Kapellan.

Kapelluhraun rann norðan á skaganum og til sjávar og myndað þar tanga, en vestan undir honum er Straumsvík.
Kapelluhraun er ákaflega fallegt úfið og mosagróið apalhraun en hörmung er að sjá hvernig karganum hefur verið rutt af yfirborði þess á stórum svæðum. Hraunið er fínkornótt með einstaka tiltölulega stórum dílum. Dílarnir eru oftast plagioklas, pyroxen og einstaka ólivín. Stærð hraunsins er 11,6 km2. Gamli krákustígurinn, sem eitt sinni var ruddur í gegnum hraunið, hefur að mestu verið eyðilagður að undanskildum fyrrnefndum um 6 metra kafla við litla rúst í hrauninu, sem er nefnd kapellan og á fyrrnefndum stað í vestanverðum hraunjaðrinum.

Kapella

Kapellan 1964.

Árið 1950 rannsakaði Kristján Eldjárn þessa kapellu og fannst þar m.a. lítið líkneski af heilagri Barböru sem er verndardýrlingur ferðamanna. Hún var góð til áheita gegn hvers konar eldsgangi. Einnig var hún verndardýrlingur stórskotaliðsmanna, slökkviliðs- manna, námumanna, verkfræðinga og jarðfræðinga. Kapellutóftin er á fornminjaskrá og þar má sjá eftirlíkingu af líkneskinu. Fróðlegt er að skoða ljósmyndir, sem teknar voru af tóftinni við upphaf rannsóknar Kristjáns Eldjárns og félaga, en á þeim m.a. úfið mosahraunið og einungis hluti kapellunnar standa upp úr því.

Kapella

Kapella – skilti.

Miklar framkvæmdir hafa verið í kringum Álverið í Straumsvík, auk þess sem Skógrækt ríkisins, fyrrum eigandi svæðisins, hefur leyft töku á gífurlegu efnismagni úr hrauninu. Þá hefur það verið sléttað út á stóru svæði og óþarflega miklu magni efnis hefur verið rutt út yfir hraunjaðrana. Þegar horft er yfir svæðið virðast „skemmdirnar“ hafa bæði verið óstjórnlegar og að stórum hluta óþarfa ómarkvissar.
Nú eru jafnvel fyrirhuguð stækkun á Álverinu. Fyrirtækið hefur m.a. í því skyni fest kaup á landinu ofan þess.
Hjörleifur Guttormsson, fyrrum alþingismaður, skrifaði Skipulagsstofnun árið 2002 þar sem hann geldur vara við frekari framkvæmdum Álversins í Kapelluhrauni. Með bréfi sínu til stofnunarinnar gerir hann athugasemdir og bendir á náttúruvá sem steðjað getur að mannvirkjum við Straumsvík og lítil sem engin skil eru gerð í matsskýrslu vegna stækkunar álverksmiðju ÍSALs.

Kapella

Kapella – skilti.

Þegar álverksmiðja var staðsett og reist við Straumsvík fyrir um aldarþriðjungi gerðu menn sér litla sem enga grein fyrir samhengi eldvirkni og hraunstrauma á svæðinu. Síðan hafa verið gerðar ítarlegar rannsóknir á eldvirkni á Reykjanessskaganum, gosstöðvar frá nútíma verið staðsettar og hraunstraumar sem frá þeim hafa runnið eftir að ísöld lauk, sumpart eftir landnám.
Guðmundur Kjartansson fjallar m.a. um aldur Búrfellshrauns við Hafnarfjörð árið 1973. Grein hans birtist í Náttúrufræðingnum 42. 159-183. Jón Jónsson gerði jarðfræðikort af Reykjanesskaga 1978. Haukur Jóhannesson & Sigmundur Einarsson rituðu um Krýsuvíkureldaa I. – Aldur Ögmundarhrauns og Miðaldalagsins – í tímaritið Jökull árið 1989, 38. 71-87. Sigmundur Einarsson, Haukur Jóhannesson & Árný Erla Sveinbjörnsdóttir rituðu einnig um Krýsuvíkurelda II. – Kapelluhraun og gátan um aldur Hellnahrauns yngra – í Jökul árið 1991, 41. 61-80. Haukur Jóhannesson og Sigmundur Einarsson rituðu um hraun í nágrenni Straumsvíkur í Náttúrufræðinginn 1998, 67. 171-177.

Kapelluhraun

Kapelluhraun.

Páll Imsland ritaði um náttúruvár á Straumsvíkursvæðinu í Náttúrufræðinginn árið 1998, 67. 263-273. Hann taldi þar að Kapelluhraun væri frá 13. öld.
Af þessum rannsóknum og greinum höfunda má m. a. ráða, að líkur séu á að þunnfljótandi hraunstraumar geti runnið í sjó fram frá gosstöðvum vestan Undirhlíða og víðar yfir það svæði sem núverandi álverksmiðja stendur á auk þess sem önnur mannvirki svo sem raflínur og vegir eru í hættu á þessu svæði og víða í grenndinni.
Sem dæmi má nefna eftirfarandi úr grein Hauks Jóhannessonar og Sigmundar Einarssonar 1998, s. 175,

Kapella

Kapellan – uppdráttur KE.

„Yngsta hraunið á svæðinu er oftast nefnt einu nafni Kapelluhraun, þó svo að það heiti eigi í raun aðeins við nyrsta hluta þess. Syðri hluti hraunsins hefur gengið undir heitinu Nýibruni. Kapelluhraun er hluti af hraunum sem runnu í Krísuvíkurrein árið 1151 (Haukur Jóhannesson og Sigmundur Einarsson 1989). Þá opnaðist gossprunga sem er alls um 25 km löng en þó slitin í miðjunni. Sunnan á skaganum rann Ögmundarhraun í sjó fram og tók það af gamla Krísuvíkurbæinn. Norðan á skaganum rann Kapelluhraun, aðallega frá gígum við Vatnsskarð sem nú heyra sögunni til vegna gjallvinnslu. Hraunið rann til sjávar í Straumsvík … Álverið í Straumsvík stendur á hrauninu“.
Í niðurlagi greinarinnar segja höfundar m. a. (s. 177):

Kapeluhraun

Kapelluhraun – jarðfræðikort.

„Eldgos á Rekjanessskaganum virðast koma í hrinum og á milli er minni virkni. Hrinurnar verða á um þúsund ára fresti og hver hrina stendur yfir í nokkur hundruð ár. Síðasta hrinan hófst upp úr miðri tíundu öld og endaði um 1240. Í hverri hrinu verða umbrot í öllum eldstöðvareinunum á skaganum og í síðustu hrinu færðist virknin frá austri til vesturs. Einnig er nokkuð víst að verði eldgos í Brennisteinsfjöllum og í norðanverðum Móhálsadal munu hraun þaðan renna niður til strandar milli Hrútagjárdyngjunnar og Hvaleyrarholts, sömu leið og Hellnahraun eldra og yngra og Kapelluhraun.
Af ofansögðu er ljóst að hraun geta runnið til Straumsvíkur bæði frá Brennisteinsfjallarein, en þar gaus síðast á 10. öld, og frá Krísuvíkurein þar sem síðast gaus um miðja tólftu öld. Síðast urðu með vissu eldsumbrot á Reykjanesskaga á fyrri hluta 13. aldar í Reykjanesrein. Nær útilokað er að hraun frá gosum í þeirri rein geti runnið til Straumsvíkur en hins vegar gæti þar hugsanlega orðið vart landsigs vegna meðfylgjandi gliðnunar í reininni“.

Kapella

Kapellan áður en hún var grafin upp.

Í grein sinni um náttúruvár á Straumsvíkursvæðinu (sjá nr. 6 hér að ofan, s. 271) segir Páll Imsland m. a.:
„Eftir Krýsuvíkurelda á 13. öld hafa ekki komið upp hraun í nágrenni Straumsvíkursvæðisins. Landslagi er þannig háttað að hraun sem koma upp vestanundir Undirhlíðum eiga ekki annarra kosta völ en að renna út á hraunflákana til vesturs og norðurs og leita undan halla og þrýstingi frá kvikunni sem flæðir úr gígunum í átt til strandar, í átt að Straumsvík. Áður en að álverinu sjálfu kemur eru raflagnir, spennuvirki, þjóðvegur og fleira slíkt í rennslisleiðum hrauna; mannvirki sem skipta verulegu máli, bæði fyrir starfrækslu álversins og alla byggð sunnar á skaganum. Það er því ljóst að hraunflóðahætta er þarna til staðar, en ekkert er þekkt sem bendir til yfirvofandi hættu. Náttúran á svæðinu hefur ekki sýnt nein þekkjanleg merki þess að þarna séu eldgos í uppsiglingu. Á hitt ber samt að líta að þetta er afkastamikið, virkt eldgosasvæði þar sem ekki hefur gosið í um 850 ár, og til eru vísbendingar um að virknin á Reykjanesskaganum gangi í hrinum með nokkurra alda aðgerðarlitlum hléum. Hrinur þessar einkennast af jarðskjálftum, sprungumyndun og eldgosum.“

Kapelluhraun

Kapelluhraun – jarðfræðikort ISOR.

Í greininni „Hamfarir á höfuðborgarsvæðinu“ eftir Þórdísi Lilju Gunnarsdóttur, sem birtist í tímaritinu Ský, 6 2001-2002, s. 36, má lesa eftirfarandi:
„Í Kröflueldum í september 1984 rann glóandi hraunáin um tíu metra vegalengd á sekúndu. Það gera 36 kílómetrar á klukkustund. Að mati jarðfræðinganna Páls Imslands og Karls Grönvolds er það álíka hraði og væri á nýju hrauni við höfuðborgina í dag. Því myndi hraunelfan geta náð efstu byggðum borgarinnar á fáum klukkustundum … Ef eldgos brytist út í Húsfelli, Búrfelli eða Trölladyngju gæti hraun runnið niður Kúagerði og yfir Reykjanesbraut, yfir álverið í Straumsvík, rafstöðina við Hamranes og nýjustu byggð Hafnfirðinga sunnan við Reykjanesbraut sökum þess hve Reykjanesskaginn er mjór sunnan við Hafnarfjörð. Í miklum hamförum á þessum slóðum gæti hraun einnig náð til byggðar í Garðabæ og yfir Álftanesið.“
– Þótt hér sé stiklað á stóru af blaðamanni eru ábendingarnar þó umhugsunarverðar.“

Hraunkarl

Hraunkarl í Kapelluhrauni.

Fornleifavernd ríkisins segir að “hraunið dragi nafn sitt af Kapellunni, rúst af litlu húsi skammt frá veginum vinstra megin þegar ekið er suður Reykjanesbrautina. Sen fyrr segir rannsakaði Kristján Eldjárn kapelluna ásamt fleirum 1950 og segir svo frá:
„Fyrir sunnan Hafnarfjörð liggur leiðin yfir úfinn brunafláka sem á upptök sín í gígaröð meðfram Undirhlíðum og hefur runnið þaðan allt norður í sjó. Í þessu hrauni er Kapellan og eftir henni heitir hraunið Kapelluhraun, en hefur heitið Nýjahraun á miðöldum, því að það hefur runnið eftir að land byggðist, líklega þó mjög snemma á öldum. Kapellan er lítil opin húsarúst rétt við gamla krákustíginn, sem ruddur hefur verið þegar eftir að hraunið rann og hefur verið alfaraleið út á nes öldum saman.“
Kapellan er 2,40 m á lengd og 2,10 m á breidd að innanmáli.

Kapella

Kapellan í Kapelluhrauni.

Veggirnir eru hlaðnir úr hraunhellum og að mestu uppistandandi.
Við uppgröftinn 1950 fundust allmargir gripir. Sá merkasti þeirra er lítið líkneski af heilagri Barböru, brotið um mjaðmir en nú um 3,3 cm á hæð. Líkneskið er varðveitt í Þjóðminjasafni (Þjms. 14293). Þessi fundur bendir til þess að hús þetta sé í raun og veru kapella frá katólskum tíma og að ferðamenn um hraunið hafi komið þar við og gert bæn sína.
Í Þjóðsögum Jóns Árnasonar segir frá því að einn af mönnum Kristjáns skrifara hafi verið drepinn í Kapelluhrauni og grafinn í kapellunni til hefnda eftir Jón biskup Arason og syni hans. Engin ummerki benda þó til þess að þessi sögn eigi stoð í raunveruleikanum, en sagan er góð búbót við annars sagnaríkt umhverfi á sögulegum tíma.

Kapellan

Kapellan – sjá má leifar Alfaraleiðarinnar, sem lá framhjá henni.

ISOR (Íslenskar orkurannsóknir) kveða á um á vefsíðu sinni að aldur Kapelluhrauns sé 1151. Miðgosið er nefnt Krýsuvíkureldar. Aðalgos þeirra var árið 1151 en minniháttar gos varð 1188. Í því fyrra opnaðist um 25 km löng gosspunga og rann hraunið til sjávar bæði sunnan og norðan megin á Reykjanesskaganum. Að sunnan heitir hraunið Ögmundarhraun en að norðan Kapelluhraun. Þetta ár tók af stórbýlið Krísuvík sem stóð niður á sjávarbakka. Hraunið rann allt um kring kirkjuna á staðnum.
Kapelluhraunið er stórbrotið í tvennum skilningi. Annars vegar hefur hraunið mikið gildi vegna þess að það rann á sögulegum tíma og því merkilegt náttúrfyrirbæri sem slíkt. Hins vegar hefur óhóflegum hluta þess verið spillt af mannavöldum. Á því hefur því verið stórlega brotið.

Kapella

Kapellan í Kapelluhrauni endurgerð.

Við þetta má bæta að fyrrnefnd kapella er ekki óhreifð eða óröskuð fornleif í þeim skilningi orðisins. Hún er ónákvæm endurgerð fornleifar frá því um 1960 og virðist nú stenda á sínum upprunalega stað – sem von um fyrirgefningu fyrir fyrrum eyðileggingu. En staðurinn, þar sem hin forna kapella var, er engu að síður merkilegur, bæði út frá fornleifalegum sem og sagnfræðilegum skilningi.
Hins vegar mætti vel, án tilfallandi skaða, ef byggja ætti á annars röskuðu hrauninu, endurreisa kapelluna á ósnortnu hrauninu vestan og ofan við Vestari Brunaskarð, við gömlu götuna skammt ofan við Gerði þar sem alfaraleiðin liggur upp á það. Kapellan yrði þar engu minni „fornleif“ en nú er. Mannvirkið „gekk úr sér“ á sínum tíma og „týndist“, en var síðan „endurvakið“ með fyrrnefndum uppgrefti.
KapellaSem slíkt hefur staðurinn einungis tilfinngalegt gildi líkt og hver annar staður gæti haft með sama tilgang, hvar sem hann er á hverjum tíma. Það hefði hvorki áhrif á sagnfræðina né fornleifafræðina sem slíkar. Í henni mætti taka upp hvaða kvikmynd sem er án þess að til mótmæla kæmi.
Kapellan á Hraunssandi, fyrrum einnig nefnd Dysin, er sambærilegt mannvirki, en öllu merkilegri. Hún var grafin upp á svipuðu tíma, urðuð á ný og hefur því ekki verið „endurgerð“. Við hana eiga að vera grafinn á þriðja tugur manna, án þess að staðnum sé sýnlega nokkur virðing sýnd.
Frábært veður. Gangan tók 2 kls. og 22 mín.

Heimildir m.a.:
-http://www.flensborg.is
-http://www.eldhorn.is
-http://www.isor.is/stadlar/hraun/allt_um_hraun.html
-http://www.reykjanesbaer.is
-Kristján Eldjárn: Heilög Barbara mær og kapella hennar. Hundrað ár í Þjóðminjasafni. Rvk. 1973, 88.
-Kristján Eldjárn. Kapelluhraun og Kapellulág. Fornleifarannsóknir 1950 og 1954. Árbók Hins íslenzka fornleifafélags 1955-1956. Rvk. 1957, bls. 5-34.
-Þjóðsögur Jóns Árnasonar. II bindi. Rvk. 1954, bls. 78.

Kapella

Kapellan með friðlýsingaskilti framan við.

Kappella

Gengið var um Kapelluhraun og Hellnahraun sunnan Hafnarfjarðar. Í göngunni var höfð hliðsjón af skrifum Sigmundar Einarssonar, Hauks Jóhannessonar og Árnýjar Erlu Sveinbjörnsdóttur um „Krýsuvíkurelda II – Kapelluhraun og gátan um aldur Hellnahrauns„, er birtust í Jökli nr. 41 1991.

Húshólmi

Húshólmi – uppdráttur.

Gangan hófst við Gerði ofan við Straum, nyrst í vesturjaðri Kapelluhrauns. “Samkvæmt annálum urðu eldgos í Trölladyngjum á Reykjanesskaga árin 1151 og 1188. Líkur benda til að 1151 hafi Ögmundarhraun í Krýsuvík og Kapelluhraun sunnan Hafnarfjarðar runnið er umbrotahrina varð í eldstöðvarkerfi Trölladyngju. Hrinunni lauk líklega 1188 með myndun Mávahlíðahrauns. Umbrotahrinan í heild er nefnd Krýsuvíkureldar. Gossprungan er ekki samfelld en milli enda hennar eru um 25 km. Flatamál hraunanna er 36.5 km2 og rúmmálið er áætlað um 0.22 km3. Vegið meðaltal fimm geislakolsgreininga gefur 68.3% líkur á að hraunin hafi runnið á tímabilinu frá 1026-1153.
Hellnahraun sunnan Hafnarfjarðar er í rauninni tvö hraun og eru bæði komin frá eldstöðvakerfi Brennisteinsfjalla. Yngsta hraunið er sama hraun og Jón Jónsson (1977) hefur nefnt Tvíbollahraun. Það er að öllum líkindum runnið í sömu goshrinu og hraun sem Jónsson (1978a) hefur nefnt Breiðdalshraun. Líklegt er að Yngra Hellnahraun (Breiðdalshraun og Tvíbollahraun) hafi runnið á árunum 938-983.

Ögmundarhraun

Ögmundarhraun – yfirlit.

Í Konungsannál, Oddverjaannál og Annál Flaeyjarbókar 1151 segir frá eldum í Trölladyngjum. Einnig í Skálholtsannál 1188. Ekki er ljóst hvers vegna annálarnir kenna gosin við Trölladyngjur en svo virðist sem þær hafi verið alþekkt örnefni á þessum tíma. Líklegast er að eldgosið 1188 hafi verið lokaþáttur umbrotahrinunnar.
Auk þessara frásagna í annálum eru óbeinar heimildir um hraunrennsli á norðanverðum Reykjanesskaga eftir landnám. Kapelluhraun heitir einnig Bruninn í daglegu tali og það eitt bendir til að menn hafi séð hraunið renna. Yfirleitt er talið að Kapelluhraun hafi áður heitið Nýjahraun og Ólafur Þorvaldsson (1949) segir nafnið Nýjahraun sé enn þekkt um hluta þess. Þessi gögn benda eindregið til að hraunið hafi runnið eftir að land byggðist.
Elstu heimildir um nafnið Nýjahraun er annars vegar í annálum og hins vegar í Kjalnesingasögu. Annálar greina frá skiptapa við Hafnarfjörð árið 1343 og fórust með skipinu 23 eða 24 menn. Annálar segja þannig frá slysinu: “Braut Katrínarsúðina við Nýja hraun.” (Annáll Flateyjarbókar). Í Gottskálksannál,

bls. 352 segir: “Braut Katrínar súðina fyrir Hvaleyri, drukknuðu þar iiij menn ogg xx.”
Í Kjalnesingasögu (1959) er tvívegis minnst á Nýjahraun. Þar segir senmma í sögunni að Þorgrímur Helgason hafi reist bú að Hofi (á Kjalarnesi) og “hafði hann mannforráð allt il Nýjahrauns og kallað er Brunndælagoðorð”. Undir lok sögunnar segir svo frá því er Búi Andríðsson tók við mannaforræði eftir Þorgrím og “hafði hann allt út á Nýjahrauni og inn til Botnsár”.
Kjalnesingasaga gerist á landnámsöld en er talin skrifuð skömmu eftir 1300. Athyglisvert er að höfundurinn skuli nota Nýjahraun til að takmarka Brunndælagoðorð. Notkun örnefnisins Nýjahraun í Kjalnesingasögu bendir til að hraunið sé runnið einhvern tíma á tímabilinu 870-1250

Hraunhóll

Hraunhóll – upptök Kapelluhrauns.

Ótrúlega fáir hafa gert tilraun til að kanna Kapelluhraun, upptök þess, útbreiðslu og raunverulegan aldur. Þorvaldur Thoroddsen (1913) reið á vaðið er hann kannaði Kapelluhraun lauslega 1883. Guðmundur Kjartansson (1954) varð fyrstur jarðfræðinga til að kanna Kapelluhraun og Óbrinnishólabruna svo nokkru næmi. Jón Jónsson hefur nokkrum sinnum ritað um hraun á svæðinu. Hann taldi á grundvelli geislakolsákvarðana að Óbrinnihólar væru liðlega 2100 ára gamlir og að Kapelluhraun hefðu runnið í byrjun elleftu aldar.
Úr gígum nyrst í Undirhlíðum hefur runnið hraun sem Jón Jónsson (1978a, 1983) nefnir Gvendarselshraun. Undir því hefur hann fundið Landnámslagið og út frá aldursgreiningu með geislakolsaðferð telur Jón hraunið runnið á elleftu öld.
Í framhaldi af þessum niðurstöðum hefur Jón stungið upp á því að Ögmundarhraun, Kapelluhraun og Gvendarselshraun hafi öll orðið til í einni goshrinu á fyrri hluta elleftu aldar (Jón Jónsson 1982,1983).
Líkt og Guðmundur gerir Jón ráð fyrir að Hellnahraun sé gamalt og telur það runnið frá svonefndri Hrútargjárdyngju. Á jarðfræðikorti Náttúrufræðistofnunar og Landmælinga Íslands (Kristján Sæmundsson og Sigmundur Einarsson 1980) er hraunið talið koma frá Óbrennishólagígunum, en ekki talið hluti af Hrútargjárdyngju.
Gossprungan, 25 km löng, er frá norðanverðri Gvendarselshæð og suður fyrir Núpshlíðarháls. Á henni er um 8 km löng eyða, þannig að alls hefur gosið á um 17 km langri sprungu. Syðri hlutinn er um 10,5 km að lengd og nyrðri hlutinn um 6.5 km.

Gvendarselshæðargígar

Nyrstu Gvendarselshæðargígarnir norðvestan Helgafells.

Í Krýsuvíkureldum mynduðust fjórir aðskildir hraunflákar. Syðst er Ögmundarhraun sem nær frá Djúpavatni í Móhálsadal suður í sjó (sjá FERLIR-289). Næst norðan við það er lítið hraun sem runnið hefur út á Lækjarvelli og er það langminnst þessara hrauna. Þriðja hraunið er við Mávahlíðar, norðaustur af Trölladyngju, og liggur til hliðar við megingossprunguna. Nyrst er svo Kapelluhraun sem runnið hefur frá Undirhlíðum til sjávar.
Hraunið sem rann frá syðsta hluta gossprungunar fyllti allan Móhálsadal sunnan Djúpavatns og fyllti allstóra vík sem að líkindum hefur verið hin forna Krýsuvík. Hraunflákinn gæti hafa myndast í tveimur gosum (en þó í sömu goshrinu).
Skammt norðan við Bláfjallaveg eru litlir og snotrir gígar er nefnast Kerin. Frá þeim hefur runnið lítið hraun til vesturs og norðurs. Norðan við gíganna er hraunið á nokkrum kafla svo rennislétt að furðu sætir. Hraunin frá Gvendarselsgígum og Kerjum verða ekki talin sérstök hraun, heldur hluti af Kapelluhrauni, enda um einn samfelldan hraunfláka að ræða. Alls þekur Kapelluhraun 13.7 km2. Ef meðalþykktin er um 5 metrar er rúmmál þess um 0.07 km3.
Líkur hafa verið leiddar að því að Ögmundarhraun hafi runnið 1151 og er þar jöfnum höndum stuðst við frásagnir annála, geislakolsaldur og rannsóknir á öskulögum.

Kapelluhraun

Kapelluhraun.

Kapelluhraun er frá svipuðum tíma. Hellnahraunið er aftur á móti komið úr eldstöðvakerfi Brennisteinsfjalla, þ.e. út Tvíbollum í Grindarskörðum. Hellnahraunið er í rauninni tvö hraun, það Eldra og það Yngra. Aldur Eldra Hellnahraunsins er ekki þekktur. Eftir útliti að dæma er það þó vart eldra en 3000-4000 ára. Yngra Hellnahraun er sennilega frá árunum 938-983.”

Heimild:
-Krýsuvíkureldar II – Kapelluhraun og gátan um aldur Hellnahrauns – Sigmundur Einarsson, Haukur Jóhannesson og Árný Erla Sveinbjörnsdóttir – Jökull nr. 41, 1991.

Kapeluhraun

Kapelluhraun – jarðfræðikort.