Tag Archive for: Brynkasteinn

Úlfljótsvatnskirkja

Stefnan var tekin að Úlfljóstvatni með það fyrir augum að skoða nokkra staði er getið er um í heimildum, s.s. Brynkastein, Borgarvíkurhelli (fjárskjól), refgildru og gamlar leiðir í nágrenni við bæinn.
BrynkasteinnNorðan við Heiðartjörn sunnan Úlfljótsvatns er stór steinn á heiðinni skammt frá fornri þjóðleið, sem enn sést glögglega í móanum. Tveir aðrir minni steinar eru við þennan þjóðsagnakennda stein. Lóa hafði verpt fjórum eggjum við gömlu götuna.
Leið þessi liggur norður yfir heiðina á milli Bíldsfells og Úlfljótsvatns, austan við Heiðartjörn. Leiðin er allt að 3 m á breidd þar sem mest er og 0,3 – 0,6 m djúp. Hún skiptir sér í a.m.k. 2 rásir á kafla. Nýlegur malarvegur þverar leiðina skammt norður af Heiðartjörn. Þar eru krossgötur þar sem önnur fornleið beygir af í átt að Keramýri (líklega í átt að ferjustað á sunnanverðu vatninu.
Brynkasteinn er nú milli tveggja rafmagnsstaura. „Hann hefur verið nefndur Brynkasteinn síðan 1898, kenndur við Brynjólf Jónsson frá Minna-Núpi. Hann var þá barnakennari á Bíldsfelli og fór til messu á Úlfljótsvatni í miklum snjó og ófærð. Komst hann að steini þessum, en var þá með öllu uppgefinn.

Kirkjuklif

Samferðamenn hans, sem voru tveir, skildu hann þá þarna eftir, en fóru sjálfir alla leið að Úlfljótsvatni, fengu sleða og drógu hann á honum til kirkjunnar“, eins og segir í örnefnalýsingu fyrir Úlfljótsvatn. Steinninn er um 3 x 3 m stór og 2,5 m á hæð. Minnir hann nokkuð á hús með burst.
Skammt norðvestar, efst á hól austanvert í Hádegisholti, er eyktamark, um 70 m vestur af malarvegi. Þetta er varða úr grjóti, 1,3 x 1,7 m (ANA – VSV) og 0,7 m há.
Eyktarmarkið er nokkuð fallið. Neðstu steinarnir eru mosavaxnir.
Þá var haldið í Borgarvík vestan við Úlfljótsvatn eftir viðkomu við kirkjuna. Saga er til tengdu einu leiðanna í kirkjugarðinum, en hún var ekki rifjuð upp að þessu sinni. Í brekkunni gegnt kirkjunni að vestanverðu má greinilega sjá forna götu liggja þar upp klif; Kirkjuklif.

Borgarvikurhellir

Leiðin liggur rétt ofan við kirkjuna og neðan við núverandi malarveg og upp á hálsinn. Í örnefnalýsingunni segir: „Kirkjuklif heitir brekkan, þar sem gatan liggur upp frá bænum upp á þjóðveginn.“
Þá var komið í Borgarvíkurdal. „Borgarvíkurdalur heitir slétt harðvellisflöt vestast í Borgarvíkinni og brattar hæðir til beggja hliða. Borgarvíkurhellir er vestast í Borgarvíkurdalnum að sunnanverðu. Hann var til forna notaður fyrir fjárskýli. Þar sjást enn nokkur mannaverk.“
Engar hleðslur sáust við skoðun né nokkur önnur mannaverk. Hellirinn er innlangur, þröngur og hár; ágætt skjól fyrir nokkrar skjátur. Hugsanlega eru öll fyrrum ummerki komin á kaf í sand eða áfok, sem sjá má á vettvangi. Hellirinn er í mjög áberandi sandsteinskletti sem er sprunginn eða klofinn á nokkrum stöðum.

Gildruholl

Gengið var upp á Gildruhól skammt norðan þjóðvegarins á mörkum Úlfljótsvatns og Villingavatns. Girðing liggur austan hólsins, sem er aflöng lág hamraborg, nokkuð slétt að ofan. Efst á Gildruhólnum norðanverðum er  refagildran, sem hóllin dregur nafn sitt af. Gildran er óheilleg og að nokkru komin í mosa. Opið hefur trúlega snúið mót VSV. Gildran er nær horfinn í mosa. Hún er byggð úr hellum sem mynda einkonar göng frá opi inn í endann (þar sem agnið hefur trúlega verið sem lokaði fyrir opið þegar refurinn var kominn inn).  Um 7 m suður af gildrunni er varða; um 0,8 – 0,9 m í þvermál og 0,4 m há. Hún er fallin að hluta. Neðstu steinarnir eru vaxnir mosa. Varða þessi hefur væntanlega varðað refagildruna.
Frábært veður. Gangan tók 3 klst og 3 mín.

Heimildir m.a.:
-Valdimar Briem. „Æfisaga Brynjúlfs Jónssonar frá Minna-Núpi.“ Árbók Hins ísl. fornleifafélags 1915. Reykjavík 1916.
-Örnefnaskrá. Úlfljótsvatn. Handrit 1944. Örnefnastofnun Íslands.

Brynkasteinn

Brynkasteinn.