Tag Archive for: búskapur

Krýsuvík

Í Alþýðublaði Hafnarfjarðar árið 1949 mátti lesa eftirfarandi um framkvæmdir bæjarins í Krýsuvík:

Krýsuvíkurvegur

Krýsuvíkurvegurinn 1961 (yfir Vatnsskarð).

„Krýsuvíkin á að verða það haldreipi, sem Bæjarútgerðin gat ekki orðið fyrir 10—15 árum. Þegar Alþýðuflokkurinn á Alþingi 1935, tók að beita sér fyrir lagningu Suðurlandsbrautar um Krýsuvík til þess að fá snjóléttan vetrarveg milli Árnessýslu og Reykjavíkur, opnuðust möguleikar fyrir Hafnarfjörð, að færa sér í nyt auðsuppsprettur Krýsuvíkur.
Í Krýsuvík mun hafa verið byggð frá landnámstíð og allt fram á okkar daga. Samkvæmt manntali 1855 voru þá í Krýsuvíkursókn 12 býli með 72 manns, er þar höfðu sitt framfæri. Síðari hluta 19. aldar fækkaði svo þessum býlum ört, og byggð mun hafa lagst þar alveg af um 1935.
Oft mun hafa verið vel búið í Krýsuvík, enda sauðland gott og ræktunarmöguleikar miklir. Hins vegar munu erfiðar samgöngur, eða réttara sagt samgönguleysi, hafa valdið mestu um það, að byggðin lagðist niður. Með tilkomu hins nýja vegar var aftur þessari hindrun rutt úr vegi. En allir muna hvernig íhaldið snerist við þeirri vegarbót. Um fáa vegi á Íslandi mun hafa verið rifist meira.

Kleifarvatn

Kleifarvatn – vegurinn undir Hellunni.

Morgunblaðið eyddi fjölda dálka rúmi, viku eftir viku, og mánuð eftir mánuð til að reyna að færa líkur að því að þessi vegagerð væri vitleysa. Og jafnvel eftir að vegagerðinni var að mestu lokið, s.l. vetur, þegar vegurinn bjargaði mjólkurflutningunum um tveggja til þriggja mánaða skeið, barði blaðið enn hausnum við steininn og fullyrti að vegurinn væri til einskis gagns. — Þetta er nú íhald, sem segir sex. Látum vera að það berjist á móti nýmælum, það er mál útaf fyrir sig, en að neita staðreyndum, það er erfiðara, og þó harkaði Morgunblaðið af sér að gera það líka.
Hafnfirðingar nutu góðs af vegarlagningu þessari á margan hátt. Í fyrsta lagi nutu þeir góðs af því, eins og Reykjavík, að hægt var að halda sambandi þessu opnu, þegar allir aðrir vegir austur voru lokaðir. Í öðru lagi nutu þeir, á erfiðum tíma, mikillar atvinnu við lagningu vegarins. Í þriðja lagi opnaði vegurinn þeim leiðina til Krýsuvíkur.

Krýsuvík

Krýsuvík – starfsmannahúsið.

Næsta sporið var að eignast landið. Emil Jónsson bar fram á Alþingi 1935 frumvarp um eignarnám á þessu landi öllu, sem náði samþykki, þó ekki eins og upphaflega var til ætlast, heldur var það nokkuð rýrt í meðferð þingsins, en Hafnarfjarðarbær eignaðist þó allt ræktanlegt land milli Sveifluháls og Geitarhlíðar, og milli Kleifarvatns og sjávar, sem er geysilegt landflæmi, fyrir lítið verð eða innan við 50 þús. kr. með rétti til að nytja allan jarðhita í landi jarðarinnar. Það má óhætt fullyrða, að þessi kaup, á jörð og hitaréttindum, eru einhver þau hagkvæmustu, sem Hafnarfjarðarbær hefir nokkurntíma gert, miðað við allar aðstæður og miðað t.d. við verðið á jarðhitaréttindum þeim, sem Reykjavíkurbær hefir keypt í Mosfellssveit, og mikið lán að þessu skyldi vera lokið fyrir verðhækkun ófriðaráranna.

Krýsuvík

Krýsuvík – bústjórahúsið.

Um leið og landið var keypt, var einnig frá því gengið, að það yrði innlimað í lögsagnarumdæmi Hafnarfjarðar, svo að útsvör manna sem í Krýsuvík eiga heima, renna nú til Hafnarfjarðarbæjar, en ekki til Grindavíkurhrepps, en landið tilheyrði áður þeim hreppi. —
Sömuleiðis er með þessu tryggt að öll starfsemi bæjarins á þessu landi nú og í framtíðinni, verður ekki útsvarsskyld til annarra.

Nú leið og beið, því ekki var hægt að hafast að, fyrr en vegurinn var fullgerður suður fyrir Kleifarvatn, en þá hófust líka þegar framkvæmdir í allstórum stíl. Árið 1945 og ’46 var allt landið girt. Um sama leyti var hafist handa um undirbúning gróðurhúsabygginga og hús byggingar fyrir starfsfólk. Þessu verki var lokið um síðastliðin áramót eða uppúr þeim, og fyrstu gróðurhúsin voru tekin til notkunar í marzmánuði síðastliðnum.

Krýsuvík

Krýsuvík.

Eru gróðurhús þessi um 600 fermetrar að flatarmáli. Í sumar hefir svo verið unnið að því að stækka þau, bæta 1000 fermetrum við. Undirstöður og veggir, fyrir þessar viðbótarbyggingar, er nú fullsteypt. Járnsmíðin á að vera í fullum gangi, og gler og annað efni hefir verið fengið til byggingarinnar. íbúðarhús gróðurstöðvarinnar er stórt og vandað. Þar er, á aðalhæð, íbúð fyrir garðyrkjustj. og aðstoðarmann hans, tvær íbúðir Á neðri hæð er 1 íbúð og nokkur íbúðarherbergi að auki. Á þar með að vera séð fyrir húsnæði fyrir garðyrkjustöðina fyrst um sinn.

Hitaveita, vatnsveita og vegir, hefir einnig verið gert í sambandi við stöðina. Þessar framkvæmdir allar í sambandi við garðyrkjustöðina munu nú kosta samtals um 1,4 milj. kr. — Eins og áður er getið tók garðyrkjustöðin til starfa í marz s.l. og hefir því í ár starfað í 8—9 mán. og aðeins með 600 fermetra hús.

Krýsuvík

Krýsuvík 1962- fjósið (HH).

Reksturinn hefir gengið vel, þegar tekið er til greina, að hér er aðeins um byrjun að ræða, í smáum stíl, og ekki allt árið. Afurðir munu þegar vera seldar fyrir 60—70 þús. kr.
Á næsta ári verður væntanlega hægt að taka til afnota viðbótarbyggingarnar og þrefaldast þá nálega gólfflötur gróðurhúsanna.
Garðyrkja á jarðhitasvæðum er talinn hinn arðvænlegasti rekstur hér á landi og er ekki vafi á að hún muni verða einn af hyrningarsteinunum undir búrekstrinum í Krýsuvík. Ekki má telja ólíklegt að innan fárra ára geti garðyrkjubúið selt afurðir fyrir um 300—400 þús. kr. á ári miðað við svipað verðlag og nú er.
Framkvæmdastjóri garðyrkjubúsins er Óskar Sveinsson. Hefir hann sagt fyrir um gerð gróðurhúsanna og stjórnað verkinu frá upphafi með áhuga og dugnaði.

Krýsuvík

Krýsuvik – gróðurhúsin.

Ráðgert er að stofna til búreksturs til mjólkurframleiðslu í Krýsuvík með ca. 100 mjólkandi kúm, til að byrja með. Síðar verði kúnum fjölgað fljótlega upp í 300, og meira síðar. Með 300 kúm í Krýsuvík, og þeirri mjólkurframleiðslu, sem nú er í bænum og næsta nágrenni hans má gera ráð fyrir að hægt verði að fullnægja mjólkurþörf bæjarins fyrst um sinn. Væri með því stigið mikið heillaspor fyrir bæjarbúa, að geta ávalt fengið nýja mjólk og góða, í stað þeirrar, sem nú er flutt hingað um langan veg og vægast sagt er misjöfn að gæðum.

Krýsuvík

Borað á hlaðinu í Krýsuvík um 1950.

Framkvæmdir þessar hófust árið 1946. Jarðræktarframkvæmdirnar hafa verið fólgnar í skurðgrefti til að þurka landið. Gerðir hafa verið bæði stórir opnir skurðir og lokræsi. Land hefir einnig verið brotið til ræktunar, svo tugum hektara skiptir. Vegir hafa verið gerðir. Vatnsveita lögð. Tveir votheysturnar byggðir. Fjós er í byggingu og sömuleiðis íbúðarhús fyrir bústjóra.
Keyptar hafa verið vélar til jarðræktar, flutninga o.fl. Segja má að allt þetta sé komið svo vel á veg, að sá dagur sé ekki langt undan að rekstur búsins geti hafist. Það sem enn vantar fyrst og fremst, er íbúðarhús fyrir starfsfólk, að fullgera fjós og bústjórahús og að kaupa gripi.

Krýsuvík

Krýsuvík – fjósið 2022.

Bústjóri var ráðinn fyrir þrem ár um Jens Hólmgeirsson, og hefir hann undirbúið framkvæmdir og stjórnað þeim. Hann hefir lagt í það mikið verk að öllu verði sem haganlegast fyrir komið.

Krýsuvík

Krýsuvík – leikmynd True Detective í fjósinu 2023.

Auk staðgóðrar þekkingar og mikillar reynslu frá bústjóraárum sínum á Ísafirði, hefir hann gjörkynnt sér allar upplýsingar sem fram hafa komið hin síðustu ár á þessu sviði, — og þær eru margar, — og í samráði við fróðustu menn valið þær, það sem ætla má að geti orðið Krýsuvíkurbúinu að mestu gagni. Er því ekki vafi á að þegar það tekur til starfa verður það í fremstu röð hvað fyrirkomulag og tækni alla snertir.

Krýsuvík

Krýsuvík 2022.

Kostnaður við framkvæmdir allar snertandi kúabúið, mun nú vera orðinn um 1 millj. kr., ræktunarkostnaður, bvggingarkostnaður og vélakaup, en þar af hafa vélar verið keyptar fyrir um 300 þús. kr. Bæjarútgerðin hefir greitt allan þennan kostnað, en hún lagði fram eins og kunnugt er 1,25 millj. kr. til kúabússtofnunarinnar.“

Heimild:
-Alþýðublaðið, VIII. árg. Hafnarfirði 10. des. 1949, 8. tölublað, bls. 1-3.

Krýsuvík

Fjósið og turnarnir í Krýsuvík 2023. Bústjóra- og Starfsmannahúsið ofar. Hveradalur t.h.

Kaldársel

Gengið var um Kaldársel. Skoðað var gamla sel- og bæjarstæðið ofan við bakka Kaldár og síðan haldið yfir að Borgarstandi þar sem fjárborgin, stekkurinn og fjárskjólin voru skoðuð. Þá var haldið um Lambagjá upp í Helgadal þar sem nokkrir hellar voru barðir augum. Loks var gengið upp í Valaból og síðan um Valahnúka niður að Kaldárseli.

Kaldárssel

Í fjárskjól við Kaldársel.

Kaldársselssvæðið er nokkuð sérstakt, þótt ekki sé fyrir annað að það er bæði á vatnsverndarsvæði höfuðborgarsvæðisins og innan Reykjanesfólksvangs. Auk þess er það eitt helsta útivistarsvæði Hafnfirðinga.

Lengi vel mátti sjá leifar veggja tóftanna í Kaldárseli, allt þangað til fólk fór að sækja í þá reglulegt grjótið og nota í annað. Loks voru þær sléttaðar út. Húsaskipanina mátti rekja greinilega fram eftir 20. öld. Vegginir voru þegjandi vitni þess, að þar hefði fólk búið endur fyrir löngu, stundum við misjafnar aðstæður.
Kaldársel átti sér ekki langa sögu sem fastur bústaður og saga þess er svipaður sögum smábýla á þeim tíma. En sögu á þetta fona býli samt – “sigurljóð og raunabögu”. Kaldársel dregur nafn sitt af litlu ánni, sem rennur fast sunnan við hið forna tún. Bærinn stóð sem næst á miðjum túnbletti, örfáa metra frá Kaldá.
Árið 1929 kom út í Reykjavík lítil bók með þremur kvæðum eftir séra Friðrik Friðriksson. Kver þetta nefnist “Útilegumenn”, og heitir annað aðalkvæðið “Kaldársel”. Friðrik var síðasti landnámsmaðurinn í Kaldárseli þar sem fyrir eru sumarbúðir KFUM og K. Kvæðið er svona:

Kaldársel

Kaldársel – Helgafell fjær.

”Eitt sinn ég kom
að Kaldárseli,
eyðistað
í ógna hrauni,
gömlu býli
og bæjarrústum:
einmana tóttir
eftir stóðu.

Reikaði ég einn
um rústir þessar, ríkti þar yfir
ró og friður,
unaðskyrrð djúp
við elfu niðinn
svölum gaf sál
og sæla gleði.”

Kaldársel

Op fjárskjóls.

Elstu heimild um Kaldársel er líklega að finna í Jarðabók þeirra Árna Magnússonar og Páls Vídalíns frá árinu 1703. Þar segir í sambandi við lýsingu Garða á Álftanesi: “Selstöð á staðurinn þar sem heitir við Kaldá, þar eru bæði hagar og vatnsból gott”. Þetta telur Jarðabókin ein af hlunnindum Garðastaðar og er augljóst að staðurinn hafi átt landið, eða allt þar til Hafnarfjarðarbær kaupir það árið 1912.

Þótt Kaldársel hafi um aldir verið eign Garðakirkju, ásamt miklu landflæmi til suðurs, austurs og norðurs frá Kaldárseli, er með öllu óvíst, hvort Garðaprestar hafi nokkru sinni haft þangað selfarir. Hitt er vitað, að þar var haft í seli frá Hvaleyri á síðasta fjórðungi síðustu aldar (skrifað 1968), en leiguselstöð hlýtur það að hafa verið, þar eð elstu landamerki, sem vitað er um, liggja í a.m.k. eins km vegalengd vestur frá Kaldárseli. Meðan selfarir voru mikið tíðkaðar, urðu landlitlir bændur oft að fá leigt land undir sel sín hjá landríkum bændum, svo að einsdæmi hefði ekki verið, þótt Hvaleyrarbóndinn leigði selstöð í Garðakirkjulandi.
Hvenær þessi selstöð hafi fyrst verið notuð frá Hvaleyri, er með öllu óljóst. Þegar litið er á bændatal Hvaleyrar um árið 1700 og það ástand, sem þar var í búskap manna, þegar jarðamat fór fram 1703, sést, að bændur hafa allir búið svo smátt, að varla er hugsanlegt, að selfarir hafi haft og síst svo langt í burtu sem í Kaldárseli, þar eð allgott selland og nóg vatn var helmingi nær Hvaleyri og auk þess í heimalandi, þar sem selstöðin við Hvaleyrarvatn.
Það eina, sem nú er vitað með vissu um selfarir í Kaldárseli, er, að hjónin Jón Hjartarson og Þórunn Sigurðardóttir höfðu þar í seli. Jón keypti Hvaleyrina 1842. Hann mun vera ríkasti bóndi, sem nokkru sinni hefur setið Hvaleyri. Jón dó árið 1866. Bjó Þórunn eftir það á Hvaleyri til 1873.

Kaldársel

Op fjárskjóls.

Þegar Þórunn dvaldist í “Selinu” á sumrin, sem var þó ekki nema við og við, fór hún stundum með orf sitt og hrífu upp með Kaldá og sló þar á hólmum, það sem slægt var, einnig smámýrarbletti milli kvíslanna í Kaldárbotnum. Þegar Þórunn á Hvaleyri hætti selförum að Kaldárseli, lagðist selstöð þar niður með öllu, og má ætla, eftir því sem síðar kemur fram, að það hafi verið 1865 eða 1866.
Í húsvitjunarbók Garðaprestakalls sést, að ábúandi er kominn í Kaldársel árið 1867, og er svo að sjá sem það sé fyrsta árið, sem fólk sé þar til ársdvalar. Þessi ábúandi var Jón Jónsson, kona hans og tvö börn. Þau munu hafa verið þar tvö eða þrjú ár. Fátæk voru hjón þessi og bústofn þeirra mjög lítill. Hjálparstelpa var hjá þeim, Sigríður Jónsdóttir frá Setbergi. Jón flutti síðan með fjölskyldu sína að Ási. Við brottförina lagðist búskapur niður í Kaldárseli um nokkur ár.
Árið 1867 er manntal tekið í Kaldárseli, og er það sennilega fyrsta árið, sem það er í byggð eftir brottför Jóns. Sá, sem þá er orðinn ábúandi, er Þorsteinn Þorsteinsson, upprunninn í Ölfusi. Þetta ár telur húsvitjunarbókin þar þrjár manneskjur í heimili, bóndann, ráðskonu og tökubarn. Árið eftir, 1877, eru þar fjórir í heimili og hefur þá bæst við vinnukona. Árið 1883 er Þorsteinn orðinn einn í Kaldárseli. Hann dó þar þremur árum seinna.
Þegar Þorsteinn fellur frá eru í Kaldárseli nokkra byggingar og önnur mannvirki.

Helgadalur

Í Rauðshelli.

Aðalbústofn Þorsteins var sauðfé og eitt eða tvö hross, kú mun hann aldrei hafa haft þar. Að mestu mun Þorsteinn hafa haft fullorðna féð á útigangi, þar eð heyfengur var þar lítill. Fjárhús með jötu við annan vegg var norðvestan við bæjarhúsin, og mun hann hafa haft lömb sín þar. Fullorðna féð hafði hann við hella, sem voru skammt norður frá bænum, eða þá í fjárborgum uppi á Standinum, sem er nokkru nær. Önnur þeirra er nú horfin með öllu. Þá hafi hann fé sitt við helli í Heiðmörk, svonefndum Þorsteinshelli.
Þegar flytja átti Þorstein látinn til greftrunar að Görðum höfðu burðarmenn á orði að óþarfi væri að fara með karlfauskinn alla leið þangað og stungu upp á því að hola honum þess í stað niður einhvers staðar á leiðinni. Að Görðum varð hann þó færður að lokum og jarðsettur þar af séra Þórarni Böðvarssyni.
Árin 1906 til 1908 var enn gerð tilraun til búsetu í Kaldárseli. Kristmundur Þorláksson frá Stakkavík í Selvogi fékk það til afnota og hélt hann þar afskekktri útigangshjörð sinni til haga og gjafar. Beitahúsavegur Kristmundar var langur þar sem hann var búsettur í Hafnarfirði og árferði óvenjuslæmt.
Saga Kaldársels er hvorki löng né viðburðarrík, en saga er það samt.

Rauðshellir

Í Rauðshelli.

Hús öll í Kaldárseli keypti Jón Guðmundsson bóndi að Setbergi svo og flestar kindurnar. Bæjarhús voru lítil en snoturlega byggð, og voru baðstofa, búr, eldhús og bæjardyr. Allar voru tætturnar vel hlaðnar úr sléttum, en nokkuð þykkum brunahellum og hvergi mold né torf á milli, svo sem venja var til um flestar byggingar þess tíma.

Húsin voru öll rifin, nema baðstofan, sem stóð uppi fram undir aldamótin 1900. Hún var einkum notuð sem sæluhús fyrir fjármenn Setbergsbænda, sem þá heldu fé sínu, einkum sauðum, víðs vegar þar í högum. Einnig var gott fyrir Krýsvíkinga að hafa þarna afdrep á ferðum sínum. Haustleitarmenn Grindvíkinga leituðu alla leið að Kaldá og höfðu náttstað í Kaldárseli. Þá var mikil umferð útlendra ferðamanna til Krýsuvíkur, einkum til að skoða hinar nýyfirgefnu brennisteinsnámur, sem þar voru. Þeir gistu margir í Kaldárseli. Baðstofan bar þess merki. Í sperrur og súð voru skorin ófá mannanöfn af ýmsum þjóðernum.
Að liðnum aldamótum 1900 var ekkert heillegt hús lengur í Kaldárseli. Ferðum útlendinga fækkaði, Krýsvíkingar týndu ört tölunni, fjallleitir Grindjána styttust og hið stóra Setbergsheimili tvístraðist. Og fénaðurinn hvarf úr högunum.

Danski höfuðsmaðurinn Daniel Bruun kom í Kaldársel árið 1897. Lýsir hann allvel Kaldárseli og umhverfi þar. Hann segir m.a. um húsatætturnar, að þær séu frábrugðnar flestum, ef ekki öllum þess konar byggingum hér á landi, þar sem þær séu byggðar úr grjóti einu saman.

Valahnúkar

Tröllin á Valahnúkum.

Árin 1906-1908 fékk Kristmundur Þorláksson Kaldársel til afnota, síðar stórbóndi í Stakkavík. Hann kom upp smáheyhlöðu í Kaldárseli fyrir sínar 50 kindur með því að byggja yfir hina gömlu baðstofutótt, sem þá stóð enn ófallinn. Þá byggði hann þar lambahús. Ekki hafði hann not af gömlu tóttunum að öðru leyti en því að hann gat nýtt úr þeim hraunhellurnar, sem hann gerði af miklum dugnaði. Kristmundur lá við í Hafnarfirði, en fór fótgangandi um veturinn beitarhúsaveginn í Kaldársel í myrkri kvölds og morgna. Ærnar hafði hann við gömlu hellana, sem eru skammt norður af Selinu. Lömbin voru í húsi, en músin vildi leggjast á þau. Kristmundur flutti loks fé sitt í Hvassahraun þar sem honum bauðst vist. Hann var því síðasti bóndinn í Kaldárseli.

Margt er að skoða í nágrenni við Kaldársel. Vestan við Kaldá, fast við árbakkann, eru letursteinar frá upphafi veru félagsmanna KFUM og K á staðnum. Efst á Borgarstandi er fjárborgin og undir honum að norðanverðu eru tóttir gamals stekkjar og fjárhýsins. Enn norðar eru hleðslur í Nátthaganum. Austan hans eru fjárhellarnir og hleðslurnar í kringum op þeirra. Í einum hellanna er hlaðinn garður eftir honum miðjum. Stærsti hellirinn er sá syðsti. Í honum er gott rými. Vatnsleiðslan gamla er austan Kaldárselsvegar og er forvitnilegt að sjá hvar hún hefur komið yfirl Lambagjá, en í gjánni er mikil hleðsla undir hana. Sú hleðsla mun hafa að nokkru leiti hafa verið tekin úr austari fjárborginni á Borgarstandi. Í Gjám enn norðar eru hellar, hleðslur og hellisop.
Austan við gamla veginn að Kaldárseli má enn sjá elstu götuna til og frá selinu, klappaða í bergið. Enn vestar, austan Fremstahöfða, er hálfhlaðið hús, líkt því sem sjá má á gömlum ljósmyndum Daniel Bruun frá 1892, að gamla selið í Kaldárseli hefur litið út.

Valaból

Músarhellir í Valabóli.

Út frá Kaldráseli eru margar greiðfærar og skemmtilegar gönguleiðir. Til dæmis er hægt að leggja af stað frá húsi K.F.U.M. og K., ganga til suðurs að Kaldá, þar sem hún rennur neðan við húsið, og yfir göngubrú, sem þar er á henni. Kaldá rennur á mótum tveggja hrauna. Annað rann úr suðri, en hitt rann úr Búrfelli, suðaustur af Kaldárseli. Að sunnanverðu, á hægri hönd þegar farið er yfir, má enn sjá tótt á árbakkanum. Eftir stutta göngu að girðingu framundan er komið inn á hluta gömlu Krýsuvíkurleiðarinnar. Hún er augljós í Kaldárhrauninu og auðvelt að fylgja henni í átt að Kaldárselshnjúkum. Við hnjúkana greindist Krýsuvíkurvegurinn, annar lá upp fyrir Undirhlíðar, Dalaleiðin, og hinn út með Hlíðunum.

Framundan til suðausturs eru Kaldárhnjúkar Syðri. Hlíðin á vinstri hönd og hraunið á þá hægri. Eftir stutta göngu er gengið framhjá Kúadal, en talið er að selssmalinn hafi rölt kvölds og morgna um þessa sömu götutroðninga með kýr úr og í haga. Vestan Kúadals taka Undirhlíðarnar við. Gengið er framhjá Kýrskarði og áfram útfyrir Múla á hægri hönd. Þar á horninu er hellisskúti er nefnist Árnahellir, kenndur við Árna Gíslason í Brekkubæ í Hafnarfirði.
Með Hlíðunum eru tré, sem plantað var af Skógræktarfélagi Hafnarfjarðar, sum fyrir áratugum síðan. Þar er minnisvarði um fyrsta formann Skógfræktarfélagsins, Ingvar Gunnarsson. Afturhlíðar Undirhlíða heita Bakhlíðar eða Gvendarselshæð. Þar er Gvendarsel vestan í hlíðinni. Sjást tóttir selsins og hlaðinn stekkur framan þess.
Framundan undir Hlíðunum, sem áður nefndust Gvendarselshlíðar, eru Kerin. Þau eru fallegir tvíburagígar. Hægt er að ganga upp í efri gíginn úr þeim neðri um gat á milli þeirra, en þar uppi er tilvalinn, skjólgóður áningastaður.

Kaldá

Kaldá í Kaldárbotnum.

Gamli bærinn í Kaldárseli stóð á túnblettinum, sem núverandi hús stendur á, þ.e. á móts við miðju þess er snýr að árbakkanum. Útihúsin voru til hliða og framundan húsunum sunnanverðum, en þau hurfu ekki svo til alveg fyrr en KFUM og K húsið hafði risið í Kaldárseli árið 1925. Þegar síðan var byggt við litla húsið voru útihúsin sléttuð.
Sem fyrr sagði tilheyrði landið áður Garðakirkju og hafði hún þar í seli fram til ársins 1836. Frá árinu 1873 hafði Hvaleyri þar leigusel. Sel Garða voru flest í Selgjá vestan Búrfellsgjár. Enn sjást þar tóttir selja með hraunbarminum beggja vegna, einkum að sunnanverðu, svo og fallegir fjárhellar, bæði í gjánni og efst í Urriðavatnshrauni. Hafnarfjarðarbær keypti árið 1912 allmikinn hluta af Garðakirkjulandi, Kaldársel þar með.

Gengið var að fjárhellunum norðan Kaldársels. Á Standinum er fjárborg, önnur af tevimur, sem þar voru. Hin, sú eystri, var fjarlægð á sínum tíma, sennilega verið notuð undir vatnsstokkinn. Gamlar sagnir eru til af hellum þessum. Þeir voru síðast notaðir árið 1908.

Kaldársel

Fjárhús undir Fremstahöfða.

Hellarnir, 6 talsins, fundust aftur tiltölulega nýlega á svæði utan gönguleiða. Um er að ræða mjög fallega fjárhella. Miðsvæðis er tóft utan um skúta. Eftir að fallið mosavaxið grjótið hafði verið fjarlægt frá opnum kom í ljós að enginn hafði komið þarna inn í allnokkurn tíma. Mold var á gólfi, en ekki eitt spor.
Í nyrsta fjárhellinum er hlaðinn garður í honum miðjum. Stærsti hellirinn er syðst. Gengið er niður í hann um hlaðinn gang og er þá komið inn í rúmgóðan sal með sléttu gólfi.

Önnur mannvirki tengd selstöðunni og búskap í Kaldárseli má sjá nálægt fjárhellunum, s.s. aðra eftirlifandi fjárborgina af tveimur upp á Borgarstandi, fjárhústóft norðan undir honum, gerði eða stekk við hana, nátthagann í Nátthaga og gömlu Kaldárselsgötuna klappaða í bergið.

Gengið var um Lambagjá, en hún hefur verið friðuð. Hraunið, sem kom úr Búrfelli, er um 7.000 ára. Fyrrnefnd friðlýsing nær einnig yfir hleðslu undir vatnsveitustokk sem lagður var frá Kaldárbotnum áleiðis til Hafnarfjarðar 1917 – 1918. Var 1600 m löng trérenna látin flytja vatnið og því sleppt niður í Gráhelluhraun við Sléttuhlíð. Það rann síðan um 3 km neðanjarðar og kom upp í Lækjarbotninum við norðurenda hraunsins. Í Lambagjá eru hlaðnar þverfyrirhleðslur á a.m.k. tveimur stöðum og einnig er hlaðið fyrir þar sem auðvelt hefur verið að komast upp úr gjánni miðsvæðis. Líklegt má telja að gjáin hafi verið notuð sem aðhald eða jafnvel nátthagi um tíma. Hraunhaft er í hrauntröðinni, en gengið var undir það. Þar niðri var fallegt þrastarhreiður. Í vor voru í því þrjú egg. Þrösturinn hafði greinilega verpt í það öðru sinni í sumar. Skammt ofar var annað þrastarhreiður, yfirgefið.

Kaldársel

Hleðsla undir vatnsleiðsluna.

Gengið var áfram upp að opi Níutíumetrahellis. Frá því var haldið upp að Selvogsgötu þar sem hún liggur niður í Helgadal. Frá brúninni sjást nokkur misgengi. Eitt er t.d. eftir endirlangri Smyrlabúð og áfram út með Hjöllunum. Annað er í norðurbrún Helgadals og liggur í átt að Búrfelli. Kíkt var í Vatnshelli áður en haldið var upp með misgenginu að Rauðshelli. Við op hans voru í vor og síðan aftur í sumar þrastarhreiður á sillu með fjórum eggjum í. Farið var inn í hellinn og m.a. skoðuð hlaðin fyrirhleðsla, sem þar er. Misvísandi lýsingar eru á Rauðshelli. Til er gömul lýsing, sem mun vera rétt, en einnig hefur verið giskað á að um Hundraðmetrahellinn gæti verið að ræða, en slíkt passar ekki við gömlu lýsinguna. Náttúrulegur bekkur hefur verið þarna þvert yfir hellinn, sem bæði hefur verið hægt að komast yfir og undir. Hún er nú fallin, en rauður liturinn í hellinum er enn áberandi. Hleðslur eru í jarðfallinu og án efa einnig undir gróðurþekjunni, sem þar er. Forn stekkur er skammt norðar.

Tvö nöfn eru á Rauðshelli; gamla nafnið er dregur nafn sitt af litnum, og einnig nafnið Pólverjahellir. Sumir hafa talið að hann væri svo nefndur eftir Pólverjum á skipi í Hafnarfjarðarhöfn, sem gist hafði í hellinum því hún fékk ekki inni í Hafnarfirði, en hið rétta er að ungir drengir úr Pólunum í Reykjavík, nefndir Pólverjar, dvöldu þarna um tíma.
Svo óheppilega vildi til að þegar hópurinn hafði komið sér fyrir innst í Rauðshelli heyrðust armæður og kvenstafir frá pari, sem lagst hafði til hvílu á bak við stóra steina í hellinum. Þar reyndust vera komin frú grýla og herra leppaúði. Báru þau sig illa yfir rúmraskinu og var því ákveðið að hverfa út úr hellinum svo þau gætu a.m.k. sofið þar enn um sinn.

Kíkt var í opið á Hundraðmetrahelli og síðan gengið upp í Fosshelli og haldið í gegnum hann. Sást vel hversu fallegur hraunfossinn er sem og flórinn í efri hluta hellisins. Þegar gengið var upp í gegnum hellinn var enn einn úr jólafjölskyldunni vakinn; kertasníkir. Hafði hann lagt sig yst í Fosshelli, en vaknað við umgang fólksins. Lét hann í sér heyra, en lagðist síðan til hvílu á ný, enda enn langt til jóla.

Kaldársel

Gengið um Kaldársel.

Frá Helgadal sést vel yfir að Búreflli í austri. Búrfell er eldborg. Frá henni rann hraun niður í Hafnarfjörð og Skerjafjörð. Heildarflatarmálið er u.þ.b. 18 ferkílómetrar. Hraunið er talið vera í kringum 7200 ára.

Þegar gengið er niður í Helgadal sét vel í ætlað bæjarstæði fornbýlis, sem þar á að vera, upp í austanverðri hlíðinni. Ekki er ólíklegt er að þarna sé komið bæjarstæði það sem lengi hefur verið leitað að og heimildir kveða á um. Á landnámsmaður að hafa byggt sér bæ í Helgadal, en þrátt fyrir leitir hafa leifar hans ekki fundist. Hér gæti einnig verið um hina fornu Skúlastaði að ræða, en þeir eiga skv. sögunni að vera næstelsta bæjarstæði norrænna manna hér á landi. Við þetta ætlaða bæjarstæði liggur gömul þjóðleið. Fróðlegt væri að fá við tækifæri áhugasaman fræðing til að kíkja á aðstæður þarna.
Framangreint eru nú einungis vangaveltur um hugsanlega möguleika því ekki er vitað til þess að svæðið eða þessi staður í Helgadal hafi verið skoðaður sérstaklega m.t.t. þessa.
Þegar komið var á jafnsléttu var gengið til suðurs með austanverðuverðu fjallinu, upp í Valaból. Valaból er fallegur trjálundur. Við hann er Músarhellir. Á Valahnúkum eru steingerð töll – í alvöru.

Kaldársel

Jólasveinn í einum fjárhellanna.

Búrfellið tilheyrir eldstöðvakerfi kennt við Krísuvík. Búrfell er hringlaga gígur úr hraunkleprum. Gígurinn er 179 metrar yfir sjó þar sem hann er hæstur og 140 metrar að þvermáli milli barmanna. Dýptin hefur mælst 58 metrar frá hæsta og 26 metrar frá lægsta barmi. Mismunurinn á barmi gígsins stafar af misgengi sem átti sér stað eftir að eldvarpið hlóðst upp.
Búrfell gaus einu sinni, það var flæðigos og framleiðslan var fyrst og fremst Búrfellshraun. Meginuppistaðan í eldvarpinu eru kleprar, þeir eru lagskiptir og hallar lögunum bratt niður í gíginn. Rofist hefur ofan og utan úr Búrfelli og hefur myndast hvasst egg á toppi fjallsins sem er úr lausri gosmöl.
Búrfellshraun er innan marka Garðabæjar og Hafnarfjarðarbæjar.

Tveir megin hraunstraumar hafa komið frá Búrfelli. Það sem aðgreinir þessar kvíslir er Helgadalshraun. Búrfellið gengur undir ýmsum nöfnum eftir því hvar það er. Sá hraunstraumur sem er Hafnarfjarðarmegin hefur eftirfarandi nöfn: Næst Búrfelli er Smyrlabúðahraun (kennt við fuglinn smyril sem gerði sér hreiður þarna), Gráhelluhraun, Lækjarbotnahraun, Stekkjarhraun, Sjávarhraun, Arnarhraun og vestar heitir það Flatarhraun. Garðabæjarmegin er fyrst Garðahraun, Urriðakotshraun, Vífilstaðahraun, Hraunholtshraun, Gálgahraun og Balahraun. Hraunið er stórbrotið apalhraun og meðalþykkt þess er ekki undir 20 metrum.

Kaldársel

Forynjur í einu fjárskjólanna.

Sá hraunstraumur sem runnið hefur í Heiðmörk og niður í Garðabæ hefur runnið eftir Búrfellsgjá. Búrfellsgjá þykir með fallegri hrauntröðum landsins. Gjáin er 3,5 km á lengd með meginstefnu í norðvestur. Búrfellsgjá er mjóst upp við gíginn eða um 20-30 metrar milli barma en breikkar þegar lengra dregur og verður mest 300 metrar. Í hrauninu út með Vífilsstaðahlíð grynnkar hrauntröðin og hverfur, sá endi Búrfellsgjár nefnist Selgjá. Á köflum eru gjárveggirnir þverhníptir og mynda sums staðar grunna hellisskúta sem eru með snarhöllu þaki. Barmar, veggir og botn hrauntraðarinnar er allt úr Búrfellshrauni.
Gengið var niður gjána og að Gjáarrétt. Réttin var skoðuð sem og Gerðið. Innst í því, undir slútandi kletaveggnum er hlaðið hús, nokkuð heillegt.

Gjáarrétt hefur sennilega verið lögrétt Garðhreppinga, Bessataðahreppsbúa og Hafnfirðinga í nokkur hundruð ár (Ól. Þorvaldsson). Sigurður í Görðunum segir í minningum sínum: „Réttin okkar var í hrauninu, skammt fyrir sunnan Vatnsenda. Hygg ég, að það hafi verið ein sérkennilegasta rétt á landinu. Hún hét Gjárétt, enda var hún í gjá. Skammt frá eru víðir og fagrir vellir og þar var oft leikið sér og ekki sízt sprett úr spori bæði þegar komið var í réttina og eins þegar réttardeginum var lokið.“ Gjáarrétt (Gjárétt) var fjallskilarétt (lögrétt) til 1920, en þá var hún flutt niður í Gráhelluhraun og nefndist Hraunrétt. Dilkar voru 12 talsins uns einum dilk Selvogsmanna var bætt við suðaustast í réttinni. Árið 1955 var gerð rétt við Kaldársel. Gjáarrétt var friðlýst að tilstuðlan þjóðminjavarðar 1964.

Allnokkru ofan við hellana í Helgadal er Rjúpnadalahraun. Í því, norðan við Húsafell, er hlaðin refagildra. Fjárskjól er í norðvestanverðu í Húsfelli og eru sagnir eru til um það. Framan við það eru gamlar hleðslur.

Frá Valabóli var gengið áleiis niður í Kaldárbotna þar sem vatnsveita Hafnarfjarðar er með vatnsból sín og tekur ferskvatn fyrir bæjarbúa.

Valaból

Í Valabóli.

Þegar gengið er áleiðis á Helgafell er komið að nyrsta hluta Gvendaselsgíga. Gígarnir standa upp úr hrauninu efst á brúninni, sá nyrsti stærstur.
Flestir, sem halda á Helgafell, ganga norður fyrir fjallið og síðan auglýsta gönguleið upp skriðuna. Mun auðveldari gönguleið er upp móbergsgil skammt vestar á norðanverðu fjallinu. Þá er komið upp í sléttan dal og þaðan er auðvelt að ganga upp slétthallandi móbergið, áleiðis upp á öxlina og síðan á toppinn. Fjallið er 340 m.y.s.
Ein sjö Helgafell eru til í landinu; þetta suður af Hafnarfirði, í Mosfellssveit, á Þórsnesi á Snæfellsnesi, yst sunnan Dýrafjarðar, í Strandasýslu vestan Hrútafjarðar, í Þistilfjarðarfjallgarði norðaustan Öxarfjarðarheiðar og í Vestmannaeyjum. Hugsanlega er nafnið tengt lögun þessara fjalla, en þau eru að minnsta kosti sum hver regluleg eða heilleg að útliti. Af einhverjum ástæðum var talin helgi á Helgafelli á Snæfellsnesi.
Orðið helgur er samandregin mynd úr heilagur, sem er skylt orðinu heill. Örnefni með Helga- að fyrra lið geta einnig verið dregin af mannsnafninu Helgi. Ágætt útsýni er af Helgafelli í góðu skyggni.
Kaldá sprettur fram undar Kaldárhöfða og streymir um 1100 m leið ofanjarðar áður en hún hverfur ofan í gljúpt hraunið. Talið er að hún renni í sjó fram við Straumsvík og hraunin sunnan Hafnarfjarðar. Við Karlársel eru Gjárnar, merkileg náttúrusmíð.
Kaldárstraumur á upptök í sunnanverðum Bláfjöllum og Lönguhlíð. Hann streymir þaðan til norðvesturs um Húsfellsbruna og Heiðmörk. Grunnvatnsskil liggja frá Straumsvík og í vesturenda Lönguhlíðar. Berggrunnurinn er úr hraunum, grágrýti og móbergsmyndunum. Þótt hraunin þeki víðáttumilkil svæði á þessum slóðum liggja þau að mestu yfir grunnvatnsborði. Sprungur auka mjög vatnsleiðni og hafa afgerandi áhrif á grunnvatnsstreymið. Sprungurnar eru hluti af sprunguskara sem kenndur hefur verið við Krýsuvík. Þær beina grunnvatninu úr sunnanverðri Heiðmörk til suðvesturs í átt til Kaldárbotna.

Hundraðmetrahellir

Hundraðmetrahellir.

Athyglisvert er að fyrir vikið streymir grunnvatnið á þessum slóðum ekki hornrétt á grunnvatnshæðarlínur, eins og algengast er, heldur skálægt á þær. Straumþunginn fylgir því sprunguskaranum. Í Kaldárbotnum sést örlítið brot af því vatni sem þarna er á ferð. Meðalrennsli Kaldár skammt neðan upptakanna er 800 l/s samkvæmt mælingum í vatnshæðarmælinum vhm 124, en sveiflur eru miklar í rennslinu. Kaldá er einskonar yfirfall úr grunnvatnsstraumnum. Einum kílómetra neðar er hún öll horfin til grunnvatnsins á ný. Neðan við Undirhlíðar sveigir grunnvatnið út úr sprunguskaranum og flæðir um hraunin til norðvesturs uns það birtist í fjörulindum í Straumsvík og í Hraunsvík, en svo nefnist bugurinn milli Hvaleyrarholts og Straumsvíkur. Þar upp af ströndinni eru vatnsból Álversins. Sennilegt er að einungis minnihluti lindarennslisins komi í ljós í fjörulindum þegar lágt stendur í sjó en að meirihluti þess sé jafnan í flæðarmálinu sjálfu eða neðan þess. Kaldárstraumur er langmesti grunnvatnsstraumurinn á höfuðborgarsvæðinu.
Þjóðsagan segir að fyrrum hafi Kaldá komið úr Þingvallavatni en eftir að Ingólfur landnámsmaður gróf Soginu farveg úr því, þar sem síðan heitir Grafningur, hafi Kaldá þorrið. Önnur saga segir að tveir synir fjölkunnugs karls nokkurs hafi drukknað í ánni og eftir það hafi hann kveðið hana niður. Þriðja sagan segir að hún hafi þornað eftir mikið eldgos.

Kaldársel

Kaldársel – tilgáta ÓSÁ.

Í dag nýtur Kaldársel ýmissa forréttinda. Í fyrsta lagi nýtur svæðið verndunar þar sem það er innan Reykjanesfólksvangs og hefur verið það í um 30 ára skeið. Í öðru lagi er Kaldársel innan vatnsverndar höfuðuborgarsvæðisins og í þriðja lagi nýtur Kaldársel og nágrenni sérstakrar verndar skv. þjóðminja- og náttúruverndarlögum.

Frábært veður. Gangan tók 3 klst og 3 mín.

Heimild m.a.:
-Ólafur Þorvaldsson – Áður en fífan fýkur – 1968.
-Jarðabók þeirra Árna Magnússonar og Páls Vídalíns frá árinu 1703 – III. bindi, bls. 180.
-Úr “Sögu Hafnarfjarðar”, handskrifuðum Minningum Sigurðar Þorleifssonar og handriti Gísla Sigurðssonar á Bókasafni Hafnarfjarðar).

Kaldársel

Kaldársel.

Krýsuvík

Eftirfarandi umfjöllun um „Gróðurhús og búskap í Krýsuvík“ birtist í Skinfaxa árið  1951:
„Á síðari árum hefur margt og mikið verið rætt og ritað um framkvæmdir Hafnarfjarðarkaupstaðar í Krýsuvík. Verður hér stuttlega skýrt frá því, sem þegar hefur verið gert þar og helztu fyrirætlunum.
Krýsuvík liggur um miðbik Reykjaness að sunnanverðu, milli Grindavíkur og Herdísarvíkur, en suðvestan við Kleifarvatn. Fyrr á tímum var þar höfuðból með sex hjáleigum, og um síðustu aldamót lifðu þar um 40 manns. Var sauðfjárræktin undirstaða búskaparins þar og sömuleiðis sjósókn. — Krysuvik - bustjorahusid
Síðan tók fólki stöðugt að fækka og byggðin að eyðast. Olli því að sjálfsögðu breyttir búskaparhættir og þjóðarhættir, og auk þess samgönguleysi. Kom þar að lokum, að aðeins einn maður dvaldi í Krýsuvík, og hafðist hann við i leifum af kirkjunni. Leið þó ekki nema einn vetur, að mannlaust væri í Krýsuvík, áður en starfsfólk Hafnarfjarðarbæjar settist þar að.
Hafnarfjarðarbær fékk eignarrétt á ræktunarlandi og hitasvæði í Krýsuvík árið 1937. Undirstaða framkvæmda þar hlaut að teljast vegarlagning þangað, en lög um Krýsuvíkurveg höfðu verið samþykkt á Alþingi árið 1936. Síðan sá vegur tengdist Suðurlandsundirlendinu, hefur hann komið í góðar þarfir á vetrum, — ekki hvað sízt á síðastliðnum vetri. — Milli Hafnarfjarðar og Krýsuvíkur eru 25 km.
Framkvæmdir í Krýsuvík eru þríþættar, og hafa þessir þrír þættir frá upphafi verið aðskildir, þótt á síðasta ári hafi tveir þættirnir verið sameinaðir undir eina stjórn. Þessir þrír þættir eru: Ræktun í gróðurhúsum, grasrækt og kúabúsframkvæmdir og boranir eftir jarðhita.

A. Gróðurhús.
Krysuvik - grodurhusinVegna jarðhitans eru skilyrði til ræktunar í gróðurhúsum ótakmörkuð í Krýsuvík. Nú eru gróðurhúsin orðin fjögur, og eru ca. 1600 ferm. undir gleri. Tvö þessara gróðurhúsa (600 ferm.) voru tekin í notkun vorið 1949, en hin tvö er verið að ljúka við. Í gróðurhúsunum eru einkum ræktaðir tómatar, agúrkur, gulrætur og blóm. Í sambandi við gróðurhúsin er auk þess hálfur hektari útiræktar, þar sem gert er ráð fyrir að rækta alls konar grænmeti. Jarðhitinn, sem gróðurhúsin eru hituð með, er gufa, og er hún leidd í þró, þar sem katli hefir verið komið fyrir, og hitar gufan þannig vatnið í hitakerfi gróðurhúsanna, en það er venjulegt miðstöðvarkerfi.
Í sambandi við gróðurhúsin hafa verið reist tvö íbúðarhús, ca. 360 ferm. að grunnflatarmáli, fyrir bústjóra og starfsfólk. Eru í húsunum öll þægindi, vatnsleiðsla, skólpræsi og rafmagn frá dieselrafstöð.

B. Búskapur.
Krysuvik - starfsmannahusidÍ Krýsuvík eru ca. 300 ha. ræktanlegl graslendi, en auk þess melar, sem e.t.v. mætti rækta með sérstakri aðferð. Kom fljótt til tals að setja þarna á fót stórt kúabú, er jafnan gæti séð Hafnfirðingum fyrir ferskri og góðri barnamjólk. Á þessum grundvelli hafa verið hafnar allmiklar búskaparframkvæmdir, þótt enn megi þær teljast á byrjunarstigi. Þegar hafa verið brotnir um 30 ha. lands, en vinnslu er misjafnlega langt á veg komið. Meginhlutann mætti þó fullvinna undir grasfræssáningu á þessu vori. Grafnir hafa verið 8 km langir, opnir skurðir til landþurrkunar, en ca. 45 km löng lokræsi (kílræsi). Tveir súrheysturnar hafa verið reistir. Eru þeir 5 m í þvermál og 14 m háir. Fjós fyrir 154 kýr og tilheyrandi ungviði er komið undir þak. Hér er komið framkvæmdum í búskaparmálum í Krýsuvík, en um framhaldið verður ekki sagt á þessu stigi málsins. Það er rétt að geta þess, að í Krýsuvík er mjög votviðrasamt, og verður því naumast gerlegt að vera háður náttúrunni með verkun á heyi. Gera má ráð fyrir, að þarna mætti hafa um 300 kýr. Öll mannvirki, sem hingað til hafa verið reist í Krýsuvík, bæði vegna ræktunar í gróðurhúsum og fyrirhugaðs búskapar, eru hin vönduðustu og af fullkomnustu gerð.

C. Boranir eftir jarðhita.
Krysuvik - borholurÍ Krýsuvík er eitt mesta jarðhitasvæði á landinu, enda ber Reykjanesskaginn allur ljósar menjar mikilla jarðumbrota og eldgosa. — Festi Hafnarfjarðarbær ekki hvað sízt kaup á Krýsuvík vegna jarðhitans, enda hafa jafnan miklar vonir til hans staðið og standa enn.
Fyrstu jarðboranir í Krýsuvík voru framkvæmdar af rannsóknarráði ríkisins árið 1941 og 1942. Var þá borað við suðurenda Kleifarvatns. Þetta var aðeins gert í rannsóknarskyni til þess að kynnast jarðlögum. Festust borarnir tíðum, og engin gufa kom.
Næst var borað 1945. Rafmagnseftirlit ríkisins hafði þær boranir með höndum, einnig í tilraunaskyni. Borað var við svonefndan Austurengjahver og í Seltúni. Jarðborar voru grannir. Nokkurt gufumagn kom þó, en þar sem holurnar voru þröngar, stífluðust þær fljótt, enda var hér um rannsókn að ræða.
Haustið 1946 var Ólafur Jóhannsson úr Hveragerði fenginn til að bora eftir gufu vegna væntanlegra gróðurhúsa. Þá voru boraðar 3 holur, ein með allgóðum árangri, og er íbúðarhús starfsfólks gróðurstöðvarinnar hitað með gufu þaðan.
Um áramótin 1946—47 tók til starfa í Krýsuvík nýr jarðbor, sem Hafnarfjarðarbær hafði keypt, en Rafveitu Hafnarfjarðar var falið að annast rekstur hans. Þessi bor er fallbor, en fram til þessa höfðu verið notaðir snúningsborar. Fallborar geta borað víðari holur en snúningsborar, þótt vélaorkan, sem knýr þá, sé hin sama. Ennfremur er minni festuhætta fyrir þá gerð, en áður hafði það tafið mikið, hve horar vildu festast. Með fallbornum var fyrst borað vegna gróðurstöðvarinnar, skammt frá henni. Sú borhola mistókst. Var þá borinn fluttur i svonefnt Seltún og byrjað að bora með tilliti til væntanlegrar raforkuvirkjunar. Meðan á því stóð, var aftur fenginn bor frá rafmagnseftirliti ríkisins til þess að bora uppi í fjallinu ofan við gróðurstöðina, í svonefndum Hveradölum. Voru þær boranir vegna gróðurhúsanna og gáfu nægjanlegt gufumagn fyrir þau, eins og þau voru þá. —
Þessar holur hafa þó stíflazt, og hefur fallborinn þá verið fluttur upp í Krysuvik - seltun IIHveradalina til þess að bora upp þessar stíflur. Ennfremur hafa víðari holur verið boraðar með fallborum í Hveradölum, sem heppnazt hafa, og gefa þær samtals um 10 tonn af gufu á klst. Gufumagn, sem fyrir hendi er úr borholum í Hveradölum, er þref alt meira en gróðurstöðin þarfnast, eins og hún er nú. Í Seltúni hafa boranir gengið upp og ofan, enda er jarðvegur í Krýsuvík sérstaklega erfiður viðfangs fyrir jarðboranir. Með fenginni reynslu tókst þó að endurbæta svo borvélina á síðastliðnu ári, að borun hefur gengið mun greiðar en áður. Hefur nú tekizt að bora allt að 13 m á dag, en stundum áður varð ekki komizt nema nokkra centimetra niður á degi hverjum.
Það var 12. sept. síðastl., að verulegur árangur varð af borunum í Seltúni. Þá kom skyndilega gos úr holu, sem verið var að bora, og orðin var 229 m djúp. Hola þessi er fóðruð með 8 tommu víðum járnpípum 100 m niður. Gosið hefur sífellt haldið áfram, siðan það byrjaði, og kemur úr holunni allvatnsblönduð gufa. Hefur magnið verið mælt við mismunandi mótþrýsting, þ.e. þrengt hefur verið mismunandi mikið að gosinu. Gufa sú, sem úr holunni kemur, mun geta framleitt um 5000 kílóvött rafmagns. En auk þess koma úr holunni um 30 1 af 100° heitu vatni á sekúndu, sem nota mætti í hitaveitu eða til annars. — Til samanburðar má geta þess, að Hafnarfjarðarbær notar nú 3000 kílóvött rafmagns. Gos kemur úr 5 holum alls, þótt gosið úr fyrrnefndri holu sé langmest, en heildargufan úr öllum holunum er 60 tonn á klst. Í ráði er að virkja þarna í Seltúni, og hefur ýmsum fyrirtækjum í Evrópu og Bandaríkjunum verið send greinargerð um þelta efni og óskað eftir tilboðum um vélar og tæki. Komið hefur í ljós, að ítölsk og svissnesk fyrirtæki ein telja sig geta sinnt svo sérstæðu verkefni, sem hér um ræðir. Stendur Rafveita Hafnarf jarðar nú í sambandi við ítölsk fyrirtæki varðandi þessi mál. Bráðabirgðaáætlun sýnir, að slík gufuvirkjun yrði nokkru ódýrari en samsvarandi vatnsvirkjanir. Stendur rafveitan í sambandi við ítölsk orkuver, sem reynslu hafa af gufuvirkjunum. Hafa Ítalir gufuorkuver, sem framleiða 300 þús. kílóvött rafmagns. Til samanburðar má geta þess, að nýja Sogsvirkjunin, eins og hún er nú áætluð, mun framleiða 31 þús. kílóvött. Borunum er að sjálfsögðu haldið áfram í Krýsuvík.“

[Þessi grein er byggð á upplýsingum Jens Hólmgeirssonar, bústjóra í Krýsuvík, varðandi gróðurhús og búskap, og Valgarðs Thoroddsen rafveitustjóra í Hafnarfirði varðandi boranir, en hann veitir borunum og raforkuframkvæmdum í Krýsuvík forstöðu. — Myndirnar af húsum í Krýsuvík eru teknar núna í marz, en óvenju mikill snjór hefur verið þar í vetur. — S. J.]

Heimild:
-Skinfaxi, „Krýsuvík“, 42. árg., 1. tbl., 1951, bls. 17-23.

Krýsuvík

Krýsuvík.