Færslur

Álftanes - kort 1870

Eftirfarandi er yfirlit yfir sögu einstakra byggðalaga á Reykjanesskaganum vestanverðum:

Saga Reykjavíkur

Saga Reykjavíkur.

 -Anna Ólafsdóttir Björnsson: Álftanesnesið okkar. Kaflar úr sögu Bessastaðahrepps. Bessastaðahreppur 1998. 48 bls.

Þetta er kennsluefni í samfélagsfræði fyrir nemendur Álftanesskóla og er að nokkru stuðst við efni bókarinnar Álftanesssaga. Bessastaðahreppur – fortíð og sagnir. Efnið nær frá landnámi til loka 20. aldar.

-Anna Ólafsdóttir Björnsson: Álftanesssaga. Bessastaðahreppur – fortíð og sagnir. Reykjavík 1996. 311 bls.

Ritið skiptist í þrjá meginhluta. Sá fyrsti nefnist „Frá landnámi til 1800. Kotin og kóngsmennirnir“.

Álftanessaga

Álftanessaga.

Þar er m.a. lýsing Bessastaðahrepps, fjallað um landnám og fyrstu aldirnar, Lénharð fógeta, hvalreka, Bessastaðakirkju, skipskaða og ofviðri og hinstu ferð Appolloníu Swartzkopf. Auk þess eru fjórir undirkaflar sem skiptast á einstakar aldir, þá fimmtándu, sextándu, sautjándu og átjándu. Annar meginhluti kallast „Nítjánda öldin. Blómaskeið sjósóknar á Álftanesi“. Þar er m.a. fjallað um mannlíf á Álftanesi í upphafi aldarinnar, aldarfar og afkomu, skiptingu hreppsins, menntun og menningu, sjósókn og landbúnað. Þriðji meginhluti nefnist „Tuttugasta öldin. Búskapur og upphaf þéttbýlis“. Rætt er m.a um íbúaþróun, samgöngur, búskap, sjósókn og fiskvinnslu, landþurrkun og sjávarvarnir, veitumál, framfærslumál, skipulag, félagsstarfsemi og listir og atvinnulíf almennt.

Saga Hafnarfjarðar

Saga Hafnarfjarðar.

-Ásgeir Guðmundsson: Saga Hafnarfjarðar 1908-1983 I-III. Hafnarfjörður 1983-1984. 446 bls., 446 bls., 557 bls.
Verkið er efnisskipt:

Í fyrsta bindi er einkum fjallað um stjórnmál, skipulagsmál, fjármál, höfnina og atvinnumál almennt.
Í öðru bindi er rætt um veitustofnanir, slökkvilið og löggæslu, skóla- og íþróttamál, heilbrigðismál og kirkjumál.
Í þriðja bindi er sjónum beint að stéttarfélögum, félagsstarfsemi, menningarmálum, félags- og æskulýðsstarfsemi, húsnæðismálum, verslun og viðskiptum, vegamálum og samgöngum og loks er hugað að fáeinum bæjarstofnunum. Í ritinu er einnig æviágrip bæjarfulltrúa og bæjarstjóra.

Álftanes

Álftanes – örnefni og bæir. (ÓSÁ)

Bessastaðahreppur í hundrað og tuttugu ár. Afmælisrit. Umsjón með útgáfu Soffía Sæmundsdóttir. [Bessastaðahreppur] 1998. 36 bls.
Í ritinu er einkum að finna stuttar frásagnir af skólamálum, kirkjustarfi, kórstarfi og félagslífi.
Einnig eru ávörp og viðtöl við yngri og eldri íbúa Bessastaðahrepps.

-Bjarni Guðmarsson: Saga Keflavíkur I-III. Keflavík 1992, 1997, 1999. 302 bls., 371 bls., 448 bls.
Fyrsta bindið tekur til tímabilsins 1766-1890. Greint er frá upphafi þéttbýlis en meginhluti ritsins fjallar um verslun og sjávarútveg á ýmsum tímum, en jafnframt er rætt um íbúa og atvinnuhópa, alþýðuhagi og lífið í þorpinu sem og bjargræði af landi.

Saga Keflavíkur

Saga Keflavíkur.

Annað bindið fjallar um tímann 1890-1920 og skiptist í sautján ólíka kafla. Rætt er um strandsiglingar og vegasamband, umhverfi og bæjarland, fólksfjölgun og húsbyggingar, heimilishald, kaup og kjör launafólks, útgerð og fiskiskip, verslun og viðskipti, heilbrigðismál, trú og kirkju, skólahald, bindindismál, félagslíf og menningarstarf, sveitarstjórn og lífið í Keflavík í fyrri heimsstyrjöldinni.
Þriðja bindið nær yfir tímabilið 1920 til 1949 og skiptist í 23 meginkafla og hefur hver og einn að geyma nokkra undirkafla. Rætt er um íbúaþróun, rafmagnsmál, vatnsveitu, samgöngur og fólksflutninga, útgerð og fiskveiðar, áhrif kreppunnar í Keflavík, verkalýðsmál, bryggjur og hafnarmannvirki, iðnað, verslun, skipulag og húsbyggingar, vöxt þéttbýlisins, lög og reglu, símamál, samkomuhald, félags- og menningarlíf, íþróttir, félagsmál, heilbrigði og velferð, skólastarf, áhrif seinna stríðs og breytingar á sveitarfélaginu.

Seltirningabók

Seltirningabók.

-Heimir Þorleifsson: Seltirningabók. Seltjarnarnes 1991. 320 bls.
Bókin skiptist í sex meginhluta og spannar að mestu tímann frá því um 1800 til 1991. Hver meginhluti skiptist í fjölda undirkafla, en aðallega er fjallað um hreppinn og stjórnsýslu, jarðir og ábúendur á Framnesi, útgerð, Mýrarhúsaskóla, Framfarafélagið og annað félagsstarf og loks kirkjuna í Nesi.

-Jón Þ. Þór: Gerðahreppur 90 ára. 13. júní 1908-1998. Gerðahreppur 1998. 293 bls.

Ritið skiptist í níu meginhluta og er hver þeirra yfirleitt með nokkrum undirköflum. Í upphafi er sögusviðið kynnt. Síðan tekur við kafli þar sem er m.a. fjallað um landnám, mannfjölda í Garðinum fyrir 1908 og eignarhald á jörðum í Garði og Leiru. Því næst er rætt um Garðinn sem verstöð. Stofnun Gerðahrepps er því næst gerð að umtalsefni og þar næst fjallað um starfsemi í Gerðahreppi á árunum 1908 til 1939, mannfjölda þar og byggðaþróun, sjávarútveg, verslun, kirkju og skóla. Þá er kafli um málefni hreppsins á árum síðari heimsstyrjaldarinnar. Því næst er greint frá vaxtarskeiði og velmegun á árunum 1946 til 1998 og m.a. rætt um mannfjölda, sveitarstjórn, veitustofnanir, skipulag, hafnarmál, skólamál og samstarf við önnur sveitarfélög á Suðurnesjum. Að því búnu er kafli um atvinnulíf og loks er kafli um félagslíf.

Saga Grindavíkur

Saga Grindavíkur.

-Jón Þ. Þór: Saga Grindavíkur. Frá landnámi til 1800. Grindavík 1994. 282 bls.
Jón Þ. Þór og Guðfinna M. Hreiðarsdóttir: Saga Grindavíkur. Frá 1800 til 1974. Grindavík 1996. 386 bls.
Fyrri bókin greinist í tíu meginhluta og eru flestir með nokkrum undirköflum. Í upphafi er sögusviðið kynnt og sagt frá örnefnum. Því næst er fjallað um landnám í Grindavík og upphaf byggðar. Þá eru kaflar um mannfjölda, bólstaði og búendur og búskapar- og lífshætti í Grindavík fyrir 1800. Næst er fjallað um sjávarútveg, síðan tengsl Grindavíkurjarða og Skálholtsstóls og þar á eftir um verslun. Loks eru kaflar um Tyrkjaránið 1627 og sölu stóls- og konungseigna.

Grindavík

Grindavík 2023.

Seinni bókin skiptist í níu meginhluta og eru flestir með fjölda undirkafla. Greint er frá Grindavík á öndverðri 19. öld og fólkinu þar árið 1801 í fyrsta hluta. Í öðrum hluta er fjallað um mannfjölda í Grindavíkurhreppi 1801-1974. Því næst er rætt um hverfabyggð og þorpsmyndun. Fjórði meginhluti tekur til sveitarstjórnar. Sá fimmti fjallar um atvinnuvegi almennt og sá sjötti hefur að geyma þætti úr verslunarsögu. Í sjöunda meginhluta er rætt um menningar- og félagsmál en í þeim áttunda um skólamál. Loks er fjallað um kirkju og trúmál.

Saga Njarðvíkur

Saga Njarðvíkur.

-Kristján Sveinsson: Saga Njarðvíkur. Reykjavík 1996. 504 bls.
Ritið skiptist í sautján meginhluta og hefur hver hluti nokkra undirkafla. Rætt er um umhverfi, staðfræði og náttúrufar; landnám og fyrstu þekkta byggð; búsetu og hagi á fyrri öldum, fram um 1700; íbúa Njarðvíkur og afkomu þeirra á 18. öld; atvinnuhætti og byggðarþróun á 19. öld; menntunar-, félags- og heilbrigðismál á 19. öld; ómagaframfæri, efnahag sveitarsjóðsins og þróun fólksfjölda í Vatnsleysustrandarhreppi á 19. öld; Njarðvíkurhrepp 1889-1908; Njarðvík í Keflavíkurhreppi 1908-1942; fólksfjöldaþróun og atvinnumál 1942-1994; uppbyggingu hafnarmannvirkja; uppbyggingu almenningsfyrirtækja og ýmis verkefni sveitarfélagsins 1942-1994; skipulagsmál, íbúðabyggingar og gatnagerð 1942-1994; skóla og bókasöfn frá 1942; stjórnmál, stjórnkerfi og fjárhag sveitarfélagsins 1942-1994, Njarðvíkurkirkjur á 20. öld; félagsstarf, skemmtanalíf og íþróttir 1942-1994.

Saga Garðabæjar

Saga Garðabæjar.

-[Ragnar Karlsson]: Garðabær. Byggð milli hrauns og hlíða. Safn til sögu Garðabæjar. Umsjón með útgáfu Erla Jónsdóttir. Garðabær 1992. 73 bls.
Farið er nokkrum orðum um þróun byggðar í landi Garðabæjar í aldanna rás, rætt um náttúrufar og umhverfi, fjallað um jarðfræði Garðabæjar, greint frá kirkjustaðnum Görðum, Bessatöðum, Vífilsstöðum, fjallað um byggð og búsetu í Álftaneshreppi, rætt um upphaf Garðahrepps og breytinguna í kauptún, sveitarstjórnarmál, bæjarbrag og félags- og menningarmál.

-Ragnar Karlsson: Keflavíkurbær 1949-1989. Fjörutíu ára kaupstaðarréttindi. Stiklur úr sögu og byggðarþróun. Keflavík 1989. 60 bls.
Ritlingurinn hefur að geyma upplýsingar um bæinn í máli og myndum frá ýmsum tímum í sögu byggðarlagsins.

Kópavogur

Kópavogur – jarðir.

Saga Kópavogs. Frumbyggð og hreppsár 1935-1955. Safn til sögu byggðarlagsins-1955. Safn til sögu byggðarlagsins. Ritstjóri Adolf J. E. Petersen. Kópavogur 1983. 247 bls. Bókin var endurútgefin árið 1990.
Í ritinu eru greinar og viðtöl sem tengjast sögu Kópavogs á umræddu tímabili. Ein grein er langlengst, „Kópavogur 1936-1955“ eftir Lýð Björnsson. Í henni er sagt frá því helsta sem snertir uppbyggingu Kópavogs á þessum árum.

Saga Kópavogs. Þættir úr kaupstaðarsögunni 1955-1985. Safn til sögu byggðarlagsins-1985. Safn til sögu byggðarlagsins. Ritstjórar Andrés Kristjánsson og Björn Þorsteinsson. Kópavogur 1990. 271 bls.

Kópavogur

Kópavogur 1965.

Í ritinu er greint frá upphafi kaupstaðarsögu Kópavogs, sagt frá bæjarstjórum og bæjarriturum, fjallað er um kosningaúrslit og meirihlutasamstarf, kirkju og söfnuði, bókasafnið, skipulags- og byggingamál, heilbrigðismál, félagsmálastofnun, æskulýðs- og íþróttamál og skólamál. Einnig er greint frá listastarfi, almenningssamgöngum, hafnargerð, götuheitum og mannfjölda, löggæslu, tengslum við vinabæi, stórafmælum Kópavogs og kjörnum fulltrúum.

Hafnarfjörður

Hafnarfjörður – herforingjaráðsuppdráttur 1903.

Sigurður Skúlason: Saga Hafnarfjarðar. [Hafnarfjörður] 1933. 707 bls.
Bókin spannar tímabilið frá 874 til 1933. Langur kafli er um sögu verslunarstaðarins en síðan koma sjö efnisskiptir kaflar; upphaf Hafnarfjarðarkaupstaðar, landeign og skipulag, stjórnmál sem er að mestu bæjarfulltrúa- og bæjarstjóratal, atvinnumál, heilbrigðismál, kirkjumál, skóla- og menningarmál. Loks er yfirlitskafli. Í upphafi bókarinnar er fjallað um umhverfi Hafnarfjarðar og hinar fornu bújarðir í Firðinum.

http://www.hi.is/~eggthor/thettbyli.htm#9

Hafnarfjörður

Hafnarfjörður 1913.

Keflavík

Í áfangaskýrslu fyrir Reykjanesbæ um byggða- og húsakönnun gamla hverfisins í Keflavík frá árinu 2012 má lesa eftirfarandi um sögu þess og byggðaþróun:

Sögubrot
Keflavík
“Keflavíkur er fyrst getið í rituðum heimildum um 1270 og þá í sambandi við reka og skipti á hval á Romshvalanesi. Þá er staðarins getið um 1420 þegar enskir fiskimenn fóru að venja komur sínar á Suðurnesin og sóttu þaðan á fiskimið.
Um 1450 voru Þjóðverjar komnir á þessar slóðir og hófu verslun. Skömmu eftir 1600 tóku Danir við og einokunarverslunin hófst formlega árið 1602.
Upphaflega mun jörðin Keflavík hafa verið í eigu Skálholtsstóls, en verður eign konungs við siðaskiptin. Keflavíkurjarðarinnar er fyrst getið í jarðamatsbókum árið 1597. Þá er hún konungsjörð og gjöld af henni greidd til Bessastaða. Hún tilheyrði Rosmhvalaneshreppi til ársins 1908 þegar Keflavík og Njarðvíkurhreppur hinn eldri voru sameinaðir í Keflavíkurhrepp. Búskapur lagðist niður á jörðinni árið 1780.

Keflavík

Duushús og tóftir gamla Keflavíkurbæjarins neðst.

Með einokunarverslun Dana var mælt fyrir að siglt skyldi á tuttugu hafnir á landinu og var Keflavík ein þeirra. Verslun komst þá í hendur kaupmanna frá Kaupmannahöfn.
Efling fiskveiða varð að frumkvæði danskra kaupmanna og ráðamanna. Sem dæmi um hve Keflavík hefur verið eftirsóttur verslunarstaður er að árið 1624 er aðeins einn verslunarstaður með meiri ágóða, þ.e. Ísafjörður.
Fyrsti búfasti kaupmaðurinn í verslunarþorpinu Keflavík var Jacobæus sem þangað fluttist samkvæmt ákvörðun Almenna verslunarfélagsins árið 1787, í lok einokunarverslunarinnar, en Danir héldu uppi verslun í Keflavík allt fram til ársins 1919.
Keflavík
Segja má að Jacobæus hafi lagt grunn að framtíðarbyggð, en þrjú hús voru í Keflavík og komin forsenda varanlegs þéttbýlis.
Um 1800 kom breskur ferðamaður, Henry Holland, til Keflavíkur og segir þar vera 15-20 timburhús og nokkra torfbæi.
Á fyrstu áratugum 19. aldar byggðist upp þorp í Keflavík. Verslunarþorpið dró að sér handverksmenn og ýmsa þjónustu auk þess fólks sem stundaði sjómennsku og fiskverkun.

Keflavík

Keflavík 1890.

Jacobæus lét reisa sjóvarnargarð og uppskipunarbryggju. Þá lét hann stækka tún og gera matjurtargarða og girti af með grjóthleðslum.
Í tengslum við verslunina voru reist verslunar- og pakkhús og og á síðasta áratugi 19. aldar voru þar þrjár verslanir sem sjá má merki um í dag, þ.e. Knudzon, Duus og Fischers verslanir.
Útræði var ekki mikið í Keflavík fyrr en eftir 1800, þegar verslun hafði verið gefin frjáls. Fram að þeim tíma var róið út frá verstöðvum í kring, í Höfnum, Njarðvíkum, Miðnesi og Görðum. Í kjölfar aukinnar útgerðar fjölgaði íbúum ört og fór úr 35 manns um 1800 í 130 manns um 1830. Áramótin 1900 voru íbúar um 300 talsins. Um helmingur íbúa kom úr öðrum sýslum og nærsveitum.Keflavík
Skaftáreldar sköpuðu slíka neyð að fólk flúði heimahaga sína og flutti fjöldi fólks af Suðurlandi til Suðurnesja. Til Keflavíkur fluttist margt fólk utan að landi sem taldi hag sínum og fjölskyldu sinnar betur borgið í Keflavík þar sem uppgangur var, m.a. vegna útgerðar. Þá komu menn til útræðis annars staðar að s.s. frá Mýrum og Borgarfirði.
Keflavík
Mikil fátækt var í Keflavík á 19. öld. Íbúar voru annarsvegar fátækir daglaunamenn og hinsvegar verslunarstjórar og kaupmenn. Framan af bjó alþýðan í torfhúsum eða tómthúsum. Tómthúsmannabyggðirnar voru einkum sunnan og vestan Duushúsa. Ekki eru til neinar minjar um þá byggð nú, en elsta byggð Keflavíkur stendur á því svæði. Árið 1800 eru talin 30 kot í Keflavík, mest torfbæir með timburgafli og 6 hús eingöngu úr timbri Hans Duus keypti Keflavíkurverslun um 1850. Duus verslun starfaði fram til ársins 1919. Þá var verslunin búin að kaupa upp aðrar verslanir ásamt lóðum og lendum og átti því mest allt land undir húsum Keflvíkinga. Árið 1920 lýkur að fullu danskri verslun í Keflavík. Kaupfélag Suðurnesja var stofnað árið 1928.

Keflavík

Vegna hafnleysis var útgerð þilskipa ekki vænleg og sjósókn eingöngu á opnum árabátum fram til 1907, þegar fyrsti vélbáturinn var keyptur til Keflavíkur. Hafnaraðstaðan var þó slæm og lágu bátarnir við bauju á Keflavík milli róðra.
Árið 1905 var kauptúnum sem töldu fleiri en 300 íbúa heimilað að verða sérstakt sveitarfélag og árið 1908 varð Keflavíkurhreppur til. Stærsti útgjaldaliður hins nýja sveitarfélags var fátækraframfærsla. Verkefnin voru ærin svo sem atvinnumál, brunavarnir, hafnargerð og umbætur í vatnsbólum svo eitthvað sé nefnt. Vegna aðstæðna í Keflavík var erfitt með vatnsöflun. Framan af var einungis einn brunnur í þorpinu sem staðsettur er inni í Bryggjuhúsi Duusverslunarinnar.

Keflavík

Keflavík – brunnurinn við Brunnstíg.

Árið 1907 lét Duusverslun grafa brunn við Brunnstíg og dregur gatan nafn sitt af honum.
Um 1930 voru byggðar steinbryggjur á Vatnsnesi og í Grófinni. Í kjölfar þessara hafnarbóta fjölgaði vélbátum. Á fjórða tug 20. aldar var fyrsta hraðfrystihúsið reist og fjölgaði þeim hratt og voru orðin fimm þegar mest varð. Hafskipabryggja var byggð í Keflavík árið 1932 og hófst þar með bygging núverandi hafnar.
Árið 1949 fékk Keflavík kaupstaðarréttindi. Gífurlegur vöxtur hljóp í byggðina á árunum eftir 1950 vegna uppbyggingar Keflavíkurflugvallar og veru varnarliðsins þar.

Þróun byggðar

Keflavík

Keflavík – húskönnunarsvæðið 2012.

Keflavík byggðist upp meðfram strandlengjunni eins og flest sjávarþorp á Íslandi. Hús verslananna stóðu meðfram götu sem síðar var nefnd Hafnargata. Þar fyrir ofan reis hin eiginlega íbúðarbyggð.
Um aldamótin 1900 var byggð tekin að myndast sem tengd var saman með gatnakerfi. Byggðin afmarkaðist af Vesturgötu í norðri, Kirkjuvegi til vesturs, Tjarnargötu til suðurs og strandlengjunni til austurs. Skólinn stóð við Íshússtíg, miðsvæðis í byggðinni á milli verslananna.
KeflavíkKauptúnið skiptist í tvö hverfi sem kölluð voru austurplássið og vesturplássið. Mikið tún, Norðfjörðstún, kennt við Ólaf Norðfjörð, faktor, klauf byggðina í tvennt. Eftir aldamótin 1900 fór byggðin að færast lengra suður og upp á melinn til vesturs. Edinborgarverslun ásamt bryggju reis við Hafnargötu og vegurinn í byggðina frá Reykjavík var að öllum líkindum úr suðri.
Að undirlagi Matthíasar Þórðarsonar þjóðminjavarðar og eiganda Keflavíkurjarðarinnar gerði prófessor Guðmundur Hannesson læknir skipulagsuppdrátt að Keflavík árið 1920. Var uppdrátturinn fyrsti vísir að skipulagi fyrir Keflavík. Þar voru teiknaðar götur yfir Norðfjörðstún þar sem nú eru Túngata, Norðfjörðsgata og Vallargata. Árið 1935 var Norðfjörðstúnið nánast fullbyggt.
Árið 1929 var fyrst kosið í sérstaka byggingarnefnd hreppsins. Engin byggingarsamþykkt var þá til í Keflavík en nefndinni var falið að kveða á um hvar og hvernig byggingum skyldi háttað. Árið 1930 fól hreppsnefnd byggingarnefnd að gera skipulagsuppdrátt að Keflavík.
KeflavíkJón J. Víðis mældi og dró upp Keflavík 1932 fyrir Skipulagsnefnd (Íslands). Um sama leiti var hafist handa við að semja byggingarsamþykkt fyrir Keflavík og tók hún gildi 27. júlí 1932. Þar kom fram að gerður yrði skipulagsuppdráttur samkvæmt skipulagslögum og færi skipulag kauptúnsins að því búnu eftir honum og ákvæðum skipulagslaga. Allar byggingar í kauptúninu skyldu vera samkvæmt uppdrættinum á því svæði sem hann næði yfir en annarstaðar skyldi byggingarnefnd ráða legu gatna og húsa. Sérstakt leyfi byggingarnefndar þurfti til að gera íbúðir í kjöllurum. Kröfur voru settar um að allar íbúðir nytu birtu og að hverri íbúð skyldi fylgja nokkur lóð.
Þegar Guðmundur Hannesson vann að skipulagi Keflavíkur 1932 skrifaði hann greinar í Morgunblaðið þar sem hann dró upp eftirfarandi mynd af bænum: „Keflavík er allstór og myndarlegur bær og hefur vaxið mikið á undanfarandi árum. [….] Ég hafði séð bæinn fljótlega fyrir nokkrum árum. Virtist mér hann þá skipulagslítill og bjóst því við, að ekki yrði hlaupið að því að gera þar skipulag. En þegar ég fékk nú tækifæri til þess að athuga hann nánar, þá reyndist mér hann hálfu betri en ég hafði búist við.
KeflavíkBæjarstæðið er tiltölulega flatlent og götur hafa verið lagðar út og suður og austur og vestur. Flestar göturnar eru 15m breiðar, ef mælt er milli húshliða, og er það meira en víðast í Reykjavík. Byggingareitir hafa ríflega breidd. Þeir hafa ekki verið skyni skroppnir mennirnir sem sáu um allt þetta, jafnvel séð lengra en Reykvíkingar þó sums staðar hafi þeim mistekist. Það varð þá fyrir, eins og vant er, að hyggja að bryggjunum og þörfum útvegsins.
Aðstaðan við sjóinn er erfið, höfnin ekki annað en opin vík, og lítil von um að þar verði fyrst um sinn gerð góð höfn. Við land er fremur útgrunnt í sjálfri víkinni, hraun undir og skerjótt við ströndina. Það búa margir við betra en bjargast þó miður en Keflvíkingar.
Aðalbryggjan er utan til í víkinni og er þar nóg dýpi fyrir báta um háfjöru. Önnur bryggja er þar utar, kynlega lögð og hlykkjótt, en með háfjöru er hún á þurru landi. Hún verður vafalaust lengd áður langt um líður, og getur þá komið að gagni. […….]
Keflavík
Sjálfur [er] bærinn ærið fyrirferðarmikill. Það er nálega 20 mínútna gangur eftir honum endilöngum. Þessi dreifing byggðarinnar er varasöm, því götur verða þá dýrar, ekki síst er ræsi og vatnsveita verða lögð. Hér, eins og víðar, er orsök dreifingarinnar sú, að lóðir fást ódýrari í suðurhluta bæjarins og þar vex því byggðin, en hins vegar eru húsin hvergi sambyggð, þó bæði sé það ódýrara og hlýrra“.
Skipulagsnefndin vann áfram með skipulagshugmyndir Guðmundar Hannessonar. Lögð var áhersla á að aðgreina íbúðar- og atvinnusvæði.

Keflavík
Útgerðinni var ætlað svæði í Grófinni og á Vatnsnesi nærri hafnarmannvirkjum. Iðnaði var valinn staður á Vatnsnesi.
Verslunin átti að vera áfram við Hafnargötu þar sem gert var ráð fyrir sambyggðum húsum með vörugeymslum bakatil. Gert var ráð fyrir íbúðarbyggð á svæði sem afmarkaðist af Vesturgötu til norðurs, Hringbraut til vesturs, Vatnsnesvegi til suðurs og Hafnargötu til austurs. Teiknuð var ný íbúðarbyggð á Duus-túni þar sem fyrir var byggð. Götur lágu í beinum línum frá austri til vesturs og norðri til suðurs. Skipulagið var auglýst eins og lög gerðu ráð fyrir og gerðu hagsmunaaðilar, byggingarnefnd og sjálf hreppsnefndin athugasemdir. Voru menn ósáttir við breytingar frá upphaflegum hugmyndum Guðmundar Hannessonar sem flestar væru til þess að gera uppbyggingu dýrari. Ósátt var um að á helmingi svæðisins væri gert ráð fyrir tvílyftum húsum og sambyggðum húsum.
KeflavíkAðkoman að bænum var um Hafnargötu sem þá þegar var orðin aðalgata bæjarins og hefur ávalt verið það síðan. Skipulagið gerði ráð fyrir tveim opnum svæðum, annars vegar við kirkjuna við Kirkjuveg og hins vegar við bæjarvöll sem afmarkast af Suðurgötu, Tjarnargötu, Sólvallagötu og Skólavegi. Lögð var áhersla á að hagkvæmis[-] og fegurðarsjónarmið skyldu höfð að leiðarljósi við framtíðaruppbyggingu. Fyrsta skipulag Keflavíkur var staðfest í júní 1934.
Á vegum Skipulags ríkisins og Samvinnunefndar um skipulagsmál Keflavíkur, Njarðvíkur og Keflavíkurflugvallar voru síðan unnar aðalskipulagsáætlanir sem staðfestar voru 1973 og 1983 svo Aðalskipulag Reykjanesbæjar 1995-2015.

Keflavík

Keflavík – loftmynd 1954.

Í núgildandi Aðalskipulagi Reykjanesbæjar 2008 – 2024 segir: “Þéttbýli í Reykjanesbæ hefur markast af byggð í Keflavík, Innri Njarðvíkum, Ytri Njarðvíkum og Höfnum. Fram til þessa hefur byggðin fyrst og fremst verið austan og norðan Reykjanesbrautar. Þessi fyrrum sveitarfélög voru sameinuð í Reykjanesbæ árið 1994. Njarðvíkurfitjar mynda afgerandi skil í byggðinni, en eru um leið dýrmæt náttúruperla sem gefur bænum ómetanlegt gildi.
Byggð í Reykjanesbæ er fremur lág og eru einnar til þriggja hæða hús áberandi. Bygging hærri húsa hefur þó farið vaxandi á síðast liðnum misserum með allt að sjö til átta hæða húsum við strandlengju.
Fjölbýlishúsahverfi frá sjöunda áratug er í suðurhluta gömlu Keflavíkur og stórt fjölbýlishúsahverfi í norðri frá níunda áratuginum. Þéttleiki byggðar er nokkuð mismunandi eftir hverfum, á bilinu 10 til 30 íbúðir á hektara. Gott samhengi er í ákveðnum bæjarhlutum og fjölbreytni er í húsa- og íbúðargerðum, sérbýli og fjölbýli.
Keflavík
Heildstæður byggðarkjarni eldri timburhúsa er upp af gömlu Keflavík, en elstu hús bæjarhlutans eru timburhús frá því kringum aldamótin 1900. Bærinn byggðist á sínum tíma nokkuð þétt út frá víkinni í eins konar geislum. Uppgangstíma í útgerð má m.a. sjá í íbúðarbyggingum á fimmta áratuginum. Vaxtarkippur varð svo í íbúðarbyggingum á sjötta áratuginum með komu varnarliðsins og aftur í byrjun sjöunda áratugarins þegar fólk flutti frá Vestmannaeyjum eftir gos.

Keflavík

Keflavík – Hafnargata 2020.

Hafnargata, Hringbraut og Njarðarbraut eru helstu götur bæjarins með líflegan bæjarbrag og öflugan þjónustukjarna með blandaðri byggð. Hafnargata og Njarðarbraut mynda upphaf lífæðar bæjarins sem teygir sig til austurs að Tjarnarbraut og Dalsbraut, þar sem ný íbúðarbyggð hefur risið undanfarin ár og er enn í byggingu. Þar er mikilvægi lífæðarinnar fyrir samhengi byggðarinnar fylgt eftir, svo sem við mótun göturýmis, í húshæðum og þéttleika, sem er mestur við lífæðina. Í Höfnum eru elstu íbúðarhúsin frá um 1920 og nokkur ný hús hafa verið byggð á þremur síðastliðnum áratugum.
Trjágróður er ekki áberandi í bæjarlandinu, en víða má sjá myndarleg tré í húsagörðum. Nálægðin við sjó, hafnir, heiðar og berg gefur bæjarumhverfinu sérkenni og margbreytileika”.”

Heimild:
-Reykjanesbær – byggða- og húsakönnun, áfangaskýrsla, febrúar 2012.

Keflavík

Keflavík – loftmynd 1954.