Færslur

Álftanes

Breiðabólsstaðir voru meðal jarða sem Þorvarður Erlendsson hafði til kaups við brúðkaup þeirra Kristínar Gottskálksdóttur og eru nefndir í kaupmálabréfi hjónanna árið 1508:. “voru þessar jarder til greindar j þennan sama kavpmala. […] Breidabolstadir fyrir. xl.c.“

Breiðabólsstaður

Steinhúsið að Breiðabólsstað.

Samkvæmt Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns var jörðin hins vegar komin í konungseign árið 1703, þá kölluð hálfbýli og hafði „ekki fyrirsvar nema að helmíngi.“ Jarðardýrleiki var óviss og þrönglent á sumrin. Mikill ágangur og landbrot var af sjónum og sjávarsandur olli túnunum skaða. Eins og fleiri jarðir á Álftanesi höfðu Breiðabólsstaðir selstöðu í Norðurhellrum í Heiðmörk og sölvafjöru á Lönguskerjum í Skerfjafirði. Ábúandi var Guðlaugur Grímsson og voru 11 manns í heimili.3 Ekki virðist því hafa verið tvíbýli eins og síðar á Breiðabólsstöðum. Þegar manntal var tekið árið 1801 skiptist jörðin þó milli tveggja ábúenda. En árið 1847 voru Breiðabólsstaðir komnir í bændaeign og einungis var einn eigandi og ábúandi. Jarðardýrleiki var 20 5/6 hundruð. Samkvæmt Erlendi Björnssyni voru bæirnir síðan tveir þegar foreldrar hans, Björn Björnsson (1814-1879) og Oddný Hjörleifsdóttir (1838-1901), bjuggu á Breiðabólsstöðum á síðari hluta 19. aldar. Á móti þeim Bjuggu Erlendur Erlendsson hreppstjóri og Þuríður Jónsdóttir. Samkvæmt túnakorti frá árinu 1917 náðu tún jarðarinnar yfir þrjá teiga og voru sléttuð að mestu. Kálgarðar voru samtals 1792 m2 þannig að töluvert hefur verið ræktað af kartöflum og öðru grænmeti.

Álftanes

Breiðabólsstaður.

Land Breiðabólsstaða er flatlent og gróið. Skammt norðan bæjarins er sjávarkamburinn og var sjórinn stundaður af kappi. Austan bæjastæðisins er Breiðabólsstaðatjörn og enn austar Kálfskinn en svo nefnist norðuranginn af Bessastaðatjörn. Austast breiðir Eyrin úr sér, grasi gróin og flöt. Sunnan bæjarins eru þurrar grundir og enn þá sunnar Stekkjarmýrin niður að Bessastaðatjörn. Grund hét áður hjáleiga Breiðabólsstaða norðaustur upp af Kálfskinni. Nú er Grund hins vegar húsið sem er áfast gamla bænum eða steinhúsinu á Breiðabólsstöðum. Önnur nýbýli á jörðinni eru Hvoll suður af bænum og Jörfi suðvestur af honum, nær Kálfskinni. Breiðabólsstaðir voru teknir eignarnámi í stríðinu og var reistur kampur á svæðinu þar sem Jörfi er nú.

Álftanes - kort 1870

Álftanes – kort 1870.

Á túnakorti frá 1917 má sjá að steinhúsið sem byggt var á Breiðabólsstöðum árið 1884 hefur verið staðsett nokkru norðar á bæjastæðinu en hin húsin. Eftir að það var byggt fluttu ábúendur sig þangað og enn þá er búið í þessu húsi. Nú hefur íbúðarhús nýbýlisins Grundar auk þess verið byggt við gamla steinhúsið. Þar eð löngum var tvíbýli á Breiðabólsstöðum hefur þó væntanlega líka verið búið í einhverjum þeirra húsa sem voru í húsaröð suðaustan við steinhúsið.
Bæjastæðið er slétt frá náttúrunnar hendi, þurrt og gróið. Breiðabólsstaðatjörn er austan bæjar og sjórinn norðan við. Eiginlegur bæjarhóll sést ekki en örlítill aflíðandi halli er þó frá gamla steinhúsinu og nýbýlinu Grund niður að tjörninni. Ætla má að núverandi byggingar standi á hinu forna bæjastæði Breiðabólsstaða og að þarna hafi bæirnir staðið um aldir. Ef bæjahóll hefur náð að safnast upp á þessum stað hefur alveg verið sléttað úr honum við byggingu nýrra húsa.

Jón Thorarensen

Sjósókn – Jón Thorarensen. Endurminningar Erlends Björnssonar.

Í endurminningum Erlends Björnssonar frá Breiðabólsstöðum, Sjósókn, segir eftirfarandi: Erlendur Erlendsson hreppstjóri „bjó í stóru steinhúsi sem hann byggði árið 1884. Það er fjórtán álnir á lengd, en níu álnir á breidd með kjallara og portbyggt. Á vertíðum voru fjörutíu manns í húsi þessu. Húsið er byggt úr klofnu og höggnu grjóti, sem tekið var víðsvegar í landareigninni. Grjótið var klofið þar, sem það var, og allt borið heim á tveggja og fjögurra manna börum, en höggvið og lagað betur heima. Veggirnir voru tvöfaldir og loft á milli, og yfir gluggum og dyrum voru drangar svo langir, að þeir náðu alveg yfir. Er hús þetta að öllu leyti ágætt enn í dag. Timbur allt og þak í húsi Erlends var komið úr gríðarstóru salthúsi og fiskhúsi, er stóð fyrrum á Eyrinni niðri við Seyluna í landareign Breiðabólsstaða […] Í kjallaranum í húsi Erlends voru þrjú herbergi, búr, eldhús og sjómannaskáli, sem var helmingur kjallarans. Voru þar tuttugu manns. Á hæðinni fyrir ofan voru þrjú herbergi, stofa fyrir gesti kvennaherbergi, – voru þar átta konur, – svo var helmingurinn af hæðinni kallaður baðstofa, og voru þar húsbændur og heimafólk, fjórtán manns. Var þar unnin ullarvinna og hampvinna á vetrum. Þar var líka vefstóll […] Uppi á loftinu var geymsla.“

Breiðabólstaðir

Breiðabólstaðir á Álftanesi.

Steinhúsið á Breiðabólsstöðum var friðlýst af forsætisráðherra 14. júní 2016 með vísan til 3. mgr. 18. gr. laga nr. 80/2012 um menningarminjar. Friðlýsingin tekur til ytra borðs hússins: „Gamla steinhúsið að Breiðabólsstöðum, Álftanesi var byggt […] úr klofnum og tilhöggnum grásteini sem límdur var saman með kalksandi. Húsið er einlyft með kjallara og portbyggðu risi. Veggir þess eru tvöfaldir með loftbili á milli og yfir dyrum og gluggum eru heilir steinar sem ná alla leið yfir opið. […] Viðir voru fengnir úr gömlu salt- og fiskhúsi Siemsensverslunar sem stóð á Eyrinni niður við Seyluna. Erlendur Erlendsson útvegsbóndi byggði húsið en seldi það síðar nafna sínum Björnssyni.

Breiðabólstaðir

Breiðabólstaðir – endurgerðir.

Breiðabólsstaðahúsið er vel varðveitt og er verið að gera það upp á vandaðan hátt. Það er fágætur vitnisburður um stórt útgerðarheimili frá seinni hluta 19. aldar þegar umfangsmikil sjósókn var stunduð frá Álftanesi og öðrum sjávarbyggðum við innanverðan Faxaflóa. Að öllum líkindum er það eina heillega húsið frá 19. öld sem enn stendur í sveitarfélaginu. Byggingarlag hússins er athyglisvert og óvenju vandað.“

Á túnakorti frá 1917 er sýnd húsaröð sunnan og suðaustan við steinhúsið. Austast var fjórskipt bygging sem virðist vera úr torfi eða steini.

Breiðabólsstaður

Breiðabólsstaður – kort.

Samkvæmt örnefnaskrá voru Breiðabólsstaðabæirnir „norðarlega í túninu, spölkorn frá sjávarkampinum. Þar var löngum tvíbýli og er enn“, Austurbær og Vesturbær sem „stóðu saman með sameiginlega stétt og hlið og húsagarð […]“. Ef til vill hafi bæirnir tveir upprunalega staðið hlið við hlið í húsaröðinni, annar vestar en hinn austar. Þar eð farið var að búa í steinhúsinu þegar árið 1884 má hins vegar ætla að þá hafi það verið kallað Vesturbær. Eitthvert húsanna í húsalengjunni hefur þá kannski verið Austurbærinn, mögulega það austasta sem stendur suðaustan við steinhúsið á kortinu. Þarna gætu þó líka hafa verið útihús.
Byggingin í miðri húsaröðinni skiptist í þrjú hólf eða sambyggð hús sem af túnakortinu að dæma hafa verið úr steini eða timbri. Langveggirnir í austasta hólfinu eru þó teiknaðir eins og þeir séu úr þykkara efni eins og torfi.11 Mögulega hefur þessi miðjubygging í húsaröðinni verið upprunalegi Vesturbærinn, þ.e. frá því áður en steinhúsið var byggt. Hún gæti þó einnig hafa nýst sem útihús.

Álftanes

Álftanes – minjar við Jörfa.

Vestast í röðinni er svo stakt ferhyrningslaga hús úr timbri eða steini. Erlendur Björnsson segir í endurminningum sínum að heima við bæ nafna hans Erlendssonar sé „stór fiskhjallur með lofti, er var læst, en rimlaveggi á hliðum“. Ekki er greint nánar frá staðsetningu hjallsins en hann var stór og stóð við bæinn og gæti því vel hafa verið vestasta húsið í húsaröðinni.
Engar minjar sjást lengur um húsaröðina sem er sýnd á túnakortinu því nú hefur ný húsalengja verið byggð á grunni þeirrar gömlu. Í nýju húsalengjunni eru bæði uppgerðar íbúðareiningar og útihús. Í stæði austustu byggingarinnar sem sést á túnakortinu er nú hesthús og malarborið hestagerði og er hesthúsið austast í núverandi húsaröð. Miðhúsið á túnakortinu hefur staðið undir miðhluta núverandi húsaraðar og vestasta húsið eða fiskhjallurinn undir vestasta hlutanum. Engar menjar sjást lengur um gömlu húsin.

Breiðabólstaðir

Breiðabólsstaðir – endurgerðir.

Í Jarðabókinni segir um Breiðabólsstaði árið 1703 að „vatn þrýtur í stórum frostavetrum og verður þá á aðra bæi vatn að sækja.“ Þó er vitað um að minnsta kosti tvo brunna á bænum gegnum tíðina. Á túnakortinu árið 1917 er brunnur merktur inn þar sem Breiðabólsstaðatún mætir Akrakotstúni, nokkru norðvestan við steinhúsið en suðaustan Akrakots. Brunnur er enn þá varðveittur á þessum stað, þ.e. á hlaðinu vestan við steinhúsið og nýbygginguna Grund. Hlaðið er malarborið og brunnstæðið vel greinilegt en keyrt er í kringum brunninn. Honum hefur þó verið breytt í áranna rás. Dæla hefur verið sett í hann, að líkindum fyrir stríð, og hann var notaður fram á 7. áratug 20. aldar þar til vatnsveita kom í hreppinn. Brunnurinn hefur verið hlaðinn upp og steinsteyptur og er því talsvert breyttur frá því sem áður var.

Álftanes

Álftanes – minjar á Norðurnesi.

Samkvæmt örnefnalýsingu var brunnur hins vegar einnig staðsettur suðvestan við steinhúsið: „Brunnur var í túninu, suðvestur frá bænum. Hann var á mörkum milli Breiðabólsstaða og Akrakots – þó Breiðabólsstaðamegin við merkin. Brunngata lá frá honum til bæjar. Nú er komin vatnsveita og Brunnurinn aflagður.“ Suðvestur frá steinhúsinu má sjá leifar gamals brunns á svipuðum slóðum. Hann er að vísu Akrakotsmegin við hina gömlu merkjalínu bæjatúnanna en þar eð örnefnalýsingar eru ekki alltaf nákvæmar getur þetta þó engu að síður verið sami brunnur. Varðveist hefur hleðsla sokkin á kaf í sinu og þýfi. Hún er hlaðin úr talsvert stórum steinum, ferköntuð, 1,5 m á kant og 0,3 m á hæð, innanmálið um 1 x 0,5 m. Þessi hleðsla minnir mjög á brunn. Um 3 m austan við hana er breiður skurður og byggingaframkvæmdir hafa farið fram austan hans og um 15 m suðaustan hleðslunnar. Þótt örnefnalýsingin staðsetji vatnsbólið vestan megin við mörkin getur þetta þó vel verið sá brunnur sem þar er sagt frá.

Alftanes

Borgarhóll.

Samkvæmt túnakorti er stórt útihús sem virðist vera úr torfi norðaustur af húsaröðinni en austur af steinhúsinu. Það stendur austan megin í kálgarði við bakka Breiðabólsstaðatjarnar og hefur stefnuna norðvestur – suðaustur. Það hefur staðið á mörkum hestagerðis sem er þarna núna og sléttaðs svæðis gamla kálgarðsins. „Heima var fjós og heyhlaða“ segir Erlendur Björnsson í umfjöllun um Breiðabólsstaði en ekki kemur fram nákvæmlega hvort þau hafi staðið þarna eða annars staðar. Ekki sést til fornleifa.

Álftanes

Álftanes – kort.

Stór tóft er varðveitt á Eyrinni niðri við Seyluna, norðvestur frá Kálfskinni. Hún stendur á sendnum sjávarkambi með melgresi og eru seinni tíma sjóbúðir og naust í kring. Tóftin virðist hafa afmyndast talsvert af sandburði og auk þess hefur verið keyrt yfir hana. Hún er þó um 14 x 10 m að utanmáli með stefnuna norðaustur – suðvestur og er stórt op á langveggnum sjávarmegin.
Á þessum slóðum var áður salthús og fiskhús, byggt á seinni hluta 19. aldar og nefndist Eyrarhús eftir Eyrinni. Í örnefnalýsingu segir: „Eyrarhús var við Seyluna, rétt fyrir sunnan Rastartanga. Það var fisktökuhús. Eyrarhús var rifið um 1884 og viðirnir notaðir í steinhúsið á Breiðabólsstöðum. Tóftir Eyrarhúss sjást enn.“

Álftanes

Á 19. öld hafði engu verið raskað við Bessastaðatjörn né Dugguós. Í ósnum var mikil kolaveiði og hún talin mikil hlunnindi fyrir Bessa- og Breiðabólsstaði. Það er athyglisvert hvað Erlendur Björnsson, fæddur 1865, segir um þróun kolaveiðinnar. „Árið eftir að fyrstu togararnir komu hér í Faxaflóa, hurfu þessi dýrmætu hlunnindi frá þessum tveim jörðum og verður sá skaði alltaf ómetanlegur“.
Ein af frásögnum Erlends er með ólíkindum. Þar segir frá róðri sem hann fór í árið 1890 á sexæringi við þriðja mann í blíðskaparveðri vestur á Svið, nánar til tekið í Fláskarðið vestur af Marflónni. Þar lögðust þeir félagar við stjóra. Eftir að hafa dregið sjóðvitlausan þyrskling þar til beituna þvarr urðu góð ráð dýr. Enn var stafalogn, heiðríkja og skammt liðið dags.
Erlendur gerði þá leit í bátnum og fann stóran öngul með blýsíld á leggnum.
Hann flakaði þyrskling og „beitti sig niður“ til að reyna við lúðu. Að „beita sig niður“ fólst í því að sitja sem lægst í bátnum og láta hægri handlegginn (væri viðkomandi rétthendur) liggja út fyrir borðstokkinn og hafa færið kyrrt í hendinni.
Skemmst er frá því að segja að Erlendur dró tuttugu og tvær „flakandi lúður“ (á bilinu 50 – 155 kg) þennan dag. Aðeins liðu fjórtán klukkutímar frá því þeir héldu í róðurinn og þar til þeir komu að. Ástæða þess að þeir héldu til lands var ekki sú að tekið hefði undan. Síður en svo, lúðan virtist jafnör og í upphafi, en það var komin lognhleðsla á bátinn.
Í lok kaflans þar sem þessum róðri er lýst er haft eftir Erlendi: „Þessi róður minn út á Sviðið….er gott dæmi þess hvílík gullkista það var, áður en botnvörpuveiðar og lúðuskip frá Ameríku hófu rányrkju sína hér í flóanum”.

Erlendur Björnsson segir einnig frá Eyrarhúsi og steinhúsi Erlends Erlendssonar á Breiðabólsstöðum: „Timbur allt og þak í húsi Erlends var komið úr gríðarstóru salthúsi og fiskhúsi, er stóð fyrrum á Eyrinni niðri við Seyluna í landareign Breiðabólsstaða. Siemsensverzlun átti þetta hús fyrst. Á vorin kom skip inn á Seyluna með salt, er skipað var upp í þetta hús, en seinni part sumars seldu bændur verkaðan og þurrkaðan saltfisk kaupmanni þeim, er átti þetta hús, og fluttu fiskinn í það. Kaupmaður sá, er verzlaði þarna síðast, hét G. E. Unbehagen, og átti hann þetta gríðarmikla hús.
Á haustin kom svo skip til þess að sækja fiskinn. Þessi Unbehagen kaupmaður, sem var þýzkur, seldi svo Erlendi þetta hús fyrir fjögur hundruð krónur. Salthús þetta var að minnsta kosti tuttugu álnir á lengd og tólf álnir á breidd, allt byggt úr framúrskarandi góðu timbri með timburþaki og allt lagt með hellu. Var timbrið og hellan notað í hús Erlends.“
Miðað við frásögn Erlends var Eyrarhús eingöngu úr timbri og ekki er minnst á hlaðna veggi. Með hliðsjón af mögulegri lengd álnar á 19. öld hefur það verið um 12,5 x 7,5 m eða enn þá stærra. Utanmál tóftarinnar sem varðveitt er á staðnum er nokkuð meira þannig að það munar 1,5-2,5 m. Það er þó ekki að marka vegna þess hve hún er útflött og því er vel hugsanlegt að þarna séu leifar af grunni undan timburhúsinu. Þessar minjar eru í hættu vegna þess að keyrt er yfir þær.

Á túnakorti 1917 eru umgirtir kálgarðar við bæjarhúsin á Breiðabólsstöðum, norðan og sunnan við húsaröðina, en austan og suðaustan við steinhúsið. Garðarnir eru umgirtir veggjum hlöðnum úr grjóti eða torfi að sunnan, vestan og austan. Austast fellur veggurinn á nyrðri garðinum saman við túngarðinn.

Álftanes

Álftanes – minjar við Jörfa.

Samkvæmt örnefnalýsingu var Heimagarður austan steinhússins: „Kálgarðar voru heima við húsið, Heimagarður austan þess og Hróbjartsgarður vestan þess. Hann var kenndur við Hróbjart Sigurðsson, bónda á Breiðabólsstöðum.“ Kálgarðurinn sem er á milli steinhússins og Breiðabólsstaðatjarnar á túnakortinu en norðan við húsaröðina gæti verið Heimagarður. Enn þá er grjóthleðsla austan við steinhúsið, á þeim slóðum sem vesturhlið kálgarðsins var samkvæmt túnakortinu. Hún er um 12 m löng, 0,5 m breið og 0,3 m há, farin að renna í sundur en sjást þó 3 umför af grjóti í henni. Líklegt er þó að garðurinn hafi verið endurhlaðinn í tímans rás þannig að þetta þarf ekki að vera sami garður og sýndur er á túnakortinu. Engar menjar eru um kálgarðinn sem á túnakortinu er sunnan við bæjarröðina og ekki heldur um Hróbjartsgarð sem á að hafa verið vestan við steinhúsið.

Álftanes

Borgarhóll – Í örnefnalýsingum segir: „Borgarhólar: Svo heita hólar syðst í Stekkjarmýrinni.“ „Sunnan við Stekkjarmýrina er hár hóll, alltaf nefndur Borgarhóll. Hann er nú kominn í tún, en heldur alveg lögun sinni. Í honum á að vera grafin gullkista. Björn [Erlendsson] heyjaði Borgarhól í rúm 40 ár og hraktist aldrei tugga á honum.“ Borgarhólar eru syðst í landi Breiðabólsstaða, um 400 m suðsuðaustur frá gamla steinhúsinu [781]. Þeir gnæfa grasi grónir yfir flatlendið í kring og Stekkjarmýrin er í raun suðaustan þeirra, suðvestur frá þeim gengur nesið Langi út í Bessastaðatjörn og vestan megin er tún. Sérstaklega er einn hóllinn áberandi og tengjast sagnirnar um fjársjóðinn honum samkvæmt ábúendum í Jörfa. Það að hóllinn skuli vera kenndur við borg gæti auk þess bent til að þarna hafi verið fjárborg. Hólinn er um 13 x 13 m á stærð, hringlaga og siginn í miðjunni. Líklegt er að þetta séu leifar fjárborgar úr torfi.

Í örnefnalýsingum segir: „Borgarhólar: Svo heita hólar syðst í Stekkjarmýrinni.“ „Sunnan við Stekkjarmýrina er hár hóll, alltaf nefndur Borgarhóll. Hann er nú kominn í tún, en heldur alveg lögun sinni. Í honum á að vera grafin gullkista. Björn [Erlendsson] heyjaði Borgarhól í rúm 40 ár og hraktist aldrei tugga á honum.“ Borgarhólar eru syðst í landi Breiðabólsstaða. Þeir gnæfa grasi grónir yfir flatlendið í kring og Stekkjarmýrin er í raun suðaustan þeirra, suðvestur frá þeim gengur nesið Langi út í Bessastaðatjörn og vestan megin er tún. Sérstaklega er einn hóllinn áberandi og tengjast sagnirnar um fjársjóðinn honum samkvæmt ábúendum í Jörfa. Það að hóllinn skuli vera kenndur við borg gæti auk þess bent til að þarna hafi verið fjárborg. Hólinn er um 13 x 13 m á stærð, hringlaga og siginn í miðjunni. Líklegt er að þetta séu leifar fjárborgar úr torfi.

Breiðabólsstaðatúngarður landamerkjagarður garðlög Minnst er á túngarðsbrot við Breiðabólsstaði þegar í Landamerkjaskrá árið 1887: „að vestanverðu er grjótgarðsbrot sem skilur Akrakotstúnið frá Breiðabólsstaðatúninu þessi grjótgarður liggur frá brunninum (vatnsbólinu) og suður í túngarð […]“.

Borgarhóll

Borgarhóll – Bessastaðir að baki.

Á túnakorti 1917 er mestallt túnið umgirt garði hlöðnum úr grjóti eða torfi. Í örnefnaskrá 1964 segir: „Garður af grjóti, aðallega að norðan, eins milli Breiðabólsstaða og Akrakots.“ Örnefnalýsingu 1977 ber saman við landamerkjaskrána og bætir við: „Túnið var stórt og var allt í kringum bæinn. Um það mest allt var hlaðinn túngarður, alltaf nefndur Breiðabólsstaðatúngarður afbæjar. Nú er búið að rífa þennan garð. Grjótið úr honum var notað til varnar sjávargangi og svo er um grjót úr flestum túngörðum hér á nesinu.“

Álftanes

Stríðsminjar við Jörfa.

Túnin við Breiðabólsstaði og Akrakot eru slétt af náttúrunnar hendi, smáþýfð og gróin, og er svæðið nú notað fyrir hesta. Túngarðurinn er enn þá varðveittur á kafla norðaustan við bæinn á Breiðabólsstöðum, vestan Breiðabólsstaðatjarnar. Deiglent er austan garðsins, við tjörnina, en þurrar grundir vestan hans. Garðurinn er grjóthlaðinn en hleðslurnar runnar í sundur. Hann er siginn og yfirgróinn og hverfur sums staðar í mosa og sinu. Hæðin er mest um 0,4 m en breiddin allt að 1 m. Þessi varðveitti hluti af gamla hlaðna túngarðinum er samtals um 61 m langur og liggur nálega norðvestur – suðaustur. Á þeim slóðum sem mörkin lágu áður milli bæjatúnanna samkvæmt túnakortinu má hins vegar sjá um 80 m langt garðlag og eru þar sennilega leifar landamerkjagarðs milli Breiðabólsstaða og Akrakots. Erfitt er að greina þetta á vettvangi en garðlagið sést vel á loftmynd.

Breiðabólstaðir

Breiðabólstaðir.

Í Jarðabók árið 1703 segir um Breiðabólsstaði: ,,Heimræði er þar árið um kríng og lendíng góð.“ Í Örnefnaskrá 1964 er nefnd Breiðabólsstaðavör: „Hún lá í sjó fram norður af Traðarhliðinu.“38 Í örnefnalýsingu 1977 segir: „Heimavör var einum 100-150 m norðan við Akrakotsvör. Í henni lentu Breiðabólsstaðamenn hér áður og einnig eftir að sjóvarnargarður hafði verið hlaðinn með ströndinni, en þá lokaðist leiðin beint niður að Akrakotsvör. […] Lönd heita beggja megin Traðanna – Efri-Lönd sunnan þeirra og Neðri Lönd að norðan. Fiskur var áður borinn upp á Efri-Löndin og gert að honum þar. (Ath. Sveinn [Erlendsson] telur nafnið dregið af því, sbr. að landa).“
Sandfjara er norðan bæjarhúsa en mikið land hefur brotnað á þessum slóðum og er umhverfið við sjóinn að líkindum talsvert breytt. Nú er þykkur vélhlaðinn sjóvarnargarður á sjávarkambinum við Breiðabólsstaði. Þó er rof í honum fyrir norðurenda sjávargötunnar frá bænum og þar fyrir neðan hefur vörin verið.

Álftanes

Camp Brighton – varðskýli.

Nokkru vestar eru stríðsminjar frá hverfinu Brighton meðfram akvegi. Á korti Erlends Björnssonar af byggð Álftaness um 1870 er Grund merkt inn norðaustan Breiðabólsstaðatjarnar og norðvestur upp af Kálfskinni. Þetta virðist í samræmi við upplýsingar úr örnefnalýsingum: Grund var „þurrabúð frá Breiðabólsstöðum […] austan bæjar […] innan við Kasttanga […] norður á Nesinu.“ Útihúsin frá Grund stóðu fast norðan Breiðabólsstaðatjarnar og fast austan við þau „stóð áður þurrabúðarbýlið Grund. Þar kom Sveinn [Erlendsson ábúandi á Grund] ofan á öskulag þegar hann fór að rækta.“

Álftanes

Álftanes – Eyri; tóft.

Tóft er á Eyrinni vestan við malarveg við sjóinn rétt áður en hann liggur út á Eyrarodda milli Seylu og Kálfskinns. Þetta er skammt austan við ristusvæði og smátjörn á norðausturbakka Kálfskinns. Þurrt er á tóftarstæðinu en deiglendi í kring og tjarnirnar nálægar. Tóftin stendur á svolítilli hæð sem er heldur grónari eða grænni en umhverfið. Hún hefur hlaupið í þúfur og sést ekki grjót í henni. Stærðin er um 7,6 x 6,8 m og veggjahæð 0,4 m. Tóftin virðist vera einföld því hólf eru ekki sýnileg en op er ef til vill inn í hana norðvestan megin.

Um Akrakot segir í Jarðbókinni árið 1703: ,,hálflenda so kölluð, því hún hefur ekki nema helmíngs fyrirsvar á móts við lögbýlissjarðir, hefur í manna minni, innan 60 ára, bygð verið úr Bárhaukseyrar landi á fornum tóftum, sem sumir hyggja fyr hafi bygðar verið og kallað Akrar. Jarðardýrleiki er óviss. Eigandinn kóngl. Majestat.“

Álftanes

Álftanes – brunnur í Camp Brighton við Jörfa.

Við Jarðatal Johnsens árið 1847 var Akrakot komið í bændaeign og eigandinn bjó sjálfur á jörðinni sem metin var á 12 hundruð. ,,Túnið fordjarfast af sands og sjáfar ágángi“ segir í Jarðabókinni en samkvæmt túnakorti voru Akrakotstúnin árið 1917 sléttuð að mestu og náðu yfir samtals 2,2 teiga heima við bæinn og við Breiðabólsstaði. Matjurtagarðar voru alls 380 m2. Sölvafjara var nægileg og var þangbrennsluverksmiðja rekin í Akrakoti í nokkur ár í byrjun 20. aldar. Samkvæmt Erlendi Björnssyni voru tveir ábúendur á Akrakoti og virðist því hafa verið tvíbýli þar á síðari hluta 19. aldar.

Álftanes

Akrakot – túnakort 1911.

Á túnakorti árið 1917 er teiknað stakt hús innan kálgarðs og þar hjá ritað „gömlu bæir“ innan sviga. Væntanlega hefur gamli Akrakotsbærinn því staðið þarna rétt sunnan við stærri byggingu, hús þangbrennsluverksmiðju frá því um 1900 sem er sýnt á kortinu og stendur enn á sama stað, nú sem íbúðarhúsið í Akrakoti eða við Blikastíg 16. Lóðin umhverfis íbúðarhúsið er fremur slétt eins og grundirnar víða á Álftanesi en ójöfnur eru í henni þar sem gamli bærinn hefur staðið miðað við túnakortið. Engar leifar frá honum eru þó sýnilegar á yfirborði.
Útihús heimild Á túnakortinu má sjá útihús við suðausturhorn kálgarðs. Þar sem útihúsið og kálgarðurinn voru er nú malarborin heimreið að Blikastíg 16 og steinsteyptur bílskúr. Ekki sést til fornleifa.

Álftanes

Stríðsminjar við Jörfa.

Virki rista og mógrafir heimild Í Jarðabókinni segir um Akrakot árið 1703: “Torfrista og stúnga og móskurður hjálplegt.“ Ekki kemur fram hvar mórinn var tekinn en líklega hafa bæði Akrakot og Breiðabólsstaðir stundað mótekju á sama stað og síðar: „Mýri, sem liggur milli Akrakots og Landakots, heitir Virki“ segir í örnefnaskrá. Mýrin er merkt inn á örnefnakort Álftaness sunnan við Kasthústjörn beggja megin lækjar sem rann úr henni í Bessastaðatjörn og skildi milli landa Akrakots og Landakots. „Mikil mótekja var í Virkjum.“ Til marks um það er meðal annars talið að þegar Tyrkir lágu með annað skip sitt á Lönguskerjum á Skerjafirði árið 1627 voru svo „margir móhraukar í mýrinni“ að þeim sýndist „þar fara vopnaður her og lögðu þeir á flótta strax og skipið flaut. Draga Virki ef til vill nafn sitt af þessum atburði.“

Álftanes

Álftanes – stríðsminjar í Camp Brighton við Jörfa.

Í örnefnalýsingu kemur líka fram að áður hafi verið „svolítil þúst niður við Kasthúsatjörn, Akrakotsmegin“ og taldi Björn Erlendsson á Breiðabólsstöðum „ekki ólíklegt að þar hafi verið leifar af einhverju virki“. Hvað sem þessari örnefnaskýringu líður var að minnsta kosti mór í mýrinni og varnir voru í Skansinum við Bessastaði. Nú hefur túnið verið sléttað og ekki sjást mógrafir á Virkinu.
Akrakotstúngarður heimild Miðað við túnakortið hefur legið girðing eða garður meðfram sjónum um 50 m norðan Akrakots. Í örnefnaskrá segir: ,,Akrakotstúngarður: Garður af grjóti á sjávarkampinum. Akrakotstúngarðshlið: Það var á garðinum út frá bænum.“ Umhverfið er mjög breytt norðan við Akrakot. Sjórinn hefur brotið mikið land og gríðarmikill vélhlaðinn sjóvarnargarður er nú á kambinum. Engar leifar sjást af Akrakotstúngarði.

Álftanes

Álftanes – Akrasteinn.

Í örnefnalýsingum segir frá álagasteini í Akrakotstúni: ,,Akrasteinn: Stór steinn suður á túninu. Álagasteinn.“ Honum fylgja þau ummæli, að hann megi ekki hreyfa. „Steinn þessi er nyrzt í svonefndu Torfholti, grýttu og þýfðu.“ Akrasteinn er um 185 m suðvestur frá Akrakoti. Í túninu er að finna einn stakan stein og síðan rétt sunnan við hann eru nokkrir steinar saman. Sennilega er þessi staki steinn Akrasteinn. Túnið í kringum hann er nú þýft og gróið og svæðið notað fyrir hrossabeit.
Rétt norðan bæjarins er á túnakortinu sýndur kálgarður og er gamla þangbrennsluhúsið á milli hans og bæjarins. Garðurinn liggur samhliða þangbrennsluhúsinu, vestur – austur, og er ekki mikið stærri en það. Girðing virðist vera í kringum hann. Þarna er nú malarborin heimreið að íbúðarhúsinu við Blikastíg 16. Engar menjar sjást lengur um þennan kálgarð.
Á túnakortinu gengur kálgarður suður út frá gamla bænum og virðist hlaðinn garður liggja utan um hann mestallan. Nú nær lóðin við Blikastíg 16 yfir svæði þessa garðs. Ekkert sést lengur til hans.

Álftanes

Álftanes – varir.

Á túnakorti Akrakots má sjá hús þangbrennsluverksmiðjunnar um 10 m norðan gamla bæjarins. Húsið var byggt rétt eftir aldamótin 1900 og stendur enn þá í nokkuð breyttri mynd, nú sem íbúðarhúsið við Blikastíg 16. Austasti hluti hússins er að stofni til gamla þangbrennsluverksmiðjan sem var starfrækt á árunum 1904-1908: „Til vinnslunnar voru reist talsvert umfangsmikil mannvirki. Á víð og dreif um túnin voru settir staurar og vírar strengdir á milli og var þarinn lagður á þá til þurrkunar […] Byggt var stórt steinhús í Akrakoti til þess að brenna þarann í. Eftir endilöngu var steyptur ofn. Fjögur steypt hólf voru til að brenna þarann í og tvö þar sem kol voru brennd.“

Álftanes

Breiðabólstaður – túnakort.

Áberandi strompur stóð lengi við austurgafl hússins og minnti á upphaflegt hlutverk þess en hann hefur nú verið rifinn frá húsinu. Það var breskt félag sem stundaði þarabrennslu á Akrakoti og var hann fluttur út til Skotlands til joðframleiðslu.67Á síðustu áratugum hefur húsið svo verið stækkað örlítið og byggður bílskúr norðan við gamla bæjarstæðið.
Í Jarðabók árið 1703 segir um Akrakot: ,,Heimræði er árið um kríng og lendíng sæmileg.“ Í örnefnalýsingum segir nánar frá lendingu við Akrakot og Breiðabólsstaði: „Akrakotsvör: Hún var vestast í fjörunni í Breiðabólsstaðafjöru.“ Vörin er beint niður af bænum [á Breiðabólsstöðum] og lágu Traðir frá íbúðarhúsinu niður í hana. Réttu nafni hét hún Akrakotsvör, þótt hún væri í landi Breiðabólsstaða. Breiðabólsstaðamenn lentu alltaf í þessari vör þegar þeir bræður [Sveinn og Björn Erlendssynir á Breiðabólsstöðum] mundu eftir, enda ekkert útræði þá frá Akrakoti. En þarna átti Akrakot áður uppsátur fyrir allan sinn skipastól endurgjaldslaust.“ Fiskurinn var borinn upp á svokölluð Efri-Lönd, völlinn sunnan við traðirnar og gert að honum þar. Lendingin hefur verið um 140 metra norðvestur frá Akrakoti. Hennar sjást engin merki nú við fjöruna en á loftmynd má greina hvar vörin hefur verið. Mikið landbrot er á þessum slóðum og hefur nú verið reistur mikill sjóvarnargarður. Sandfjara er við sjóvarnargarðinn norðan og norðvestan Akrakots.

Varðturn er hlaðinn úr ávölu sjávargrjóti og steinsteypt á milli. Hann er um 1,5 m að innanmáli og stendur vel undir þaki. Hann er sexhyrndur, með glugga á fimm hliðum en dyr á þeirri sjöttu. Lítið kringlótt op er þar sem tvær hliðarnar mætast gegnt suðri. Varðturninn er farin að láta á sjá og þarfnast viðgerðar. Mikilvægt er að eitthvað verði gert til að reyna varðveita þetta hús.

Álftanes

Varðskýlið við Jörfa.

Um 150 vestur af strompinum við samkomubragga hermannanna var loftskeytastöð, sérstætt mannvirki sem stendur enn þá. Stöðin er steinsteypt, um 10 x 4 m að utanmáli, og eru tvær skábrautir á henni með dekkjabreidd á milli, líklega til að hægt hafi verið að keyra upp á hana. Við enda skábrautanna er kantaður pallur með gat í miðju.

Samkomusalur var miðju braggahverfinu, suðaustan við Jörfabæ, er hár strompur á hól. Strompurinn stóð í norðausturenda stórs bragga sem var samkomusalur hermanna og var meðal annars notaður sem bíósalur. Hóllinn suðvestan við strompinn er um 22 x 15 m stór, og gefur stærðin vísbendingu um stærð braggans. Strompurinn er eins og varðturninn [812] byggður úr ávölu sjávargrjóti sem er steypt saman. Hann er 2 x 1 m að grunnmáli og 3-4 m hár. Neðst á honum var múrsteinshlaðinn arinn og sér enn glitta í efri hluta arinopsins í hólnum. Strompurinn hefur þó sigið í hólinn og hlaðist að honum sina og jarðvegur. Þessi stóri braggi var lengi notaður undir dansleiki á Álftanesi.

Á tjarnarbakkanum í austurjaðri túnsins við Jörfa, um 40 m norðaustur frá braggagrunnunum eru leifar af steinsteyptu salerni frá setuliðinu. Það er um 7×2,3 m á stærð og snýr norður – suður. Salernið skiptist í stærra hólf í nyrðri hlutanum sem er um 5×2 m á stærð með steinsteyptri gólfplötu og minna hólf, um 2×1 m, þar sem ekki er nein gólfplata. Rennur eru á veggjaleifum sem eru eftir.

Álftanes

Álftanes – Camp Brighton.

Á tjarnarbakkanum rétt suðaustan við salernið eru leifar af óþekktu mannvirki. Ekki verður greint úr frá tætingslegum brotunum til hvers það hefur verið notað.
Verkstæði hermannanna var í bragga um 80 m vestur frá varðskála. Þar sem hann stóð má enn greina steinsteyptan grunn og tvo samsíða garða eða braggabrúnir. Um 6 m bil er á milli þeirra og hefur það verið breidd braggans. Hann hefur snúið norðnorðaustur – suðsuðvestur. Verkstæðið hefur verið talsvert langt frá öðrum byggingum hersins.
Á tjarnarbakkanum um 10 m austan við salernið er tóft frá einhverju óþekktu mannvirki. Hún er um 4×4 m á stærð og 0,5 m á hæð. Grjóthleðsla er utan með henni og auk þess hefur hún verið fyllt af grjóti sem nú er vaxið mosa. Trúlega hefur þarna verið enn eitt húsið frá setuliðinu, mögulega í sambandi við salernið eða þá skotbyrgi.
Brunnur er í túninu vestan við Jörfa frá hernámstímanum. Vatnsskortur var á svæðinu og var vatn flutt inn með tankbílum. Brunnurinn er 4×1,6 m að utanmáli en inni í honum er ferhyrninglaga niðurgröftur, 1,8×1,8 m.

Álftanes

Herforingjakortið af Álftanesi 1908.

Þar sem íbúðarhúsið Seyla stendur nokkru austan við Jörfabæ voru áður vatnstankar setuliðsins í þremur stærðum. Á áratugunum eftir stríð voru þeir notaðir sem rotþrær frá Jörfa. Vatn var flutt inn frá Reykjavík með tannbílum en vatnsból Álftnesinga dugðu heimamönnum varla í þurrkatíð.

Álftanes

Álftanes – Baðhús og samkomuhús Camp Brighton við Jörfa.

Um 25 m austur frá íbúðarhúsi Seylu var baðhús hermannanna sem voru í Brighton kampi. Það stendur enn undir þaki og nota ábúendur það sem geymsluskúr. Húsið er um 10×5 m á stærð og snýr suðvestur – norðaustur. Gengið er inn um bíslag á langvegg suðaustan megin. Rennur eru í steinsteyptu gólfinu.

Á svæðinu voru skráðar 77 fornleifar sem tengjast annars vegar sjósókn, fiskvinnslu og öðrum búskap frá bæjunum Breiðabólsstöðum, Akrakoti og Grund en hins vegar veru hersins á Álftanesi á stríðsárunum.

Álftanes

Stríðsminjar; samkomusalur, við Jörfa.

Á Breiðabólsstöðum er ekki mikið eftir af sýnilegum minjum. Eldri mannvirki hafa horfið undir nýrri byggð en gera má ráð fyrir að byggt hafi verið á svipuðum slóðum öldum saman. Leifar bæja geta því leynst í jörðu. Gamli bærinn sem nú er búið í er steinhús frá 1884 sem vafalítið er elsta húsið í Garðabæ. Hann hefur því mikilvægt sögulegt gildi fyrir bæjarfélagið. Á hlaðinu við bæinn hefur jafnframt varðveist gamall brunnur sem að nokkru leyti hefur verið gerður upp og leifar frá öðrum brunni finnast nokkru sunnar. Þá eru þarna hleðslur sem legið hafa kringum matjurtagarða, hluti af gamla Breiðabólsstaðatúngarðinum og landamerkjagarði milli Breiðabólsstaða og Akrakots. Gömlu traðirnar eru enn þá sýnilegar á kafla og sjávargata liggur niður að sjó þangað sem lendingin var í Breiðabólsstaðavör. Hún er að vísu horfin í sjóinn en Akrakotsvör sem með tímanum var einnig nýtt frá Breiðabólsstöðum er enn þá greinanleg. Suður frá Breiðabólsstöðum er þústin Meyjarhóll sem virðist vera manngerð og sunnan við nýbýlið Hvol hefur varðveist tóft. Eftirtektarverður er einnig Borgarhóll.
Fornleifaskráning Norðurnes á Álftanesi við Stekkjarmýri en þar virðast vera leifar fjárborgar. Engar menjar sjást hins vegar um stekkinn sem mýrin hefur verið kennd við.

Álftanes

Álftanes – stríðsminjar.

Fyrir utan Akrakotsvör eru engar sýnilegar minjar við Akrakot nema svokallaður Akrasteinn sem á að hafa verið álagasteinn. Gömlu bæjarhúsin eru horfin en hér gildir þó sem annars staðar að eldri bæjarleifar geta leynst undir sverði. Hafi Akrakot verið byggt á fornum tóftum eins og sagt var gæti þar líka hafa verið byggð í mörg hundruð ár. Loks er sjálft íbúðarhúsið við Blikastíg 16 merkilegt fyrir að hafa áður hýst gömlu þarabrennsluna á Akrakoti. Þótt það hafi verið aðlagað breyttu hlutverki í nútímanum er það minnisvarði um forna atvinnuhætti og fyrstu og einu verksmiðjuna fyrir þangbrennslu í Garðabæ. Þessi bygging er ekki miklu yngri en steinhúsið á Breiðabólsstöðum þannig að á þessu svæði eru varðveitt tvö sérstæð gömul hús sem njóta friðunar. Steinhúsið er sérstaklega friðlýst.
Ýmsar áhugaverðar minjar leynast einnig í landslaginu á Eyrinni. Norður upp af Kálfskinni eru minjasvæði sem líkur eru á að tengist þurrabúðarbýlinu Grund. Þar eru sýnilegar tóftir sem gætu verið frá bænum og ójöfnur í sverði benda til þess að leifar gamla bæjarstæðisins séu þar undir. Aðrar tóftir nokkru vestar eru þá trúlega frá útihúsum Grundar. Tóftir sem fundust lengra úti á Eyrinni við fornleifaskráningu árið 2004 eru hins vegar horfnar. Þessar tóftir voru einnig taldar tengjast Grund en þrátt fyrir nákvæma skráningu hefur verið sléttað úr þeim án frekari rannsóknar og er það miður.

Álftanes

Álftanes – stríðsminjar.

Við Seyluna er annað minjasvæði tengt útgerð og fiskvinnslu. Þar er grunnurinn frá Eyrarhúsi, stóru salthúsi og fisktökuhúsi, og mögulega leifar frá íshúsi. Örlítið sunnar, nær Kálfskinni eru fleiri tóftir sem gætu verið frá sjóbúðum og annarri starfsemi tengdri fiskveiðum. Á þessu svæði virðast einnig vera menjar um forna beðasléttun, mógrafir og torfristu.
Einstakt er svo minjasvæðið í kringum nýbýlið Jörfa í landi Breiðabólsstaða. Þarna var á stríðsárunum svokallaður Brighton kampur og hafa ábúendur á Breiðabólsstöðum og Jörfa lagt sig fram um að hrófla ekki við minjunum. Á kampinum voru fjölbreytt mannvirki sem tengdust veru setuliðslins á Álftanesi, heilu braggahverfin með varðskála, setuliðshúsi, baðhúsi, fjarskiptastöð og loftvarnarbyrgi o.fl. Þótt braggarnir hafi verið rifnir eftir stríð sjást grunnarnir enn þá vel og sumar af hinum byggingunum hafa varðveist að hluta eða í heild. Varðturn og strompur við samkomusal standa enn þá og gefa landslaginu sterkan svip. Þetta er óvenjulega heillegt stríðsminjasvæði og er mikilsvert að það skuli hafa varðveist sem heild. Brighton kampur hefur tvímælalaust mikið varðveislu- og fræðslugildi og væri tilvalið að setja upp fræðsluskilti við minjarnar sem gætu gagnast bæði skólahópum og öllum almenningi.

Álftanes

Jörfi – Camp Brighton; skilti.

Herminjar eru ekki sjálfkrafa verndaðar af þjóðminjalögum þar eð þær eru ekki orðnar hundrað ára gamlar. Í lögunum er þó heimild til þess að friðlýsa yngri minjar en um þau efni hefur hvorki skapast hefð né heldur hefur opinber stefna verið mörkuð. Gefur engu að síður auga leið að þessar minjar frá stríðsárunum á Norðurnesi eru þýðingarmikil heimild um hlutdeild Íslands fyrrum.

Heimild:
-Nordurnes_skyrsla_skra_kort_2019_utgafa_2

Álftanes

Álftanes – Örnefnakort – ÓSÁ.