Færslur

Camp Dailey

Í Youtube miðlinum “Vogar TV” má sjá þann 7. okt. 2018 myndband af gönguferð Vogamanna undir leiðsögn Viktors Guðmundssonar að fyrrum herspítalanum Camp Dailey á innanverðanum Stapanum, við gamla Suðurnesjaveginn, er reyndar var upphaflega lagður sem vagnvegur þar á árinu 1912.

Grindavíkurvegur

Grindavíkurvegur á Stapanum 1921.

Vegagerðinni frá höfuðborginni lauk loks í Njarðvíkum árið eftir. Með tilkomu bílsins var vegurinn lagaður að þörfum hans, breikkaður og undirlagið bætt til muna. Síðan hafa framfarirnar jafnan mótast að kröfum nútímans…
Viktor Guðmundsson, svæðaleiðsögumaður á Reykjanesskaga og fyrrum FERLIRsfélagi leiddi gönguna. Hér á eftir má lesa fróðleik og myndir frá henni:

Herdeildin, 22 og eitthvað svoleiðis, kom til landsins í ágúst 1942. Hún staðsetti sig fyrst á Reykjum í Hrútafirði.
Í júnímánuðu árið eftir færði sveitin sig suður yfir heiðar. Eftir skamma viðdvöl í Mosfellssveit var ákveðið að reisa ætlað sjúkrahús nálægt Meeks-flugvelli á Miðnesheiði.

Camp Dailey

Viktor Guðmundsson leiðsegir.

Á árunum 1942-’43 voru um 50.000 erlendir hermenn hér á landi.

Camp Dailey

Camp Dailey – uppdráttur.

Gert var ráð fyrir veikindum og slysum af 5% af heildarfjölda eða um 2500 manns. Þann 21. ágúst 1943 sama ár hófst bygging sjúkrahússins á Camp Dailey á Vogastapa. Verkið tók 9 mánuði. Spítalinn samanstóð af 32 braggabyggingum. Auk þess bjó starfsfólk spítalans í 42 bröggum er stóðu á víð og dreif umhverfis – auk áberandi frárennslislagnar í sjó fram niður í Vogavík.

Sem betur fer var þurfti herinn lítið á spítalaþjónustinni að halda. Þegar þjónustu hans lauk eftir stríðslok 1945 brann miðkjarni spítalans í óveðri í apríl árið 1946. Í framhaldinu hirtu landsmenn aðrar leifar hans líkt og maurar úr þúfu. Öllu, sem hægt var að stela var stolið.

Camp Dailey

Camp Dailey.

Í dag er minjasvæði Camp Dailey takmarkað því nokkuð af því fór undir núverandi Reykjanesbraut, auk þess sem öðrum hlutum þess hefur lítill sómi verið sýndur.
Afliggjarinn til Grindavíkur á sínum tíma lá í gegnum búðirnar.
Enn má sjá a.m.k. tvær fóðraðar vatnsborholur hersins á svæðinu. Flestar jarðlægar minjar eru huldar lúpínu.

Daily Camp

Daily Camp – minjar.

Menn hafa oft verið að rugla Camp Dailey við stóra húsið ofan vegarins, en það var fjarskiptastöð hersins.
Olíutankur var við hvern einasta bragga, líkt og sjá má á vettvangi.
Sýnilegustu minjarnar í dag eru steyptir stöplar undir frárennslislögn frá spítalanum er lá í sjó í Vogavík, eins og áður sagði.
Á árunum 1978-1982 var plantað grenitrjám utan í lágina þar sem spítalabraggahverfið var.

Í “Örnefni og gönguleiðir í Vatnsleysustrandarhreppi” eftir Sesselja Guðmundsdóttur segir á bls, 57-58 um svæðið;

Reiðskarð

Stapagata um Reiðskarð.

“Næst förum við um Stapann eða Vogastapa (Njarðvíkur-stapa segir Skúli Magnússon, 1785) en eldra nafn á Stapanum er Kvíguvogabjörg eða -bjarg. Vogastapi er um 5 km langur og liggur allt vestur undir Innri-Njarðvík. Sjávarmegin eru klettabelti að mestu með stórgrýtisurðum við sjávarmál en að ofanverðu eru aflíðandi hjallar mót suðri og austri. Gamla þjóð leiðin Almenningsvegur sem liggur um hreppinn endilangan og við höfum fylgt endrum og sinnum heitir nú Stapagata. Hún liggur um Stapann endilangan og er lýst aftast í ritinu.

Camp Dailey

Fyrr á öldum lá þjóðleiðin til Suðurnesja ofar (sunnar) á Stapanum og í heimild frá árinu 1840 er hún kölluð Gamli-Stapavegur. Sú gata er nú horfin að mestu leyti á eystri hluta Stapans en vestar sást hún býsna glöggt fyrir fáum árum allt til Innri-Njarðvíkur. Nú er gamla þjóðleiðin á þeim kafla eyðilögð af vinnuvélum. Mjög villugjarnt var á Gamla-Stapavegi segja heimildir og þess vegna var gerð ný þjóðleið og lá sú nær sjónum.

Camp Daily

Úr skýrslu um “Reykjanesbraut – Fornleifakönnun. Fornleifastofnun Íslands 2001.”

Við Stapahornið milli Gamla-Keflavíkurvegar og Reykjanesbrautar er slétt svæði en á því var reist herskálahverfi árið 1942 sem kallað var Dailey camp. Þar var sjúkrahús með fullkomnum skurðstofum og sjúkrarými fyrir 250 sjúklinga og var eina starfandi hersjúkrahúsið hér á landi í stríðslok. Dailey camp brann til kaldra kola í óveðri í apríl árið 1946. Eldri hreppsbúar nota enn þetta örnefni yfir umrætt svæði. Frá herskálunum lá skolplögn niður Stapabrekkuna og síðan í sveig allt til sjávar. Á lögninni eru opnir steyptir brunnar, sumir nokkuð háir, með stuttu millibili og hafa þeir ótrúlega lengi staðist tímans tönn.

Stapinn

Kálgarðsbjalli – kálgarður ofan Camp Daily.

Við Dailey camp að austanverðu plöntuðu systur úr Soroptimistaklúbbi Keflavíkur trjám árið 1990 og kölluðu svæðið Bjartsýnisreitinn. En það er til önnur skýring: Soror þýðir systir á latínu og optimist þýðir bjartsýnismanneskja þannig að soroptimisti þýðir bjartsýnissystir og þá er örnefnaskýringin ljós.
Bjallar heita hjallarnir eða misgengin sem ganga suðvestur úr Vogastapa og eru þeir fimm í hreppslandinu en sá efsti og syðsti fylgir B-svæði. Eitthvað eru sérnöfn Bjallanna óljós, svo virðist sem tvö nöfn geti átt við einn og sama Bjallann og erfitt er að staðsetja Mýrabjalla, Sandbjalla og Miðbjalla. Næsta víst er þó að sá bjalli sem er fyrir vestan Dailey camp heitir Lyngbjalli og sá vestan hans heitir Kálgarðsbjalli. Bjallinn sá dregur nafn sitt af kartöflugarði (hreppsgarði), norðan Gamla-Keflavíkurvegarins, sem þar var um aldamótin.”

Heimildir:
-Örnefni og gönguleiðir í Vatnsleysustrandarhreppi, Sesselja Guðmundsdóttir, bls, 57-58, Lionsklúbburinn Keilir 2007.
-Vogar TV 7, leiðsögn Viktors Guðmundssonar, okt. 2018.
-Reykjanesbraut – Fornleifakönnun. Fornleifastofnun Íslands 2001.

Camp Dailey

Camp Dailey.