Tveir “stríðskampar” voru í Garðaholti á stríðsárunum, báðir í sunnanverðu holtinu, austan núverandi samkomuhúss (Garðaholts). Á báðum stöðunum má enn sjá leifar mikilla minja frá þessum tíma.
Camp Gardar voru sunnan móta Garðavegar og Garðholtsvegar á austanverðu Garðaholti. Búðirnar voru reistar sumarið 1940 fyrir undirfylki (Company) úr 1/7 Duke of Wellington Regiment. Í marsmánuði árið eftir tóku liðsmenn 11 Durham Light Infantry Regiment við og því næst 1 Tyneside Scottish Regiment í október sama ár. Í desember 1941 tók undirfylki C og flokkur úr 10th Infantry Regiment Bandaríkjahers við búðunum og dvaldi þar fram í júlí 1943 er hersveitin hélt af landi brott. Að jafnaði höfðu um 170 Bandarískir hermenn aðsetur í búðunum.
Camp Tilloi var við Garðaholtsveg á austanverðu Garðaholti á móts við Grænagarð. Loftvarnabyssuvígi á Garðaholti þar sem húsið Grænigarður stendur í skógræktarlundi. Búðirnar voru reistar sumarið 1940 fyrir stórskotaliðsflokk (Section) úr 4 Heavy Anti Aircraft Battery sem hafði tvær 3,7 þumlunga loftvarnabyssur á Garðaholti ofan við veginn og þar sem nú stendur húsið Grænigarður í skógræktarlundi á holtinu. Herflokkurinn fluttist í nýtt loftvarnabyssuvígi á Laugarnesholti í Reykjavík í júlí 1941. Þá tók við samskonar flokkur á Garðaholti úr 203 Heavy Anti Aircraft Battery en sú liðsveit hafði einnig byssuvígi við Breiðabólsstað á Álftanesi og á Kópavogshálsi.
Bandaríska stórskotaliðssveitin 494 Coast Artillery Battalion (AA) tók við í ágúst 1942 til október 1943 en þá tók Battery D, 748th Anti Aircraft Gun Battalion (áður 25th (Separate) Coast Artillery Battalion) við. Starfrækslu loftvarnarbyssanna í Camp Brighton við Breiðabólsstað var þá hætt en sveitin starfrækti loftvarnabyssuvígið á Garðaholti þar til í febrúar 1944 þegar sveitin flutti til Keflavíkurflugvallar. Um 140 – 170 bandarískir hermenn höfðu jafnan aðsetur í Camp Tilloi.
Samtals voru í Gardar og Tilloi-búðunum 36 braggar og 9 hús af öðrum gerðum þegar báðar höfðu verið yfirgefnar.
Heimildir:
-Herbúðir bandamanna í Hafnarfirði og nágrenni í síðari heimsstyrjöld. Samantekt eftir Friðþór Eydal, 1. ágúst 2011
-Skjöl bandaríska og breska hersins og Sölunefndar setuliðseigna í þjóðskjalasöfnum Bretlands, Bandríkjanna og Íslands.