Skammt norðan Nesvegar millum Reykjaness og Reykjanesbæjar hefur tveimur tilbúnum vörðum fyrir komið; nokkurs konar minnismerkjum. Á sitthvorri vörðunni er skilti þar sem á má lesa eftirfarandi texta:
Á þeirri vestari; „Bandaríski herinn á Íslandi„
Vorið 1941 kom Churchill forsætisráðherra Breta fram með þá tillögu við Fanklin Roosevelt forseta Bandaríkjanna, að bandarískur her leysti sveitir Breta af. Roosevelt var tregur til að senda hermenn án þess að ósk um slíkt kæmi frá íslenskum stjórnvöldum. Engu að síður þá var snemma í júní tekið til við að udnirbúa för bandarísks herliðs til Íslands. Bandarískar könnunarsveitir voru sendar til landsins til að skoða hugsanlega staði fyrir eftirlitsflugvelli og safna gögnum um húsnæði og lífskjör; loftvarnir, varnir við ströndina og við hafnir; og ástand hernaðarmannvirkja.
Bandaríkjamenn fengu formlegt boð frá Hermanni Jónassyni, forsætisráðherra Íslands, í júlí 1941. Þann sama dag tilkynnti bandaríkjaforseti þinginu um ráðstöfun sveita úr loft-, land- og sjóher til Íslands.
Bandarískir sjóliðar fyrstir á staðinn
Fyrsta stórfylki sjóhersins, undir stjórn John Marston, hershöfðingja, var fyrsta bandaríska herliðið sem kom til Íslands. Það lenti við Reykjavíkurhöfn 7. júlí og fékk brátt liðsauka frá flugher, flota og landher.
Sjóliðarnir bjuggu upphaflega til bráðabirgða í Nissenskálum sem bresku hersveitirnar höfðu reist og hófust brátt handa við að byggja nýjar herbúðir. Victoria Park og Camp MacArthur, tvær samliggjandi herbúðir í Mosfellssveit norðaustur af Reykjavík, voru teknar í notkun af fyrsta herfylki. Annað herfylki kom sér fyrir í Camp Baldurshagi. Þriðja herfylki tók yfir breskar búðir, Camp Brautarholt, sem voru staðsettar á klettanesi nálægt innsiglingunni í Hvalfjörð. Þetta voru litlar ókláraðar búðir án rafmagns eða pípulagna. Hlöðu hafði verið breytt í matsal yfirmanna. Fimmta varnarherfylki, loftvarnasveit, var dreift í nokkrar búðir nálægt höfninni og fyrir austan borgina. Stórskotaliðið sá um að manna byggingarflokka sem reistu marga Nissenskála og önnur herbúðarmannvirki og byssustæði.
Sjötta sjóliðasveit sem var hreyfanleg sveit, fékk það verkefni að byggja nýjar herbúðir til að hýsa sveitir landhersins. Litlar búðir með Nissenskálum höfðu áður verið reistar af Bretum, en pípu- og raflagnir og aðra aðstöðu átti enn eftir að útbúa. Sjóliðarnir reistu þess bráðabirgðaskála með hraði sem svefnskála, spítala, kirkjur, matsali, bíósali, vöruhús og skrifstofur. Í janúar 1942 fékk Sjóherinn skipun um að láta Landhernum eftir herbúðir sínar og snúa aftur til Bandaríkjanna þar sem þeim yrði fengin önnur verkefni. Í mars höfðu stórar sveitir bandaríska flotans. landhersins og flugsveita landhersins (AAF) komið sér fyrir á Íslandi.“
Á þeirri austari; „Bandaríkjaher tekur við stjórninni„
Í apríl 1942 var skiptingunni frá bresku herliði yfir í bandaríkst herlið að mestu lokið. 22. apríl tók Bandaríkjaher við yfirstjórn herliðsins á Íslandi, undir stjórn Charles H. Bonesteel majórs. Boonesteel setti upp aðalstöðvar í Camp Tadcaster (sem var endurskírður Camp Pershing) við Elliðaár í Reykjavík, og var þá 3 km fyrir utan borgina og 1.5 km fyrir austan fyrrum höfuðstöðvar breska hersins í Camp Alabaster.
Hersveitirnar voru dreifðar um fjöldan allan af herbúðum innanbæjar, fyrir austan borgina, í Hafnarfirði í suðri og í Mosfellsbæ í norðaustri. Aðalstöðvar bandaríska flotans voru staðsettar í Camp Knox í norðvesturhluta Reykjavíkur og flugstöðvar flotans tóku yfir tvær stórar herbúðir við norðurströnd Fossvogs nálægt flugvellinum sem Bretar höfðu byggt. Flestar þessara búða hafa nú horfið vegna stækkunar borgarinnar. Þær fáu byggingaleifar sem enn standa eru vel varðveittar steinhleðslur, skorsteinar, vegir, stígar og stöku virki.
Herbúðabyggingar og herbúðalíf
Liðsafli verkfræðisveita sem áttu að sjá um byggingu herbúða var lítill og var oft aukinn með mönnum frá öðrum sveitum auk innlendra verkamanna. Verkið sóttist seint vegna óblíðs veðurfars og upp komu alvarleg tæknileg vandamál. Aðflutningar byggingarefnis voru mikið vandamál þar sem Ísland var langt frá birgðastöðvum hersins.
Stórskotalið sem áttu að byggja fleiri herbúðir sendu vinnuflokka á valda staði til að reisa Nissenskála undir verkstjórn fárra manna úr sveit konunglegra verkfræðinga. Ekki var óalgengt að mennirnir ynnu 16 stundir á sólarhring og fjöldinn allur af herbúðum var reistur á nokkrum vikum. Hópur sex eða fleiri manna gat reist skála á nokkrum klukkustundum. Hóparnir luku 16 skálum á dag.
Nissenskálarnir var einfaldur í smíði. Endar hvers skála voru gerðir úr þremur viðareiningum sem mhægt var að setja saman á nokkrum mínútum. Klæðningin að innanverðu var gerð úr viðarplötum á 4×2 stálgrind. Bogadregnir veggirnir og þakið voru klæddir bárujánsplötum. Tvö lög að málmplötum voru sett neðst í hliðarnar en þakið var með einfaldri klæðningu. Byggingunni var haldið uppi af sveigðum burðarbitum (T-bitum) úr stáli. Hverjum skála fylgdi fullkomið sett af verkfærum og tækjum. Það eina sem þurfti að gera á staðnum var að útbúa grunn úr steinsteypu eða hraunkubbum.“
Fyrrnefndir braggar voru nefndir eftir hönnuðinum, Bjorn Farlein Nissen, en hann fæddist í Gjorvik nálægt Osló 1863, fluttist til Ameríku og starfaði þar við hönnun.