Tag Archive for: Camp Tilloi

Garðaholt

Tveir „stríðskampar“ voru í Garðaholti á stríðsárunum, báðir í sunnanverðu holtinu, austan núverandi samkomuhúss (Garðaholts). Á báðum stöðunum má enn sjá leifar mikilla minja frá þessum tíma.

Garðaholt Camp Gardar voru sunnan móta Garðavegar og Garðholtsvegar á austanverðu Garðaholti. Búðirnar voru reistar sumarið 1940 fyrir undirfylki (Company) úr 1/7 Duke of Wellington Regiment. Í marsmánuði árið eftir tóku liðsmenn 11 Durham Light Infantry Regiment við og því næst 1 Tyneside Scottish Regiment í október sama ár. Í desember 1941 tók undirfylki C og flokkur úr 10th Infantry Regiment Bandaríkjahers við búðunum og dvaldi þar fram í júlí 1943 er hersveitin hélt af landi brott. Að jafnaði höfðu um 170 Bandarískir hermenn aðsetur í búðunum.

Garðar

Leifar í Camp Tilloi á Garðaholti.

Camp Tilloi var við Garðaholtsveg á austanverðu Garðaholti á móts við Grænagarð. Loftvarnabyssuvígi á Garðaholti þar sem húsið Grænigarður stendur í skógræktarlundi. Búðirnar voru reistar sumarið 1940 fyrir stórskotaliðsflokk (Section) úr 4 Heavy Anti Aircraft Battery sem hafði tvær 3,7 þumlunga loftvarnabyssur á Garðaholti ofan við veginn og þar sem nú stendur húsið Grænigarður í skógræktarlundi á holtinu. Herflokkurinn fluttist í nýtt loftvarnabyssuvígi á Laugarnesholti í Reykjavík í júlí 1941. Þá tók við samskonar flokkur á Garðaholti úr 203 Heavy Anti Aircraft Battery en sú liðsveit hafði einnig byssuvígi við Breiðabólsstað á Álftanesi og á Kópavogshálsi.

Garðaholt

Leifar í Camp Tilloi á Garðaholti.

Bandaríska stórskotaliðssveitin 494 Coast Artillery Battalion (AA) tók við í ágúst 1942 til október 1943 en þá tók Battery D, 748th Anti Aircraft Gun Battalion (áður 25th (Separate) Coast Artillery Battalion) við. Starfrækslu loftvarnarbyssanna í Camp Brighton við Breiðabólsstað var þá hætt en sveitin starfrækti loftvarnabyssuvígið á Garðaholti þar til í febrúar 1944 þegar sveitin flutti til Keflavíkurflugvallar. Um 140 – 170 bandarískir hermenn höfðu jafnan aðsetur í Camp Tilloi.

Garðaholt

Garðaholt – herkampar.

Samtals voru í Gardar og Tilloi-búðunum 36 braggar og 9 hús af öðrum gerðum þegar báðar höfðu verið yfirgefnar.

Heimildir:
-Herbúðir bandamanna í Hafnarfirði og nágrenni í síðari heimsstyrjöld. Samantekt eftir Friðþór Eydal, 1. ágúst 2011
-Skjöl bandaríska og breska hersins og Sölunefndar setuliðseigna í þjóðskjalasöfnum Bretlands, Bandríkjanna og Íslands.

Garðaholt

Garðaholt – herkampar; skilti.

Garðaholt

Á Garðaholti er skilti með upplýsingum um herkampana „Camp Gardar og Camp Tilloi„, sem þar voru þar á stríðsárunum. Í texta á skiltinu segir:

Garðaholt

Garðaholt – upplýsingar á skilti.

„Sumarið 940, í beinu framhaldi af hertöku landsins, hóf breski herinn varnarviðbúnað með ströndinni frá Kjalarnesi og suður á Hvaleyri í Hafnarfirði og einnig á helstu hæðum á höfuðborgarsvæðinu og austan þess. Fótgöngulið sem gætti strandlengjunnar á Álftanesi, kom sér fyrir á austanverðu Garðaholti og stórkostaliðsflokkur setti þar upp tvær stórar loftvarnarbyssur. Á Garðaholti og beggja vegna Garðaholtsvegar, sem breski herinn lagði upphaflega, má sjá ummerki eftir hersetuna.

Skálahverfin

Garðaholt

Garðaholt – upplýsingar á skilti.

Herflokkarnir bresku höfðust fyrst við í tjöldum en reistu síðan tvennar herbúðir, Camp Gardar norðan við Garðaveg og Camp Tilloi nokkru ofar í holtinu.
Loftvarnarbyssurnar stóðu ofan við veginn, í skógræktarlundinum þar sem Grænilundur er nú. Á holtinu má sjá leifar af loftvarnarbyssuvígjum ásamt varnarvirkjum frá stríðsárunum.

Garðaholt

Garðaholt – Gamp Tilloi.

Bandarískt herfylki tók við vörnum Hafnarfjarðar og Álftarness í árslok 1941 og leysti breska herflokkinn í Garða-búðunum af hólmi og dvaldi þar fram á sumar 1943. Bandaríkjamenn tóku einnig við loftvarnarvirkinu í Tilloi sumarið 1942 og gættu þess fram í febrúar 1944 þegar þeir fluttu til Keflavíkur.
Að jafnaði höfðu 300 til 340 hermenn aðsetur í báðum búðum og stóðu eftir 36 braggar og níu hús af öðrum gerðum þegar stríðinu lauk. Braggarnir voru af Nissen-gerð og var grjóti og mold hlaðið upp með hliðunum til styrktar. Á þeim grunni í Camp Gardar sem er best varðveittur eru tröppur inn í húsið á tveimur stöðum.
Skilin milli búðanna eru ekki vel greinileg á vettvangi.

Skotbyrgi og skotgrafir

Hernám

Skotbyrgi á Garðaholti.

Skammt norðvestur af Tilloi-búðunum eru tvö vel varðveitt steinsteypt og sprengjuheld skotbyrgi. Skotgrafir voru þar í kring til varnar byssuvíginu. Niður við sjó, þar sem bærinn Móakot stóð, er skotgröf úr torfi og grjóti. Skotbyrgi og aðrar minjar frá veru hersins í kringum Bakka og Dysjar eru horfnar, að hlyta til vegna landbrots.
Austur af búðunum eru skotgrafir með grjótveggjum.

Hernámið
Garðaholt
Að morgni föstudagsins 10. maí árið 1940 gekk breskur her á land í Reykjavík og stóð þá ísland ekki lengur utan styrjaldarátaka stórveldanna. Hernámið, sem hlaut dulnefnið „forkur“, kostaði þó ekki blóðsúthellingar. Þýskir herir höfðu náð Noregi og Danmörku á sitt vald en íslendingar haldið fast við hlutleysisstefnu sína þrátt fyrir það og ekki viljað ganga til liðs við bandamenn.

Garðaholt

Garðaholt – skilti við Camp Gardar og Camp Tilloi.

Winston Churchill, sem verið hafði flotamálaráðherra er varð þennan dag forsætisráðherra Bretlands, gerði að sínum hin fleygu orð að sá sem réði yfir íslandi beindi byssu að Englandi, Ameríku og Kanada. Til að koma í veg fyrir innrás Þjóðverja í Ísland ákvað hann að vera fyrri til og tryggja með því siglingaleiðir um Norður-Atlantshaf. Íslendingar mátu sjálfstæði sitt mikils og mótmæltu stjórnvöld hernáminu formlega. Fer þó ekki á milli mála að flestir voru fegnir að njóta verndar fyrir nasistastjórn Þýskalands.
Í stuttri heimsókn Churchills til Íslands árið 1941 sagði hann Hermanni Jónasyni forsætisráðherra að Bretar hefðu neyðst til að hertaka Ísland og hefðu gert það jafnvel þótt Þjóðverjar hefðu orðið á undan þeim.
Herverndarsamningur var undirritaður í júlí árið 1941 milli Bandaríkjanna, bretlands og Íslands og fól í sér að bandarískar hersveitir myndu aðstoða og síðar leysa breska hernámsliðið af hólmi“.

Garðaholt

Garðaholt – skotgrafir.