Færslur

Ívarshús

Darrastaðir og Straglastaðir (Stranglastaðir) í garði voru þekkt örnefni hér fyrrum, en ekki lengur.
Kothus-1Á vef Árnastofnunar er m.a. fjallað um örnefnið Darrastaðir og Straglastaðir (Stranglastaðir). Bæði bæjarnöfnin munu fyrrum hafa verið á Rosmhvalanesi.
“Mannsnafnið “Darri” kemur hugsanlega fyrir í örnefninu Darrastaðir sem getið er um í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns (III, bls. 106). Þar er jörð með þessu nafni sögð hafa verið í byggð áður fyrr í Rosmhvalaneshreppi en ekki var vitað um staðsetningu. Í Sýslu- og sóknarlýsingum Gullbringu- og Kjósarsýslu (2007), bls. 74, segir að Darrastaðir sé eldra heiti á bænum Kothúsi í Leiru á Suðurnesjum. Bæjarheitið Darrabúðir hefur verið til að fornu í Noregi (sbr. E.H. Lind, Norsk-Isländska personbinamn från medeltiden (1920-1921), dálkur 57).
Kothus-2(E.H. Lind (Norsk-Isländska dopnamn og fingerade namn från medeltiden (1905­-1915), dálkur 198) gerir ráð fyrir að mannsnafnið (og viðurnefnið) Darri sé dregið af hvorugkynsorðinu darr sem merkir ʻspjótʼ á sama hátt og nöfnin Spjóti og Sverði eru dregin af orðunum sverð og spjót).
Ekki er ólíklegt að hvorttveggja mannsnafnið og örnefnið dragi nafn sitt af sverðsheitinu darr. Bæði Darra við Aðalvík og Derri er lýst sem hnjúkum eða hyrnum og jafnvel líkt við píramída. Líkingin við spjótsodd er því nærtæk. Darra upp af Rekavík er hins vegar lýst ýmist sem hárri klettaöxl eða heilu fjalli. Hugsanlegt er að nafnið hafi í því tilfelli upphaflega aðeins átt við öxlina og hún þótt líkjast spjótsoddi. Síðar færðist nafnið yfir á allt fjallið í munni þeirra sem bjuggu vestan við það.

Kothus-3

Ýmsar aðrar merkingar darra-orðanna geta líka átt við fjallsheitið, t.d. eitthvað sem er ʻháreistʼ eða ʻmikið með sigʼ. Valgarður Egilsson bendir t.d. á það í kaflanum Strandbyggðir Mið-Norðurlands (Árbók FÍ 2000, bls. 158) að fjallið Lútur (eða Lútin) hafi nafn sem sé andstætt Darra og á þá við að Lútur sé lágreistur (eitthvað sem ʻlýturʼ) en Darri sé væntanlega að sama skapi háreistur (ʻdarralegurʼ).”
Á snara.is má lesa eftirfarandi: “Í bæjarnafninu Darrastaðir, en sést ekki í manntölum eða skírnarskýrslum fyrir 1950. Í þjóðskrá 1982 báru 25 karlar nafnið, þar af 19 sem síðara nafn, en í þjóðskrá 1989 var 51 karl skráður svo, þar af 32 karlar að síðara nafni.”
Í Náttúrufræðingnum 1947 bregður nöfnunum fyrir í umfjöllun um flóðahæð: “Um Gauksstaði segir Jarðabók, að sjórinn spilli túnum, görðum oIvarshus-2g hjöllum, og um Meiðastaði, að sjór grandi þar túni að neðan og hafi þrisvar á 30 árum orðið að færa naustin lengra upp á túnið. Þá segir og í Jarðabók, að góðir menn segi, að heyrt hafi þeir getið, að í þessari sveit hafi til forna verið tvær jarðir, sem hétu Darrastaðir og Stranglastaðir eða Straglastaðir, viti enginn, hvar þessar jarðir hafi verið, en þeirra sé getið í gömlum rekaskiptamáldaga Rosmhvalaneshrepps [er áður náði yfir núverandi Gerðahrepp] og standi þær þar í þeirri röð jarðanna í Garði, að ætla megi, að það séu hinar sömu, sem nú (1703) séu nefndar Kothús og Ívarshús, en hvorugt þetta nafn sé nefnt í gamla máldaganum.”
Í Frjálsri verslun 1971 má lesa eftirfarandi: “Árið 1550, þegar allar beztu plógjarðir, sem höfðu útróðrarmenn, voru látnar ganga undir Skálholtsstól. Voru Kothúsin þeirra á meðal. Um 1890 keypti faðir hans jörðina, sem þá var orðin konungseign, Kothús munu áður hafa heitið Darrastaðir.

Kothus-4

Ólafur Lárusson, gefur þá skýringu á nafnabreytingunni, að sennilega hafi Darrastaðir farið í eyði, en seinna byggt á tóftunum. Hvenær það gerðist er ekki vitað, en 1550 var Kothúsanafnið komið á jörðina.”
Í Vöku 1929 kemur þetta fyrir: “Það er þannig líkleg tilgáta, að Kothús og Ívarshús í Garði séu gamlar jarðir, er þar voru og hétu Straglastaðir og Darrastaðir. Að lögbýli bera hjáleigunöfn sannar því eigi, að þau nöfn séu gömul. Hitt, að sýnt verður, að mörg þessara býla hafa fengið nöfn þessi tiltölulega seint, er vottur þess, að hjáleigunöfnin tilheyri yfirleitt yngra stigi í byggingarsögu landsins, og það bendir aftur til þess, að hjáleigurnar séu flestar byggðar nokkuð seint. En hvernig stendur á þessum nafnbreytinguin lögbýlanna?

Kothus-5

Ég hygg, að þær hafi oftast stafað af því, að býlin hafa lagzt í auðn í bili. Einkum á þelta við um kot-nöfnin. Það hefir verið tíðkað i alþýðumáli, að nefna rústir „kot”, jafnvel rústir af öðru en býlum, t. d. beitarhúsum og þess háttar.”
Þegar svæðið ofan og suðvestan við Varir var skoðað árið 2012 hitti FERLIR m.a. Guðríði í Kothúsum. Hún er fædd og alin upp á bænum. Sagði hún að fyrrum hafi allnokkur kot verið umhverfis bæinn, 6-7 talsins. Hvert kot hefði haft skika umleikis. Nú væru þessi kot hins vegar horfin, en þó mætti enn sjá leifar Ívarshúss. Sjálft íbúðarhúsið (grænt) hefði verið flutt inn frá Noregi og byggt árið 1896. Efra húsið (hvíta) væri frá árinu 1898.
Aðrar minjar í nágrenninu væru frá því að afi hennar hafði Kothus-6útihús norðvestan við bæinn. Kothúsbrunninn mætti enn sjá skammt vestan við hann, en hann hefði verið byrgður. Áður var ofan á honum kjálki og vinda, enda jafnan gott vatn upp úr honum að hafa. Vindmyllustandur í nágrenninni var minnismerki þess tíma er vindmylla var við hvurn bær í Garði. Þessi vindmylla var öðruvísi en aðrar því spaðinn sneri jafnan undan vindi en ekki upp í hann líkt og aðrar.
Nú hafa minjar eldri kota og bæja verið sléttar út á umræddu svæði svo erfitt er að greina hvar þau hafa verið staðsett nákvæmlega.

Heimildir m.a.:
-http://snara.is/s4.aspx?sw=b%u00e6jarnafn&start=30&action=search
-Náttúrufræðingurinn, 17. árg. 2. tbl (01.06.1947), Ólalur við Faxafen: Hæð sjávarborðs við strendur Íslands, bls. 62.
-http://timarit.is/view_page_init.jsp?pageId=3155283&issId=232905&lang=4
-Frjáls verslun, 31. árg. 1971-71, 9. tbl. (01.09.1971), viðtal við Sevinbjörn Árnason í Kothúsum í Garði, bls. 58.
-Hallgrímur J. Ámundason (júlí 2010).
-http://arnastofnun.is/page/ornefni_darri.
-Vaka, 3. árg. 1929, 3. tbl. (01.12.1929), bls. 363.
-Guðríður í Kothúsum.

Garður

Garður.