Gengið var frá Stóra-Nýjabæ yfir í Kálfadali, upp Víti og inn að eldborgunum norðan Æsubúða. Kíkt var eftir hugsanlegum hellisopum á leiðinni. Þaðan var haldið til suðurs að Æsubúðum og um Hvítskeggshvamm niður að Deildarhálsi ofan við Stóru-Eldborg. Gamla þjóðleiðin til Krýsuvíkur var síðan rakin að upphafsstað.
Í dag er venjulega talað um að landamerki Árnessýslu og Gullbringusýslu hafi legið úr Seljabót um Sýslustein í Kóngsfell. Í öðrum heimildum er getið um að landamerki Árnessýslu og Gullbringusýslu hafi legið um Hvítskeggshvamm. Undir honum hittust, a.m.k. samkvæmt þjóðsögunni, þær Herdís og Krýsa á sínum tíma til að skera úr um landamerki bæja þeirra. Afleiðinguna má sjá á dysjum þeirra kerlinga skammt austar, í Kerlingadal (Kerlingahvammi).
Í dómi Hæstaréttar 1996/2849 segir að “takmörk Ölfushrepps í vestri eru í sjó við Seljarótarnef, þaðan í Sýslustein undir Geitahlíð, þaðan eftir þinglýstri landamerkjalínu í Litla Kóngsfell.” Hér er rétt að taka eftir heitinu “Litla-Kóngsfell”.
Þegar lagt var af stað frá Stóra-Nýjabæ áleiðis í Kálfadali var ljóst að fá örnefni hafa varðveist á því svæði þrátt fyrir fjölmörg sérkenni og kennileiti. Utan Vegghamra, hamrastandar sem blasa við vestan Geitafells, eru Kálfadalir er liggja upp frá Vegghömrum til norðurs, allt að Gullbringu austan Kleifarvatns, einu örnefnin. Víti er þó í syðri Kálfadal, en svo er nefndur mikill hraunfoss er runnið hefur og storknað í austanverðum Kálfadalahlíðum.
Ber og sandorpin hæðardrög liggja þarna samátta öðrum sprungureinamyndunum Reykjanesskagans. Móbergshryggirnir eru táknrænir fyrir eldri bergmyndanir, en millum þeirra má sjá yngri hraungígamyndanir. Litadýrðin er fáu lík; ljósbrún móberg, rauðleitt gjall, grágrýti og berg og öskumyndanir með skörpum skilum. Ofan á þessu trjóna litlar grágrýtisborgir er skotið hafa kolli sínum upp úr íshellu síðasta ísaldarskeiðs. Á kafla er landslagið líkt og ímynda mætti sér að það væri á Tunglinu, enda komu verðandi og einu tunglfarar Bandaríkjamanna á þetta svæði til æfinga áður en haldið var út í geiminn.
Á þessu svæði var einnig tekin fyrsta leikna íslenska stuttmyndin árið 1954, en hluti hennar átti einmitt að gerðast á Tunglinu. Móbergshellar í formynduðum veggjum gefa hugmyndarfluginu lausan taum á stað sem þessum.
Eitt kennileiti á þessu svæði er hár og breiður grágrýtisstandur; Borgin. Aðrar smærri eru í nágrenni hennar; Smáborgir. Ein þeirra er tákngervingur jarðskjálfta. Fyrir skömmu stóð þar fallegur grágrýtisstandur, lítill, en eftir jarðskjálftana miklu 17. júní 2000 breyttist hann á örskömmri stundu í óformaða skriðu. Þannig er “standurinn” nú. Minnir það á sögu þá er Jón Guðmundsson frá Ísólfsskála sagði eitt sinn er hann og félagar hans úr Grindavík voru að reka fé að Vigdísarvallaréttinni. Þetta var um miðjan fjórða áratug síðustu aldar. Skyndilega reið yfir svo mikill jarðskjálfti að réttarveggirnir hrundu og flöttust hreinlega út. Féð þusti í allar átti svo ekki var annað að gera en að halda heim á leið. Þórkötlungar höfðu þá forgöngu um að byggja nýja rétt í Borgarhrauni (1935), sem enn stendur. Réttin við Vigdísarvelli var lagfærð, en ekki notuð aftur í sama mæli og var. Af þessu tilefni vildi Jón undirstrika að Vigdísarvallaréttin er nú þar sem var bærinn Bali, en Vigdísarvallabærinn sjálfur hafi staðið austar á túninu, líkt og sjá má. Afi Jón bjó á Vigdísarvöllum til síðari hluta aldarinnar, en fluttist þá að Ísólfsskála.
Á vesturbrún Kálfadala má sjá hvar fyrrnefndur hraunfoss hefur steypst niður austurhlíðina og síðan runnið til beggja átta í dalnum. Hraunfóðrið entist ekki til að fylla dalina og því er það þarna sem nokkurs konar sýnishorn af því sem verða vildi.
Haldið var yfir hrauntunguna í suðurdalnum eftir fjölfarinni fjárgötu og síðan upp (austur) með henni. Hraunkantinum var fylgt að Geitahlíð norðanverðri. A.m.k. tvö greni voru á leiðinni, auk ops og rásar, sem ókönnuð er. Tekin voru hnit af opinu. Rásin er í sléttu og eldra helluhrauni undir hinu úfna apalhrauni er myndað hefur Víti. Upptök þess áttu eftir að koma í ljós.
Þegar upp á hábrún hraunsins var komið, þar sem hraunið hafði runnið hæst upp að hlíð Geitafells, var haldið eftir fjárgötu austur yfir það og síðan vent til suðurs, áleiðis upp á fellið. Þegar upp var komið blasti dýrðin við.
Brennisteinsfjöll eru í einum af fjórum megin eldstöðvakerfum á Reykjanesi og er það kennt við fjöllin. Nær það allt frá Krýsuvíkurbjargi í suðvestri og inn á Mosfellsheiðina í norðaustri. Virknimiðjan í kerfinu er hins vegar í kringum Brennisteinsfjöllin og að Bláfjöllunum, en hvað mest eldvirkni hefur verið í Brennisteinsfjöllunum sjálfum. Eldborg undir Geitahlíð og Eldborgir í Leitarhrauni marka syðri og nyrðri mörk eldstöðva í kerfinu. Síðast er vitað til þess að gosið hafi í Brennisteinsfjöllum laust eftir landnám.
Jón Ólafsson úr Grunnavík taldi að nafnið Gullbringa nærri Geitahlíð væri frá Dönum komið sem hafi talið það fallegt og viðeigandi þar sem staðurinn lá nærri sýslumörkum við Árnessýslu. (Kristian Kålund: Íslenzkir sögustaðir I:51). Álitið er að staðurinn hafi fyrrum verið blómlegri en síðar hefur orðið vegna uppblásturs.
Æsubúðir er grágrýtisdyngja í 386 m.y.s. Gígurinn er austan háhæðarinnar. Frá Æsubúðum er stórbrotið útsýni til norðausturs að sunnanverðum Brennisteinsfjöllum þar sem Eldborgin trjónir efst á gígaröðinni, til austurs yfir ofanvert Herdísarvíkurfjall þar sem hrauntaumarnir ofanverðir leika aðalhlutverkið, til Vestmannaeyja í suðvestri, yfir Klofninganna í suðri og Grindavík, Reykjanes og Eldey í vestri. Hálsarnir í norðvesti liggja þarna flatir sem og höfuðborgin í gegnum Vatnsskað (hið gamla) í norðri. Neðanverðir eru Kálfadalirnir með hraunbreiðunum fyrrnefndu.
Gengið var skáhallt niður af Æsubúðum að ofanverðum Hvítskeggshvammi. Frá honum sést vel yfir Elborgarhraunin. Elborgirnar, Litla- og Stóra-Eldborg, eru friðlýstar. “Samkvæmt heimild í 22. gr laga nr. 47/1971, um náttúruvernd, hafa [Umhverfisstofnunar] og náttúruverndarnefnd Grindavíkur ákveðið að friðlýsa sem náttúruvætti Stóru – Eldborg og Litlu – Eldborg undir Geitahlíð, Grindavík, ásamt næsta nágrenni.
Mörk hins friðlýsta svæðis eru eftirfarandi:
Að norðan fylgja þau mörkum hrauns og hlíðar, 200 m austur fyrir nyrstu gíga í gígaröð Litlu – Eldborgar. Þaðan hugsast bein lína í austurhorn hrauntraðar frá Litlu – Eldborg um 225 m sunnan borgarinnar. Síðan bein lína í vestnorðvestur að þjóðvegi, eftir honum að vesturjaðri hraunsins frá Stóru – Eldborg. Að vestan fylgja mörkin hraunjaðrinum.
Eftirfarandi reglur gilda um svæðið:
1. Gjalltaka og mannvirkjagerð er óheimil, svo og hvers konar jarðrask, sem breytir eða veldur skemmdum á
útliti gíganna.
2. Skylt er vegfarendum að sýna varúð, svo að ekki spillist gróður eða aðrar minjar á hinu friðlýsta svæði
umhverfis eldstöðvarnar.
3. Akstur utan vega og merktra slóða er óheimill.
4. Beitarréttindi skulu haldast svo sem verið hefur.
Til undanþágu frá reglum þessum þar leyfi [Umhverfisstofnunar] og náttúruverndarnefndar Grindavíkur. Um viðurlög vegna brota á reglum þessum fer eftir ákvæðum náttúruverndarlaga.”
Gengið var niður ofanverðan Hvítskeggshvamm, allt niður á hina gömlu götu, milli Krýsuvíkur og Herdísarvíkur, um Deildarháls.
Ein þjóðsagan segir: “Krýsuvík er austastur bær í Gullbringusýslu með sjávarsíðunni, en Herdísarvík er vestastur bær í Árnessýslu. Þetta eru næstu bæir sinn hvoru megin við sýslumótin; hvort tveggja er landnámsjörð og svo að ráða sem sín konan hafi gefið hvorri nafn er þar bjuggu lengi, og hét sú Krýs er byggði Krýsuvík, en Herdís sú er setti bú í Herdísarvík.
Jarðir þessar hafa alla tíð verið taldar með beztu bólstöðum hér á landi og er það ekki að undra, því báðum fylgir útræði, fuglaberg mikið og trjáreki nógur. Á landi áttu báðar jarðirnar veiðivötn ágæt: Krýsuvík mörg í suður og austur frá bænum þar sem hann er nú, en Herdísarvík litla tjörn eina í heimatúni milli sjós og bæjar. Rétt hjá veiðivötnunum átti Krýsuvík starengi mikið og fagurt. Herdísarvík átti aftur á móti ekkert engi, en beitiland svo miklu betra fyrir sauði en Krýsuvík að nálega tekur aldrei fyrir haga í Herdísarvíkurhrauni; er þar bæði skjólasamt af fjallshlíð þeirri er gengur með endilangri norðurbrún hraunsins og kölluð er Geitahlíð og skógur mikill. Þótt fjarskalöng bæjarleið, hér um bil hálf þingmannaleið, sé milli þessara bæja voru þær Krýs og Herdís grannkonur og var nábúakritur megn á milli þeirra; því hvor öfundaði aðra af landgæðum þeim er hin þóttist ekki hafa, Krýs Herdísi af beitilandinu, en Herdís Krýs aftur af enginu. Svo hafði lengi gengið að hvor veitti annari þungar búsifjar; rak Krýs sauðfénað sinn í land Herdísar, en Herdís vildi aftur ná í engið, og beittust svo þessu á víxl með því landamerki virðast annaðhvort hafa verið óglögg eða engin í það mund.
Þegar þær grannkonurnar eltust meir fóru þær síður að hafa fylgi á framkvæmdum til að ásælast hvor aðra, en ekki var skap þeirra að minna eða vægara fyrir það. Bar þá svo við einhverju sinni að Herdís hafði gengið út í hraun og síðan út með Geitahlíð svo sem leið liggur út í Krýsuvík. En utarlega undir hlíðinni ganga úr henni hæðir nokkrar fram að hrauninu og eru þær kallaðar Eldborgir. Yfir þessar hæðir liggur vegurinn. Þann sama dag er Herdís tókst þessa göngu á hendur fór og Krýs að heiman. Í suður frá Krýsuvík er slétt melgata; er hún nokkuð langur skeiðsprettur suður undir hornið á Geitahlíð, en þegar komið er fyrir það horn blasa Eldborgir við sunnar með hlíðinni og er allskammt þangað undan hlíðarhorninu.
Nú segir ekki af ferðum þeirra grannkvennanna fyrr en Krýs kemur þar á götunni sem hún liggur yfir hina nyrztu Eldborgina, þá kemur Herdís í flasið á henni að sunnan. Þegar þær hittust varð fátt af kveðjum, en því fleira af illyrðum á milli þeirra er hvor um sig þóttist eiga land það er þær stóðu á. Ekki er þess að vísu getið hvernig hvorri um sig hafi farizt orð, en svo lauk að hvor hézt við aðra vegna landadeildarinnar. Lagði þá Krýs það á Herdísi að allur ætur silungur skyldi hverfa úr veiðitjörn hennar, en verða aftur full af loðsilungi, sumir segja öfugugga. En Herdís lagði það aftur á Krýs að allur silungur í veiðivötnum hennar skyldi verða að hornsílum. Enn lagði Krýs það á Herdísarvík að þaðan skyldi týnast tvær eða þrjár skipshafnir. Herdís mælti aftur það um fyrir Krýsuvík að starengið þar skyldi smásökkva á hverjum 20 árum, en koma upp á jafnlöngum tíma. Eftir þessi ummæli sprungu þær báðar þar sem þær stóðu og eru þær dysjaðar báðar til vinstri handar við götuna þegar riðið er út í Krýsuvík norðan til á Eldborginni nyrztu, og sér dysirnar þar enn; dys Krýsar er það sem nær er Krýsuvík, en Herdísar hitt sem fjær er. Meðan þær voru að mæla hvor um fyrir annari kom að þeim smalinn úr Krýsuvík, en svo brá honum við heitingar þeirra að hann féll þegar dauður niður og er hann dysjaður hægra megin við götuna þar upp undan sem þeirra dys er niður undan svo ekki skilur nema gatan ein. Dys þeirra grannkonanna eru enn kölluð Krýs og Herdís og þar með eru þau kölluð sýsluskil Gullbringusýslu og Árnessýslu, svo eru þau og talin landamerki milli Krýsuvíkur og Herdísarvíkur.”
Í annarri þjóðsögu segir: “Þórir haustmyrkur nam Selvog og Krýsuvík. Það hefir verið seint á landnámstíð, því fjölbyggt hefir verið orðið syðra eftir þeirri sögn að fátækt fólk hafi flakkað í Selvog bæði utan með sjó og sunnan yfir fjall.
Það þótti Þóri illt og setti því grindarhlið læst í Grindaskarð, en annað í skarð það sem farið er úr Grindavík upp á Siglubergsháls. Þar af skulu þessi örnefni vera dregin: Grindaskarð og Grindavík.
Það er naumast annað en getgáta að Krýsa og Herdís hafi verið dætur Þóris haustmyrkurs; þó hefir það verið sagt.
Krýsa bjó í Krýsuvík, en Herdís á Herdísarvík. Þær deildu um landamerki milli sín. Vildi Krýsa eiga Geitahlíð alla og væru landamerki í stóran stein er stendur í hrauninu fyrir austan hlíðarhornið. Herdís vildi eiga út á Deildarháls. Hann er nokkuð vestar en undir miðri Geitahlíð og hefir spúð eldi því í honum er gígur ekki alllítill, og úr honum hefir runnið hraun það er Klofningur heitir eða Klofningar.
Þar hittust þær og deildu þar til báðar heittust, og eru dysjar þeirra á hrygg nokkrum undir hlíðinni skammt fyrir austan hálsinn. Má geta til að Herdís hafi gengið þangað undan, því henni veitti miður þó hvorug hefði vel.
Þangað til hafði veiði mikil verið í Kleifarvatni í Krýsuvíkurlandi og tjörnin í Herdísarvík stararflóð og silungapollur í miðjunni.
Herdís mælti svo um að allur silungur í Kleifarvatni skyldi verða loðsilungur óætur.
Þá lagði Krýsa það á að tjörnin í Herdísarvík skyldi éta sig út og eyða úr sér störinni og brjóta bæinn, en allur silungur skyldi verða að hornsílum. Það skyldi og fylgja að tvær skipshafnir skyldu í henni drukkna.
Þetta gekk allt eftir. Bærinn Herdísarvík stóð áður undir Búrkletti, en tjörnin gróf undan honum grundvöllinn svo hann varð að flytja úr stað og einn vetur sem oftar var tjörnin lögð með ís, þá komu sjómenn frá skipum (þau voru tvö) og gengu tjörnina, en ísinn brast og allir drukknuðu. Og enn er varazt að ganga hana þó hún sé lögð. Svo fór um landamerkin sem Krýsa vildi og heitir nú kletturinn Sýslusteinn.
Skammt fyrir austan Kerlingar (dys Krýsu og Herdísar) eru tveir steinar sem líka hafa verið nefndir Sýslusteinar, en eru auðsjáanlega hrapaðir úr hlíðinni á seinni tímum.”
Í enn einni þjóðsögunni segir: “Herdís og Krýs hétu konur tvær í fyrri daga; þær bjuggu í víkum þeim í Gullbringusýslu sem við þær eru kenndar síðan, Krýs í Krýsuvík, en Herdís í Herdísarvík.
Þar er vatn eitt uppi á heiðunum sem þá var veiði í. Þóktust báðar kerlingarnar eiga veiðina í vatninu og notuðu hana hvor um sig eftir megni.
Einu sinni mættust þær á leiðinni til vatnsins í hrauninu milli víkanna; þar deildu þær út af veiðinni og heituðust og urðu loks sín að hvorum steini. Standa þar steinarnir sinn hvorumegin við götuna í hrauninu, og heitir hinn syðri Herdís en hinn nyrðri Krýs.”
Í Hvítskeggshvammi má finna sjaldgæfari tegundir ýmssa blómplantna, t.d. fjalldalafífil. skógfjólu, geithvönn og jarðaberjalyng.
Þjóðsagan segir og að “ofar Eldborgar er Hvítskeggshvammur þar sem sagt er að skipið Hvítskeggur hafi verið bundið við festar í bjarginu.” Í örnefnalýsingu Ara Gíslasonar segir: “Beint upp af Stóru-Eldborg er hvammur, sem Krýsvíkingar kalla Hvítskeggshvamm, en annarstaðar heitir Hvítserkshvammur eða jafnvel Hvítskeifuhvammur. Hvítskeggshvammur er hann nefndur í Landfr. s. Ísl II, 312, þar sem sagt er frá því, að þar hafi fundizt fleiri lækningajurtir en á nokkrum öðrum stað.”
Þegar skoðaðar eru heimildir um landamerki á þessum stað má t.a.m. sjá að í lýsingu lögréttumannsins Hálfdanar Jónssonar á Ölfushreppi frá 1703 er að finna eftirfarandi upplýsingar um sýslumörk: “Þessi eru haldin sýslumót milli Árnessýslu og Kjalarnesþings, fyrst er Vilborgarkelda, er liggur á Mosfellsheiði, fyrir vestan Heiðarbæ. Þaðan ræður Laufdælingastígur, í vestur liggjandi eftir heiðinni, allt í nyrðri Lyklafellsenda. Síðan í þann einstaka stein, er stendur við Hellirsheiðarveginn á melnum fyrir sunnan Lyklafell, er kallast Sýslusteinn. Þaðan í það stóra bjarg, er liggur við veginn í Ólafsskarði. Síðan sjónhending í Hvítskeggshvamm, fyrir sunnan Geitahlíð, milli Herdísarvíkur og Krýsivíkur.”
Jón Vestmann, prestur í Vogsósum, lýsir takmörkum Strandarsóknar á eftirfarandi hátt árið 1840: “Takmörk Strandarkirkjusóknar í Selvogi að austanverðu er Viðarhellir við sjó, sem er suðurhafið. Þaðan upp eftir Selvogsheiði, sem er hólvaxin, breið um sig, klettalaus, með góðum högum í lágum og brekkum, en mosavaxin á hæðum. Þaðan upp í Geitafell, sem stendur upp úr aðalfjallgarðinum, er liggur einlægur strandlengis ofan frá jöklum og vestur fyrir Krýsuvík. Geitafell er hátt, ílanghnöttótt, óbrunnið, með skörpum brúnarklettum, blásið að norðan og austan, en skriðurunnið að sunnan og vestan. Þaðan eru téð takmörk upp í Heiðina háu, sem er afréttur Selvogssveitar, Þórlákshafnar og vestustu bæja í Hjallasókn. Þessi heiði er hátt, breitt, ávalt fjall, gnæfir upp úr fjallgarðinum, blásið í grjót og berg að norðan, en sunnanvert með góðum fjallhögum í lágum og brekkum, en mosabörð með standklettum, hálfeldbrunnum, þar á milli. Þaðan er takmark þvert vestur í Kóngsfell, sem hefur nafn af því, að fjallkóngur í Selvogi skipti þar á haustum fólki í fjárleitir. Þaðan sjónhendingu vestur til Brennusteinsfjalla. Þau eru langur og hár fjallsás upp úr aðalfjallgarðinum. Á þeim er Kistufell, tilsýndar sem kista. … Takmark Strandarsóknar til vesturs er stefna úr téðum fjöllum suður á fjallsbrún vestanvert við Lyngskjöld, sem er óbrunninn blettur yst í Herdísarvíkurfjalli. Þaðan stefnu fram í Sýslustein við alfaraveg. Þaðan fram á Seljanef við sjó. Eru þetta og svo takmörk Gullbringusýslu og Krýsuvíkursóknar að austanverðu. Hennar takmörk að norðan: Vestari partur
Brennusteinsfjalla allt vestur í Kleifar, norðan til við Kleifarvatn. Þaðan til útsuðurs fram eftir Vigdísarhálsi fram á Núphlíð, sem hvervetna eru blásin að norðvestanverðu, en grösugri móti suðaustri, þó mikið skriðurunnin, samt með góðum högum. Loksins liggur takmark Krýsuvíkursókna til sjávar á Selatöngum, útveri frá Krýsuvík.”
Frá Deildarhálsi var gömlu götuni fylgt vestur með sunnanverðri Geitahlíð. Hún sést þana mjög vel og víða eru vegkantar lagaðir. Líklegt má telja að þarna hafi verið fyrsti akvegur sjálfrennireiðarinnar millum Krýsuvíkur og Herdísarvíkur og að gamla þjóðleiðin hafi verið löguð til þess at arna.Vegurinn hefur verið lagaður fyrir 1943 er jarðýtur voru notaðar til að gera vegstæði núverandi þjóðvegar, endurbættan. Hann getur því ekki talist til fornleifa, en vel má lögjafna hann til þess ígildis – til framtíðar litið.
Vegurinn hverfur á kafla, en birtist síðan að nýju skammt norðaustan núverandi þjóðvegar. Suðvestan hans hefur vegurinn verið eyðilagður vegna vangár starfsfólks Fornleifaverndar ríkisins. Skammt vestan þeirrar vangár sést hann enn á ný og nú með stefnu að Krýsuvíkurbæjunum.
Vormót Hraunbúa var í fullum gangi undir austanverðu Bæjarfelli þegar FERLIR bar að garði. Guðni Gíslason, mótsstjóri, tók fagnandi á móti þátttakendum.
Frábært veður. Gangan tók 4 klst og 4 mín.
Heimildir m.a.:
-Hálfdan Jónsson, “Descriptio Ölveshrepps anno MDCCIII.” Árnessýsla. Sýslu- og sóknalýsingar. Reykjavík. 1979, s. 250.
-Jón Vestmann, “Selvogsþing (Strandar- og Krýsuvíkursóknir).” Árnessýsla. Sýslu- og sóknalýsingar. Reykjavík. 1979, s. 211.
-Friðlýsing – Stj.tíð. B, nr. 622/1987. Menntamálaráðuneytið, 10. desember 1987.
-Jón Árnason I – 459.
-Þjósagnasafn Jóns Árnasonar.
Víti framundan.