Færslur

Hóp

Gengið var með Tómasi Þorvaldssyni, útgerðarmanni í Grindavík, um Hóp og Nes.
Fyrst var farið að Fornuvör neðan Járngerðarstaða. Vörin sést enn vel og er skammt vestan við Brimbrjótinn (neðan við fjárhúsin). Þá leið fóru m.a. Tyrkir þegar þeir komu til Grindavíkur 1627 og hnepptu allt heimilsfólkið á Járngerðastöðum í fjötra. Fólkið var rekið niður sjávargötuna og niður í Fornuvör. Þá var litið á lifrapressuna úr lifrabræðslu Einars í Einarsbúð, en hún stendur undir gafli eins húsanna niður við sjó.

Hóp

Hóp – minjar gamla bæjarins.

Við Hóp eru gömul hús og fornar tóttir. Talið er að einn sona landsnámsmanns Moldar-Gnúps hafi sest þar að og þá nefnt staðinn Hof, sem síðan hafi breyst í Hóp. Í nágrenni staðarins má sjá margt minja. Þar eru t.d. tóttir forns átrúnaðar, auk þess sem gamla austurleiðin er þar vel mörkuð á kafla. Reyndar eru leiðirnar tvær, svo til hlið við hlið, sem bendir til að þar hafi verið talsverð umferð um tíma. Gróið er yfir göturnar, en þær sjást þó vel.

Hóp

Hópsvörin.

Neðan við Hóp sést enn móta fyrir gamalli bryggju, sem þar var gerð við Hópsvörina innri. Bátar komust inn yfir eiðið, Barnasundið, á flóði og var þessi vör þá notuð. Ofan við vörina er tótt af gömlu fiskhúsi.

Í Nesi var býli. Enn má sjá sjóbúð, bátarétt og mjög heilleg hús – svo heilleg að nægilegt væri að refta yfir og setja framgafl á þau til að koma þeim í gagnið aftur. Svæðið býður upp á mikla möguleika. Þarna eru mjög heillegar minjar svo til inni í miðjum bæ er auðvelt væri að endurgera. Búið er þó að þrengja verulega að svæðinu með greftri og jarðraski hingað og þangað, auk þess sem búið er að sturta möl og rusli svo til alveg að minjunum. Ofar eru heilir þurrkgarðar og byrgi. Utar var Hópsvörin ytri. Enn markar fyrir henni utan við varnargarðinn.

Grindavík

Varðan Sigga austan Síkis.

Öllum sjóbúðum, sem voru uppi á kampinum, hefur verið rutt um kolli. Notað var tækifærið og svæðið rissað upp eftir lýsingu Tómasar.
Sigga, eða Digra-Sigga, var skoðuð. Hún er varða er þótti mikil um sig hér áður fyrr. Nú er hún ekki svipur hjá sjón. Sigga og varða nær kampinum, Sundvarðan, voru merki skipverja, sem komu að austan, að nú væri komið inn á djúpsundið og venda ætti að leiðinni inn. Þá tóku við Svíravarða og Stamphólsvarða, en þær hafa báðar verið vel varðveittar.
Frábært veður.

Hóp

Hóp – uppdráttur ÓSÁ.