Færslur

Þorsteinshellir

Lýsing á Þorsteinshelli og Dimmu (Dimmi) var sú að hellarnir ættu að vera norðaustan við Hólmsborgina (Sauðaborgina) í Hrossabeinahæð sunnan Hólmshlíðar og austan Gráhryggjar. Þeir, sem einhvern tíma hafa komið á svæði, vita að þar er eitt hraunhaf svo langt sem augað eygir. Þrjár fyrri ferðir á svæðið hafa reynst árangurslausar. Því var ákveðið að nota að þessu sinni léttvopnaða og fótfráa sérsveit FERLIRs. Sveitin getur farið hratt yfir og ef eitthvað markvert er að finna þá finnur hún það, það er a.m.k. reynslan.

Dimmir

Við opið á Dimmi.

Þegar búið var að leita af sér allan grun á Hrossabeinshæðum, var haldið inn á Gráhrygg. Farið var hratt yfir, en þegar komið var í austanverðan hrygginn skammt norðvestan við Selfjall var ákveðið að umkringja líklegt svæði og grandskoða það. Eftir stutta leit fannst Þorsteinshellir og síðan Dimmir í kjölfarið. Við skoðunina fannst einnig annar hellir, sem bíður betri tíma.
Hlaðið er (sjá mynd) við op Þorsteinshellis. Þrep er niður og síðan tekur við heil hraunrás, u.þ.b. 8-10 metra löng. Hellirinn hefur greinilega verið notaður sem skjól fyrir þann eða þá, sem setið hafa yfir ánum. Krikinn, sem þótti svo líklegur, hefur þá að öllum líkindum verið notaður sem nátthagi. Sennilegt er að aðstaða þessi hafi m.a. verið notuð frá seljunum í Lækjarbotnum (Örfiriseyjaseli og Reykjavikurseli) og frá Hólmi.
Skammt norðan við Þorsteinshellir fannst opið á Dimmi (sjá mynd). Hellirinn er u.þ.b. 30 metra langur, heil hraunrás, en tiltölulega lág.
Frábært veður.

Þorsteinshellir

Í Þorsteinshelli.