Færslur

Tyrkjaránið

Bókin “Tyrkjaránið á Íslandi“, útgefin 1906, fjallar, líkt og titillinn gefur til kynna, um heimildir og sögu Tyrkjaránsins hér á land í byrjun 17. aldar. Hér verður drepið niður í tvo kafla bókarinnar; “Lítill annáll um Tyrkjans herhlaup á Íslandi Anno 1627” og “Tyrkjaránssaga Björns á Skarðsá“:

Tyrkjaránið á Íslandi“Rán það og manndráp þau, sem tyrkneskir sjóreyfarar frá Algier og Kyle á norðurströnd Suðurálfunnar frömdu hér á landi, í Austfjörðum, Vestmannaeyjum og Grindavík, 1627, og venjulega er nefnt Tyrkjaránið, hefir orðið mönnum minnisstætt á landi hér, og margt verið um það ritað, bæði af þeim, sem herleiddir voru af Tyrkjum og aptur komust hingað til lands, og svo af öðrum. Þó hafa frásagnir þessar og gögn hingað til að eins að litlu verið útgefin, og hvergi verið að þeim að ganga á einum stað, heldur hefir þessara frásagna, kvæða og skjala verið að leita í óvissu á víð og dreif í opinberum handritasöfnum og hjá einstökum mönnum. Og sumt hefir fyrst verið að koma fram nú hin síðustu árin.

Árni Magnússon

Árni Magnússon.

Sá, sem fyrstur safnaði saman öllum frásögnum og skýrslum um Tyrkjaránið, var Árni Magnússon, en það safn hans brann allt hjá honum eins og fleira 17281). Hefir hann þá verið búinn að þrautsafna svo, að þá hafa líklega eingar afskriptir verið eptir á Íslandi af sumum frásögnunum, svo sem af riti Einars Loptssonar úr Vestmannaeyjum og Halldórs Jónssonar úr Grindavík, sem bæði voru til fyrrum, en reynast nú glötuð, eins og margt af skjölum hlýtur að vera liðið undir lok, er snertir þetta efni.

Handritasýning

Skarðsbók – Tyrkjaránið.

Um 1830-40 hafði Finnur Magnússon í hyggju að gefa út helztu frásagnir og skýrslur um Tyrkjaránið eptir því sem hann ritar etazráði Engelstoft 8. apr. 1833; hafði Engelstoft þá í áformi að rita eitthvað um þetta efni, en af því varð þó ekki. Aldrei varð og heldur af því að Finnur gæfi út neitt af Tyrkjaránsritunum, enda var þá enn hörgull á afskriptum sumra þeirra í opinberum söfnum, síðan brunann hjá Árna.
Það fyrsta, sem séð verður, að gefið hafi verið út á prent um Tyrkjaránið, er dönsk þýðing af ferðasögu síra Ólafs Egilssonar, prentuð í Kaupmannahöfn 1741 (og önnur útgáfa síðar), en ekki var ferðasaga þessi gefin út á íslenzku fyrri en 1852. Bæði frá þýðingu þessari og útgáfu var lélega gengið.

Tyrkjaránið

Annálar Björns frá Skarðsá.

Betur var varndað til útgáfunnar af Tyrkjaránssögu Björns á Skarðsá, sem út kom í Reykjavík 1866. Allar þessar bækur eru nú orðnar ófáanlegar fyrir löngu.
Árið 1899 skrifaði meistari Sigfús Blöndal merka yfirlitsgrein um Tyrkjaránið í tímariti einu dönsku. Annað hefir ekki á prent komið um þetta efni sérstaklega, en bæði er Tyrkjaráns getið í Annálum Björns á Skarðsá, Árbókum Espólíns, Kirkjusögu Finns biskups og enn víðar.
Jón prófastur Haldórsson hefir ritað um Tyrkjaránið í Biskupasögum sínurn og Hirðstjóraannál, sem hvorttveggja er áður prentað ekki alls fyrir löngu. Í Biskupasögunum segir hann svo frá1:
Tyrkjaránið»Um ránið i Vestmannaeyjum í tíð herra Odds biskups. Á hans dögum voru Vestmannaeyjar rændar tvisvar. Í fyrra sinni Anno 1614 af þeim eingelska sjóreyfara Jóni Gentelmann, hver með sínum reyfaraflokki gekk um eyjarnar í hálfan mánuð, sem settu knífa og sverð sín á hálsa og harka þeim íslenzku og stuttar byssur fyrir þeirra brjóst, með spotti og skellihlátri; drápu þó hvorki né særðu nokkurn mann né smánuðu ærlegt kvenfólk, en ræntu og rupluðu öllu, sem þeir vildu nýta, en skemmdu og fordjörfuðu það þeir vildu ekki.

Tyrkjaránið

Íslandskort frá 1600.

Þeir tóku burt þá stóru Landakirkjuklukku. En þá Jón kom fram til Einglands var hann tekinn og drepinn með sínum selskap. Bókstafir, sem steyptir stóðu á klukkunni, hermdu frá hverri kirkju á Íslandi hún var tekin; var hún þremur árum síðar send aptur til Vestmannaeyja eptir skipun Jacobs kongs á Einglandi.
Hið síðara ránið gerðu Tyrkjar Anno 1627. Komu þeir fyrst á einu skipi þann 12. júní í Grindavík og rændu þar fé og peningum og XII eða fleiri mönnum, konum og körlum, en skáru og skammarlega særðu suma.

Grindavík

Grindavík – Tyrkjaskipin.

Danska kaupskipið tóku þeir á höfninni með gózi og fólki; kaupmaðurinn gat flúið undan. Þar tóku þeir og annað kaupskip, sem sigla átti upp á  Skutulsfjarðareyrarhöfn. Síðan lögðu þeir á tveimur skipum til Bessastaða, hvar Holger Rosenkranz höfuðsmaður hafði búizt til varnar, ef svo mætti kalla, með nokkrum íslenzkum. Þá skotið var á móti þeim, er þeir lögðu inn á Seyluna, kom stanz á ræningjana, sneru við, en þá stóð annað skip þeirra fast á grunni; fluttu þeir þá af því á hitt, þar til flaut út aptur, því logn var og ládeyða; fóru svo burt. Ekkert hrós fékk hirðstjóri af sinni hugdirfsku og framkvæmd í þessu.

Tyrkja-Gudda.

Tyrkja Gudda – málverk eftir Jóhannes S. Kjarval.

Á sama sumri komu tvö önnur Tyrkja skip inn á Djúpavog fyrir austan; tóku þessi ræningjar þar danska kaupskipið á höfninni með fólki og gózi, hlupu með hrinum og háhljóðum um bygðina alt í kring að Heydölum, hertóku landsfólkið, en börðu sumt og drápu, ræntu kirkjur á Hálsi og Berufirði og öllu því, er þeir náðu og nýta vildu, en fordjörfuðu hitt, er þeir vildu ekki. Síra Jón Þorvarðsson á Hálsi tóku þeir í sæng hans um nótt og burtfluttu ásamt CX manneskjum öðrum, en drápu IX menn, sem menn vissu og fundu.

Tyrkjaránið

Vestmannaeyja – aðkomu ræningjanna.

Þaðan héldu þeir undir Vestmannaeyjar; tóku þeir eingelska duggu; þeir friðkeyptu sig með því að vísa ræningjum uppgöngu á eyjarnar, hvað helzt gerði Þorsteinn nokkur íslenzkur, sem áður hafði verið í eyjunum. Að kvöldi þess 17. júlí lögðu þessir ræningjar sunnan að eyjunum, hlupu þar upp óvanalegan veg CCC vopnaðir menn eður fleiri, skiptu sér í þrjá flokka, hlupu með hrópi og ofsahljóðum um alla bygðina, inn í hverja krá og afkyma, börðu fólkið, konur og karla, börn og gamahnenni, drápu sumt og sundurhjuggu í smátt með alls kyns háðungum, ráku það hópum saman eins og fé í kvíar ofan í Dönskuhúsin, völdu þar úr því þá, sem þeirn leizt bezt á, og fluttu frarn á skip sín. Björg og hamra runnu þeir upp og klifruðu eins og léttfærustu bjargmenn, og gripu fólkið, sem sig hafði falið þar, en skutu niður með byssum það, sem þeir náðu ekki. Sóknarprestinn annan, síra Jón Þosteinsson, með hans konu, börnum og heimafólki, fundu þeir í afviknum stað; fyrrgreindur Þorsteinn þekti hann og sagði; »Síra Jón! Því ertu nú ekki í kirkju þinni?«

Tyrkjaránið

Tyrkir í Vestmannaeyjum.

Prestur svaraði:
»Eg hefi verið þar í morgun«; hjó hann þrisvar i höfuðið hvað eptir annað; presturinn befalaði sig og sína sálu guði og dó svo, en konu hans og börn, svo og hinn prestinn, síra Ólaf Egilsson, með hans konu, börnum og fólkinu, börðu þeir og keyrðu í skip. CCXLII manneskjur hertóku þeir, en XXXIV fundust dauðar, fyrir utan þær, sem þeir brenndu þá í Dönskuhúsunum veikar og vanfærar; þeir brendu og Landakirkju upp til ösku, ræntu öllu, sem þá girnti, en fordjörfuðu hitt. Þann 19. júlí sigldu þeir burt fram í Barbaríið með fólkið og allt það ránsfé«.
Í Hirðstjóraannál farast séra Jóni svo orð, og er hann nú heldur skorinorðari um frammistöðu hirðstjórans og Dana á Bessastaðaskanzi:

Skansinn

Bessastaða-Skansinn.

»Anno 1627 kom Rosenkranz höfuðsmaður hingað í öndverðum Junio. Og er hann heyrði ránskap Tyrkjanna í Grindavík, sem byrjaðist þann 12. júní, stefndi hann kaupförunum úr Hafnarfirði og Keflavík til sín í Seyluna, hvar hans sjálfs skip lá, en Hólmsskipið dvaldist inn í Leiruvogum; lét hann þar búast til varnar bæði á sjó og landi; lét (hann) gera virki eður skanz, sumir segja af fiskböggum, — upp á skop, að eg meina, eður þó réttara að segja, að virkið hafi ei gagnast meira en þótt hlaðið hefði verið af fiskaböggum. Var í þeirri virkisnefnu varla rúm fyrir fáeina menn, miklu síður fyrir heilan flokk manna eður varnarlið; voru þangað færðar feltbyssur — ef svo mætti kallast — þær, sem til voru, og þó varla nokkur af þeim til gagns».

Frásögn Björns á Skarðsá

Tyrkjaránið

Tyrkjaránið – Málverk eftir flæmska málarann Andries van Eertvelt (1590-1652) af seglskútu frá Algeirsborg í Barbaríinu, eins og Norður-Afríka var þá kölluð. Málverkið er frá sama tíma og svonefnt Tyrkjarán var framið hér á landi.

“Hér segir frá komu Tyrkjanna og þeirra ránum og skemdum í Grindavík.
Þegar liðin voru 1627 ár frá vors herra Jesu Christi fæðingu og sá loflegi herra kóngur Kristján, fjórði þess nafns, stýrði Danmerkur- og Noregsveldi, en hirðstjóri var yfir Íslandi sá herramann Holgeir Rosenkranz, falla til þessi tíðindi, sem eptir fylgir. Og eru það upptök þessara atburða, að suður í heimsálfunni, sem nefnist Africa, hverjum heims þriðjungi, sem og miklum parti austurálfunnar Asiœ, ásamt nokkrum hluta norðvestur heimsins, Europœ, sú nafnfræga þjóð hefir að ráða, sem kallast Tyrkjar, hver óþjóðalýður er ófrægur af illskuverkum og ódáðum, sem kristnu fólki má helzt kunnugt vera, hvert fólk þessi þjóð helzt á sækir, og til sinnar óguðlegrar trúar þvingar, eður og hefir það í æfinlegum þrældómi, nema þeir, sem aptur kunna að kaupast með stóru gjaldi peninga.

Tyrkjaránið

Tyrkjaránið – hollensk skip við Barbaríið frá byrjun 17. aldar.

Hafa þessir Tyrkjar við sjávarhafið herskip úti á hverju ári að herja upp á kristindóminn i norðurálfunni og ræna mönnum og fjárhlutum, hvar þeir kunna, sem og að hertaka þau skip, er þeir um sjóinn finna, er sér ætla til kaupskapar, næringar til annarra landa, og þetta er sífeldleg iðja þessara Tyrkja í landsálfum Lijbiœ hinnar ytri, er Harbaria heitir.
Kom til tals með yfirherrunum, hvert til kristinna landa halda skyldi, þar mannránin mætti helzt verða og svo fjárvænur væru. Var nefnd hjá þeim sú ey í norðvestursjónum, sem heitir Ísland; en hinn æðsti yfirmaður Tyrkja sagði það ómögulegt vera, að sækja til Íslands þaðan frá þeim hinn minsta stein, þess síður mannfólk, en annar kvað það vinnanlegt væri, og veðjuðu hér upp á stóru gjaldi, því að þetta mannrán, þá það tekst, fær þeim mikinn ábata, svo að nokkrir segja, að eitt ungbarn fáist selt fyrir 300 dali í þeirra löndum.

Tyrkjaránið

Kort frá um 1630 – Kortið er eftirmynd af yfirlitskorti Willems Janszoons Blaeus af vesturströndum Evrópu. Kort Blaeus, sem birtist fyrst 1623 var síðan gefið út endurbætt.

Og nú sem þessi umræða var með yfirherranum og kapteinunum, bar svo við, að á meðal þeirra var einn hertekinn maður danskur, hver lengi hafði hjá þeim verið í þrældómi, þó með sinni kristilegri trú; sá hét Páll. Þessi maður hugfesti það að fá sér fríun og frelsi úr ánauð og þrældómi með því að vísa þeim þangað, er auðveldlegt vera mundi kristnu fólki að ná. Á þessu bryddi hann við Tyrkjana. Það féll þeim vel í geð og lofuðu honum lausn og frelsi. Þessi danski Páll segir þeim, að Íslands innbyggjarar séu ekki vanir hernaði eður bardögum; því mundi lítið fyrir verða það fólk að hertaka; svo og væri sér kunnug sigling til Íslands, því hann hefði opt þangað með dönskum mönnum farið. Hér af mega Íslendingar þekkja sitt manndómsleysi, þar guð hefir þó gefið (þeim) burði og hug til að verja líf sitt, ef vopn til væru.

Tyrkjaránið

Tyrkjaránið – hollenskt skip frá fyrri hluta 17. aldar.

Nú strax eptir þessar viðræður bjuggust Tyrkjarnir af stað með mesta hasti til Íslandsferðar, og vilja nokkrir svo segja, að tólf hafi herskipin þaðan lagt, svo ekki skyldi hjá sleppa framkvæmd ránanna, [hvernig sem vor guð hefir því hamlað], að ekki komust hér að landi nema 4 af þeim, sem greina skal. Þessi skip komu í tvennu lagi að landinu og svo einnig af tveimur borgum úr Barbariinu. Og vil eg nú fyrr tala um það eitt skip, sem af þeirri borg var, er Kyle heitir, á hverju skipi nefndir eru þrír yfirmenn; admírállinn hét Amorath Reis, og kapteinarnir Arciph Reis og Beyram Reis. Þessir gerðu minna skaðann og slógu sér hvergi út um byggðina, þar sem þeir í land komu, hverjum vor drottinn náðarsamlega frá stýrði skaðann að gera, sem eftir fylgir.

Grindavík

Járngerðarstaðir fyrrum.

Þann 20. dag júnímánaðar kom sunnan til á Íslandi að því litla sjávarplássi, sem heitir Grindavík, eitt tyrkneskt herskip, og það beitti upp undir landið, þar sem danska kaupskipið lá inni fyrir á höfninni í Járngerðarstaðasundi. Þessir skipsmenn köstuðu þar út streing grunnt um dagmál, létu út bát og sendu til kaupskipsins nokkra menn til njósnar, hvort varnir væru á skipinu, en föluðu af þeim kost; sögðust menn kóngsins af Danmörk, og ættu að veiða hvali og hefðu í hafinu hrakizt í níu vikur.

Járngerðarstaðir

Járngerðarstaðir – bæir og sögusvið “Tyrkjaránsins” – uppdráttur ÓSÁ.

Þetta greindu þeir skipherranum í þýzku máli, en hann kvaðst ekki kost til sölu hafa, og svo fór báturinn burtu aptur. Þessu jafnframt sendi kaupmaðurinn Lauriz Bentson átta menn íslenska fram til þess nýkomna skips, að vita hverir þeir væri. Bárður hét sá Teitsson, er fyrir þeim var. Þeir komu á Tyrkjaskipið og fengu ekki aptur þaðan í land að fara. Í þessu sama bili sendi yfirkapteinninn 30 menn á báti, þrívopnaðan hvern, sem voru byssur, skotvopn og korðahnífar. Þeir stungu sköptum niður í bátinn, en létu oddana upp standa; þeir inn tóku strax kaupskipið. Þar var ekki manna þá, nema skipherrann. Þeir fluttu síðan úr því, hvað hafa vildu, og fram í herskipið. Kaupmaðurinn, sem í landi var, sendi strax tvo bátsmenn fram til skipherrans; [þeir voru strax ásamt honum herteknir].

Járngerðarstaðir

Járngerðarstaðir – uppdráttur ÓSÁ.

Síðan fóru víkingar í land og ræntu búðir kaupmannsins, en hann var flúinn [á land upp] og allir þeir Dönsku [með honum] er á landi voru, og höfðu áður falið nokkuð af vöru sinni, því, sem þeir gátu undan komið. Hér næst fóru víkingarnir heim til bæjarins á Járngerðarstöðum, tóku þar Guðrúnu Jónsdóttur, kvinnu Jóns Guðlaugssonar, er þar bjó. Þeir báru hana nauðuga frá bænum, hraklega með farandi, og á veginum kom þar að bróðir hennar, er Filippus hét, og vildi hafa liðsinnt henni. Hann særðu þeir og hörðu, og lá hann þar eptir hálfdauður. Einnig kom þar að litlu síðar annar hennar bróðir, Hjálmar að nafni. Hann var ríðandi. Af honum tóku þeir hestinn, og reiddu hana ofan að sjónum.

Blóðþyrnir

Blóðþyrnir í Grindavík – ofan við Kaupmannsvörina. Sú saga hefur varðveist að þyrnir þessi hafi sprottið upp af blóði þeirra Grindvíkinga er drepnir voru í Tyrkjaráninu.

Hjálmar sló þá einn Tyrkjann nokkur högg með járnsvipu, sem hann hafði i hendi, en sá hjó til hans aptur með hnífnum, og svo annar og hinn þriðji, og stungu hann jafnframt, en Hjálmar var vopnlaus og féll hann síðan óvígur. Tyrkjar ræntu fé úr bænum á Járngerðarstöðum, því er þeir vildu.
Þeir tóku Halldór Jónsson bróður Guðrúnar. Hann og aðrir flýðu ekki, því þeir meintu, að ekki mundu mannrán gerast, þótt fjárstuldir mættu verða. Einnig tóku Tyrkjarnir þrjá sonu Guðrúnar: Jón, sem elztur var, skólagenginn, Helga og Héðinn, en hróðir hennar einn, er Jón hét, var einn af þeim átta, er sjálfkrafa fram fóru að finna skipið. Jón Guðlaugsson ráku þeir til strandar með sonum sínum og Halldóri, og var Jón þá orðinn aldraður maður og hafði þá um stund veikur verið, og gáfu þeir hann lausan; féll hann þar í fjörunni, og sögðu Tyrkjar þá ekki um hann varða. Stúlku eina unga tóku þeir með Guðrúnu, og fluttu svo fram til skips þessa menn alla.

Tyrkjaránið

Tyrkjaránið – skip undan Grindavík.

Á þessum sama degi sigldi fyrir framan Grindavík til vesturs eitt hafskip. Það gintu Tyrkjar að sér með flaggi eður merki dönsku, er þeir upp festu. Þeir hertóku síðan það skip, sem var kaupfar, er sigla skyldi á Vestfjörðu. Kaupmaður á því hét Hans Ólafsson. Þetta fólk var alt rekið ofan í skip, íslenzt og danskt, og sett í hálsjárn með hlekkjafestum, og voru hverjar festar fjögurra manna byrði. Í þessum járnum sat fólkið optast á allri þeirri Tyrkjanna reisu.
Áðurnefndum Bárði Teitssyni með öðrum manni, er Þorsteinn hét Pétursson, gaf admirállinn Amorath Reis hurtfararleyfi. Þeir náðu bát sínum og fóru til lands. Eptir þetta héldu þessir ræningjar burt frá Grindavík, [sem betur fór].

Grindavík

Grindavíkurhöfn fyrrum.

Þeir tyrknesku hermenn, sem ræntu í Grindavík, héldu samflota skipum sínum fyrir Reykjanes, og gerðu ráð sín að taka skip það, sem lá í Hafnarfirði. Nú sem Holgeir Rosenkranz, hirðstjóri yfir Íslandi, er þá var á kóngsgarðinum Bessastöðum, og hafði kaupskip þar nærri, þó varnarlítið — hver höfn að nefnist Seila —, spurði Tyrkja ránin manna og fjár í Grindavík, sendi hann til kaupmannanna í Keflavík og Hafnarfirði, bjóðandi þeim, að þeir legði inn þangað sínum skipum með hasti, hvað yfirmenn skipanna jafnskjótt gerðu, og urðu þá þar í Seilunni þrjú hafskip til samans, en það danska skipið, sem lá [inn við kaupstaðinn Hólm, lagði inn á Leirur] sem grynnst í Leiruvogs skjóli nokkurt.

Bessastaðir

Bessastaðir – fallstykki frá Skansinum í kjallara Bessastaðastofu.

Þá bjóst hirðstjórinn við á landi í Seilunni og svo á skipunum, hvað þeir gátu, ef víkingarnir þar koma kynnu. Var til búið virki, og þó af torfi, við sjóinn, og þar á settar byssur þær, er þar til voru. Þá voru á suðurferð menn af norðurlandinu, einkum þeir, sem sýslur höfðu, og komnir voru lil Bessastaða, og fóru þeir til virkisins með þeim Dönsku til varnar. Þar var Jón frá Reynistað Sigurðarson, er lögmaður hafði verið. Einnig var þar síra Þorlákur Skúlason, skólameistari frá Hólum, er kjörinn var til biskups á þessu ári. Þar voru og einnig þeir bræður, Þorbergur og Sigurður Hrólfssynir, er sýslu höfðu í Þingeyjarþingi. Þessir voru allir með sínum mönnum í virkinu.

Skansinn

Skansinn á Bessastaðanesi – uppdráttur ÓSÁ.

Sem nú Tyrkjaskipin voru komin vestur og inn fyrir Garðinn, sigldu þeir inn um og sáu kaupskipin |á burt og komin inn] á Seiluhöfnina, og þar voru þrjú skip á einum stað. Glöddust þeir næsta, og þá sagði admírallinn, að svo framt hann kæmist inn á höfnina, þá skyldi þau þrjú skip öll í hans valdi og eign vera, og svo héldu þeir inn fyrir Álptanes réttleiðis að Seilunni.
Það var hinn næsta dag fyrir Jónsmessu móti kveldi. Skutu þá Tyrkjarnir af nokkrum byssum að boða ófrið og svo hinir Dönsku á móti. Um þenna tíma var uggur og ótti á fólki um Suðurnesin, fluttar kvinnur, börn, fé og búsmali til selja og upp um hraun til fjalla. Nú sem víkingarnir héldu beinleiðis inn að höfninni, og herskipið tyrkneska undan, bar svo til fyrir guðs mildi verk, er hindraði þeirra skaðlega ásetning, að skipið renndi í sundinu framan upp á flúð nokkra og stóð svo. Þar voru á allir fangarnir danskir og íslenzkir og voru þeir um nóttina varðveittir, en á Jónsmessumorgun sem var sunnudagur, voru þeir leystir úr járnunum og upp á þilfar leiddir, þrír hverir í einu, síðan tekin mjó lóðarfæri og bundnar sérhvers hendur aptur á bak um bera úlfliði.

Tyrkjaránið

Tyrkjaránið – fangarnir fengu óvægna meðferð.

Þá meintu bandingjarnir, að þeim mundi eiga fyrir borð að kasta, og biðu svo, en það var ekki, heldur var bundinn kaðall um hvern, og látnir síga fyrir borð í bátinn og fluttir á hið danska vestanskipið, þar upp dregnir og bönd af skorin, ofan í skipið hneptir og í járn settir sem fyrr. Hér eptir ruddu þeir upp barlest og út úr skipinu |og fleira öðru það fánýtt þótti, svo það mætti flotast af skerinu. Þann næsta dag eptir Jónsmessu losaðist skipið af flúðinni, og sigldu víkingarnir þá nokkuð burt frá landinu þessum tveimur skipum og [skiptu þá aptur gózinu sem henta þótti]; voru þá með öllu frá horfnir inn aptur að Seilunni að leggja, hvað þó með fyrsta var þeirra harðlegur ásetningur, hirðstjóranum að ná [ásamt kaupskipunum, einnig síðan stela og ræna, hvað þeir gætu yfir komizt.

Tyrkjaránið

Skansinn og Seylan – kort.

Ámæli stórt fengu Danir af því, að þeir lögðu ekki að víkingunum, meðan Tyrkjaskipið stóð á skerinu [og þeir vömluðu með gózið og mennina milli skipanna, því vitanlegt mátti vera, að skipið hefði gilt, hefði þeir fallstykkjum að því hleypt, meðan á klettinum slóð, hvað Íslendingar höfðu þó til orða haft.

Eptir þetta svo framkvæmt sigldu þessir ránsmenn vestur fyrir Snæfellsjökul og höfðu í ráðslagi að halda á Vestfjörðu og þar að ræna. Fundu þeir þar tvær eingelskar duggur, hverra skipsmenn Tyrkjum sögðu, að fjögur orlogsskip þess einelska kóngs lægju fyrir Vestfjörðum.

Skansinn

Skansinn við Bessastaði. Seylan framundan.

Við það urðu víkingarnir mjög felmtsfullir og sigldu vestur i haf í [fjögur dægur], sem af tók, svo þeir skyldu þess síður verða á slóðum þeirra eingelsku stríðsskipa. Þar eptir lögðu þeir til útsuðurs og hið beinasta heimleiðis.
Nokkrum sinnum voru þeir kristnu lausir látnir á reisunni, þó manna munur á því gerður; en altíð, þegar þeir öldrykkjur höfðu, voru þeir fjötraðir. Einn blíðan veðurdag var það, að þeir voru lausir Íslendingar, Haldór og Jón, hans systurson. Sat Jón á kaðli fram undir gallioni, en einn hollenskur bátsmaður gaf þann kaðal lausan, svo Jón datt útbyrðis ofan í sjó. Síðan heyrðist kall hans á skipið, og var hann óskaddaður upp dreginn fyrir sérlega guðs hjálp, – þannig bevarar drottinn sína, sem á hann vona.
TyrkjarániðÚr því á leið framsiglinguna, liðu fangarnir mikið hungur, svo að hver einn íslenzkur fékk eigi meira mat á dag en hálfa brauðköku danska, og hálfan bjórkút tíu menn á dag til drykkjar. Nú sem liðnar voru sex vikur frá því ránin skeðu, komu þeir undir Tyrkjanna veldi í Barbaría, mitt undir þá höfn, er kjósa vildu, nær liggjandi þeirra höfuðhorg Tyrkjanna, er Kyle heitir, 700-mílur vegar frá Íslandi, einn mánudag, sem var 30. júlí, og þar lágu þeir tvo daga úti fyrir, sakir þess að brim var furðumikið, álíka og alltíðum við Ísland. Og eingir landsmenn komu þá út til þeirra.

Tyrkjaránið

Tyrkjaránið – admíráll í Barbaríinu á skipi þess tíma.

Eptir liðna þá daga komu landsmenn fram og vildu ránsmenn þá á höfnina leggja. Voru þá fangarnir aptur á skipið færðir ofan í barlest, og sátu þar í járnum, meðan hafnast skyldi, og þar voru tveir Tyrkjar til gæslu. Admírallinn sjálfur stóð á þilfarinu, og hann átti einungis að hafa forsögn og annar enginn orð að mæla, meðan sundið tækist á höfnina. En sem skipið hafnaðist, skutu þeir af tólf fallhyssum sér til virðingar og fagnaðar frama. Þar næst var blásið í trompet og belgpípur; hrósuðu svo sigri sínum; komu síðan landshöfðingjarnir og vinir þeirra, hverir með þeim samglöddust, er þeir sáu herfang þeirra. Þar eptir voru þeir kristnu fangarnir á land látnir 2. dag ágústsmánaðar og reknir upp á kastala borgarinnar Kyle, að frá tekinni Guðrúnu Jónsdóttur og hennar yngsta syni og [lítilli stúlku, er Guðrún hét Rafnsdóltir], þar í eitt hús látnir og einn heimilis-Tyrki settur til gæzlu. Þar voru þeir í þrjár nætur. Brauð var þeim fært að eta, en vatn sóttu þeir sér sjálfir með geymslu-Tyrkjans leyfi, og fékk hann þá aðra Tyrkja að fylgja þeim altíð, er slíks þurfti við.

Tyrkjaránið

Tyrkjaránið – Aleirsborg á 17. öld.

Margt landsfólk kom þangað í húsið til fanganna, kristnir menn til að gleðja þá og hugga, en Tyrkjar til að skoða þá og spotta. Þar eptir voru þeir leiddir út á kauptorg staðarins, og til settir menn að bjóða þá fram til sölu sem önnur ferfætt kvikindi, og þessir gengu um strætin með óhljóðum og miklu kalli, [svo sölu orðin]: þrœldóms-bandingjar. Þeim var fyrir sett að ganga berhöfðuðum eptir kallaranum til merkis, það þeir kristnir væru. Þessi gangur, kall og uppboð gekk um strætið, þar til sérhver einn var seldur, og fór svo hver einn af þessum raunamönnum til sinna yfirmanna undir þrældóms-ánauðarok, eptir sem gamalt mál fyrri manna hljóðar, að þvílíkir herteknir menn nefnast ánauðugir, ánauðarmenn eða nauðokar.

Tyrkir

Tyrkir voru ljótir andskotar.

Þessi áður sögðu skip höfðu feingið ofurmikinn storm í heimsiglingunni og sleit í sundur í hafinu, og kom Tyrkjaherskipið þremur dögum seinna en það danska kaupskipið, og hét kapteinninn, sem á því var, Beiram Reis, hver einn var af þeim þremur kapteinum, sem í Grindavík komu. Þessi eignaðist Halldór Jónsson til þrældómsvinnu, þá er hann kom, þótt hann væri af öðrum Tyrkja áður keyptur. Hjá honum var Halldór þann tíma, hann var úti í Barbaría. Halldór var angurlaus látinn.  Sömuleiðis má lesa þar um Guðrúnu, hans systur, hennar þarveru, og hvernig þau voru þaðan keypt af hollenzkum manni, komu svo til Kaupinhafnar, þáðu þar miklar velgerðir og gjafir, fluttust svo hingað til Íslands á kaupmannafari ári síðar 1628.

Tyrkir

Tyrkjaránið – Sjóræningjarnir eignuðust nokkur börn með hinum herteknu Íslendingum, sem segir nokkuð til um meðferðina.

Sjötti og síðasti partur þessa máls er um bréf Jóns Jónssonar, hingað send úr Barbaríenu, hvernig þar til gengur, og um útlausn nokkurra íslenzkra þaðan:
Anno 1633 í hvítadögum skrifar Jón, sonur Jóns Guðlaugssonar, sem tekinn var í Grindavík með Guðrúnu Jónsdóttur, móður sinni, hingað til lands bréf foreldrum. Það kom ári seinna. Það bréf var merkilega samsett: af stórum trúarinnar krapti nákvæmlega beðið fyrir hans foreldrum, vinum og vandamönnum, herrum hér andlegum og veraldlegum, kennivaldinu og almúganum, óskandi af öllum fyrir sér að hiðja og því hertekna auma fólki. Segist hann vera og sinn bróðir Helgi fyrir guðs náð í meinleysi og góðri heilsu [með sömu húshændum] í sama stað, borginni Artel [[eður Alger í Barberíinu Barharorum í landsálfu Lybiæ hinnar ytri [í Africa].

Tyrkjarán

Tyrkjaránið – veggmynd við Grindavíkurkirkju.

Segir hann þar nagg og narrari á þrælunum og háðungaryrði, þau sem ekki síður svíði, sem sárið eldist, og það sé bezt að yfirvinna með góðu, því það sé eigi vondur djöfull, sem saunleikann þoli. Menn sé þar ekki í dispiitazíu-stað, því ef þeir geti ekki forsvarað sitt rmál og þyki þeim fyrir, að ein klausa yfírvinni þá, þá sé að hlaupa til kaðla og keyra, báls og brenniviðar. Það halda þeir þægt verk guði þann af dögum ráða, sem rétt talar og forsvarar hið góða. Þetta viti nú sínir Íslendingar, og óskar hann, að Tyrkjar skuli fara eptir því sem hann trúi, og fái laun eptir því, sem þeir geri, því þeir sé óvinir krossins Christi og geri kristnum mönnum og þeirra æfilok sé fordæmingin og nema svo hefði verið, að guð hefði af oss borið eldlegar pílur djöfulsins, þá hefði þessir morðingjar fyrir ári eður tveimur, já, árlega síðan, hingað til Íslands farið skaða og skemdarverk að gera; hafi guð hamlað þeirra ásetningi í sérhvert sinn mjög furðanlega og mildilega, og ef guð hindraði þá ekki, þá mundu þeir ganga yfir lönd og lýði; þeir skuli sækja mjög eptir því íslenzka fólki og hafi við leitast stundum með þrjú skip, líka fjögur skip á þeim umliðna mánuði Maio.
TyrkirSegir hann, þeir sig saman tekið hafi á sex skipum, en það hafi hindrazt, hví kapteinarnir hafi allir þurft í stríð að fara. Þeir Tyrkjar segja, að það íslenzka fólk sé betra en annað fólk, strákskaparlaust, hlýðið og trúfast við sína húsbændur. Þar fyrir hafa þessir kapteinar ráðslagað að taka ekki annað en ungmenni um tvítugsaldur, hvers blóðs og sálna mest þyrstastur verið hafi sá bannsettur eiturdreki Morath Fleming, hvers minning sé í helvíti.”

Eldvörp

Eldvörp – “Tyrkja”byrgi.

Af framangreindri lýsingu, þ.e. “Síðan fóru víkingar í land og ræntu búðir kaupmannsins, en hann var flúinn [á land upp] og allir þeir Dönsku [með honum] er á landi voru, og höfðu áður falið nokkuð af vöru sinni, því, sem þeir gátu undan komið“, mætti ætla, án nokkurrar sönnunar, að felustaður hinna dönsku hafi verið byrgin í Sundvörðuhrauni, er síðar týndust, en fundust á ný um 1820. Mikil dulúð hefur hvílt yfir tilgangi byrgjanna alla tíð síðan. Lengi vel var álitið að þarna væru felubyrgi, sem Grindvíkingar ætluðu að flýja í ef Tyrkirnir kæmu aftur (sem verður að teljast ósennilegt) og einnig hefur verið talið að um væri að ræða felustaði Grindvíkinga á fiskundanskoti vegna nauðþurfta í harðindaárum fyrr á öldum. Fyrstnefnda skýringin er ekki ólíklegri en aðrar.

Heimild:
-Tyrkjaránið á Íslandi, Sögufélagið gaf út, Reykjavík 1906, bls. 223-233 og 289-290. Lítill annáll um Tyrkjans herhlaup á Íslandi Anno 1627, bls. 1—5. V. Tyrkjaránssaga Björns á Skarðsá, samin 1643, bls. 204—299.

Eldvörp

“Tyrkjabyrgin” í Sundvörðuhrauni ofan Grindavíkur.