Ætlunin var að huga að svonefndum Draugsskúta í Litla-Kóngsfelli. Þar á maður að hafa orðið úti á leið sinni um Selvogsgötu fyrr á öldum. Draugurinn er sagður enn á reiki við hellinn. Tekist hafði að finna haldgóða lýsingu á staðsetningu skútans. En eins og gerist á langri göngu þá bar ýmislegt óvænt fyrir augu.
Ákveðið var að fylgja Selvogsgötunni frá Bláfjallavegi áleiðis upp að gatnamótunum þar sem gatan greinist annars vegar upp í Kerlingarskarð og hins vegar upp í Grindarskörð. Áður hafði tekist að rekja götuna um norðanverð skörðin nokkru norðar, frá gatnamótum ofan við Helluna og áfram upp hlíðina norðan Stórabolla, en nú var ætlunin að fylgja gömlu korti er sýnir Grindarskarðleið upp hlíðina milli Stórabolla og Miðbolla, frá gatnamótum nokkru ofar.
Gatan er óskýr í fyrstu, enda mosinn vaxinn yfir hana að hluta. Hún hefur ekki verið farin um langa tíð. Þó er auðvelt að rekja hana að hlíðinni. Þar fylgir hún rótum hennar með greinilegum hætti áleiðis upp að Miðbolla – kjörin hestagata. Nokkrar götur liggja að henni út frá mosabreiðunni. Þá liggur ofan við megingötuna og kemur í Grindarskörðin skammt norðar. Með henni er aflíðanin þegar komið er úr skarðinu minni en þeirri, sem hér er fylgt. Fallegt vatnsstæði er í gróinni kvos á miðri leið. Þegar komið er upp undir Miðbolla liggur gatan í hlykkjum upp hlíðina þar sem hún er bröttust. Hún er þó þægileg uppgöngu alla leiðina og mun greiðfærari og styttri en um Kerlingarskarð.
Þegar upp er komið liggur gatan suður fyrir Miðbolla og sameinast Hlíðarvegi við vatnsstæði norðaustan við Draugahlíðar. Kortið sýnir ekki Hlíðarveginn, en það sýnir Selvogsgötuna liggja frá vatnsstæðunum áleiðis yfir að Litla-Kóngsfelli. Reyndar liggur önnur gata til suðurs frá vatnsstæðunum, en hún sameinast Selvogsgötunni við fellið. Á báðum gatnamótunum eru tvær vörður. Fallega hlaðin brú er af Hlíðarveginum yfir að vatnsstæðunum.
Á leiðinni voru gígar Bollanna gaumgæfðir. Gígar sem sjá má á Reykjanesi eru dyngjur eins og t.d. Þráinsskjöldur á Strandarheiði, klepra- og/eða gjallgígar eins og við Búrfell við Hafnarfjörð, gjóskugígar eins og Eldvörpin yst á Reykjanesinu og sprengigígar eins og Grænavatn við Krýsuvík. Svo var að sjá sem gígar Bollanna hafi verið úr blönduðum gosum. Þeir bæði klepra- og gjallgígar, sem hafa opnast í eina áttina og hraunið flætt út. Það er að hluta apalhraun, en einnig helluhraun.
Megingígur Miðbolla er gjóskugígur, þ.e. eldborg, þar sem meginhraunstarumurinn hefur runnið úr gígnum neðanjarðar, undir storkinni hraunhellunni, og niður Lönguhlíðar. Sjá má stór jarðföll á nokkrum stöðum í hlíðinni, sem fallið hafa niður í meginrásir. Gígur norðan í Miðbolla er blandaður gígur, sem og gígur vestan í Stórabolla.
Þegar gengið er upp á Miðbolla sést vel hversu stórbrotið listaverk hann er. Hann er einstaklega vel formaður og sérstakt er að hafa slíka gíga svo að segja við hendina því flestir nærtækari hafa þegar farið undir vegi að meira eða minna leyti.
Sunnan við Miðbolla er Kóngsfellið. Það er klepra og gjallgígur, opinn til austurs og vesturs. Norðan í honum er lítill gjóskugígur. Sjá má að röð lítilla gíga ligga suðvestur úr Miðbolla. Ljóst er að þar hefur gosið á sprungurein og það efst og norðan í Lönguhlíðunum. Gígar ofan viðKerlingarskarð eru hluti af þessari gígaröð og líklega er stóri fallegi Draugahlíðagígurinn það einnig. Bláfjallareinarnar gusu á tímabilinu 950 til 1000 og mun þetta vera hluti af þeim. Víða sunnan og austan við hlíðarnar má sjá litlar gígaraðir, sem gosið hafa litlum gosum og sennilega ekki verið virkar nema stuttan tíma, jafnvel nokkra daga.
Megin sprungureinabeltin, sem gosið hafa á sögulegum tíma á Skaganum, eru a.m.k. þrjú; Bláfjallareinin (950-1000), Krýsuvíkureinin (1150-1188) og Reykjanesreinin (1210-1240).
Selvogsgötunni var fylgt yfir að Litla-Kóngsfelli. Þar fannst Draugsskúti skammt frá götunni þar sem syðri gígur fellsins opnast til vesturs. Hrauntröð liggur frá honum og er skútinn í jaðri traðarinnar. Hann er fremur lítill. Segja má að hann sé fremur skjól fyrir suðaustanáttinni en rýmilegur skúti.
Til baka var haldið yfir á Hlíðarveg og áleiðis niður Kerlingarskarð. Drykkjarsteinarnir efst í skarðinu voru skoðaðir og síðan gengið sem leið lá að upphafsstað.
Veður var hreint sagt frábært – sól og lyngna. Gangan tók 3 klst og 3 mín.
Sjá MYNDIR.