Hraunsvík og Festarfjall eru náttúruminjar í umdæmi Grindavíkur.
Festarfjall og Hraunsvík.
Gengið var niður í Hraunsvík Undir Festi, eins og það er kallað, þ.e. að ganga Hraunssandinn (Ægissandinn) undir Festarfjalli (Festisfjalli) með Hraunsvíkinni. Einstigi er niður með berginu, en tiltölulega auðvelt er að komast niður (og reyndar upp aftur). Ofan fjörunnar, austan Hrólfsvíkur, er hátt berg og síðan Festarfjallið, sem sjórinn hefur nú sorfið til hálfs. Í gegnum fjallið gengur bergveggur og er hann sagður vera festi tröllskessu. Festarfjall er 190 metra hátt. Við austurenda þess er Lambastapi og síðan Ísólfsskáli. Ekki á að vera hægt að ganga þurrum fótum með ströndinni undir fellinu yfir að Ísólfsskála, en þó er til saga um að kona þar búandi hafi gert það a.m.k. einu sinni og þótti það mikið afrek.
Hraunsvík til vesturs.
Að þessu sinni var sjórinn svo til ládauður, en hann getur verið ansi viðskotaillur þarna niðri og fljótur að skella sér upp og bleyta óvænt í göngufólki. Dæmi eru um að hann hafi hellt sér yfir börn, sem hætt hafa sér of nærri, en enn er ekki vitað um að óhapp hafi hlotist af. Hár malarbakki er við sjávarmál og því varhugavert að hætta sér of nærri, enda Ægir óræðinn og jafnvel óvæginn á stundum. Þá þarf að gæta þess vel að fara ekki austur fyrir hlein, sem þar skagar út vestast undir Festarfjalli, í aðflæði. Þar undir Festarfjalli er m.a. stór hellir og annar minni. Í stærri hellinum verpir teista, hinn knái svarti fugl, tugum saman. Fýll og rita verpa utan í bjarginu. Ungarnir stóðu sperrtir á syllunum og biðu eftir að verða flugstórir.
Duknahellir.
Vestar í berginu er m.a. Dunknahellir. Hann er nú að koma fram aftur eftir að sjórinn hafði fyllt hann af sandi og möl. Op er á honum uppi í berginu, en um það er ekki hægt að komast svo auðveldlega. Hins vegar er hægt að fara inn í hellinn undir bergið og er þá komið inn í sæmilega rúmgóðan og háan skúta. Opið er uppi undir lofti – mót austri.
Eftirfarandi frásögn er í ritinu “Frá Suðurnesjum – frásagnir frá liðinni tíð” eftir Guðstein Einarsson og ber hún heitið “Frá Valahnúk til Seljabótar”:
“Í kringum 1890 fannst þarna rekin á hvolfi frönsk fiskiskúta. Erfitt var að gera sér grein fyrir, hvort áhöfn hefði farist með skipi þessu. En með því að engan mann hafði rekið úr því, var frekar hallast að því, að skip þetta hafi verið yfirgefið, en skipshöfninni bjargað af öðru skipi, áður en það rak upp.
Í þennan tíma var gert út frá Ísólfsskála. Þeir bræður, Hjálmar og Brandur Guðmundssynir frá Ísólfsskála, voru þar formenn, með sinn bátinn hvor. Dag nokkurn á vertíðinni voru þeir á sjó austur í Hælsvík. Þar var þá mikið af frönskum fiskiskútum. Ein skúta var þar, sem þeir veittu sérstaka athygli, vegna þess hve segl hennar voru mislit, líkast því sem þau væru bætt. Seinni part þessa dags gekk svo í hvassa s.a. átt með slyddubyl. Þeir bræður héldu til lands, þegar verðrið fór að versna. Um kvöldið eða nóttina gekk síðan í hvassa s.v. átt. Morguninn eftir, þegar þeir á Ísólfsskála komu niður að sjónum þar, tóku þeir eftir miklu rakaldi þar úti fyrir og eitthvað var í fjörunni. Það var þegar giskað á, að skip hefði strandað vestur á Hraunssandi eða þar í kring og var fljótlega sent af stað að líta eftir þessu.
Hraunsvík til austurs.
Á leiðinni frá Ísólfsskála og út að Hrauni er mikið af þverhníptum háum klettum meðfram sjónum og sums staðar illt að sjá greinilega niður í fjöruna, enda komust leitarmenn alla leið út að Hrauni, án þess að finna nokkuð. Frá Hrauni var svo snúið við aftur sömu leið og bættust þaðan menn við í leitina.
Þegar upp að Dunkshelli kom, fannst svo þetta strand, sem áður er getið. Og þeir Ísólfsskálamenn töldu sig þekkja þar aftur frönsku skútuna með bættu seglin, sem þeir sáu í Hælsvík deginum áður. Engan hefi ég hitt, sem kann nánar að segja frá strandi þessu, en nú hefir verið gert.
Horft upp um op á Dunkshelli.
Fyrir innan Dunkshelli byrjar Hraunssandur og er hann í boga fyrir botni Hraunsvíkurinnar, hátt berg rís alls staðar upp af Hraunssandi, og aðeins á einum stað er hægt að komast niður á sandinn, þar sem klettarnir eru lægstir. Alveg fyrir botni Hraunsvíkur, þegar ströndin byrjar að beygja út að austanverðu, rís Festarfjall upp af sandinum.
Í Festi eru Vestri-Nípa og Eystri-Nípa, sem eru mörk milli Hrauns og Ísólfsskála, og frá Eystri-Nípu heitir sandurinn Skálasandur. Munnmæli eru um að í skerjum, sem heita Selasker og eru fram undan Eystri-Nípu, hafi í fyrndinni verið festiboltar fyrir skip og að þarna hafi þá verið skipalega. En miklar breytingar hafa orðið á landslagi þarna, hafi það nokkru sinni verið, því yfirleitt á öllum sandinum er sjaldan svo kyrrt, að hægt sé að lenda þar.
Horft út um Dunkshelli.
Upp úr 1890 hafði frönsk fiskiskúta siglt upp á Hraunssand og orðið þar til. Það var í besta veðri, svo margir bátar úr Þórkötlustaðahverfinu voru á sjó. Eftir hádegi kom “fransari” siglandi á þær slóðir, sem bátarnir héldu sig helst á, og virtist vilja hafa tal af þeim, því hann sigldi að hverjum bátnum eftir annan, og þeir héldu það vera skipstjórann sem var með köll og bendingar, en enginn á bátunum skildi, hvað hann vildi. Eftir að hafa siglt þannig á milli bátanna nokkra stund tók hann stefnu beint upp á Hraunssand og þar í strand. Magnús Hafliðason bóndi á Hrauni segist muna það, að faðir sinn, Hafliði Magnússon, sem lengi bjó á Hrauni, hafi oft minnst þess franska skips eða siglingu þess, þennan dag. Hann hafði verið í landi um daginn, en bátarnir voru svo nærri landi, að fljótlega var tekið eftir því, þegar franska skipið fór að sigla á milli þeirra, hvers af öðrum.
Festarfjall – sjávarhellir.
Það þótti strax eftirtektarvert, því venja var að þegar “fransari” sigldi að báti, sem oft hafði komið fyrir, þá var erindið að biðja þá fyrir bréf í póst, eða að hafa viðskipti. Sérstaklega höfðu þeir frönsku sóst eftir sjóvettlingum. Allt, sem þeir keyptu, var aðallega borgað í kexi. Einstaka sinnum var gefið í staupinu, svo karlarnir höfðu stundum komið góðglaðir í land, berhentir en með kex, og það þótti alltaf góð hlutabót. Þeir frönsku þurftu því að jafnaði ekki að sigla milli margra báta til að fá afgreiðslu. Þess vegna var farið að veita siglingunni athygli, þegar svo skipið tók stefnu til lands. Beið heimafólk á Hrauni þess með eftirvæntingu, hvað skipið ætlaðist fyrir. En þegar svo að siglingin hvarf fyrir hamranefið, sem lengst skagar fram sunnan við Hraunssand, þar sem Dunkshellir er, var séð hvert stefndi.
Festarfjall – sjávarhellir.
Hafliði fékk orð fyrir að vera léttur á sér og fljótur á fæti allt fram á elliár, en það hafði hann sagt, að aldrei muni hann hafa verið fljótari uppá Hraunssand en í þetta skipti. En þótt hann væri fljótur, var skipið strandað og landsjórinn búinn að setja það þversum í fjöruna. Öllu verðmæti hafði verið bjargað úr skipi þessu og það svo liðast sundur þarna í fjörunni.
Magnús Hafliðason segir og, að Hraunssandur sé oft á mikilli hreyfingu, þannig að sjórinn hreinsi stundum allan sand af einum staðnum og flytji á annan, svo klappirnar verði berar, þar sem sandurinn hverfur. Í einu slíku umróti segir hann að gríðarstórt akkeri hafi sést í klöppunum, en sandurinn hafi hulið það svo fljótt aftur, en ekki hafi unnist tími til að ná því, svo að það týndist aftur. En akkeri þetta telur hann víst að sé af þessu franska skipi.”
„Festin“ í Festarfjalli neðst.
Í fjörunni vestan við Dunkshelli var dauðrekinn hvalur. Erfitt var að geta sér til um tegundina, en ólyktin gæti hafa sagt kunnugum eitthvað.
Myndanirnar í berginu og fjallinu eru tilkomumiklar; bólstarberg, setlög og þétt grágrýti í bland. Festarfjall dregur nafn sitt af grágrýtisganginum. Þessi gangur á að hafa verið gerður að silfurfesti tröllkerlingar í þjóðsögunni.
Austarlega í Grindavík, hér um bil miðja vegu milli bæjanna Hrauns og Ísólfsskála, er þverhnípt fell fram við sjóinn, sem heitir Festarfjall. Neðan undir felli þessu er hátt blágrýtisstandberg og ægisandur undir sem ganga má þurrum fótum með lágum sjó. Frá Hrauni blasir við í miðju berginu grá rák sem gengur þráðbeint upp í gegnum bergið og nefnist Festin.
Kristján Sæmundsson, jarðfræðingur, skoðar berggang undir Lyngfelli.
Sagan segir að rák þessi sé silfurfesti sem tröllkona ein hafi einhvern tíma í fyrndinni hengt fram af berginu með þeim ummælum að þá er dóttir bóndans á Hrauni, sú sem bæri nafn hennar, gengi þar neðan undir þá skyldi festin detta niður og verða eign stúlkunnar.
Því miður lét tröllkonan ekki nafns síns getið svo að ekki hefir verið auðvelt að láta heita eftir henni, enda hangir festin óhreyfð enn í dag.
Ofan við Hraunssandinn var á sjöunda og áttunda áratug tuttugustu aldar mikið malar- og sandnám (Ægissandur h/f). Enn má sjá þar ummerki eftir sílóin. Þaðan var vegur niður á Hraunssand, sem „peiloder“ var ekið um með aftanívagn. Hann var þannig gerður að hann gat mokað sandinum og mölinni upp í sig sjálfur. Óhemjumagn af efni var þannig fært upp úr fjörunni í námuna. Margir Grindjánar höfðu atvinnu af þessum malar- og sandflutningum, sem nú hafa lagst af.
Heimild um þjóðsöguna er í RAUÐSKINNU I 45 og grindavik.is.
Sjávarhellir í Festarfjalli.