Færslur

Efri-hellar

Gengið var frá Gerði eftir að stóttir gamla bæjarins höfðu verið skoðaðar sem og útihúsatóttir sunnan þeirra. Haldið var eftir Gerðisstíg til suðausturs að kanti Kapelluhrauns.

Efri-Hellar

Efri-Hellar.

Stígurinn hefur verið ruddur þar sem hann liggur inn í Selhraunið og áfram með hraunkantinum. Á leiðinni eru nokkur merki frá Byggðasafni Hafnarfjarðar er benda til fornminja. Má m.a. sjá marka fyrir fornri óskráðri tótt á einum stað.
Neðan við Þorbjarnarstaðar-Rauðamel er komið í Neðri-hella, gróið svæði ofan við hraunkantinn. Fyrst birtist hlaðið gerði við leiðina, en ofan þess til suðurs er fjárhellirinn. Þetta er rúmgóður skúti með hleðslum fyrir í grónu jarðfalli. Enn sunnar, ofan hæðar, er víð og gróin sprunga. Í og norðan við hana eru hleðslur svo og lokar há hleðsla sprungunni að suðaustanverðu. Hún hefur líklega verið notuð sem aðhald eða skjól fyrir fé. Ofan við sprunguna er staur í hleðslu. Þar eru landamerki Straums.
Í sjónlínu til austurs ber Vorréttin við kantinn á Kapelluhrauni. Þetta er vel hlaðin rétt. Gott skjól eru í hraunskútum innan hennar. Haldið var áfram upp stíginn með hraunkantinum.

Hrauntungur

Hrauntunguskjól.

Eftir góða stund er enn komið á gróið svæði. Í því er hlaðið framan við tvo langa skúta, sem í raun eru samtengdir. Þetta eru Efri-hellar, gamlir fjárhellar. Enn ofan eru Hrauntungurnar, innan við hraunkantinn. Tungurnar eru allsstórt gróið hraunssvæði, umlukið nýja hrauninu. Í þeim austanverðum er fallegur skúti, Hrauntunguhellrar, sem hlaðið er fyrir. Skútinn er í jarðfalli utan í hraunklettum og lokar hrísla opinu eftir að hún tekur að laufgast. Getur þá verið erfitt að finna það, auk þess sem hleðslurnar, sem eru allmiklar, falla vel að klettinum.

Hrauntungustígur

Hrauntungustígur.

Ef stígnum, sem komið hafði verið inn á og liggur inn í Hrauntungurnar, er fylgt áfram til norðausturs er komið inn á Hrauntungustíginn þar sem hann liggur út úr Tungunum og inn á hraunið. Stígurinn er nú orðinn stuttur þarna því búið er að ryðja svo til allt hraunið þarna fyrir austan og norðan. Þó má enn sjá móta fyrir Hrauntungustígnum beggja vegna Krýsuvíkurvegarins skammt norðvestan aðkeyrslu að námusvæðinu. Skammt vestan vegarins er varða og liggur Hrauntungustígurinn svo til við hana.
Hrauntungustígur er vel greinilegur frá Krýsuvíkurvegi að malargryfjunum. Sunnan þeirra sést hann vel ef rétt er að komið. Gaumgæfa þarf leiðina vel í gegnum Hrauntungarnar uns komið er í Brunntorfur. Í gegnum þar liggur stígurinn upp í Fornasel og þaðan áleiðis upp í hæðirnar fyrir austan Hafurbjarnarhæð, að Steininum og áfram að Sauðabrekkum, um Mosa og Hrúthólma inn á Ketilsstíg.
Frábært veður.

Vorréttin

Vorréttin.

Bekkjaskúti

Gengið var um Gerðisstíg, að Neðri-hellum, Vorréttinni og Efri-hellum og síðan yfir Seljahraun að klettasvæði sunnan línuvegarins. Hraunið á því svæði, þegar halla tekur til suðurs, er þarna mjög stórbrotið.

Rauðamelsrétt

Í Rauðamelsrétt.

Þá var vent til vesturs inn á Óttarsstaðaselsstíg (Rauðamelsstíg) (Skógargötu) og stefnan tekin til suðurs. Suðvestan af götunni, áleiðis upp í Óttarsstaðasel, í litlu jarðfalli, er Sveinshellir. Hleðslur eru við innganginn, en fyrir honum eru þéttar birkihríslur, sem fylla jarðfallið og loka hellinum svo til alveg. Óttastaðaselsstígurinn var genginn spölkorn til baka en síðan var beygt út af honum til norðausturs og haldið skáhallt yfir hraunið að línuveginum og yfir hraunkantinn norðan hans þar sem það er þrengst (örfáir metrar). Þaðan var greiður gangur niður að Alfaraleið. Við Þorbjarnastaði var litið á Kápuhelli og Gránuskúta, en fyrir honum eru svolitlar hleðslur.

Rauðamelsrétt

Rauðamelsrétt.

Við Neðri-hella er hlaðið gerði í hraunkantinum (Kapelluhraun). Hleðsla er innan við hraunkantinn og hlaðið er fyrir breiða sprungu, gróna í botninn sunnan við hellana. Fyrir meginhellinum er hleðsla.

Efri-Hellar

Efri-Hellar.

Þessir hellar hafa verið notaðir sem fjárskjól. Sama á við um Efri-hella, sem eru þarna skammt ofar, einnig á grónu svæði næri því utan í hraunkantinum. Falleg hleðsla er fyrir munnanum og einnig í jarðfalli skammt austar. Ofan við hellana gnæfir andlitslaga hraunklettur. Sagan segir að við Efri-hella geti verið mikill draugagangur á köflum, líkt og í Hrauntungum, sem eru þarna skammt ofar. Í þeim er einnig hlaðið fyrir fjárskjól, auk fleiri minja.

Vorréttin er undir Kaplahrauni, fallega hlaðinn. Frá henni er greiður gangur út af Gerðisstígnum upp að Kolbeinshæðaskjóli, enn einu fjárskjólinu á svæðinu.
Að þessu sinni var strikið hins vegar tekið yfir Selhraunið, þvert á Straumsselsstíginn og yfir á Óttarstaðaselstíg (Rauðamelsstíg/Skógargötu) og að Bekkjaskúta. Hann er þar uppi í stóru jarðfalli, einnig fallega hlaðið fyrir.

Sveinsskúti

Sveinsskúti.

Austar er Sveinsskúti, en á milli skútanna er hlaðið lítið byrgi, skjól fyrir einn mann. Annars er hraunið þarna einstaklega fallegt, einkum að haustlagi. Ofar er Óttarstaðaselið með Norðurskúta, Tóhólaskúta, Rauðhólsskúta, Nátthaga, stekk, vatnsstæði og öðrum mannvirkjum er prýtt getur eitt sel. Þá er hægt að fylgja Skógargötunni áfram upp í Skógarnef og áfram upp Mosana áleiðis að Trölladyngjusvæðinu.

Þorbjarnastaðir

Þorbjarnastaðir – tilgáta ÓSÁ.

Gengið var í rólegheitum í gegnum hraunið niður að Þorbjarnarstöðum og kíkt á nafngreinda skúta þar. Þorbjarnastöðum tilheyra mörg mannvirki í Hraununum, s.s. Þorbjarnastaðaborgin, líklega Fornasel í Almenningum og jafnvel Gjáselið, fjárhellir ofan við Brunntorfur, heimaréttin og Þorbjarnastaðréttinn suðaustan við bæinn, svo eitthvað sé nefnt. Allt er þetta innan seilingar fyrir þá, sem vilja og nenna að hreyfa sig svollítið í sagnaríku og fallegu umhverfi.
Veður var bjart, stillt og hlýtt. Gangan tók 2 klst og 22 mín.

Vorrétt

Vorréttin.

Þorbjarnastaðarauðimelur

Gengið var frá gamla Keflavíkurveginum ofan við Straum að Þorbjarnarstöðum. Gamall vegur liggur frá Keflavíkurveginum að þessum gamla bæ í Hraunum.

Keflavíkurvegur

Hleðslur við gamla Suðurnesjaveginn gegnt Gerði.

Þar sem Keflavíkurvegurinn kemur niður og yfir tjarnirnar ofan við Straumsvík (gegnt Gerði) má enn sjá minjar hinnar fyrstu vegagerðar sjálfrennireiðarinnnar er tengdi saman byggðalög hér á landi. Einnig má sjá veglegar veghleðslur yfir gjár og jarðföll í gegnum hraunið vestan við Rauðamel, en eftir það má segja að hið gamla handbragð hinna gömlu vegargerðarmanna á Keflavíkurveginum hverfi. Þetta er því dýrmætur vegspotti þegar horft er til verndunar þessara tegunda minja.

Þorbjarnastaðastekkur

Þorbjarnastaðastekkur – uppdráttur ÓSÁ.

Þeir eða þau okkar, sem fyrir alvöru spá og spegulera í gömlum minjum, spyrja sig iðurlega spurninga s.s.: a) hvað eru raunverulegar fornminjar?, b) fyrir hverja eru fornminjarnar? og c) hverjir eiga forminjarnar? Segja má að fornminjar séu áþreifnanleg mannanna verk er tengja okkur nútímafólkið við fortíðina, þ.e. forfeður okkar. Þess vegna eru fornminjarnar fyrir okkur, afkomendur þessa fólks. Og það erum við, sem eigum fornminjarnar. Þær eru okkar verðmætu tengsl við fortíðina. Sú staðreynd að framtíðin byggist á fortíðinni gera minjarnar ómetanlegar nútíðinni.

Þorbjarnastaðir

Brunnstígurinn við Þorbjarnastaði.

Gengið var um þvottastíginn að tóttum Þorbjarnastaða (fóru í eyði um 1939). Tóftir Þorbjarnastaða eru ekki einungis meðal verðmæta vegna þess að þær eru einu ummerkin eftir hinn dæmigerða íslenska torfbæ, heldur og vegna þess að þær segja sögu þess fólks, sem þar lifði og bjó. Tóftirnar eru einnig, því miður, ágætt dæmi um þörfina á auknum áhuga og dug fulltrúa fólksins í bænum um gildi og nýtingu fornminja. Nóg um það í bili.

Gengið var frá heimaréttinni, framhjá bæjarstæðinu, hinum dæmigerða íslenska torfbæ með burstum mót suðvestri og matjurtargarði framan við, yfir heimatúnsgarðhleðslurnar og yfir Alfaraleiðina og að Þorbjarnastaðaréttinni, stundum nefnd stekkurinn, undir hraunhól nokkru sunnan við bæinn, austan Miðdegishóls, eyktarmarks frá bænum. Um er að ræða stóra hlaðna rúningsrétt. Í henni er heilleg lambakró, sem bendir til þess að hún hafi verið notuð sem stekkur.

Þorbjarnastaðir

Þvottarbrú og brunnur við Þorbjarnastaði.

Alfaraleiðinni var fylgt spölkorn til norðurs, að Gerði. Gengið var ofan við tjarnirnar. Þar sjást mannvistarleifar, s.s. hlaðin bryggja til ullar og fatalafraþvotta. Vatn leysir þar undan hrauninu. Frá tóftum bæjarins var sveigt til vinstri þar til komið er á Gerðisstíg, sem er merktur með lágum stikum. Stígurinn liggur um Hólaskarð milli Hólanna, sem eru á hægri hönd, og lágrar hraunhæðar á vinstri hönd með strýtumyndaðri vörðu. Leiðin liggur um Stekkjatúnið í áttina að Seljahrauni. Þar breytir stígurinn um nafn og nefnist Seljahraunsstígur þar sem hann liggur í gegnum þunna, illfæra hraunspýju sem hefur tafið för manna og búfjár áður en slóðin var rudd í gegnum hrauntunguna. Gengið er samsíða vestari brún Kapelluhrauns í áttina að línuveginum og farið yfir hann í áttina að Rauðamelsklettum.

Efri-Hellar

Efri-Hellar; hraunkarl.

Gengið er framhjá Neðri-Hellum, ágætum fjárskjólum með hleðslum fyrir. Handan þeirra er námasvæði þar sem Þorbjarnarstaðarauðamelur stóð áður fyrr. Nú er ekkert sem minnir á Rauðamelshóla eins og þetta kennileiti var stundum nefnt. Náman er sem flakandi sár í landinu og umgengnin engum til sóma.

Stígurinn liggur áfram til suðausturs í áttina að Rauðamelsrétt. Auðveldast er einfaldast að taka stefnuna á hús Skotveiðifélags Hafnarfjarðar sem stendur á brún Kapelluhrauns, sem kallast reyndar Bruninn þegar hingað er komið. Vestan hússins gengur lítill hraunrani fram úr Brunanum út á Flárnar. Í þröngum krika norðan ranans stendur lítil fallega hlaðin rétt úr hraungrjóti.

Hrauntunguskjól

Hrauntunguskjól.

Brún Kapelluhrauns var fylgt til suðurs uns komið var að Efri-hellum, gamlir fjárhellar. Við hraunina gnæfir hraundrangur í mannsmynd. Hann minnir á að við hellana hefur löngum þótt reimt. Enn ofan eru Hrauntungurnar, innan við hraunkantinn. Þar hefur einnig þótt reimt, einkum fyrrum. Tungurnar eru allsstórt gróið hraunssvæði, umlukið nýja hrauninu. Í þeim austanverðum er fallegur skúti, sem hlaðið er fyrir. Skútinn er í jarðfalli utan í hraunklettum og lokar hrísla opinu eftir að hún tekur að laufgast. Getur þá verið erfitt að finna það, auk þess sem hleðslurnar, sem eru allmiklar, falla vel að klettinum.

Þorbjarnastaðastekkur

Þorbjarnastaðastekkur – uppdráttur ÓSÁ.

Ef stígnum, sem komið hafði verið inn á og liggur inn í Hrauntungurnar, er fylgt áfram til norðausturs er komið inn á Hrauntungustíginn þar sem hann liggur út úr Tungunum og inn á hraunið. Stígurinn er nú orðinn stuttur þarna því búið er að ryðja svo til allt hraunið þarna fyrir austan og norðan. Þó má enn sjá móta fyrir Hrauntungustígnum beggja vegna Krýsuvíkurvegarins skammt norðvestan aðkeyrslu að námusvæðinu. Skammt vestan vegarins er varða og liggur Hrauntungustígurinn svo til við hana.
Gengið var til vesturs frá hliði við Krýsuvíkurveg að skógræktarsvæði SR skammt sunnan við rallykrossbrautina. Eftir u.þ.b. 10 mín. göngu eftir ruddri braut var beygt til suðurs inn á rudda braut áleiðis að Brunntorfum. Hægra megin við enda hennar, á mosahraunkantinum, er Þorbjarnarstaðafjárborgin, hlaðin af börnum Þorbjarnarstaðahjóna um aldamótin 1900. Með borginni að utanverðu liggja steinar sem og í hrúgum allt í kring. Hana hefur greinilega átt að hlaða hærra en þegar skilið var við hana fyrir rúmlega einni öld.

Vorrétt

Vorréttin.