Í Fréttablaðiðinu 31. júlí 2018 er stutt umfjöllun um komu Friðrik VIII, Danakonungs, til landsins árið 1907:
„Friðrik áttundi Danakonungur gekk á land í Reykjavík þann 30. júlí 1907. Nákvæmlega 33 árum áður hafði faðir hans, Kristján níundi, sótt Ísland heim fyrstur ríkjandi Danakonunga þegar hann færði Íslendingum stjórnarskrá.
Konungskomuna 1907 má rekja til þess að árið áður hafði öllum alþingismönnum verið boðið til Danmerkur og vildu þeir endurgjalda gestrisnina með því að bjóða konungi og nokkrum fjölda danskra þingmanna til Íslands.
Heimsóknin vakti gríðarlega athygli og segir í samtíma frásögnum að aldrei fyrr hafi Reykjavík verið jafn fánum skrýdd og aldrei jafn mikil viðhöfn sést.
Konungur og föruneyti hans heimsóttu meðal annars Þingvelli, Gullfoss og Geysi. Á heimleiðinni hafði konungur svo viðkomu á Ísafirði, Akureyri og í Seyðisfirði.
Ákveðið var að ráðast í miklar vegaframkvæmdir fyrir konungskomuna og var kostnaður vegna þeirra um 14 prósent af útgjöldum ríkissjóðs það árið.“!
Í riti, útg. árið 2007, sem ber fyrirsögnina; „Aukinn skilning mun hún færa oss, þessi Íslandsferð“ – Heimsókn Friðriks VIII Danakoungs til Íslands 1907, í tilefni að öld var liðin frá komu hans til Íslands, fjallar Emelía Sigmarsdóttir um aðdraganda og annað henni tengdri. Þar segir m.a.:
„Leiðin lá upp hjá Rauðavatni og Geithálsi og síðan Hafravatnsveg í Djúpadal á Mosfellsheiði en þar byrjaði hinn eiginlegi Þingvallavegur. Ýmsar vegabætur höfðu farið fram á fyrirhugaðri leið konungs. Lagður hafði verið vagnfær vegur til Þingvalla og þaðan austur að Geysi og áfram í Þjórsártún. Menn höfðu búist við að konungur myndi ferðast um í vagni en hann vildi miklu frekar fara ríðandi á hestbaki. Friðriki VIII voru ætlaðir fjórir hvítir gæðingar, honum líkaði vel við tvo þeirra og reið þeim til skiptis. Við hlið hans var Hannes Hafstein, oftast á rauðskjóttum hesti sínum, Glæsi…
…Mánudagskvöldið 5. ágúst komu konungur og fylgdarlið að Þjórsárbrú. Þar stóð stór tjaldborg en fjöldi bænda hafði stefnt þangað á konungsfund.
Þegar lagt var stað til Reykjavíkur eftir hádegi 6. ágúst riðu konungur og Hannes Hafstein í fararbroddi hlið við hlið. Þegar fylkingar fóru yfir hengibrúna á Þjórsá þurfti að gæta varúðar en svo hleyptu menn á sprett eftir rennisléttum þjóðvegi sem lá beint í vestur í áttina til Reykjavíkur. Stefnan var tekin á Ingólfsfjall. Eftir tveggja stunda ferð kom konungsfylgdin að brúnni á Ölfusá við Selfoss. Gist var á bökkum Ölfusár við Arnarbæli.
Daginn eftir var lagt á Hellisheiði. Áð var á Kolviðarhóli en frá honum til Reykjavíkur er fimm klukkustunda reið. Á Kolviðarhóli hélt Friðrik VIII ræðu þar sem hann sagði meðal annars: „Látum þessa ferð tengja fast band milli hinnar íslenzku og hinnar dönsku þjóðar og mín! Markmið mitt er sannleikur og réttlæti báðum ríkjum mínum til handa.“ Orð konungs um „bæði ríkin sín“ vöktu mikla athygli meðal Dana og Íslendinga. Eftir heimkomuna til Danmerkur tók forsætisráðherra málið upp og hótaði að fara frá völdum nema konungur ómerkti orð sín. Konungur varð við því og sagðist hafa mismælt sig, hann hafi ætlað að segja „bæði löndin mín“.
Vegagerð við erfiðar aðstæður
Þegar ákveðið var að konungur myndi leggja land undir fót í Íslandsheimsókn sinni 1907 var ljóst að gera þyrfti stórátak í vegamálum landsins. Hluti leiðarinnar sem fyrirhugað var að fara var ekkert nema þröngar og ógreiðfærar reiðgötur. Ýmsar vegabætur þurftu því að fara fram. Vegagerðin fyrir konungskomuna var mikið framtak því ekki var hægt að notast við annað en handaflið. Skóflur og hakar voru helstu verkfærin sem notuð voru til að ryðja leið gegnum hraun og kjarrlendi. Kostnaður vegna vegagerðarinnar var um 14% af ársútgjöldum ríkissjóðs.
Sigurður Kristmann Pálsson var einn af vegagerðarmönnunum. Hann fæddist 13. febrúar 1886 og lést 6. janúar 1950. Hann lét eftir sig handrit þar sem hann lýsir vegagerðinni. Hér á eftir eru birt brot úr því með góðfúslegu leyfi ættingja Sigurðar.
Vorið 1907 réði eg mig til vegagjörðarvinnu í Þingvallahrauni; hugði eg gott til fararinnar á margan hátt; einkum þráði eg að kynnast betur hinum forna sögustað landsins.
Þar vissi eg og að andrúmsloftið var óspilt af kolareyk og hlandforarólyfjan, eins og nú tíðkast það í höfuðstað vorum, og þótt þessi daunillu efni séu blönduð öðrum ilmríkari efnum, er gjöra bæjarlífið svo aðlaðandi fyrir þorra manna, þá bætir það lítið úr skák.
Þá þótti mér verkið og göfugs eðlis, þareð það var hvorki meira né minna en greiða götu konungs vors, er þetta sumar skyldi heimsækja landið; og þótt hann hafi ekki, það eg til veit, greitt götu mína í lífsbaráttunni, að neinu leyti, enn sem komið er þá fann eg þó skyldu mína í þessu efni sem aðrir góðir menn er götu hans greiddu að einhverju leyti.
Sögukorn þetta mun ekki verða auðugt af stórhrikalegum viðburðum, en það fylgir jafnan þeim sögum er sannar eru.
Um 6 tugir manna voru í Þingvallahrauni, þá er flestir voru. Var þeim skift í flokka, og hafði hver flokkur sína búð. Eigi voru jafnmargir í flokki. Voru flestir 7 en fæstir 3. Als voru þar 9 búðir, auk einnar er geymd voru í vopn og annar útbúnaður, er þurfti til að ryðja úr vegi björgum og blágrýti, og öðru illþýði, er þar var nóg af.
Yfir hvern flokk var settur foringi eða flokkstjóri. Hann skyldi stjórna atlögum öllum úr sínum flokki; svo og hrópa heróp manna, en það var það sama yfir allan herinn, og var: „Klukkan.“
Guðjón Bachmann … var til þess kjörinn af aðalhöfðingja verklegra framkvæmda í landssjóðsþarfir, Jóni Þorlákssyni, að mæla veginn frá Þingvöllum að Brúarhlöðum við Hvítá. Þar að auki skyldi hann setja upp steina við hverja 5 kílómetra (kílómetrasteina). Sér til aðstoðar þurfti hann einn mann. Var af hans hendi útvalinn Sigurður Pálsson, skýjaglópurinn, sem fyr var nefndur og höfundur sögu þessarar. …
Þegar að Hrafnagjá var komið byrjaði mælingin, og fórum við þá með sæmilegum hraða yfir landið; sem ég skal nú skýra betur.
Annar okkar sté nú af baki, en hinn tók við reiðhesti hans og klyfjahestinum. Þarnæst tók sá fyrrnefndi mælistikuna í hönd sér og tók að mæla. Mælistikan var þannig útbúin: að skeyttar voru saman tvær grannar tréálmur þannig að bilið á milli þeirra neðst var 2 metrar. Mjókkaði það stöðugt er ofar dró, þar til það hvarf í odda þeim er þær voru skeyttar saman í. Uppaf samskeytunum var sívöl spýta eða handfang.
Var nú stikunni snúið í hendi sér, líkt og þegar hringmáli er snúið (cirkli). Taldi sá er gekk metrana, þar til komnir voru 50. Lét hann þá uppi töluna við þann er á eftir var með hestana, og færði hann hana samstundis í bók er hann hélt á. Hann varð því ávalt að vera á hælum þess er mældi, en aldrei fara á undan.
Er nú auðskilið að hægt hefir verið farið, og að vinnan var fremur hæg fyrir þann er sat, og hestana. Hvarflaði þá oft hugur minn til félaganna í Þingvallarhrauni, er nú urðu að þola hinn brennandi sólarhita við erfiða vinnu, en ég gat notið góðviðrisins á hinn þægilegasta hátt.“
Í Morgunblaðiðinu 4. ágúst 2007 segir frá konungsheimsókninni:
Frá Reykjavík til Þingvalla
„Miðað við þau frumstæðu skilyrði til ferðalaga sem voru á Íslandi á þessum tíma var enginn hægðarleikur að skipuleggja vikulanga ferð um 200 manna riddaraliðs með konung í fararbroddi. Það þurfti að útvega nokkur hundruð hesta til að flytja menn og farangur. Einnig kerrur fyrir tjöld og matföng, hnakka, klyfsöðla, beisli og ferðakoffort. Það voru Axel Tulinius, sýslumaður Suður-Múlasýslu, og móttökunefndin sem sáu að mestu um undirbúning ferðarinnar. Leiðsögumenn voru meðal annars þeir Guðmundur Björnsson landlæknir og Jón Magnússon, síðar forsætisráðherra.
Árla morguns fimmtudaginn 1. ágúst var lagt af stað. Konungur og Haraldur prins stigu á bak reiðskjótum sínum við latínuskólann. Konungur klæddist bláum búningi sjóliðsforingja, bar derhúfu á höfði og gekk í hnéháum reiðstígvélum. Á meðan gerðu ríkisþingmenn sig ferðbúna fyrir framan Hótel Reykjavík. Sérhver þeirra hafði fengið að gjöf frá alþingi svipu og ferðabikar til að hafa í ól um axlir. Ýmsir hinna eldri meðal þingmanna fengu sæti á léttivögnum á tveimur hjólum.
Það voru ekki bara konungur og ríkisþingmenn og föruneyti þeirra sem lögðu af stað til Þingvalla þennan fimmtudagsmorgun, stór hluti bæjarbúa hugsaði sér til hreyfings. Þegar konungur reið um götur bæjarins í austurátt fylgdi í kjölfarið 3-4 þúsund manna hópur ásamt hestum, kerrum og trússi. Víða á leiðinni til Þingvalla slógust ríðandi hópar bænda með í konungsfylgdina. Á hinn forna þingstað hafði aldrei haldið jafnstór fylking síðan á söguöld.
Leiðin lá upp hjá Rauðavatni og Geithálsi og síðan Hafravatnsveg í Djúpadal á Mosfellsheiði en þar byrjaði hinn eiginlegi Þingvallavegur. Ýmsar vegabætur höfðu farið fram á fyrirhugaðri leið konungs. Lagður hafði verið vagnfær vegur til Þingvalla og þaðan austur að Geysi og áfram í Þjórsártún. Menn höfðu búist við að konungur myndi ferðast um í vagni en hann vildi miklu frekar fara ríðandi á hestbaki. Friðriki VIII. voru ætlaðir fjórir hvítir gæðingar, honum líkaði vel við tvo þeirra og reið þeim til skiptis. Við hlið hans var Hannes Hafstein, oftast á rauðskjóttum hesti sínum, Glæsi.
Þjóðhátíð á Þingvöllum
Eftir átta stunda ferðalag um sjöleytið hinn 1. ágúst kom konungsfylgdin til Þingvalla sem skörtuðu sínu fegursta. Þegar konungur reið niður Almannagjá höfðu fylkingar Dana og Íslendinga skipað sér í óslitna röð hægra megin vegarins. Síðan kallaði mannfjöldinn: „Lengi lifi konungur vor, Friðrik hinn áttundi!“ Og á eftir fylgdi nífalt húrra.
Á Þingvöllum voru risnar tjaldborgir, við Valhöll mátti sjá stór tjöld til borðhalds og vistar fyrir marga tugi gesta en þar norður af voru tíu tjöld alveg eins í laginu og voru þau ætluð fyrir fólk úr fylgdarliði konungs. Þá var búið að reisa tvö timburhús, annað mun minna. Litla timburhúsið var konungsskáli, íbúðarhús konungs, en það stærra gildaskáli sem nota átti til veisluhalda og sem næturstað fyrir ríkisþingmenn og nánasta föruneyti konungs.
Næsta morgun var farið að rigna en það aftraði konungi ekki frá því að ganga um Þingvelli í fylgd Björns M. Ólsens prófessors sem fræddi gestina um sögu staðarins.
Að loknum hádegisverði var blásið til mannsafnaðar. Þá átti þingheimur, hátt á sjötta þúsund manns, að raða sér í eina fylkingu og fara í Lögbergsgöngu í upphafi þjóðhátíðarhalda. Þegar konungur kom á Lögberg hófst þjóðhátíðin með ræðum og söng. Upphaf máls frá Lögbergi á þessari hátíðarstundu var konungsminni Hannesar Hafsteins. Síðan flutti konungur ræðu. Á milli ræðuhalda söng kór ný kvæði eftir Matthías Jochumsson og Steingrím Thorsteinsson. Kappglíma helstu glímumanna landsins þótti hinum erlendu gestum afar skemmtilegt innskot í hátíðahöldin. Um kvöldið var hátíðarverður í gildaskálanum. Fyrir miðju borði sat konungur í hásæti og hafði hann J.C. Christensen forsætisráðherra sér til hægri handar en Hannes Hafstein til vinstri. Ragnheiður Stefánsdóttir Hafstein var eina konan sem sat veisluna.
Snemma morguns 3. ágúst lagði konungsfylgdin, um tvö hundruð ríðandi menn, af stað frá Þingvöllum. Fjöldi lausra hesta fór á eftir hópnum enda þurfti oft að skipta um á langri leið. Tvær konur voru með í för, það voru Ragnheiður Hafstein og ung dóttir Klemensar Jónssonar landritara. Farangur hafði farið á undan um nóttina ásamt matarbirgðum.
Það voru fleiri sem byrjuðu þennan morgun á því að tygja sig til brottferðar. Mannfjöldinn mikli sem sótti þjóðhátíðina á Þingvöllum hélt heim á leið til Reykjavíkur, ýmist fótgangandi eða á hestbaki. Nokkrir dönsku gestanna, sem treystu sér ekki til að sitja á hestbaki næstu daga, slógust í för með honum suður.
Konungsfylgdin reið um Skógarkotsveg og Gjábakkastíg. Áð var á Laugarvatnsvöllum undir Kálfstindum.
Við Geysi í Haukadal hafði stór skáli verið reistur handa ríkisþingmönnum inni á miðju hverasvæðinu. Aðeins ofar bjuggu konungur og Haraldur prins í minna húsi. Stórt tjald fyrir veisluhöld var á flötinni hjá Geysi, ekki langt frá sjálfum skálarbarminum.
Daginn eftir, eða 4. ágúst, gaus Geysir loks fyrir konung eftir að hundrað pund af Marseille-sápu höfðu verið sett í hann og þótti hinum erlendu gestum það tignarleg sjón. Eftir gosið flutti Þorvaldur Thoroddsen fyrirlestur um hin ýmsu náttúruundur Íslands.
Klukkan eitt þennan sama dag var blásið til brottferðar að Gullfossi og haldið af stað á góðum spretti. Eftir rúma klukkustundarferð kom konungsfylgdin að fossinum enda stutt leið frá Geysi að Gullfossi. Vegurinn að fossinum var aðeins mjóir troðningar eftir hesta og farið var yfir Tungufljót á bráðabirgðabrú.
Eftir að hafa skoðað Gullfoss lá leiðin aftur að Geysi. Þar áttu menn að hvíla sig vel áður en lagt væri í langt ferðalag næsta dag suður á bóginn að Þjórsárbrú.
Búfjársýning við Þjórsárbrú
Þegar konungur var að kveðja hverasvæðið að morgni 5. ágúst gaus Strokkur skyndilega eftir 11 ára dvala og þóttu mönnum það mjög merkileg tíðindi.
Leiðin lá yfir nýja brú á Hvítá og eftir eystri bakka árinnar um nýruddan veg meðfram hæðadrögum. Frá Geysi að Þjórsárbrú átti að fara á einum degi, lengsta áfanga ferðalagsins. Frá Þjórsárbrú liggur síðan þjóðbraut vestur til Reykjavíkur en þá leið skyldi konungsfylgdin fara síðasta dag ferðarinnar.
Á leiðinni átti að skoða sveitabæi og kynnast búskaparháttum bænda við akuryrkju og kvikfjárrækt á einu mesta landbúnaðarsvæði Íslands. Bærinn Skipholt var meðal annars skoðaður en hann var nýtísku sveitabær með reisulegum timburhúsum. Heldur þótti hinum erlendu ferðamönnum íslenskur landbúnaður skammt á veg kominn. Sömuleiðis þótti sérstakt í meira lagi að plógar, herfi, rakstrarvélar og önnur álíka hjálpartæki voru óþekkt hugtök í kolli ýmissa bænda.
Mánudagskvöldið 5. ágúst komu konungur og fylgdarlið að Þjórsárbrú. Þar stóð stór tjaldborg en fjöldi bænda hafði stefnt þangað á konungsfund og jafnframt til að skoða búfjársýningu sem halda átti næsta dag. Á sýningunni fékk konungur að skoða sauðfé, nautpening og hesta auk þess sem íslensk smjörframleiðsla var kynnt fyrir honum.
Þegar lagt var stað til Reykjavíkur eftir hádegi 6. ágúst riðu konungur og Hannes Hafstein í fararbroddi hlið við hlið. Þegar fylkingar fóru yfir hengibrúna á Þjórsá þurfti að gæta varúðar en svo hleyptu menn á sprett eftir rennisléttum þjóðvegi sem lá beint í vestur í áttina til Reykjavíkur. Stefnan var tekin á Ingólfsfjall. Eftir tveggja stunda ferð kom konungsfylgdin að brúnni á Ölfusá við Selfoss. Gist var á bökkum Ölfusár við Arnarbæli.
Daginn eftir var lagt á Hellisheiði. Áð var á Kolviðarhóli en frá honum til Reykjavíkur er fimm klukkustunda reið. Á Kolviðarhóli hélt Friðrik VIII. ræðu þar sem hann sagði meðal annars: „Látum þessa ferð tengja fast band milli hinnar íslenzku og hinnar dönsku þjóðar og mín! Markmið mitt er sannleikur og réttlæti báðum ríkjum mínum til handa.“ Orð konungs um „bæði ríkin sín“ vöktu mikla athygli meðal Dana og Íslendinga. Eftir heimkomuna til Danmerkur tók forsætisráðherra málið upp og hótaði að fara frá völdum nema konungur ómerkti orð sín. Konungur varð við því og sagðist hafa mismælt sig, hann hafi ætlað að segja „bæði löndin mín“.
Aftur í Reykjavík
Reykvíkingar tóku vel á móti konungi og föruneyti hans þegar hann kom aftur til bæjarins miðvikudaginn 7. ágúst eftir viku ferðalag um landið. Sægur karla og kvenna á hestbaki slóst í för með konungsfylgdinni síðasta spölinn. Það má segja að ferðamennirnir hafi litið út eins og flakkaralýður því sumir þeirra voru að nokkru leyti óþekkjanlegir af völdum ryks og óhreininda eftir langa reið.
Daginn eftir komuna til Reykjavíkur fór konungur í skoðunarferð í dómkirkjuna, ýmsa spítala bæjarins og hegningarhúsið. Á síðastnefnda staðnum náðaði hann unga stúlku, Jónu Ágústu Jónsdóttur, sem hafði fyrirfarið barni sínu og átti að fara að afplána 4 ára betrunarvist. Að lokum var farið í heimsókn til elsta íbúa Reykjavíkur, Páls Melsteð, 95 ára að aldri. Gladdi þessi virðingarvottur gamla manninn svo mjög að hann kyssti hönd konungs hvað eftir annað.
Loks rann upp síðasti dagur Reykjavíkurdvalar konungs, föstudagurinn 9. ágúst. Í síðasta veislufagnaðinum áður en Friðrik VIII. yfirgaf bæinn hélt hann ræðu þar sem hann bað viðstadda að minnast þingmannafararinnar árið áður. Með henni hefðu myndast meiri tengsl milli Íslendinga og Dana en mörg undanfarin ár hefðu megnað að skapa. Konungur sagði einnig:
Að svo tókst til um betri kynni, þakka ég þremur merkisatburðum, en það eru alþingismannaförin til Danmerkur, lagning sæsímans til Seyðisfjarðar og loks heimsókn ríkisþingmanna og mín til Íslands nú í ár. Það er von mín innileg, að þessir samfundir efli möguleika á samstarfi í sambandslaganefndinni, sem sett var á laggirnar til að ryðja úr vegi hugsanlegum misskilningi og búa í haginn fyrir framtíðina. Megi störf sambandslaganefndarinnar verða mínu ástkæra Íslandi og ríkisheildinni til blessunar. Ísland lifi!“
Gísli Sigurðsson skrifaði um Konungsveginn í Lesbók Morgunblaðsins 1978:
„Konungsvegurinn var lagður frá Þingvöllum að Geysi og Gullfossi og þótti merk framkvæmd og afrek til samgöngubóta fyrir 70 árum. Nú sést næsta lítið eftir af þessum minjum um hestvagnaöldina utan grónir troðningar, sem jafnvel kúasmalar nota ekki lengur.
Fyrst var hann konungsvegur, síðan vagnvegur og reiðvegur; loks voru það einkum kýrnar, sem gert höfðu götur i hjólförunum og mjökuðust þar hátiðlega á leið heim í mjaltir. Síðan komu til sögunnar jarðýtur og þurrkuðu burtu ásýnd hans af landinu, þegar nýr vegur var lagður. Eftir eru aðeins meira og minna uppgrónir götuslóðar, sem hægt er að fylgja austast úr Laugardal, upp með Hlíðum að Geysi.
Þegar hans hátign, Friðrik konungur áttundi, af guðs náð konungur Íslands og Danmerkur, efndi til Íslandsfarar sumarið 1907, var honum tekið með kostum og kynjum og þótti sjálfsagt að konungurinn og fylgdarlið hans riði með pomp og pragt austur að Geysi og Gullfossi. Þá var upp runnin hestvagnaöld á Íslandi; merkilegur millikafli í samgöngumálum og átti eftir að standa allt til síðari stríðsáranna eftir 1940. En menn voru þess vanbúnir að taka við hestvagninum. Aðeins voru þá reiðgötur fyrir. Hér varð að vinna stórvirki með skólfum og hökum. Þegar hér var komið sögu, þótti ekki vagnfært frá Þingvöllum austur að Geysi og var nú ráðizt í að ryðja þá braut með handafli, sem lengi síðan var kölluð einu nafni Konungsvegurinn. Þeir menn eru trúlega allir komnir undir græna torfu, sem svitnuðu við skófluna og hakann í þessari vegargerð og voru orðnir verkfærir menn árið 1907. Aðeins einn maður austur í sveitum gat komið til greina: Kristján Loftsson á Felli, sem er liðlega níræður og manna elztur í Biskupstungum. Þó hann ætti um tíma heima í Haukadal, hafði hann ekki unnið við gerð Konungsvegarins, en Helgi Ágústsson frá Birtingaholti, sem lézt nú í vetur, kvaðst ungur að árum hafa verið lánaður austan úr Hrepp að vinna í veginum. Þar var unninn langur vinnudagur, sagði Helgi, enda voru menn því vanastir á þeim árum að vinna myrkranna á milli og þótti ekkert sérstakt við það.
Meðal fárra núlifandi manna, sem vel muna eftir konungskomunni 1907, er Sigurður Greipsson, fyrrum glímukóngur og skólastjóri í Haukadal. Hann varð áttræður á síðasta ári, — og þó ungur væri árið 1907, hafði hann veður af tilurð Konungsvegarins og hann fylgdist gerla með þeim undirbúningi, sem fram fór við Geysi. Guðjón Helgason í Laxnesi, faðir Halldórs Laxness, var þá vegavinnuverkstjóri á Þingvallaveginum og Sigurður minnist þess, að hann kom austur að Haukadal, gisti þar og átti lengi tal við Greip bónda. Telur Sigurður, að Guðjón í Laxnesi hafi verið verkstjóri við gerð Konungsvegarins. Nokkru áður, annaðhvort 1901 eða 1902 var byggð timburbrúin á Brúará, þar sem steinboginn hafði áður staðið og brytinn í Skálholti lét fella eftir sögn. Áður hafði aðeins verið brúarfleki yfir gjána, sem skerst inn í fossinn ofan við brúna og þótti erlendum ferðamönnum eftirminnilegt að fara þar yfir. En gamla brúin, sem löngum er nefnd svo, stendur enn og er hluti Konungsvegarins.
Önnur brúargerð var nauðsynleg til þess að konungur kæmist án mannrauna að Gullfossi. Leiðin liggur yfir Tungufljót austan við Haukadal og fljótið er ekki árennilegt þar. Guðmundur Einarsson múrari úr Reykjavík var fenginn til að hlaða stöpla úr tilhöggnu grjóti og síðan komið upp timburbrú sumarið 1907. Hún stóð til 1929, að jökulhlaup í fljótinu varð henni ofraun. Skammt frá brúarstaðnum stendur enn steinn, sem þá var reistur og á hann letrað 105 km. Þess konar steinar voru víðar meðfram Konungsveginum og talan sýndi vegalengdina úr Reykjavík. Sigurður Greipsson telur, að Guðjón í Laxnesi hafi mælt leiðina og látið setja upp steinana.
Þó ekki komi það Konungsveginum beinlínis við, að var ráðizt á þá framkvæmd sumarið 1907 að reisa tvö hús á hverasvæðinu við Geysi. Var það annarsvegar stór skáli handa dönsku ríkisþingmönnunum og hins vegar hús handa konungi. Þingmannaskálinn var rifinn og seldur á uppboði haustið eftir, en Konungshúsið stóð lengi; var notað til greiðasölu á sumrin, en flutt að Laugarási sem læknisbústaður 1923.
Verkstjóri og yfirsmiður við þessar húsbyggingar hjá Geysi, var Bjarni Jónsson úr Reykjavík og er Bjarnaborgin við hann kennd. Bjarni gegndi líka því hlutverki að vera einskonar siðameistari á staðnum; hann undirbjó heimafólk undir þann vanda að heilsa konungi þegar hann riði í hlað og kveðst Sigurður Greipsson hafa skemmt sér vel við þá tilburði. Og um vegagerðina segir hann: „Sjálfur var ég lítill karl, en tíndi þó nokkra steina úr götunni frá Múla að Geysi“. Það var nefnilega búizt við því, að konungur kysi sér fremur þau þægindi að sitja í kerru en ferðast ríðandi. Raunar voru margir hinna erlendu gesta alsendis óvanir því að ferðast ríðandi um langa vegu. Því var það að nokkrar sérsmiðaðar kerrur voru fluttar inn frá Englandi til þessara nota; þar á meðal var sérstakur vagn handa konungi. Þaulvanur ökumaður, Guðmundur Hávarðsson, sem bjó í Norðurpólnum í Reykjavík, hafði verið valinn ökumaður konungs og hefur vafalaust þótt töluverð upphefð. En svo fór, að konungur steig aldrei upp í vagninn; hann fékk úrvals reiðhesta og kaus að ferðast ríðandi. Um þetta var kveðið:
Gvendur með kóngsvagninn setti undan sól
á svipstundu komst hann langt út fyrir Pól,
en hann var nú banginn og helzt útaf því
að hátignin fannst hvergi vagninum í.
Hestar til fararinnar komu víðsvegar að af landinu, en kerrurnar voru hafðar með í förinni, ef óhapp bæri að höndum. Allt gekk þó slysalaust. Stöku sinnum duttu hestar og menn ultu af baki; meðal þeirra var Hannes Hafstein ráðherra. Christensen forsætisráðherra Dana brosti og sagði, að við þessu mættu þeir ráðherrarnir alltaf búast, — að falla. Einhvern tíma heyrði ég, að þeir Böðvar á Laugarvatni og Páll skáld á Hjálmstöðum hefðu tekið að sér að flytja farangur kóngsfylgdarinnar frá Þingvöllum að Geysi, — og verið vel við skál allan tímann, enda gleðimenn. En á þessu hef ég ekki getað fengið staðfestingu.
Vegurinn lá og liggur enn austur um Gjábakkahraun og hefur aldrei nálægt Lyngdalsheiði komið, en hún sést af honum í suðri. Yfir Gjábakkahraun og aftur austan við Brúará, þurfti að ryðja brautina á hrauni, sem þar að auki var kjarri vaxið og seinunnið með handverkfærum. Þessi braut varð strax niðurgrafin og verður þá um leið farvegur fyrir vatn, sem grefur sig niður á köflum, þar sem mold er og sandur, en eftir standa berar klappir. Var framundir 1950 varið einhverri upphæð til þess af vegafé, að nema á brott stórgrýti og bera ofan í — með hestvögnum — þar sem mikið hafði runnið úr. Síðasti „vegamálastjóri“ á Konungsveginum var Jón eldri Jónsson á Laug í Tungum og virtist höfundi þessa pistils hann réttilega líta á það sem virðulegt embætti. Síðustu árin var þetta orðið einhverskonar formsatriði og „yfirreið“ og hætt að hreyfa við grjótinu, sem sífellt stakk upp kollinum. Umdæmi Jóns á Laug var frá Múla í Tungum og út að Brúará.
Alltaf voru áhöld um, hvort Konungsvegurinn væri bílfær. Ýmist var brúin á Brúará að niðurfalli komin, ellegar einhversstaðar hafði runnið svo mjög úr veginum, að hann var tilsýndar líkastur djúpum skurði. Vörubílar voru að vísu látnir þrælast út með Hlíðum, en sátu títt fastir í hinum konunglegu skorningum. Um árabil átti greinarhöfundur mörg spor á þessari grýttu slóð; ýmist að flytja mjólk ellegar að reka heim kýr. Varð mikil músik þegar skrönglast var yfir klappirnar með tómu brúsana, en á köflum þungfær aurvilpa, þegar klakinn var að fara úr á vorin. Aftur á móti var ekki teljandi slit á þessum vegi að vetrarlagi, hann fylltist þegar í fyrstu snjóum og var uppfrá því ófær til vors.
Í aldarfjórðung eða fram yfir 1930 að upphleyptur vegur var lagður upp Grímsnes og Tungur að Geysi, var Kongungsvegurinn sjálfur þjóðvegurinn á þessari fjölförnu slóð. Þar mátti sjá hestvagnalestir í vor- og haustferðum; þar var sláturfé rekið til slögtunar allar götur suður til Reykjavíkur og á sumrin komu skarar reiðmanna með töskuhesta. Þá stóð jóreykurinn hátt til lofts, þegar moldin þornaði og hófaskellirnir heyrðust um langa vegu, þegar kom á hraunið og harðar klappirnar undir fæti.
Mig rétt rámar í þetta tímabil áður en bílar urðu alls ráðandi í mannflutningum. Þá þótti ævintýralegt að sjá skara reiðmanna fara um veginn á fallegum sumardegi, en nú líta krakkarnir ekki einu sinni upp, þegar bílarnir fara um þjóðveginn. Stundum voru þeir menn á ferðinni á Konungsveginum, sem báru allt sitt á bakinu og fóru um fótgangandi. Þesskonar ferðalagar eru nefndir þumalputtaferðamenn núna, en í þann tíð urðu þeir einvörðungu að treysta á fæturna.
Konungsvegurinn var án efa skemmtilegur reiðvegur og eftirminnleg gönguslóð. Þar voru og eru fallegir kaflar með fjölbreyttum gróðri og fögru útsýni: Austur yfir Gjábakkahraun, yfir Reyðarbarm og Laugarvatnsvelli, hlíðarnar niður að Laugarvatni, inn í „Krók“ og raunar Laugardalurinn allur, austur yfir Brúará og Miðhúsahraun, ofan við Úthlíð, gegnum Hrauntúnsskóg og svo framvegis. Einkum og sér í lagi var Konungsvegurinn rómantískur á stöku stað í Laugardal og ofan við Hrauntún, þar sem birkihríslurnar seildust yfir hann.
En rómantíkin fór af á vorin, þegar menn voru að flytja áburð, fóðurbæti eða aðra þungavöru á hestvögnum og vagnarnir brotnuðu undan álaginu. Ég man enn hvað hestarnir svitnuðu og mæddust og lögðust í aktygin, — og sigu með hægð upp Hrauntúnsbrekkuna, sem var einna erfiðust. Sumarið 1952 fór ég þar í síðasta sinn með æki; þá var upp runnin öld traktoranna og í þetta sinn var verið á heimleið með hlaðinn heyvagn. En traktorinn lagðist ekki í aktygin með sama lagi og klárarnir höfðu gert; hann spólaði bara þar sem brattast var og ég varð að taka megnið af vagninum og bera baggana sjálfur upp brekkuna.
Síðar hef ég komið þar og gengið um sem gestur og fylgzt með því, hvernig vegurinn grær upp frá ári til árs. Nú liggja sumsstaðar girðingar þvert á hann og á leiðinni frá Gjábakka að Laugarvatni hefur nýr vegur verið ruddur svo að segja í sömu slóðina. Kýrnar nota hann ekki lengur; þeim er nú orðið haldið sumar langt á túnum, en á kaflanum frá Brúará og austur til byggðar í Tungum hafa myndast fjárgötur í hjólförunum.
Konungsvegurinn var á sinni tíð fjölfarnastur ferðamannavegur á Íslandi, þegar frá er talinn vegurinn úr Reykjavík til Þingvalla. Öll fyrirgreiðsla við ferðamenn var þá frumstæð, enda ekki einu sinni sími til að láta vita um komur ferðamanna. Var það til dæmis eitt sinn, að fólkið á Laug hafði verið beðið að hafa til niðursoðinn mat handa farþegum af millilandaskipinu Ceres, sem einhverntíma var von á. Eina leiðin var að vera sífellt á vakt og huga að mannaferðum á Konungsveginum vestur með Bjarnarfelli. Svo er það eitt sinn, að mikil þyrping birtist þar á veginum og Jón heitinn á Laug kemur með írafári inn í bæ og segir: „Stína, skerðu strax upp lambatungudósirnar, — Ceres er að koma.“ Nú var gengið í að hafa til matinn, en hópurinn þótti lengi síðasta spölinn og þegar betur var að gáð, voru það raunar kýrnar frá Múla, sem þarna voru á ferðinni.
Nútíminn var eins og dagrenning á austurhimni, þegar Friðrik konungur áttundi reið austur til Geysis með fríðu föruneyti í ágúst 1907; landsmenn búnir að fá sinn eigin ráðherra fyrir þremur árum og mikil bjartsýni ríkjandi. En þróunin fór sér hægt og nútíminn og vélamenningin komu ekki fyrr en rúmum þrjátíu árum síðar.
Eftir hugnæmar ræður á Þingvöllum þar sem sjóli lands vors var beðinn að stíga heilum fæti á helgan völl, lagði konungsfylgdin af stað til Gullfoss og Geysis og segir svo frá ferðinni í Lögrjettu þann 12. ágúst 1907.
„Veðrið var yndislegt allan laugardaginn, sólskin með skýjaskuggum á strjálingi. Komið var á Laugarvatnsvelli kl. 10 3/4. Þegar þangað kom voru þar tjöld fyrir, matreiðslumenn og stúlkurnar (30) er fylgja oss alla leið og ganga um beina. Umbúnaður allur var sem í Djúpadal, (áningarstaður á leið konungs til Þingvalla) borðað standandi í stóru tjaldi. Allir hafa dáðst að því, hvernig matreiðslufólk og þjónustufólk hefur leyst starf sitt af hendi; stúlkurnar virðast þurfa minni svefn en fugl, eru alltaf jafn kvikar og röskar í störfum sínum, svo ánægja er á að horfa. Hvar sem kemur fáfangastað eru þær fyrir og veit enginn hvenær þær sofa, eða hvernig þær komast leiðar sinnar á undan öllum, þó þær séu með hinum síðustu úr hlaði. Við morgunverð var þess minnst, að Hákon Noregskonungur átti þennan dag afmæli. Áður en riðið var af stað, fór konungur upp að Laugarvatnshelli til þess að skoða hann. Veður var indælt austur í Laugardal og þótti ferðamönnum fagurt að líta yfir „engjanna grasflæmi geysivítt þönd, með glampandi silfurskær vatnanna bönd, og bláfjöll og blómgaða velli“.
Til Geysis var komið kl. 6 1/2. Þar var allt í bestu reglu. Jón Magnússon skrifstofustjóri hafði riðið þangað deginum áður til að líta eftir öllu og sá þess ljós merki.
Konungur bjó í húsi því, er honum var búið, en dönsku þingmennirnir, útlendu blaðamennirnir og nokkrir ísl. þingmenn í skála miklum, er þar hefur verið reistur. Hinir í tjöldum. Borð var í stóru tjaldi á flötinni hjá Geysi. Sváfu menn vel um nóttina.“
Ísafold og Reykjavíkin segja frá konungsförinni á svipaðan hátt; ekki er þar minnst einu orði á veginn og framtak þeirra, sem búnir voru að gera þessa erfiðu leið vagnfæra.
Trúlega væri minna afrek að leggja malbikaðan veg þarna austur um þessar mundir og verður að telja fréttamennsku blaðanna harla glompótta á því herrans ári 1907.
Konungskoman 1907 hefur annars margoft verið upp rifjuð, enda góðar heimildir um hana í blöðum þessa tíma og ekki ástæða til að tíunda hana frekar í smáatriðum. Eftir dagsför til Gullfoss, var riðið austur yfir Hvítá á Brúarhlöðum, niður Hrunamannahrepp, áð á Álfaskeiði og skoðaður bærinn að Reykjum á Skeiðum. Þaðan lá leiðin niður með Þjórsá á fund Rangvellinga við Þjórsárbrú, en haldið þaðan til Arnarbælis í Ölfusi og gist þar. Síðan var riðið suður sem leið liggur upp Kamba, dagverður snæddur á Kolviðarhóli og „komu allir suður svartir í framan eins og sótarar“ segir í Lögrjettu, því svo mikið var rykið á reiðveginum. Hannes Hafstein skáld og ráðherra reið með konungi og var kvæðið Gullfoss eftir Hannes lesið upp á Kambabrún og skál skáldsins drukkin.
Mikill ljóðalestur virðist hafa einkennt þessa heimsókn og ort í þeim anda, sem nú þætti full hástemmdur og jafnvel barnalegur. Í lokahófi las séra Matthías Jochumsson upp kveðjukvæði til konungs. Þar er allt á hástemmdum nótum eins og þetta erindi sýnir:
„Vor göfuga saga gullin-óðvor guðleg tunga Háva-ljóð
þeim virta fylki færi.
Hans koma táknar tímamót —
hún táknar nýja siðabót,
sem allir strengir stæri!
Berfaldinn hátt, legg fjöll í krans.
ó fóstra vor, og konung lands
kveð svo það hjörtum hræri!“
Friðrik áttundi hefur verið duglegur ferðamaður, en andagiftin líklega ekki að sama skapi og engum sögum fer af því hvernig honum líkaði danska þýðingin á hinni mærðarfullu samsetningu séra Matthíasar, sem forsætisráðherrann tók að sér að lesa upp.
Konungur gerði heiðarlegar tilraunir til þess að vera alþýðlegur og talaði svolítið einstaka sinnum við blessaða alþýðuna. Gaf hann fé blindum karli í fjósi í Skipholti og þáði (ílenzkan blómvönd af konu við Efra-Langholt.
Samkvæmt fornsögum þóttu Íslendingar „djarfmæltir við tigna menn“ á dögum Egils Skallagrímssonar. En nú var það allt fyrir bí og alþýðumenn með skottið milli fótanna og litt upplitsdjarfir. Reykjavíkin gerir þetta að umtalsefni 10. ágúst 1907: „Annars kunni fólk sig lítt þar sem konungur fór hjá, konurstóðu eins og dæmdar og karlmennirnir að vanda þegjandi með hendur í vösum. Er það ljótur siður og leiðinlegur“.
Það var helst á mölinni, að menn reyndu að tileinka sér hið ljúfa líf samkvæmt erlendum fyrirmyndum. Í þessum sömu blöðum Ísafoldar, Lögrjettu og Reykjavíkur, auglýsir Karl Peterson & Co vindil Friðriks konungs „með Havanna og Brasilíutóbaksblöðum, með rósflúruðum umbúðum og hring með mynd af Hans Hátign“. Thomsens Magasín auglýsir veðreiðar á Melunum og engin hætta að ekki verði allt með tilhlýðilegum elegans eins og á veðreiðunum í Derby, því Verzlunin Edinborg auglýsir í sama blaði stráhattana „marg-eftirspurðu“.
Þeir sem héldu áfram að nota Konungsveginn voru aftur á móti sárasjaldan með stráhatta og yfirhöfuð lítill glæsibragur á ferðinni, þegar menn voru í misjafnri færð og veðrum að brjótast áfram með nauðsynjar, — stundum með sameinuðu vöðvaafli manna og hesta. Nú grær grasið yfir þessi spor og fólkið, sem fer í sunnudagsbíltúrana hefur ekki hugboð um troðningana, sem liggja einatt í allskonar krókum og stundum uppi í hlíðum. Eitt er þó sameiginlegt með ferðum þeirra, sem áður héldu Konungsveginn og þeirra, sem nú aka þjóðveginn austur að Geysi. Ryk- og molarmökkurinn, sem upp stígur um leið og þornar af steini og minnir okkur á eftir sjötíu ár, að vanþróunarbragurinn á fjölförnustu vegum okkar er ekki minni en hann var þá.“
Heimilir:
-Fréttablaðið – https://www.frettabladid.is/timamot/fririk-attundi-gengur-a-land-reykjavik/ – Sighvatur Arnmundsson, þriðjudagur 31. júlí 2018.
-„Aukinn skilning mun hæun færa oss, þessi Íslandsferð“ – Heimsókn Friðriks VIII Danakoungs til Íslands 1907. Emelía Sigmarsdóttir f/Landsbókasafnið, 2007.
-Morgunblaðið 4. ágúst 2007 – https://www.mbl.is/greinasafn/grein/1158434/
-Lesbók Morgunblaðsins, 11. tbl. 02.04.1978, Konungsvegurinn, Gísli Sigurðsson, bls. 8-11.