Færslur

Hæna

Í Bæjarbót árið 1985 er sagt frá “Hænsnahúsinu í Grindavík”. Frásögnin var tekin úr Fálkanum 9. janúar 1932. Þar er sagt frá frumkvöðlastafi Einars Einarssonar í Krosshúsum um hænsnarækt og eggjabúskap. Hafa ber í huga að “frumkvöðlastarf” líkt þessu hafa jafnan, því miður, fremur hvatt “kjaftakerlingar” hversdagsins til dáða en aðra áræðnari til varanlegri árangurs.

Hænsnabúið í Grindavík

Hænsnahúsið

Hænsnahús Einars í Grindavík.

Vaxandi trú á land vort og mátt íslensku þjóðarinnar lýsir sjer ekki hvað síst í ýmsum verklegum framkvæmdum íslendinga á síðari árum.
Einn af ötulustu framkvæmdamönnum meðal yngri manna hjer á landi, Einar Einarsson í Krosshúsum í Grindavík (sonur Einars kaupmanns í Garðhúsum) hefir nú ráðist í að setja á stofn hænsnabú, sem er stærra og myndarlegra en áður eru dæmi til á Íslandi.
Hænsnabúið í Grindavík er rúmlega hálfs þriðja árs gamalt, og eru þar nú um 1000 hænur.

Hænsnahús

Í hænsnahúsi Einars.

11. maí 1929 voru fyrstu ungarnir teknir út úr 266 eggja Grand Danois útungunarvjel búsins. Hænsnabúið er í 70 m langri og 6’A m breiðri byggingu með geysistórum gluggum. Stofnkostnaður búsins var 20 þús. krónur.

Til þess að sjá um þetta hænsnabú varð Einar Einarsson að fá sjer útlending, er kunni starf sitt til hlítar. Fyrir valinu varð danskur maður, Einar Tönsberg að nafni. Hann byrjaði að vinna sem aðstoðarpiltur á dönsku hænsnabúi, er hann var 10 ára gamall. Síðar gekk hann í skóla og lauk gagnfræðaprófi 16 ára gamall. Næstu 5 ár vann Tönsberg síðari á vetrum við eitt af stærstu hænsnabúum í Danmörku, en ferðaðist á sumrin, meðal annars til Svíþjóðar og Þýzkalands til þess að skoða þar hænsnabú og kynna sjer hænsnarækt af eigin sjón og reynd. í því skyni var hann einnig á sjerstökum námskeiðum. Í nóvember 1930 kom hann til íslands og var þá ráðinn umsjónarmaður hænsnabúsins í Grindavík. Hefir hann gegnt því starfi prýðilega, en nú eru störf búsins að verða meiri en svo, að hann fái unnið þau hjálparlaust.

Hænsnahús

Í hænsnahúsi Einars.

Á hænsnabúinu í Grindavík hefir varpið aukist mjög upp á síðkastið, vegna þess að hænurnar eru undir vísindalegu eftirliti. Víðast hvar hjer á landi verpa hænur aðeins frá febrúarbyrjun til septemberloka, en hjá Einari í Krosshúsum verpa þær 10-11 mánuði á ári. Þann mánaðartíma, sem hænurnar verpa ekki, fella þær fiður, og er því hagað svo með sjerstökum aðferðum, að þær gera það í júnímánuði, bæði vegna þess,að þá eru egg ódýrust og því minnst markaðsspjöll. En einnig mega hænsnin best við því að vera fiðurlítil í júní vegna veðráttunnar.
í Danmörku og Canada þykir það yfirleitt góð eggjatekja á hænsnabúum að fá daglega í október-, nóvember-, desember og janúarmánuði það mörg egg, að samsvari 20% af fjölda hænsnanna. Það er því eftirtektarvert, að á hænsnabúinu í Grindavík er ekkjatekjan miklu hærri. Núna er hún 45% á dag af fjölda hænsnanna, ef með eru taldir hænuungar, sem ekki hafa enn náð fullum þroska. Sje hins vegar aðeins miðað við hænur, sem náð hafa fullum aldri, verður útkoman 65%.

Hænsnahús

Egg hænsnahússins.

Það fyrsta, sem vekur athygli, þegar maður skoðar hænsnabúið í Grindavík, er það að hænurnaar eru allar drifhvítar og prýðilega aldar og hirtar.
Þær eru allar af hreinræktuðu ítölsku kyni, og keypti Einar Einarsson upphaflega hænsnastofn af besta hænsnabúi í Danmörku. Til þess að hænsnin úrkynjist ekki, er jafnan slátrað í júnímánuði öllum þeim hænum, sem ekki hafa verpt svo miklu, að svari kostnaði. Aftur á móti eru þær hænur, sem verpt hafa 200 eggjum eða meiru, teknar frá og aldar sjerstaklega til þess að láta þær verpa útungunareggjum. Hanar til undaneldis eru ekki teknir úr eggjum annara hæna en þeirra, sem verpt hafa í minnsta lagi 230 eggjum á ári. En auk þess eru annaðhvert ár keypt útungunaregg frá fyrirmyndarhænsnabúum erlendis, til þess að hænsnin verði ekki of skyld og hraustur kynstofn haldist.
Með stofnun fyrsta fyrirmyndar – hænsnabús á íslandi, sem jafnast fyllilega á við samskonar stofnanir erlendis, hefir hann vissulega unnið mikið þarfaverk. Sá, er þetta ritar, álítur, að vel sje vert að skreppa til Grindavíkur til þess eins að sjá þennan myndarbúskap Einars í Krosshúsum, enda hafa þó nokkrir menn gert það.
Til útungunar eru eingöngu notaðar vjelar, og er útungunartíminn 20 dagar. Á sjötta degi eru eggin lýst og tekin frá þau, sem reynast ófrjó. Eggin eru enn lýst á tólfta og átjánda degi og ef þá sjest, að ungar hafa dáið í einhverjum af eggjunum, eru þau tekin burt. Ef loftið í vjelunum verður of þurrt, eru látnir bakkar með vatni undir eggin, og fæst við það nægur raki.
Eggjunum er snúið þrisvar á sólarhring, því að ella mundi rauðan í þeim síga og fóstrin deyja.
HænsnahúsHitinn á eggjunum á að vera 103° á Fahrenheit. Útungunaregg mega aldrei vera eldri en tólf daga, þegar þau eru látin í vjelarnar, því að eftir þann tíma fara rauðan og frjóefni hennar að tapa sjer.
Á tuttugasta og fyrsta degi eru ungarnir teknir úr vjelunum og látnir undir upphitaða skerma, sem nefndir eru fósturmæður. Venjulega koma 75-80% af hraustum ungum úr vjel. Á fyrsta degi er þeim að eins gefinn sandur og vatn, en næsta dag er þeim gefið haframjöl og sjerstakt þurrfóður, sem í eru ýms efni, þar á meðal þurrkaðar áfir.
Nú á tímum, þegar alþjóð manna er orðið ljóst, að Íslendingar eiga umfram alt að búa að sinni eigin framleiðslu og leitast við að fullnægja þörfum sínum með innlendum iðnaði, hljóta menn að líta á þetta framtak Einars Einarssonar með velvild. Með stofnun fyrsta fyrirmyndar-hænsnabús á íslndi, sem jafnast fyllilega á við samskonar stofnanir erlendis, hefir hann vissulega unnið mikið þarfaverk. Sá, er þetta ritar, álítur, að vel sje.’vert að skreppa tíl Grindavíkur til þess eins að sjá þennan myndarbúskap Einars í Krosshúsum, enda hafa þó nokkrir menn gert það.
Samkvæmt verslunarskýrslum hafa á árunum 1918—1928 verið flutt inn egg fyrir verðmagn sem hjer segir:
Ár 1918 2.536 kr.
— 1919 10.656 —
— 1920 15.986 —
— 1921 77.424 —
—’ 1922 105.650 —
— 1923 137.328 —
— 1924 97.060 —
— 1925 144.924 —
— 1926 156.704 —
— 1927 134.856 —
— 1928 149.118 —

Einar Einarsson

Einar Einarsson.

Þar með er talið það verð, sem gefið hefir verið fyrir þurkuð egg frá 1921. Árið 1928 hefir einnig verið byrjað að flytja inn niður soðin egg, en ekki svo að neinu næmi það ár.
Meðan þeim upphæðum, sem hjer er getið, er árlega fleygt út úr landinu fyrir vöru, sem hjer er auðgert að framleiða, er sannarlega ekki alt sem skyldi.
En því er ver, að það eru ekki eggin ein, sem vjer Íslendingar höfum látið útlendinga færa okkur hingað árum saman á erlendum skipum, í stað þess að framleiða vörurnar sjálfir og efla þannig atvinnu og velmegun í landinu.
Einar í Krosshúsum segir, að gömlil „præserveruð” útlend egg og gömul íslensk egg spilli allmikið eggjamarkaði hjer, því að enn sje fjölda margir, sem ekki geri sjer ljóst, hve geysimikla kosti glæný egg hafi fram yfir gömul, hálfskemd (gg. Einar lætur stimpla öll egg frá hænsnabúi sínu, og merki hans á að tryggja kaupendum góða vöru. Verðið segist hann miða við verð á fyrsta flokks eggjum í Danmörku.
Einar Einarsson segist muni geta selt lifandi hænuunga, svo að þúsundum skiptir, ef markaður bjóðist. Væri vel, ef hann gæti þannig smám saman útvegað sem flestum hænsni af hinu ágæta ítalska kyni. Hann kveðst og liafa sell uin 1000 liaMisni til veislumatar í Reykjavík síðast liðið ár. Framtakssemi Einars og allur sá myndar bragur, sem auðkennir þessa slarfsemi hans, gefur góðar vonir um, að hún geti orðið öðrum athafnamönnum vorum til fyrirmyndar. – Sigurður Skúlason.

Á myndunum sem hjer fylgja er sýnt: Efst á bls. 3 hænsnabúið að utan, en neðar á sömu síðu gangir inni í húsi. Á þessari bls. sjest efst í dálkinum piltur með hænu og  eggjakarfá stendur hjá, en neðst er það sýnt, hvernig umbúðirnar eru, sem eggin koma í á markaðinn.

Heimild:
-Bæjarbót, 11. tbl. 01.12.1985, Hænsnahúsið í Grindavík – Úr Fálkanum 9. janúar 1932, bls. 3-4 – bls. 2.
-Morgunblaðið, 162, Útför Einars Einarssonar í Krosshúsum, tbl. 19.07.1962, bls. 2.
-Einar Einarsson, Krosshúsum látinn, Faxi 7. tbl. 01.09.1962, bls. 117.

Einar Einarsson

Halldór Laxness

Í Faxa árið 1982 birtist hugvekja í tilefni af áttræðisafmæli Haldórs Laxness þar sem hann m.a. mærir Grindavík – og það ekki að ástæðulausu.

Grindavík

Grindavík 1939.

Á árunum 1937—1939 gaf Lestrarfélagið í Grindavík út tímarit, sem nefndist Mímir. Markmiðið með útgáfu ritsins var, eins og segir í 1. tölublaði, að reyna að vekja af dvala Lestrarfélagið Mími, er sofið hafði svefni hinna réttlátu um nokkurt skeið. Var ritið selt til ágóða fyrir félagið, á 10 aura eintakið. Ritstjórar voru Einar Kr. Einarsson, skólastjóri, Jochum Eggertsson og
Einar Einarsson í Krosshúsum. Í 4. tölublaði Mímis frá 1937 er viðtal við Halldór Laxness. Viðtalið hefur Einar Einarsson í Krosshúsum að líkindum átt við skáldið og í tilefni þess að
Halldór Laxness er áttræður um þessar mundir. Þótti við hæfi að fá það birt hér í Faxa nú. Fer viðtalið hér á eftir:

“Tíðindamaður blaðsins heimsótti Halldór Kiljan Laxness þar sem hann dvelur nú [í Krosshúsum] yfir páskana, önnum kafinn yfir ritvél sinni. Þrátt fyrir mikið annríki var skáldið svo vingjarnlegt að svara nokkrum spurningum, sem tíðindamaður lagði fyrir hann.
-Kemur framhald af „Ljósi heimsins”?

Halldór Laxness

Halldór Laxness.

-Já, næsta ár mun koma út ný bók, framhaldssaga af niðursetningnum, sem nú er ekki lengur niðursetningur, eins og þér vitið. Hvers vegna nefnduð þér bókina „Ljós heimsins”? Bókin skýrir frá baráttu skáldsins við heimskuna og tregðuna.
-Þér notið alveg sérstakt mál í bók yðar, haldið þér ekki, að það geti aflagað mál hinnar yngri kynslóðar?
-Ég vona að mál bókarinnar sé auðvelt aflestrar og spilli ekki málsmekk neins.

-Á hve mörg mál hafa bækur yðar verið þýddar?
-Dönsku, þýsku, sænsku, ensku og hollensku og verið að vinna að þýðingu á frönsku.

-Mörgum finnst þér vera svartsýnn í bókum yðar?
-Það er alltaf sagt að raunsæishöfundar séu svartsýnir. Lífið er ströng barátta, og sögur mínar eru raunsæar. Þegar lífsskilyrði alþjóðar batna verður skáldskapurinn ósjálfrátt bjartsýnni.
-Haldið þér ekki að útlendingar geti fengið of slæmar hugmyndir um Ísland við að lesa bækur yðar?
-Það held ég ekki, vesaldómur almennings er í flestum löndum meiri en á Íslandi, svo það er ekkert nýtt fyrir útlendinga að heyra um fátækt fólk. Annars er fólkið allsstaðar eins, aðeins ofurlítið breytt á yfirborðinu. Þegar maður er búinn að tala dálitla stund við mann frá t.d. Buenos Aires er maður óðar kominn inn á sama umræðu etni og í samtali við fólk hér í Grindavík.
-Viljið þér segja ofurlítið frá þessu ferðalagi, sem þið fóruð í sumar?
Ég hefi skrifað ofurlítið um það annarstaðar, og ég er líka ónýtur að segja ferðasögur. Það koma náttúrlega fyrir ýms atvik á ferðalagi, en þeim hef ég mest gaman af þegar ég er búinn að skrifa um þau í skálsögum, kannski í ofurlítið breyttri mynd.

Krosshús

Krosshús.

-Sumir hneykslast á ýmsu í bók yðar „Ljós heimsins” t.d. 16. kap.
-Það er með bók eins og jólaköku, jólakökur mega ekki vera eintómar rúsínur, en ef engin rúsína er í þeim, er það heldur engin jólakaka.
-Hvernig líst yður á Grindavík?
-Mér líst afar vel á Grindavík. Þar vinn ég betur en víðast hvar annarstaðar, hér skrifaði ég seinni hlutann af „Fuglinn í fjörunni” og „Napóleon Bónaparte” og gerði uppkast að „Ljós heimsins”. Eftir kynningu minni af öðrum íslenskum sjóþorpum, held ég, að Grindavík sé með bestu plássum landsins. Húsin eru rúmgóð og falleg, mættu kannski standa skipulegar. Sjáið þér börnin þama úti á túninu, öll vel klædd með höfuðföt og sko. Þið ættuð að sjá pláss eins og Ólafsvík og Bíldudal og Eskifjörðog víðar þar sem fólk varla hefur eldsneyti til að kynda undir pottinum með.
Vér þökkum herra Laxness fyrir samtalið, óskum honum gleðilegra páska og kveðjum.”

Heimild:
-Faxi, 4. tbl. 01.05.1982, Í tilefni áttræðisafmælis Halldórs Laxness, bls. 92.

Grindavík 1958

Grindavík (Járngerðarstaðarhverfi) 1958.