Stefnan var tekin á Einbúa, gróið sker lausfrjálst frá landi við norðanverða Ósa. Um 5-7 metra sjávarbreiða, Prestsmið, skilur þarna á millum mögulegrar þurrfótagöngu. Skerið greinist í tvennt með rennu. Að norðanverðu heitir það Einbúi, en Vörðuhólmi að sunnanverðu. Talið var líklegt að þar væru einhverjar mannvistaleifar að finna, einkum að sunnanverðu.
Hestaklettur er vestan við skerið, en á því staðnæmdist timburflutningaskipið Jamestown 1881. Suðvestar er Runkhólmi. Ætlunin var láta fleytast með flatbytnu frá landu yfir í skerið. Byrjað var að fjara út af flóði um þetta leyti.
Norðan og landmegin við Einbúa er Torfan; allvel gróin. Vestan hennar er Hvalvík.
Í greininni Örnefni með ströndinni frá Básendum … í Faxa ´84 segir sr. Jón Th. m.a.: ‘’Einbúi er einskonar löng eyja frá norðri til suðurs og umflotin sjó, en á fjörum má víða vaða yfir rásina, sem umlykur hann, en strax með aðfalli er það ekki hægt.
Syðri endinn heitir Vörðuhólmi … skammt frá er Runkhólmi, svo þrengslin verða mikil með útfallinu í þessum þrönga ósi, og beljandinn ofsalegur, en stórsteinar, strýtumyndaðir, hér og þar í botninum, svo að þetta er stórhættulegur staður fyrir báta.’’ Leó M. Jónsson í Höfnum segir svo frá Jamestown: „Á morgni sunnudags, 26. júní árið 1881 brá mönnum í Höfnum á Suðurnesjum í brún; heljarstórt seglskip hafði strandað við Hvalsnes á milli Hestakletts og Þórshafnar gegnt Kotvogi í Kirkjuvogshverfi. Þeir sem fyrstir komu á vettvang sáu að skipið var mannlaust og auðséð að það hafði verið lengi á reki því seglbúnaður þess og reiði var horfinn að mestu leyti.
Við nánari skoðun kom í ljós að skipið, sem mun hafa verið um 4000 tonn á núverandi mælikvarða og því engin smásmíði, – líklega með allra stærstu skipum sem til Íslands höfðu komið fram að því. Skipið var fullhlaðið borðviði af mismunandi tegundum, m.a. harðviði og allt kjörviður. Í Suðurnesjaannál Sigurðar ívertsen2 er m.a. fjallað um þetta strand. Þar er þess geta hve vel hafi verið um farminn búið og greinilega unnið af mikilli verkþekkingu. Þar segir m.a. að tekist hafi að bjarga miklu af farmi Jamestown og hafi timbrið verið notað til húsbygginga, ekki einungis á Suðurnesjum, en þar má enn sjá hús sem byggð voru úr þessu efni, heldur einnig austur um sveitir. Menn af Suðurnesjum mynduðu með sér félag um kaup á strandgóssinu og tókst að semja við sýslumann um kaupin. Eftir óveður nokkrum dögum eftir strandið brotnaði skipið í spón og hvarf. Það er til marks um veðurfar og sjólag við strönd Hafnahrepps að þetta stóra skip mölbrotnaði á fáum dögum eftir að hafa , eins og seinna kemur í ljós, verið á reki stjórnlaust á Norður-Atlantshafinu um 4ra mánaða skeið.
Skömmu eftir að ég flutti í Hafnir um áramótin 1978/79 heyrði ég talað um strand þessa stórskips og varð forvitinn um frekari vitneskju, fór m.a. að reyna að kynna mér hvað væri til af heimildum um strand Jamestown. Í annálum er þessa strands getið . Í jólablaði tímaritsins Faxa3 frá árinu 1967 er merkilegt viðtal við Friðrik Gunnlaugsson (þá 95 ára) þar sem hann segir ítarlega frá björgun farmsins úr Jamestown. Ennfremur er að finna frásögn Ólafs Ketilssonar, fyrrum hreppstjóra Hafnahrepps, af þessu strandi í bókinni Sunnlenskir sagnaþættir5 (sem Gunnar S. Þorleifsson safnaði) en þar segir Ólafur frá strandinu, björgun farms og afdrifum skipsins. Hins vegar fann ég ekkert um skipið sjálft, sögu þess né áhafnarinnar.
Í bókum má finna frásögn Ólafs Ketilssonar á Kalmannstjörn, hreppstjóra í Höfnum af strandi Jamestown. Þar nefnir hann þennan einkennilega stein sem hafi verið barlest skipsins og gerir því skóna að þetta hafi hugsanlega verið silfur. Í Bath Daily Times mánudaginn 21. nóvember 1881 er enn fjallað um Jamestown. Þar segir: ,, Svo virðist sem frægð Jamestown ætli engan enda að taka. Í tímaritinu Maine Mining Journal segir að fyrsta framleiðsla af málmgrýti frá námunni á Deer Isle hafi skrautlegan feril að baki og hafi endað á óvæntum stað. Málmgrýtið hafi Jamestown tekið sem barlest þegar það hélt til Swansee (svo !) í Englandi með timburfarm fyrir nærri ári. Járngrýtið er líklega enn í greypum þessa ólánsfleys þar sem það bar beinin.“ Það sem er örugglega rétt í þessu, og ber saman við blaðagreinar frá þessum tíma, er að barlestin var málmgrýti frá Deer Isle-námunni. Ástæða þess að einhvern grunaði að um silfur hefði verið að ræða er líklega vegna þess að saman við hefur verið svokallaður ,,klinker“ sem myndast í málbræðsluofnum. Þar með telst kenningin um silfurbarlestina afsönnuð.“
Áður fyrr var Einbúi landfastur, en langt er síðan sú tenging rofnaði. Landið hefur sigið verulega á umliðnum öldum. T.d má í sjá hlaðna garða undir sjávarmáli út frá hinum forna bæ Vogum (Kirkjuvogi), en Ósinn mun einmitt hafa verið nefndur eftir bænum. Meginállinn milli lands og skers er um 40 m breiður og mjög straumharður þá og þegar vantaði tvo tíma í stórstraumsfjöru.
Báturinn var blásinn upp og sjósettur. Tryggara þótti að hafa línu festa við bátinn þegar róið var yfir – sem kom sér mjög vel því stuttu síðar flutu árarnar í burtu og stefnu beint út á Atlandshafið. Það gerði svo sem ekkert til því ill mögulegt var að róa í straumnum og áður búið að gera óspart grín að þessum „teskeiðum“. Kapteinninn var einn í bátnum í fyrstu ferð til að koma línunni yfir og sást til hans bograndi í bátnum og rífa upp þara meðan hann rak með eyjunni uns hann loks náði festu er hélt. Var þá björninn unninn og byrjað að ferja fólkið yfir og þóttust sumir bara nokkuð góðir að hafa sloppið lifandi úr þessum straumi.
Nú var tekið til við að kanna hina óbyggðu eyju. Hún greinist í tvennt, sem fyrr segir, með rennu. Gengið var fram á hernaðartól og í Vörðuhólma voru mannvistarleifar, varða með letursteini; LM – landamerki Stafnes og Hafna að sögn Jóns Borgarssonar. Vegna þessa landamerkja fékk Jón Borgarson gjafabréf fyrir einu akkerinu úr Jamestown á sínum tíma. Annað akkeri liggur á sjávarbotni skammt frá Hestasteini og hefur verið vaxandi áhugi á að ná því upp. Margir eigendur eru tilkallaðir, s.s. Sandgerðisbær, en vænlegast væri að staðsetja það á klöpp ofan strandarinnar gegnt þar sem skipið tók niðri – til minningar um atburðinn.
Sem sagt; heilmikið ævintýri en minna um minjar. Þó fannst ein tóft ca. 3 x 1,5 m innanmál, norðvestan í Vörðuhólmanum (63°56,707-22°41,181) og ofan á vörðunni, sem fyrr segir, syðst í hólmanum (63°56,662 -22°41,081) er letursteinninn með áletruninni „LM“. Hjá tóftinni eru 2 lágir sandhólar svipaðir að stærð og tóftin sjálf, – þar undir gæti eitthvað leynst. Með góðum vilja má líka sjá garða, en erfitt var að fullyrða nokkuð um það.
Ekki fannst tangur né tetur af silfrinu úr Jamestown og mun það því liggja eitthvað lengur á hafsbotni vel falið í þaranum. Einn veglegur, ryðgaður gamall nagli fannst þó inni á milli fjörugrjótsins. Líkum var leitt að því að hann hefði verið úr Jamestown. Vor var í lofti og mikið um fugla og víða mátti ganga fram á hreiður, bæði svartsbaks- og gæsahreiður.
Frábært veður. Gangan tók 3 tíma og 33 mínútur.
Tag Archive for: Einbúi
Mikilvægt er að gæta þess vel að spilla ekki sagnatengdum stöðum, hvorki með jarðraski né skógrækt, eins og svo allt of mörg sorgleg dæmi eru um. Ástæðulaust er þó að sýta súrt, en gleðjast yfir því sem til er og nýta það til fróðleiks og ánægju.
Álfhóll
Álfhóllinn er líklega kunnasti bústaður álfa í Kópavogi. Hann stendur sunnanvert við Álfhólsveg skammt þar frá sem Digranesskóli er nú. Hóllinn, sem er nokkuð aflíðandi, mun vera um það bil þriggja metra hár ef mælt er frá götu.
Álfhóll er jökulsorfinn klapparhóll sem nýtur bæjarverndar sem bústaður álfa. Hóllinn er dæmi um þjóðtrú Íslendinga og hve sterk hún hefur verið allt fram á þennan dag. Því er haldið fram að álfar hafi fjórum sinnum haft áhrif á framkvæmdir við hólinn.
Hann er að miklu leyti hulinn grasi og mosagróðri, sérstaklega að norðan og austan. Í Álfhólnum er nokkurt stórgrýti sem líkist litlum klettastöllum og liggja þessir smáklettar að mestu um sunnanverðan og vestanverðan hólinn.
Lengi hefur verið talað um að álfar hafi tekið sér búsetu í Álfhólnum og margir segjast hafa séð þá með vissu. Ekki er ljóst hve gamlar þær sögusagnir eru; engar heimildir eru til um atburði fyrr en nokkuð er liðið á þessa öld.
Seint á fjórða áratug þessarar aldar var hafist handa við að leggja Álfhólsveginn. Byrjað var á honum við Hafnarfjarðarveg og ætlunin var að halda áfram í austurátt þar til komið væri að Álfabrekku sem skyldi tengja Álfhólsveginn við Nýbýlaveg. Vegurinn átti að liggja þar um sem Álfhóllinn er en hann yrði jafnaður við jörðu eftir því sem framkvæmdum miðaði. Vel gekk að leggja veginn austur eftir Digranesinu að Álfhólnum.
Þegar kom að því að sprengja hólinn gerðust atburðir sem leiddu til þess að ekkert varð af sprengingu. Vildi svo til að fjármagn það, sem veitt hafði verið til lagningar Álfhólsvegarins, var á þrotum. Féllu þá framkvæmdir niður við ólokið verk og Álfhóllinn stóð óhaggaður.
Árið 1947 var á ný hafist handa og átti að leggja veginn áfram í gegnum Álfhólinn. Þegar vinna hófst á hólnum komu upp vandamál sem áttu sér ókunnar og dularfullar orsakið að margra áliti. Vinnuvélar biluðu og ýmis verkfæri skemmdust eða hurfu jafnvel. Varð það úr að vegurinn var lagður í bugðu fram hjá hólnum norðanverðum en ekki í gegnum hann eins og ætlunin hafi verið. Sagt er að þá hafi framkvæmdir gengið eins og venja var til og hafi álfarnir ekki gert vart við sig að sinni.
Talið er að áhrifa álfa hafi einnig gætt við uppbyggingu lóðarinnar nr. 102 við Álfhólsveg en hún liggur næst hólnum. Eigandi lóðarinnar skilaði lóðinni og vildi ekki byggja þar og fellur lóðin ásamt hólnum nú undir bæjarvernd.
Borgarholt
Holtið þar í kring, sem Kópavogskirkja stendur nú, hefur verið nefnt Borgarholt. Þar hefur álfabyggð verið talin hvað blómlegust í Kópavogi.
Þegar Borgarholtsbraut var lögð á sínum tíma þurfti að sprengja nokkuð í Borgarholtinu á þeim slóðum sem álfar bjuggu. Um það leyti er fréttist að fyrirhugað væri að leggja veg um Borgarholtið mun maður að nafni Sveinn hafa gengið út á holtið og aðvarað álfana.
Segir sagan að íbúar Borgarholtsins hafi tjáð honum að þeir myndu ekki hindra framkvæmdir heldur flytja sig um set. Kom það á daginn að greiðlega gekk að leggja Borgarholtsbrautina og urðu þar engin óhöpp eða undarlegir atburðir.
Nokkrar heimildir eru um álfabyggðina í Borgarholti og segjast skyggnir menn hafa séð þar bústaði og byggingar álfanna. Hefur húsum álfanna verið lýst nokkuð nákvæmlega og eru til teikningar af þeim eftir lýsingu hinna skyggnu. Þá hefur það borið við að börn frá leikskóla þar í grenndinni hafi séð álfa í holtinu og jafnvel tekið þá tali.
Latur
Latur er nokkuð stór steinn í sunnanverðum Digraneshálsi þar sem nú liggur gatan Hlíðarhjalli. Stendur steinninn enn óhreyfður innst í einum af botnlöngum Hlíðarhjalla en áður mun Digranesbærinn hafa verið skammt norðan við steininn.
Sagnir um stein þennan tengjast fremur Jóni Guðmundssyni bónda í Digranesi en álfum en sagt er að á steininum hafi Jón hvílt sig á ferðum sínum um jarðeignina. Þá mun Jón einnig hafa setið eða staðið á steininum og sungið allt hvað af tók er hann var drukkinn sem oft kom fyrir.
Gamlar sagnir eru til um að steinninn Latur hafi verið álfabústaður og mun það sérstaklega hafa verið á vitorði manna er bjuggu í Fífuhvammslandi. Eitt sinn gerðist það að börn, sem voru á ferð við steininn, sáu huldukonu þar á sveimi en er hún varð þeirra vör hvarf hún þeim sjónum við steininn.
Annars er Latur hinn ágætasti drykkjarsteinn.
Þinghóll
Þinghóll er hóllinn sem stendur við Kópavogsbotn hjá gamla þingstaðnum í Kópavogi. Helsta sögnin af Þinghólnum er tengd nafni hans. Það hefur verið trú manna að á hólnum hafi álfar haldið sitt eigið þing á svipuðum tíma og mannfólkið. Eiga álfarnir að hafa komið þar saman og þingað en ekki fóru aftökur þar fram enda þekkist það ekki á meðal álfa.
Til er önnur sögn tengd Þinghólnum en hún segir að þar í grennd hafi sést til huldukonu einnar og mun það hafa verið á sama tíma á hverjum degi. Sást hún ganga frá Þinghólnum í átt að Borgarholtinu.
Kópavogur var einn af fjórum þingstöðum Gullbringusýslu og fyrir margar sakir þeirra frægastur. Mikill fjöldi mála voru tekin fyrir á Kópavogsþingi og dómar felldir. Mun nálægð við Bessastaðavaldið hafa ráðið þar miklu um.
Elstu varðveittu rituðu heimildirnar um þing í Kópavogi eru frá 1523. Árið 1574 gaf Friðrik II Danakonungur út tilskipun þess efnis að Alþingi skyldi flutt í Kópavog en til þess kom þó aldrei. Merkasti atburður sem tengist þingstaðnum er erfðahyllingin 28. júlí 1662. Þá neyddi danski höfuðsmaðurinn Hinrik Bjelke íslenska forystumenn til að undirrita einveldisskuldbindingu og að sverja Friðriki III Danakonungi hollustueiða meðan hermenn hans hátignar stóðu yfir þeim alvopnaðir. Síðasta aftakan sem fór fram á þinginu í Kópavogi var þann 15. nóvember 1704. Þá voru Sigurður Arason og Steinunn Guðmundsdóttir frá Árbæ tekin af lífi fyrir morð. Var hann höggvinn skammt norðan við þinghúsið en henni drekkt í Kópavogslæk. Árið 1753 var þinghald aflagt í Kópavogi.
Á fyrri hluta aldarinnar bjó sérkennileg kona á Skjólbraut í vestanverðum Kópavogi. Var hún komin nokkuð á efri ár en heilsuhraust þó og skörp í hugsun. Ekki var hún þekkt fyrir annað en að vera góðhjörtuð og hjálpleg á allan hátt en mörgum þótti hún dularfull enda vissu menn að hún var skyggn. Sagði hún stundum sögur af sérkennilegum atburðum og var fullviss um tilvist huldufólks.
Það var á flestra vitorði að gamla konan hefði séð álfa og huldufólk. Eitt þótti öðru merkilegra en það var að um sama leyti hvern einasta dag sá hún huldukonu á gangi. Var huldukonan í svörtu pilsi og með gráa hyrnu á höfði. Ætíð gekk hún sömu leið sem lá frá Þinghól og upp að Borgarholtinu í austri þar sem Kópavogskirkja stendur nú. Hvarf hún gömlu konunni þar sjónum.
Ekki hefur heyrst af öðru fólki sem sá þessa dularfullu konu á gangi og ekki eru allir á sama máli um hver hún var. Telja sumir að hún tengist dysjum sem eiga að vera víða í grenndinni. Þeir eru þó fleiri sem segja að þarna hafi verið huldukona á ferð og hafi hún annaðhvort búið í Þinghólnum sjálfum eða í Borgarholtinu.
Einbúi
Einbúi er hóll sem rís austan í Digraneshálsi í austasta hluta Kópavogsbæjar fast við Reykjanesbraut. Við hólinn eru stakir steinar en þar hjá munu áður hafa legið landamerki.
Hólnum tengist sú saga að þar hafi búið álfur eða huldumaður. Ekki skal hér fullyrt um hvort hann búi þar enn. Þegar framkvæmdir stóðu yfir við byggingu iðnaðarhúss sem þar átti að rísa skammt frá er sagt að íbúi hólsins hafi látið á sér kræla. Hafi hann séð til þess að vélar biluðu með þeim hætti að ómögulegt var að beita þeim á hólinn.
Sagan segir að þegar lóðaúthlutun stóð sem hæst í Kópavogi var húsbyggjanda fengin lóð við hól í austurbæ Kópavogs sem kallaður var Einbúi. Fékk hann lóðina með því skilyrði að hann kæmi ekki nærrri hólnum er hann færi að grafa fyrir húsinu. Þótti húsbyggjanda sjálfsagt að verða við þeirri bón.
Einhvern tíma á föstudegi var komið að því að grafa fyrir grunni og fékk húsbyggjandinn jarðýtu á staðinn til að sinna því verki. Gekk verkið vel og var langt komið þegar vinnu var hætt um kvöldið. Næsta dag var haldið áfram þar sem frá var horfið en þegar nokkuð var lliðið á daginn þurfti lóðareigandinn að bregða sér frá. Varð það að samkomulagi að ýtustjórinn lyki verkinu en húsbyggjandinn tók honum vara fyrir því að fara of nærri hólnum.
Ekki hafði ýtustjórinn verið lengi að er honum varð það á að bakka utan í hólinn. Stöðvaðist jarðýtan þar við hólinn og bilaði vél hennar svo að ekki var hægt að koma henni í gang. Kallaði stjórnandi ýtunnar til viðgerðarmenn sem komu þar á staðinn. Eftir að hafa skoðað vélina voru viðgerðarmennirnir sammála um að bilunin væri mikil og alvarleg. Var því kallað á dráttarvagn og ýtan færð á verkstæði til viðgerðar.
Þegar húsbyggjandinn hafði lokið verkum sínum í bænum og kom á staðinn sá hann enga jarðýtu og greinilegt var að ekkert hafði þokast við bygginguna síðan hann fór. Segir ýtustjórinn honum hvernig komið er og verður húsbyggjandinn óánægður með gang mála. Fara þeir saman á verkstæðið. Þegar þangað kom sneri húsbyggjandinn sér að ýtustjóranum og bað hann að setjast í ýtuna og kanna hvort hún færi ekki í gang. Þrátt fyrir vantrú sína verður ýtustjórinn við óskinni og ræsir vélina. Við það hrekkur hún í gang eins og ekkert hafi í skorist. Urðu menn þá mjög undrandi en þó mest viðgerðarmennirnir sem höfðu skoðað ýtuna.
Er nú aftur farið með ýtuna út að Einbúa þar sem framkvæmdum er haldið áfram. Reyndist hún þá í góðu lagi. Fór lóðareigandinn aldrei frá verkinu eftir það og urðu upp frá því engin vandræði. Þóttust menn vissir um að íbúi hólsins hefði hér átt hlut að máli og séð til þess að Einbúinn fengi að standa óhreyfður.
Víghólar
Víghólar voru friðlýstir sem náttúruvætti árið 1983. Þeir eru í um 70 m hæð yfir sjó og er víðsýnt af þeim. Víghólar eru jökulsorfnar grágrýtisklappir með ávölum hvalbökum og jökulrákum sem bera vitni um legu og skriðstefnu jökulsins sem lá yfir Kópavogi fyrir um tíu þúsund árum. Bergið tilheyrir yngri grágrýtismyndun Íslands, en þær jarðmyndanir runnu einkum sem dyngjuhraun á hlýskeiðum ísaldar fyrir um 100.000– 700.000 árum. Upptök grágrýtisins í Víghólum eru óviss, en gætu verið á Mosfellsheiði. Aldurinn er líklega 300.000–400.000 ár. Af hvalbökum og jökulrákum á Víghólum má ráða að jökullinn sem síðast gekk yfir Kópavog hafði stefnuna NV-SA. Líklega hafa ísaskil jökulsins legið austan Bláfjalla og skriðjöklar gengið frá honum bæði út í Faxaflóa og niður í Ölfus.
Kórsnesormurinn
Skammt undan ysta odda Kársness er sker sem vel má greina þegar fjarar. Sögur eru til sem segja frá miklum ormi er bjó í skerinu. Lá hann þar á gulli og beit í sporðinn á sér. Mun skerið hafa verið nokkru stærra og meira en nú er og hafi þá frekar talist hólmi. Hólmi þessi var heimili ormsins en þar hélt hann til í hellisskúta einum sem kallaður var kór. Þar lá hann ófrýnilegur mjög og gætti fjársjóðs síns.
Sagt er að nesið allt hafi verið kennt við kór þennan. Hafi það því ekki alltaf verið nefnt Kársnes heldur kallað Kórsnes. Þá var oftar en ekki talað um kórinn í nesinu.
Nú er Kórsnesið/Kársnesið horfið undir landfyllingu – og sennilega hvílir ormurinn undir henni.
Sjá meira HÉR og HÉR.
Heimild m.a.:
-http://www.ismennt.is/
-http://www.kopavogur.is/
Á nýlegri landakortum er Sandakravegur sýndur liggja frá Drykkjarsteinsdal í austri, með vestanverðu Fagradalsfjalli til norðurs og síðan niður á Skógfellastíg úr Fagradal um Aura. Veginum var fylgt norður með Borgarfjalli, um Nátthagakrika, framhjá Einbúa og að Kastinu með viðkomu í Selskál, Borgarhraunsréttinni og Borgarhraunsborg.
Þegar gengið var af gömlu þjóðleiðinni frá Grindavík til Krýsuvíkur vestast í Drykkjarsteinsdal má sjá djúpa gróna holu innan við hraunkantinn. Þarna gæti hafa verið vatnsstæði eða brunnur. Erfitt er að greina götuna að ráði fyrr en komið er inn fyrir Borgarfjallið, en þegar komið er í Nátthagakrika fer að móta vel fyrir henni. Sunnan við Einbúa er gatan mjög skýr. Kastað hefur verið upp úr henni á kafla, auk þess sem hlaðin gerði eru á tveimur stöðum við götuna.
Haldið var inn í Selskálina og hún skoðuð.
Ekki var að merkja nein mannvirki í skálinni, enda hefur orðið þarna mikil jarðvegseyðing. Þó er á einum stað vel grasi gróið svæði, en ekki var gott að merkja á bakka, sem þar, hvort hann væri náttúrulegur eða gæti verið hluti af einhverju mannvirki.
Gengið var til suðvesturs með vesturbrún hraunkants. Utan í honum eru grasi grónar brekkur og bollar. Hlaðinn stekkur er þar utan í bakkanum, en við leit fundust ekki önnur sýnileg mannvirki. Þó er líklegt að þau kunni að leynast þarna ef vel væri að gáð.
Stefnan var tekin til suðurs inn á hraunið, að Borgarhraunsréttinni, sem kúrir þar heilleg undir suðurjaðri hraunsins. Sumur hafa viljað nefna réttina eftir Ísólfsskála þar sem hún er í hans landi, en Skálamenn þekkja ekki slíka nafngift.
Gengið var áfram til suðurs, að Borgarhraunsborg. Um er að ræða stóra fjárborg á grónum hraunhól. Hún er í rauninni í Litla-Borgarhrauni, skammt frá mynni Drykkjarsteinsdal.
Nafnið Selskál bendir til selstöðu og þá væntanlega frá Ísólfsskála. Stekkurinn í hraunkantinum gæti hafa verið hluti af henni. Nátthagakriki er enn ein vísbendingin og einnig Nátthagi skammt austar í Fagradalsfjalli.
Hugsanlega gæti gatan þar sem hún sést svo vel í krikanum og undir Einbúa einnig hafa verið hluti af selsstígnum. En hvað sem öllum vangaveltum líður fæst sennilega seint úr því skorið. Þetta svæði er hins vegar hið ákjósanlegasta göngu- og útivistarsvæði og margt að skoða.
Frábært veður. Gangan tók 2 klst og 22 mín.
Stefnan var tekin á Bæjarsker. Með í för var Reynir Sveinsson frá Sandgerði, en hann þekkir vel til staðhátta á svæðinu. Ætlunin var að reyna að leita uppi og staðsetja nokkur örnefni, s.s. Krossbrekkur.
Stefnan var tekin á Bæjarsker. Með í för var Reynir Sveinsson frá Sandgerði, en hann þekkir vel til staðhátta á svæðinu. Ætlunin var að reyna að leita uppi og staðsetja nokkur örnefni, s.s. Krossbrekkur, Kampstekk og Einbúa. Við leitina kom ýmislegt óvænt í ljós. T.a.m. uppgötvaðist áður óþekkt selstaða, auk þess sem örnefndin Krossbrekka (-ur) og Kirkjuklöpp virðast gefa til kynna kirkju fyrrum á Bæjarskerjum.
Kampstekkur, sem er skammt ofan við Stafnesveg sunnan Setbergs, hefur einnig verið nefndur Kambstekkur. Um er að ræða jarðlægar grónar tóftir, sem þó má enn sjá lögun á.. Kampstekkur hefur einnig verið nefndur Kambstekkur.
Í Gráskinnu I er getið um Krossbrekku: „Þegar Þórunn Gísladóttir yfirsetukona var 14 ára, var hún hjá foreldrum sínum á Býjaskerjum á Miðnesi. Í túninu þar var klettur nokkur sem kallaður var Krossbrekka. Var það trú manna að þar byggi huldufólk. Til marks um það má segja að bóndinn á næsta bæ, Bárugerði, þóttist eigi sjaldan sjá konu bregða fyrir uppi hjá klettinum. Sýndist honum kona sín vera að hirða þar þvott; en þegar til kom, reyndist það missýning. Kýr þeirra hjóna, sem var hæluð upp við klettinn, var eigi sjaldan þurrmjólkuð að kvöldi og vissi enginn nokkurar líkur til að það væri af manna völdum. Gat er vestan á klettinum og hugðu menn það dyr vera. Þórunn og systkini hennar voru oft um þessar mundir á órökuðum kópskinnsskóm. Einn morgun, er hún vaknar, saknar hún annars skós síns og þótti skaði, því að hann var nýr. Leitað var að skónum en hann fannst eigi; var það kennt vanhirðu Þórunnar að hún hefði látið hunda nema skóinn burt en hana minnti statt og stöðugt að hún hefði bundið skóna saman og hengt þá við rúmstokkinn um kvöldið.
En þessa sömu nótt og skórinn hvarf dreymdi Þórunni að til hennar kæmu tvær stúlkur á hennar reki. Báðu þær hana að koma út með sér. Hún þóttist klæða sig og binda upp á sig skóna og fara með þeim. Þegar út kemur biðja þær hana að koma með sér upp að Krossbrekku. Leiða þær hana síðan að gati því er nefnt hefur verið og var á klettinum og biðja hana að koma inn, það liggi mikið við.
Þórunn er treg til þess, því að hún hafði verið hrædd á klettinum. En svo fer að hún lætur til leiðast. Dettur henni þá í hug að hún hefði heyrt að vissara væri, þegar gengið er inn til huldufólks að skilja eftir eitthvað af sér utan dyra. Þykir henni því að hún leysi af sér annan skóinn og skilji hann eftir fyrir utan klettinn. Þegar inn kemur sér hún að þar liggur kona á gólfi. Fer hún höndum um hana og innan skamms verður konan léttari. Að því búnu mælti konan: „Nú máttu fara; ég ætla ekki að borga þér þetta neitt því að ekki er víst að hverju gagni þér kæmi það en vísast er að þér heppnist vel að hjálpa konum.“
Reyndar komi tveir staðir til greina sem Krossbrekkur, annars vegar óll í túninu sem fyrr sagði og hins vegar gróinn brekka í túnjaðrinum suðaustanverðum. Þar eru tvær tóftir, útihús. Ósennilegt er að reist hafi verið mannvirki í brekkunni vegna álaganna, sem á henni hvíldu. Því kom fyrrnefndi staðurinn umfram hinn betur til greina og var hóllinn staðsettur þar.
Í örnefnalýsingu fyrir Bæjarsker segir m.a. um Kampastekk og Einbúa: „Þá er Bæjarsker II. Það er nyrðri bærinn. Er þá bezt að byrja neðst, og er þar Undirlendi, framhald af því, sem fyrr var getið. Upp af því er laut niður í túni, sem heitir Forarlág. Þá er Garðalág.
Norðan við Bárugerðismerkin heim að tjörn eru Rústir. Þetta eru fjárhús eða bæjarrústir. Þar er tjörn, sem heitir Vesturbæjartjörn. Austur af bænum er laut, sem heitir Lögrétta, og þar austur af er Önnugerði, sem er garður, sem einhver hefur haft. Þar austur af er Austurtún. Norðan við það er Krossbrekka. Norðan undir fjárhúsum suðaustan við tjörnina vestan við fjárhúsin er Beinrófa. Ofan við túnið upp að vegi eru klappir, sem heita Byrgi.
Norðan túns er nafnlaus sandur, nema eitt sker í sandinum heitir Brynkasker. Svo er Bárugerði, sem er stytt úr Báreksgerði. Ofan við túnið er kúagerði. Þar eru klettahólar við túngirðinguna, Hesthúshóll og Grásleppuhóll. Norðan við Báruhól eru tvö nýbýli, Vinaminni og Reynistaður. Innar er nýbýlið Sólbakki. Þetta svæði var nefnt Hálönd og nær inn að merkjum og upp að vegi.
Nú er að flytja sig upp fyrir veginn. Fast niður við veg rétt norðan við merkin er Kampastekkur. Þar upp af eru lautir og skorningar, sem nefndir eru Gil. Ofan þeirra er klettahóll, sem nefndur er Einbúi og ekki er vert að snerta við.“
Skammt vestan við Einbúa mátti sjá leifar af fjárborg á lágum hól. Sunnan við Einbúa er Leirdalur. Norðvestan við Einbúa er gróinn stekkur. Á hólnum er gróin varða, sennilega Neðrivarða. Ofar í heiðinni er Efrivarða, að öllum líkindum selvarðan, enda kom í ljós seltættur suðvestan undir Einbúa. Varðan ber við himinn efst á brúnum og sést vel frá Bæjarskerjum. Hins vegar fellur Neðrivarðan inn í brúnirnar og er mun erfiðara að sjá hana frá bænum.
Gengið yfir að Álaborginni og önnur selstaða frá Bæjarskerjum skoðuð nánar.
Heimildir:
-Gráskinna I, 181, Sigfús VIII 251.
-Örnefnalýsing fyrir Bæjarsker.
„Einbúi er hóll austan í Digraneshálsi. Um hólinn lágu landamerki jarðanna Breiðholts, Bústaða, Digraness og Fífuhvamms. Í hólnum sjást leifar tilhöggvinna grágrýtissteina sem ætlaðir voru í undirstöður undir járnbraut sem fyrirhugað var að leggja þar sem Reykjanesbrautin liggur nú. Um var að ræða atvinnubótavinnu á kreppuárunum.
Talið er að í hólnum hafi búið álfur eða huldumaður. Því til stuðnings er eftirfarandi frásögn frá því þegar verið var að grafa fyrir grunni á aðliggjandi lóð.
Þegar verið var að grafa fyrir húsgrunni á lóð við hólinn Einbúa var húsbyggjandinn beðinn að fara ekki nálægt hólnum. Það vildi samt svo óheppilega til að jarðýtustjórinn bakkaði að hólnum en í því draps á vélinni. Það var sama hvað hann reyndi, ýtan vildi ekki í gang aftur og var flutt á verkstæði. Þar varð þó ekkert um viðgerðir því ýtan rauk í gang í fyrstu tilraun.“
FERLIR hafði að þessu sinni það verkefni að leita uppi, staðsetja og teikna upp Kárastaðakot í fyrrum Þingvallasveit. Auk þess var ákveðið að skoða grjóthlaðna rétt ofan Brúsastaða.
Í Örnefnalýsingu Guðbjörns Einarssonar, bónda á Kárastöðum segir m.a. um Kárastaði og Kárastaðakot:
„Miðsvæðis í Þingvallasveit, vestan vatns, er jörðin Kárastaðir. Hún liggur milli jarðanna Brúsastaða að austan, Skálabrekku að vestan og Þrándarstaða í Kjós að norðan, en takmarkast af Þingvallavatni að sunnan.
Kárastaðaás er misgengi ofan við bæinn og liggur frá suðvestri til norðausturs. Á honum eru Háás og Lágás. Á ská upp ásinn liggur Sniðgata, og vestar á honum heitir Jarðfall. Austan til á Háásnum er stór steinn, líkur húsi í laginu, og heitir hann Álfasteinn.
Vestarlega undir Kárastaðaás er Nónmelur og Mógrafir. Gildrubrekkur liggja ofan við Kárastaðaás. Þar voru settar steingildrur fyrir refi í gamla daga. Suður undan Gildrubrekkum austan til er Þvergil, en vestur af þeim er Sæmundarflöt, og enn vestar Rjúpubæli. Ofan við Gildrubrekkur er Sandskeið. Norðvestur af Sandskeiði eru hvammar tveir, Hlíðarhvammur og Götuhvammur. Um Götuhvamm lá leiðin, þegar farið var með heybandslest úr Sökk, en það er mýrarslakki með fúamýri í. Selskarð er þar vestar. Um það var farið, þegar farið var í Selið, sem stóð í Selgili, og má enn sjá tóftirnar af Selinu.
Dalurinn milli Kárastaðahlíðar og Selfjalls heitir Lækir. Suður undan Selfjalli er dalkvos, sem heitir Skál, og skammt þar frá er Markagil, en þar eru mörkin milli Kárastaða og Brúsastaða.“
Hér að framan er ekkert minnst á Kárastaðakot.
Í skýrslu um „Lagningu jarðstrengs á Suðurlandi, deiliskráning… (Fornleifastofnun 2019) segir m.a. um Kárastaði:
„1570: Í máldaga frá árinu 1570 (og síðar) eru Kárastaðir eign Þingvallakirkju. DI XV, 644.
1695: Eign Þingvallakirkju og jarðardýrleiki 16 hdr. BL, 116.
1711: Jarðardýrleiki óviss. Jörðin átti þá afrétt með Grímsnesingum í Skjaldbreiðurhrauni. Eyðibýli: Kárastaðakot. JÁM II, 369.“
Hér að framan er sem sagt getið um Kárastaðakotið.
Í „Kortlagningu eyðibyggðarinnar á Þingvöllum segir Gunnar Grímsson í B.A-ritgerð sinni í fornleifafræði árið 2020 frá Kárastaðakoti:
„Kárastaðir og Kárastaðakot
Tæpum þremur kílómetrum norðaustan Skálabrekku eru Kárastaðir, sem eru enn í byggð í dag. Kárastaðabændur stunduðu seljabúskap í Seldal, suðvestan bæjarins og var það einfaldlega nefnt Selið („Kárastaðir“, e.d., bls. 3). Eyðihjáleiga Kárastaða, Kárastaðakot, var byggð upp úr stekk bæjarins milli 1685–1691 (JÁM II, bls. 369). Mögulegar rústir Kárastaðakots sáust á loftmyndum Samsýnar í október 2019 fyrir tilviljun við skrásetningu leiða á Þingvöllum. Rústirnar hafa ekki verið heimsóttar á vettvangi og frekari rannsókna er þörf til að ákvarða hvort þær séu í raun bæjarstæði. Rústirnar, sem eru mitt á milli Kárastaða og Brúsastaða, eru sambyggðar og þeim svipar nokkuð til Bárukots í útliti. Kárastaðakot og Bárukot voru byggð og fóru í eyði á sama áratugnum.“
Í Lögréttu 1919 er fjallað um Þingvelli við Öxará. Þar segir m.a.: „12. Kárastaðakot var bygt úr Kárastaðalandi um 1685. Þar var búið í 6 ár, svo lagðist það í eyði.“
Við vettvangssskoðun á tóftum Kárastaðakots var ljóst að um örkot var að ræða; húsakostur var þröngur; búr, baðstofa og útistandandi eldhús. Framan við kotið var fjárskjól og utan í því sauðakofi. Ofar var matjurtargarður og varða austar efst á mel. Neðar voru eldri minjar, greinilega stekkur. Minjarnar staðfestu framangreinda lýsingu um að kotið hafi verið byggð upp úr stekknum. Fjölmargar lýsingar eru um slíkt á Reykjanesskaganum í gegnum tíðina.
Þá var haldið að Brúsastöðum með það fyrir augum að finna, staðsetja og teikna Brúsastaðaréttina undir Réttarhól (Einbúa).
Í Örnefnalýsingu fyrir Brúsastaði segir Haraldur Einarsson, fæddur á Brúsastastöðum, m.a.:
„Þar austur undir á er Einbúi, stakur hóll. Áin beygir nú, og þar er annar hóll, sem réttin er við. Hann var ekki kallaður neitt. [Hann heitir reyndar Réttarhóll.] Kallaður er Albogi í beygjunni á ánni. Þar eru klettabelti og skriður.
Vestan við bæ er sagður gamall kirkjugarður. Þar er hringmyndaður kragi og þýft inni í. Í hringnum eru þrjár lautir, ein stærst. Enginn vildi hrófla við þessu, og hefur það ekki verið sléttað. Einu sinni átti að slétta utan í þessum kraga, en þá var komið niður á stein-hleðslu, líkt og tröppur, og var þá hætt við. Blótsteinn er stór og mikill steinn, þar sem gamli bærinn stóð, vestan við kálgarð. Í hann er klöppuð skál.“
Augljóst má telja að framangreindur hóll vestan Brúsastaða er forn grafreitur. Skálalaga tóft í honum er mögulega hoftóft sú, sem fjallað hefur verið um, þrátt fyrir villandi örnefnin umleikis. Áhugaverður vettvangur fyrir fornleifafræðinga framtíðarinnar.
Gömlu bæjarhúsin á Kárastöðum voru friðlýst af forsætisráðherra 16. júlí 2014 með vísan til 3. mgr. 18. gr. laga nr. 80/2012 um menningarminjar. Friðlýsingin tekur til ytra borðs, sambyggðs hlaðins útihúss og upprunalegra innréttinga gamla íbúðarhússins.
Á vef Minjastofnunar segir: „Gamla íbúðarhúsið að Kárastöðum hefur varðaveislugildi sem mjög gott dæmi um steinsteypt sveitahús í burstastíl eftir Jóhann Fr. Kristjánsson húsameistara. Það stendur á áberandi stað og blasir við helstu aðkomuleið að þjóðgarðinum á Þingvöllum. Í grein sem birtist í Samvinnunni 1925 er fjallað um uppdrátt af Kárastaðahúsinu og það nefnt sem fyrirmynd framtíðarbygginga á Þingvöllum í þjóðlegum anda, Þingvallabæjarins og Hótel Valhallar. Húsið var teiknað og byggt sem sveitaheimili og gistihús og þjónaði lengi sem slíkt auk þess að vera samkomustaður sveitarinnar. Kárastaðahúsið er eitt örfárra gistihúsa þessarar gerðar sem varðveist hafa.“
Framangreind friðlýsing er einungis ein af fjölmörgum vitlausum er ráðamönnum hefur verið boðið upp á í seinni tíð, án tæmandi útskýringa.
Heimildir:
-Brúsastaðir – Örnefnalýsing; Haraldur Einarsson 1981.
-Lögrétta, 14. árg. 19. tbl. 07.05.1919, Þingvellir við Öxará, bls. 67.
-Kortlagning eyðibyggðarinnar á Þingvöllum… Gunnar Grímsson, B.A-ritgerð í fornleifafræði 2020.
-Ragnar Lundborg Jónsson, bóndi á Brúsastöðum.
-Lagning jarðstrengs á Suðurlandi, deiliskráning…Fornleifastofnun 2019.
-https://www.minjastofnun.is/hus-og-mannvirki/fridlyst-hus-og-mannvirki/sudurland/nr/1255