Færslur

Strandardalur

Sagan segir að séra Eiríkur á Vogsósum, mesti galdraprestur, sem uppi hefur verið, hafi komist yfir mestu galdrabók allra tíma; Gullskinnu. Til að koma í veg fyrir að bókin kæmist í hendur óvandaðra manna gróf hann hana í Kálfsgili undir Urðarfelli ofan Strandardals. Þar átti bókin að bíða þess að einhver þyrfti hennar nauðsynlega við til góðra verka. FERLIR fann bókina fyrir skömmu áður en henni var ætlað að hverfa undir urðina í jarðskjálfta er reið yfir í þá mund er hönd var á hana fest.

Strandardalur

Í Strandardal.

Sögnin um bókina er í Þjóðsagnasafni Jóns Árnasonar. Þar segir að “einhverju sinni kom skip á Eyrarbakka; var þar á skipherra er leit út fyrir að vera þar eigi allur er hann var séður.
Meðal annars flutti hann á land brennivínsámu er á voru tvær tunnur og bauð hann hvorjum er bæri ámuna inn í sölubúð brennivínið af henni. Gengu þá margir að og vildu freista þess, en enginn gat látið renna vatn undir hana.
Þá gekk að maður er Jón hét, sterkligur og fílefldur; hann tók ámuna og bar inn í sölubúð. Stýrimaður roðnaði fast og mælti að hann skyldi finna hann að sumri.” Gekk svo á viðskiptum þeirra tvo vetur til viðbótar. Enda þau með því að stýrimaður “verður nú reiðastur og segir honum að koma út á skip með sér. Leggur hann þá Jóni á herðar að sækja bók sem væri sama í og þeirri er hann ætti, en bókinni lauk hann upp sem snarast hann kunni og lét strax aftur. Fékk Jón eigi annað að sjá og fer með það.
Ræður faðir hans honum að finna Eirík prest á Vogsósum. Tappar hann þá tvö anker af tunnunni og heldur með það út að Vogsósum; gefur hann Eiríki presti annað ankerið.
Eiríkur spyr hann að: “Hvað er þér á höndum ljúfurinn minn?”
Jón segir honum málavöxtu alla. Eiríkur prestur spyr hann hvort hann muni eftir nokkru letri er á henni var eða geti myndað stafi eftir þeim er í henni voru. Jón kveðst það mundi kunna, og er prestur sér stafina mælti hann:

Krýsuvík

Krýsuvíkurkirkja.

“Það hefur verið sú hin versta galdrabók sem til er og mun þér þungt veita að ná henni, en þú verður hérna í nótt.”
Að morgni fær prestur honum bréf og segir honum að ganga beint á Svörtubjörg er standa spölkorn fyrir norðan Hlíð, bóndabýli í Selvogi; muni hann svo um sjá að hann hitti þar kotbæ; (enn sést móta fyrir bæ þessum) skuli hann þar heim ganga og fá bónda bréfið.
Jón gerir sem prestur býður honum; kemur hann að bænum og hittir þar konu aldraða og stúlku; aldraðan mann sér hann þar og, og fær Jón honum bréfið. Kall biður hann inn ganga.
Er hann hafði lesið bréfið sagði hann: “Sízt hugða eg að Eiríkur prestur vildi mig feigan. Þó skaltu dvelja hér í vetur, en ég mun eigi heima verða, og máttu mig feigan telja verði ég ei kominn á enn fyrsta sumardag.”
Líkar Jóni þar vel og koma þau bóndadóttur sér vel saman. Á sumardagsmorguninn fyrsta kom karl. Fékk hann Jóni bókina og bréf með til Eiríks prests. Kvaðst hann þann vetur í þyngstar þrautir komið hafa; hefðu þrjár álfkonur geymt bókina í undirheimum og haft að leik að henda henni milli brjósta sinna.
Segir hann honum og að dóttir sín sé eigi heilbrigð og muni það vera af hans völdum. Sagðist hann vilja að hann kæmi til sín alfarinn er hann hefði bókinni skilað. Játaði Jón því og heldur síðan niður að Vogsósum.

Eiríksvarða

Eiríksvarða á Arnarfelli.

Fær hann Eiríki presti bréf kalls og bókina. Verður Eiríkur honum feginn og segir hann Jóni að hann hafi hjá álfafólki dvalið þann vetur. Segir hann Jóni að henda bókinni í brjóst stýrimanni er hann komi í land af skipinu.
Síðan heldur Jón austur á Eyrarbakka og bíður þess að skipið kemur; og er stýrimaður rær í land bát sínum rær Jón á móti honum og sendir bókinni á brjóst honum svo stýrimaður fellur aftur á bak í sjóinn og varð eigi bjargað. En með styrk Eiríks prests kemur bókin aftur í höndur Jóni og gefur hann hana Eiríki presti og heldur síðan til kallsins og hefur eigi síðan af honum spurzt.”

Þessi galdrabók var færð í íslenskt letur á 17. öld. Höfundur er sagður vera ókunnur. Þá voru menn brenndir á báli fyrir galdra. Handrit þetta er merkasta heimild sem til er um galdra eins og þeir voru iðkaðir á 17. öld. Raunar á þetta handrit sér enga hliðstæðu í Norður-Evrópu enda var slíkum ritum tortímt eftir fremsta megni á galdratímanum. Handrit þetta sýnir svo ekki verður um villst að hin forna heiðni hefur varðveist fram eftir öldum, og beðið síns vitjunartíma, 17. aldar, en þá brýst forneskjan fram af fullu afli hér á landi í formi galdraskræðna sem bárust frá manni til manns þrátt fyrir boð og bann – brennubækur á brennutíð. Hér opnast mönnum heillandi heimur heiðni, rúna og goðsagna, og svo hugarfar sem lifði í andstöðu við kristnina öldum saman. Svona bók var sálumorð og eldsvoði að mati yfirvalda, þetta voru bannlýst og hættuleg fræði. Sá sem fór með slíka bók var vítisverð eldsfæða; og hann uppæsti reiði Guðs sem sökkt gat landinu líkt og blýhnetti í botnlaust djúp ef ekkert var við gjört. Engu að síður var fátt eftirsóknarverðara en galdrabókin, uppspretta máttarins. Fábrotnari afrit voru til, s.s. gráskinna séra Þorkels og rauðskinna Gottskálks biskups.

Eiríksvarða

Eiríksvarða á Svörtubjörgum.

Galdrabókin er ekki þjóðsaga eða tilbúningur seinni tíma, heldur er hún safn galdratækja, raunveruleiki, sem fólk hætti lífi sínu fyrir. Þessi bók var lífsháski. Hér má sjá fordæðuskap eins og hann var verstur, dauðagaldur sem lýsir hryllingi og öfgum; en á báðar síður er fjölkynngi sem snýr að vandamálum daglegs lífs, reynt er að verjast sjúkdómum, slysum, illum vættum og óvinum; og hér fléttast saman hefðir úr norrænni heiðni, kaþólskri kristni og kabbalískri dulspeki. Bókin er að þessu leyti miklu merkilegri en aðrar skræður sem varðveist hafa frá 16. og 17. öld, brotakenndar og smáar að vöxtum. Þær innihalda ekki svartan galdur eða fordæðuskap líkt og þessi bók sem er einstök í sinni röð.
Saga Galdrabókarinnar er bæði óljós og einkennileg. Sennilega hefur hún verið skrifuð í byrjun 17. aldar. Annarsvegar eru bænarþulur þar sem æðri máttarvöld eru kölluð til aðstoðar þeim sem galdrar. Hinsvegar eru særingar eða formúlur sem byggjast á mætti galdramannsins sjálfs. Kraftur þeirra vaknar við sniðbundið tal, mæltan eða skrifaðan texta, eða þá stafagerð sem stundum tengist táknrænni athöfn. Í nokkrum tilvikum er notast við kristilegt táknmál, s.s. ritningarstaði; heitið er á heilaga þrenningu, postula og engla. Þessar þulur eiga sér kaþólskar fyrirmyndir en blandast iðulega saman við syrpur af kabbalískum toga. Stundum er kristilegu táknmáli steypt saman við heiðinn galdur, einkum er líður á handritið, en það bendir til að kaþólsk orðræða hafi orðið hættulegri með tímanum, og um leið hentugri til notkunar í göldrum.

Heimild m.a.:
-Þjóðsagnasafn Jóns Árnasonar.

Strandardalur

Strandardalur.