Færslur

Kristnitökuhraun

Í Lesbók Morgunblaðsins árið 2000 fjallar Gísli Sigurðsson um “Hugmyndir og kenningar um Kristnitökuhraunið“.

KristnitökuhraunVegna þess að Kristnisaga hefur eftir sendiboða að hraunið „mundi hlaupa á bæ Þórodds goða” töldu menn að hér væri sagt frá framrás Þurárhrauns eða Eldborgarhrauns, nokkru vestar, sem bæði runnu niður af hlíðinni ofan Ölfuss. En bæði þessi hraun eru eldri en 1000 ára og Kristnitökuhraunið er nú talið vera á öðrum slóðum.

“Á umliðnum öldum og þá ekki sízt nú á þúsund ára afmæli kristni á Íslandi hafa margsinnis verið rifjuð upp merkileg orðaskipti á Alþingi árið 1000 þegar tekizt var á um hvort heiðinn siður skyldi víkja fyrir hinum kristna. Í nýrri bók, Frumkristni og upphaf kirkju, segir Hjalti Hugason svo um stórmerki á þingtíma: „Í frásögn sinni af kristnitökunni heldur Ari fróði sigalfarið við störf manna á alþingi þetta sumar. Ýmsir þættir kristnitökusögunnar eins og hún er almennt þekkt nú á dögum koma því ekki fyrir í þessari elstu útgáfu hennar. Þar á meðal er sagnstefið um eldsumbrot í Ölfusi.
KristnitökuhraunÍ núverandi mynd kemur það fyrst fram í Kristnisögu frá 13. öld. Þar segir að þegar Gissur og Hjalti luku máli sínu á Lögbergi hafi svo mikill ótti gripið andstæðinga þeirra að þeir hafi ekki árætt að andmæla þeim. Sögðu kristnir menn og heiðnir því næst upp friði sín í milli. Má ætla að sú ógn, sem þannig var upp komin, hafi þó aðeins verið forsmekkur þess sem koma skyldi, en sagan heldur áfram: Þá kom maður hlaupandi, og sagði, aðjarðeldur var upp kominn í Ölfusi, og mundi hann hlaupa á bæ Þórodds goða. Þá tóku heiðnir menn til orðs: „Eigi er undur í að guðin reiðist tölum slíkum.” Þá mælti Snorri goði: „Um hvað reiddust guðin þá, er hér brann hraunið, er nú stöndum vér á”.

KristnitökuhraunBer tvímælalaust að skilja atvik þetta sem eitt af þeim stórmerkjum sem fylgdu kristnitökunni að sögn ýmissa miðaldarita og sýndu að kristnitakan fól í sér úrslitaátök illra og góðra afla tilverunnar.
Athyglisvert er að í þetta sinn er sú túlkun sett fram út frá sjónarhorni heiðinna manna. Hér er á ferðinni eina atvik kristnitökusögunnar sem mögulegt er að styðja ytri rökum, en Kristnitökuhraun á vestanverðri Hellisheiði rann einmitt um þetta leyti. Því kann hér að vera um forna sögn að ræða.”

Kristnitökuhraun

Hellisheiðarhraun.

Bókarhöfundurinn fer frjálslega með staðhætti þegar hann segir Kristnitökuhraun vera á vestanverðri Hellisheiði, að minnsta kosti teygir hann Hellisheiði lengra vestur á bóginn en gott og gilt getur talizt.

Hellisheiði

Hellisheiði – kort.

Ég hygg að sú skilgreining hafi verið til lengi og ekki breytzt neitt nýlega, að Hellisheiði nái frá Kambabrún að austan að Hveradölum og Reykjafelli að vestanverðu. Hverahlíð sé í suðurmörkum heiðarinnar, en Skarðsmýrarfjöll að norðanverðu. Það er fyrst þegar komið er niður úr brekkunum við Hveradali og hálfa leið að vegamótunum suður í Þrengsli að komið er út á Svínahraunsbruna, sem fullvíst má nú telja að sé Kristnitökuhraunið. Þjóðvegurinn liggur síðan á þessu hrauni 10-12 km. Þetta er hluti þeirra hrauna sem tíðkast hefur að nefna Svínahraun, en jarðfræðingar nefna það Svínahraunsbruna. Með mælingum hefur verið staðfest að hraunið rann fyrir um 1000 árum.

Kristnitökuhraun

Svínahraun.

Ekkert annað hraun rann á þessum slóðum um svipað leyti svo það er nokkuð ljóst að sendiboðinn á Alþingi hefur verið að segja frá þessum jarðeldi. Það hefur hinsvegar verið nokkuð frjálslega með farið, en þjónað tilganginum, að gefa til kynna hættu á bæ Þórodds goða, hvort sem hann bjó á Hjalla eða Þóroddsstöðum. Enda þótt meginhluti hraunsins dreifðist til norðausturs frá eldstöðinni náði angi hans suður í Þrengslin. Hefur þá með góðum vilja mátt segja að hann stefndi suður í Ölfus og á bæ goðans.

Leiti

Gígurinn Leiti (á miðri mynd) austan Bláfjalla. Lambafellshnúkur fjær.

Gosið árið 1000 varð á vestara sprungusvæðinu, sem svo er nefnt, og liggur nokkurnveginn samhliða Bláfjöllum að austanverðu. Þar varð stórgos fyrir 4.600 árum í Leitinni, gíg sem er alveg upp við fjallshlíðina og hefur með tímanum fyllst af framburði úr hlíðinni.

Leitarhraun

Leitarhraun – kort.

Leitarhraun rann bæði suður á bóginn, líklega allt til Ölfusárósa, einnig yfir stór flæmi til norðausturs og kvísl úr því rann undan hallanum til vesturs, nokkurnveginn nákvæmlega þar sem Suðurlandsvegurinn liggur, og allt niður í Elliðaárvog.
Sprungusvæðið austan við Bláfjöll hafði að líkindum ekki látið á sér bæra í 3.600 ár þegar upp kom jarðeldur árið 1000 í miðju hrauninu milli Bláfjalla og Lambafells. Þeim sem ekki eru með einstök fjöll og örnefni á hreinu skal bent á að vegamótin suður í Þrengsli eru við Lambafell og fellið þekkist af stóru sári vegna umfangsmikillar efnistöku sem varla fer framhjá vegfarendum.

Vestan og norðvestan við Lambafell urðu til tvær eldstöðvar, Nyrðri- og Syðri-Eldborg. Sú nyrðri sést tilsýndar af veginum í Svínahrauni og þangað liggur stórgrýttur og illfær vegarslóði, en til hvers skyldi hann hafa verið lagður í svo úfið hraun?

Kristnitökuhraun

Eldborgir efst í Svínahrauni.

Það sést þegar komið er nær eldstöðinni. Þar er svöðusár austan í henni eftir efnistöku, hreinn barbarismi og skaði sem ekki er hægt að bæta. Austur frá Nyrðri-Eldborg er á alllöngum kafla mikilfengleg hrauntröð; svo djúp að í henni eru ennþá fannir.

Hellisheiði

Hellisheiðargígar (1900 ára gamlir) – nú gjallhraukar vegna efnistöku. Myndin er frá 1982.

Milli Eldborganna tveggja eru á að giska 4 km. Syðri-Eldborg er aðeins um 2 km frá Leitinni; gosið úr henni kom eitthvað örlítið síðar, það sést á hraunstraumnum.
Kristnitökuhraunið, eða Svínahraunsbruni, sem nú er talið víst að sé úr þessum eldstöðvum, dreifðist undan hallanum norðaustur með Lambafelli og er gífurlega úfið og illt yfirferðar á köflum; samt vaxið þykkum grámosa sem tekur oft á sig gulan lit þegar hann vöknar. Til suðurs rann hraunið sáralítið nema kvísl sem rann fyrir hornið á Lambafelli, út í Þrengslin, yfir eldra hraun úr Hellisheiðareldstöðinni ofan Hveradala, og hefur þá lokað alfaraleið yfir heiðina um Þrengslin. En mest dreifðist hraunrennslið árið 1000 yfir Leitarhraunið til norðausturs, þó ekki nema 2-3 km austur og norðaustur af veginum í Svínahrauni.
Danski fræðimaðurinn Kristian Kálund ferðaðist um Ísland á árunum 1872-74 og gaf síðan út bók um íslenzka sögustaði, sem Haraldur Matthíasson hefur þýtt. Kálund nefnir frásögn Kristnisögu um jarðeld sem ógnaði Hjalla í Ölfusi. Hann segir þar að hraunið sem stefndi á bæ Þórodds goða hafi verið Þurárhraun, sem runnið hafi út úr þröngu gili og fram af brúninni talsvert austan við Hjalla. Þar hafi það dreift talsvert úr sér á flatlendinu.
Þarna fór Kálund villur vegar, enda hafði hann engar rannsóknir til að byggja á. Þurárhraun er úr eldstöðinni ofan við Hveradalabrekkur og rann í mjóum farvegi fram með Skálafelli að austanverðu og niður af hlíðinni eins og áður er lýst.

Kristnitökuhraun

Eldborg við Meitla.

Að sögn Jóns Jónssonar jarðfræðings hefur gosið fjórum sinnum í Hellisheiðareldstöðinni á nútíma, það er síðustu 10 þúsund árin. Hraunið sem þekur hlíðina í Kömbum er þaðan ættað; annað rann suðvestur með Stóra-Meitli og niður Hveradalabrekkuna, en Þurárhraun er yngst; þó miklu eldra en Kristnitökuhraun eða Svínahraunsbruni. Eins og víðar hafa veruleg spjöll verið unnin á Hellisheiðareldstöðinni vegna efnistöku. Gígarnir, eða það sem eftir sést af þeim, eru austan undir háum rauðamalar- og gjallkollum; hrauntraðir út frá þeim til austurs. Hár gjallkollur, sá þeirra sem næstur er þjóðveginum á Hellisheiði, er þó lítt skemmdur og þyrfti að friða hann.
KristnitökuhraunÞorvaldur Thoroddsen fór um þessar slóðir 1882 og minnist í ferðabók sinni á munnmæli um að Þurárhraun sé það hraun sem Kristnisaga getur um. Þorvaldur efast um að það standist og nefnir, að hafi Þóroddur goði búið að Hjalla sé líklegra að sagan eigi við annað nýlegra hraun, komið úr Meitli. Hér á Þorvaldur við hraunið sem runnið hefur fram af hlíðinni vestan við Hjalla og liggur Þrengslavegurinn á þessu hrauni í brekkunni upp á heiðina.
Ekki er alveg ljóst hvort sá mæti maður, Þóroddur goði, bjó á Hjalla eða á Þóroddsstöðum, lítið eitt vestar, og hvort sá bær sé þá nefndur eftir honum. Hafi hann búið þar og þetta hraun steypst fram af hlíðinni sumarið 1000 hefur það verið mjög áhrifamikil bending um reiði guðanna. En sú guða reiði hafði reyndar orðið löngu áður, og hverju reiddust guðin þá? Þetta hraun sem nefnt er Eldborgarhraun eftir eldstöðinni er miklu eldra en kristni á Íslandi; það er að vísu nútímahraun, en nokkur þúsund ára gamalt. Upptökin eru í Eldborg undir Meitlum, mikilfenglegum gíg sem hlaðið hefur upp háan gígbarm að vestanverðu. Hinsvegar er gígurinn opinn mót suðaustri og liggur hrauntröð frá honum fram eftir hrauninu.

Eldborg

Eldborg í Þrengslum.

Sæmileg jeppaslóð liggur frá Þrengslaveginum sunnan undir hlíð Litla-Meitils og allar götur að eldstöðinni. Hafa menn riðlast á torfærubílum alveg upp á gígbrún, en hlíðarnar eru að utanverðu vaxnar þykkum grámosa sem þolir ekki einu sinni umgang, hvað þá ruddaskap af þessu tagi. Ofan af gígbarmi Eldborgar undir Meitlum sést vel yfir þetta hraun og allt til Þorlákshafnar, en til norðausturs yfir eystra sprungusvæðið þar sem áður nefnd eldstöð ofan Hveradala er í beinni línu. Öskulag, sem kennt er við landnám, úr gosi sem átti sér stað liðlega einni öld fyrir kristnitöku, er bæði ofaná Þurárhrauni og Eldborgarhrauni. Þessvegna vita menn að hvorugt þeirra er Kristnitökuhraunið.
Kristnitökuhraun
Þorvaldur Thoroddsen fer villur vegar í lýsingu sinni; segir bæði hraunin „tiltölulega ný og hafa efalaust runnið síðan land byggðist, en sögur segja mjög sjaldan frá náttúruviðburðum, síst á þessum útkjálka.” Í gosannál eldfjallasögu sinnar gerir Þorvaldur ekki upp á milli þessara hrauna, en er þó fyrstur til að draga í efa munnmælin um að Þurárhraun sé Kristnitökuhraunið.
Í lýsingu sinni á jarðfræði Árnessýslu 1943 greinir Guðmundur Kjartansson jarðfræðingur frá eldstöðvum á Hellisheiði og telur hann þar að bæði Þurárhraun og Eldborgarhraun geti átt við lýsingu Kristnisögu. Fram yfir 1960 héldu menn í þessa skoðun.

Heillisheiði

Heillisheiðarhraun (Þurárhraun) og Eldborgarhraun (Grímslækjarhraun).

Víðtækar rannsóknir fóru fram árin 1947-49 á jarðhitasvæðum í Hengli og Hveragerði og þá kannaði Trausti Einarsson jarðfræðingur meðal annars hraunin á Hellisheiði. Í skýrslu sinni frá 1951 segir hann:

Þurárhraun

Þurárhraun.

„Viðvíkjandi aldri Þurárhrauns, má geta þess, að Eldborgarhraun sunnan við Hjalla, sem er mjög gamalt, hefur verið þakið þykkum jarðvegi, er síðar fauk nær algerlega af því. Þurárhraun er hinsvegar mjög unglegt og yngst Hellisheiðarhraunanna, og eina hraunið, sem komið getur heim við frásögn Kristnisögu um eldgos árið 1000.” Þessi kenning fær enn stuðning frá Þorleifi Einarssyni jarðfræðingi 1960. Á sjötta tugnum hafði hann kannað jarðfræði Hellisheiðar og fjallaði hann um niðurstöðurnar í ritgerð sinni til fyrrihlutaprófs í jarðfræði við Kölnarháskóla og síðar einnig í Náttúrufræðingnum.
Kristnitökuhraun
Niðurstaða Þorleifs var svofelld: „Eldstöðvar þær sem best eiga við frásögn Kristnisögu, er eystri gossprungan á Hellisheiði. Hún er um 7 km á lengd frá rótum Stóra-Skarðsmýrarfjalls gegnum Lakahnúka allt suður til Eldborgar undir Meitlum, en Eldborg er reyndar stærsti gígur sprungunnar.”
Raunar segir Þorleifur einnig að Svínahraunsbruni hafi runnið út yfir hraunkvíslina, sem rann vestur af Hellisheiði framan við Hveradali, og sé því runnin eftir árið 1000.
Það virðist vera fyrst um og eftir 1977 að jarðfræðingar átta sig á því að hvorugt hraunanna sem flæddu fram af heiðarbrúninni niður í Ölfus séu Kristnitökuhraunið frá árinu 1000. Jón Jónsson jarðfræðingur birti grein í Náttúrufræðingnum 1977 og þar kemur fram að greining á aldri yngsta hraunsins á Hellisheiði reyndist vera um 1850 geislakolsár. Með öðrum orðum; hraunin, sem runnu niður í Ölfus og talin voru þau sem ógnuðu bæ goðans, voru búin að vera hluti af landslaginu þar í mörg hundruð ár áður en land byggðist.

Eldborgir

Eldborgir efst í Svínahrauni.

Í sömu grein kveðst Jón hafa fundið öskulagið sem kennt er við landnám í jarðvegi ofan á gosmölinni frá Eldborg undir Meitlum. Því sé ljóst að gosið sem Kristnisaga getur um, sé hvorki komið ofan af Hellisheiði né frá Eldborg undir Meitlum. Þar með er ljóst að böndin hafa borizt að Svínahraunsbruna á svæðinu vestan Hellisheiðar.

Grímslækjarhraun

Grímslækjarhraun – afurð Eldborgarhrauns.

Jón Jónsson skrifaði aðra grein í Náttúrufræðinginn 1979 og er fyrirsögn hennar „Kristnitökuhraunið”. Þar segir Jón frá því að landnámsöskulagið hafi fundizt í jarðvegi undir Svínahraunsbruna. Þar með sé ekkert því til fyrirstöðu, að fundið sé það hraun sem getið er um í Kristnisögu og hin fyrsta gosheimild í sögu þjóðarinnar sé því í meginatriðum rétt.
Kenning Jóns fékk mikilvægan stuðning í grein um Krýsuvíkurelda eftir Sigmund Einarsson jarðfræðing árið 1991. Í þeirri grein, sem birtist í tímaritinu Jökli, eru færð rök fyrir því að Eldborgir í Svínahraunsbruna séu hluti af eldstóðvakerfi Brennisteinsfjalla og að þar hafi staðið yfir goshrina á síðari hluta 10. aldar.”

Heimild:
-Lesbók Morgunblaðsins, 01.07.2000, Hugmyndir og kenningar um Kristnitökuhraunið, Gísli Sigurðsson, bls. 10-12.

Eldborg

Eldborg í Kristnitökuhrauni.

Þorleifur Einarsson

Í Náttúrufræðingnum 1961 eru birt skrif Þorleifs Einarssonar um “Þætti úr jarðfræði Hellisheiðar“:

Þættir úr jarðfræði Hellisheiðar

Þorvaldur Einarsson

Þorleifur Einarsson (1931-1999).

„Þá kom maðr hlaupandi ok sagði, at jarðeldr var upp kominn í Ölfusi ok mundi hann hlaupa á bæ Þórodds goða.”
Vart mun sá maður til vera á Íslandi, að hann kannist ekki við þessa stuttu frásögn Kristnisögu af eldsuppkomu á Hellisheiði árið 1000 og orðræður Snorra goða og heiðinna manna á Alþingi það sumar. En nokkuð hefur það verið á reiki, við hvaða hraun ummæli þessi eiga.
Sumarið 1956 hóf ég athuganir á gossprungum á vestanverðri Hellisheiði og hraunum, sem þaðan eru komin. Rannsókn þessi varð þó víðtækari, tók reyndar tvö sumur í viðbót, 1957 og 1958, svo sem grein þessi ber með sér, og náði til jarðfræði Hellisheiðarsvæðisins alls, en það takmarkast að norðan af Hengladölum, að vestan af Bláfjöllum, að sunnan af Fjallinu eina, Geitafelli og Krossfjöllum, að austan af Þorleifslæk og Varmá. Um athuganir þessar ritaði ég síðan prófritgerð (Diplom Geologe), sem birtist í vor (Þorleifur Einarsson 1960), og er grein þessi útdráttur úr henni.
Um jarðfræði Hellisheiðarsvæðisins hefur fátt verið ritað. Flestir jarðfræðingar hafa talið mosagráa hraunflákana og lág fellin lítið forvitnileg. Rækilegastar munu athuganir Þorvalds Thoroddsens (1908-11, 1913, 1925) og Trausta Einarssonar (1951) vera. Af öðrum, sem um jarðfræði þessa svæðis hafa fjallað, mætti nefna Guðmund G. Bárðarson, Guðmund Kjartansson (1943), Tékkann M. F. Kuthan og Norðmanninn T. F. W. Barth.

Jarðfræðilegur inngangur

Þorvaldur Einarsson

Þorvaldur Einarsson – rit um jarðfræði Hellisheiðar.

Jarðsaga Íslands nær aðeins yfir síðustu öld jarðsögunnar, nýöld.
Elzta berg hér á landi er að finna á Austfjörðum og Vesturlandi, blágrýti með millilögum úr harðnaðri gosösku, sandsteini og leirsteini með surtarbrandi. Jurtaleifar úr surtarbrandslögum í neðri hluta blágrýtismyndunarinnar benda til þess, að elztu lögin séu ártertier að aldri, þ. e. a. s. allt að 60—70 milljónum ára gömul. Mest ber þar á blaðförum og frjókornum lauftrjáa, sem vaxið hafa við milt loftslag. Er líða tekur á tertier-tímann, kólnar í veðri. Laufskógurinn víkur æ meir fyrir barrskógum. Á síðtertier hylur svo jökull hluta landsins fyrsta sinni, svo sem millilög úr jökulbergi í efri hluta blágrýtismyndunarinnar (gráa hæðin) í Esju, Fnjóskadal, Hornafirði og víðar bera vitni um, en mestur hluti hinnar kulvísu flóru mun hafa lifað þetta kuldakast af. Skeljalögin á Tjörnesi eru einnig síðtertier (pliósen) að aldri.
Á hinum eiginlega jökultíma, sem tók yfir síðustu milljón árin, eru kunnar hér á landi minjar þriggja ísalda og tveggja hlýviðrisskeiða eða hlýalda líkt og á norðanverðu meginlandi Evrópu.

Þorleifur Einarsson

Þorleifur Einarsson – Jarðfræði; saga bergs og lands.

Í Ölpunum hafa fundizt ummerki fimm ísalda og í Norður-Ameríku fjögurra. Lítið er kunnugt um það, hve langan tíma framrás og bráðnun ísaldarjöklanna tók, en þó skal hér reynt að gera nokkra grein fyrir bráðnunarsögu meginjökuls síðustu ísaldar suðvestanlands. Þegar jökullinn var hvað stærstur, mun hann hafa hulið allt land umhverfis Faxaflóa nema hæstu fjöll, svo sem Esju og Skarðsheiði.
Jökullinn mun hafa náð allt út undir brún landgrunnsins (Jökulrispur eru t.d. kunnar frá Garðskaga.). Jökulskjöldurinn tók að mesta kuldakasti síðustu ísaldar loknu að bráðna. Nokkrum árþúsundum eftir að hann var stærstur, skaut Suðurkjálkafjallgarðinum og Suðurnesjum öllum upp úr jökulhjarninu. Rétt um það leyti, er Suðurkjálkinn var orðinn íslaus, kólnaði nokkuð í veðri aftur, svo að jökullinn skreið fram að nýju. Ýttust þá upp jökulgarðar á Álftanesi, í mynni Hvalfjarðar, í Melasveit (Skorrholtsmelar) vestan Leirár og líklega víðar. Síðan framskrið þetta, sem nefna mætti Álftanesstigið, átti sér stað, mun vart vera skemmri tími liðinn en 20000 ár.
Enn breyttist loftslag til hins verra, og jökullinn gekk fram. Við þessa framrás mynduðust miklir jökulgarðar, sem rekja má um þvert Suðurlandsundirlendi frá Keldum á Rangárvöllum út í Biskupstungur. Framrás þessi hefur verið nefnd Búðastigið. (Guðmundur Kjartansson 1943). Við bráðnun jöklanna hækkaði mjög ört í höfunum, svo ört, að löndin, sem jökullinn hafði legið yfir og þrýstst höfðu niður undan jökulfarginu, náðu eigi að rísa nógu skjótt, og flæddi því sjór víða yfir láglendi, um leið og það varð jökullaust. Jökull þrýstir landi meir niður til dala en til nesja, svo sem sjá má af því, að hæstu sjávarminjar við Reykjavík eru í aðeins 43 m hæð, í Ölfusi í 55—60 m hæð og í Holtum, Hreppum og á Landi í 110 m hæð.

Þorleifur Einarsson

Þorleifur Einarsson skrifaði m.a. kafla í þjóðhátíðartútgáfu af Sögu Íslands.

Fyrir 11—12000 árum, á því hlýviðrisskeiði síðjökultímans, sem kennt er við staðinn Alleröd á Sjálandi, munu jöklar Íslands hafa verið orðnir minni en þeir eru í dag. En vegna loftslagsbreytingar til hins verra fyrir 11000 árum skriðu jöklar víða um heim enn fram.
Loftslag á Íslandi var tiltölulega hlýrra á síðustu ísöld og þó einkum undir lok hennar en um norðanvert meginland Evrópu. Helzta skýringin á því er sú, að landskipan Evrópu var öll önnur en í dag þar til fyrir 7000 árum. Þangað til voru Bretlandseyjar tengdar meginlandinu, en þá brauzt sjór gegnum Ermarsund og flæddi yfir lendur þær, þar sem nú er Norðursjór. Golfstraumurinn komst því ekki upp að ströndum Skandinavíu, og beindi Bretlandseyjaskaginn honum meir til norðvesturs en í dag. Það er augljóst mál, að breytingar þessar á stefnu Golfstraumsins hafa haft mikil áhrif á loftslag hér á norðurslóð.
Brot þetta úr jarðfræði Íslands er nokkru ítarlegra en ætlað var, en þar sem hér er fjallað um ýmislegt úr þessari sögu á annan veg en hingað til hefur verið gert, einkum jökultímann, taldi ég rétt, að svo væri.

Berg frá jökultíma

Hellisheiði

Hellisheiði – efri hluti.

Elzta berg Hellisheiðarsvæðisins er að finna í lagskiptri grágrýtismyndun í neðri hluta Kambabrúnar og Núpafjalls, svo og í Hjallafjalli. Á grágrýtismyndun þessari, Kamba- eða Hjallagrágrýti, liggur í Kambabrún þunnt lag af jökulbergi. Á því liggur síðan allþykk móbergsmyndun, Núpafjallsmóberg. Myndun þessi er allóregluleg, lagskipt móberg, þursamóberg, bólstraberg.
Í Þurárhnúk og Kerlingarbergi er einnig ofan til lagskipt grágrýti. Innskot eru mörg og óregluleg, gangar, æðar, kubbaberg og stuðlasveipir. Móbergsmyndun þessa er líka að finna í Núpafjalli og í brún Efrafjalls (í Hesti og Kerlingabergi). Kambagrágrýtið er líklega runnið sem hraun á hinni eldri hlýöld. Jökulbergið og Núpafjallsmóbergið eru líklega mynduð á næstsíðustu ísöld, og er það líkt móbergi í Jórukleif að aldri, en það liggur undir Mosfellsheiðargrágrýti, sem runnið er frá Mosfellsheiði á síðustu hlýöld. Mosfellsheiði er dyngja með tveim gígrústum, Borgarhólum og ónefndum hæðum austur undir Þingvallavatni. Frá Borgarhólum er líka runnið yngsta grágrýtið í nágrenni Reykjavíkur (Reykjavíkurgrágrýti).

Hellisheiði

Hellisheiði – neðri hluti.

Móbergsfjöll Hengilsvæðisins hafa hlaðizt upp í geilum eða götum, sem bráðnað hafa í jökulinn yfir eldstöðvunum líkt og flest móbergsfjöll á landinu (Guðmundur Kjartansson 1943). Móbergsfjöll þau, sem nú verður getið, eru öll mynduð á síðustu ísöld. Bólstraberg er víða að finna í neðri hluta móbergsfjalla á Hellisheiðarsvæðinu, svo sem í Draugahlíðum, Lakahnúkum, milli Meitla, í Stóra-Skarðsmýrarfjalli og víðar. Hraun rann úr gígunum og barmafyllti geilina og rann jafnvel út á jökulinn. Fjöll, sem náð hafa þessu stigi, eru nokkur á Hellisheiði, t. d. Stóri-Meitill og Geitafell. Slík fjöll nefnast móbergsstapar. Miklu algengari eru þó fjöll, sem byggð eru upp úr lausum gosefnum, sem síðar hafa límzt saman, móbergshryggirnir, t.d. Stóra-Reykjafell og Skálafell.

Hellisheiði

Hellisheiði – efri hluti (jarðfræðikort Ísor).

Ummyndun lausra gosefna, ösku, í móberg sannar ekki, að móbergsfjöllin hafi hlaðizt upp í eða undir jökli, því að móberg er einnig þekkt sem millilög í tertieru blágrýtismynduninni, t.d. í Esju. Þess skal líka getið, að í fjöllum, hlöðnum upp úr lausum gosefnum á síðustu ísöld, er til gosaska, sem hefur ekki breytzt í móberg, t.d. í Litla- og Stóra-Sandfelli. Í nokkrum móbergsfjallanna mótar enn fyrir gígum, svo sem í Stóra-Meitli. í mörgum fjallanna eru gígtappar úr grágrýti, en þeir standast veðrun betur en móberg og skaga því víða upp úr.

Hellisheiði

Hellisheiði – neðri hluti (jarðfræðikort Ísór).

Bezt dæmi um slíkan bergstand í móbergi er Lambafellshnúkur, en hann setur á fellið keilislögun, enda er Keilir á Reykjanesi eins upp byggður. Gráuhnúkar norðan Þrengsla eru líka bergstandar. Litla-Skarðsmýrarfjall og Orustuhóll eru úr mjög stórdílóttu grágrýti. Er það gangur, líklega gömul eldstöð. Dalkvosir í mörgum fellanna eru ekki gamlir gígar, heldur hafa jökulflikki orðið undir lausum gosefnum, þegar fellin hlóðust upp, og ekki bráðnað fyrr en að gosunum loknum. Þar sem ís var undir móbergi, myndaðist því dæld eða dalur, t. d. dalirnir í Stóra-Reykjafelli eða Innstidalur.

Hellisheiði

Hellisheiði – efri hlutinn (loftmynd).

Í Stóra-Reykjafelli vestanverðu er stór felling í lagskiptu móbergi. Slíkar fellingar mynduðust líklega, ef veggir ísgeilanna hafa haft mikinn fláa eða í þeim verið syllur. Ísveggurinn hefur síðan bráðnað, meðan gosefnin voru enn vatnsósa, og gosefnin fylgt honum. Lík felling, en minni, er einnig í Blákolli vestanverðum. Annað fyrirbæri, sem víða er að finna í móbergsfjöllum, er svokölluð flögun. Lagskipt móberg hefur kubbazt og klofnað án tillits til lagskiptingar undan þrýstingi jökulfargsins. Slík flögun í móbergi er t.d. í Stóra-Reykjafjalli við veginn upp í Hveradali.

Hellisheiði

Hellisheiði – neðri hlutinn (loftmynd).

Auk móbergsfjalla eru til á Hengilsvæðinu grágrýtisflákar, sem myndaðir eru á einu af fyrstu bráðnunarskeiðum síðustu ísaldar. Er hér um grágrýtislög að ræða, sem komin eru úr Hengli og hylja suðausturhluta hans, Ástaðafjall og Hamarinn ofan Hveragerðis. Í Húsmúla norðan Kolviðarhóls er og grágrýti. Gæti þar verið sérstök eldstöð. Allt er grágrýti þetta jökulsorfið.
Umhverfis Skálafell er grágrýtisdyngja (Norður- og Suður-Hálsar), sem ég hef nefnt Skálafellsdyngju. Grágrýti þetta er komið úr gíg, Trölladal, vestan Skálafells, og hefur síðan runnið umhverfis fellið og víða fram af brún Efrafjalls og Hjallafjalls. Grá grýtið er jökulrispað austan Skálafells, en vestan þess má enn finna hraunreipi á hraunhólum. Sýnir þetta, að jökullinn hefur aðeins farið yfir austurhluta dyngjunnar. Það, að grágrýtið austan Skálafells skuli renna um gil og dali eldri fellanna líkt og hraun, runnin eftir jökultíma, og fylgja öllum línum landslagsins, bendir til ungs aldurs grágrýtisins. Þó er það eldra en hæsta sjávarstaða, því að í það hafa höggvizt brimþrep. Gosið í Skálafellsdyngju hefur líklega átt sér stað á bráðnunarskeiðinu, sem fór á undan framrás jökulsins að Álftanesröðinni, og hefur sá jökull urið grágrýtið austan Skálafells.
Í ritgerð minni (Þ.E. 1960) gat ég þess, að ljósir blettir í fjöllum á Hengilsvæðinu væru eingöngu myndaðir við hverasuðu. Þetta er ekki alls kostar rétt, því að á síðastliðnu hausti rakst ég á lítil líparít-innskot vestan til í Hengli, rétt norðan Húsmúlans.
Jökulminjar frá síðustu ísöld eru heldur fátæklegar á svæðinu, aðrar en móbergsfellin. Jökulrispur á klöppum eru sjaldgæfar, en sýna þó, að jökullinn hefur skriðið suður heiðina til sjávar. Jökulurð sést óvíða, nema hvað Kolviðarhóll er botnurðarhóll, og annar slíkur er á Krossfjöllum. Á einstöku fjöllum er og stórgrýtt jökulurð og víða, einkum á móbergsfjöllum, jökulbergskápa.

Hæstu sjávarmörk í Ölfusi eru í Hjallafjalli ofan Þóroddsstaða í 55 m hæð, en í Hveragerði í 60 m hæð. Síðan brimið klappaði þessi hæstu fjörumörk, munu líklega vera liðin um 14000 ár, sem áður segir. Af sjávarminjum ber mest á lábarinni möl og hnullungum. Brimþrep eru og víða greinileg, svo sem í Hjallafjalli og Skálafellsgrágrýti hjá Núpum; bærinn stendur í þrepinu. Einnig eru hlíðar Hamarsins ofan Hveragerðis gamalt sjávarbjarg, sem og Kambabrún og hlíð Núpafjalls. Brimsorfnir hellar eru í Vatnsskarði. Á Hjallafjalli ofan Þóroddsstaða eru fallegir malarkampar, sem brimið hefur rótað upp. Sjór fjaraði, eða réttar sagt landið hækkaði síðan á 5000 árum, svo að hann var kominn þá a.m.k. 4 m niður fyrir núverandi sjávarmál, svo sem sjá má af myndun fjörumós í Seltjörn, en hann myndaðist ofan sjávarborðs. Á síðustu árþúsundum hefur land síðan lækkað nokkuð.

Hraun frá nútíma – Hellisheiðarhraunin eldri

Hellisheiði

Hellisheiðargígar (1900 ára gamlir) – nú gjallhraukar vegna efnistöku. Myndin er frá 1982.

Á vestanverðri Hellisheiði eru eldstöðvar, sem gosið hafa a. m. k. fjórum sinnum á nútíma, en nútíminn nær að tímatali jarðfræðinga yfir síðustu 10000 árin, eins og áður gat. Gígar beggja hinna eldri hrauna eru huldir yngri hraunum. Mjög erfitt er að greina eldri hraunin hvort frá öðru. Verða eldri hraunin því rædd í einu lagi. Auðvelt er að greina yngri hraunin frá hinum eldri í landslagi. Einnig ber meir á feldspat-dílum í blágrýti eldri hraunanna en hinna yngri, minnst í yngsta hrauninu, Kristnitökuhrauni.
Eldri Hellisheiðarhraunin hylja syðri hluta Hellisheiðar, og liggur þjóðvegurinn lengstum á þeim. Á norðanverðri heiðinni eru þau horfin undir yngri hraun. Hraunflóðin hafa runnið austur heiðina og fram af Kambabrún niður í Ölfus, allt austur að Varmá, beggja vegna Hamarsins. Tota úr elzta hrauninu nær þó austur yfir ána við þjóðveginn. Varmárbrúin stendur á þessu hrauni, svo og bærinn að Völlum. Bæirnir Saurbær, Þúfa, Kröggólfsstaðir og Vötn utan Varmár standa í jaðri elzta hraunsins. Rétt norðan þessara bæja virðist vera brún næstelzta hraunsins, og standa bæirnir Yxnalækur og Vorsabær í henni. Ein kvísl hraunflóðsins á heiðinni rann suður á milli Hverahlíða og Núpafjalls og niður um skarð í fjallsbrúninni ofan Núpa. Þetta hraun endar rétt ofan bæjarhúsa að Núpum og hefur ekkert breiðzt út á jafnsléttu. Önnur kvísl sama hrauns rann enn lengra til suðausturs og niður gilið norðan Vatnsskarðs og breiddist nokkuð út á láglendi, en síðar hefur Þurárhraun runnið yfir það. Einn hraunstraumur hefur runnið til suðurs frá eldstöðvunum milli Lakahnúka í Lakadal, annar til vesturs niður Hellisskarð. Þetta hraun sést í misgengi í austurbrún skarðsins. Enn einn hraunstraumur hefur líklega runnið vestur úr Hveradölum og allt norður fyrir Draugahlíðar. Sér nú á hraun þetta sem apalhraunskika í Svínahrauni (Leitahrauni) rétt norðan móta gamla vegarins og Þrengslavegar.
Eldri Hellisheiðarhraun eru víðast algróin apalhraun nema elzta hraunið við Varmárbrúna, sem er helluhraun. Um aldur þessara hrauna er það að segja, að elzta hraunið er ekki runnið fyrr en sjór var komin niður fyrir 3 m hæð yfir núverandi sjávarmál og getur því vart verið eldra en 10000 ára gamalt. Næstelzta hraunið er eldra en Leitarhraun, en það er yngra en 5300 ára, svo sem síðar segir. Eldri Hellisheiðarhraunin eru því yngri en 10000 ára og eldri en 5000 ára gömul.

Leitahraun

Leiti

Leiti – gígurinn austan Bláfjalla.

Austan undir Bláfjöllum, sunnan Ólafsskarðs, er óásjálegur gjallrimi, er Leitin nefnist. Að sunnan er hann 30 m hár, að norðan jafnhár Lambafellshrauni. Rimi þessi er eystri barmur gígs þess, sem stærsta hraun Hellisheiðarsvæðisins er komið frá. Leitahraun, eins og það nefnist hér, þekur 75 km2 lands. Gígurinn er um 300 m frá NA—SV og 150 m þvert á þá stefnu. Leysingalækur úr Bláfjöllum hefur fyllt gígskálina með möl og sandi, en þó sést enn 2—3 m hár hraunhjalli og bendir hann til þess, að hrauntjörn hafi staðið í gígnum. Úr norðurhluta gígsins hefur hrauná runnið. Hraunið, sem var mjög þunnfljótandi, breiddist út á flatneskjunni milli Bláfjalla, Heiðarinnar há, Geitafells, Meitla og Lambafells og nefnist Lambafellshraun. Hraunflóð rann þaðan til norðurs milli Blákolls og Lambafells og breiddist út norður til Húsmúla og Engidalskvíslar. Þar heitir nú Svínahraun (helluhraunið). Hraun þetta rann síðan niður um Vatnaöldur, Sandskeið, Fóelluvötn og milli grágrýtisholtanna hjá Lækjarbotnum (Lögbergshúsið stendur á hrauninu.) og út í hið forna Elliðavatn, sem var mun stærra en vatnið er í dag. Þegar hraunið rann út í vatnið, tók að gjósa upp úr því vegna gufuþenslu í hraunkvikunni, og mynduðust þar gervigígar, sem nú nefnast Rauðhólar. Tröllabörn neðan Lækjarbotna eru líka gervigígar í þessu hrauni. Hraunstraumurinn rann síðan niður dal Elliðaánna allt í Elliðavog.

Elliðaárdalur

Í Elliðaárnar renna um Leitarhraun.

Rétt ofan eystri brúarinnar yfir Elliðaárnar er mór undir hrauninu og reyndar víðar upp eftir árfarveginum. Hraunið hefur runnið yfir mýri. Mór þessi hefur verið aldursákvarðaður með mælingu á geislavirku kolefni, C14, og reyndist efsta lag hans vera 5300 ± 340 ára gamalt (Jóhannes Áskelsson 1953). Leitahraun ætti því að vera rúmlega 5000 ára gamalt.
Tveir hraunstraumar úr Leitahrauni runnu til suðurs, Djúpadalshraun milli Geitafells og Krossfjalla og annar milli Krossfjalla og Lönguhlíðar, sem breiðzt hefur út á láglendi allt suður til sjávar í Hafnarskeið og austur undir Ölfusá. Þar standa bæirnir Hraun og Grímslækur í hraunjaðrinum. Nefnist þar Heiði eða Hraunsheiði.
Leitahraun er helluhraun úr dílóttu (feldspat) blágrýti. Í hrauninu eru nokkrir hellar og niðurföll. Stærsti hellirinn er Raufarhólshellir ofan Vindheima í Ölfusi. Hann er 850 m langur, 10—30 m breiður og 10 m hár að jafnaði (Munger 1955). Norðan Draugahlíða eru einnig hellar í hrauninu, svo og undir húsum að Lögbergi.

Hellisheiðarhraunið næstyngsta

Hellisheiði

Hellisheiðarhraun.

Tvær gígaraðir eða gossprungur liggja um Hellisheiði vestanverða, og eru þaðan komin yngri Hellisheiðarhraunin. Næstyngsta hraunið er komið frá vestari gossprungunni, en hún er 6,5 km löng. Syðstu gígar hennar eru í austurhlíð Hveradala, þar sem nú eru gjallnámur Vegagerðarinnar. Þaðan er komið hraunið, sem þekur Hveradali sunnanverða (Stóradal), og apalhraunið norðan Litla-Reykjafells, en sunnan gamla vegarins við Kolviðarhól. Mikill hluti þessa hrauns hefur síðar lent undir Kristnitökuhrauni í Hveradölum. Gossprungan liggur síðan til norðurs með austurhlið Stóra-Reykjafells. Úr gíg í austuröxl fellsins hefur runnið hraunspýja til suðurs. Frost hefur síðar sprengt hraunskænið upp, svo að nú getur að líta þar einkennilegan straum köntótts stórgrýtis. Úr gígum ofan Hellisskarðs hefur runnið hraunkvísl gegnum skarðið heim undir hús að Kolviðarhóli. Gossprungan liggur síðan norður yfir Stóra-Skarðsmýrarfjall og um Innstadal þveran.

Nesjagígar

Nesjahraun – gígur.

Líklega eru Nesjavallagígar í Grafningi á sömu sprungu. Á norðanverðri Hellisheiði hefur hraun frá sprungunni breiðzt út og runnið austur heiðina og fram af Kambabrún líkt og hin eldri hraun, en stöðvazt í brekkurótunum beggja vegna Hamarsins. Er þar falleg hraunbrún. Vegurinn í Kömbum liggur í þessu hrauni. Á heiðinni er hraunbrúnin nokkuð greinileg norðan vegar. Frá gígunum á Stóra-Skarðsmýrarfjalli runnu hrauntaumar til Hellisheiðar, Sleggjubeinsdals og Innstadals. Úr gígunum í Innstadal er runnið Innstadalshraun fram í Miðdal. Hraun þetta er samkvæmt öskulagsrannsóknum yngra en 2700 ára og eldra en landnám, líklega 1500—2000 ára gamalt, þ. e. runnið um Kristsburð eða skömmu síðar.

Kristnitökuhraun

Skjaldbreið

Skjaldbreið.

Þá kom maðr hlaupandi ok sagði, at jarðeldr var upp kominn í Ölfusi ok mundi hann hlaupa á bæ Þórodds goða.” Þá tóku heiðnir menn til orðs: „Eigi er undr í, at goðin reiðist tölum slíkum.” Þá mælti Snorri goði: „Um hvat reiddust goðin, þá er hér brann hraunit, er nú stöndum vér á?” (Kristni saga). Hér er sagt frá náttúruviðburði á einfaldan hátt og getið fyrsta sinni jarðfræðiathugunar á Íslandi og hún ekki umvafin blæ þjóðsögunnar, eins og svo oft vildi verða. Íslendingar hafa þegar að fornu skilið myndunarsögu landsins að einhverju leyti, því að Þingvallahraun („er nú stöndum vér á”) eru runnin þúsundum ára fyrir landnámsöld. Hin elztu eru komin frá Skjaldbreið, en hin yngri frá gossprungu á Tindafjallaheiði austan Hrafnabjarga.
Á þeim 130 árum, sem liðin voru frá því, er fyrstu landnámsmennirnir tóku land, og þar til, er kristni var lögtekin á Alþingi árið 1000, hafa líklega orðið nokkur gos, því að gosið hefur að meðaltali 15 sinnum á öld frá upphafi Íslandsbyggðar fram á vora daga, svo að líklegt er, að Snorri goði hafi séð eldgos eigin augum, kannski gosið í Eldborg á Mýrum, þá er yngra Eldborgarhraun kom upp, eða haft spurnir af því. Þess goss er getið í Landnámu (Jóhannes Áskelsson 1955). Góða lýsingu á eldgosi frá fyrstu öld Íslandsbyggðar er einnig að finna í Völuspá (Sól tér sortna, 57. vísa). Þá er einnig þess að geta, að eldsuppkomuna má tímasetja allnákvæmlega, og er það óvenjulegt um náttúruviðburð, sem gerzt hefur hér á landi fyrir nær 10 öldum. Alþing kom saman á Þingvöllum fimmtudaginn í 10. viku sumars. Gosið á Hellisheiði ætti því að hafa byrjað laugardaginn í 10. viku sumars eða um 20. júní árið 1000.
Eldstöðvar þær, sem bezt eiga við frásögn Kristnisögu, er eystri gossprungan á Hellisheiði. Hún er um 7 km að lengd frá rótum Stóra-Skarðsmýrarfjalls gegnum Lakahnúka allt suður til Eldborgar undir Meitlum, en Eldborg er syðsti og reyndar stærsti gígur sprungunnar.

Eldborg

Eldborgarhraun í Þrengslum.

Í fyrsta þætti gossins kom einkum upp hraun úr nyrzta hluta sprungunnar, milli Stóra-Skarðsmýrarfjalls og núverandi þjóðvegar. Hraunið breiddist í fyrstu út á hallalítilli heiðinni austan gossprungunnar. Hraunstraumur rann síðan austur með Stóra-Skarðsmýrarfjalli og sunnan Orustuhóls að Hengladalsá og stöðvaðist þar. Nefnist þar Orustuhólshraun. Annar hraunstraumur rann vestur yfir sprunguna, þar sem nú er þjóðvegurinn, og niður í Hveradali og vestur úr þeim yfir austurjaðar Svínahrauns. Hraun þetta nær ekki lengra til norðurs en í beina línu vestur af suðurhorni Litla-Reykjafells. Ein álma þessa* hrauns rann síðan gegnum Þrengslin allt til Lambhóls. Síðar rann Svínahraunsbruni yfir vesturjaðar þessa hrauns, sem síðar getur. Stærstur og þekktastur er þó hraunstraumur sá, sem nefndur er Þurárhraun. Hann rann í mjórri kvísl austur heiðina norðan Smiðjulautar, austur yfir þjóðveginn og síðan austur með Hverahlíðum og niður á láglendi um Vatnsskarð. Er þar 140 m hár hraunfoss. Hraunið breiddist síðan út yfir mýrarnar austan Þurár allt austur undir Varmá. Þurárhraun er um 11 km að lengd.

Lakastígur

Lakastígur.

Úr miðhluta sprungunnar, milli þjóðvegar og Lakahnúka, hefur einnig komið mikið hraun, sem brotizt hefur í mjórri kvísl milli yztu Lakahnúka niður í dal þann, sem Hellur heitir. Norður úr dalnum er Lágaskarð til Hveradala, en Lakadalur til austurs milli Lakahnúka og Stóra-Sandfells. Dalurinn hefur fyllzt hrauni, sem rann til hans í áðurnefndri kvísl og eins úr syðsta gígnum á þessum hluta sprungunnar í Lakahnúkum. Varð mikil og slétt hrauntjörn í dalnum. Dalurinn var lokaður til suðurs milli Litla-Meitils og Stóra-Sandfells af grágrýtishafti, sem hélt uppi hrauntjörninni.
En vart mun dalbotninn hafa verið orðinn fullur af hrauni, er syðsti hluti sprungunnar opnaðist og hraun tók að streyma þar upp. Grágrýtishaftið brast, og hraunið úr tjörninni fékk framrás með hrauninu, sem upp kom í syðsta hluta sprungunnar. Enn sýna hraunhjallar umhverfis Hellur, að hrauntjörnin hefur staðið allt að 5 m hærra en dalbotninn er í dag. Eldborg undir Meitlum stendur á grágrýtishaftinu.

Eldborg

Eldborg undir Meitlum.

Eldborg undir Meitlum er stærsti gígur á allri gossprungunni, um 50 m á hæð. Eldborgin er að vísu aðeins helmingur gígs, því að hraunið, sem vall upp úr henni og gegnum hana, hefur rifið með sér eystri gígvegginn. Nokkru norðan Eldborgar er önnur eldborg, um 10 m há. Milli eldborganna er greinileg hrauntröð. Eldborgir þessar mega heita einu gígarnir á allri gossprungunni, sem því nafni geta kallazt. Annars staðar gætir mest gjallhrúgalda og óreglulegra rima. Þó eru tvær litlar eldborgir, 5 m að hæð, sunnan Stóra-Skarðsmýrarfjalls. Fell þau, sem sprungan gengur í gegnum norðan þjóðvegarins, eru úr móbergi, en að mestu hulin gjalli.

Eldborg

Eldborg undir Meitlum – hrauntröð.

Hraunið, sem upp kom í Eldborg undir Meitlum, og eins það, sem fékk framrás úr hrauntjörninni í Hellum, breiddist út á heiðinni sunnan Litla-Meitils og Sanddala. Er það úfið apalhraun og nefnist Eldborgarhraun eða Innbruni. Þaðan rann hraun, Frambruni, niður um skarðið milli Krossfjalla og Lönguhlíðar. Hraun þetta breiddist síðan yfir Hraunsheiði (Leitahraun). Einn hrauntaumurinn rann meðfram Hjallafjalli í átt til Hjalla, en annar milli bæjanna Grímslækjar og Hrauns og nefnist þar Hraun (samkv. korti Grímslækjarhraun) til aðgreiningar frá Heiði (Leitahraun). Nær þetta hraun hvergi fram af brún Leitahrauns. Hraunið er 9 km að lengd.
Eins og að framan getur, er líklegt, að nyrðri hluti sprungunnar hafi gosið fyrst og syðsti hlutinn seinast. Nokkuð hefur það verið á reiki, hvaða hraun það var, sem náði láglendi í Ölfusi í gosinu árið 1000. Þorvaldur Thoroddsen telur ýmist, að Þurárhraun eða Eldborgarhraun hafi runnið þá. Guðmundur Kjartansson (1943) bendir réttilega á, að bæði hraunin séu komin úr sömu gossprungu og því líklega jafngömul. Athuganir þær, sem ég hef gert, benda eindregið til þess, að bæði hraunin séu komin upp í sama gosi. Þó er Þurárhraun líklega nokkrum dögum eða vikum eldra en Eldborgarhraun. Bergfræðilega er blágrýti beggja hraunanna líkt, stakdílótt (feldspat) blágrýti. Gróðurfar hraunanna og allt útlit ber merki ungs aldurs. Afstaða hraunanna til annarra hrauna á Hellisheiðarsvæðinu bendir og til hins sama. Segulmælingar, sem Ari Brynjólfsson gerði á hraunum þessum árið 1955, benda einnig til þess, að hraunin séu lík að aldri.

Eldborg

Eldborg undir Meitlum – hrauntröð.

Öskulagsrannsóknir sýna með nokkurri vissu, að Kristnitökuhraunið hafi runnið eftir landnámstíð. Í jarðvegssniðum í hrauninu hef ég ekki getað fundið öskulagið G, en það liggur undir rústum í Þjósárdal (Sigurður Þórarinsson 1944), og í mýrarsniðum, sem frjógreind hafa verið, liggur það rétt neðan hinnar greinilegu gróðurfarsbreytingar, sem varð við landnámið. Öskulag þetta er komið af Torfajökulssvæðinu og er líklega 1100—1200 ára gamalt. Það finnst annars í nær öllum jarðvegssniðum hér sunnan lands, t.d. á næstyngsta Hellisheiðarhrauninu. Þunnt öskulag, sem myndaðist við Kristnitökugosið, er að fínna í jarðvegssniðum vestan eystri gossprungunnar á Hellisheiði, rétt ofan öskulagsins G.

Hellisheiði
Höfundur Kristnisögu leggur sendimanni þau orð í munn, að jarðeldur væri upp kominn í Ölfusi og mundi hlaupa á bæ Þórodds goða. Næsta ólíklegt er, að sendiboðinn hafi borið bæði þau tíðindi, að jarðeldur væri upp kominn, og eins hin, að hraun stefndi á bæ Þórodds goða. Svo greiðlega renna apalhraun ekki á hallalitlum heiðum, og er hér eitthvað málum blandað. Annaðhvort hafa munnmælin, sem sagnritarinn studdist við, brenglazt nokkuð, eða hann breytt þeim, svo að þau hæfðu betur frásögninni, enda hafa þessar orðræður lítið gildi fyrir frásögnina af Kristnitökunni. Sama sumar, dögum eða vikum eftir að þingi lauk, hafa hraun náð láglendi í Ölfusi. Þurárhraun hefur tæplega valdið tjóni á byggðu bóli í Ölfusi, nema bær hafi staðið undir Vatnsskarði, því að hraunið breiddist yfir mýrarfláka austan og norðan Þurár. Eldborgarhraun, sem runnið hefur heim í tún að Hrauni og Grímslæk, hefur líklega valdið einhverjum spjöllum, jafnvel tekið af bæi, hafi þeir staðið í Hraunsheiði, en það gæti vel verið, eða syðst undir Hjallafjalli, því að nyrzti hrauntaumurinn hefur runnið þar í átt til Hjalla, bæjar Þórodds goða, þótt skammt næði.
Þótt Kristnisaga muni um margt vera ónákvæm og hlutdræg heimild, má þó telja, að þessar fáu setningar um eldsuppkomuna séu í meginatriðum réttar.
Kristnitökuhraun þekur um 25 km2 lands.

Svínahraunsbruni

Eldborg

Eldborg í Svínahrauni.

Í skarðinu milli Lambafells og Bláfjalla standa tvær eldborgir. Nyrðri-Eldborg er þrír samvaxnir gígar. Sunnan hennar eru líka nokkrir litlir gígar á sömu sprungu. Úr nyrzta gígnum, sem er stærstur, 60 m í þvermál, er breið og falleg hrauntröð. Hún er um 2 km að lengd, 5 m djúp og 10—15 m breið. Hrauntröðin endar undir Blákolli. Um hraunfarveg þennan hefur hraun nyrðri og eldri Brunans, Svínahraunsbrunans, runnið og breiðzt út yfir Svínahraun (Leitahraun) allt til Draugahlíða. Syðri-Eldborg hefur gosið nokkrum vikum eða mánuðum síðar en hin nyrðri. Þar er kominn upp yngri og syðri Bruninn. Báðar standa eldborgirnar á sömu landnorðurlínunni, og eru um 2 km milli þeirra. Yngri Bruninn hefur runnið norður með Lambafelli og beygt síðan norðan Lambafellshnúks til austurs og síðan suðurs og náð allt til Þrengsla.

Eldborgir

Eldborgir efst í Svínahrauni.

Nyrðri Bruninn er um 5 km að lengd og þekur 6,5 km2 lands, en hinn syðri um 6,5 km að lengd og 4,5 km2 að flatarmáli. Berg hraunanna er olivin-dílótt blágrýti. Yfir hraun þessi liggur nýi Þrengslavegurinn frá Draugahlíðum til Þrengsla. Bruninn, bæði hraunin, er úfið apalhraun og virðist við fyrstu sýn sem hraungrýtið hafi oltið fram án reglu. Við nánari athugun má þó sjá, að það hefur ekizt til í bogadregna hryggi eða hraunsvigður. Svigður eru kunnar frá skriðjöklum, að vísu annars uppruna, en líkar útlits. Hraunsvigðurnar, sem eru 1— 2 m að hæð, sjást einkum vel af fjöllunum í kring eða úr lofti. Þó má greina þær af nýja veginum. Svigðurnar sýna, að hraunið hefur runnið rykkjótt, en ekki jafnt og þétt, og vísar boginn í straumstefnuna og bendir til mestrar hreyfingar og mests hraða í miðjum hraunstraumnum. Hraunsvigður apalhrauna líkjast reipum helluhrauna. Þó mælist það í metrum í svigðum, sem mælt er í sentimetrum í hraunreipum. Hraunsvigður eru víða í apalhraunum, t. d. í Landbrotshrauni (Jón Jónsson 1954).

Óbrinnishólabruni

Óbrinnishólabruni.

Þess var áður getið, að Kristnitökuhraun lægi vestan Hveradala inn undir jaðar Brunans og væri því eldra en hann. Orðið Bruni virðist hér sunnan lands einkum vera notað um hraun, runnin, eftir að land byggðist. Menn hafa séð hraunin brenna. Dæmi um þetta eru Inn- og Frambruni í Eldborgarhrauni (Kristnitökuhrauni).
Yngsta hraun sunnan Hafnarfjarðar heitir og Bruni. Er hraun það komið frá Óbrynnishólum undir Undirhlíðum. Þess er getið í Kjalnesingasögu sem Nýjahrauns. Samkvæmt rannsókn Guðmundar Kjartanssonar (1952) er Bruni þessi runninn á landnámsöld eða litlu síðar. Í Þingeyjarsýslu er nafnið Bruni að vísu notað um úfin apalhraun, Grænavatnsbruni og Út- og Innbruni í Ódáðahrauni, sem runnin eru, áður en land byggðist. Nafn hraunanna frá Eldborgum vestan Lambafells, Bruni, bendir til þess, að þau hafi runnið að mönnum aðsjáandi.

Trölladyngja

Trölladyngja og Sogaselsgígur nær.

Í annálum og öðrum rituðum heimildum er þessara hrauna hvergi getið, svo að mér sé kunnugt. En yfirleitt virðast náttúruviðburðir á Suðurkjálka hafa farið fram hjá annálariturum, og þá sjaldan, að þeirra er getið, er þekking á staðháttum harla lítil, svo að jafnvel hraun, komin upp við Trölladyngju á Reykjanesi, eru talin renna niður í Selvog. Þorvaldur Thoroddsen (1925) telur, að einkum hafi eldgos verið tíð um skagann á 14. öld. Þannig geta annálar gosa í Brennisteinsfjöllum 1340 og 1389, og Ögmundarhraun er talið runnið árið 1340. Svínahraunsbruni, bæði hraunin, eru runnin síðar en 1000, en að öllum líkindum fyrir siðaskipti, sennilega á 14. öld.
Norðan Fjallsins eina í Lambafellshrauni er lítið hraun, 0,5 km2 að stærð. Það er komið upp um sprungu, sem er í beinu framhaldi Eldborga. Hraun þetta mun vera líkt Brunanum að aldri.”

Þorleifur Einarsson
Þorleifur Einarsson“Þorleifur Jóhannes Einarsson fæddist í Reykjavík 29. ágúst 1931. Hann lést í Bergisch Gladbach í Þýskalandi 22. mars 1999. Foreldrar hans voru hjónin Einar Runólfsson verkamaður, f. 1886 í Skálmabæjarhrauni í Álftaveri, d. 1962 í Reykjavík, og Kristín Þorleifsdóttir, f. 1900 í Stykkishólmi, d. 1973 í Reykjavík. Eftir nám í gagnfræðaskóla settist Þorleifur í Menntaskólann í Reykjavík og lauk þaðan prófi vorið 1952. Að því loknu hélt hann til jarðfræðináms við Háskólann í Hamborg, Þýskalandi, haustið 1953. Hann hélt síðan áfram jarðfræðinámi við háskólana í Erlangen-Nürnberg 1954­56 og Köln 1956­60, þaðan sem hann lauk Dipl.Geol.-prófi í maí og Dr.rer.nat.-prófi í júlí 1960. Þorleifur stundaði framhaldsnám og rannsóknir við háskólann í Bergen í Noregi 1960­61 og háskólann í Cambrigde, Englandi 1970 og 1979. Að loknu doktorsprófi kom hann heim og starfaði sem sérfræðingur í jarðfræði, fyrst á iðnaðardeild atvinnudeildar Háskólans 1961­65, síðar á Rannsóknarstofnun iðnaðarins frá 1965­68 og á Raunvísindastofnun Háskóla Íslands frá 1969­75. Jafnframt var hann stundakennari í náttúrufræði og eðlisfræði við Vogaskóla í Reykjavík 1961­63, í jarðfræði við Menntaskólann í Reykjavík 1963­69, við Tækniskóla Íslands 1965­70 og við jarðfræðiskor Háskóla Íslands 1969­74. Þorleifur var skipaður prófessor í jarðsögu og ísaldarjarðfræði við jarðfræðiskor Háskóla Íslands 1975 þar sem hann starfaði síðan.
Þorleifur Einarsson
Þorleifur var varamaður í Náttúruverndarráði 1972­78, sat í stjórn Hins íslenska náttúrufræðifélags frá 1964 og var formaður þess 1966­72, sat í stjórn Jarðfræðafélags Íslands 1966­68 og var formaður þess 1972­74, sat í stjórn Norrænu eldfjallastöðvarinnar 1980­97, var formaður stjórnar Máls og menningar 1979­1991, sat í stjórn Landverndar frá 1971 og var formaður Landverndar 1979­90. Þá var Þorleifur kjörinn félagi í Vísindafélagi Íslendinga 1962, Alexander von Humboldt-styrkþegi í Vestur-þýskalandi 1959­60 og Overseas Fellow í Churhill College í Cambrigde, Englandi frá 1970. Þorleifur var einnig virkur félagi í Skógræktarfélagi Íslands, Sögufélaginu og Jöklarannsóknarfélaginu. Hann tók um árabil þátt í starfi íþróttahreyfingarinnar og þá einkum handbolta. Hann var leikmaður með ÍR, var atvinnumaður í Þýskalandi, landsliðsmaður, þjálfari og sat í dómaranefnd HSÍ. Þorleifur stundaði margþættar rannsóknir í jarðfræði og liggur eftir hann fjöldi greina og bóka um jarðfræðileg efni og umhverfisvernd á ýmsum tungumálum auk íslensku. Síðasta bókin sem hann lauk við var Myndun og mótun lands. Jarðfræði sem kom út 1991. Einnig flutti hann fjölda fyrirlestra um jarðfræðileg efni á ráðstefnum og fundum hérlendis, á alþjóðaráðstefnum og við fjölmarga háskóla erlendis.”

Þorleifur Einarsson“Þorleifur hóf rannsóknir á jarðfræði Íslands strax á námsárunum í Þýskalandi og snerust prófritgerðir hans um þær. Diplómaritgerðin fjallaði um jarðfræði Hellisheiðarsvæðisins, gerð og aldursafstöðu bæði ísaldarmenja og eftirísaldarjarðlaga, sem nánast eingöngu eru af eldvirkum toga, afrakstur eldvirkni undir bæði ísaldarjöklum og berum himni. Dr. rer. nat.-ritgerð hans fjallaði um veðurfarssögu ísaldarloka og eftirísaldartímans.
Þessi tvö meginviðfangsefni, eldvirkni og veðurfarssaga og tengsl þeirra við ísaldarfræði almennt urðu meira og minna rauður þráður í rannsóknum hans hér síðan.
Þorleifur hafði afar yfirgripsmikla þekkingu á því sem ritað hafði verið um jarðfræði og náttúru Íslands almennt; hafði lesið á námsárunum allt sem hann komst yfir um þessi mál.
Það ritverk Þorleifs sem án efa hefur haft víðust áhrif er svokölluð Þorleifsbiblía, kennslubók hans um jarðfræði (Jarðfræði. Saga bergs og lands). Hún kom út fyrst árið 1968 og braut blað í kennslu í jarðfræði, þar sem bókin var afar góð og leysti af höndum afgamla bók, að stofni til frá 1922. Menn, sem kynntust Þorleifsbiblíu á fyrstu árum hennar, minnast enn þessarar bókar og þeirrar upplifunar sem lestur hennar var, bæði sem skemmtilegur lestur og sem uppljómun í þekkingu. Bókin kom út aftur og aftur og var umskrifuð og aðlöguð eftir hendinni og er reyndar enn á markaði, þrátt fyrir byltingar í fræðunum.
Eitt eftirminnilegasta verk Þorleifs tengist eldgosinu á Heimaey árið 1973.”

Heimildir:
-Náttúrufræðingurinn, 4. tbl. 01.01.1961, Þættir úr jarðfræði Hellisheiðar – Þorleifur Einarsson, bls. 151-172.
-https://www.mbl.is/greinasafn/grein/459296/
-https://www.visindavefur.is/svar.php?id=58246

Eldborg

Horft niður í einn eldborgargíginn, hellinn Trölla, á svæðinu.

Þorlákshafnarsel

Gengið var yfir Eldborgarhraun eftir Lágaskarðsvegi gegnt Raufarhólshelli, norður með Lönguhlíð, inn á Selstíg, upp í Sandali og á Eldborg undir Meitlum, um Lágaskarð milli Litla-Meitils og Stóra-Sandfells og um Lákastíg austan Stóra-Meitils um Stóradal að Hveradölum. Þessi fyrrum fjölfarni vegur var nefndur Lágaskarðsvegur.

Lágaskarðsvegur

Kort af svæðinu – Lágaskarðsvegur fyrir miðju.

Gatnamót eru undir Lönguhlíð þar sem Selstígurinn liggur af honum suður með hlíðinni að Hrauni. Þessi leið hefur einnig verið nefnd Lágaskarðsvegur, líkt og hin, sem liggur frá gatnamótunum til suðvesturs áleiðis niður að Breiðabólstað. Sá hluti götunnar (Selstígur/Lágaskarðsvegur) lá niður að Hjalla í Ölfusi. Hraunsselið er skammt neðan við gatnamótin, fast við hraunbrúnina. Í bakaleiðinni var gengið suður með austanverðum Litla-Meitli, ofan við Innbruna og áð undir Votabergi þar sem Hafnarsel kúrir undir grettistaki.
Lágaskarðsvegur var genginn yfir Eldborgarhraunið frá malarnámusvæðinu við Raufarhólshelli að Lönguhlíð. Ofar er Sanddalahlíðin og Suðurhálsar. Þegar komið var yfir hraunið var gengið spölkorn suður eftir Selstígnum og litið á tóftir Hraunssels.
Þá var haldið áfram upp með Lönguhlíð gengið norður eftir Lágaskarðsvegi, milli hraunsins og hlíðarinnar. Undirhlíðin er grasi gróin og því greiðfar göngufólk.

Litli-Meitill

Litli-Meitill.

Litli-Meitill blasti við í norðvestri og Eldborgin var beint framundan, ofan Sanddala. Undir Litla-Meitli eru fallegir grasbalar, auk þess sem sjá má vísir af skógrækt undir hlíðinni. Nyrðri-Eldborg er framundan. Úr henni liggur falleg hrauntröð á sléttlendið fyrir neðan. Eldborgarhraun, sem rann áleiðis að Hjalla í Ölfusi, kom úr þessari Eldborg. Í raun er það miklu mun eldra en Kristnitökuhraunið norðvestan við Lambafellið, það er myndaði Svínahraunsbrunann.
Gígurinn er mikilfenglegur, ekki síst þar sem hann trjónaði þarna uppi í þokukenndri hlíðinni. Hann hefur hlaðið upp háan gígbarm að vestanverðu.

Eldborg

Eldborg undir Meitlum – hrauntröð.

Gígurinn er opinn mót suðaustri og liggur hrauntröð frá honum fram eftir hrauninu. Reyndar eru gígarnir tveir, þessi er nefnist Nyrði-Eldborg og annar mun minni austar, utan í Stóra-Sandfelli, nefndur Syðri-Eldborg. Hraunið norðan þeirra er úr Eldborg ofan Hveradala, austan í Stóra-Reykjafelli.
Gengið var áfram um Lágaskarð. Í þjóðsögum Jóns Árnasonar um þræla Ingólfs Arnarssonar, Sviða og Vífil segir m.a.: “Langt fyrir ofan Vífilsstaði er fell eitt sem Vífilfell heitir og liggur þjóðvegur ofan fyrir norðan það þegar farið er Hellisskarð að austan eða Lágaskarð; en rétt vestan undir fellinu liggur Ólafsskarðsvegurinn á þjóðveginn.”

Raufarhólshellir

Í Raufarhólshelli.

Í örnefnalýsingum er fjallað um Lágaskarðsveg. Þar segir m.a. að “Lágaskarð liggur hjá Stakahnúk [en hann er áberandi þegar komið er í skarðið austan við Stóra-Meitil]. Eftir skarðinu liggur Lágaskarðsvegur.
Lágaskarðsvegur hefst við Breiðabólstað. Hann liggur yfir Bæjarlæk [við Breiðabólsstað] rétt fyrir ofan Fossinn, inn Torfdalshraun, austan Torfdalsmels og innan til á móts við Krossfjöll austur yfir Eldborgarhraun, austur að Lönguhlíð og upp á Hveradalaflöt, undir austurhlíðum Lakahnúka og síðan um breitt skarðið yfir slétt og greiðfært helluhraun (að mestu mosagróið) og síðan niður úr skarðinu (sem er meira eins og grunnt dalverpi en skarð) til Þorlákshafnar og í Selvog. Á herforingjaráðskorti frá 1909 (1:50000) er norðurendi leiðarinnar sýndur vestar en hér er lýst. Þar liggur Lágaskarðsleiðin útaf Hellisheiðarvegi undir neðstu brekkum Reykjafells og yfir hraunhólana neðan við Hveradalaflöt en sú leið er mun ógreiðfærari þó hún sé styttri. Á kortinu kvíslast leiðin við Lönguhlíð og liggur ein slóð til Breiðabólstaðar en önnur til Hrauns.”
Varða Vegurinn er lengstaf aðeins kindastígur en nokkur vörðutyppi eru í sjálfu skarðinu (á helluhrauninu) og gætu sum þeirra verið gömul. Á nokkrum stöðum má ímynda sér að hestaumferð hafi gert för í hraunhelluna en hvergi er það skýrt. Þessi leið mun nú ganga undir nafninu Lákastígur, en það nafn er væntanlega komið frá Lakahnúkum austan við stíginn. Austar og sunnar, undir Norðurhálsum, eru Lakakrókur og Lakadalir.
Steindór Sigurðsson lýsir Lágaskarðsleið í Árbók Ferðafélagsins 1936: “Þessi leið liggur að mestu leyti samhliða Þrengslaleiðinni, en um það bil þremur km austar. Og Meitlarnir mynda takmörkin á milli þeirra. Leiðin liggur frá Skíðaskálanum, og stefnir suður yfir lága öldu, um 50 m upp á við af veginum í byrjun. Þegar upp á hana er komið, sér greinilega móta fyrir Lágaskarði. Vestan undir [Lákahnúkum] er víðast hvar graslendi, sem ásamt haganum undir Lönguhlíð, austar á leiðinni, hefir orðið til þess að gera leið þessa vinsælli en Þrengslaleiðina. Lágaskarðsleiðin var ein aðalþjóðleiðin yfir Hellisheiði, allt fram að því að akvegur var gerður yfir heiðina og sjálfsögðust lið allra austanmanna, er um Eyrarbakka komu og fóru yfir Ölfusá í Óseyrarnesi og um Hafnarskeið. Vestan undir Stóra-Sandfelli er hádepill Lágaskarðsleiðar (303 m.y.s.).

Skálafell

Skálafell.

Skammt austar liggur leiðin niður brekku eina talsvert bratta en ei langa, og þegar kemur á brekkubrúnina, sér vegafarandinn hvar Eldborgarhraunið breiðist út vestur með Meitilstöglunum og allt vestur að Sandfelli. Með heiðarbrúninni er greiðfær og götumtroðinn grasmói, og heiðin fyrir ofan hann – að suðurbunga Skálafells, heitir Langahlíð. Norðaustur af Krossfjöllum skiptast leiðir, en gamla aðalleiðin lá suðaustur með Lönguhlíð, niður hjá Kömbum og Kerlingadrögum, vestanvert við brún Hjallafjalls og annaðhvort austur með fjallsbrúninni, að Hjalla eða suðvestur undir hraunið, að hrauni, sem var fyrrum alkunnur viðkomustaður þeirra, sem Lágaskarð fóru.” Hálfdan Jónsson getur Lágaskarðsleiðar í lýsingu Ölfushrepps frá 1703: “Á þessum fjallgarði, er fyrir norðan þessa byggð sveitarinnar liggur, eru þrír vegir vestur á Suðurnes, nefnilega Ólafsskarð, Lágaskarð og Sanddalavegur, hverjir allir saman koma í einn veg á vestanverðu fjallinu, þá byggðarlönd taka til Suðurnesjajarða.”

Lakadalur

Lakadalur.

Í Þjóðólfi 14. september árið 1906 er fjallað um fyrirhugaða járnbrautalagningu milli Reykjavíkur og Ölfuss. Þar segir m.a. um járnbrautarleiðina austur í sýslur að verkfræðingurinn Þorvaldur Krabbe hafi nú athugað leiðina. “Skýrði hann oss frá, að hann hefði fyrst athugað leiðina héðan austur í Ölfus. Er þar um þrjár leiðir að tala: um Ólafsskarð, Lágaskarð og um Hellisheiði niður hjá Reykjaholti og Reykjum, en um þá leið væri naumast að tala. Um Ólafsskarð mætti leggja braut, og væri þá farið fram hjá Vífilfelli, en Lágaskarðsleiðin niður að Hrauni væri greiðust, en á þeirri leið væri um hraun að fara á mjög löngum kafla, og hann vildi ekki leggja til, að járnbrautir væru lagðar yfir hraun. Undirstaðan eða hleðslan undir brautina héldist þar afarilla, sigi niður og skekktist allavega, og það gæti orðið stórhættulegt, því að járnbrautarteinarnir mega ekki haggast hið minnsta, annars er við því búið, að lestin hlaupi út af sporinu.”

Lágaskarðsvegur

Stapi við Lágaskarðsveg.

Framundan var Hveradalaflötin norðan Lakahnúka og Hveradalir suðavestan í Reykjafelli (Stóra-Reykjafelli). Í efsta dalnum, vestan við Eldborg, var skíðastökkpallur og heitir þar Flengingarbrekka. Stærsti dalurinn heitir Stóridalur og ofan við mynni hans er Skíðaskálinn. Hverirnir, sem dalirnir eru við kenndir, eru í litlum hvammi fyrir ofan Skíðaskálann.
Skíðaskálinn í Hveradölum var reistur árið 1934 af Skíðafélagi Reykjavíkur og var hann í eigu þess til 1971 er Reykjavíkurborg keypti hann. Skálinn brann til kaldra kola 21. janúar 1991. Nýr skáli í svipuðum stíl var þá reistur á grunni hins gamla. Hann var tekinn í notkun 4. apríl 1992 og formlega vígður 17. júní það ár.

Skíðaskáli

Skíðaskálinn í Hveradölum.

Uppi í brekkunni fyrir ofan skálann eru tveir minnisvarðar. Annar þeirra er til minningar um Ludvig H. Müller (1879-1952), kaupmann, er var formaður Skíðafélags Reykjavíkur í 26 ár, frá stofnun þess 1914, en hinn um Kristján Ó. Skagfjörð (1883-1951), kaupmann, er var formaður þess næstu 11 árin. Í Hveradölum bjó á árunum milli 1930 og 1940 danskur maður, A.C. Høyer að nafni. Hafði hann þar greiðasölu. Þá hafði hann gufu- og leirböð og vísi að gróðurhúsarækt, líklega einn fyrsti maður hér á landi sem stundaði þann atvinnuveg.
Gengið var til baka um Stóradal, niður í Stórahvamm vestan undir Stóra-Meitli og hlíðinni fylgt til suðurs milli hennar og Lambafellshrauns, framhjá Hrafnakletti og að Votabergi. Undir berginu er Þorlákshafnarsel (Hafnarsel).
RaufarhólshellirÍ örnefnalýsingu segir að “frá fornu fari mun Þorlákshöfn hafa haft í seli í Breiðabólsstaðarlandi í Ölfusi. Þorlákshafnarsel stóð undir Votabergi. Selrústirnar, eins og þær líta út nú á dögum, eru ekki beinlínis við bergið sjálft heldur við stóran klett kippkorn frá. Rústirnar eru vallgrónar en skýrar. Aðalhúsið, sem sýnist vera, er um 4 m á lengd og 2 m á breidd, líklega selbaðstofan, en af enda hennar er örlítið hús, sem gæti hafa verið eldhús, en til hliðar og nær skútanum er þriðja húsið, ef til vill mjólkurhús, rösklega 3 m á lengd og 1.5 m á breidd, en við enda þess örlítill kofi, sem gæti hafa verið smalabyrgi eða hundakofi. Þar hafði Þorlákshafnarbóndi í seli gegn skipsuppsátri Breiðabólsstaðarbóndans í Þorlákshöfn. Sunnar frá selinu er hóll eða klettaborg og þar við lóðréttan, lítinn hamravegg er eitthvert mannvirki, sem gæti verið kvíar og raunar ekki sýnilegt, hvað það gæti verið annað.

Votaberg

Votarberg.

Hamraveggurinn hefur veirð notaður á eina hlið, en síðan hlaðið á þrjá vegu úr grjóti. Þetta er um 7 m á lengd og 2 m á breidd, kynni að hafa tekið um 25-30, en það má þykja helst til lítið fyrir stórbýlið Þorlákshöfn. Þetta gæti þó vel staðist, því fjöldi sauðfjár var þar ekki svo mikill á 18. öld og fram á þá 19.”
Rústirnar voru friðlýstar af Þór Magnússyni í janúar 1976.
Í heimildum er einnig sagt frá Tæpistíg, leið er lá “upp úr grasgeira ofan við Votaberg, sniðgata í snarbrattri hlíðinni, upp á brúnina.”
Gengið var niður með Litla-Meitli og niður Eldborgarhraun að upphafsstað. Á leiðinni var leitað hugsanlegra hella í hrauninu, en engir fundust að þessu sinni.
Frábært veður. Gangan tók 4 klst og 4 mín.

Heimild m.a.:
-http://www.bokasafn.is/byggdasafn/fornleifaskra

Þorlákshafnarsel

Þorlákshafnarsel – uppdráttur.

Eldborg

Í Náttúrufræðingnum 1983 fjallar Jón Jónsson, jarðfræðingur, um “Eldborg undir Trölladyngju“, efst í Afstapahrauni, og reynir að áætla aldur hraunsins, sem úr henni rann:

Eldborg

Eldborg – kort.

“Þess skal og getið að gos það er orðið hefur rétt norðan við Trölladyngju og myndað gíginn Eldborg sýnist hafa orðið um líkt leyti og Afstapahraun rann. Ég hef áður talið þetta hraun yngra en Afstapahraun (Jón Jónsson 1978) en ekki treysti ég mér til að telja þá niðurstöðu með öllu ótvíræða.

Afstapahraun

Afstapahraun – jarðfræðikort Jóns Jónssonar.

Vel gætu þessi gos bæði hafa verið svo að segja samtímis og mætti þá raunar um það deila hvort um er að ræða eitt gos eða tvö. Einar Gunnlaugsson (1973) fann öskulag ofan við landnámslagið í Hörðuvallaklofa og er líklegt að það sé af þessum slóðum komið. Ekki verður hins vegar í það ráðið hvort það kann að vera úr Eldborg eða öðru eldvarpi í nágrenninu.”

Eldborginni hefur nú verið spillt vegna efnistöku.

Heimild:
-Náttúrufræðingurinn, 1.-4. tbl. 01.05.1983, Eldgos á sögulegum tíma á Reykjanesskaga – Jón Jónsson, bls. 135.

Eldborg

Eldborg undir Dyngju.